Ísl 503



 

Ísl 503

Bókmenntasaga
1900 – 1930
1930 – 1950
1950 – 1975
1975 – 2000

Minnispunktar

Ítarefni

Eiríkur Páll Eiríksson

Vandamál líðandi stundar
Raunsæi frá 1930 – 1950 / 1965

Hvað var að gerast?
Það er einkenni raunsæisbókmennta að taka á vandamálum líðandi stundar, skoða þau og skilgreina og leita leiða til úrbóta en deila jafnframt á þá sem á einhvern hátt þykja breyta rangt ef hagsmunir heildarinnar eru hafðir í huga. Á áratugunum 1930 – 1955 var margt sem gekk á í íslensku þjóðlífi og endurspeglast það með margvíslegum hætti í bókmenntum tímabilsins. Kreppan skall á 1929, heimsstyrjöldin síðari braust út 1939, Ísland varð lýðveldi 1944, Keflavíkursamningurinn var gerður 1946 og Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið 1949. Svo komu bandarískir hermenn til landsins 1951 vegna Kóreustríðsins. Miklir búferlaflutningar urðu úr sveitum landsins og ásýnd þjóðlífsins breyttist. Til alls þessa tóku skáldin afstöðu og fjalla um, einkum í skáldsögum. Um atburði áratugarins milli 1950 – 60 er fjallað í næsta kafla.
 
Afmörkun tímabilsins
Upphaf þessa bókmenntaskeiðs er best að miða við það ár þegar Íslendingar fóru að finna fyrir áhrifum heimskreppunnar miklu. Stjórnmálalegt umrót hafði verið í landinu, nýir stjórnmálaflokkar verið stofnaðir í kjölfar breytinga í þjóðmálum en mál málanna, sjálfstæðisbaráttan, var nú að mestu til lykta leidd og menn ekki eins uppteknir af henni og löngum fyrr. Kaupstaðirnir voru að stækka, Reykjavík að fá á sig borgarbrag og stéttaandstæður – bilið milli ríkra og fátækra – að skerpast. Verkalýðshreyfingin var að eflast og pólitísk umsvif hennar fóru vaxandi, Alþýðuflokkurinn var stofnaður 1916 um leið og Alþýðusamband Íslands en árið 1930 stofnuðu þeir sem þótti sá flokkur ekki vera nógu skeleggur í að koma á sósialískum þjóðfélagsumbótum Kommúnistaflokk Íslands.
 
Lok þessa bókmenntaskeiðs eru óljós að því leyti að raunsæisskáldssagan er miklu langlífari en raunsæisljóðið. Um 1955 var að verða ljóst að Sovétríkin gátu ekki orðið það forystuafl þjóðfélagslegra umbóta sem margir bundu vonir við og sýndu þau það svart á hvítu ári síðar með innrás í Ungverjaland árið 1956, þetta olli fráhvarfi margra frá hugmyndafræði sósíalista. Skömmu áður – 1950 – hafði formbylting í ljóðagerð skekið íslenskt þjóðlíf þegar atómskáldin geystust fram með skáldskap sinn. Upp úr 1950 fóru fyrstu smásögur í módernískum stíl að líta dagsins ljós í uppreisn gegn raunsæissagnahefðinni en fimmtán árum síðar gerðist það sama innan skáldsögunnar. Raunsæisljóðið lætur þannig undan síga um 1950 en raunsæissagan um 1965.
 
Raunsæi er oft skipt í tvennt: Félagslegt raunsæi og þjóðfélagslegt raunsæi.
 
Félagslegt raunsæi / sósíalískt raunsæi
Félagslegt raunsæi hefur sósíalískan boðskap að leiðarljósi og snýst gegn borgaralegum venjum og hugmyndum. Markmiðið er breytt þjóðfélagsskipan í anda sósíalískra lífsskoðana og stjórnarhátta. Þetta raunsæi er sjaldgæft í íslenskum bókmenntum, dæmi um það eru sögulok í Sjálfstæðu fólki eftir Laxness og sumpart í smásögunni Móður barnanna eftir Guðmund G. Hagalín (1898 – 1985). Þá eru kvæði frá fjórða áratug aldarinnar sem fella má að þessari bókmenntastefnu og er oft vitnað í kvæði Jóhannesar úr Kötlum Sovét Ísland sem dæmigert að þessu leyti. Fylgjendur sósíalísks raunsæis gáfu út tímaritið Rauða penna í nokkur ár.
 
