Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál

Stílbrögð
Endurtekning
Andstæður
Þversögn
Ýkjur og úrdráttur

Túlkunarþættir
Minnisblað
© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Andstæður

Andstæður eru hvort tveggja í senn algengt og áhrifamikið stílbragð, og hefur tíðkast í ljóðagerð allra tíma. Andstæður eru að því leyti skyldar líkingum að í þeim felst eins konar samanburður. En þar sem líkingin tengir, skapar andstæðan mun. Andstæðurnar eru oftast af sama hugtakasviði. Þær leggja til áherslu sem verður því skarpari sem andstæðurnar eru greinilegri. Þeim er oft beitt af skáldum sem hlaða ljóð sín mælsku og orðkynngi, enda má segja að andstæður séu eitt af elstu áhrifabrögðum mælskulistarinnar.

Notkun andstæðna er mjög algeng í trúarskáldskap ýmiss konar þar sem meginátökin standa á milli góðs og ills, lífs og dauða o.s.frv. En um leið sjá höfundarnir oft einingu alls í sköpunarverkinu. Þegar bróðir Eysteinn vildi í Lilju sinni skilgreina og staðsetja guð almáttugan greip hann einmitt til þessa stílbragðs:

Senn verandi úti og inni,
uppi og niðri og þar í miðju.
(Eysteinn Ásgrímsson).

Skáldbróðir Eysteins greip til sama stílbragðs mörgum öldum síðar:

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt.
(Matthías Jochumsson).

Hér er það guð sem heyrir bæði hin háværustu og lágværustu hljóð. En andstæður eru jafnframt býsna algengar í veraldlegum kveðskap:

Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði.
(Bjarni Thorarensen).

Eitt bros - getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
(Einar Benediktsson).