
Lygin um Snorra og Egils sögu
Mál og menning, Alþingi Íslendinga og nokkrir íslenskir fræðimenn hafa
úrskurðað að Egils saga sé eftir Snorra Sturluson. Og fóru létt með það!
Það mun hafa verið árið 1933 að
Sigurður Nordal setti fram hugmyndina um að Snorri hafi skrifað Eglu,
reyndar ekki fyrstu manna. Það gerði hann í formála að útgáfu
Fornritafélagsins á Egils sögu. Sigurður var sannfærður sjálfur en
viðurkenndi að þetta væri álitamál.
En þessi hugmynd er svo að þvælast
fyrir mönnum fram eftir síðustu öld. En hún tekur á sig nokkrar
breytingar. Ég minni á bókmenntasöguna frá árinu 1974. Þar er þessu
nánast slegið föstu.
Í Íslandssögu til okkar daga (Mál
og menning 1991) stendur á bls. 105: ,,Egils saga mun vera samin í
Borgarfirði undir handarjaðri Snorra Sturlusonar."
Verkið fullkomnað
Nýjasta skrefið er svo nýkomin
útgáfa Máls og menningar á ritum Snorra Sturlusonar. Þar er Egla tekin
með. Í formála þeirrar útgáfu segir Vésteinn Ólason að ritstjórnin
hafi tekið Eglu með í útgáfuna vegna sannfæringar um að Snorri hafi
ritað hana ,,og skal það ekki frekar rætt eða rökstutt."
Skal engan undra! En samt sem áður
heldur Vésteinn áfram og fer að bollaleggja hvaða ár Snorri hafi samið
Egilssögu!!
Hvers lags fræðimennska er þetta?
Af hverju tók háttvirt ritstjórn ekki Hænsna Þóris sögu með.
Hún gerist í Borgarfirði og gæti vel verið ,,samin undir
handarjaðri Snorra." Já, og talandi um hænsn þá hefði mátt láta
Litlu gulu hænuna fljóta með.
Ég hlýt ég efnisins vegna að rifja upp stysta kaflann í
gervallri íslensku bókmenntasögunni: Íslendingar
eru hænsn! (Steinar Sigurjónsson).
Aðalatriðið
er að ritstjórn útgáfunnar, Mál og
menning og alþingi hafa ekki fært sönnur á að Snorri Sturluson hafi
samið Egils sögu. Þessar stofnanir hafa þess vegna ekki nokkurn rétt
til þess að gefa Eglu út sem höfundarverk Snorra Sturlusonar.
Höfundarleysi Íslendingasagna er
einmitt eitthvert mest sjarmerandi einkenni þeirra. Það er yfirlýsing
um að þjóðin skrifaði þær og þjóðin á þær. Og hún þarf ekki fræðimenn
með minnimáttarkennd til að merkja þær nafngreindum höfundum þeim,
fræðimönnunum og þingformönnunum, til upphefðar og eilífrar vegsemdar.
Til skammar
Það er alþingi til skammar að
forseti þingsins geti notað fé almennings til að koma einkaskoðunum
sínum og delluverkefnum á framfæri og ljúga að fólki. Hvað reiddi hið
,,háa" (vonandi þarf ekki að útskýra gæsalappirnar) alþingi fram mikið
fé? Ég spyr og vænti svars.
Þessi útgáfa er Máli og menningu til háðungar. Þetta er
blettur á henni sem bókaútgáfu fræðilegra bóka
Þetta er vitaskuld ljótur blettur
á þeim fræðimönnum sem að þessu standa með Máli og menningu og
alþingi. Ég get ekki litið á þá sem trúverðuga fræðimenn hér eftir.
Hí á ykkur alla. Skammist ykkar.
Ojjjbara, strákar.
Efst á síðu |
Að feðra stöku eða mæðra
Það þarf varla að hafa þann formála á þessum greinarstúf að
íslendingar hafa löngum stundað þá íþrótt að setja saman vísur.
