Ísl 503



 

Ísl 503

Bókmenntasaga
1900 – 1930
1930 – 1950
1950 – 1975
1975 – 2000

Minnispunktar

Ítarefni

Eiríkur Páll Eiríksson

Bókmenntir síðustu 30 ár 20. aldar

Um 1970 hafði umfjöllun um módernismann stolið senunni í skáldsagnaumræðunni og á þeim áratugi sem í hönd fór voru þeir höfundar sem vakið höfðu athygli fyrir módernískar skáldsögur afkastamiklir. Frá Guðbergi Bergssyni og Thor Vilhjálmssyni komu margar bækur á áttunda áratugnum. Nýjasta bók Guðbergs er barnabókin Hundurinn sem þráði að verða frægur og Thor sendi síðast frá sér skáldsögu 1998, Morgunþulu í stráum. Báðir eru þeir afkastamiklir þýðendur.
 
Tíðarandinn
En um þetta leyti var ýmislegt að gerast í þjóðlífinu sem átti eftir að setja mark sitt á bókmenntir þessa tíma. Hippahreyfingin var orðin útbreidd austan hafs og vestan og gagnrýnin þjóðfélagsumræða fylgdi í kjölfar þeirra viðhorfa sem sú hreyfing stóð fyrir. Andúð á styrjaldarrekstri og barátta fyrir friði, jafnrétti kynja og kynþátta er einkum það sem hippahreyfingin gat af sér í umræðunni á þeim tíma. Þessa fer brátt að sjá stað í bókmenntunum og sem fyrr þegar mönnum liggur mikið á hjarta duga engar vífilengjur, höfundar verða að koma sér beint að efninu, lýsa vandanum skýrt, greina vandann og taka afstöðu. Skáldsögur með greinilegum söguþræði og skýrum boðskap eru vel til þess fallnar að koma slíku söguefni á framfæri við lesendur.
 
Nýraunsæi
Nú gengur enn í garð raunsæisskeið í skáldsagnagerð, oft nefnt nýraunsæi. Það er oft talið hefjast með tveggja binda skáldsögu Vésteins Lúðvíkssonar, Gunnar og Kjartan (1971 – 72), en brátt komu fram ýmsar samfélagslegar skáldsögur eftir unga höfunda. Má þar nefna auk Vésteins, Ásu Sólveigu, Guðlaug Arason sem skrifaði m.a. Eldhúsmellur en sú bók vakti mikla umræðu. Þetta nýraunsæi myndaði mótvægi við módernismann sem þá var enn á ný gagnrýndur fyrir að þjóna ekki samfélagslegu hlutverki með skýrum hætti.
 
Kvennabókmenntir
Annað sem mjög var rætt á áttunda áratugnum var svo sem ekkert nýmæli en vakti engu að síður miklar deilur, hér er átt við umræðuna um stöðu kvenna bæði í þjóðfélagi og í bókmenntum. Þessi umræða gat af sér mikilvægt afl í stjórnmálum, kvennalistann, og í bókmenntum hratt þessi umræða af stað talsverðri bókaútgafu á verkum kvenna. Má þar sem dæmi nefna smásagnasafnið Draumur um veruleika sem Helga Kress sá um útgáfu á og ritaði formála að og Sögur íslenskra kvenna1879 – 1960 sem er mikið rit sem Soffía Auður Birgisdóttir valdi efni í úr skáldverkum kvenna. Hún skrifar einnig eftirmála. Þessar bækur er því ágætis sýnisbækur í kvennabókmenntum. Umræðunni fylgdu svo rannsóknir á stöðu kvenna í bókmenntum og samfélagi, síðan þá er talað um kvennabókmenntir með fullri virðingu en upp úr miðri 20. öld máttu konur í rithöfundastétt þola að verk þeirra væru nefnd kerlingabókmenntir eða bókmenntaumræðan tók ekki til verka þeirra.
 
Samtími nemenda í skáldsagnagerð
Þeir nemendur sem þessi bókmenntasöguskrif eru ætluð eru flestir fæddir um 1980. Hvaða bókmenntastefna skyldi einkenna bókmenntir sem skrifaðar eru á þeirra æviskeiði? Best væri auðvitað að nemendur gætu svarað þessu sjálfir en líklega er best að draga saman einhverjar vísbendingar um efnið.
 
