Ísl 503



 

Bókalisti
Námsáætlun
Málnotkun
Sjálfstætt fólk
Kjörbók
Bókmenntasaga
Þyrnar og rósir
Verkefni
Lokapróf
Glærur

Fjarnám

Eiríkur Páll Eiríksson

Íslensk málstefna

Hér er fjallað um íslenska málstefnu, hvernig hún á rætur sínar í hreintungustefnu en hefur færst yfir í nýyrðastefnu þar sem málrækt, málvernd og málvöndun eru lykilorðin. 

„Móðurmál er mönnum andlegt umhverfi og sá sem týnir því glatar hluta af uppruna sínum.“

Málstefna
Íslensk málstefna kemur í ljós með ýmsum hætti. Nefna má þar lög, reglugerðir eða opinberar auglýsingar um margt er varðar íslenskt mál, t.d. stafsetningu og nöfn á íslenskum fyrirtækjum, er skulu samrýmast íslensku málkerfi. Enn má nefna opinber fyrirmæli til kennara í ýmsum fræðigreinumum að glæða skilning á mikilvægi ljósrar framsetningar og vandaðs málfars.

Íslensk málnefnd
Íslensk málstefna birtist einnig skýrt í lögum um Íslenska málnefnd. Þar segir m.a. að hún hafi það meginhlutverk að vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti. Nefndin skal vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál og hafa góða samvinnu við þá er hafa áhrif á málfar almennings. Henni ber að veita almenningi og opinberum stofnunum leiðbeiningar um málfarsleg efni. Málnefndin skal annast söfnun nýyrða og vera til aðstoðar við val þeirra. Hún skal vinna að skipulagðri nýyrðastarfsemi og hafa samvinnu við orðanefndir. Málstefnunni er framfylgt með málrækt, málvernd og málvöndun.
Þessi málstefna á rætur í hreintungustefnu – málhreinsun en birtist í dag í nýyrðastefnu.

Hreintungustefna
Hreintungustefna felur í sér viðnám gegn áhrifum erlendra tungna á móðurmálið. Oft er einnig spornað við nýjungum/málbreytingum, sem taldar eru óæskilegar, jafnskjótt og þær koma upp jafnvel þótt þær geti ekki átt rætur að rekja til erlendra mála. Íslensk hreintungustefna – málhreinsun – gengur hins vegar lengra en tíðast er. Hún beinist ekki aðeins gegn erlendum áhrifum og óæskilegum hræringum í málinu, heldur hefur hún á stundum stefnt að því að hverfa aftur til gullaldarmáls og endurvekja málfarsleg atriði sem eru útdauð í máli samtímans.

Nýyrðastefna
Það málræktar- og málverndunarstarf sem felst í nýyrðasmíð er nátengt málhreinsun því að megintilgangur nýyrðasmíðar er að koma í veg fyrir að erlend orð komist inn í málið og móti ásýnd þess. Nýyrðastefna sú sem fylgt hefur verið hér á landi í framhaldi af hreintungustefnunni er einn af hornsteinum íslenskrar málstefnu og málverndar. Hin hraða þróun samfélagsins kallar sífellt á ný orð, við því hafa stjórnvöld brugðist með því að fela Íslenskri málnefnd að hafa forgöngu um og stjórn á  nýyrðasmíðinni og útgáfu nýyrða. Tilgangur hreintungustefnu og nýyrðasmíðar er sá að halda lifandi samhengi í máli kynslóðanna og auka málvitund manna með markvissu málræktarstarfi þannig að tungan njóti þess vaxtarmáttar sem í henni býr. Útlendu orðin minna á hvernig ásýnd málsins yrði ef ekki væri markvisst unnið að endurnýjun orðaforðans.

Endurnýjun orðaforðans verður með þessum hætti:

a) Nýmyndun orða og orð dregin af íslenskum stofnum. Þessi orð eru gegnsæ. Algeng orð eru t.d: tölva/computer, þota/jetfly, togari/trawler, vindlingur/cigarette, hreyfill/motor, vél/maskine, ratsjá/radar, ljósvaki/æter sjónvarp/fjernsyn, útvarp eller hljóðvarp/radio, mállýska/dialekt.

