Ísl 303

Fjölbrautaskólinn við Ármúla

 

Sagnaritun

heim.gif (185 bytes)

 

Sú hefð hefur lengi ríkt að flokka íslenskar fornsögur eftir efni þeirra.

 

 

Fornaldarsögur Norðurlanda
Fræðimenn hafa ekki verið á eitt sáttir um skilgreiningu á fornaldarsögum Norðurlanda, en nafnið kemur frá fyrstu heildarútgáfunni frá 1829-30. Þar var miðað við að sögurnar gerðust í fornöld, þ. e. fyrir landnámsöld og sögusviðið væri Norðurlönd og sá hluti heimsins sem kunnur var víkingum. Nokkrar fornaldarsagnanna gerast þó eftir landnámsöld en aðrar gerast að mestu eða öllu utan Norðurlanda, ekki hvað síst í Austuvegi. Um 25 sjálfstæðar sögur teljast til fornaldarsagna en auk þess eru til 10 stuttir þættir og sögubrot sem felldir hafa verið inn í konungasögur.

hjalmur01.jpg (10311 bytes)

Efni fornaldarsagnanna er oft náskylt efni riddarasagna eða konunga­sagna og skilin á milli þessara bókmenntagreina því ekki skörp. Fornaldarsögum hefur oft verið skipt eftir efni í hetjusögur, víkingasögur og ævintýrasögur, en flokkar þessir skarast þó oftast að einhverju leyti.

Hetjusögur styðjast við forn hetjukvæði, s. s. Völsunga saga, Norna-Gests þáttur, Heiðreks saga eða hetjusagnir, s. s. Ragnars saga loðbrókar, Hrólfs saga kraka, Hálfs saga og Hálfsrekka. Í ýmsum þessara sagna eru varðveitt brot úr gömlum kvæðum í stíl Eddukvæða. Efni hetjusagna er oft harmsögulegt, hetjurnar eru ekki ósigrandi, heldur falla með sæmd eða eru sviknar í tryggðum. Einnig koma þar gjarnan fyrir systkinavíg og afskipti guðanna af mannlegum örlögum.

Víkingasögur geta byggst á gömlum sögnum en frásagnargerð þeirra flestra svipar til ævintýrasagna. Oftast eru þær ævisaga einnar hetju (stundum tveggja) sem skiptist í ákveðna meginþætti: 1) uppruni og æska kappans, 2) tilefni þess að hann fer að heiman, 3) meginefni sögunnar: leit kappans að frægð og frama, þar sem hann lendir í alls konar mannraunum og leysir margvíslegar þrautir, verður fyrir álögum, er sendur forsendingum o. s. frv., 4) niðurlag, þar sem kappinn fær verðug afrekslaun, hlýtur kóngsdóttur og ríki, eða a. m. k. gott gjaforð og mikinn orðstír.

Ljóst er að þessi frásagnargerð er um margt skylt ævintýrum enda á síðari árum verið greindur skyldleiki þeirra og yngri riddarasagna skv. kerfi Propps.

Elsta heimild um fornaldarsögu er í Þorgils sögu og Hafliða en þar segir frá brúðkaupi á Reykhólum 1119.

Talið er að einhverjar fornaldarsögur hafi verið skráðar þegar á 12. öld, en almennt er talið að þær hafi verið skráðar á síðari hluta 13. aldar. Elstu handrit þeirra eru frá því um 1300 en flest mun yngri. Allar eru fornaldarsögur skráðar á Íslandi flestar sennilega fyrir 1400.

Fornaldarsögur hafa verið skemmtisögur, sagðar til skemmtunar og skráðar í sama tilgangi en ekki sagnfræði, jafnvel þó í sumum tilfellum hafi menn talið að þrátt fyrir ýkta frásögn eða logna hafi persónurnar í rauninni verið til. Söguefni er óraunsætt og ævintýralegt, hetjurnar ofurmannlegar, sigrast jafnt á jötnum og forynjum sem mönnum. Persónur yngri fornaldarsagnanna eru einlitar, ýmist bjartar eða dökkar, líkt og Sigurður Fáfnisbani eða Grettir. Þar er gjarnan að finna lýsingar á ýmsum framandi löndum sem eiga sér fyrirmynd í landfræðilegum ritum samtímans. Ýmis konar farandsögur áberandi og ævintýraminni og er sum þeirra að finna í fleiri fornaldarsögum.

Frásögn fornaldarsagna er hröð og æsilegir atburðir sem skapa spennu en að lokum fer oftast allt vel. Eldri fornaldarsögum svipar meira til stíls konungasagna og Íslendingasagna enda sögusviðið heimur víkingaaldar. Í yngri fornaldarsögunum eru hins vegar augljósari áhrif frá riddarasögum í lýsingum og orðalagi og  fyrirmyndir sóttar í heim riddaramenningarinnar.

Síðar ortu menn rímur um efni fornaldarsagnanna og eru til rímur af nær öllum varðveittum fornaldarsögum.

Dæmi um fornaldarsögur sem teljast til hetjusagna eru: Ásmundar saga kappabana, Gautreks saga, Hálfs saga og Hálfsrekka, Hervarar saga og Heiðreks, Hrófs saga kraka, Ragnars saga loðbrókar, Þáttur af Ragnarssonum, Sörla þáttur eða Héðins saga og Högna og Vöslunga saga.

Dæmi um fornaldarsögur  sem tilheyra ævintýrasögum: Bósa saga og Herrauðs, Friðþjófs saga hins frækna, Gríms saga loðinkinna, Göngu-Hrólfs saga, Örvar- Odds saga og fleiri.

Byggt á:
Hugtök og heiti í bókmenntafræði. 1983. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Bókmenntafræðistofnun HÍ, Mál og menning, Reykjavík.

Torfi H. Tulinius. 1993. „Hefð í mótun – fornaldarsögur Norðurlanda.” Íslensk bókmenntasaga II, bls. 169 – 195. Mál og menning, Reykjavík.

© Efni: Eygló Eiðsdóttir  © Vefsmíði: Kristinn Kristjánsson

 

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)