Sagnamenn
Bókmenntafræðingar eru ekki á einu máli um hvað einkenni bókmenntir síðustu tuttugu ára. Sumir bókmenntamenn tala um að afturhvarf til hefðbundinnar frásagnar einkenni síðustu tvo áratugi aldarinnar og það sé nokkurs konar andóf gegn módernískum skáldsögum sem ögrað hafi sagnahefð söguþjóðarinnar með slitróttum söguþræði og tímalausu framvinduleysi atburða. Sé þetta rétt eru bókmenntirnar að verða hefðbundnar á nýjan leik. Dæmigerðir sagnahöfundar / sögumenn eru þá oft nefndir Einar Kárason, Pétur Gunnarsson, Einar Már Guðmundsson í sumum verkum sínum a.m.k., Ólafur Gunnarsson og Ólafur Jóhann Ólafsson. Hin hefðbundna frásagnarlist er þá aðal þeirra.
 
Framhald formbyltingar – ljóðrænn texti
Aðrir bókmenntamenn sjá fyrir sér að módernisminn, jafnt erlendur sem íslenskur, hafi örvað skáldsagnahöfunda til endurmats á þeirri formgerðarbyltingu sem módernisminn olli á sjöunda og áttunda áratugnum. Þannig verði sagnahefðin í ljósi umbrota módernismans þeim kveikja að nýsköpun í eigin frásagnaraðferð og gefi íslenskri skáldsagnagerð nýtt svipmót. Þetta nýja svipmót einkennist af ljóðrænu og myndvísi, textinn standi oftar en ekki á mótum frásagnar og ljóðrænnar tjáningar. Afturhvarf til frásagnarlistar einkenni ekki slíkar bókmenntir. Slíka texta má finna í Tímaþjófinum eftir Steinunni Sigurðardóttur, Hringsóli eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Skuggaboxi Þórarins Eldjárns, Svefnhjóli Gyrðis Elíassonar og Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur. Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson og Hjartað býr enn í helli sínum eftir Guðberg Bergsson eru einnig í þessum flokki bóka, sömuleiðis Vængjasláttur í þakrennum eftir Einar Má Guðmundsson.
 
Töfraraunsæi
Enn aðrir bókmenntamenn segja að töfraraunsæi einkenni skáldsögur tímabilsins. Hugtakið töfraraunsæi (magic realism), sem upphaflega var notað um stefnu í myndlist upp úr 1920, er nú haft til að lýsa lausamálsverkum höfunda á borð við Jorge Luis Borges frá Argentínu, Kólumbíumannsins Gabriel Garcia Marquez, Þjóðaverjans Günter Grass og Englendingsins John Fowles. Þessir höfundar flétta saman með ýmsum tilbrigðum hárbeittum raunsæislýsingum á hversdagslegum atburðum og smáatriðum og svo furðulegum og oft draumkenndum þáttum og jafnvel efnisatriðum sem ættuð eru úr goðsögum eða ævintýrum. Robert Scholes gerði fleygt hugtakið metafiction sem á að ná yfir þann umfangsmikla og sívaxandi flokk skáldsagna sem sker sig frá hinni hefðbundnu tvískiptingu skáldsagna í raunsæi og rómönsur. Hann notaði líka hugtakið fabulation um þessa lausbeisluðu frásagnaaðferð í nútíma skáldsagnagerð. Svona sögur þverbrjóta venjubundnar viðmiðunarreglur í skáldsagnagerð með djarfri – og oft áhrifaríkri – tilraunastarfsemi í efnisvali, formi, stíl, tímaröðun og samruna hins hversdagslega og ímyndaða, þess goðsagnakennda og martraðarinnar í frásögnum sem þurrka út öll hefðbundin mörk milli þess sem er alvarlegt og fánýtt, hryllilegt og fáránlegt, harmrænt og kátlegt.
 
Slíka texta má finna í Kaldaljósi og Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur, Eftirmála regndropanna eftir Einar Má Guðmundsson, skáldsögum Gyrðis Elíassonar, Bréfbátarigningunni, Gangandi íkorna og Næturluktinni. Þá er Gunnlaðarsaga Svövu Jakobsdóttur sumpart í þessum flokki bóka.
 
