Ísl 503



 

Ísl 503

Bókmenntasaga
1900 – 1930
1930 – 1950
1950 – 1975
1975 – 2000

Minnispunktar

Ítarefni

Eiríkur Páll Eiríksson

Bókmenntir um miðja öld
Módernismi 1950 / 1965 – 1975

Hvenær hófst tímabilið?
Oftast er miðað við 1950 þegar formbyltingin varð í ljóðagerð með tilkomu atómskáldanna en nútímaljóð voru farin að birtast á ný, sjá hér að neðan um Þorpið og Tímann og vatnið. Smásagan tók að breytast upp úr 1950 en breytingar í skáldsagnagerð hófust ekki að marki fyrr en eftir 1965. Hefðbundin ljóðagerð lifði góðu lífi samhliða öllum nýjungum í bókmenntum og raunsæissagan var í blóma allt til 1965. Þetta minnir okkur á að skil eru ekki skörp í bókmenntasögunni, aðeins viðmiðun. Framhald varð á óbundinni ljóðagerð og varð nútímaljóðið ofan á í íslenskri ljóðlist en skeið nýju skáldsögunnar var stutt, því lauk að mestu um miðjan áttunda áratuginn. Það þjónar því litlum tilgangi að festa módernismann með ártölum en á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar er módernisminn áberandi bókmenntastefna á öllum sviðum íslenskra bókmennta en aðrar bókmenntir lifa jafnframt góðu lífi og ljóðahefðin gekk í endurnýjun lífdaga, (sjá hér á eftir um kafla um endurnýjun hefðarinnar í ljóðlistinni).
 
Skörun tímabi
Fimm íslenskir rithöfundar og skáld hafa fengið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918 – 1988) og Snorri Hjartarson (1906 – 1986) voru fyrstir og eru bæði skáldin hefðbundin ljóðskáld þótt auðvitað sé enginn ósnortinn af straumum sinnar samtíðar hverju sinni. Reyndar hafði Ólafur Jóhann fyrst og fremst samið skáldsögur en fékk verðlaunin fyrir ljóðabækur sínar. Fríða Á Sigurðardóttir (1940) varð fyrst íslenskra skáldsagnahöfunda til að fá þessi sömu verðlaun og mótast sögur hennar frekar af ljóðrænum módernisma en hefðbundnu raunsæi. Síðan hafa Einar Már Guðumundsson (1954) og Sjón (1962) fengið verðlaunin en þeir hafa jöfnum höndum samið lóð og skrifað skáldsögur. Sögur þeirra má flokka á marga vegu og sýna fjölbreytni skáldsagna síðustu ára.

Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun 1955 en hann hafði allt til þess verið raunsæishöfundur þó breyting yrði á um síðir. Þetta er hér nefnt til að minna á að bókmenntirnar eru síður en svo einsleitar eftir tímabilum bókmenntasögunnar.

Hvað er módernismi?
Hugtakið hefur ekki skýra merkingu en oft er það notað sem samheiti á mörgum ólíkum skáldskaparstefnum; symbólisma, expressionisma og súrrealisma svo eitthvað sé nefnt. Módernismi á rætur í iðnaðarsamfélögum Evrópu og er nokkurs konar viðbrögð við iðnvæðingu, örri borgamyndun og upplausn bændamenningar og í kjölfarið fylgdi firring mannsins. Einsemd, einangrun og umkomuleysi mannsins í óvinveittri veröld eru þess vegna algeng viðfangsefni í móderniskum skáldverkum og hin samfélagslega skírskotun stundum lítil, t.d. hvað snertir þjóðernishyggju og varð slík afstaða þess valdandi að stefnan lá undir ámæli af hálfu raunsærra róttæklinga.
 
Módernistar eiga það allir sameiginlegt að stefna að upplausn hefðbundins framsetningar- og tjáningarmáta og er formbylting atómskáldanna íslensku frá því í byrjun sjötta áratugarins dæmi um slíkt.
 
