Ísl 503



 

Ísl 503

Þyrnar og rósir
Leslisti

Verkefni
1900 – 1930
1930 – 1940
1944 – 1965
1950 – 1975
1975 – 2000

Minnispunktar

Ítarefni

Jóhann Sigurjónsson
Um Strax eða aldrei og Bikarinn

Jóhann Sigurjónsson (1880 – 1919) er þekktur fyrir leikrit sín og ljóð. Í þessum áfanga einbeitum við okkur einungis að ljóðum hans en þekktustu leikritin eftir hann eru Fjalla-Eyvindur (1911/1912) og Galdra-Loftur (1915). Ljóðið Sofðu unga ástin mín (Þyrnar 30. bls.) er í Fjalla-Eyvindi og er vögguljóð sungið af Höllu stuttu áður en byggðarmenn finna hæli þeirra Evindar og Halla neyðist til að henda barninu í fossinn til að það lendi ekki í höndum þeirra. Eyvindur og Halla voru útilegumenn.

Jóhann er skilgreindur sem nýrómantískt skáld og skáldið sem orti fyrsta óhefðbundna ljóðið. Á leslista eru Strax eða aldrei, Bikarinn og Sorg.

Til þæginda er gott að skipta ljóðum Jóhanns í þrennt. Fyrst eru ljóð sem bera sterk einkenni nýrómantíkur, t.d. Strax eða aldrei. Næst ljóð sem eru hefðbundin að formi en birta í sér firringu 20. aldar, einmanaleika mannsins og tilvistarvanda, dæmi Bikarinn (1910). Loks nútímaljóðið Sorg (ort 1910, birt 1927).

Nýrómantísk ljóð
Strax eða aldrei er gott dæmi um íslenska nýrómantík. Þar birtast hugmyndir um
snillinginn, ofurmennið, jafnframt óþreyjan að vinna afrekin strax eða ekki. Einnig birtist þar þráin eftir frelsi einstaklingsins. Myndmál og stílbrögð einkennast af andstæðum.

Yfirborðsmynd ljóðsins (sagan) er einstaklingur sem á sér stóra drauma, vill vinna afrek og það strax. Hann hefur háleitar hugmyndir og vill ekki lifa hversdagslegu lífi heldur skapa eitthvað mikilvægt. Jafnframt er hann reiðubúinn að fórna öllu.

Í fyrstu tveimur línum eru tvær líkingar, ég vildi sem fálkinn og mér leiðist sem ormur. Sem er hér tengiorðið sem skilur á milli líkingar og myndhverfingar, samanber stílfræðina.

Fálkinn og valurinn voru algeng tákn hins sterka, ofurmennisins, snillingsins, í
nýrómantík. Ormurinn er tákn hins lítilvæga, hversdagsþrælsins. Líkneski sem hann vill skapa úr marmara er draumur um stóra afrekið. Og með líkneskinu nýtir hann sér skapandi viljann.

Munurinn á hversdagsþrælnum sem mjakast áfram fet fyrir fet í seinna erindi og
snillingnum sem vill lifa strax og ná árangri er síðan meginefni seinna erindis. Og hann er reiðubúinn til að fórna öllu eins og birtist sterkast í næst síðustu línu. Síðasta línuna er síðan hægt að túlka þannig að hann metur viðurkenningu samfélagsins lítils ef hún birtist í ytri hlutum, virðulegur embættismaður fær kannski gullroðna líkkistu og hefur kannski hlotið orðu áður, en það er ekki markmið mælandans. Hann vill annars konar viðurkenningu, að hafa náð árangri með skapandi viljanum. Vera viðurkenndur sem snillingur.

Dæmi um öfgar nýrómantíkur birtast líka vel í tveimur öðrum ljóðum sem bera nafn eftir fyrstu línunni. Allt sem þú gjörir það gjör þú skjótt en það er í Þyrnum. Annað ljóð er Væri ég aðeins einn af þessum fáum en það er ekki í Þyrnum.

Hefðbundin ljóð um tilvistarvanda
Bikarinn er eitt þekktasta ljóðið í upphafi 20. aldar sem sýnir, þó það sé hefðbundið, hvað koma skal í skáldskap aldarinnar en firring, einmanaleiki og tilvistarvandi eru þar áberandi. Því miður eru önnur dæmi ekki í Þyrnum en þekkt ljóð eru Heimþrá og Ódysseifur hinn nýi og tvær sonnettur sem Jóhann orti og birta þetta vel. Þær nefnast Fyrir utan glugga vinar míns og Sonnetta.

Yfirborðsmynd Bikarsins (sagan) er maður sem situr vetrakvöld einn að drykkju og upp rifjast gleði- og sorgartímar. Og honum er ljós nærvera dauðans.

Styrkleiki ljóðsins er myndmálið, ein mynd er frá upphafi til enda og myndin í upphafi er færð í víðara samhengi í síðasta erindi.

Í fyrsta erindi ræður bein mynd, samanber stílfræðina. Mælandinn situr einn að drykkju. Vert er að taka eftir notkun orðanna en hátíðlegt orðalag og skáldlegt einkennir ljóðið.Og hafa í sér algenga, táknræna merkingu. Það er aftan (kvöld) og það er vetur. Hvort tveggja merkir oft endalok lífsins, andstæðurnar eru þá morgunn og vor sem fela í sér nýjar vonir og afrek. Hvorugt er til staðar í þessu ljóði. Og blómin eru gömul.

Persónugerving er áberandi í öðru erindi ásamt andstæðum. Til að finna persónugervingu er gott að skoða sagnir. Gleðin lifnar og sorgin grætur. Hér eru huglæg fyrirbæri látin haga sér eins og lifandi vera. Gleði og sorg eru andstæður sem er algengt stílbragð í ljóðum og gott að leita að þeim í öllum textum. Dapurleiki ræður í erindinu þrátt fyrir að talað sé um að gleðin lifni, enginn bjartsýnistónn því gleðin er löngu liðin og sorgin grætur í annað sinni.

Í þriðja erindi er síðan hámark ljóðsins, myndinni í upphafi fylgt eftir og ljóðinu gefin víðtækari merking. Hér er myndhverfing ráðandi. Dauðinn er persónugerður, hann heldur sjálfur á bikar líkt og mælandinn í upphafi, þó er bikar ekki nefndur á nafn, heldur ber hann í hendi hyldjúpan næturhimin. Hér er því um myndhverfingu að ræða. Orðið hyldjúpur eykur áhrifin, er endalaus. En þar sem bikar mælandans í fyrsta erindi ilmar af angan gamalla blóma er bikar dauðans fullur af myrkri. Og myrkur er neikvætt. Dauðbeygur nýrómantíkur birtist hér vel ásamt einmanaleikanum. Mælandanum er ljós návist dauðans og kannski liggur spurningin um tilgang lífsins undir niðri, tilvistin.

© Kristinn Kristjánsson