Aldamótin
Í upphafi tuttugustu aldar voru Jón Trausti og Einar H. Kvaran áberandi rithöfundar, þeir tilheyra aldamótakynslóð þess tíma. En hverjir munu skipa aldamótakynslóð rithöfunda okkar daga? Sagan sker úr um það. Um hvaða höfunda og bókmenntastefnur munu nemendur í skólum við næstu aldamót fræðast sem höfuðskáld og meginstrauma bókmentanna í byrjun 21. aldar? Það kemur líka í ljós. Bókmenntastefna síðustu ára er stundum nefnd póstmódernismi. Ekki eru allir á einu máli um hvað póstmódernismi er, sumir hallast að því að samhæfing hefðar í raunsæi og módernisma sé einkenni póstmódernismans en aðrir telja að hann felist í fjölhyggju með beinum og óbeinum vísunum í önnur verk, póstmódernismi sé stefnulaus, hafni hugmyndafræði og afstöðu- og skeytingarleysi sé áberandi, tilviljun ráði för hvert texti leiðist og hann lúti engum rökum.
      Áberandi höfundar yngstu kynslóðar rithöfunda eru þessa dagana t.d. Bjarni Bjarnason, Hallgrímur Helgason, Mikael Torfason, Guðrún Eva Mínervudóttir, Bragi Ólafsson, Steinar Bragi, Auður Ólafsdóttir og Auður Jónsdóttir. Þau eru ekki einsleitur hópur í bókmenntum og falla ekki að einni stefnu. Hvað svo?
 
Ljóðskáld
Til viðbótar þeim módernistum sem taldir eru í fyrri kafla voru áhrifamikil ljóðskáld um 1970 þau Hannes Pétursson, Vilborg Dagbjartsdóttir, Matthías Johannessen, Þorsteinn frá Hamri, Snorri Hjartarson, Ólafur Jóhann Sigurðsson. Þessi ljóðskáld auk módernistanna eða Birtingsmanna voru góðkunn skáld þegar hér er komið sögu. Eftir þau eru margar ljóðabækur sem allir ljóðaunnendur kynna sér einhvern tíma á lífsleiðinni. Mörg fleiri ljóðskáld koma viðsögu bókmenntanna og handhægast fyrir nemendur er að kynnast þeim í kennslubókinni Þyrnum og rósum.
 
Hvar er ljóðið?
Árið 1974 var haldin þjóðhátið á Þingvöllum til að minnast 1100 ára byggð á Íslandi. Efnt var til samkeppni um þjóðhátíðarljóð en það hafði verið gert 1944 með góðum árangri eins og fyrr var nefnt. Nú bar svo við að ekkert ljóð var verðlaunað af þeim sem bárust í samkeppnina en ljóðlaus skyldi þjóðin ekki á lýðveldisafmælinu, Tómas skáld Guðmundsson orti umbeðinn þjóðhátíðarljóð sem flutt var á hátíðinni. Um nýliðin aldamót kom ekkert aldamótaljóð fram. Er þá ljóðið dautt? Ekki er það nú svo en þessu hlutverki þjónar það ekki lengur í þjóðlífinu.
 
Ný nálgun ljóðsins
Líklega er ljóðið enn talsverður þáttur í lífi okkar en það kemur til okkar með öðrum hætti en fyrri kynslóða. Ljóðið talar ekki bara til okkar úr hefðbundinni ljóðabók, heldur einnig í fjölmörgum textum á plötum, diskum og spólum, meistarar poppsins, eins og Dylan og Lennon eiga sér marga lærisveina og samherja um allan heim, líka hérlendis og ljóð skáldanna verða fyrir áhrifum úr ýmsum áttum. Megas er ljóðskáld sem allir þekkja þótt vafist gæti fyrir okkur að nefna eftir hann ljóðabók.
 
Fyrir ljóðaunnendur
Bókin Nýgræðingar í ljóðagerð 1970 – 1981 eftir Eystein Þorvaldsson hefur að geyma ljóð 36 skálda sem voru að birta fyrstu ljóð sín um 1970. Þar er ágætur formáli sem gerir grein fyrir megináherslum og viðhorfum í ljóðlist sem voru að verða áberandi um 1970 í kjölfar atburða sem þá höfðu áhrif um allan heim, stúdentaóeirða, Víetnam, Tékkóslóvakíu, hippamenningar og Bítla.
 