Módernismi er andóf gegn hefðbundnu raunsæi. Módernistar telja að vanabundin málnotkun og hefðbundnar lýsingar á raunveruleikanum – eins og í raunsæisverkum – séu hættar að hafa áhrif og gefi auk þess villandi mynd af þeim veruleika sem fólk býr við. Sá veruleiki sem birtist í raunsæisbókmenntum sé ekkert orðinn annað en klisjur sem hættar séu að hafa merkingu, m.a. vegna þess að óprúttin stjórnmálaumræða og auglýsingaskrum hafi slæft raunverulega heimsmynd manna og gefi þá fölsku mynd af heiminum að veruleikinn sé tiltölulega einfaldur og sameiginlegur öllum venjulegum mönnum. Staðreyndin sé sú að tilveran sé flókin og torræð og mynd hennar birtist hverjum einstaklingi á sinn hátt í orðum, myndum og ímyndun. Tungumál módernískra verka er því oft flókið og reynir á þanþol orðanna, en líka myndrænt og grunnkveikjuríkt og krefur lesandann um einstaklingsbundna túlkun. Tungumálið er flókið m.a. til þess að lesandinn sé ekki mataður á klisjum og kunnuglegum myndum úr stöðluðum reynsluheimi heldur örvist til sjálfstæðrar hugsunar í eigin tilveru. Tvíræðni máls eða margræðni eru algengari í módernum ljóðum en í eldri kvæðum og margslungin merking orðanna er aðal módernra ljóða þar sem málbeiting miðar að því að koma á óvart með óvæntum orðatengslum og setningasamböndum – orð, persónur eða atburðir koma fyrir í framandi umhverfi eða í fáránlegu samhengi.

N ýjungar í ljóðagerð
Í kaflanum um Nýrómantík og nýjungar í byrjun aldar var á það minnst að nokkur skáld hafi verið farin að víkja frá hefðinni í íslenskri ljóðlist og reyna fyrir sér á vettvangi módernískra ljóða. Það var líka sagt í kaflanum um raunsæi að í uppafi raunsæisskeiðsins upp úr 1930 hafi komið bakslag í þær tilraunir. En um miðjan fimmta áratuginn hófst módernískur skáldskapur til vegs á ný og nútímaljóðið hélt innreið sína í íslenskar bókmenntir af fullum þunga. Ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör (1917 – 2000) frá 1946 boðaði upphaf þess sem í vændum var. Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr (1908 – 1958) fylgdi svo í kjölfarið 1948. Verður nú stuttlega fjallað um þessar tímamótabækur í íslenskri ljóðlist. Allir góðir nemendur lesa þessi verk á bókasafni síns góða skóla.
 
Þorpið
Ljóðabókin Þorpið sem út kom 1946 eftir Jón úr Vör ber ekki með sér mörg þau einkenni sem kennd eru við módernisma. Þar var samt á afdrifaríkan hátt vikið frá venju kynslóðanna í ljóðagerð. Sú nýjung sem fram kom með Þorpinu fólst í formbreytingunni – hinu einfalda, óbundna ljóðformi. Skáldið sprengir af sér þröngan stakk hefðbundins íslensks ljóðforms sem sumum þótti á þessum tímum setja mönnum svo strangar skorður að ljóðin nánast ortu sig sjálf svo að öll hugsun og orðaval væru þrælbundin á klafa ríms og stuðla og hrynjandin ófrjáls og háttbundin. Öðrum þótti bragbreytingarnar svik við íslenska þjóðrækni og menningararf – stuðlanna þrískiptu grein. Þorpið mun vera fyrsta safn óbundinna ljóða útgefið á Íslandi. Þorpið er bernskustöðvar skáldsins vestur við Patreksfjörð. Hann lýsir mannlífi þar á uppvaxtarárum sínum, tímum kreppu og sárafátæktar. Mælandinn í Þorpinu er oft eldri maður sem rifjar upp æsku sína í sjávarþorpi þar sem hann ólst upp hjá fóstra sínum og ávarpar hann sitt yngra sjálf með persónufornafninu þú. Hversdagsleikinn er ráðandi. Fólkið býr við bág kjör, stritar, en yfir lífinu er ákveðin hógværð, fegurð og virðing. Það þótti ekki skáldlegt yrkisefni í þann tíma.
 
Í Þorpinu stendur tíminn kyrr – það er heill heimur – þar sem gamalt gildismat stendur traust og óhaggað þó að ýmsar óveðursblikur hafi ógnað lífi manna sem höfðu marga fjöruna sopið. Ég held að mætti kalla skáldsýn höfundarins ljóðrænt raunsæi og heimþrá hans til annars og betri tíma eins konar flótta frá fánýtishyggju eða á stundum fáránleika samtímans. Þegar trúin á tilgang lífsins og guðlega forsjón á í vök að verjast þá er þorp bernskunnar í huga skáldsins griðastaður í öngþveiti og glundroða heimsins – tryggur staður í tilvistarvanda.
 
