Ísl 503



 

Bókalisti
Námsáætlun
Málnotkun
Sjálfstætt fólk
Kjörbók
Bókmenntasaga
Þyrnar og rósir
Verkefni
Lokapróf
Glærur

Fjarnám

Hugleiðingar um mál og málstefnu

Málsamfélag og málvitund

Máttur orðanna
Orðin og máttur þeirra er viðfangsefni í mörgum trúarbrögðum enda var orðið í upphafi segir í helgri bók. Rík var sú trú forðum að innsta eðli hlutanna jafnt sem lifandi vera byggi í heitum þeirra. Trúin á hin sterku tengsl orðanna og þess sem þau tákna sést óvíða betur en í þjóðsögum. Hver þekkir ekki orðin: Legg ég á og mæli um.

Máttur orða til forna
Kunnið þið einhver dæmi um trú manna á ógnvekjandi mátt orða til forna úr þjóðsögum? Mörg dæmi um mátt orðanna má finna í frásögnum af sjóvítum og áhrínisorðum í Þjóðsögum Jóns Árnasonar I. bindi sem er á bókasafni skólans. Skemmtilegt dæmi um mátt orða í skáldskap er frá upphafi Íslands byggðar og segir frá því að Haraldur Gormsson Noregskonungur ásældist skatt af landinu en hótaði ella að leggja það undir sig. Þá var leitt í lög að yrkja skyldi níð um konung fyrir hvert nef í landinu til að hindra yfirráð hans.

Máttur orðanna í dag
Í hverju felst máttur orðanna einkum í dag? Er eitthvert vit í því á okkar dögum að tala jafnvel um töframátt orðanna? Lesið þemað Myndu ljóð ljóða fljúga mér af vörum í Ljóðmúrnum á bls. 45 um mátt orðanna og svarið svo fyrrgreindri spurningunni. Í fyrrnefndu þema er eitt ljóð eftir Guðberg Bergsson úr ljóðaflokknum Ljóðfórnum til Flateyjar-Freys. Þar segir svo:

Freyr
þeir segja að orðið megi ekki vera í hættulegri umferð
milli manna
fljúga milli fingra tanna augna vinda blóma
lenda í vondum veðrum atast for fjúka fá spark
eins og fótboltinn.
Freyr
við eru knattspyrnumenn orðsins.

Orð og hlutur
Ekkert beint samhengi er milli hlutar (merkingarmiðs) og orðs (hugtaks) nema hjá hljóðgervingum. Hesturinn heitir hestur af því að menn hafa ákveðið svo en ekkert í orðinu kallar á merkinguna. Öðru máli gegnir um plask! og búmm! að ekki sé nefnt hviss!

Mál og þjóð
Hugtök eins og mál og málvitund tengjast hugtökum eins og þjóðerni hjá okkur Íslendingum. Hvernig lýsir þú þessu, nemandi sæll?

Mál og mállýska
Skilgreina má mál og mállýsku bæði málfræðilega og samfélagslega (tvær skilgreiningar). Finndu svarið í orðabók.

Stéttamál
Hvað er stéttamál á Íslandi og hver eru helstu einkenni þess? Finndu svarið í orðabók. Er stéttamál mállýska?

Málkennd
Hvað er málkennd? Finndu svarið í orðabók ef þú þarft stuðning.

Sýndu dæmi um orðalag sem stríðir gegn málkennd þinni.

Hvernig bregst þú við ef opinbera málstefnu og þína eigin málkennd greinir á varðandi málnotkun? Komið með dæmi úr raunveruleikanum.

Rétt og rangt mál
Við hvað er miðað þegar skera á úr um rétt og rangt í máli? Opinberir aðilar, skólar, útvarp, Íslensk málstöð og fleiri byggja álit sitt á hvað sé rétt og rangt íslenskt mál á athugunum á málvenjum. Hvar eru heimildir um slíkt?

Hvert sækir þú fyrirmyndir þíns máls og viðmiðanir?

© Eiríkur Páll Eiríksson