Lög Hins íslenska glæpafélag

1. grein: Félagið heitir Hið íslenska glæpafélag.

2. grein: Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3. grein: Félagið er fulltrúi Íslendinga (Íslandsdeild) í Skandinaviska Kriminalsällskapet (SKS).

4. grein: Tilgangur félagsins og markmið er: a) að stuðla að viðgangi glæpasagna á Íslandi, b) að stuðla að kynningu íslenskra glæpasagna, jafnt á Íslandi sem öðrum löndum, c) að taka þátt í starfi Skandinaviska Kriminalsällskapet (SKS).

5. grein: Félagar geta orðið: a) höfundar sem hafa samið eina glæpasögu, -leikrit eða -kvikmyndahandrit, b) þeir sem hafa þýtt glæpasögur, skrifað um glæpasögur eða á einhvern hátt stuðlað að framgangi bókmenntagreinarinnar. Stjórn félagsins skal meta þá sem sækja um aðild.

6. grein: Stjórn félagsins skipa foringi, féhirðir og bókari. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Aðalfundur skal haldinn í mars eða apríl á hverju ári. Aðalfundur skal boðaður skriflega eða með tölvupósti með tveggja vikna fyrirvara. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála.

7. grein: Dagskrá aðalfundar skal vera: a) skýrsla stjórnar, b) reikningar, c) lagabreytingar, d) kosning stjórnar og endurskoðanda og e) önnur mál.

8. grein: Dómnefnd þriggja manna skal skipuð á aðalfundi og skal hún velja íslenskar bækur til að leggja fram í samkeppni SKS um bestu norrænu glæpasöguna.

9. grein: Aðalfundur ákveður árgjöld að fenginni tillögu gjaldkera. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis skuldlausir félagsmenn.

10. grein: Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi ef helmingur félagsmanna er samþykkur. Breytingartillögur skulu hafa borist viku fyrir aðalfund. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á stofnfundi 29. september 1999. – Breytingar á 6. grein samþykktar á aðalfundi 29. apríl 2002: „Stjórn félagsins skipa formaður, gjaldkeri og ritari.“ breytt í „Stjórn félagsins skipa foringi, féhirðir og bókari.“