Ísl 303



 

Ísl 303

Handrit og efni
Bragarhættir
Að lesa eddukvæði
Hávamál
Völuspá

Sölvi Sveinsson

Allt veit eg, Óðinn
Hugleiðingar um Völuspá og túlkun hennar

Á þessum blöðum er fjallað um varðveizlu Völuspár og samhengi kvæðisins og varpað fram nokkrum túlkunarmöguleikum.

Völuspá er einstök meðal heimilda um norræn trúarbrögð að fornu, langt kvæði og fjallar um sköpun heims, upphaf manna, en þó sýnu mest um goðin sjálf, hvernig þau koma reglu á veröldina, átök þeirra við jötna og hvernig þau valda því síðan með breytni sinni, að heimur ferst og mestallt líf slokknar, jörðin sekkur í sæ, en rís síðan úr hafi iðjagræn og fögur, líf og regla sigra á nýjan leik, hvað svo sem framtíð ber í skauti. Það er grundvallaratriði í norrænum trúarbrögðum, að heimsendir er hluti af sjálfri sköpuninni, kosmólógíunni. Að því leyti er ásatrúin einstök meðal evrópskra trúarbragða.1*

Völuspá er stórbrotið kvæði. Það er ekki til í upprunalegri mynd, því að grundvallarhugsun kvæðisins varðveittist um aldir í munnlegri geymd, hver kynslóð hafði kvæðið í sinni gerð; trú, menning og lífsviðhorf að öðru leyti mótuðu það. Beztu handrit Völuspár eru Konungsbók eddukvæða, skráð á seinni hluta 13. aldar, og Hauksbók, sem skrifuð var á fyrri hluta 14. aldar; þær eru að mestu með sömu erindi, en talsverður orðalagsmunur á einstökum vísum. Völuspá Hauksbókar er einni vísu lengri. Báðar þessar uppskriftir eru skráðar af kristnum mönnum þegar forn átrúnaður átti í vök að verjast. Augljóst virðist, að eitthvað hefur glatazt frá því kvæðið var lifandi hluti orðlistar landsmanna. Snorri tilfærir á fjórða tug erinda úr Völuspá í Eddu sinni, og standa þau nær Hauksbók en Konungsbók. Kristileg áhrif eru sterkari í Hauksbók; m.a. er kaflinn um ragnarök lengri og ítarlegri.2*

Kvæðið er reist á goðsögnum, sumum eldgömlum, og eru þær náskyldar sambærilegum sögnum í ýmsum indóevrópskum trúarbrögðum. Að því leyti er kvæðið túlkun á fornum goðsögnum í bland við áhrif nýrra trúarbragða og utanaðkomandi menningar af öðru tagi. Búningur kvæðisins er listrænn og felldur frjálslega í skorður fornyrðislags, eldforns bragarháttar, sem hentaði til að fræða uppvaxandi kynslóð. Þær gerðir, sem skráðar voru á 13. öld, tolla vísast betur í bragreipum en tíðkaðist fyrir ritöld; fornyrðislag á gömlum rúnaristum er þó býsna þjált.

Völuspá er stundum talin ort á mótum tveggja siða, „höfundur“ hafi verið heiðinn, en þekkt vel kristni. Sigurður Nordal ætlaði, að kvæðið væri ort á Íslandi skömmu fyrir árið 1000, og svo telja fleiri fræðimenn vera.3* Þeir ætla, að kvæðið sé verk ákveðins höfundar. Ekki má festa augu of mikið við ártalið 1000 þótt kristni hafi þá verið lögfest á alþingi. Norrænar þjóðir höfðu kynni af Kristi kóngi í nokkrar aldir áður en þær gengust undir vald páfa, og gamall siður lifði í landinu, þótt annar væri lögfestur. Sú Völuspá, sem hér var færð á bók, „varð til“ hérlendis í þeim búningi, sem komst á bókfell, líklega um 1200, en þá var kristin trú rótgróin í landinu þótt forn trú hafi án efa átt hlutdeild í guðsdýrkun landsmanna. Kvæðið kann að hafa verið ort löngu fyrr í upprunalegri mynd sinni, en hún er ekki til. Ritlist varð töm lærðum mönnum á 11. og 12. öld, en hún raskar öllum hefðum lifandi orðlistar.

Leit að höfundi gagnslaus og verður ekki til þess að auka skilning á kvæðinu. Mergurinn málsins er, að Völuspá er reist á gömlum grunni, og hugmyndir kvæðisins voru hluti af menningu norrænna manna um aldir, en þeir hafa orðað hugsun sína í mismunandi erindi innan sama ramma. Hver kynslóð felldi í sínar skorður margvísleg menningaráhrif þótt einn maður hafi um vélt þegar kvæðið var skráð fyrsta sinni.

Eitt er ljóst. Áheyrendur kvæðisins voru handgengnir goðsögnum, því að ella hefði kvæðið verið of torskilið og myrkt til þess að það fengi lifað af kristniboð og nýjan sið. Kvæðið krafðist þess af áheyrendum, að þeir kynnu skil á goðsögnum, sem tæpt er á. Margar þeirra eru í öðrum heimildum, en aðrar eru einungis í kvæðinu, svo sem síðar verður vikið að.

Á 13. öld og líklega fyrr fór dróttkvæður skáldskapur að falla í skuggann fyrir öðrum bókmenntum, helgisögum, Íslendingasögum, fornaldarsögum og ekki sízt suðrænum bókmenntum, einkum riddarasögum. Snorri skrifaði Eddu til þess að styrkja hefðina, dróttkvæðin. Margar kenningar og heiti eiga rætur í fornum trúarbrögðum og goðsögnum og án þekkingar á fornum átrúnaði var ekki unnt að bera dróttkvæði fram til sigurs.

Völuspá er heimskvæði hins forna átrúnaðar, lýsir sögu veraldar frá vöggu til grafar, ef svo má segja, rétt eins og Lilja og ótal fleiri helgikvæði kristinna manna. Því var jafnbrýn þörf að skrá Völuspá eins og Eddu til þess að styrkja þann kveðskap, sem sótt var að. Það er svo alkunna, að dróttkvæði liðu undir lok, en bragformið lifði í helgikvæðum.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að endurbæta Völuspá, raða vísum á annan hátt en handrit segja til um, leiðrétta orðalag á stöku stað o.s.frv. Í því sem hér fer á eftir er stuðzt við útgáfur Ólafs Briems (2. útg., Rvk. 1976) og Gísla Sigurðssonar (2. útg., Rvk. 1987) á kvæðinu; númer erinda eru miðuð við útgáfu Ólafs, sem algengust er í skólum landsins.

Rammi kvæðisins og stef

Völuspá heitir kvæðið, og rammi þess er frásögn völvunnar og spá. Í 28. erindi kvæðisins er vísað til upphafsins, tilefnisins. Óðinn kemur og vill að völvan skyggnist inn í framtíðina. Hann nær valdi á henni, vegna þess að hann sér hana fyrr en hún hann; hann horfir í augu hennar og nær stjórn á huga hennar:

Ein sat hún úti,
þá er inn aldni kom
yggjungur ása
og í augu leit:
Hvers fregnið mig?
Hví freistið mín?
Allt veit eg, Óðinn...

Hér ávarpar völvan Óðin með réttu nafni, en hún notar oft heiti, sem lýsa ákveðnum eiginleikum guðsins, einkum stríðslyst hans: Valföður, Herföður, Sigföður, Herjan. Í fyrsta erindi kvæðisins ávarpar hún Óðin, önnur goð og alla menn, en allt fram að 29. erindi er Óðinn að prófa þekkingu hennar. Hún þylur vitneskju sína og hefur hana frá jötnum, sem ólu hana upp. Jötnar eru elztu verur í heimi og eru þess vegna vitrastir; þeir kunna skil á allri sögu heimsins. Ætt þeirra hefur varðveitt alla reynslu lífsins, og völvan býr yfir þessari vizku, bæði lifandi og dauðra. Völvan kallar sig ýmist hún eða eg. Hún er hundgömul og veit deili á sköpun heims og manna, gerir glögga grein fyrir sælu og sakleysi í goðheimi, hvernig guðir komu reglu á veröldina, hversu öllu fór síðan hnignandi hjá þeim vegna aðgerða jötna, en ekki síður vegna breytni þeirra sjálfra.

Völvan sannar Óðni þekkingu sína með þeim ágætum, að hann gefur henni gjafir (29. er.), og þá hefst nútíðarsýn völvunnar, og hún einkennist af óheillavænlegum fyrirboðum, dauða Baldurs, refsingu Loka og aðdraganda ragnaraka. Eiginleg spá hefst með 44. erindi þegar völvan skýrir frá því, að hún sjái römm ragnarök sigtíva, dauða goða. Hún spáir ragnarökum, lýsir atburðarás, sér goðin falla og jörð sökkva í sæ, en hún greinir líka frá upprisu jarðar úr hafi, hvernig hin sælu goð birtast á nýjan leik og setjast að í fögrum heimi, án ills að séð verði.

Lokaerindi kvæðisins markar upphaf þeirra atburða, sem völvan hefur séð í nútíð og framtíð: Hinn dimmi dreki kemur fljúgandi neðan frá Niðafjöllum og ber nái í fjöðrum sér. Þetta er fyrirboði þess sem koma skal, heimsendir er í aðsigi, spá völvunnar verður veruleiki, og hún sekkur í jörðu.