Öll málfræð- og stærðfræðihugtök eru til á íslensku. Fagmál, íðorð eru yfirleitt íslensk.

b) Ný merking gamalla orða. Nýmerkingar, t.d.: sími/telephone, skjár/fjernsynsskærm, snælda/kasettebånd, álver/aluminiumfabrikk, þulur/radio- eller fjernsynsspeaker, mjólkurferna/mælkkarton, þyrla/helikopter, vinnukonur eller þurrkur/wipers, skott/bagagerum.

c) Þýðingar orða, t.d.: mjólkurhristingur/ milkshake, samviska/samvittighed, conscientia, geimskip/rumskib, spaceship, tækni/teknik, róttækur/radikal, samúð/condolence, andúð/antipat, fjölmiðill/massmedia eller multimedia, lyklaborð/keyboard, krabbamein/cancer, jafnaðarmaður/socialdemokrat.

d) Lærð orðmyndun sérfræðinga, t.d. á Íslenskri málstöð, t.d.: mótald/modem, ýridós/spreyflaske, skruna/scroll, hönnuður no. hanna v./designer/design, berklar/tuberkulosis.

e) Samsetningar gamalla orðstofna á nýjan hátt, t.d.: myndvarpi/projector, myndband/video, plötusnúður/disc-jockey, flatbaka/pizza, sjónauki/kikkert, vélarhlíf/hood, smásjá/mikroskop, veðurfræðingur/meteorolog, kransæðastífla/infarctus myocardii.

f) Tökuorð, t.d.: trukkur/lastbil, jeppi/jeep, traktor (ísl. dráttarvél)/tractor, hamborgari (ísl kjöthleifur í brauði)/hamburger, gír/gear, bremsa (ísl. hemill)/, sjoppa (ísl. söluturn)/shop, bíó (ísl. kvikmyndahús)/bio, kommúnisti (ísl sameignarsinni)/kommunist, kapitalisti (ísl. auðmagnssinni)/capitalist, sósíalisti (ísl. félagshyggjumaður)/socialist.

Tökuorð fá íslenskar beygingarendingar og laga framburð að hljóðkerfinu. Stafsetning tökuorða er íslensk: Bridds, djús, djass, meik, nælon.

Málrækt felur í sér bæði eflingu málsins og  varðveislu/vernd þess.

Málrækt
Málrækt felur í sér bæði eflingu málsins og  varðveislu/vernd þess. Með eflingu málsins er átt við að stækka orðaforða þess og auka fjölbreytni í orðalagi, einnig að styrkja málsamfélagið með því að stuðla að því að málnotendur nái sem bestu valdi á málinu, og enn fremur að styrkja trú á gildi tungunnar. Málrækt er hugtak sem notað er í nánum tengslum við nýyrðastefnu. Varðveisla málsins felst í því að að halda gerð þess óbreyttri og raska ekki stórlega merkingum orða og  orðasambanda og viðhalda þannig samhengi í íslensku máli milli kynslóða.

Málvernd
Málvernd felur í sér  að halda fast við formkerfi málsis, beygingu og orðskipan / setningagerð og jafnvel hljóðkerfi og hljóðskipan. Vegna málverndunarsjónarmiða er litið svo á að málið hafi tekið litlum breytingu milli kynslóða og hver kynslóð lesi mál annarrar fyrirhafnarlítið. Sömuleiðis hefur málið ekki gliðnað í mállýskur eftir landshlutum og stéttum og talmálið stendur ritmálinu nær en gengur og gerist víða erlendis. Málvernd er hugtak sem sprottið er upp í tengslum við hreintungustefnu. Málvernd og málrækt eru greinar á sama meiði.

Málvöndun
Það er nefnt málvöndun þegar menn reyna að haga máli sínu þannig að það gegni sem best því hlutverki sem því er ætlað hverju sinni, sé smekklegt, lipurt og laust við orðalag og orðmyndir sem eiga ekki við í því málsniði sem um er að ræða. Málvöndun  felur þá í sér að nota ekki slettur í vönduðu, formlegu máli þar sem þær eiga ekki við. Málvöndun felst líka í því að kunna málfræðilega skil á réttu máli og röngu og hafa smekk fyrir góðu máli  en forðast vont mál, óviðeigandi, kauðalegt eða klúðurslegt. Rétt stafsetning er þýðingarmikill hluti málvöndunar.

Markmið málræktar
Móðurmál er mönnum andlegt umhverfi og sá sem týnir því glatar hluta af uppruna sínum.

Heimildir
Efni í þessari kynningu er sótt í bækur, blöð og tímarit þar sem fjallað hefur verið um íslenska málstefnu. Þessi rit eru: Íslensk málhreinsun, Mál og samfélag, Skíma 2. tbl. 78 og 1. tbl. 85 og Íslenskt málfar. Ýmist er um beinar tilvitnanir að ræða eða dregið er saman efni úr heimildum. Höfundar þess efnis sem byggt er á eru Ólafur M. Oddson, Kjartan G Ottósson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson og Árni Böðvarsson.

© Efni: Eiríkur Páll Eiríksson.