Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál

Stílbrögð
Endurtekning
Andstæður
Þversögn
Ýkjur og úrdráttur

Túlkunarþættir
Minnisblað
© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Ýkjur og úrdráttur

Ýkjur eru fólgnar í því að kveða sterkar að orði en veruleikinn sannar, en úrdráttur (litotes, understatement) lætur lítið yfir sér, gerir minna úr stórræðum en búast mætti við. En bæði eru stílbrögðin notuð til að koma lesandanum á óvart, þótt með næsta ólíkum aðferðum sé.

Ýkjur eru lítið notaðar í nútímaljóðlist í samanburði við fyrri tíma. Þá voru ýkjukvæði ein tegund gamansams skáldskapar, og nutu mikilla vinsælda. Af þessu tagi er t.d. Sláttukvæði Hallgríms Péturssonar um bónda einn er átti svo þurftarfreka kú að hann þurfti að slá öll fjöll Íslands og dugði þó ekki til. Varð hann að fara með ljá sinn víða um lönd og álfur:

Skotland, Spán og Írlands engi
allt hann sló og var ei lengi.
Þýzkaland með giftugengi
gildur fláði eins og mel.
Bezt er að vera birgur vel.
Í Tartaría trúi ég hann fengi
tólf hesta þess getur.
Ósköp þarf fyrir eina kú um vetur.

Úrdráttur er algengt stílbragð í íslenskum fornbókmenntum þegar hetjur létu ekki allt vaxa sér í augum og sögðu ekki allt sem þeim bjó í brjósti. „Ekki voru þeir miklir mátar“ mætti þá segja um svarna óvini. Tvöföld neitun fylgir oft úrdrætti. „Ekki ósnoturt“ er þá ef til vill sagt um eitthvað sem ber af um fegurð. Þetta stílbragð er að sjálfsögðu engan veginn einskorðað við ljóð, það er einmitt algengt í Íslendinga sögum og birtist þar oft í meitluðum tilsvörum. Áhrifamáttur þess er fólginn í undrun manna yfir því að ekki skuli fastar að orði kveðið, og þeir finna strax að meira býr undir en upp er látið. Sé úrdráttur notaður í óhófi er hætt við að hann missi mátt sinn.