Gísli Sigurðsson leiðir því rök, að orðalagið Ein sat hún úti, / þá er inn aldni kom beri að skilja svo, að völvan nái tökum á Óðni. Völvur og seiðskrattar sátu úti til að leita frétta úr huldum heimum. Það hefur völvan gert svikalaust, hún nær valdi á Óðni, því að nú veit hún leyndarmál hans.4* Þessi túlkun leiðir til rökrétts skilnings á kvæðinu, en ég hallast að fyrri skýringunni.

Af byggingu kvæðisins leiðir, að það er í þremur tímaþáttum, og hver hefur sitt stef. Fyrst er vikið að fortíð, og stefið í þeim þætti er margendurtekið: Þá gengu regin öll / á rökstóla, / ginnheilög goð / og um það gættust... Í öðrum hluta víkur völvan að samtíðinni, og stefið er ógnvekjandi og storkandi, eins og Nordal sagði5*: Vituð ér enn – eða hvað? Óðinn neyðir hana til að tala. Það sem hún segir er illt, og hún vill komast hjá því. Loks er framtíðin á vörum völvunnar með viðlagi: Geyr Garmur mjög / fyr Gnipahelli, /festur mun slitna, / en freki renna.

Rökstólar hefur bókstaflega þá merkingu, að þar sitja menn og rekja málavöxtu, leita sér ráða fremur en dæma. Þetta stef er endurtekið fjórum sinnum. Ævinlega eiga goðin þá vanda fyrir höndum, og sífellt eykst ógnin. Í fyrsta skipti er tilgangurinn að koma skipulagi á tímann. Öðru sinni er sköpun dverga á dagskrá. Næst er stefið endurtekið þegar æsir afráða að heyja stríð við vani, og loks þegar borgarsmiðurinn er í það mund að öðlast Freyju, Sól og Mána fyrir vinnu sína.

Vituð ér enn – eða hvað? Hafið þið heyrt nóg – eða viljið þið heyra meira? Þetta stef er endurtekið níu sinnum, og sjö sinnum stendur það í vísulok sem rökrétt spurning eftir ógnvænlega frásögn. Síðast birtist það undir lok kvæðisins þegar lýst er þeirri sælu veröld, sem risin er úr sæ eftir ragnarök og Baldur og Höður búa saman í nýrri Valhöll. Það er vísbending um, að ekki muni eilífur friður ríkja í nýjum heimi. Meira um það síðar.

Lokastefið, Geyr Garmur mjög... birtist fyrst í 44. erindi, þegar völvan tekur til við að lýsa framtíðinni, aðdraganda ragnaraka og ítrekar þekkingu sína: Fjöld veit hún fræða / fram sé eg lengra... Þessi vísa er endurtekin í heild sinni, ögn breytt: Geyr nú Garmur mjög... Þessi breyting færir atburði nær en ella, þeir eru að gerast núna, og það eykur þrótt stefsins, sem síðan er endurtekið tvisvar sinnum, fyrst þegar Fenrisúlfur hefur fellt Óðin, en síðan eftir að jörð er sokkin í mar og eldur leikur við sjálfan himin. Þar verður stefið eins konar millispil á undan þeirri friðsemd og alsælu, sem einkennir upprisu veraldarinnar eftir ragnarök.

Geyr nú Garmur mjög / fyr Gnipahelli. „Þá er og laus orðinn hundurinn Garmur er bundinn er fyrir Gnipahelli,“ segir Snorri í Eddu. „Hann er hið mesta forað. Hann á víg móti Tý og verður hvor öðrum að bana.“ Ekki minnist Snorri annars staðar á Garm og Gnipahelli, og hellisins er ekki getið í öðrum eddukvæðum. Hins vegar stendur í Grímnismálum, að Garmur sé æðstur hunda. Garmur „er hunden som er lenket utenfor nedgangen til underverdenen,“ segir Anne Holtsmark í skýringum sínum við Völuspá.6* Þessi skýring er líkleg. Ýmsir hafa skilið stefið svo, að Garmur sé sjálfur Fenrisúlfur: festur mun slitna, en freki renna. Úlfurinn losnar og tekur þátt í lokabaráttu jötna og guða. Garmur þarf hins vegar ekki að hafa verið bundinn skv. orðanna hljóðan í erindinu. Fremur ber að skilja erindið svo, að Garmur geyi fyrir Gnipahelli, en festur vísi til fjöturs á Fenrisúlfi, Gleipnis, sem nú brestur og úlfurinn losnar. Mér finnst nærtækast að líta á Garm sem hliðstæðu Kerberos hins gríska, hundsins, sem gætir heima Hadesar og tekur vel móti vegfarendum, en líkist skrímsli ef einhver reynir að sleppa út. Hann er reyndar þríhöfða og hefur orm í rófu stað. Herakles barðist við Kerberos og hafði betur.

Gnípa er gnæfandi fjall, og hellir í slíku bergi er kjörinn inngangur að þeirri skuggaveröld, sem undirheimar voru í huga fornmanna, rétt eins og Hekla varð höfuðanddyri Helvítis síðar meir. Hvað er eðlilegra en Garmur geyi, þegar allur heimur leikur á reiðskjálfi? Hann er eins og hundur á hlaði sem geltir þegar gests er von. Nema hann gjammi að þeim sem vilja snúa frá Hel og varni þeim vegar eins og Kerberos.

Talan níu

Níu man eg heima, segir völvan, níu íviðjur, og er engin skýring einhlít á orðinu. Talan níu hlýtur að hafa verið mönnum heilög, svo oft sem hún kemur fyrir í mörgum trúarbrögðum. Hér verða nefnd örfá dæmi úr norrænni og grískri goðafræði. Sjálfur Óðinn hékk níu nætur í trénu og nam fimbulljóð níu. Heimdallur var sonur níu mæðra. Gerður Gymisdóttir lofar Skírni að hitta Frey í lundinum Barra „eft nætur níu“. Níundu hverja nótt drupu átta hringar af Draupni, jafnhöfgir og hann var sjálfur. Hermóður reið til undirheima til að heimta Baldur úr Helju. Hann var níu nætur á leiðinni. Ægir og Rán eiga níu dætur. Áin Styx vatt sig níu sinnum utan um undirheima Hadesar, bróður Seifs Ólympsgoðs. Tartaros heitir þar sem ríki Hadesar er dýpst, en það er jafnlangt niðri í jörðu og himinn er henni efri. Steðji er níu daga að falla niður í Tartaros. Seifur lá níu nætur með Mnemosine. Blótin miklu í Uppsölum og Hleiðru voru níunda hvert ár.

Níu man eg heima, segir völvan. Vafþrúðnir jötunn er margvitur, af því að hann hefur komið í hvern heim, níu kom eg heima / fyr Niflhel neðan segir hann í ljóðmálum, sem við hann eru kennd. Þetta má skilja og túlka á ýmsa vegu. Sannfærandi kenning er á þá lund, að sú trú yrði ríkjandi þegar menn fóru að erja akur, að veröldin fæddist, þroskaðist og dæi eins og korn á akri, blóm í varpa eða mannskepnan, en endurfæddist síðan hlaðin lífi og orku og sama þróun hæfist að nýju og síðan koll af kolli. Í þessum skilningi höfðar völvan til aldurs síns og reynslu, hún man ekki einungis tímana tvenna heldur líf níu veralda.

Völvan er af jötnakyni, en jötnar eru nátengdir undirdjúpunum. Þar er ríki dauðra og upphaf vizkunnar, því að hún er safn af lífi hinna dauðu. Í bóklausri veröld færðist reynsla kynslóðanna milli manna, en safnaðist ekki í handrit eða bækur. Hinir gömlu miðluðu henni áður en þeir fóru af þessum heimi; meðal þeirra bjó öll vizka manna. Þess vegna voru þeir grafnir heima í landi ættarinnar. Vizka þeirra og reynsla nýttist hinum sem eftir voru í krafti fórna og dýrkunar.

Vafþrúðnir kom í níu heima fyrir neðan Niflhel. Áin Styx rennur í níu sveigum umhverfis dimma og drungalega veröld Hadesar, Hermóður var níu nætur til Heljar. Hér er talan til þess fallin að lýsa víðáttum undirheimanna fremur en að dauðir hafi deilzt í níu staði, hvern upp af öðrum. En vel má skipta heimsmynd Völuspár og Eddu Snorra í níu heima: (1) Miðgaður eða mannheimur, (2) Ásgarður, veröld ása, (3) Vanabyggð, bústaðir Njarðar, Freys og Freyju, (4) Útgarður, heimur jötna, (5) Álfheimur, sem er tengdur Frey, (6) Veröld dverga í steinum og klettum, (7) Niflheimur, dvalarstaður dauðra hjá Hel, (8) Náströnd, dvalarheimur morðvarga, meinsvara og flagara eftir dauðann, (9) Valhöll, sæluveröld vopnbitinna manna.8*

Talan níu er einnig sérstök af öðrum ástæðum. Fóstur er níu mánuði að vaxa og þroskast í skauti móður. Þetta undur lífsins var mönnum mæta vel ljóst, og snar þáttur í frjósemisdýrkun bænda og búaliðs var að viðhalda sköpunarmætti jarðar og viðkomu búpenings. Þeir virðast hafa trúað því, að veraldarhjólið snerist sinn hring á níu árum. Þess vegna voru höfuðblót á níu ára fresti.

