Ísl 503



 

Ísl 503

Bókmenntasaga
1900 – 1930
1930 – 1950
1950 – 1975
1975 – 2000

Minnispunktar

Ítarefni

Eiríkur Páll Eiríksson

Bókmenntir í byrjun aldar
Nýrómantík og nýjungar

Aldamótin
Við aldamót tíðkast að líta um öxl en einkum fram á veg. Oft kemur það í hlut skálda að vera sjáendur framtíðar af innsæi og spádómsgáfu. Sú var og raunin um aldamótin 1900 og eru kvæði skáldanna Einars Benediktssonar (1884 – 1940) og Hannesar Hafstein (1861 – 1922) ágætt dæmi um þær vonir sem menn gerðu sér um þjóðlífið á komandi öld, þeirri 20. Þá ortu mörg skáld aldamótaljóð en önnur raun varð á um nýliðin aldamót, það vitnar um breytta stöðu ljóðsins í þjóðlífinu um okkar daga.

Einar Ben 15: Aldamót, Til fánans
 
Aldamótaskáldin
Þegar öldin 20. hélt innreið sína var raunsæisstefnan sú bókmenntastefna sem mest bar á. Verðandimenn, þeir Gestur Pálsson (1852 – 1891), Einar H. Kvaran (1859 – 1938) og Hannes Hafstein höfðu í fyrstu kynnt markmið stefnunnar en upp úr aldamótunum 1900 voru mest áberandi sagnaskáldin Jón Trausti (1873 – 1918), Þorgils gjallandi (1851 – 1915) og Einar H. Kvaran sem voru raunsæishöfundar og skrifuðu allir skáldsögur en Þorsteinn Erlingsson (1858 – 1914) og Stephan G. Stephansson (1853 – 1927) voru kunnir fulltrúar raunsærrar ljóðlistar. En brátt leið að því að annarra viðhorfa gætti í bókmenntum.

Jón Traust 37: Anna frá Stóru-Borg
 
Nýrómantík og raunsæi
Þegar nýrómantískra viðhorfa tók að gæta litu raunsæismenn á það sem flótta frá raunveruleika og meinsemdum þjóðfélags en nýrómantíkerar litu á sín bókmenntaviðhorf sem lausn frá hversdagsleikanum. Nýrómantísk skáld setja lýsingu á einstaklingsbundinni persónulegri upplifun á oddinn og ljóð þeirra eru oft innhverf með rætur í sálarlífi manneskjunnar, skáldin varðar lítt um reynslu fjöldans og reyna ekki að hafa þjóðfélagsleg áhrif, gagnstætt raunsæismönnum sem töldu það hlutverk sitt að lækna mannfélagsmeinin og skrifuðu verk sín í þágu málstaðarins oft og tíðum. Nýrómantísk skáld aftur á móti hrífast af hinu dulúðuga og ómeðvitaða í mannssálinni og lýsa því á ljóðrænan hátt. Þau taka hið innra sjálf til rannsóknar af sama ákafa og raunsæismenn rannsökuðu ytri veruleika.
 
Einkenni nýrómantíkur
Einkenni nýrómantíkur eru mörg. Áberandi einkenni í nýrómantískum ljóðum eru draumar, vonir og þrár sem á stundum uppfyllast ekki. Skáldin dáðu æskuna en skelfdust elli og stundum voru þau gagntekin dauðabeyg og í mörgum kvæðum fær nóttin ákveðið táknrænt hlutverk. Ástin fær sinn sess í hugarheimi skáldanna en hún er upphafin og ósnertanleg og veldur sælli þjáningu á þann hátt, sumar konur verða þó femme fatale – fulltrúar hinnar tortímandi ástar. Nietzsche hafði boðað að guð væri dauður og því fylgdi rótleysi, tilgangsleysi lífsins var skelfilegt og heimsharmur gagntók skáldin. Þess vegna er þunglyndislegur blær oft yfir ljóðum þeirra en jafnframt áköf löngun til að njóta alls á meðan notið verður og birtist það í lífsdýrkun og nautnahyggju og bóhemísku líferni. Geðsveiflur eru líka tíðar í verkum skáldanna og sveiflast þau frá dýpsta þunglyndi til hæða oflætis. Ofurmennisdýrkun og vegsömun hetjunnar skipar sinn þátt í hugarheimi skáldanna, þó ekki allra. Hinn innsæi snillingur var afsprengi ofurmennisdýrkunar.
 
