Landvættir

heim.gif (185 bytes)

skjalm.jpg (10003 bytes)

Landvættir eru verndarvættir einstakra landa, héraða, jarða eða býla. Þær má ekki styggja, því að þá farnast mönnum illa. Þær eru flestar ónafngreindar og bjuggu í trjám, lundum, fossum, hæðum og hólum, fjöllum, steinum og klettum. Velferð byggðarlaga og bæja var tengd þrifnaði vættanna. Þær voru jafnvel dýrkaðar daglega með matarfórnum, sem konur hafa væntanlega séð um. Þetta hátterni var stranglega bannað í kristnum lögum. Á Þingvöllum er Ármannsfell, en ármaður er vættur.

Í Landnámabók er sagt frá Þorsteini rauðnef, sem bjó á Fossi í Rangárvallasýslu:

Þorsteinn rauðnefur var blótmaður mikill; hann blótaði fossinn, og skyldi bera leifar allar á fossinn. Hann var og framsýnn mjög. Þorsteinn lét telja sauði sína úr rétt tuttugu hundruð, en þá hljóp alla réttina þaðan af. Því var sauðurinn svo margur, að hann sá á haustum, hverjir feigir voru, og lét þá skera. En ið síðasta haust, er hann lifði, þá mælti hann í sauðarétt: „Skeri þér nú sauði þá, er þér viljið, feigur em eg nú eða allur sauðurinn elligar, nema bæði sé.“ En þá nótt, er hann andaðist, rak sauðinn allan í fossinn.

Þessi frásögn endurspeglar trú á landvætti, sem bjó í fossinum.

Í Heimskringlu segir Snorri frá landvættum Íslands. Íslendingar höfðu ort níð um Harald Gormsson konung og var hann þeim reiður og vildi senda þangað flota og hefna níðsins:

Haraldur konungur bauð kunnugum manni að fara í hamförum til Íslands og freista, hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá, að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill, og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill, að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurliga. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austur með endlöngu landi - „var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan, en haf svo mikið millum landanna,“ segir hann, „að ekki er þar fært langskipum.“

skip.jpg (18402 bytes)

Samkvæmt elstu lögum Íslendinga áttu menn að taka niður útskorin drekahöfuð af skipum sínum til þess að styggja ekki landvættir eða eins og segir í Landnámu, og sýnir, hvað átrúnaður af þessu tagi hefur verið mikilvægur:

Það var upphaf hinna heiðnu laga, að menn skyldu eigi hafa höfuðskip í haf, en ef þeir hefði, þá skyldi þeir af taka höfuð, áður þeir kæmu í landsýn, og sigla eigi að landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svo að landvættir fælist við.

Í sögu Egils Skalla-Grímssonar er frá því greint, að Egill reisti níðstöng í Noregi til þess að rugla landvættir í ríminu og koma þeim til þess að hrekja Eirík konung blóðöx og Gunnhildi drottningu frá völdum í Noregi, en þau höfðu brotið rétt á Agli. Í sögunni stendur svo:

… gekk Egill upp í eyna. Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkra, þá er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: „Hér set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu,“ - hann sneri hrosshöfðinu inn á land, – „sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggva, svo að allar fari þær villar vega, engin hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi.“ Síðan skýtur hann stönginni niður í bjargrifu og lét þar standa; hann sneri og höfðinu inn á land, en hann reist rúnar á stönginni, og segja þær formála þennan allan. Eftir það gekk Egill á skip.

Egill sigldi til Íslands, en Eiríkur og Gunnhildur hrökkluðust frá völdum. Egill hefði ágætlega getað farið með vísu úr Hávamálum, en þar er reyndar vikið að túnriðum:

Það kann eg ið tíunda:
ef eg sé túnriður
leika lofti á,
eg svo vinnk,
að þær villar fara
sinna heimhama,
sinna heimhuga.

Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)