Hugmyndir manna um dauðann eru fjarska ólíkar. Í frjósemisdýrkun fornaldar var dauðinn gildur þáttur, hann var hinn mikli andstæðingur, í senn upphaf og endir, því að í dauðanum endurfæddust menn. Risavaxnar steindysjar víða í Evrópu eru stórbrotin minnismerki um dauðradýrkun, eins og ríkulegar skipsgrafir frá víkingaöld. Í hinni fornu borg Jeríkó hafa fundizt grafir undir gólfskán híbýla. Líf og dauði voru eitt, menn komu frá dauðanum til lífsins fyrir gæzku skaparans og hurfu til hans aftur þegar nóg var lifað.9*

Óðinn hékk níu nætur í tré, fórnaði sér sjálfum sér. Þannig varð hann fróður, hann nam níu fimbulljóð. Þetta er hægt að túlka svo, að hann hafi „ferðazt“ um lífið og skyggnzt í veröld hinna dauðu, öðlazt vizku þessa heims og annars, endurfæðzt. Þessi hugsun er ekki bundin við norræn trúarbrögð. Ýmsir þjóðflokkar indíána höfðu þann sið að lyfta líki níu sinnum á leið til grafar. Þeir trúðu því, að þannig væri hinn látni færður á fósturstig og honum auðvelduð endurfæðing til annars lífs handan grafar.

Meginblót voru haldin níunda hvert ár í Uppsölum og Hleiðru og sjálfsagt víðar, af því að þá endurfæddist veröldin. Þau stóðu í níu daga, og fórnardýrin voru m.a. hengd í tré, líklega til að endurtaka hina fyrstu fórn, er Óðinn hékk í trénu, sjálfu lífstrénu, hinum mæra mjötvið, sem völvan man fyr mold neðan, aski Yggdrasils. Þessa sér stað í dýrkuninni. Goðsagnir um Óðin tengja hann ótvírætt dauða, vizku, töfrum. Hann er í senn dauðinn og holdgerving þeirrar vizku, sem bjó í heimum dauðra, og helgistaðir hans eru gjarnan trjálundir.

Hinn mæri mjötviður

Trú á tré eða guðdóm, sem bjó í tré, er ævaforn og á líklega rætur til þess að rekja, að margar trjátegundir verða gamlar, þær þroskast og dafna meðan kynslóðir manna fæðast, eldast og deyja. Þessi trú öðlaðist nýtt og aukið mikilvægi þegar menn fóru að rækta jörðina. Þá efldist sá heimsskilningur, að veröldin væri eins og gróður jarðar, lifandi heild, sem fæddist, dafnaði og dæi. Tákn þessarar heildar varð tré í miðju veraldar, sem teygði rætur sínar um myrkustu undirdjúp, en greinar námu við sjálfan himin. Það tengir saman öll svið heimsins, himin, jörð og undirdjúpin. Guðsdýrkun manna beindist að því að tryggja um eilífð hringrás náttúrunnar, ekki einungis gróður- og dýralífs, heldur og lífstrésins, heimsins sjálfs. Þessi trú er þekkt meðal margra fornþjóða.
Mjötviður mær, hið ágæta metatré, mælitré. Orðið mæla er tvírætt í þessu samhengi. Annars vegar táknar það rúm: Það náði jafnlangt og heimurinn, það var veröldin sjálf í lifandi heild, yztu takmörk hennar á alla vegu. Það er heiðvanur helgur baðmur, segir í 27. vísu, heilagt tré, sem teygir sig um heiðið, himininn. Og rætur þess smugu um alla heima og enduðu í brunnum, en germanskar þjóðir höfðu átrúnað á lindum eða vættum, sem þar bjuggu. Hins vegar er sögnin að mæla notuð um tíma og í þeirri merkingu vísar tréð beint til örlaganna: heimur stendur jafnlengi og tréð.

Heimsendir á sér aðdraganda, en allt leikur á reiðiskjálfi þegar jötnar leggja til atlögu. Ætla má, að 46. vísa Völuspár lúti að þessu:

Leika Míms synir,
en mjötuður kyndist
að inu galla
Gjallarhorni.
Hátt blæs Heimdallur,
horn er á lofti,
mælir Óðinn
við Míms höfuð.

Ég tel, að þessa vísu eigi að taka saman á þá lund, að Míms synir leiki lausum hala, en þeim er ekki leikur í hug, eins og framhald vísunnar sýnir, síður en svo. Örlagadómurinn er kynntur (mjötuður kyndist) þegar Heimdallur blæs hvellt í Gjallarhorn, sem hann hefur endurheimt. Hér steðjar ógnin að. Heimdallur varar heimsbyggðina við, og í næstu vísuorðum er áréttað, hversu ítarlega hann gengur til verks, hann blæs hátt, horn er á lofti þá loksins hann fær það í hendur. Áhrif þessa birtast í næsta erindi. Hið aldna tré ymur og skelfur, stendur þó enn um hríð. Sjálfum heimi er ógnað, ekki einungis goðum og mönnum. Um síðir verður tréð Surti að bráð, eldjötninum, eftir að hann hefur vegið Frey, tákn frjóseminnar. Þá geisar eldurinn í askinum, eins og segir í 58. vísu, og leikur við himin. Þá er tími heimsins mældur á enda, hann ferst.

Öndvegissúlur eru upphaflega tákn fyrir heimstréð fremur en goðastyttur, þær eru burðarásar heimilisins eins og tréð er kjölfesta heimsins. Í öndvegi á húsbóndi sæti, en við eina rót asksins áttu æsir þing þegar mikið lá við; hjá Urðarbrunni þar sem örlaganornir bjuggu. Heimilið laut stjórn húsbónda eða ættarhöfðingja, sem á undir gæzku guðanna að sjá fólki sínu farborða. Í skjóli heimstrés, öndvegissúlna, gat húsbóndi tekið þær ákvarðanir, sem leiddu farsæld yfir heimilið. Það hefur styrkt mátt öndvegissúlna að skera í þær myndir af goðum eða vættum, sem húsbændur töldu fulltrúa sína.

Sköpun heims og örlög

Völuspá greinir öðruvísi frá sköpun heims en önnur eddukvæði og Snorri í Eddu sinni. Ár var alda / það er ekki var, segir í Hauksbók, en í Konungsbók stendur ár var alda / þar er Ýmir byggði. Þessi mismunur sýnir, að heiðnum mönnum voru kunnar ólíkar goðsagnir um sköpun veraldar.

Indóevrópskar þjóðir skýrðu uppruna heimsins með ýmsu móti, en algengast er, að veröld rísi úr sæ, eins konar fyrsta hafi, frumsæ; ýmsir þjóðflokkar indíána eru sama sinnis. Úr ringulreið, sem ríkti í öndverðu, verður regla. En jörðin er líka sköpuð með öðrum hætti, úr eins konar frumveru, sem leggur til efniviðinn og verður jafnvel hin fyrsta fórn. Fleiri hugmyndir eru til, en þær verða ekki raktar hér. Höfundur Grímnismála og Snorri styðjast við sams konar goðsagnir: heimurinn er gerður af frumverunni Ými. Í Konungsbók er Ýmir nefndur, en ei að síður lyfta Burs synir landi úr sæ, eins og í Hauksbók, en af öðrum heimildum verður ráðið, að þeir eru Óðinn og bræður hans.

Guðirnir koma síðan reglu á gang himintungla, en með því móti einu var hægt að fylgjast með tíma; slík þörf vaknaði þegar menn byrjuðu að rækta nytjajurtir, og gangur tungls varð grundvöllur tímatals (sbr. máni/mánuður). Á Iðavelli reistu guðir hörg og hof. Þar með getur dýrkun þeirra hafizt, fórnin, en í hana sækir heimurinn lífskraft, ella leitaði veröldin aftur í sama far, ringulreið. Guðirnir stofna því sjálfir til fórnarathafnarinnar. Þeir smíðuðu gripi úr gulli, þeim var einskis vant úr þeim eðalmálmi:

Tefldu í túni,
teitir voru,
var þeim vettergis
vant úr gulli,
unz þrjár kómu
þursa meyjar
ámáttkar mjög
úr Jötunheimum.

Sameiginlegt er öllum trúarbrögðum, sem indóevrópskar þjóðir aðhylltust að fornu, að sú regla, sköpunin, sem guðirnir koma á, er í hættu. Ýmis öfl reyna að tortíma veröldinni, færa ástandið í fyrra horf, til ringulreiðar. Jötnar eru andstæðingar ása og eru þó sömu ættar, en það á sér hliðstæðu í m.a. grískum og öðrum indóevrópskum trúarbrögðum. Mjög margar goðsagnir, bæði hjá Snorra og í eddukvæðum, greina frá átökum jötna og ása, einkum Þórs. Hlutverk hans er að verja ríkjandi skipan, halda jötnum í skefjum.

