Ísl 303

Fjölbrautaskólinn við Ármúla
Sagnaritun heim.gif (185 bytes)

Sú hefð hefur lengi ríkt að flokka íslenskar fornsögur eftir efni þeirra.


riddv01.jpg (15384 bytes)

Riddarasögur
Í bókmenntum gætir tískustrauma eins og á öðrum sviðum og á 12. öld varð tilfinningaskáldskapur vinsæll suður í Evrópu og barst þaðan norður á bóginn snemma á 13.öld til Noregs og Íslands. Norskir konungar vildu kynna þegnum sínum siði og venjur er tíðkuðust sunnar í álfunni meðal riddara og konunga. Á 13. öld urðu því sögur af elskendum, köppum og kurteisi vinsælar þar sem hallir, víðir vellir og dimmir skógar komu gjarnan við sögu, ásamt yfirnáttúrulegum verum s.s. álfkonum, risum, dvergum og galdramönnum.

 

Fyrst voru þýddar sögur úr bundnu máli, úr frönskum hetjukvæðum, þýsku og latínu, fólki til skemmtunar en síðar fóru Íslendingar að semja sögur.

 

Sögurnar eru ævintýri, sem gerast á óræðum tíma á ókunnugum framandi slóðum, oft í kring um Miðjarðarhaf, þar sem kastalar og hallir kóngsríkja buðu upp á óvænt ævintýri, töfragripi, gull og dýrlegar veislur fyrir konur jafnt sem karla. Jartegn eru mikið notuð þegar boð eru send manna á milli. Ástin og endalaus ævintýri hennar er aðalviðfangsefnið og gegna konur því oft veigamiklu hlutverki og í sumum þeirra eru meykonungar. Dyggar þjónustumeyjar og sveinar fylgja gjarnan aðalpersónum.  Í riddarasögum eru gjarnan alþjóðleg sagnaminni s.s ástarþríhyrningar.

 

riddh01.jpg (17234 bytes)

Stíll sagnanna er orðmargur. Ýkjur og skrautlegar lýsingar m.a. á tilfinningum setja mark sitt á frásögnina lýsingar eru oft stuðlaðar og jafnvel er notast við rím til að lífga upp á textann.

 

Áhrif riddarasagna á íslenskar bókmenntir eru umtalsverð, mest á fornaldarsögur en einnig Íslendingasögur. Margar rímur voru líka ortar eftir þeim. Talið er að sögurnar hafi einkum verið hugsaðar til skemmtunar og afþreyingar en eflaust hafa höfundar þeirra líka viljað koma einhverjum boðskap á framfæri.

 

Þýddar riddarasögur eru m.a.:
Tristrams saga og Ísöndar, Möttuls saga, Flórens saga og Blankiflúr, Karlamagnús saga, þýddar úr frönsku. Þiðriks saga af Bern úr þýsku og Trojumanna saga og Alexanders saga úr latínu. (Bókmenntasaga II. 1993, (bls. 196).

 

Frumsamdar riddarasögur eru m. a.:
Samsonar saga fagra, Ála flekks saga, Tristrams saga og Ísoddar og fleiri.

Dæmi um stíl:

„Tristram,“ sagði hún, „eg unni þér mikið. En nú eg þig dauðan sé sómir mér nú ekki að lifa lengur er eg sé að þú dóst fyrir mínar sakir. Og því skal eg ekki lifa eftir þig.“

Hún talaði þá mörg orð um ást þeirra og samvist og um þeirra hörmulega skilnað. Og því næst lagðist hún niður á gólfið og kyssti hann og lagði hendur um háls honum. Og í því lét hún líf sitt. (Úr Tristrams sögu, Sýnisbók bls.205)

 

Kvintalín grípur eftir henni og nær í hennar skott og kippir henni ofan í sængina til sín, en hún frýsti við ferlega og færði klærnar í hans kinnur og greip hann þar til og slapp ketta við það, og er því bröndótt rófa hennar æ síðan að þar blánaði undan hans fingra stað. (Úr Samsons sögu fagra, Sýnisbók bls.206).

 

Byggt á:

Hugtök og heiti í bókmenntafræði.1983. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Bókmenntafræðistofnun HÍ, Mál og menning, Reykjavík.

 

Torfi H. Tulinius. 1993. „Íslenska rómansan – fornaldarsögur og frumsamdar.“ Íslensk bókmenntasaga 2, bls. 195 – 244. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning, Reykjavík.

 

© Efni: Una Þóra Steinþórsdóttir  © Vefsmíði: Kristinn Kristjánsson

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)