Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál
Bein mynd
Líking
Persónugerving
Hlutgerving
Myndhverfing
Alleg
óría

Stílbrögð
Túlkunarþættir
Minnisblað

© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Myndhverfing

Tengiorð líkingar fellur stundum brott. Kenniliðurinn (stofnorðið) hverfist (hverfa = snúa) yfir í myndliðinn (viðmiðið). Hárið verður að hrafnsvörtum væng. Þetta er kallað myndhverfing. Munurinn er þá þessi á líkingu og myndhverfingu:

Máninn er eins og bleik sigð – líking.
Máninn, þessi bleika sigð – myndhverfing.

Einnig getur verið að kenniliðurinn hverfi alveg úr myndhverfingunni eins og í eftirfarandi dæmi, máninn er horfinn, hefur hverfst í bleika sigð.

Úti kveikir ágúst bleika sigð.
(Síðdegi, Stefán Hörður Grímsson)

Myndhverfingar eru mjög tíðar í ljóðum, ekki síst nútímaljóðum, enda má heita að hin myndræna tjáning þeirra komi í stað bragreglu sem helsta formgerðar-einkenni. Fáein dæmi:

Sumir dagar eru hús
sem við læsum vandlega
áðuren við kveðjum
og hverfum útá vettváng áranna.
(Sumir dagar, Þorsteinn frá Hamri)

Stillt vakir ljósið
í stjakans hvítu hönd,
(Stillt og hljótt, Jón úr Vör)

Skuggalegt hugskot þeirra eru dýflissur
fullar af hlekkjaföngum,
(Nábjargir, Hannes Sigfússon)

Er nætursólin grundir allar gyllir,
með gulli sínu læki barmafyllir.
(Á Jónsmessunótt, Guðmundur Frímann)

Myndhverfingar eru ekki bundnar við ljóð:

Ég var seytján vetra telpukorn, fátæk og lítilsigld, heimsk eins og rjúpa. Þú komst í kynnisferð heim í sveitina, alfleygur, með nýbrýndar klær sem aldrei höfðu smakkað varmt blóð.
(Fornar ástir, Sigurður Nordal)

Myndhverfingar eru snar þáttur í daglegu máli og er myndeðli þeirra sjaldnast veitt eftirtekt. Þannig eru orðin fjallsöxl, stólfótur, nálarauga, vængjahurð dæmi um myndhverfð orð. Menn eru nefndir apar, þorskar og naut af ýmsu tilefni eða sagðir ljónhugaðir, sauðheimskir eða kattliprir. Farartæki eru druslur, dósir, dallar, koppar, klofpískar. Hrósyrði eru t.d. draumur og engill, lastyrði t.d. gaur, gaukur, meri. Þá eru margvísleg orðtök myndhverfingar, t.d. fara með sigur af hólmi, gefa grænt ljós á, fara yfir á hundavaði o.s. frv. Kenningar dróttkvæða eru myndhverfingar: hjálma klettur, ennimáni, hvarmatungl.

Fyrirferðarmikill flokkur myndhverfinga eru hin svokölluðu myndhverfu orðtök sem endurspegla forna atvinnuhætti og menningu. Þau hafa hvort tveggja upprunalega merkingu og yfirfærða merkingu og líkingin milli þessara merkingarsviða gefur orðtakinu merkingu. Dæmi:

Skara eld að sinni köku.
Haga seglum eftir vindi.
Ríða baggamuninn.
Bera skarðan hlut frá borði.

Um þessi orðtök, gömul og ný, er fjallað í ýmsum orðtakasöfnum.

Verkefni. Gerið grein fyrir myndhverfingum í eftirfarandi ljóði.

Vorið er rauðklædd stúlka
sem ríður í hlað

Sumarið hópur
af síðjúgra kúm

Haustið er heiðin
krökk af hvítum lömbum

Veturinn vængbrotinn svanur
frosinn fastur við svell

Verkefni. Gerið grein fyrir samspili myndhverfinga, viðlíkinga og hlutgervingar í eftirfarandi ljóði.

Mér fannst þú oft
eins og dimmt kalt hús
þar sem ást mín var blátt tunglskin
á héluðum rúðum
og atlot mín
numin eins og þytur vinda
um fannbarða hurð.
(Hannes Pétursson)