Ísl 503



 

Bókalisti
Námsáætlun
Málnotkun
Sjálfstætt fólk
Kjörbók
Bókmenntasaga
Þyrnar og rósir
Verkefni
Lokapróf
Glærur

Fjarnám

Hugleiðingar um mál og málstefnu

Tungan og breytingar í tímans rás

Málbreytingar
Spornað er gegn því að málbreytingar gangi greiðlega yfir. Stundum er þetta kallað að amast við nýjungum en oftar en ekki eru kennarar og aðrir gagnrýndir fyrir að sýna málvillum linkind, láta hér sem annars staðar undan! Finnið dæmi hér að ofan í málstefnukaflanum sem skýra af hverju málvillum og málbreytingum er ekki tekið fagnandi í íslensku málsamfélagi.

Málvillur
Ekki eru allar málvillur af sama sauðahúsi. Ekki er t.d. ástæða til að hafa eins þungar áhyggjur vegna ákveðins orðalags sem særir málkennd manns (ambögu) og þeirra breytinga sem kunna að hafa áhrif á allt málkerfið (kerfisvillur / -breytingar).

Orðalagið hér að neðan er dæmi um ambögu, slegið er saman tveim talsháttum, hverjum?

það skeði fyrir mér

En orðalagið sem hér fer á eftir er dæmi um kerfisvillu eða -breytingu sem felst í því að ný tegund þolmyndarsetninga er kannski að verða til í íslensku, a.m.k. í máli yngri kynslóðarinnar. Dæmið er svona:

það var hrint mér

Ópersónuleg þolmynd hefur aðeins verið til ef sögnin í setningunni er áhrifslaus en í fyrrnefndu dæmi er áhrifssögn og því er hún ekki í samræmi við málvenju. Setningin: það var stigið ofan á köttinn er góð og gild enda áhrifslaus sögn í henni.

Málstjórn
Málstjórn er á vegum hins opinbera. Reglur um stafsetningu, barátta gegn flámæli, samning Orðabókar háskólans og rekstur Íslenskrar málstöðvar eru dæmi um málstjórn. Rifjið upp úr málnotkunarverkefni dreifnáms í byrjun annar hvert er hlutverk Íslenskrar málstöðvar, hafið þetta á hreinu. Kennsla í íslensku er líka málstjórn.

Endurnýjun orðaforðans
Farið vandlega yfir hverjar eru helstu aðferðir tungunnar til að auka og endurnýja orðaforða sinn og mæta kröfum nýrra þjóðfélagshátta um orð og hugtök yfir nýjungar. Þetta efni er að finna á heimasíðu áfangans á netinu.

Lærð orðmyndun
Hugtakið lærð orðmyndun er haft um það þegar menn búa til orð af lærdómi sínum og kunnáttu í íslensku máli. Hér má nefna orðin álver, tölva, mótald og jeppi. Höfundar þessara orða eru þekktir og orðin bera kunnáttu þeirra og hugmyndaauðgi vitni.

Virk orðmyndun
Virk orðmyndun er það kallað þegar orð verður til í málinu af sjálfu sér, enginn veit hver höfundur orðsins er. Samsett orð eru algengust í þesu flokki, t. d. log+suða, mynd+varpi, ljós+mynda+vél og flug+umferðar+stjóri. Orðhlutarnir hafa verið til frá alda öðli en ný samsetning þeirra gefur þeim nýja merkingu. Slík orðmyndun er ávöxtur almennrar málræktar og ber vott um líf tungunnar og vaxtarmátt.

Þessi orðmyndun er stundum kölluð hin sjálfsprottna orðmyndun þjóðarinnar.

© Eiríkur Páll Eiríksson