Íslenska



 

Bókmenntafræði ljóða
Myndmál

Stílbrögð
Endurtekning
Andstæður
Þversögn
Ýkjur og úrdráttur

Túlkunarþættir
Minnisblað
© Eiríkur Páll Eiríksson
Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Þversögn

Þversögn (paradox) er venjulega stutt setning, staðhæfing sem virðist fela í sér mótsögn, virkar jafnvel fáránleg í fyrstu. En sé þversögnin vel grunduð koma í ljós við nánari athugun „sannindi“, oft úr óvæntri átt. Þversagnir geta verið með tvennu móti:

1) Fullyrðing sem gengur ekki upp, þ.e. miðað við „rökræna“ setningu. Dæmi:

Því ekkert er til nema aðeins það
sem ekki er til.
(Steinn Steinarr)

Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.
(Stephan G. Stephansson)

Því lífið breytir engu -
nema því sem skiptir máli.
(Tómas Guðmundsson)

2) Óvænt og óvenjulegt gildismat. Dæmi:

Og sumir sóuðu æsku
sinni í nám á meðan
aðrir vörðu henni í vín.
(Tómas Guðmundsson)

Æ, hversvegna er ekkert, sem heldur fyrir oss vöku?
Og hversvegna kemur enginn að draga oss á tálar?
(Tómas Guðmundsson)

Þversagnir koma oft fyrir í ljóðum með einhvers konar heimspekilegu ívafi. Steinn Steinarr notar þær t.d. meira en flest önnur íslensk skáld:

Að veruleikans stund og stað
er stefnt við hinztu skil,
því ekkert er til nema aðeins það,
sem ekki er til.
(Andi hins liðna eftir Stein Steinarr)

Í einu þekktasta ljóði Steins er rætt um samband mannsins við draum hans. Í draumnum er fall mannsins falið, því hann vex og getur myndað sjálfstætt líf og tekið öll völd í sínar hendur:

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.
(Í draumi sérhvers manns eftir Stein Steinarr).