Oft er vísunum kastað fram, mæltar af munni fram og lifa í minni
þjóðarinnar en höfundurinn gleymist. Þá taka menn við að glíma um
að feðra vísurnar. En það er líka hægt að mæðra þær.
Í Völuskjóðu (Iðunn 1957) fjallar Guðfinna Þorsteinsdóttir
meðal annars um Guðnýju Árnadóttur skáldkonu sem fædd var austur á
Héraði snemma á 19. öld. Guðfinna birtir fjórar vísur Guðnýjar.
Sú fyrsta er um það þegar Guðný velti óvart um koll móður
Guðfinnu ársgamalli. Guðný reisti hana upp og kvað þessa vísu:
Ekki
var ætlun mín -
ofurlítil baugalín -
á fjalir fleygja flatri þér.
Fyrirgefðu þetta mér.
Aðra vísu orti Guðný um móður
Guðfinnu. Hún er svona:
Arma
út breiðandi
æsku-lítið gull.
Hár á hvirfillandi,
hvítt sem viðarull.
Ennis heiðin hreina,
hún er brúnaskær,
augað eðalsteina
eins og spegill glær.
Regna-boga-rósir sá
rauðum loga kinnum á.
Hjalið vogar vörum frá
í vonarlundi grær.
Þriðja
vísan sem Guðfinna birtir eftir Guðnýju er um Hallgrím nokkurn
fæddan 1855. Guðný var fóstra Hallgríms og orti til hans þessa
fallegu braghendu:
Einhvern tíma, ef ég hími enn í vetur,
kolhrímótt kerling getur
kveðið Grími ljóðin betur.
Fjórða vísan er draumvísa um
Snjólf nokkurn sem varð úti á Breiðdalsheiði. Guðfinna minnist
líka á Hrólf langafa minn sem varð úti á Haugsöræfum 1893 og um
var líka ort draumvísa um að hann hefði verið myrtur til fjár.
Hann hafði búið í Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði en þeir tímdu ekki
að veita honum sveitarfesti svo hann varð að fara í fæðingarstað
sinn Vopnafjörð til að fá aðstoð. Fékk þar góðar viðtökur en varð
úti sem fyrr segir á leið til baka. En lét eftir sig meðal annars
afa minn. En það er önnur og lengri saga og úr varð morðsaga því
Hrólfur hafði með sér einhverjar 10-15 krónur frá Vopnfirðingum og
í þá daga þótti það víst að hyrfi fátækur maður með peninga á sér
hefði hann verið myrtur. Draumvísan um Snjólf er á hinn bóginn
svona:
Á
fornum vegi frá henni
finnst hann, þegi faldur
Öðrum megin á henni
er hann veginn, kaldur.
Þá er best að koma sér að
efninu. Ekki seinna vænna. Greinin er að verða búin.
Í lok þáttar síns um Guðnýju skáldkonu segir Guðfinna
Þorsteinsdóttir: ,,Ég hefði óskað þess að geta bjargað sem flestum
af vísum Guðnýjar frá þeim örlögum, að vera ,,feðraðar", því
auðvitað eru allar stökur ,,feðraðar", sem vafi leikur á hver
kveðið hafi. Hvenær kemur sú tíð, að mönnum kæmi til hugar að
,,mæðra" stöku, þó að það sé löngu orðið lýðum ljóst, að konur
hafi ort á öllum tímum jöfnum höndum á við karla. Því miður hefur
hefur mér tekizt að bjarga litlu, aðeins fjórum vísum, sem ég
skylda þjóðina til að ,,mæðra" héðan af og eigna Guðnýju
Árnadóttur skáldkonu.
Mig langaði sem sagt að vekja athygli sögninni að mæðra í
þessari merkingu en orðið hefur ekki náð fótfestu og er til að
mynda ekki í íslenskri orðabók. En á það fyllilega skilið og líka
það að við feðrum eða mæðrum vísur eftir því sem við á.
Efst á síðu |
Það er engin
spilling á Íslandi
Maður nokkur hætti í pólitík á
Íslandi. Skömmu seinna var hann orðinn sendiherra.
