Glerlykill 2003

Ævar Örn Jósepsson: Stutt kynning á efni bókanna sem voru tilnefndar árið 2003

Danmörk
Gretelise Holm – PARANOIA
Þriggja manna fjölskylda finnst látin á heimili sínu skammt utan við smábæ á Sjálandi og allt bendir til þess að um fjölskylduharmleik sé að ræða. Svo virðist sem heimilisfaðirinn hafi myrt eiginkonu sína og fjögurra ára gamlan son áður en hann skaut sjálfan sig með rifflinum sem hann var nýbúinn að fá afhentan frá heimavarnarliðinu.

Blaðakonan Karin Sommers fær það verkefni að rannsaka þennan fjölskylduharmleik í samhengi við aðra svipaða í gegnum tíðina með það fyrir augum að gera félagslega og sálfræðilega úttekt á því sem knýr menn til slíkra voðaverka. Hún gerir það en grein hennar vekur litla lukku meðal valdamanna í smábænum. Fljótlega kemur í ljós að kenningin um fjölskyldudramað er ekki sú eina sem kemur til greina og bæði Karin og lögreglumaðurinn Halfdan Thor fara að svipast um eftir öðrum og líklegri skýringum. Steinar eru lagðir í götu Karinar og ýmislegt reynt til að hræða hana frá frekari afskiptum um leið og grafið er undan trúverðugleika hennar sem blaðamanns og manneskju með öllum tiltækum ráðum. Mansal, vændi, austantjaldsmafía, barnaklám og misnotkun á ungum stúlkum, hjónabandsörðugleikar virðulegra smáborgara, lottómiðar og enn fleiri morð eru á meðal þess sem rannsókn Karinar, Halfdans og nokkurra misveigamikilla hjálparkokka þeirra leiðir í ljós og virðist geta tengst fjölskyldumorðinu á einn eða annan hátt. Meðfram meginfrásögninni fáum við að skyggnast inn í hugarheim siðblinds morðingjans, sem heldur dagbók yfir eigin gjörðir og hugsanir, án þess þó að hulunni sé svipt af honum fyrr en undir lok sögunnar.

Paranoia er hvorki klassísk lögreglusaga né heldur týpísk rannsóknarblaðamanns / einkaspæjarasaga, heldur blandar höfundurinn þessu tvennu saman og kryddar með tilbrigði við stef hins rannsakandi lögfræðings, sem í þessu tilfelli dregst inn í rannsókn málsins vegna málsvarnarstarfa fyrir smáglæpamann frá Eistlandi. Paranoia getur heldur ekki kallast þriller eða sálfræðitryllir í hefðbundnum skilningi og má segja að inn við beinið sé þetta einfaldlega hefðbundin glæpasaga sem á ættir sínar að rekja til flestra höfuðætta bókmenntagreinarinnar.

Gretelise Holm (f. 1946) er lærður og þaulvanur blaðamaður. Þetta er önnur bók hennar.
Gretelise Holm: Paranoia
Útgefandi Aschehoug
286 síður
Danmörk, 2002

Finnland
Leena Lehtolainen – DÖDSSPIRALEN (Kuolemanspiraali)
Lögreglufulltrúinn Maria Kallio er komin sjö mánuði á leið í þessari fimmtu bók Lehtolainen um hana og félaga hennar í Esbo-lögreglunni. Dóttir yfirmanns hennar stundar listhlaup á skautum af mikilli íþrótt og er fremst í flokki finnskra ísdansara ásamt ungu pari, þeim Nooru og Janne. Noora er sextán ára og þykir mikið efni, og þau Janne eru almennt talin bjartasta von Finna á þessu sviði íþróttanna um áraraðir – þangað til húsmóðir í innkaupaleiðangri finnur Nooru dauða í skottinu á bílnum sínum. Greinilegt er að hún hefur verið myrt með eigin skautum, og þar sem yfirmaðurinn er of tengdur fórnarlambinu felur hann Mariu rannsóknina. Svikráð, metnaður og miklar tilfinningasveiflur einkenna heim skautafólksins – og það gildir ekki síður um heim lögreglunnar. Óléttan er ekki til þess fallin að auka á andlegt jafnvægi hinnar skapbráðu Maríu, sem á í harðri samkeppni um stöðuhækkun við karlrembuna og leiðindakvikindið Pertsa, sem svífst einskis til að bregða fæti fyrir hana.

Dödsspiralen er klassísk lögreglusaga með viðkunnanlegri hetju og skemmtilegri blöndu af aukapersónum úr lögregluliðinu. Plottið er ekki ýkja frumlegt en ekki verra fyrir það og lesendur frjálsir að því að gruna fjöldann allan af fólki um ódæðið fram á síðustu síður. Lausnin er vel unnin og þótt einhverjir þykist sjálfsagt geta bent á morðingjann fyrir miðja bók, þá er vafasamt að þeir hafi komist að sinni niðurstöðu á réttum forsendum og ástæðan að baki verknaðinum ætti að koma flestum á óvart. Helsti kosturinn við söguna er þó sannfærandi lýsing Lehtolainen á því hvernig kaupin gerast á rannsóknarlögreglueyrinni í Esbo, og hversu vel henni tekst upp í tilraun sinni til að undirstrika þau með óbeinum hætti í lýsingunum á heimi skautafólksins.