Vísan hér að ofan bendir til goðsagnar um þrjár þursameyjar, en hún er týnd. Hvorki Snorri né aðrir fornir höfundar hafa skráð goðsagnir, sem geta skýrt þessa vísu. Á hinn bóginn var kvæðið flutt fyrir menn, sem hljóta að hafa vitað til hvers er vísað, verið ljóst mikilvægi atburða og ekki þurft nánari útskýringar. Vísan hefur m.a. verið skilin á þann veg, að guðir hafi lifað áhyggjulausu lífi og verið glaðir; tafl er hér tákn um leik, allt er komið á sinn stað í veröld, guðirnir hafa smíðað sér gripi úr gulli, sem er hinn dýrasti málmur. Leikur þeirra lýsir sakleysi og áhyggjulausu lífi. En síðan koma þrjár þursameyjar úr jötunheimum, mjög aðgangsharðar, öflugar. Samkvæmt orðanna hljóðan má skilja vísuna svo, að þursameyjarnar hafi brotizt inn í sæluveröld ása. Og eftir komu þeirra verður heimurinn aldrei samur.

Sjöunda vísa hljóðar svo:

Hittust æsir
á Iðavelli,
þeir er hörg og hof
hátimbruðu;
afla lögðu,
auð smíðuðu,
tangir skópu
og tól gerðu.

Var þeim vettergis / vant úr gulli er rökrétt framhald þessa erindis. En þeir tefldu í túni og voru teitir unz þrjár þursameyjar komu til sögunnar. En hverjar voru þær?

Í 9. erindi er fortíðarstefið endurtekið, en seinni hluti vísunnar er tvíræður:

Þá gengu regin öll
á rökstóla,
ginnheilög goð,
og um það gættust,
hver skyldi dverga
dróttir skepja
úr Brimis blóði
og úr Bláins leggjum.

Gro Steinsland túlkar vísuorðin á þá lund, að goðin ræði um hver eigi að skapa dverga dróttir, dvergana, og niðarstaða þeirra verði sú, að það skuli Mótsognir og Durinn gera, sbr. 10. vísu. Tryggvi Gíslason bendir á, að taka megi línurnar saman á þessa lund: hver dverga skyldi skepja dróttir, hvaða dvergur skyldi skapa menn, og það er Durinn sbr. 10. erindi. Þessi tilgáta Tryggva er sennileg, því að dróttir er einungis notað um menn í fornu máli.10* Hjá Snorra kemur fram, að dvergar höfðu kviknað í holdi Ýmis, án tilverknaðar guða að séð verði. Skv. þessum skilningi skapa dvergar menn í 10. erindi:

þeir mannlíkun
mörg um gerðu
dvergar úr jörðu,
sem Durinn sagði.

Í næstu erindum eru talin nöfn dverga, og sú þula er oft talin innskot skrifara, gjarnan með þeim rökum, að höfundur Völuspár sé að jafnaði svo spar orða, að nafnaruna sem þessi hafi verið huga hans fjarri. Gísli Sigurðsson bendir á, að nafnaþulur sem þessar hafi átt að magna seið völvunnar, „hjálpað henni til að ná sambandi við annan heim.“11*

Í goðsögnum eru dvergar einkum smiðir, búa í björgum og eru goðum yfirleitt vinveittir. Hlutverk þeirra í heimsrásinni er að smíða, en ekki af því að guðirnir hafi glatað þeim hæfileika. Nú þarf hins vegar meira til. Meðal kostagripa, sem dvergar smíða af hagleik sínum, eru Mjölnir og Gungnir, ógnvekjandi vopn Þórs og Óðins, Skíðblaðnir skipa beztur og hár Sifjar, svo nokkuð sé nefnt, en ekki sízt Gleipnir, sem heldur föngnum Fenrisúlfi; Snorri segir raunar, að svartálfar hafi smíðað fjöturinn.

Að loknu dvergatali kemur 17. erindi þar sem goðin

fundu á landi
lítt megandi
Ask og Emblu
örlöglausa.

Þetta ættu að vera hinir fyrstu menn, þeir sem dvergarnir mótuðu, og er Askur lítt megandi og Embla örlöglaus. Askur og Embla eru dauð, af því að þau skorti önd, sál og blóð. Óðinn, Hænir og Lóður gáfu þeim lífsanda og sál, lá og læti og litu góða. En þar með lifnuðu þau ekki, meira þurfti til. Næst er vikið að askinum til þess að kynna Urðarbrunn, og síðan víkur sögunni aftur að þremur þursameyjum að minni hyggju, örlaganornunum eða örlagadísunum.12*

Í grískum goðsögnum er greint frá örlaganornum. Þær voru þrjár og sagðar dætur Seifs og Þemis, en þau áttu saman fleiri goðverur. Þessar dísir heita moirer á grísku og koma ávallt fram sem heild, þótt beri sitt nafnið hver; orðið er ekki til í eintölu. Ein spinnur mönnum lífsþráð, önnur ákveður lengd hans, sú þriðja klippir þegar nóg er spunnið. Þær eru viðstaddar þegar barn fæðist eða við upphaf hjónabands. Goðsagnir eru ekki á einu máli um vald dísanna yfir guðum, en þær eru þó fleiri, sem telja Ólympsgoð háð örlögunum eins og menn. Apollon gat einungis frestað framgangi auðnunnar, og í Prómeþeifi fjötruðum eftir Æskílos er Seifur jafnbundinn örlögum sem aðrir. 20. vísa Völuspár hljóðar svo:

Þaðan koma meyjar
margs vitandi
þrjár úr þeim sæ,
er und þolli stendur;
Urð hétu eina,
aðra Verðandi,
– skáru á skíði, –
Skuld ina þriðju.
Þær lög lögðu,
þær líf kuru
alda börnum,
örlög seggja.

Í Ásgarði á heimstréð rætur í Urðarbrunni, og þar er heimili meyja „margs vitandi“ og fundarstaður goða þegar reifa þarf meginmál. Verðandi er einungis nefnd í Völuspá, Skuldar og Urðar er getið annars staðar; Skuld er einnig valkyrjuheiti, enda tengjast valkyrjur og örlaganornir að því leyti, að hinar fyrrnefndu sækja þá, sem falla í orrustu, fylgja þeim til Valhallar og þjóna þeim þar. Annars er Urður samheiti þeirra afla, sem kjósa mönnum líf og búa þeim örlög. Urður, Verðandi, Skuld, þetta er tíminn persónugerður, það sem hefur orðið, það sem er, hið ókomna. Skáru á skíði, segir í erindinu. Þetta hafa sumir skilið sem svo, að nornirnar hafi rist rúnir í tré, skráð ævi hvers og eins með rúnum. Önnur skýring er sú, að hér sé vísað til þess siðar fornmanna að skera í staf eða kefli til að marka fyrir dögum og kvartilum tungls til þess að telja daga, vikur, mánuði og ár. Hvor skýring á við rök að styðjast, en ekki skiptir máli hvor valin er. Nú fyrst öðlast Askur og Embla líf, nú fá þau örlög. Ævi manna var ekki óskrifað blað, tabula rasa, heldur markaður sveigur frá fæðingu til grafar. Veröldin arkar einnig að auðnu.

Guðirnir voru glaðir og áhyggjulausir, unz örlaganornirnar komu til sögunnar, þrjár öflugar þursameyjar. Þær lög lögðu, þær líf kuru alda börnum, örlög seggja. Kæti og áhyggjuleysi guðanna átti sér þá skýringu, að þeir höfðu skapað heiminn, lifðu í velsæld og gátu vel tekið undir með höfundi Sólarljóða:

dvalarheim
hefir drottinn skapað
munafullan mjög.

Þeir höfðu komið á reglu í stað ringulreiðar, og þeirri skipan var ekki ógnað fyrr en veröldin fékk sína mörkuðu braut. Það gerðist þegar ámáttkar þursameyjar skáru örlög heims á skíði. Dvergar mótuðu menn og goðin gáfu þeim líf, hvort sem skaptir voru úr mold eða skornir í tré eins og hjá Snorra. Dvergar smíðuðu Mjölni og spjótið Gungni, kjörvopn guða. Þeir gerðu af gulli þá góðgripi, sem glöddu guðina. Þeir menn sem falla fyrir vopnum bætast liðsafla goðanna, styrkja þau, þegar til uppgjörsins kemur. Þess vegna blésu goðin lífsanda í lítt megandi / Ask og Emblu. Þeir komu fótum undir mannkyn af því að Óðin þarf bandamenn í baráttunni við eyðingaröflin. Þess vegna gefur hann oft sigur hinum lakari bardagamönnum.

Æsir áttu mikilvæga fundi við Urðarbrunn. Þar er í raun mestur helgistaður goða, svo sem vænta má: þar eru veröld lögð örlög, mönnum og goðum. Eilífur Goðrúnarson skáld segir sjálfan Krist sitja suður við Urðarbrunn, og sýnir það með öðru, hve brunnurinn var helgur.

Fólkvíg fyrst í heimi

Með þessum skilningi verður framvinda kvæðisins rökrétt. 21. og 22. erindi fjalla um Gullveigu. Þá byrjar völvan frásögn sína af hinni örlagabundnu framvindu hlutanna, sem hófst með komu þursameyjanna til goða:

Það man hún fólkvíg
fyrst í heimi,
er Gullveigu
geirum studdu
og í höll Hárs
hana brenndu,
þrisvar brenndu
þrisvar borna,
oft, ósjaldan;
þó hún enn lifir.