Þjóðfélagslegt raunsæi
Þjóðfélagslegt raunsæi tekur á vandamálum samtímans. Sögurnar gerast í samtíma höfundar, þær fjalla um þá sem minna mega sín og deila oft á auðstétt og yfirvöld. Samúð höfundar er með lágstéttarfólki og stéttaskipting, ranglæti eða óverðskuldaður aðstöðumunur er ekkert launungarmál í þessum sögum. Líf sögupersóna mótast af kjörum þeirra. Höfundar benda á samfélagslegan eða mannlegan vanda og lýsa honum en lausn hans felst ekki í þjóðfélagsbyltingu heldur er um flóknara ferli að ræða. Bakgrunnur höfunda er ólíkur og þeir hafa ólíkar stjórnmálaskoðanir en taka þau mál til meðferðar sem þeir telja brýn úrlausnar eða allrar athygli verð. Hégómi eftir Halldór sýnir hvernig kona af yfirstétt getur ekki sætt sig við nýja, ömurlega stöðu sína, sýslumannsdóttirin og kaupmannsfrúin er orðin öreigi. Og Guðmundur G. Hagalín greinir frá hvernig Kristrún í Hamravík gerir allt til að halda bænum í byggð. Nokkur meginefni þessarar bókmenntagreinar verða rakin hér í næsta kafla.
 
Efni raunsæissagna
Kjör verkafólks og bænda
er viðfangsefni í sögum Laxness frá fjórða áratugnum, t.d. Sölku Völku og Sjálfstæðu fólki. Að auka almenningi stéttarvitund og stuðla að pólitískri vakningu er tilgangur slíkra bóka.
 
Andstæður dreifbýlis og borgar eru fyrirferðarmest efni í raunsæissögum, fólk streymir úr sveitinni og framtíðin á mölinni er óvís. Þeir þjóðflutningar eru viðfangsefni hjá tveimur höfundum sem báðir gefa út fyrstu bók í þríleik (tríólógíu) árið 1955. Hjá Ólafi Jóhanni Sigurðssyni (1918 – 1988) er hið liðna og horfna umvafið rómantískum hillingablæ en veruleiki nútímans nöturlegur og einkennist af eftirsókn eftir vindi. Þetta kemur vel fram í þríleik hans sem samanstóð af bókunum Gangvirkið (1955), Seiður og hélog (1977) (hélog merkir villiljós) og Drekar og smáfuglar (1983). Hjá Indriða G. Þorsteinssyni (1926 – 2000) eru breytingarnar óumflýjanlegar og nútíminn dæmdur vægar. Land og synir (1963) lýsir ástandinu í sveitinni áður en bóndasonurinn flytur á mölina. Norðan við stríð (1971) lýsir áhrifum heimsstyrjaldarinnar og þeim samfélagsbreytingum sem verða í kjölfar hernámsins. Og 79 af stöðinni (1955) lýsir sveitamanninum fluttum á mölina, bóndasonurinn orðinn leigubílstjóri en gengur illa að fóta sig. Þar koma líka áhrif bandaríska hersins á daglegt líf landans við sögu.

Eftir að herinn kom í landið 1940 gekk þjóðernisrómantík í endurnýjun lífdaga, og barátta gegn erlendu valdi hófst á ný. Atómstöðin (1948) eftir Laxness tekur á þessum málum öllum. Þórubækur (1954 – 1964) Ragnheiðar Jónsdóttur (1895 – 1967) lýsa sömuleiðis þeim vanda sem búferlaflutningar og herseta hafði í för með sér.
 
Lífið í Reykjavík verður mörgum yrkisefni. Þórunn Elfa Magnúsdóttir (1910), mamma Megasar, glímir við vanda Reykjavíkurlífsins og spilling borgarinnar í samanburði við hreinleika sveitarinnar er áleitið efni Reykjavíkursagna hjá mörgum höfundum. Elías Mar (f. 1924) varð fyrstur til að lýsa lífi nútímaunglinga í skáldsögunni Vögguvísa (1950), unglingar á glapstigum eru aðalpersónur og slangur og slettur óspart notað til að afmarka umhverfið.
 
Sveitasögur þar sem höfundar spila á nostalgískar (angurværar) taugar lesenda ná vinsældum undir lok tímabilsins. Sögurnar gerast í sveit og lýsa rómantískum tíma, sem er horfinn og kemur aldrei aftur, á raunsæjan hátt að mati lesanda. Sögur Guðrúnar frá Lundi (1897 – 1875) (t.d. Dalalíf 1946 – 1951) eru dæmi um þessar bókmenntir en hún var um skeið mest lesni höfundur landsins og metsöluhöfundur jafnframt.
 
Þýddar skáldsögur eru fyrirferðarmiklar í íslenskri bókaútgáfu á þessum árum og margir þekktir höfundar sem komu að því að þýða erlend öndvegisrit. Bókaforlagið Mál og menning var m.a. stofnað til að koma þýddum skáldsögum á ódýran hátt til almennings. Það sama á við um Almenna bókafélagið en þessi félög tókust á um bókmenntasmekk almennings fram á sjöunda áratuginn.
 