Leena Lehtolainen (1964): Dödsspiralen (Kuolemanspiraali)
Útgefandi Albert Bonniers Förlag
399 síður
Svíþjóð 2003

Ísland
Arnaldur Indriðason – GRAFARÞÖGN
Grafarþögn er fjórða bók Arnaldar þar sem þeir félagar Erlendur og Sigurður Óli koma við sögu og sú þriðja þar sem þeir eru í aðalhlutverki, en hlutur Elínborgar hefur aukist umtalsvert frá fyrri bókum og má segja að hún sé hér orðin jafn veigamikil persóna og Sigurður Óli.

Mannabein finnast í grunni nýbyggingar í Grafarholti. Beinin hafa greinilega legið lengi í jörðu og fagmenn úr fornleifabransanum eru fengnir til að grafa þau upp og lesa úr þeim vísbendingum sem þau og nánasta umhverfi þeirra hafa að geyma. Erlendur fær mikinn áhuga á þessum líkamsleifum, svo mikinn að jaðrar við þráhyggju, og hefur rannsókn á því sem hugsanlega gæti hafa gerst á þessum stað fyrir áratugum síðan. Sigurður Óli og Elínborg eru full efasemda um réttmæti þess að eyða svo miklum tíma og orku í áratuga gamalt mál sem ekki er einu sinni víst að sé sakamál, en láta sig þó hafa það að róta í gegnum rykmettaða skjalabunka í dimmum og köldum kjallara og fleira skemmtilegt í leit að vísbendingum. Sagan er sögð á tveimur tímaplönum. Annars vegar fylgjumst við með rannsókn Erlends og félaga í nútímanum með tilheyrandi grúski, leit að vitnum og viðtölum við þau þegar þau finnast. Hins vegar hverfur Arnaldur aftur til þess tíma er harmleikurinn gerðist og þeirra atburða sem leiddu til hans. Atburðarás beggja tímabila er rakin á víxl og lesandinn leiddur nær lokauppgjöri persónanna sem bjuggu í Grafarholtinu á sínum tíma eftir því sem rannsókninni í nútímanum miðar áfram.

Grafarþögn er öðrum þræði hefðbundin lögreglusaga, en um leið skírskotar hún til sagnfræðilegu glæpasögunnar, sem er vel þekkt og nokkuð vinsælt afbrigði glæpasögunnar. Arnaldur hefur áður leikið sér með fortíðaratburði sem rót glæpa í nútímanum, sbr. Mýrina, en hér gengur hann skrefinu lengra og staðsetur glæpinn sjálfan og meginviðfang rannsóknarinnar í fortíðinni. Þetta takmarkar að vissu leyti möguleika hans til að byggja upp spennu, en gefur honum um leið mýmörg tækifæri til þjóðfélagsrýni, söguskoðunar og persónusköpunar, sem hann nýtir sér til hins ítrasta.

Arnaldur (f. 1961) starfaði sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi um margra ára skeið. Grafarþögn er fimmta bókin sem hann sendir frá sér.

Arnaldur Indriðason: Grafarþögn
Útgefandi Vaka-Helgafell
295 síður
Ísland, 2001

Noregur
Gunnar Staalesen – SOM I ET SPEIL
Íslandsvinurinn Gunnar Staalesen er einn reyndasti og vinsælasti krimmahöfundur Norðmanna, auk þess sem hann hefur skrifað vinsælar barna- og unglingabækur, útvarpsleikrit, aðrar skáldsögur og fleira. Som i et speil er 14. bókin um einkaspæjarann Varg Veum í Björgvin, og sú fyrsta síðan safn styttri sagna um hann kom út árið 1996. Þessi endurkoma Vargs er staðsett í tíma um vorið 1993, þegar lögfræðingur nokkur, fráskilin kona um fertugt, biður hann að leita systur sinnar og mágs sem virðast hafa gufað upp af yfirborði jarðar, en sagan snýst þó ekki síður um löngu liðna atburði úr fjölskyldusögu þeirra systra.

Vargur hefur skiljanlega ekki mikið að gera sem einkaspæjari í Björgvin, en eitt og eitt verkefni á vegum tryggingafélaga ratar þó alltaf til hans öðru hvoru og Staalesen á ekki í neinum vandræðum með að selja okkur ástæðuna fyrir því að lögfræðingurinn leitar til hans fremur en lögreglunnar vegna hvarfs systurinnar. Vargur er mikill jazzisti og það sakar ekki að saxófónspilandi náfrændur leika eitt aðalhlutverkið í báðum atburðarásum, þ.e.a.s. þeirri sem átti sér stað 36 árum fyrr og rannsókninni á hjónahvarfinu í samtíma Vargs. Tengslin milli þessara tveggja atburðarása eru margslungin og á köflum pirrandi fyrir lögfræðinginn sem ræður Varg til verkefnisins, en hann lætur þann pirring ekki á sig fá fremur en lesandinn, og heldur ótrauður áfram að grufla í fortíðinni í leit sinni að lausn gátunnar í nútíðinni. Auk þess fléttast saman við þetta þriðja plottið sem tengist hinum horfna mági og skipafélaginu sem hann vann hjá þar til hann hætti skyndilega og fyrirvaralaust daginn áður en hann hvarf ásamt konu sinni.

