Að mörgu er að hyggja þegar menn rannsaka norræn trúarbrögð
til forna og heimildir eru af ýmsu tagi. Hvaðan kemur okkur vitneskja um trú
forðfeðranna?
Örnefni eru mörg dregin af nöfnum einstakra guða.
Útbreiðsla þeirra gefur vísbendingu um hvar viðkomandi guð var dýrkaður og seinni
liður örnefnis getur upplýst um hvers eðlis dýrkunin var.
Nokkur
örnefni eru dregin af nafni Óðins en þau eru sjaldgæf miðað við örnefni sem
tengjast öðrum goðum; enginn staður á Íslandi dregur nafn af Óðni. Bakliðir í
Óðinsörnefnum eru ýmiss konar: -berg, -hög, -mosse, -sjö,
-vin, -ö; algengust eru þau sem tengjast vatni. Ýmis örnefni eru á
helgistöðum: -hov, -hörg, -ve, en sum þeirra eru heiti á
bústað. Óðinsvé á Fjóni er vísast það örnefni sem best er þekkt hérlendis.
Urmull
örnefna er dreginn af nafni Þórs og vitna um útbreidda dýrkun hans á öllum
Norðurlöndum og víðar. Síðari liður þeirra tengist bæði aðsetri, ökrum og
hvers konar náttúrufyrirbærum. Af íslenskum örnefnum má einkum nefna Þórshöfn og
Þórsnes en fáir bæir eru kenndir við Þór.
Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson |