Samtíðarsögur
fjalla um menn og viðburði í samtíð höfunda. Oftast er þetta hugtak látið
ná yfir biskupasögur og Sturlungu.
Sturlunga
er mikilvæg heimild um sögulega viðburði og veitir innsýn í hugmyndaheim og
lífsskoðun Íslendinga á 13. öld. Hún greinir frá valdabaráttu
höfðingjaætta, sókn konungsvalds og kirkju og endalokum þjóðveldis. Hún er
rituð af ýmsum höfundum en þekktastur er Sturla Þórðarson (1214 – 1284).
Sturlunga
segir frá lífi Íslendinga á Íslandi líkt og Íslendingasögur og sögur hennar
eru ritaðar á 13. öld líkt og Íslendingasögur. En það sem greinir Sturlungu
frá þeim er að Íslendingasögur greina frá atburðum á 9. og 10. öld en
Sturlunga saga skýrir frá atburðum á 12. og 13.
öld. Íslendingasögur fjalla um atburði úr fortíð
en Sturlunga segir frá atburðum úr samtíð
höfunda. Höfundar Sturlungu byggja frásögnina á eigin reynslu eða á ferskum
munnmælum um atburðina.
Sturlunga
er safnrit og varðveitt sem ein samfelld saga í handritum. Þó er greinilegt að þannig hefur hún ekki orðið til í
upphafi. Heitið Sturlunga saga er þekkt frá 17. öld en sköpunarsaga hennar
er þessi: Á 13. öld voru ritaðar einstakar sögur og síðan var þeim steypt
saman í eitt rit um aldamótin 1300. Sögurnar gerast á árunum 1117 – 1264.
Almennt er talið að Þórður Narfason (d. 1308) lögmaður á Skarði á
Skarðsströnd hafi safnað til verksins og ritstýrt því. Hver tilgangurinn
var með samsetningu ritsins vitum við ekki. En við getum alltaf getið okkur
til, eða eins og segir í nýjustu bókmenntasögunni: „Honum hefur augljóslega
verið í mun að halda til haga frásögnum af atburðum sem leiddu til þess að
Íslendingar glötuðu forræði sínu í hendur
Noregskonungi árið 1262 (Guðrún Nordal, bls. 313).“
Nafnið
Sturlunga dregur ritið af þeirri ætt sem er mest áberandi í sögunni,
afkomendum Sturlu í Hvammi. Sögurnar eru frábrugnar
að efni og framsetningu og þrátt fyrir töluverða ritstýringu við
samsetningu heildarritsins er oftast auðvelt að greina sögurnar sundur. Tvenns
konar hugmyndir hafa verið um hvernig gefa eigi Sturlungu út: Önnur er sú
að gefa söguna út sem eina heild líkt og hún er varðveitt, og er nýjasta útgáfan á þann veg, eða greina sögurnar að og prenta
hverja sögu fyrir sig. Þannig er útgáfa frá miðri
20. öld. Helstu sögur í Sturlungu eru Íslendinga saga eftir Sturlu
Þórðarson, Þorgils saga og Hafliða, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Þórðar
saga kakala, Þorgils saga skarða og Svínfellinga saga. Enn fremur eru þar
Sturlu saga, Geirmundar þáttur heljarskinns, Guðmundar saga dýra og Hrafns
saga Sveinbjarnarsonar.
Íslendinga
saga eftir Sturlu Þórðarson er viðamesta rit Sturlungu,
nær yfir næstum heila öld eða frá 1183 – 1264, og er nær helmingur
verksins. Sturla er eini höfundurinn sem hægt er að nafngreina með vissu.
Íslendinga saga segir frá atburðum sem margir náfrændur Sturlu og hann
sjálfur tóku beinan þátt í og hafa menn lengi undrast hversu vel honum
tekst að halda hlutlægni í frásögninni. Á þessu tímaskeiði gerðust margir
afdrifaríkustu atburðir þjóðveldistímans, svo sem Örlygsstaðabardagi,
Flóabardagi og Flugumýrarbrenna og eru höfðingjarnir Sturla Sighvatsson, Þórður
Kakali Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi Arnórsson aðalpersónurnar.

|
Einkenni
Sturlungu er mikill mannfjöldi, sagt er frá atburðum í þeirri röð sem þeir
gerast og frásögnin er bundin við ytri atburði. Því getur stundum verið
erfitt fyrir lesandann að hafa yfirsýn og sjá samhengið. Og ef frásögn Sturlungu
er borin saman við frásögn Íslendingasagna er veigamikill munur. Þar sem
vissrar fegrunar gætir í Íslendingasögum í bardagalýsingum ríkir raunsæi í
Sturlungu. Í Flugumýrarbrennu birtist hryllingur atburðanna ódulinn. Menn
kveljast, hitinn er óbærilegur og konum er hrint aftur inn í eldinn er þær leita útkomu. Og eftir brennuna þegar leitað er að fólki segir svo:
Þá
var borinn út á skildi Ísleifur Gissurarson og var hans ekki eftir nema
búkurinn steiktur innan í brynjunni. Þá fundust og brjóstin af Gró og var
það borið út á skildi að Gissuri. Þá mælti
Gissur: „Páll frændi,“ segir hann, „hér máttu nú sjá Ísleif
son minn og Gró konu mína.“ Og þá fann Páll að hann leit frá og stökk úr andlitinu sem haglkorn væri.
En
þó skýrt sé skilmerkilega frá skelfilegum atburðum og glæpum ber
frásögnin vott um einlæga friðarhugsjón og undirstrikar tilgangsleysi
voðaverka.
Byggt á:
Hugtök og heiti í bókmenntafræði.
1983. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Bókmenntafræðistofnun HÍ, Mál og
menning, Reykjavík.
Guðrún Nordal. 1992. „Sagnarit um innlend
efni. – Sturlunga saga.“ Íslensk bókmenntasaga 1, bls. 309 – 344.
Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning, Reykjavík.
Sverrir Tómasson. 1992. „Ævisögur
biskupa.“ Íslensk bókmenntasaga 1, bls. 345 – 357. Ritstj. Vésteinn
Ólason. Mál og menning, Reykjavík.
—. 1992. „Játarasögur“ Íslensk
bókmenntasaga 1, bls. 467 – 479. Ritstj. Vésteinn Ólason Mál og
menning, Reykjavík.
© Kristinn Kristjánsson
|