Þegar kom fram undir 1920 komu fram skáld sem breyttu ásýnd nýrómantíkur frá því sem verið hafði í upphafi. Í stað þess að yrkja um persónulega einstaka upplifun, ortu þau um hina sammannlegu reynslu sem allir gátu öðlast hlutdeild í og þekkt sjálfan sig í ljóðinu. Hér er átt við hina ljúfsáru ást og hinn tregafulla söknuð, óhamda lífsnautn á beiskum sem sælum stundum. Þessi kvæði urðu einhver vinsælustu kvæði sem þjóðin hefur eignast og vinsældir skáldanna eftir því. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895 – 1964), Stefán frá Hvítadal (1887 – 1933) og síðar Tómas Guðmundsson (1901 – 1983) sungu sig inn í hjörtu þjóðarinnar og eru þar enn. Það gat jafnvel orðið sælt að vera fátækur í kvæði og söng, einkum ef ljóðaunnendur voru örlítið hreifir og stutt í tárin. Mörg þessara ljóða eru vinsælir dægurlagatextar. Nýrómantíkin í höndum þessara skálda varð lífseigasta bókmenntastefna á Íslandi og gætti samhliða öðrum stefnum langt fram eftir 20. öld.

Jóhann Gunnar Sigurðsson 24: Á útmánuðum, Samtal, Kveðið í gljúfrum, Óráð
Jóhann Sigurjónsson 30: Strax eða aldrei
Hulda (19): Haukruinn

Stefán frá Hvítadal 45: Hún kyssti mig, Vorsól
Davíð Stefánsson 48: Komdu, Krummi, Óráð, Konan sem kyndir ofninn minn
Tómas Guðmundsson 69: Jón Thoroddsen, Ég leitaði blárra blóma, Frá liðnu vori
Guðmundur Böðvarsson 123: Rauði steinninn, Kyssti mig sól
 
Mál og mynd í ljóðum nýrómantíkera
Höfnun raunsæis birtist ekki aðeins í breyttum lífsskoðunum, ljóðformið tók breytingum. Nýrómantísku skáldin voru ákaflega listfeng og gerðu miklar kröfur um fagurt mál og vandað sem fagurkerum sæmir. Nýrómantísk skáld gerðu þá kröfu að formið skyldi vera óaðfinnanlegt, efni og form skyldi mynda fagra heild. Skáldaleyfi og barningur rímsins vegna var litið óhýru auga. Skáldin notuðu hina fáguðu og meitluðu ljóðmynd af miklu listfengi og smátt og smátt hefur orðið svo að ljóðmyndin – með hjálp myndhverfingingar –- hefur orðið helsta einkenni óbundinna nútímaljóða og má m.a. rekja það til áhrifa þessara skálda. Kvæði Jóhanns Sigurjónssonar (1880 – 1919) um Jónas Hallgrímsson er dæmi um þessa tegund ljóðlistar

Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.

Í mörgum kvæðum er táknræn merking orðanna áberandi og oftar en ekki þarf að túlka kvæðin í ljósi tákna þeirra. Algeng tákn í nýrómantískum skáldskap eru, draumalandið, hrundar hallir, sokkin skip og fuglar sem eru auðvitað tákn frelsis. Haust og nótt skírskota til óumflýjanlegra endaloka mannsins en vorið er tákn lífs og krafta. Litir hafa og táknræna merkingu. Táknrænn skáldskapur er flokkaður til táknsæisstefnu / symbólisma og gætir þessarar stefnu innan nýrómantíkur. Íslensku nýrómantíkerarnir voru mótaðir af íslenskri ljóðahefð og eru flest kvæði þeirra hefðbundin að formi en í ljóðum þeirra er að finna merkilega viðleitni til formbyltingar í anda nútímaljóða og verður um það fjallað hér á eftir.

Jóhann Sigurjónsson 30: Bikarinn

Frjálst ljóðform
Hefðbundin ljóð eru bundin af ljóðstöfum, rími og hrynjandi en nútímaljóðið hafnar þessari skyldubundnu bindingu bragfræðinnar. Tvennskonar óbundin ljóð eru algengust; prósaljóð og fríljóð. Prósaljóð er braglaust og sett fram eins og um laust, óbundið mál væri að ræða en í þeim eru ljóðræn stílbrögð og skáldlegar vísanir og orðfæri. Fríljóð hafa óreglulegan bragarhátt og hrynjandi, ljóðstafir eru óreglulegir en ljóðræn stílbrögð og myndmál einkenna formið.
 
Óbundin ljóð er að finna í ýmsum bókmenntastefnum. Únglíngurinn í skóginum frá 1925 eftir Laxness (1902 – 1998) er oft tekið sem dæmi um expressjónískt kvæði. Höfundi kvæðisins farast svo orð um expressjónisma og er auðvelt að heimfæra þau upp á kvæðið.

Expressjónískum skáldskap er fremur ætlað að valda hughrifum fyrir hreims sakir og hljómrænnar notkunar orðanna en gefa einhverja rétta efnislausn.

Höfundur hefur einnig sagst hafa ort kvæðið undir áhrifum frá súrrealískum höfundum. Kvæðið féll í grýtta jörð hjá aðdáendum íslenskrar ljóðahefðar. Súrrealismi einkennist annars mest af ósamstæðum myndum sem raðað er saman á fáránlegan hátt að því er virðist við fyrstu sýn.

