Ísl 503



 

Bókalisti
Námsáætlun
Málnotkun
Sjálfstætt fólk
Kjörbók
Bókmenntasaga
Þyrnar og rósir
Verkefni
Lokapróf
Glærur

Fjarnám

Hugleiðingar um mál og málstefnu

Sögulegar og samtímalegar málbreytingar

Hér á eftir verða nefnd nokkur dæmi um málbreytingar sem eru gengnar yfir og viðurkenndar nú sem rétt mál – sögulegar málbreytingar – og aðrar sem verið er að kljást við nú – samtímanlegar málbreytingar – og ekki viðurkenndar sem gott og rétt mál.

Viðukenndar breytingar
Byrjum á þeim breytingum sem eru viðurkenndar af langri hefð en einu sinni var breytingin nýjung þótt hún sé nú skoðuð í sögulegu ljósi.

Margar sterkar sagnir eru nú beygðar veikt en voru áður beygðar sterkt. Dæmi: reit>ritaði; þó>þvoði; skóp>skaði; barg>bjargaði; halp<hjálpaði

Orðið jú kom í stað nei í neitandi spurnarsetningum ef svarið var jákvætt. Dæmi: Finnst þér hún ekki falleg? Nei! = Finnst þér hún ekki falleg? Jú!

Nokkur orð hafa skipt um beyginagarendingar. Dæmi: dalar>dalir; refar>refir; gjafir>gjafar

Eignarfall persónufornafns hefur útrýmt öllum gömlu eignarfor-nöfnunum eins og okkarr og ykkarr: Dæmi Við sáum son okkarn (efn.) Við sáum son okkar (pfn. ef.)

Breytingar sem ekki eru viðurkenndar
Eftirfarandi mál er ekki viðurkennt í samtímanum:

Þágufallssýki
Amast er við þágufalli með ópersónulegum sögnum sem taka með sér þolfall samkvæmt málvenju. Nefndu dæmi um þetta.

Beygingarvillur
Amast er við rangri beygingu margra nafnorða og sagna. Oftast eru það frændsemisorðin og nöfn á húsdýrum sem rangt er farið með en sagnir eru af ýmsum toga: vilja, hanga, heyja (stríð), valda, kala, hlakka, kvíða o.s.frv.

Fornöfnin annar hvor / hver
Fornöfnin annar hvor / hver eru oft gerð að einu orði og notuð í sama falli. Það er ekki í samræmi við málvenju. Fornöfnin í orðasam-bandinu hvor / hver annar hafa hvort sína beyginguna sem ræðst af öðrum orðum í þeirri setningu sem þau eru hluti af.

Hvor / hver stendur ævinlega í sama falli og orðið sem vísað er til. Forsetning eða áhrifssögn ræður fallinu á annar.

Þeir börðu hvor / hver annan. (Þ..e. hvor / hver barði annan.)
Þeim atti hann hvorum / hverjum á annan. (Þ.e. hvorum / hverjum var att á annan.)
Þær slógu hver / hvor til annarrar. (Þ.e. hver / hvor sló til annarrar.)
Þau sakna hvort / hvert annars. (Þ.e. hvort / hvert saknar annars.)

Í bæði talmáli og ritmáli er algengt að fara rangt með beygingu þessara fornafna. Mest ber á þvi að bæði fornöfnin séu í sama falli og stjórnist hvorutveggja af forsetningu eða áhrifssögn. Þannig líta þá dæmin okkar hér að framan út:

Þeir börðu hvorn annan. (?hvorn barði annan!)
Hann atti þeim á hvorn annan. (?hvorn var att á annan!)
Þær slógu til hvorrar annarrar (?hvorrar sló til annarrar!)
Þau sakna hvors annars (?hvors saknar annars!)

Fornöfnin sinn hvor / hver
Sama gildir um fornöfni sinn hvor / hver. Þegar eignarfornafnið sinn er notað í afturbeygðri merkingu með fornafninu hver / hvor ber nokkuð á því að að ekki sé allt sem skyldi varðandi rétta málnotkun. Þessi fornöfn eiga að hafa hvort sína beyginguna og fer hún eftir tengslum þeirra við önnur orð í setningunni.

Málnotkunarreglan er sú að sinn, eignarfornafnið vísar til eignarinnar en hver / hvor til eigandans. Athugum dæmi:

Þeir tóku sinn bílinn hvor. (Þ.e. hvor tók sinn bílinn.)
Þær eiga sína íbúðina hvor. (Þ.e hvor á sína íbúðina.)
Þau þvoðu sitt hjólið hvort. (Þ.e. hvort þvoði sitt hjólið.)
Hann svipti þá sinni eigninni hvorn. (Þ.e. hann svipti hvorn sinni eigninni.)
Þeir gáfu þeim sína gjöfina hvorri. (Þ.e. þeir gáfu hvorri sína gjöfina.)

Ef við athugum þessi dæmi sjáum við að eignarfornafnið á greinilega við það sem við getum nefnt eignina en fornafnið hvor / hver á við eigandann.

Nokkuð ber á því að farið sé með þessi fornöfn sem eitt væri og notað ýmist ókynbeygt fornafn sitthvor eða kynbeygt fornafn sinnhvor og notað sem eitt fornafn sé. Í báðum tilfellum er aðeins síðari liður beygður eftir kyni, tölu, og falli. Athugum dæmi:

Þeir eiga sitthvorn bílinn – sinnhvorn bílinn.
Þær eiga sitthvora íbúðina – sínhvora íbúðina
Þær þvoðu sitthvort hjólið – sitthvort hjólið
Hann svipti þá sitthvorum bílnum – sinnhvorum bílnum

Þessi málnotkun fellur ekki í góðan jarðveg hjá öllum. Allir ættu a.m.k. að reyna að skilja á hverju rétt málnotkun byggist.

Afturbeygða fornafnið
Tilvísun afturbeygða fornafnsins er einnig undir smásjá þeirra sem fara vilja rétt með málið að fornri málvenju.

Þegar eignarfornafnið sinn er notað í afturbeygðri merkingu er fornafnið látið vísa til orðs, venjulega frumlags eða andlags, sem áður er komið í setningunni. Þetta er einfalt þegar vísað er til frumlags í setningu en til annars en frumlags er vísað með eignarfalli persónufornafns. Athugum dæmi:

Hann tók hattinn sinn. (sinn eigin hatt)
Hann tók hattinn hans. (hatt einhvers annars)

Stundum ber þó nokkuð á því að að tilvísunarorðið sinn sé notað þegar nota á eignarfall af persónufornafni. Þetta er af mörgum talið til mállýta og ber mest á slíku þegar tilvísunin verður í setningu með vissum sögnum í framsöguhætti. Í verkefninu hér á eftir gefst kostur á að athuga hvað ykkur finnst eðlileg málnotkun.

Strikaðu yfir það tilvísunarorð sem þér finnst ekki passa í eftirfarandi setningum.

Maðurinn sem hélt að kona sín / hans væri hattur
Hann er alveg eins og pabbi sinn / hans
Hann veit að enginn þekkir nafn sitt / hans
Hún sér hvar bóndi sinn / hennar stendur við trogið
Þá veit hún að maður sinn / hennar er kominn
Þau skildu að foreldrar sínir / þeirra voru einskis megandi

© Eiríkur Páll Eiríksson