Heiði hana hétu,
hvar er til húsa kom,
völu velspáa,
vitti hún ganda;
seið hún, hvar er hún kunni,
seið hún hugleikin,
æ var hún angan
illrar brúðar.

Þessar vísur hafa löngum verið taldar reistar á goðsögn um styrjöld ása og vana, tveggja guðaætta, sem margt hefur verið ritað um og Snorri greinir frá í Ynglinga sögu. Ein kenning er sú, að frumbyggjar Norðurlanda hafi verið vanatrúar, en til þeirrar ættar teljast þau goðmögn, sem ráða frjósemi og veðurgæzku til lands og sjávar, þar með í raun afkomu manna og lífi. Indóevrópskar þjóðir lögðu undir sig Norðurlönd á öðru árþúsundi fyrir okkar tímatal. Margir álíta, að með þeim hafi komið trúin á æsi og blandazt þeim trúarbrögðum, sem fyrir voru. Þeir menningarárekstrar lifnuðu síðar í goðsögnum, sem fléttuðu saman gamalt og nýtt.

Franski trúarbragðafræðingurinn G. Dumézil og fleiri telja, að hliðstæðar goðsagnir í öðrum indóevrópskum trúarbrögðum, t.d. indverskum og rómverskum, kollvarpi þessari kenningu. Þar var ekki hliðstæðum átökum til að dreifa, samt sem áður urðu til sambærilegar goðsagnir. Það tengist þrískiptu hlutverki goðmagnanna og stéttaskiptingu meðal fornþjóða að mati Dumézils. Æðstir voru konungar og aðrir stjórnendur. Þeirra guð stóð efstur, stjórnaði lögum og rétti og réð yfir töframætti. Stríðsmenn áttu sinn guð, herskáan og ógnvekjandi, en friðsamur almúginn, bændur og búalið, dýrkaði frjósemisöflin.13*

Á Norðurlöndum var ekki jafnskýr stéttaskipting og meðal suðrænna þjóða. Bændur lögðu frá sér ár eða orf og tóku öxi í hönd, höfðingjar sóttu sjó o.s.frv. Goðsögnin um stríðið sýnir einkum, að trúarbrögðin eru að breytast, þjóðfélagið verður fjölbreyttara. Bændum nægir ekki að dýrka frjósemisöflin, Njörð, Frey og Freyju, álfa og dísir og aðrar vættir, þeir þurfa líka að leita sér friðar til að sigla með varning sinn, blóta sér til trausts og halds vegna árása, reka réttar síns á þingi o.s.frv. Goðsagnir um vanastríðið eru því vottur þess, að guðstrú manna verður margbrotnari, fórnir dreifast á fleiri goðmögn en áður.

Fyrsta víg í heimi á sér stað þegar æsir reyna að drepa Gullveigu til að koma í veg fyrir þann ófarnað, sem af henni leiðir. Gullveig er ein, en æsir vega allir að henni, og það sýnir, hversu áríðandi var talið að útrýma Gullveigu. Það er réttnefnt fólkvíg, en það mistekst.

Gull-veig, drykkur af gulli, gullið persónugert í líki konu. Svo hafa menn skýrt nafnið og sagt sem svo, að Gullveig sé tákn fyrir gullþorsta, ágirnd, sem leiði til ófarsældar. Sumir sjá Gullveigu sem tilraun til að endurheimta það gull, sem æsir eiga að hafa tapað með innrás þriggja þursameyja.

Gullveig er ágirndin. Æsir áttu nóg gull, notuðu það í nytjahluti; var þeim vettergis / vant úr gulli. En gull verður hættulegt þegar goð og menn sækjast eftir því í sjálfu sér. Þá verður það ófriðarvaldur, fyrst meðal goða, síðan manna. Þess vegna er Gullveig geirum studd í höllu Hárs, Óðins. Að styðja hana geirum er að stinga svo með spjótum, að hún fellur ekki, svo þétt standa á henni spjótin. Síðan er hún brennd, en það var eina ráðið til að losna við fordæður. Þetta er síðan endurtekið þrisvar sinnum, en þó lifir hún enn. Spjótalögin og endurtekningin benda til, að vísan sé heimild um helgisið, ritúal. Eitt af einkennum Óðins er spjótið, og það tengist fórnarathöfn. Sjálfur var Óðinn geiri stunginn er hann fórnaði sjálfum sér til þess að öðlast æðstu vizku, samband við heim dauðra. Þó hún enn lifir, segir í vísuorði. Ásum tókst ekki að útrýma ágirndinni. Vísan kann að benda til helgisiðar með þeim hætti, að menn hafi brennt mynd Gullveigar til þess að styrkja framgang veraldar á viðsjálli tíð, útmála háskasemi ágirndarinnar.

Í 22. erindi kemur Heiður til sögunnar, en nafnið er völvuheiti, líklega skylt heiði og lýtur að því, að seiðskrattar leituðu eitthvað afsíðis til að stunda iðju sína; sumir dvöldust lengi á fáförnum slóðum til þess að verða vísari, sátu úti. Heiður merkir líka hin bjarta og getur þannig vísað til gullsins. Hún magnar seið hvar sem hún kemur, og sá seiður er af hinu illa: æ var hún angan / illrar brúðar. Brúður merkir hér líklega kona, og ritari Konungsbókar sýnir athyglisverðan rithátt milli lína: illrar þjóðar stendur þar. Heiður er angan hinna illgjörnu, eftirlæti, því að með seið má koma illu til leiðar.14*

Hvaðan komu þær Gullveig og Heiður, persónugervingar ágirndar og seiðs, til þess fallnar að sá fræjum illsku meðal guða og manna? Ekki er annað líklegra en jötnar hafi magnað þær til þess að koma goðum á kné (Gullveig) og sá illu meðal manna (Heiður). Hins vegar verður ekki annað ráðið af kvæðinu en afleiðingin verði sú, að æsir hefji stríð við vani, og er orsakasamhengið harla óljóst, nema ráð sé gert fyrir því, að vanir séu jötnakyns og valdir að spillingunni.

Heiður er persónugervingur seiðsins fremur en Gullveig afturgengin. Hún notar kunnáttu sína til ills, þess vegna er hún hættuleg þeirri heimsskipan, sem æsir hafa fest í sessi; þess vegna er hún eftirlæti illrar brúðar, vondra seiðkvenna. Ef hinn leshátturinn er valinn, þjóðar, er nærtækt að sjá jötnakyn bak við orðið. Hins vegar var hægt að nota seiðinn til góðs, en fremur var hann notaður til að koma illu áleiðis. Seiður varð hluti af trúnni og Óðinn meistari hans. Hins vegar var seiður litinn hornauga, því að iðkun hans var með þeim hætti, að ekki var sæmandi nokkrum karlmanni vegna ergi og skrípiláta, sem honum tengdust.

Gullþorsti og seiður eru hvort tveggja þættir í fasi Freyju, eins og hún birtist í heimildum. Freyja er dóttir Njarðar og systir Freys, þau eru persónugervingar árgæzku, friðar og frjósemi. Þau eru vanir, og því verður helzt ráðið, að vanir hafi tengzt jötnum náið, jafnvel verið jötnakyns eins og raunar æsir. Freyr og Njörður sækja kvonfang til jötna, Freyr af girnd, Njörður óvart. Í Lokasennu kemur fram, að Freyja hefur verið vergjörn og lagt lag sitt við æsi og álfa og í Þrymskviðu segir Freyja við Loka þegar hún er beðin að aka í Jötunheima að sækja hamar Þórs: „Mig veiztu verða / vergjarnasta, / ef eg ek með þér / í Jötunheima.“

Ítarlegast er greint frá stríði ása og vana í Ynglinga sögu, en aðdragandi er ekki rakinn þar fremur en í Völuspá. Æsir hefja stríðið og það var enn fólkvíg / fyrst í heimi. Orrustan hefst með þeim táknræna hætti, að Óðinn kastar spjóti sínu að vönum. Það var enn fólkvíg... segir í vísunni. Áður höfðu goð reynt að drepa Gullveigu, það var hið fyrsta fólkvíg, orrusta eða dráp. Samkvæmt Ynglinga sögu var stríðsgæfan hvorugum í vil, en vönum tókst að rjúfa virkisgarð ása og ryðjast inn á velli þeirra með vígspá, og verður að ætla, að þeir hafi framið seið.

Um síðir var samið um frið. Samkvæmt Ynglinga sögu kemur Njörður sem gísl frá vönum með börn sín, Frey og Freyju, æsir láta Mími og Hæni af höndum í staðinn. Í Eddu segir Snorri hins vegar, að goðin hafi skipt á Nirði og Hæni, síðan hafi Njörður kvænzt Skaði. „Njörður í Nóatúnum gat síðan tvö börn,“ segir Snorri í Eddu. Það eru þau Freyr og Freyja.

Freyja og Óðinn eru lík að nokkru leyti. Freyja á hálfan val móti Óðni. Óðinn er upp á kvenhöndina, Freyja er vergjörn; oft er Óðinn þó að geta börn til varnar ríkjandi skipulagi. Bæði tengjast þau dauða, eru nærstödd þar sem menn falla, en slíkt er einmitt einkenni frjósemisgyðja; dauðinn er endurfæðing.