Nei, það er engin spilling á Íslandi.
Annar maður hætti í
pólitík og nokkrum dögum síðar var hann seðlabankastjóri.
Hver segir að það sé spilling á
Íslandi?
Annar ákvað að hætta á þingi og var
gerður sendiherra.
Það vottar ekki fyrir spillingu á
Íslandi.
Einn þingmaður var orðinn leiður á
að verða þingmaður og var gerður forstjóri Landsvirkjunar.
Sá sem sér spillingu á Íslandi er
bara hálfviti.
Þingmaður ákvað að
hætta að vera þingmaður og gerðist sendiherra. Nei, bíddu hægur, þessi
var kominn. Og þó, það var hinn. Þetta er annar. Þeir eru margir.
Það sér hver maður að það er engin
spilling á Íslandi. Það er bara svo lítið til af frambærilegu fólki á
Íslandi.
Frambjóðandi féll í prófkjöri af því
að hinir svindluðu. Hann var sendur í feitt embætti í útlöndum en er
nú orðinn ráðuneytisstjóri enda er engin spilling á Íslandi.
Nei, það er sko alls engin spilling á Íslandi. Þetta eru allt
svo vænir og reyndir menn að þeir áttu fyllilega skilið að komast í
feitt. Umfram alla aðra á Íslandi.
Efst á síðu |
Öll
lífsins gæði eru skattskyld
Bréf til fjármálaráðherra
Hæstvirtur
ráðherra fjármála.
Æðsti tollheimtumaður lýðveldisins, sem þú veitir fjárhagslega forstöðu, lét
hafa eftir sér í DV 10. janúar sl. að öll lífsins gæði væru skattskyld og
nefndi nokkur dæmi.
En skattheimtumaður þinn stendur ekki í stykki sínu. Hann er
of efnislega sinnaður, jarðbundinn kontóristinn, og hugsar einungis um bíla,
tölvur, utanlandsferðir og mat, rétt eins og það séu einu gæðin sem okkur
áskotnast í lífinu. En því fer víðsfjarri eins og dæmin sanna.
Mér koma strax í hug þrír skattstofnar sem hann hefur litið
fram hjá. Mér er það ekki nema sönn ánægja og ljúf skylda að leggja fram
minn skerf til að bæta ástand fjármála hins besta ríkis allra ríkja í
heiminum, einkum í ljósi þess að fjárhagur hins besta ríkissjóðs allra
ríkissjóða í heiminum er eitthvað lúinn þessa dagana.
Sólskinið
Sólarljósið er eitt þeirra lífsgæða sem við njótum öll. Allir þekkja unað
þess að láta geislana leika um sig og verma. Það nær vitaskuld ekki nokkurri
átt að þjóðin skuli láta sólina skína á sig dag eftir dag án þess að meta
það á nokkurn hátt né gera sér grein fyrir kostnaði sem af því hlýtur.
Skattur á þessi gæði mundi auka kostnaðarvitund almennings og
hann mundi án efa njóta betur yls sólarinnar ef hann fengi að greiða fyrir
hann. Það er enginn vandi að reikna skattinn út. Ég bendi á að veðurstofan
reiknar út sólskinsstundir af mikilli nákvæmni. Annaðhvort mætti hugsa sér
að skatturinn yrði breytilegur milli ára, eins og sólskinið, eða reiknaður
út samkvæmt einhverju meðaltali. Ég læt þig um nánari útfærslu enda vanur
maður í þessum efnum.
Ég vil þó benda á eina mikilvæga staðreynd. Nú vita allir að
á sundlaugarbörmum þessa lands liggja gamlingjar eins og hráviði og sleikja
þessi lífsgæði tímunum saman og umfram annað fólk. Auðvitað er sjálfsagt að
hafa hærra skattþrep fyrir ellilífeyrisþega enda sitja þeir, eins og ég
sagði, í sundlaugunum lon og don þegar sólin skín. Þeir hafa líka tímann til
þess.
