Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál
Bein mynd
Líking
Persónugerving
Hlutgerving
Myndhverfing
Alleg
óría

Stílbrögð
Túlkunarþættir
Minnisblað

© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Líking

Líking er fólgin í því að einhverju er líkt við eitthvað annað til skýringar og glöggvunar; hárið er svart eins og hrafnsvængur. Þá er gert ráð fyrir að lesandinn þekki til þess fyrirbæris sem líkt er við og sjái t.d. betur fyrir sér háralitinn, sem er svartur eins og liturinn í blásvörtum fjöðrum hrafnsins. Þegar orðin „eins og“, „líkt og“, „áþekkt“ eða önnur svipuð fylgja með eru líkingarnar oft nefndar viðlíkingar. Greint er milli þriggja liða líkingar. Fyrst er kenniliður, orðið sem lagt er til grundvallar (hárið), þá kemur tengiorð (eins og) og loks myndliður, viðmiðið, fyrirbærið sem líkt er við og vísað til (hrafnsvængur).

Líkingar geta auðvitað verið hversdagslegar, einkum ef þær verða hluti af algengu talmáli vegna tíðrar notkunar. Hann stendur eins og þvara er orðið svo venjulegt talmál að flestir eru trúlega hættir að veita eftirtekt hinni myndrænu merkingu sem í líkingunni felst en þvara merkir sleif. Þess vegna leitast skáldin við að skapa ferskar og óvenjulegar líkingar með frumlegum viðmiðum og er Tíminn og vatnið einkar gott dæmi um slíka líkingasmíð. Frumlegar líkingar lyfta athygli lesandans úr farvegi daglegrar málnotkunar og knýja lesandann til að hugsa um og skynja fyrirbærið á ferskan hátt. Slík líkingasmíð örvar lesandann einnig til frjórrar túlkunar og persónulegrar upplifunar.

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Eins og naglblá hönd
rís hin neikvæða játun
upp úr nálægð fjarlægðarinnar.
(Tíminn og vatnið)

Börnin fæðast litlum systkinum sínum
eins og ljós sé kveikt,
eins og fyrstu blóm vorsins
vakni einn morgun.
(Úr Þorpinu)

Eins og kórall í djúpum sjó
varst þú undir bláum himninum,
eins og sylgja úr drifnu silfri
hvíldir þú á brjóstum jarðarinnar.
(Úr Sorg)

Verkefni: Gerið grein fyrir viðlíkingum í eftirfarandi ljóði.

Ó, þú og ég sem urðum aldrei til.
Eitt andartak sem skuggi flökti um vegg
birtist sú mynd sem okkur ætluð var.

Sem næturgola gári lygnan hyl,
sem glampi kalt og snöggt á hnífsins egg,
sem rauðar varir veiti orðlaust svar.

Ó, fagra mynd, sem okkur báðum bar.
(Myndlaus eftir Stein Steinarr)