Sálin

heim.gif (185 bytes)

Töfrar af ýmiss konar tagi voru hluti af trúnni og gátu nýst mönnum á marga vegu, bæði til góðs og ills. En til þess að svo mætti verða þurftu þeir að kunna skil á leyndum dómum sálarinnar, seiði, rúnum og fleiru.

Orðið sál er til í öllum germönskum málum, en upprunaleg merking þess er allsendis óljós. Ef til vill er orðið skylt germanskri rót, sem merkir vatn, sær, og gæti þá vísað til þess, að germanir hafi trúað því, að sálir framliðinna byggju í vötnum eða lindum, enda sökktu þeir fórnardýrum og hlutum í vötn. Fornmenn trúðu því, að sálin væri það sem lifði eftir líkamsdauða og færi til ríkis dauðra, en það kunna að vera kristin áhrif. Annað samgermanskt orð um sálina í þessum skilningi er fjör, sem merkir líf eða lífsafl. Enn eitt orð um þetta fyrirbæri er hugur, en uppruni þess er öldungis óviss; gæti þó verið dregið af stofni, sem þýðir vara sig, skyggnast um, en það tengist vel sálnaflakki.

Menn trúðu því, að sálin eða hugurinn gæti skilist við líkamann meðan þeir sváfu, farið víðs vegar og margvíslegra erinda og tók þá stundum á sig eitthvert gervi, dýrs eða manns. Það hét að hafa hamskipti, og þeir sem slíkt gátu voru hamrammir. Enginn var Óðni fremri í þessari iðju eins og Snorri greinir frá í Heimskringlu:

Óðinn skipti hömum. Lá þá búkurinn sem sofinn eða dauður, en hann var þá fugl eða dýr, fiskur eða ormur og fór á einni svipstund á fjarlæg lönd að sínum erindum eða annarra manna.

Gervi sálarinnar í þessum ferðum var nefnt hamhleypa, og að jafnaði gerðu þær mönnum illt. Þeir sem urðu fyrir ásókn kenndu þreytu, og svefn sótti á þá eða þeir gátu ekki einbeitt sér. Illvættir í draumum voru óvinveittar sálir persónugerðar. Mara var óvættur, sem réðst á menn í svefni, tróð á þeim, sbr. martröð, og reyndi yfirleitt að kæfa þá; stundum voru slíkar óvættir kallaðar munnriður. Snorri lýsir þessu vel í Heimskringlu sinni:

Vanlandi hét sonur Sveigðis, er ríki tók eftir hann og réð fyrir Uppsalaauð. Hann var hermaður mikill, og hann fór víða um lönd. Hann þá veturvist á Finnlandi með Snjá hinum gamla og fékk þar dóttur hans, Drífu. En að vori fór hann á brott, en Drífa var eftir, og hét hann að koma aftur á þriggja vetra fresti, en hann kom eigi á tíu vetrum. Þá sendi Drífa eftir Huld seiðkonu, en sendi Vísbur, son þeirra Vanlanda, til Svíþjóðar. Drífa keypti að Huld seiðkonu, að hún skyldi síða Vanlanda til Finnlands eða deyða hann að öðrum kosti. En er seiður var framinn, var Vanlandi að Uppsölum. Þá gerði hann fúsan að fara til Finnlands, en vinir hans og ráðamenn bönnuðu honum og sögðu, að vera myndi fjölkynngi Finna í fýsi hans. Þá gerðist honum svefhöfugt, og lagðist hann til svefns. En er hann hafði lítt sofnað, kallaði hann og sagði, að mara trað hann. Menn hans fóru til og vildu hjálpa honum. En er þeir tóku uppi til höfuðsins, þá trað hún fótleggina, svo að nær brotnuðu. Þá tóku þeir til fótanna, þá kafði hún höfuðið, svo að þar dó hann. Svíar tóku lík hans, og var hann brenndur við á þá, er Skúta heitir. Þar voru settir bautasteinar hans.

Gandreið er nátengd hamskiptum. Gandur er stafur, en margir trúðu að hamhleypur, einkum konur, riðu um loftið á töfrastaf. Slíkar hamhleypur voru nefndar kveldriður, tröllriður, túnriður eða myrkriður.

Ýmislegt gat orðið til þess, að sálin komst ekki heim aftur. Þá varð maður hugstolinn eða hamstolinn.

Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)