Sigurður Nordal 54: Hel (brot úr kvæði)
Hulda 18: Fuglinn í fjörunni (prósaljóð)
Sigríður Einars 91: Nótt (prósaljóð)
Halldór Laxness 74: Unglingurinn í skóginum, Vefarinn mikli (enginn texti)
 
Nýjungar í ljóðagerð
Þó að aldamótaskáldin væru ljóðahefðinni trú má finna dæmi í ljóðum þeirra um nútímaljóð eða óbundin ljóð. Kvæðið Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson er dæmi um fríljóð og of nefnt fyrsta íslenska nútímaljóðið, það er ort fyrir 1910. Það birtist fyrst að höfundi látnum árið 1927. Kvæðið lætur í ljós persónulegan harm sem snýst í heimshryggð og víða, almenna skírskotun. Jóhann er höfundur leikritanna Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur og var á sínum tíma þekkt skáld á Norðurlöndum.
 
Skáldkonan Hulda sem hét Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (1881 – 1946) er einn helsti upphafsmaður að ljóðrænum prósa hér á landi. Hún var ákaflega málsnjöll og bragviss, endurskóp bragarhætti og bjó til nýja. Hún endurnýjaði og endurvakti þuluformið og fetuðu önnur skáld hennar slóð. Hún notaði vísanir í eldri skáldskap sem markvisst stílbragð en það er einkenni á nútímaljóðum. Hún var og óhrædd við að lýsa ástríðum sínum og varð fyrst til að lýsa í ljóðum kvenlegum kenndum á opinskáan hátt. Hulda orti annað tveggja verðlaunakvæða lýðveldishátíðarinnar 1944, Hver á sér fegra föðurland.
 
Með nýrómantíkinni kemur nýr tónn inn í íslenska ljóðagerð. Þótt form ljóðanna sé oftast hefðbundið eru efnistök og hugblær með öðrum hætti en í hinni gömlu rómantík. Stefnan er dulúðugri, tilfinningaríkari og hamslausari en hin eldri rómantík og hin innhverfa persónulega tjáning samfara táknsæi sem gerir kröfu um túlkun dregur skörp skil mill hennar og rómantíkur þó að viðfangsefnin séu skyld. Kvæði frá byrjun 20. aldar bera því vitni að formbreyting er í deiglunni þótt enn séu þau flest hefðbundin að formi en ljóðmyndin verður smátt og smátt helsta brageinkenni nútímaljóða. Flugur Jóns Thoroddsen (1898 – 1924) frá 1924 er fyrsta óhefðbundna ljóðabókin sem kom út á Íslandi.

Hulda 18: Ljáðu mér vængi (þula)
Jóhann Sigurjónsson 30: Sorg
Jóhann Jónsson 72: Söknuður
Jón Thoroddsen 56: Kvenmaður, Promeþevus bundinn

 
Nýir rithöfundar – ný skáldverk
Þegar kom fram á 3. áratug aldarinnar komu út tvær bækur er vöktu athygli og deilur. Hér er átt við Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness og Bréf til Láru (1924) eftir Þórberg Þórðarson (1889 – 1974). Báðir þessir höfundar höfnuðu nýrómantískri lífssýn. Þórbergur var kommúnískur þjóðfélagsgagnrýnandi en Laxness var þá kaþólskur og leitaði nýrra leiða með kynnum af evrópskum bókmenntum. Með útgáfu þessara bóka verða viss tímamót í efnistökum íslenskra rithöfunda. Hinn gamli tími sveitasögunnar var að baki og tími borgarmenningarinnar rann upp. Þegar Vefarinn mikli kom út 1927 komst einn ritdómaranna svo að orði: „Loksins! Loksins!“ Um það sem loksins var orðið má lesa í samnefndum ritdómi á vefnum Laxnessvefnum gljufrasteinn.is (undir umsagnir). Gunnar Gunnarsson (1889 – 1975) skrifaði sína nú kunnustu bók Fjallkirkjuna á dönsku á árunum 1923 – 1928 en íslensk þýðing kom 1941. Hann var þá orðinn kunnur höfundur í Danmörku og víðar í Evrópu eftir útkomu Sögu Borgarættarinnar (1912 – 1914) og hafði skrifað um tilfinningaþrungin átök góðborgara um sjálfan tilverugrundvöllinn í sögunni Sælir eru einfaldir (1920). Hið háborgaralega umhverfi sögunnar er sérstakt ef hafðar eru í huga hinar eldri skáldsögur íslenskar, raunsæissögur aldamótaáranna. Gunnar Gunnarsson hefur því miður enn sem komið er ljósari sess í danskri bókmenntasögu en íslenskri. Hann lauk glæstum rithöfundarferli sínum skömmu eftir 1930.
 
Þriðji áratugur aldarinnar var afar frjór í íslenskum skáldskap þegar allt sem segir hér að framan er dregið saman en brátt dró til þess að nýjar hugmyndir ryddu sér til rúms í bókmenntunum með eftirminnilegum hætti.

Þórbergur Þórðarson 62: Bréf til Láru
Gunnar Gunnarsson 135: Fjallkirkjan (brot úr skáldsögu) 

© Eiríkur Páll Eiríksson