Til að innsigla friðinn spýta vanir og æsir í ker, og af þeim hráka var sá hundvísi Kvasir skapaður. Dvergar drápu hann og blendu blóð hans hunangi og af varð skáldskaparmjöðurinn, hinn helgi drykkur, sem Óðinn komst síðar yfir með klækjum. Mjöðurinn var heilagur, því að samdrykkja manna var til þess að styrkja goðin og verða eitt með þeim, innsigla friðargerðina og efla jarðarmegin.

Á gengust eiðar

Vísa 25 er ekki í beinu framhaldi af hinni 24., en auðveldlega má fylla í eyðuna með Eddu Snorra. Jötunn í smiðsgervi býðst til að endurreisa virkisgarð ása á einum vetri gegn því að fá Freyju, Sól og Mána í laun og njóti hann einungis aðstoðar eins hests. Loki fékk æsi til að fallast á þetta, og þeir gera samning við smiðinn í þeirri fullvissu, að þetta væri ómögulegt. Smiði og hesti virtist hins vegar ætla að takast ætlunarverkið, en með klókindum sínum tókst Loka að koma í veg fyrir það, en síðan drap Þór jötuninn með hamri sínum. Það er slíkt voðaverk, að höfundur endurtekur fjórum sinnum sömu fullyrðingu:

Á gengust eiðar,
orð og særi,
mál öll meginleg,
er á meðal fóru.

Í þjóðfélagi án ritlistar verða orð að standa, annars eru reglur samfélagsins lítils virði. Þegar höfuðguð brýtur orð og særi, þá er vá fyrir dyrum og viðbúið, að veröld sé í miklum háska. Eiðrof eru jafnslæm og meinsæri, en þeir sem sóru rangan eið að helgum baugi fóru norður og niður til Nástrandar skv. Völuspá, eins og morðingjar og þeir menn, sem teygðu konu annars manns til ásta. Sjálf samfélagsskipanin hrynur ef guð og menn virða ekki samninga, mál öll meginleg. Þetta er ekki einsdæmi í fornum trúarbrögðum. Í Avesta, trúarriti Persa, eru grundvallarsjónarmið Zaraþústra skráð og skýrð. Í sálmi til Míþra ávarpar Ahúramazda spámann sinn, Spítama Zaraþústra:

Sá níðingur sem gengur á gefin orð, ó Spítama, leggur allt land í auðn, eins og hundrað tröll eða sá sem drepur réttsýnan mann. Þú mátt ekki rjúfa sáttmála, Spítama, hvorki þann sem þú gerir við vantrúaðan mann né þann réttsýna, sem tilheyrir söfnuði þínum. Því sáttmáli gildir fyrir hvorn tveggja, bæði þann sem afneitar trúnni og hinn trúaða.

Hinn hagaríki Míþra gefur þeim mönnum fótfráa hesta, sem ekki hafna sáttmálanum. Ahúramazda gefur þeim eld, sem ekki afneita sáttmálanum. Hinir góðu, voldugu, blessunarríku verndarandar hinna trúuðu gefa þeim sem ekki afneita sáttmálanum dýrlega afkomendur.15*

Eiður, sáttmáli, varð undirstaða réttarins, sem fékk trúarlegan blæ, var meira að segja persónugerður í sérstökum guði meðal ýmissa þjóða. Ein goðsögn bendir til, að Týr hafi fengið það hlutverk meðal norrænna manna eftir að staða hans sem himinguðs veiklaðist. Þór drepur jötun í griðum, en eiðar voru gildir, og skipti engu þótt jötnar ættu í hlut. En þetta eru ekki einu eiðrof goða. Þeir gera líka samning við Fenrisúlf, og til að tryggja að hann sé haldinn, leggur Týr hægri hönd sína að veði og úlfurinn bítur hana af þegar hann fær ekki brotið fjöturinn. Í raun eru þessi eiðrof mjög alvarleg, ef Týr er verndari réttarins, sem ætla má úr því að úlfurinn tekur orð hans gild. Goðsögnin um fjötrun Fenrisúlfs endurspeglar alvöru málsins. Þrisvar reyna æsir að binda úlfinn, tvisvar mistekst það, en þriðja sinni tekst þeim ætlunarverkið vegna þess að réttarins guð leggur heiður sinn að veði – og svíkur.

Með 27. vísu hefst lýsing völvunnar á nútíðinni, hér skiptir um stef, og sagnorðin í erindinu eru í nútíð til að marka skilin skýrar en ella. Vísur nr. 27-29 ber að skilja í samhengi. 28. vísa markar kvæðinu ramma eða leiksvið, eins og áður er að vikið. Með 26. vísu er völvan búin að lýsa sköpuninni og þeim atburðum, sem breyttu sælu í vá. Hún veit hvar hljóð Heimdallar er fólgið undir heimstrénu, í Mímisbrunni í Jötunheimi. Hljóð Heimdallar skilja menn ýmist sem sjálfa heyrn hans eða Gjallarhorn. Ég hallast að hinu síðarnefnda, því að í Eddu segir Snorri, að Mímir drekki úr brunninum úr Gjallarhorni. Í 28. erindi er frá því greint, að Óðinn hafi fólgið auga sitt í Mímisbrunni fyrir drykk af þeirri ágætu uppsprettu. Þetta má kalla táknrænt fyrir ástand í goðheimi. Jötnar hafa komið illu til leiðar, með hjálp guða, og guðir hafa brotið helg lögmál. Óðinn hefur látið annað auga sitt til þess að verða alsjáandi. Horn Heimdallar er honum horfið, en með öllu er óskýrt, hvað hann fékk í staðinn. Allt kemur fyrir ekki. Alsjáandi Óðinn fær engu breytt, Heimdallur getur ekki varað goðin við. Veröld arkar að auðnu, sem verður ekki hnikað.

Blóðgur tívurr

30. vísa lýsir váboðum, valkyrjur ríða fákum sínum, nönnur Herjans, en í næstu erindum er lýst dauða Baldurs og þeirri hefnd, sem fyrir hann kom, er Váli drap Höð hinn blinda, og Loki er bundinn þar sem hann liggur nú.

Dauði Baldurs er voðalegasti atburður kvæðisins, að ragnarökum undanskildum. Vígið er þeim mun ægilegra, að Baldur er veginn saklaus, og í raun Höður líka. Víg Baldurs sýnir ótvírætt, að guðirnir lúta örlögunum eins og aðrir:

Eg sá Baldri
blóðgum tívur,
Óðins barni,
örlög fólgin

segir völvan. Þetta er skýr staðfesting þess, að goðin lúta örlögunum eins og menn. Loki er ráðbani Baldurs, en Höður vinnur verkið óafvitandi. Nærtækt er að líta á Gísla sögu til hliðsjónar: Þorgrímur myrðir Véstein eftir úthugsuðu ráði, en sagan innsiglar vélráð Þorkels Súrssonar síðar í sögunni, þegar hann er drepinn í hefndarskyni. Óðinn getur barn með Rindi til þess að vega Höð: sá nam Óðins sonur / einnættur vega. Hér er hann ekki nafngreindur af eðlilegum ástæðum. Hann vinnur vígið áður en hann er nefndur og formlega tekinn inn í ættina. Þess vegna er vígið ekki bróðurmorð. Hins vegar dugir hefndin ekki til þess að hefta framgang örlaganna. Frigg grætur vá Valhallar í Fensölum, bústað sínum. Hún veit öll örlög, þess vegna er grátur hennar í senn harmur og tákn um ófrávíkjanlega framvindu örlaganna: hún grætur hið liðna og hið ókomna. Hefndin er einskis nýt, og það stef er endurtekið síðar í kvæðinu, þegar Víðarr drepur Fenrisúlf til að hefna föður síns, Óðins. Það breytir ekki veltingi veraldarhjólsins. Hann er bundinn auðnu.

Blóðgur tívurr. Orðið tívurr kemur einungis fram í Völuspá. Það er líklega tökuorð úr fornensku tifer, tiber, en það merkir fórn; á fornháþýzku zebar, fórnardýr. Völvan sér örlög Baldurs fólgin. Honum er áskapað að falla fyrir mistilteininum, hann verður blóðug fórn. Í Ynglinga sögu Snorra er greint frá konunglegum fórnum. Tveimur konungum er fórnað til árs og friðar, konungur fórnar syni hvert tíunda ár. Þær frásagnir kunna að eiga rætur í þeim skilningi, að Baldur sé fórn Óðins til að stöðva framgang örlaganna. Hún mistekst hins vegar. Þess vegna grætur Frigg. Hún vissi öll örlög, og hún reynir að koma Óðni til liðs með því að heimta Baldur úr Helju. Dómur skapanorna birtist í því, að Baldur varð ekki grátinn frá Hel, dóttur Loka. Þess vegna hlýtur heimurinn að arka sinn skapaða veg.

Með vígi Baldurs er fyrsta sinni getið dauðans í Völuspá, og sjálfsagt eru vísurnar reistar á goðsögn um dauða hans, sem hugsanlega er upprunagoðsögn. Hún hefur túlkað hugmyndir manna um upphaf dauðans, en það styrkir hins vegar þá skoðun, að Baldur sé frjósemisgoð af sérstöku tagi, sbr. það sem síðar segir.