Eysteinn hefur gefið út annað safnrit með ljóðum ungskálda: Nýmæli. Ljóð ungskálda 1982 – 86. Ljóðormur nefnist og safnrit sem Eysteinn hefur ritstýrt með öðrum, það rit má vel nefna sýnisbók ljóðlistar síðustu ára. Þessi yfirlitsrit eru kjörin fyrir þá sem vilja skoða ný ljóð og velta vöngum yfir stöðu ljóðsins. Margir af þekktustu höfundum samtímans hafa hafið rithöfundarferil sinn með ljóðabók. Þar má nefna Einar Má Guðmundsson, Pétur Gunnarsson, Steinunni Sigurðardótur, Ólaf Hauk Símaonarson og Þórarin Eldjárn. Fyrir jólin 2001 kom út Ljóð ungra skálda og hefur að geyma það nýjasta í ljóðagerðinni í byrjun nýrrar aldar.
 
Aðrar bókmenntagreinar
Þótt hér að framan hafi mest verið rætt um skáldsögur og ljóð er heimur bókmenntanna auðvitað stærri en svo að hann einskorðist við skáldsögur og ljóð. Sögulegar skáldsögur eða heimildaskáldsögur er vinsælt lestrarefni og kunnar sögur í þessum flokki bóka eru t.d. Lífsins tré og Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson, Haustskip eftir Björn Th. Björnsson, Yfirvaldið eftir Þorgeir Þorgeirsson sem kunnari var lengi vel fyrir kvikmyndir en skáldsagnaskrif. Saga Þórunnar Valdimarsdóttur um Snorra á Húsafelli og bók hennar Stúlka með fingur eru í þessum flokki bóka.

Öldin var viðburðarík og margir mundu tímana tvenna og sér þess stað í mörgum ævisögum. Sumar ævisögurnar eru hefðbundnar, t.d. Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson verkamann á Akureyri. Aðrar eru með mismiklu skáldskaparlegu ívafi, þannig er um sögu Jakobs Jóhannessonar eftir Sigurð A. Magnússon en fyrsta bindi hennar Undir kalstjörnu kom út 1979. Mörg skáld skrifuðu endurminningar sínar, Halldór Laxness 4 bindi, Jón Óskar 6 bindi og nú síðast hefur Guðbergur Bergsson skrifað tveggja binda verk, skáldævisögu sína er hann nefnir Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Bernskan hefur á þessu skeiði verið fyrirferðarmikið yrkisefni í bókmenntum, sagnabálkur Péturs Gunnarssonar um Andra Haraldsson sem hefst á Punktur, punktur, komma, strik og Riddarar hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson eru bernskuminningar.
 
Smásögur
Smásagan lifir sem fyrr góðu lífi og margir höfundar hafa sent frá sér smásagnasöfn. Helsta nýjung tímabilsins í smásagnagerð er örsagan, slíka texta má t.d. finna í verkum Kjartans Árnasonar, Elísabetar Jökulsdóttur og Kristínar Ómarsdóttur. Í smásögum Gyrðis Elíassonar, Sigfúsar Bjartmarssonar og Ísaks Harðarsonar virðast töluverð nýbreytni vera innan smásagnagerðarinnar en Svava Jakobsdóttir hefur lengi fengist við nýsköpun í smásagnagerð.
 
Íslenskar bókmenntir á Norðurlöndum
Lengi vel stóðu íslensk skáld og íslenskar bómenntir í skugganum af Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness 1955. Síðustu 25 árin hafa verið gróskumikil í íslenskum bókmenntum og bæði ljóð- og sagnaskáld fengið verðskuldaða viðurkenningu erlendis á vettvangi Norðurlandaráðs. Skáldið Ólafur Jóhann Sigurðsson fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabækurnar Að laufferjum og Að brunnum 1976. Ljóðskáldið Snorri Hjartarson fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Hauströkkrið yfir mér 1981. Þrjú íslensk sagnaskáld hafa fengið þessi sömu verðlaun: Thor Vilhjálmsson fyrir Grámosinn glóir 1986, Fríða Á. Sigurðardóttir fyrir Meðan nóttin líður 1992. Einar Már Guðmundsson fyrir Engla alheimsins 1995 og Sjón fyrir Skuggabaldur árið 2005.. Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir fékk Norrænu leikritaverðlaunin fyrir leikritið Ég er meistarinn og Guðrún Helgadóttir fékk Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Undan illgresinu. Arnaldur Indriðason fékk árið 2002 verðlaun fyrir bestu norrænu glæpasöguna fyrir bók sína Mýrin og árið eftir sömu verðlaun fyrir Grafarþögn. Og árið 2005 fékk hann bresku glæpasöguverðlaunin, Gullna rýtinginn, fyrir Grafarþögn en Gullrni rýtingurinn þykir með virðulegri verðlaunum heims fyrir glæpasögur.

© Eiríkur Páll Eiríksson