Sá búningur sem Jón hefur valið ljóðunum í Þorpinu er einkar vel við hæfi. Látlaus, einfaldur og rökrænn er frásagnarmátinn, angurvær og stundum ljúfsár. Orðin koma til dyranna eins og þau eru klædd án viðhafnar en full af innileika og hlýju í viðmóti. Þannig tengist rökleg frásögnin, laus við torræðni myndmáls, fornri hefð en mikil breyting ef ekki bylting hefur orðið á ytra formi sem hlýtur að vera samofið efninu og ekki svo lítill þáttur af tjáningu skáldsins. Þorpið er sú ljóðabók sem oftast hefur verið gefin út á Íslandi.
 
Tíminn og vatnið
Kvæðið Tíminn og vatnið var ort á fimmta áratug aldarinnar og kom út fyrst árið 1948 eins og fyrr segir. Það þykir hefja til öndvegis á ný nútímaljóðið á Íslandi eftir hnignun þess á raunsæisskeiðinu eftir 1930. Í kjölfar þessa ljóðs sigldu ljóð atómskáldanna sem mest bar á milli 1950 – 60.
 
Þrátt fyrir nútímalegt yfirbragð myndmáls og stílbragða hefur kvæðið mörg hefðbundin einkenni. Það er ort undir þekktum bragarhætti, stuðlar eru víðast og hrynjandi er yfirleitt skipuleg. Rím er nokkuð reglulegt, þó eru ljóð án ríms.
 
Hin nútímalegu einkenni ljóðsins eru mörg og ber þar hæst hinar torskildu myndir þess en í myndbyggingu þess og frumlegum stílbrögðum felast nútímaleg einkenni ljóðsins.
 
Ljóðið höfðar fremur til skynjunar en skilnings. Það vekur tilfinningar og bregður upp myndum sem skírskota til skynjunar, tilfinninga og hugsýna. Það hvarflar að lesanda að markvisst sé stefnt að því að rugla skilning hans, skáldið sér hljóð og heyrir sýnir, huglægt er hlutgert og málað táknrænum litum, draumar og sýnir dragast inn í veruleika og dulheima yrkisefnisins. Áreitin eru brengluð: myrkur berst mjúkum hlátri, rödd flýgur. Lesandinn þarf því að lesa ljóðið opnum huga og reyna að skynja þá ljóðrænu veröld sem í því býr, leyfa sér að hrífast af leiftrandi myndum þess, frumlegri og frjórri hugsun, skáldlegri orðsmíð og takast á við krefjandi túlkun sem ögrar og hrífur í senn. Þetta ljóð hefur verið mörgum heillandi ráðgáta, uppspretta og aflvaki þeirrar „vímusælu hrifningar” sem listaverk vekur. Ljóðið má ekki lesa með það í huga að hægt sé að skilja og endursegja efni þess á hversdagslegu máli. Margt bendir til að kvæðið sé að hluta ástarljóð.
 
Atómskáld og formbylting
Það er ungu fólki lítt skiljanlegt í dag að um miðja öldina skuli hafa verið háværar deilur í þjóðfélaginu um hvort skáld mættu leyfa sé að yrkja ljóð sem ekki væru bundin af bragreglum íslenskrar ljóðahefðar. Slíkt væri óhugsandi í dag, ljóðið hefur ekki þann sess í vitund okkar að það skaki þjóðlífið þótt ort sé óvenjulega. En ef hugsað er til þess að ljóðið var eitt helsta áróðurstækið í sjálfstæðisbaráttunni og það eina sem þjóðin átti á myrkum tímum í sögu hennar voru bókmenntir verður kannski skiljanlegra að umræða um ljóðform hafi hrært tilfinningar manna.

Orðið atómskáld var fyrst notað 1950 um hóp ungskálda sem ortu óbundin ljóð. Orðið atómskáldin varupphaflega uppnefni. Í Atómstöðinni eftir Laxness koma fyrir undarleg skáld sem nefnast atómskáld. Andstæðingar breytinga í ljóðagerð gripu það á lofti og uppnefndu ungu skáldin með þessu orði. Á seinni árum hefur þetta orðið hlutlaust orð, bókmenntalegt hugtak um ákveðin hóp. Slík tilvik eru alvanaleg úr listasögunni, þannig voru barokk og impressíónisti skammaryrði til að byrja með.