Völuspá styðst við goðsögn þar sem Baldur er veginn saklaus, hann er blóðug fórn. Athyglisvert er, að í Danmerkursögu Saxa hins málspaka eru þeir Baldur og Höður hetjur í Danmörku og Svíþjóð, sem báðir verða ástfangnir af Nönnu. Þeirri viðureign lýkur með falli Baldurs.16* Loki kemur hvergi nærri. Þessi goðsögn er nær þeirri merkingu, sem menn ætla að nöfn goðanna hafi. Baldur kann að merkja höfðingi eða fyrirmaður, en uppruni orðsins er þó óljós. Sumir tengja það sömu rót og er í litháíska orðinu báltas, sem þýðir hvítur eða bjartur, samanber Baldur hinn hvíti ás. Aðrir telja lýsingarorðið baldur liggja nafninu til grundvallar, en það þýðir þróttmikill. Höður merkir bardagi. Þetta er meira í samræmi við annað, sem Baldri tengist í öðrum heimildum. Margar kenningar eru með nafni hans og merkja hermaður, og í Lokasennu segir Frigg, að Loki kæmist ekki heill á brott úr Ægishöllu, ef hún ætti son, sem líktist Baldri.

Af þessu virðist vera ljóst, að Snorri styðst við aðrar heimildur um Baldur en Lokasenna, og hann hefur ekki þekkt þær goðsagnir, sem Saxi notaði, eða sniðgengið þær. Dauði Baldurs verður píslarvætti í Eddu.

Eina goðsögnin um Baldur er í rauninni frásögnin af dauða hans. Kenningar skálda, frásögn Saxa og Lokasenna renna hins vegar stoðum undir þann skilning, að til hafi verið goðsagnir, sem sýndu Baldur í öðru ljósi. Ýmislegt bendir raunar til þess, að Freyr og hann hafi litað hvor annan í hugum fólks. Birta og mildi er báðum nákomið, ástir beggja eru heitar, þeir eru ungir og ímynd fegurðar. Baldur á hugsanlega rætur í þeim guðum, sem dýrkaðir voru í Austurlöndum nær, Baal frá Kanaan, Tammuz frá Babýlon og Adonis frá Sýrlandi. Þeir voru allir ungir og tengdust akuryrkju. Allir hverfa þeir til ríkis dauðra neðanjarðar. Sorg, sem bundin er gráti og kveini, tengist dýrkuninni. Þeir snúa allir aftur, nema Baldur, í samræmi við gang sólar, hverfa í dimmu dauðans á haustin, koma með hækkandi sól að vori og frjóvga jörð. Baldur snýr líka aftur, en ekki fyrr en eftir ragnarök.

Launhelgarnar í Elevsis í Grikklandi tengdust dýrkun gyðjunnar Demeter. Dóttir hennar var Kore, sem Hades rændi með samþykki bróður síns, Seifs á Ólympstindi. Demeter leitaði dóttur sinnar lengi og grét hana sáran, en um síðir komst hún að hinu sanna. Þá lét hún óáran ganga yfir jörð, akrar þornuðu, fræin spíruðu ekki, og afkomu manna var stefnt í voða. Aldrei kvaðst hún bæta úr nauð fyrr en Kore kæmi frá heimum Hadesar í neðra. Samkomulag tókst með þeim Demeter, Hades og Seifi: Demeter gaf mönnum ár og frið gegn því að Kore kæmi til hennar að vori, en hyrfi með hausti til Hadesar.

Dýrkun Demeter og Kore í Grikklandi var til að tryggja, að Kore fengi fararleyfi úr þeim svalvogum, sem dauðsríki Hadesar er, til þess að Demeter gæfi bændum ársæld. Freistandi er að ætla, að goðsögnin um dauða Baldurs og endurkomu hans að loknum ragnarökum byggist á fornum minnum um hliðstæðan átrúnað og Grikkir höfðu á Demeter, gyðju akurs og ársældar.

Í rauninni er hliðstæða í Völuspá, því að Baldur snýr aftur. 'Heimferð' hans er hins vegar hluti af endursköpun veraldar þegar Surtarlogi var slokknaður. Eftir ragnarök rís jörð öðru sinni úr sæ, iðjagræn. Æsir hittast enn á Iðavelli og ræða forna dóma:

Munu ósánir
akrar vaxa,
böls mun alls batna,
Baldur mun koma.
Búa þeir Höður og Baldur
Hrofts sigtóftir,
vel valtívar.
Vituð ér enn – eða hvað?

Akrar vaxa ósánir, heimurinn er án böls, og Baldur er nefndur í sama vetfangi. Baldur og Höður búa saman í nýrri Valhöll. Þeir sem báðir voru vegnir saklausir. Hinn vegni og vegandinn undir einu þaki til að tákna alsælu hins nýja heims, þar sem falla fossar og örn flýgur yfir, en æsir finna aftur undursamlegar gullnar töflur, sem áttar höfðu í árdaga. Sama ástand ríkir og fyrir daga þriggja þursameyja, örlaganorna. Hinu illa hefur verið eytt.

Vituð ér enn – eða hvað? Uggvænlegt stef frá samtíðarlýsingu völvunnar er endurtekið eins og ógnvænlegur fyrirboði þess, að ekki sé allt með felldu. Það fellur illa að erindinu, en meira um það síðar.

Sá Baldur sem bezt sést í heimildum er þar til að deyja. Aðrir þættir í fasi hans eru horfnir á víkingaöld, en Freyr hefur erft þá.

Veröld steypist

Loki tók afleiðingum gerða sinna og liggur bundinn í helli (Gnipahelli?), fjötraður þörmum sonar síns. Sigyn kona hans situr hjá honum með skál, sem hún heldur yfir andliti hans til að taka við eitri úr nöðru. Fenrisúlfur er bundinn, faðir hans í fjötrum. Hin illu öfl eru að hluta til úr leik, en jötnar og Miðgarðsormur leika lausum hala. En fjötrarnir eru falskir, gerðir með töfrum. Þeir halda ekki á úrslitastund, af því að töfrar duga ekki gegn mætti örlaganna.

Nú snýr völvan sér að ýmsum veraldarkimum og dvalarheimum dauðra, lýsir m.a. þeirri skelfilegu á, sem skilur milli lífs og dauða. Yfir hana kemst enginn nema um Gjallarbrú, að ætla verður, en hennar gætir væntanlega hundurinn Garmur og situr í Gnipahelli; hann varnar mönnum að snúa til baka.

Síðan víkur hún að fyrirboðum ragnaraka. Þjóðfélag manna er í upplausn, ógæfa guða hendir menn: Bræður munu berjast. Æsir þinga, dvergar stynja og rata ekki lengur um björgin, flæmast út á berangur; allir eru skelfingu lostnir, en Heimdallur skynjar hættuna um síðir og blæs í nýfengið horn sitt. Greint er frá liðssafnaði jötna og viðureign einstakra goðmagna við óvættir; slíkar frásagnir eiga hliðstæðu í írönskum og indverskum trúarbrögðum. Óðinn berst við Fenrisúlf og fellur, Þór vegur Miðgarðsorm, en lætur lífið litlu seinna, Heimdallur tekst á við Loka, og farast báðir. En höfuðbaráttan er í raun milli Freys og Surts, hins ljósa og dökka, frjósemi og tortímingar, lífs og dauða. Dauði Freys er ósigur lífins. Með skáldlegum tilþrifum og myndrænni nákvæmni lýsir höfundur endalokum heimsstöðvar, halir troða helveg, og um síðir sekkur jörð í sjó.

Ýmsar vísur í þessum hluta kunna að vísa til dýrkunar goðmagna, þótt sá þráður sé núna mjór. Rýður ragna sjöt / rauðum dreyra, stendur í 41. vísu. Það kann að vísa til þess háttar manna að stökkva blóði fórnardýra á menn, goðalíkneski og amboð, enda var blóð heilagt, sjálfur lífsvökvinn; heimildir um slíkt kunna á hinn bóginn að vera litaðar af kaþólskum sið: að steinka með vígðu vatni.

Vísur nr. 42 og 43 eru sérstakar í þessum hluta kvæðis. Þar er ógæfan að bresta á, þrír hanar kveðja menn til dáða: fagurrauður Fjalar í jötunheimum, Gullinkambi í Ásgarði, sótrauður hani að sölum Heljar. Hanar eru ófriðarfuglar. Þeir vekja menn af svefni og kalla þá til orrustu, þrír hanar, hver sinn her, og Heljarsinnar fylgja jötnum.

Hani, Hænir, skyldleikinn virðist augljós, „e.t.v. fremur skylt hæna ... hvort sem nafngiftin á við einhverskonar hanaguð eða lokkandi eða göldrótta goðveru“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Hænis er ekki oft getið í goðsögnum. Hann var þó með Óðni og Lóðri þegar þeir gáfu Aski og Emblu líf, sem örlagadísirnar fullkomnuðu; Hænir gaf fyrstu mönnum óð, guðdómsneista, sem kalla mætti sál. Hann er gíslaður vönum skv. Snorra-Eddu eftir stríð þeirra við æsi. Hann er í fylgd með Óðni og Loka þegar hinn síðasttaldi lendir í hremmingum og lofar jötnum að færa þeim Iðunni og eplin. Þeir voru líka á ferðalagi þegar þeir drápu oturinn og urðu að gjalda fyrir hann oturbelginn fullan og kaffærðan í gulli.