Hærra skattþrep ellilífeyrisþega er líka í eðlilegu samræmi
við þá stefnu ríkisins að láta þá sem minna mega sín borga meira en hina sem
betur eru stæðir.
Hamingjan
Alþjóðlegar kannanir hafa sýnt að þjóð vor er sú hamingjusamasta í heimi sem
von er. Hamingjan er því enn ein lífsgæðin sem þegnarnir taka sem
sjálfsögðum hlut. Ég efa ekki að það yrði þjóðinni til hamingjuauka ef hún
fengi að greiða hamingjuskatt. Hamingjan yrði verðmætari fyrir bragðið og
þjóðin gætti hennar betur og sólundaði henni ekki eins og mönnum hættir til
að gera við það sem ókeypis fæst.
Ég vara þó við undanskotum undan skattinum og legg til þessa
lagagrein: ,,Nú reynir maður að gera sér upp óhamingju til að skjóta sér
undan hamingjuskatti skal þá þegar vísa honum til Geðlæknis ríkisins.
Reynist hann vera hamingjusamur þrátt fyrir allt, sem reyndar er
langlíklegast í ljósi staðreynda um hina hamingjusömustu þjóð allra
hamingjusamra þjóða í heiminum, skal beita sektum. Nú greiðist sektin ekki
og kemur þá varðhald eða fangelsi í hennar stað.”
Því er við þetta að bæta að ég las í blöðunum um daginn að
erlendir vísindamenn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að unnt væri að kaupa
sér hamingju. Hvert mannsbarn var reyndar með það hreinu en nú er þetta
vísindalega sannað. Við getum því reiknað með að hinir ríkari meðal vor hafi
keypt sér hamingju en ekki hinir fátækari enda eru þeir ekki aflögufærir.
Þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt og jafnvel réttlátt að hinir fátækari
greiði meiri skatt. Þeir hafa öðlast hamingjuna fyrir ekki neitt meðan hinir
ríku hafa þegar greitt fyrir hana, sumir hverjar með miklum fúlgum.
Það er líka í fínu samræmi við stefnu ríkisins um að láta
hina fátækari borga meira en þá ríku.
Andrúmsloftið
Hvert mannsbarn andar að sér miklu súrefni á hverjum einasta degi. Þetta
gerum við án umhugsunar alla ævi. Göngum út frá því sem vísu að geta andað
og andað að vild daginn út og inn og á nóttunni líka. Loftskattur yrði til
að vekja okkur til umhugsunar um þessi lífsgæði og án ef mun fólk anda
vandlegar að sér og frá og nýta loftið betur ef það greiðir fyrir hvern
andardrátt.
En að ýmsu ber að hyggja. Nú er það til dæmis staðreynd að
gamalt fólk og sjúklingar, til dæmis asmasjúklingar, þurfa að anda meira að
sér og nýta auk þess súrefnið verr en annað fólk. Það er því ekki nema
réttlátt að þessir hópar og aðrir sem viðlíka er ástatt um greiði hærri
loftskatta en aðrir.
Það er líka í góðu samræmi við stefnu ríkisins um að láta
sjúklinga og gamalmenni greiða meira til hins opinberra en aðra.
Í von um að þessar hugmyndir megi verða til að bæta fjárhag
hins besta ríkis allra ríkja.
Með vinsamlegri kveðju, Eiríkur Brynjólfsson.
Efst á síðu. |
Stærðfræðin,
grunnskólinn og taugar
þjóðarinnar
Enn einu
sinni eru menn að fara á taugum yfir kunnáttu grunnskólabarna í stærðfræði.
Núna er það ekki vegna þess að við lendum í alþjóðlegri könnun neðar en lönd
sem sem hafa ekki einu sinni skólaskyldu. Nei, foreldrar eru að uppgötva
vankunnáttu barna sinna. Gott og vel.
