Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál
Bein mynd
Líking
Persónugerving
Hlutgerving
Myndhverfing
Alleg
óría

Stílbrögð
Túlkunarþættir
Minnisblað

© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Persónugerving

Persónugerving er það nefnt þegar alls kyns fyrirbærum, úr heimi náttúrunnar eða hugans, er gefið líf og látin birtast eins og gerendur. Oftast er um tvenns konar persónugervingu að ræða: Ýmis hugtök eru gerð að lifandi persónum t.d. ást, dauði, fátækt og ýmsum fyrirbærum í náttúrunni eða veruleikanum er gefið líf og nefnist slík persónugerving stundum sálgæðing.

Oft koma persónugervingar fram sem hluti af myndhverfingu. Næstu tvö dæmi eru um slíkt og það eru þau fyrirbæri sem krefjast túlkunar sem eru myndhverfð.

Hægt silast skammdegið áfram
með grýlukerti sín
hangandi í ufsum myrkursins.
(Úr Jólaföstu, Jóhannes úr Kötlum)

Og fljótið strauk boganum blítt yfir fiðlustrenginn
og bláar dúnmjúkar skúrir liðu yfir engin.
( Úr Í vor, Guðmundur Böðvarsson)

En persónugerving getur einnig verið einföld í sniðum, þá er ekki gengið eins langt í yfirfærðri merkingu og myndhverfingin gerir. Hér er t.d. túlkunar tæpast þörf.

Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax,
og kvöldið stóð álengdar hikandi feimið og beið.
(Hvíld, Steinn Steinarr)

Og geislar koma hlaupandi
eins hratt og fætur toga,
ef heimskir, litlir skuggar
út á gangstéttina voga.
(Garðljóð, Tómas Guðmundsson)

Hikandi ljós
þukla syfjuðum gómum
um kvöldþvala veggi
þegjandi steinkirkju.
(Ljósin í kirkjunni, Einar Bragi)

Eins og áður sagði getur persónugervingin verið hluti myndhverfingar og í eðli sínu er hún líkingamál. Hér fylgir dæmi um sálgæðingu og tengslin við líkingu leyna sér ekki.

Nú er sumarið komið á vakt;
og ljósastaurarnir hanga aðgerðalausir.
Skemmtiferðaskip
flatmagar á ytrihöfninni
en farfuglar tjalda í Laugardal.
(Anton Helgi)