Í Skáldskaparmálum Snorra er ýmislegt óljóst um Hæni. Hann skal kalla sessa eða sinna eða mála Óðins, sessunaut, fylgdarmann eða málvin Óðins, en einnig má nefna hann hinn skjóta ás, hinn langa fót og aurkonung. Þetta er óljóst, en tengslin við Óðin eru sterk.

Hænir kemur við sögu í veröld hinni fögru, sem rís úr hafi eftir ragnarök:

Þá kná Hænir
hlautvið kjósa...

Þetta lýtur að þeim hætti að rýna inn í framtíðina, spá. Að sögn Tacitusar hins rómverska vættu germanir tréspæni í blóði og vörpuðu þeim á voð, og eftir ákveðnum reglum leituðu kunnugir fregna af framtíð. Þetta var mikilvægt hlutverk, og meðal ása í nýrri veröld fellur það í hlut Hænis.

En þessi tvö vísuorð má túlka á aðra lund: að hér sé vígt nýtt heimstré, sem vex upp í túnjaðrinum hjá ásum. Þeir velja það og þar með ráða þeir örlögunum í nýjum heimi. Þessu tengdist helgisiður, sem Norðmenn iðkuðu fram á síðustu öld. Þegar bændur reistu nýtt hús plöntuðu þeir tré áður en hafizt var handa, tuntre var það kallað.*17

Í helgum lundum við Uppsali og Hleiðru hengdu menn fórnardýr í tré, hunda, hesta, hana, jafnvel menn. Freistandi er að ætla, að hænsnfuglum hafi verið fórnað til Hænis, e.t.v. í þeim tilgangi að þeir kveddu menn síður til vopna.

Óðinn var guð vizku og stríðs, galdurs og seiðs. Hænir var trúr fylgdarmaður hans og orðið er skylt hænu og hana. Freistandi er að álykta sem svo, að Hænir sé ein birtingarmynd Óðins, sá sem rýnir í framtíðina, sér örlög og spáir.

Hinn ríki

Í Hauksbók er skotið inn fjórum vísuorðum undan síðasta erindi ef miðað er við Konungsbók. Þessi vísa hljóðar svo:

Þá kemur inn ríki
að regindómi
öflugur ofan,
sá er öllu ræður.

Vísunni er ofaukið í kvæðinu. Synir Baldurs og Haðar búa í Valhöll hinni nýju, þar er Hænir og sér til framtíðar, hefur vígt nýtt heimstré. Í sal sólu fegri búa dyggvar dróttir

og um aldurdaga
yndis njóta.

Þetta er rökréttur endir kvæðisins áður en höfundur slær botn í það með því að lýsa fyrirboðum ragnaraka og láta völvuna hverfa. Mér finnst augljóst, að kristinn kvæðamaður hafi aukið erindi um hinn ríka í kvæðið og ekki látið staðar numið við það, heldur einnig bætt viðlagi nútíðarlýsingarinnar, Vituð ér enn – eða hvað?, aftan við vísur nr. 63 og 64. Án komu hins ríka, sem öllu ræður, væri stefinu ofaukið eins og raunin er í Konungsbók. Endurfæddum goðum stafar einungis ógn af hinum ríka, sem öllu mun ráða. Það hlýtur að vera almáttugur guð, sem hefur örlögin í sinni hendi. Þessi viðbót er því dæmi um það sem sagt var í upphafi, hver kynslóð mótaði kvæðið í samræmi við ríkjandi menningarstrauma.

 

Veturinn 1990 – 91 stundaði ég nám í trúarbragðasögu við Hafnarháskóla hjá Vagn Duekilde. Þá voru þessar hugleiðingar festar á blað í þeim tilgangi að nota þær síðar við kennslu í framhaldsskóla. Þær birtast hér nokkuð auknar og endurskoðaðar. Ég þakka Gísla Sigurðssyni fyrir þarfar ábendingar.

Tilvísanir

1) Þar sem fjallað er um trúarlegar hugmyndir á þessum blöðum er stuðzt við rit Mircea Eliades: De religiøse ideers historie. Bind 1. Fra stenalderen til de eleusiuske mysterier, og Bind 2. Fra Gautamas Buddha til kristendommens sejr, Khöfn 1983. Vagn Duekilde þýddi.
2) Ítarlegur samanburður á handritum er í ritgerð Ólafs M. Ólafssonar í Árbók Landsbókasafns 1966, bls. 110 – 193, „Endurskoðun Völuspár“, Rvk. 1967.
3) Hér er stuðzt við Völuspá í útgáfu Sigurðar Nordals 1952 (Helgafell), en þessi ritgerð var fyrst prentuð sem fylgirit Árbókar Háskóla Íslands 1922 – 23. Þetta er grundvallarrit um kvæðið og byggist á þeirri sannfæringu Nordals, að kvæðið væri markviss sköpun eins höfundar. Ólafur M. Ólafsson fetar sömu slóð í „Völuspá Konungsbókar“ í Árbók Landsbókasafns 1965, bls. 86 – 124, Rvk. 1966.
4) Sjá „Eftirmála“ Gísla Sigurðssonar við Hávamál og Völuspá, 2. útgáfu, Rvk. 1987.
5) Sigurður Nordal, ofangreint rit, bls. 42.
6) Forelesninger over Völuspá Hösten 1949. Fjölrit, bls. 59. Oslo 1950.
7) Hér sem annars staðar á þessum blöðum er stuðzt við rit Leo Hjortsøs, þegar vikið er að grískri goðafræði: Græske guder og helte. Khöfn 1984.
8) Sjá um heimana H.R. Ellis Davidson: Myths and symbols in pagan Europe. Early Scandinavian and Celtic religions, Manchester 1988, bls. 171 – 2. Ég get þó ekki alveg fallizt á skilgreiningu hennar og tel eðlilegra að þrískipta heimum dauðra fremur en fjölga bústöðum almættisins.
9) Mircea Eliade, ofangreint rit, 1. bindi, bls. 52.
10) Gro Steinsland: „Antropogonimyten i Völuspá. En tekst- og tradisjonskritisk analyse.“ Arkiv för nordisk filologi, 1983, bls. 80 – 107. Lundi 1983. Tryggvi Gíslason: „hverr skyldi dverga dróttir skepia“. Festskrift til Ludvig Holm Olsen på hans 70-årsdag den 9. juni 1984, bls. 84 – 88. Alvheim og Eide 1984.
11) Gísli Sigurðsson, ofangreint rit, bls. 13.
12) Finnur Jónsson skrifar um Völuspá í Skírni 1907 (Rvk.), bls. 326 – 41, og þar kemur þessi hugmynd fram.
13) Kenningar Dumézils eru aðgengilegar í ritinu De nordiske guder. Grundtræk af den skandinaviske religion. Khöfn 1969. Jan de Vries er honum sammála í meginatriðum, en rit hans, Altgermanische Religionsgeschichte I – II (Berlin 1970) er fróðleiksnáma um germanskan átrúnað.
14) Sjá Jónas Kristjánsson: „Angan illrar þjóðar“. Véfréttir sagðar Vésteini Ólasyni fimmtugum, bls. 63 – 66. Svavar Sigmundsson sá um útgáfuna. Rvk. 1989.
15) Lausleg þýðing eftir Religionernes digtning. Udvalg og efterskrift af Aage Marcus. Khöfn 1966.
16) Saxi málspaki: Danmarks Riges Krønike 1, bls. 87 – 96. Khöfn 1985.
17) Gro Steinsland: „Treet i Völuspá“. Arkiv för nordisk filologi, 120 – 150. Lundi 1979. Sjá einkum bls. 143 – 147.

Auk þess var stuðzt við eftirtalin rit:

Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.
Eddukvæði. Ólafur Briem annaðist útgáfuna. Önnur prentun. Rvk. 1976.
Edda Snorra Sturlusonar. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Rvk. 1988.
Ejerfeldt, Lennart: „Germansk religion“. Illustreret Religionshistorie, I, bls. 239 – 95. Khöfn 1968.
Finnur Jónsson: „Völuspá“, Skírnir 81. árg., bls. 326 – 341. Rvk. 1907.
Gísli Sigurðsson: „Eddukvæði“. Íslensk þjóðmenning VI, bls. 293 – 314. Rvk. 1989.
Grønbech, Vilhelm: Vor folkeæt i oldtiden I – II. Khöfn 1955.
Haraldar Bessason: „Um byggingu Völuspár“, Morgunblaðið 1. apríl 1984, bls. 72 – 74, upphaflega flutt sem fyrirlestur í boði Heimspekideildar Háskóla Íslands.
Holtsmark, Anne: Norrøn mytologi. Tro og myter i vikingtiden. Oslo 1970.
Olsen, Olaf: Hørg, hov og kirke. Historiske arkæologiske vikingetidsstudier. Khöfn 1966.
Ólafur Briem: Heiðinn siður á Íslandi. Rvk. 1945.
— : „Vanir og Æsir“. Studia Islandica, 21. hefti. Rvk. 1963.
Sígild kvæði I. Eddukvæði. Völuspá, Hávamál – Gestaþáttur, Helgakviða Hundingsbana II, Atlakviða. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Rvk. 1991.
Ström, Folke: Nordisk hedendom. Tro och sed i förkristen tid. Gautaborg 1961.
Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson, Vésteinn Ólason ritstjóri: Íslensk bókmenntasaga, I. Rvk. 1992.