Atómskáldin voru: Hannes Sigfússon (1922 – 1997), Einar Bragi (1921), Stefán Hörður Grímsson (1919 – 2002), Jón Óskar (1921 – 1998), Sigfús Daðason (1928 – 1996), Elías Mar (1924) og Jónas Svafár (1925). Skáld þessi héldu hópinn og gáfu út tímarit sem hét Birtingur og kynntu þar sjónarmið sín til lista og bókmennta og birtu eigin verk og annara sem féllu að þeirri listastefnu sem tímaritið boðaði en hér er átt við módernismann. Nokkur skáld og listamenn önnur en hér voru talin komu við sögu Birtings, þ.á.m. Thor Vilhjálmsson (1925). Birtingur kom út á árunum 1955 – 1968.
 
Viðhorf til yrkisefnisins
Atómskáldin voru ekki ósnortin af atburðum erlendis: kjarnorkusprengjan var orðin til, kalda stríðið skall á milli stórveldanna Sovétríkjanna og Bandaríkjamanna og skipti þjóðum í fylkingar. Styrjöld geisaði í Kóreu. Indókína, síðar Víetnam, varð vettvangur langvinnar styrjaldar, deilur voru um yfirráð Súesskurðarins og Ungverjar reyndu misheppnaða uppreisn gegn Sovétvaldinu 1956. Atómskáldin finna til vanmáttar síns og einsemdar í þessum fjandsamlega heimi og lýsa því m.a. í ljóðum sínum. Í stað hvatningar raunsæisskálda um aðgerðir gegn óvinveittum öflum kemur nú lýsing á vanmætti og einmanaleika í veröld sem fer sínu fram. Þetta má engan veginn skoða sem tæmandi um yrkisefni atómskálda, því fer fjarri, og þau hafa ekki einkarétt á yrkisefninu heldur.
 
Einkenni nútímaljóða
Áður hefur verið minnst nokkuð á einkenni nútímaljóða og skal það að nokkru endurtekið hér. Nútímaljóð eru óbundin að hefðbundnum brageinkennum, ljóðstafir, hrynjandi og rím lýtur ekki bragreglum. Nútímaljóð er knappt og hverfist oft um eina ljóðmynd en einnig er algengt að hver ljóðmyndin reki aðra og samhengi oft óljóst milli þeirra mynda sem brugðið er upp en stefnt er að skynjun heildarinnar úr tvístruðum myndum. Orðin vísa oft út fyrir hefðbundið merkingarsvið sitt, setningaskipan er óvenjuleg og greinarmerki og stórir stafir ekki samkvæmt skólastafsetningu. Ljóðmyndin er eins og sagði í kaflanum um Nýjungar í byrjun aldar helsta formeinkenni nútímaljóða. Nútímaljóð beita vísunum í annan skáldskap og tákn eru algeng. Lesendur verða oft að túlka ljóðin, þau eru torskilinn og kalla hinn góða lesanda til átaka við efni sitt til skilnings.
 
Nýja skáldsagan
Hræringar þær sem urðu í ljóðlistinni um 1950 eiga sér ekki samsvörun í skáldsagnagerð fyrr en kemur fram undir 1965 þó vart hafi verið markvissra tilrauna til endurnýjunar smásögunnar áratuginn á undan. Það eru skáldin Guðbergur Bergsson (1932), Svava Jakobsdóttir (1930) og Thor Vilhjálmsson (1925) sem setja sterkan svip á þessa tegund skáldsagna. Nýja skáldsagan er andóf gegn hefðbundnu raunsæi sem verið hafði við lýði í íslenskum bókmenntum áratugum saman. Svava Jakobsdóttir hefur sagt að hefðbundið raunsæi fleyti fram vanabundnum hugsunum og hugmyndum um lífið og raunveruleikann. Í nýju skáldsögunni er það því önnur nálgun á veruleikanum sem að er stefnt með virkri þátttöku lesanda. Þetta sjónarmið verður skiljanlegt þegar lesin er smásagan Í draumi sérhvers manns þó skýrari merki séu í eldri sögum eftir Svövu.