Ég ætla ekki að fjalla um meinta vankunnáttu barna í
stærðfræði né öðrum greinum. Það er afleiðing en ekki orsök. Ég ætla að
fjalla forsendur skólans eins og hann er núna og hvað þurfi að gera vilji
menn raunverulegar úrbætur.
Heimaskóli
fyrir alla
Það var loks með grunnskólalögunum árið 1974 að öllum börnum var tryggð
skólavist í almenna skólakerfinu. Fram að því gátu skólayfirvöld losað sig
við óþægilega nemendur. Síðan hefur verið tryggður sjálfsagður réttur allra
barna til að ganga í almenna skóla. Foreldrar hafa í auknum mæli nýtt þennan
rétt. Það þýðir að nemendahópurinn er miklu margslungnari en nokkru sinni
fyrr. Aðeins um 1% barna eru í sérskólum. Þetta leggur skólunum stórauknar
byrðar á herðar.
Á sama tíma hefur ríkisvaldið lagt hömlur á skólastarf í
formi miðstýrðra námskráa og fleiri samræmdra prófa. Ég var fyrir nokkrum
árum í skólaheimsókn í Tallinn í Eistlandi. Þeir voru að losa sig við
sovéska miðstýringu meðan við vorum að taka hana upp!
Ofan á þetta allt saman kemur stóraukið vinnuálag á kennara í
kjölfar síðasta kjarasamnings þeirra. Ég fjalla ekki frekar um þann samning
enda er hann sjálfskaparvíti grunnskólakennara sem voru nógu miklir
grasasnar að samþykkja hann.
Vinnuaðstaða nemenda og kennara
Nemendur er allt að 31 í bekk. Í skólanum þar sem ég kenni eru dæmi um 31
nemanda í 45 m2 kennslustofu. Ég nenni ekki að reikna út
fermetra á mann en þetta er á við þéttbýlustu staði jarðar.
Ætlar einhver að segja mér að þetta sé viðuanndi vinnuaðstaða
fyrir nemendur og kennara? Þarna á einn kennari að sinna þörfum hvers og
eins. Og þarna eiga nemendur að vinna vinnuna sína. Dettur einhverjum í
alvöru í hug að þetta gangi upp?
Úrræðin
Stefán Jón Hafstein skrifaði grein um daginn, í Moggann minnir mig, og sagði
að Fræðsluráð Reykjavíkur ætlaði að skipa nefnd um málefni bráðgerra barna.
Gott og vel. Það er í fínu. Hins vegar vil ég benda formanninum á það að
bráðgerir nemendur hafa fjölmörg tækifæri í unglingadeildum grunnskólans.
Til geta þeir tekið samræmd próf í 9. bekk og framhaldsskólaáfanga. Þetta er
því ekki mesta meinsemd skólans. Sá sem heldur það veit ekkert um skólamál
og byrjar eðlilega á öfugum enda.
Hvað ber
að gera?
Í skýrslu European Agency, Effective Inclusive Classroom Practice, kemur
fram hver eru skilyrði fyrir árangursríkri kennslu í skóla án aðgreiningar.
Skýrslan er árangur athugana í löndum Evrópu. (Ísland tók þátt). Þessi
skilyrði eru:
Bekkjarkennari þarf stuðning frá öðrum kennara, sérkennara
eða almennum kennara. Þetta reyndist duga vel til að ýta undir fræðilega og
félagslega færni allra nemenda. Það gefur augaleið að samvinna kennaranna
verður að vera góð. Besta útfærsla þessa er að tveir kennarar kenni bekknum.
Aðstoð jafningja og samvinna nemenda var árangursrík, bæði
hvað varðaði nám og félagslega hæfni. Nemendur læra mikið á því að hjálpast
að, einkum ef þeir hafa mismikla námsgetu. Ekkert benti til þess að annar
hvor nemendanna byði skaða af. Þvert á móti högnuðust báðir fræðilega og
félagslega.
Í skýrslunni er bent á nauðsyn þess að fylgjast vel með
framförum nemendanna með því að meta og áætla námið frá degi til dags.
