Ævar Örn Jósepsson
Stutt kynning á efni bókanna sem voru tilnefndar árið 2002
Danmörk
Jan Stage: Et kys fra Kaliningrad / Þriller

Gamall löggi úr sérsveit, sem eiginlega er búið að leggja á hilluna (bæði lögguna og sveitina), er dreginn fram í dagsljósið vegna undarlegra atburða sem menn finna fáar skýringar á, en tengjast eldflaugaflutningum Rússa til Eystrasaltslandanna. Brátt fer að koma í ljós heljarmikið plott gamals og hundfúls Rússa, sem er ekki sáttur við endalok ráðstjórnarinnar og KGB í þeirri mynd sem hann átti að venjast. Sá hyggur á hefndir, og lille Danmark er skotmarkið.

Finnland
Leena Lehtolainen: Snöjungfrun / Löggusaga

Kona á fimmtugsaldri, vel stæð og vel menntuð, rekur eins konar athvarf og menntasetur fyrir konur rétt utan við borgina. Aðallöggan heldur fyrirlestur um sálfræðilega sjálfsvörn fyrir fórnarlömb nauðgunar og annars ofbeldis á menntasetrinu. Nokkru seinna finnst forstöðukonan látin – undir grenitré í útjaðri landareignarinnar. Grunur vaknar um að dauða hennar hafi ekki borið að með eðlilegum hætti og rannsókn hefst á þeim sem voru á setrinu umrætt kvöld, sem og á ástmanni konunnar og sértrúarfrömuði nokkrum, sem átti konu sem leitað hafði hælis á setrinu eftir að hann gerði hana brottræka af heimili þeirra hjóna. Fleiri koma einnig við sögu rannsóknarinnar.

Ísland
Arnaldur Indriðason: Mýrin / Löggusaga

Maður vel yfir miðjum aldri finnst látinn í kjallaraíbúð sinni í Norðurmýrinni, greinilega fórnarlamb einhvers konar árásar. Lítið er um vísbendingar annað en bréfsnifsi, sem á er ritað "Ég er hann." Þegar byrjað er að grúska í fortíð og tölvu hins látna kemur ýmislegt misjafnt í ljós, sem bendir til þess að ekki hafi verið um neinn fyrirmyndarborgara að ræða, þrátt fyrir að hann hafi aldrei lent upp á kant við lögin svo heitið gæti. Það kemur meðal annars í ljós, að hann hefur að öllum líkindum nauðgað konu fyrir margt löngu og gert henni barn að auki. Bæði fórnarlamb nauðgunarinnar og ávöxtur hennar eru hins vegar látin fyrir mörgum árum, en dauðdagi barnsins vekur athygli aðallöggunnar, sem heldur áfram að garfa í fortíð nauðgarans, eða fórnarlambs morðingjans öllu heldur, þrátt fyrir efasemdir yfirmanna jafnt sem kollega.

Noregur
Jon Michelet: Den frosne kvinnen / Löggusaga

Lík ungrar konu finnst helfrosið undir grenitré í útjaðri stórrar lóðar fyrrum krimma og lögfræðings, gömlum kunningja lögreglunnar. Sá kann enga skýringu á líkfundinum og þekkir ekki hina látnu. Þessu trúir löggan mátulega en hefur þó ekkert í höndunum sem bendlar gamla skúrkinn við morðið. Ungur maður losnar úr fangelsi annars staðar í landinu og fer til fundar við gamlan félaga sinn í mótorhjólaklíku, með hugsanlega fyrirsjáanlegum en þó engan veginn augljósum afleiðingum. Málin tengjast þegar grannt er skoðað, og mikið púslispil fer í gang áður en myndin skýrist að lokum.

Svíþjóð
Åke Edwardson: Himlen är en plats på jorden / Löggusaga

Tveir ungir piltar eru barðir í höfuðið með skömmu millibili og slasast alvarlega. Hvorugur sá árásarmanninn. Þegar sá þriðji er laminn í hausinn fer allt af stað og löggan hefur alvöru rannsókn en gengur ekkert allt of vel framan af. Leita fanga hjá fórnarlömbunum, félögum þeirra og fjölskyldu, leitin leiðir þá upp í sveit og aftur í fortíðina áður en menn komast aftur til borgarinnar og nútímans þar sem þrjóturinn er í þann mund að fara að fremja sinn versta glæp.

Úrslit verða kynnt 24. maí 2002