Konungasögur
Konungasögur eru þær
sögur kallaðar sem fjalla um norræna konunga og jarla frá upphafi og fram á
13. öld. Sögurnar voru samdar á 12. og 13. öld. Þær
elstu voru skrifaðar á latínu en seinna voru þær
samdar á íslensku.
Þrjár elstu
sögurnar eru glataðar en þær eru taldar hafa
verið rit Sæmundar fróða í Odda sem fjallaði í
stuttu máli um Noregskonunga á tímabilinu frá 850 til 1047, Konunga ævi
eftir Ara fróða Þorgilsson og Hryggjarstykki
eftir Eirík Oddsson.
Rit
samin í Noregi
Þá
hafa varðveist tvö rit á latínu skrifuð í Noregi. Annað þeirra heitir Historia de antiquitate regum Norwagiensium
og er sagt vera eftir Theodricus munk en að öðru
leyti er lítið vitað um höfundinn. Vitað er að hann studdist við íslenska
heimildarmenn. Hitt ritið nefnist Historia Norwegiae og eru skiptar skoðanir um aldur þess og
uppruna. Einnig er til rit á norrænu sem kallast Ágrip. Það er samið í
Noregi og er mjög ágripskennt eins og nafnið gefur til kynna. Það er talið
samið í Noregi í lok 12. aldar en eina handritið sem varðveist hefur er
íslenskt. Fjórða ritið sem samið er í Noregi og telst til konungasagna er
Fagurskinna og er líklega samið nálægt 1220. Það nær yfir sama tímabil og
Ágrip eða frá ríkisstjórnarárum Hálfdanar svarta fram til 1177.
Snorri
Sturluson og aðrir íslenskir höfundar konungasagna
Er
þá röðin komin að hátindi konungasagnaritunarinnar og þeim höfundi sem einna þekktastur er íslenskra rithöfunda,
Snorra Sturlusyni. Snorri fæddist í Hvammi í Dölum, sonur Sturlu
Þórðarsonar og Guðnýjar Böðvarsdóttur. Hann var fæddur 1179 og var tekinn
af lífi árið 1241 að undirlagi Hákonar gamla Noregskonungs. Snorri ólst upp
í Odda á Rangárvöllum og hefur trúlega hlotið klerklega menntun eins og hún
tíðkaðist á þeim tíma. Snorri dvaldi um skeið í Noregi og varð handgenginn
helstu valdamönnum þar í landi en einkum þó Skúla
Bárðarsyni hertoga. Talið er að í
þessari utanferð hafi Snorri lagt drög að Ólafs
sögu helga. Nokkru síðar ritaði hann Heimskringlu, sögu Ynglinga, norsku
konungsættarinnar, frá upphafi til 1177. Snorri gaf verki sínu ekki þetta nafn en það er dregið af
upphafsorðunum: „Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir,er mjög
vogskorin.“ Inn í Heimskringlu felldi Snorri sögu Ólafs helga nær óbreytta
og er hún um það bil þriðjungur alls verksins. Snorri komst í ónáð við hirð
Hákonar gamla og var tekinn af lífi í Reykholti í Borgarfirði árið 1241 að
undirlagi Hákonar konungs.
Frá síðari hluta
13. aldar er til handritið Morkinskinna og á það eru ritaðar sögur
Noregskonunga. Handritið er ekki heilt og vantar víða í frásögnina. Í
Morkinskinnu eru varðveittir margir þekktir Íslendingaþættir, til dæmis
Auðunar þáttur vestfirska, Brands þáttur örva, Hreiðars þáttur heimska og
Ívars þáttur Ingimundarsonar.
Að minnsta kosti
tveir íslenskir menn hafa starfað við norsku hirðina til þess ráðnir að skrifa ævisögur konunga eftir fyrirsögn
þeirra. Annar þeirra, og sá eldri, var Karl Jónsson ábóti sem skrifaði
Sverris sögu en hún er jafnan talin með elstu íslenskum ævisögum. Sagan er
saga Sverris Sigurðarsonar konungs sem var konungur í Noregi á árunum 1184
til 1202. Karl dvaldist í Noregi 1184 til 1188 og skrifaði þá upp eftir
Sverri en lauk sögunni heima á Íslandi.
Hinn
Íslendingurinn og sá síðasti sem vitað er um að starfaði við ævisagnaritun
við norsku hirðina var Sturla Þórðarson, bróðursonur Snorra Stulusonar. Hann ritaði sögur konunganna Hákonar
Hákonarsonar og Magnúsar lagabætis.
Sögur
af Danakonungum, Færeyingum og Orkneyjajörlum
Með
konungasögum eru einnig taldar Skjöldunga saga, Knýtlinga
saga, Færeyinga saga, Orkneyinga saga og einnig Jómsvíkinga saga.
Af Skjöldungasögu
er það að segja að hún er nú aðeins til í endursögn Arngríms Jónssonar
lærða frá 16. öld. Ljóst er að sagan hefur fjallað um goðsögulegt upphaf
dönsku konungsættarinnar. Knýtlinga saga er hins
vegar varðveitt og rekur sögu Danakonunga í réttri tímröð
allt frá Haraldi Gormssyni til Knúts Valdimarssonar en hann dó 1202.
Höfundurinn hefur stuðst við ýmsar heimildir en
mest hefur hann þó notast við Heimskringlu Snorra
Sturlusonar. Sumir fræðimenn hafa talið að Ólafur Þórðarson, bróðir Sturlu Þórðarsonar sagnaritara, sé höfundur sögunnar en aðrir draga það í efa.
Jómsvíkinga saga
fjallar um hóp víkinga sem bjuggu í Jómsborg á
Vindlandi og áttu í útistöðum við bæði Dani og Norðmenn. Sagan líkist um margt Íslendingasögum.
Færeyinga saga er
hvergi varðveitt í heilu lagi en aðalhandrit hennar er Flateyjarbók. Sagan
segir frá ættardeilum í Færeyjum og tengslum höfðingja í eyjunum við
Noregshöfðingja. Ein helsta persóna sögunnar er Þrándur í Götu.
Orkneyinga saga
er nánast öll varðveitt í Flateyjarbók og ýmsum skinnbrotum frá því um
1300. Sagan segir frá Orkneyjajörlum frá því um
900 og fram á 13.öld. Einkum er fjallað um orrustur og deilur jarlanna,
bæði innbyrðis og við konunga á Skotlandi og í Noregi. Um höfund hennar er
ekki vitað.
Rit sem stuðst var við:
Sverrir
Tómasson. 1992. „Konungasögur.“ Íslensk bókmenntasaga 1, bls.
358-401. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning, Reykjavík.
Vésteinn
Ólason. 1993. „Einstakar Íslendingasögur.“ Íslensk bókmenntasaga 2, bls.
82-84. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning, Reykjavík.
Íslenska
alfræðiorðabókin H-O. 1990. „Konungasögur“, bls. 302. Ritstj.Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir.
Örn og Örlygur, Reykjavík.
Silja
Aðalsteinsdóttir. 1992. Orð af orði, bls. 116-121. Mál og menning,
Reykjavík.
Heimir
Pálsson.1985. Frásagnarlist fyrri alda, bls.106-116. Forlagið,
Reykjavík.
©
Efni: Ólafur Hjörtur Jónsson © Vefsmíði: Kristinn Kristjánsson
|