Staalesen er rútíneraður krimmahöfundur og byggir upp skemmtilega fléttu með rökréttri og hæfilega vel falinni lokafléttu og lausn á öllum gátum og lesandinn situr eftir með það á tilfinningunni að hann hefði átt að fatta þetta fyrr án þess að finnast hann hafa verið svikinn um upplýsingar. Þá eru lýsingarnar á lífinu í Björgvin og enn norðlægari slóðum Noregs nokkuð sannfærandi og áhugaverðar, nógu áhugaverðar til að maður hefði gjarnan viljað að hann hefði leyft sér að víkja aðeins oftar og meira frá plottinu til að kynna okkur betur fyrir norsku þjóðarsálinni.

Gunnar Staalesen (1947): Som i et speil
Útgefandi Gyldendal
290 síður
Noregur 2002

Svíþjóð
Leif G.W. Persson – MELLAN SOMMARENS LÄNGTAN OCH VINTERNS KÖLD
Bandarískur blaðamaður með óljósa og jafnvel vafasama fortíð týnir lífinu þegar hann fellur út um glugga á 15. hæð stúdentagarða í Stokkhólmi. Í ritvélinni í herbergi hans er blað sem vel má túlka sem sjálfsmorðskveðju og fingraförin eru á réttum stað. Eini gallinn er sá að annar skórinn hans var nokkrum sekúndum lengur á leiðinn niður en hann sjálfur ef marka má eiganda hundsins sem drapst þegar hann fékk skóinn í höfuðið. Smám saman kemur í ljós að blaðamaðurinn var að skrifa bók um meinta njósnastarfsemi sænska forsætisráðherrans á yngri árum og skjálfti grípur um sig í efstu þrepum lögreglunnar, öryggislögreglunnar og stjórnsýslunnar. Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, Lars Martin Johansson, dregst inn í málið þegar miði með nafni hans finnst í holum hæl hins seinfæra ameríska skótaus. Áður en yfir lýkur hefur morðið á bandaríska blaðamanninum og þær upplýsingar sem hann hafði þóst búa yfir leitt af sér flókna en oft tilviljanakennda atburðarás sem endar með morðinu á forsætisráðherranum sjálfum, Olof Palme, fyrir utan kvikmyndahús í Stokkhólmi.

Persson skrifar hér sína persónulegu útgáfu af morðinu á Palme og tildrögum þess, en það er stærsta glæpamál sænskrar lögreglusögu og það sem kallað hefur á víðtækustu, tíma- og mannfrekustu rannsókn sem um getur í þeirri sömu sögu.

Þetta er því í raun söguleg glæpaskáldsaga, þar sem raunverulegar persónur og atburðir eru settir í uppdiktað samhengi og lesandinn upplýstur um það sem lögreglan komst aldrei að, enda frekar dapurt lið sem þar heldur um stjórnartaumana ef marka má Persson. Fyrir utan Johansson, sem stendur á tímamótum í sínu lífi, virðast fæstir þeir sem að rannsókninni koma vera miklir bógar.

Hið óupplýsta morð á Palme hefur verið uppspretta ótal sögusagna, kenninga, blaðagreina og skáldsagna langt út fyrir landsteina Svíþjóðar. Það sem greinir þessa bók frá öllum hinum er fyrst og fremst bakgrunnur höfundarins. Persson, sem skrifaði þrjár glæpasögur á árunum 1978 - 1982, áður en hann skrifaði þessa eftir 20 ára hlé, er einn fremsti afbrotafræðingur Svía og hefur unnið náið með lögreglunni um margra ára skeið. Hann er prófessor í afbrotafræði við sænsku lögregluakademíuna og hefur þar að auki aðstoðað meira og minna við að upplýsa á annað hundrað sakamála auk þess sem hann hefur verið ráðgjafi stjórnmálamanna, þingmanna jafnt sem ráðherra, á sviði sakamála, refsiréttar og rannsóknartækni um margra ára skeið. Hann gjörþekkir því innviði lögreglunnar, öryggislögreglunnar og réttarkerfisins. Hvassyrt og beitt gagnrýni hans á þetta apparat allt saman, ekki síst beinskeytt gagnrýni hans á rannsóknina á Palme-morðinu, hefur oftar en ekki kallað á hörð viðbrögð þeirra sem hún beinist að en hann hefur þó ætíð haldið stefnunni – og stöðunni – þrátt fyrir það.

Helsti kostur þessarar bókar felst því í þeirri innsýn sem hún veitir í vinnubrögð og vinnuumhverfi hinna ýmsu arma laganna í Svíþjóð.

Leif G.W. Persson: Mellan sommarens längtan och vinterns köld
Útgefandi Pirat forlaget
575 síður
Svíþjóð, 2002