Vandamál leyst sameiginlega. Þetta á einkum við um nemendur
með hegðunarerfiðleika. Vandamál sem af því stafa eru þá leyst í sameiningu
á kerfisbundinn hátt. Jafnframt gilda skýrar og einfaldar reglur, samdar af
kennurum og nemendum í sameiningu.
Loks kom fram að ólíkar kennsluaðferðir þarf til að kenna
ólíkum nemendum í blönduðum bekk. Skýr markmið, sveigjanlegar aðferðir og
fráhvarf frá einsleitum kennsluaðferðum, það er hefðbundinni töflukennslu
með innlögn.
Þetta er
dýrt
Vissulega er þetta dýrt. Rosalega dýrt. Auðvitað er asnalegt að birta þessa
tillögu á sama tíma og menntamálaráðherra hefur það eitt til málanna að
leggja að stytta framhaldsskólann í sparnaðarskyni. En samt eru þessi orð
nauðsynlegt. Ef yfirvöld menntamála hlusta ekki á kennara og fara að
tillögum þeirra þá munu þau halda áfram að keyra menntakerfið í þrot.
Ekkert af þessu er mögulegt án mikilla útgjalda.
Efst á síðu |
Ísland,
stríð og SÞ
Nú er komið að því að Bandaríkjamenn ætla að
ráðast inn í Írak. Þvert gegn vilja þjóða heims sem er flestar búnar að fá
yfir sig nóg af yfirgangi bandarískrar heimsvaldastefnu.
Bandaríkin hljóta að sjálfsögðu blessun og stuðning íslensku
ríkisstjórnarinnar. Hundurinn geltir þegar eigandinn sigar.
Kokhraustar og herskáar yfirlýsingar íslenskra ráðherra um
árásarstríð gegn Írak minna mig á brandarann um fílinn og maurana tvo.
Þannig var að maurar tveir komust upp á kant við fíl. Annar maurinn prílaði
upp eftir hálsi fílsins sem vitaskuld fann ekki fyrir neinu.
Gall þá við í hinum maurnum sem stóð álengdar: Kyrktu hann,
Emil! Kyrktu hann!
Ég las í blöðunum um daginn að íslenska ríkisstjórnin standi
í kosningabaráttu til að koma íslenskum fulltrúa í Öryggisráð Sameinuðu
þjóðanna.
Ég ætla að vona að þjóðir
heims beri gæfu til að koma í veg fyrir að Bandaríkjunum bætist á þennan
hátt ein rödd til viðbótar í Öryggisráðinu.
Efst á síðu. |
Um aðila máls
Ég hlustaði á Davíd Oddsson í fréttum
ríkisútvarpsins um daginn. Hann var að fjalla um verkfall
framhaldsskólakennara. Hann spáði löngu og erfiðu verkfalli. Viðtalið minnti
mig á að helgina þegar fréttabann ríkissáttasemjara ríkti um kjaradeilu
kennara þá voru tveir menn sem tjáðu sig um málið í fjölmiðlum. Það voru
þeir félagar Davíð Oddsson og Ari Skúlason.
Innlegg Davíðs var
að hafa áhyggjur af því að verkfallið yrði langt og erfitt. Innlegg Ara var:
Ef þeir fá kauphækkun þá viljum við hana líka. (,,Við” þýðir þarna launamenn
innan ASÍ. Því gerðu ,,þeir” ekki bara betri samninga fyrir ,,þá”?).
Ég met það svo að
innlegg beggja þessara manna hafi verið það eitt að gera deiluna erfiðari en
hún stefndi í að vera. Ég veit ekki hvor þeirra kom mér meira á óvart,
forsætisráðherrann eða framkvæmdastjórinn.
Forstjóri rútubílafyrirtækisins
Aftur að Davíð í fréttunum. Það
var að kvöldi 8. nóvember. Það sem forsætisráðherrann sagði var á þessa
leið: Deilan er í hnút. Ég hef áhyggjur af þessu. Aðilar málsins eru ekki á
sömu leið. Það er eins og annar sé á leið í rútu til Keflavíkur en hinn
norður í land. Kannski hittast þeir á Egilsstöðum.