Barnabækur verða sérstök bókmenntagrein á tímum raunsæis. Sögurnar höfðu það að markmiði að upplýsa börn um blákaldan raunveruleika þjóðfélagsins. Brugðið er upp trúverðugum myndum af erfiðum kjörum barna og barnafjölskyldna, t.d. vegna fátæktar foreldra eða dauðsfalls og unnið úr þeim vanda. Söguhetjur eru borgarbörn og lausn á vanda þeirra er oft að finna í óspilltri sveit eða í kynnum af góðu fólki. Gunnar M. Magnús (1898 – 1988) og Stefán Jónsson (1905 – 1966) kennarar við Austurbæjarskóla eru dæmigerðir höfundar slíkra sagna. .
 
Raunsæi í ljóðagerð
Raunsæisljóðið er í eðli sínu ádeilukvæði enda hentar það vel til að koma til skila knappri, beiskri ádeilu. Frá þessum áratugum er til mikill fjöldi slíkra ljóða en þeir höfundar sem hófu hina raunsæju ljóðagerð á ný í íslenskum bókmenntum voru einkum Steinn Steinarr (1908 – 1958) með ljóðabókinni Rauður loginn brann (1934) og Jóhannes úr Kötlum (1899– 1972) með bókinn Samt mun ég vaka (1935). Upphaf róttækar raunsæisljóða er sett árið 1930 þegar út kom ljóðabókin Hamar og sigð eftir Sigurð Einarsson (1898 – 1967). Þjóðernisrómantík er í bland við róttækan boðskap höfunda þegar á líður. Dæmi um þessa ljóðagerð má sjá í Þyrnum og rósum í nokkrum kvæðum frá fjórða áratugnum.
 
Í raunsæisljóðum er mest lagt upp úr boðskap og innihaldi og formið má ekki trufla þessa þætti. Raunsæisljóð eru því flest hefðbundin og meðan mestur krafturinn var í hinu pólitíska raunsæi varð hlé á þeirri formbreytingu sem hófst um aldamót og náði mestu blóma á öðrum og þriðja áratug aldarinnar. Umræður um ljóðform eru sígilt viðfangsefni, í Sjálfstæðu fólki deila þeir Bjartur og Einar í Undirhlíð um ljóðformið og sýnist sitt hverjum, um síðir yrkir Bjartur meira að segja nútímaljóð að eigin sögn! En það hlé sem varð á endurnýjun ljóðformsins á fjórða áratugnum var aðeins lognið á undan storminum
 
Einn af frumkvöðlum raunsæisljóða, Jóhannes úr Kötlum, á sér merkilegan skáldskaparferil. Hann hóf ferilinn sem nýrómantískt ungmennafélagsskáld, gerðist róttækt raunsæisskáld og boðberi kommúnisma en tók að yrkja nútímaljóð á fimmta áratugnum undir dulnefninu Anónymus sem merkir hinn nafnlausi. Um þennan merkilega skáldskaparferil má fræðast á vefnum um Jóhannes úr Kötlum sem hægt er að krækja í af heimasíðu þessa áfanga. Jóhannes deildi skáldaverðlaunum með Huldu á lýðveldishátíðinni 1944 fyrir kvæðið Land míns föður.

Ljóðaferill Steins Steinarr er líka fróðlegur í þessu sambandi. Hann byrjar sem róttækt skáld (Rauður loginn brann), fer yfir í efahyggju (Ljóð, Spor í sandi og Ferð án fyrirheits) og endar í að yrkja Tímann og vatnið.

Ættjarðarljóð
Eftir lýðveldisstofnun hljóp vöxtur í þjóðernisrómantísk ljóð af ýmsum toga. Sum ljóð er nánast ættjarðarljóð, ástarjátningar til lands, þjóðar og tungu en önnur eru ádeilukvæði þar sem deilt er á hersetu og hernaðarbrölt. Snorri Hjartarson (1906 – 1986) og Guðmundur Böðvarsson (1904 – 1974) eru dæmigerðir höfundar slíkra ljóða og auðvitað Jóhannes úr Kötlum sem er alls staðar. Í Þyrnum og rósum er líka vert að skoða ljóð sem merkt eru á heimasíðunni undir verkefni 1940 – 1965: Vandamál líðandi stundar. II. hluti. Ættjörðin, lýðveldið, herinn.
 
Raunsæissmásagan kemur með Verðandimönnum inn í íslenskar bókmenntir. Í smásögunni eru tekin til umfjöllunar ýmis þjóðfélagsleg efni en algengt minni þessara sagna er smælingjaminnið, kjör og örlög þeirra sem minna mega sín er meginviðfangsefni þessara sagna og jafnframt er bent á ábyrgð samfélagsins og valdafar eða aðrir þeir sem ábyrgð bera eru dregnir til ábyrgðar og verða skotspónar ádeilu.
 
© Eiríkur Páll Eiríksson