Frásagnaraðferðin
Frásagnarmáti nýju skáldsögunnar einkennist af því að í stað þess að söguhöfundur bregði upp hefðbundnum raunsæismyndum hversdagslífsins á einfaldan hátt fyrir hugskotssjónum lesanda birtist á síðum nýsögunnar myndræn upplifun þeirrar lífsreynslu sem aðalpersónan upplifir með öllum þeim skarkala og truflun sem fylgir áreitum venjulegs lífs. Tal manna og orðræður eru út og suður eins og í raunveruleikanum.
 
Í sumum sögum er sjónarhornið nútíðar eins og í kvikmynd, hefðbundinn söguþráður víkur en í hans stað koma myndir, klippmyndir, sem hugur sögupersónu hefur skynjað en birting þeirra þarf hvorki að vera rökvís né í tímaröð. Þær tilfinningar og reynsla sem myndirnar birta er lesandanum ætlað að túlka á sinn hátt því höfundar vilja forðast hinn klisjukennda heim sameiginlegrar reynslu.
 
Í öðrum sögum er söguramminn raunsæilegur en atburðir þeir sem verða á annars raunsæju sögusviði taka á sig mynd fáranleikans og er það eitt helsta einkenni þessara skáldsagna að setja fram atburði hversdagslífsins á fjarstæðukenndan hátt. Þessum frásagnarmáta er ætlað að vekja til umhugsunar um firringu mannsins eða stöðnun hans, gera vanabundin fyrirbæri framandleg þannig að lesendur upplifi sterkar en ella firringu sögupersóna og kannski sína eigin. Firring er hugtak sem notað er um einsemd, umkomuleysi og smæð mannsins í fjandsamlegu umhverfi. Dæmi um slíkar sögur er t.d. Kona með spegil eftir Svövu Jakobsdóttur en í Kristnihaldi undir Jökli eftir Laxness jaðrar fáránleikinn við skopstælingu á nýju skáldsögunni.
 
Smásagan
Í smásagnagerð verður vart breytinga upp úr 1950 og helst sú breyting í hendur við breytingar á ljóðforminu. Sögurnar urðu myndrænni og meira um stíltilþrif sem minna á ljóðmál. Hinn boðandi tónn raunsæisins vék fyrir frjálsu flugi ímyndunarinnar og sögurnar snúast meira um hugarástand og sálarlíf sögupersónu en lýsingu á stéttarlegri stöðu hennar. Saga Ástu Sigurðardóttur (1930 – 1972) Gatan í rignngu gæti flokkast undir þessa tegund smásögu. Við fylgjumst með upplifun sögumanns sem er utangarðs en upplifir lífið, ástand sitt og samborgara gegnum huga sinn á myndrænan hátt og mikið flæði er á hugsuninni. Hér er líka vert að horfa á fyrstu bækur Thors Vilhjálmssonar, hvernig hann reynir að að lýsa stundurtætturm heimi í gegnum smámyndir, ýmist ljóðum, ferðasögum eða smásögum. Og ekki má gleyma Geir Kristjánssyni (1923-1991) sem skrifaði eitt smásagnasafn, fullt af angist og firringu.

Endurnýjun hefðarinnar
Það er oft sagt að þeir sem kunni lögmál einhverrar listgreinar, hafi skólast í klassískri aðferðafræði greinarinnar, séu best til þess fallnir að brjóta lögmálin og rjúfa hefðina. Upp úr slíkum stílbrotum spretta oft ný listaverk, með nýjum efnistökum og nýrri hugsun en jafnframt má finna rætur í hefðinni. Þegar slíkt gerist sjá menn dæmi um líf og endurnýjunarmátt listgreinarinnar. Þannig er þetta í íslenskri ljóðlist og kannski eru ljóð Hannesar Péturssonar (1931) mörg hver dæmi um slíkt líf ljóðlistarinnar. Hann gaf út sína fyrstu bók árið 1955 og þar má sjá dæmi um hvernig hefðin og nútíminn kallast á í mörgum ljóðum. Snorri Hjartarson er líka gott dæmi um skáld sem sameinar hið gamla og hið nýja og síðast en ekki síst bera að nefna Þorstein frá Hamri sem ungur vakti athygli fyrir samspil hefðar og nýjunga.
 
© Eiríkur Páll Eiríksson