Á honum var að skilja að ,,aðilar
máls” væru samninganefnd framhaldsskólakennara og samninganefnd ríkisins
undir stjórn fjármálaráðherra. Hann sjálfur talaði eins og honum kæmi þetta
ekki nokkurn skapaðan hlut við.
En höldum áfram með
rútubílalíkingu mannsins. Ég bendi aðeins á að hann sjálfur er forstjóri
annars rútubílafyrirtækisins. Og honum er auðvitað fullkomlega ljóst hvert
rútur hans aka. Hann ræður meira að segja hverjir aka rútunum!
Aðrir
ráðherrar og þingmenn
Menntamálaráðherrar iðulega leikið þennan
forsætisráðherraleik. Látið eins og þeim kæmi þetta ekkert við. Gengið með
veggjum og hvíslað: Ég er faglegur ráðherra. Þetta er mál fjármálaráðherra.
Hann fer með samningamálin.
Sá sem nú situr í stóli menntamálaráðherra hefur náð
einstæðri leikni í að láta sig hvorki sjást ná heyrast þegar kennaradeila er
annars vegar.
Óbreyttir þingmenn haga sér á
svipaðan hátt. Hvernig á maður til dæmis að skilja rútubílstjórann formann
Samfoks. Hvernig getur hún setið sem formaður Samfoks og þóst styðja
framhaldsskólakennara á sama tíma og hún styður ríkisstjórnina í ruddaskap
hennar gegn þessum sömu kennurum og framhaldsmenntun í landinu? Ég sé
reyndar ekki betur en að hún sé búin að gera Samfok að málpípu fyrir
Framsókn og nú um stundir ríkisstjórnina og svipta Samfok með því að vera
frjáls félagasamtök foreldra.
Og hvað með rútubílstjórann
Hjálmar Árnason, fyrrum skólameistara. Hvaða málstað styður hann í raun og
veru? Hann talar þvers og kruss!
Með öðrum orðum
Það sem ég á við er þetta: Ég er orðinn hundleiður á stjórnmálamönnum sem
taka ekki neina ábyrgð, segja eitt en hafna þeirri ábyrgð sem þeir eiga að
bera. Ég treysti ekki rútubílstjórum sem þykjast ekki vita hvert rúturnar
þeirra eru að aka.
Rútubílafyrirtækinu og
bílstjórunum undir stjórn forstjórans Davíðs Oddssonar er í lófa lagið að
leysa deiluna og bjarga framhaldsskólanum. Ef þeir vilja. Þeir eru ,,aðilar
máls”. Þeir bera allir ábyrgð.
Es.
Ég bið rútubílstjóra afsökunar á samlíkingunni. Hún er ekki sett fram þeim
til hnjóðs. Þvert á móti tek ég hatt minn ofan fyrir þeim og stéttarvitund
þeirra eins og hún birtist síðastliðið sumar og í ummælum formanns þeirra um
kjaradeilu framhaldsskólakennara.
Efst á síðu.
Hólmsteinn hagræðir sannleikanum
Ég hef löngum haft ánægju af að lesa blaðagreinar eftir
Hannes Hólmstein Gissurarson. Þetta hófst þegar ég var
prófaraklesari á DV á áttunda áratug síðustu aldar og
þurfti vinnu minnar vegna að lesa mjög margar greinar
eftir Hannes. Hann var á þessum árum að kynna
frjálshyggju fyrir Íslendingum.
Það að lesa greinar eftir Hannes er ekki
kvalalosti af minni hálfu eins og einhver kynni að halda
heldur hreinræktaður fræðilegur áhugi. Kannski
bókmenntalegur eða hugsanlega mannfræðilegur. Mögulega
rökfræðilegur.
Mér finnst til að mynda æðislegt að lesa
hversu auðmjúkur Hannes er þegar hann mærir kapítalista
úr röðum Sjálfstæðisflokksins en hraunar grimmur yfir
aðra auðmenn. Ekki er síður gaman að lesa hve lystilega
hann raðar saman utanaðbókalærðum frösum og hve
glæsilega hann dreifir óhróðri um fólk með hálfkveðnum
vísum og dylgjum. Og síðast en ekki síst af hvílíkri
snilld hann hagræðir sannleikanum.
Hannes sýnir flott tilþrif um þetta allt í
grein í Fréttablaðinu laugardaginn 21. mars. Hann
fjallar þar um ráðningu norska mannsins í
bankastjórastöðu Seðlabanka Íslands og gerir það á sinn
einstaka hátt. Í framhjáhlaupi mærir hann eigendur
Straums og Davíð Oddsson og tekur Jóhönnu Sigurðardóttur
í bakaríið. En það eru alger aukaatriði. Fyrst og fremst
er hann að fjalla um norska seðlabankastjórann.
Óhróður og dylgjur koma þarna skýrt fram.
Hann segir að sá norski hafi komið ‚af fjöllum‘ í
tilteknu máli „á fundi í seðlabankanum…“ (Sat Hannes
fundinn?) Síðar í greininni er seðlabankastjórinn í
háðungarskyni kallaður ‚fjallamaður‘ og ‚maðurinn af
fjöllunum‘.
Þetta væri svipað og ef ég rifjaði upp að
ráðning Hannesar að Háskóla Íslands var álitin pólitísk
og vafasöm á sínum tíma og kallaði hann í þessari grein
íhaldsdindilinn í háskólanum. En það geri ég vitaskuld
ekki.
Svo vitnar Hannes í hinn alkunna
heimildarmann ‚Kunnugir herma …‘ til að koma höggi á
norska manninn. Orðrétt skrifar hann: „Kunnugir herma,
að þessi fjallamaður sé taugaóstyrkur og …“
Mér er til efs að áður hafi verið jafn
fagurlega vitnað í Kunnugan hermir.
Í greininni rifjar Hannes líka upp að þessi
norski maður hafi hitt samlanda sinn í bankanum íslenska
og spyr svo þessarar glæsilegu spurningar: „Mun hann
líka krefjast þess, að íslenska verði ekki lengur töluð
á bankaráðsfundum?“
Er hægt að ná hærri hæðum í dylgjum? Þetta
er einfaldlega frábært.
En öll þessi snilligáfa verður ómerkilegt
hjóm í samanburði við glæsilegt dæmi Hannesar um
hagræðingu sannleikans.
Sigurður Líndal hefur efast um lögmæti þess
að skipa erlendan mann í þetta embætti. Þetta hendir
Hannes á lofti og segir í grein sinni: „Setning
Norðmannsins er sennilega
stjórnarskrárbrot …“
Stuttu seinna segir Hannes í sömu grein: „Ef
þessi norski stjórnmálamaður er ólöglega settur í
embætti …“
En í niðurlagi greinarinnar segir Hannes:
„Hinn fráleiti brottrekstur Davíðs Oddssonar og
ólögleg ráðning mannsins af fjöllunum …“
(Leturbreytingar mínar).
Halló! Fyrst er þetta
sennilega
lögbrot, svo ef og að lokum þetta orðin
ólögleg ráðning!
Þetta er tær snilld! Það er einungis á færi
mjög vanra manna að hagræða sannleikanum á svona
glæsilegan hátt. Sennilegt verður
ef og loks
staðreynd.
Og allt í sömu blaðaðgreininni!
Eftirmáli
Ef það reynist rétt að ekki megi skipa útlending í
embætti á Íslandi legg ég til að lögum verði breytt.
Þetta er asnalegt ákvæði, heimóttarlegt, þjóðrembulegt
og umframt allt, hólmsteinslegt!
Eftirmáli 2
Ég sendi greinina í Fréttablaðið með beiðni um birtingu
fyrir tveimur vikum en ekkert hefur gerst.
Efst á síðu. |
|