Mér hafði verið sagt að þeir hefðu mikið
við þegar foringjar þeirra dæju og væri sjálf líkbrennslan minnsta atriðið. Mér
lék mikill hugur á að vita skil á þessu, og svo barst mér til eyrna að einn af
höfðingjum þeirra væri dáinn. Þeir lögðu hann í lokaða gröf og í tíu daga,
þar til líkklæði hans höfðu verið sniðin og saumuð. Það er þannig, að ef um
fátækan mann er að ræða, útbúa þeir handa honum lítið skip, setja hann í það
og brenna það. En ef um höfðingja er að ræða, safna þeir saman fé hans og skipta
því í þrjá hluta. Þriðjungur þess kemur í hlut fjölskyldu hans, þriðjungur fer
í líkklæðin og síðasti þriðjungur í nabidh sem er drukkið þann dag sem
ambátt hins látna drepur sig og er brennd með húsbónda sínum.
Við að drekka nabidh bæði nótt og dag missa
þeir stjórn á sér. Oft deyja menn með krúsina í hendi. Þegar höfðingi deyr,
segja ættingjar hans við þrælana og þjónustufólkið: Hver vill deyja með
honum? Þá svarar einhver: Það vil ég gera. Sá sem segir þetta,
verður að standa við það og því er ekki hæg að breyta. Þótt hann vildi hætta
við fengi hann ekki leyfi til þess.
Þegar maðurinn sem ég hef talað um hér að ofan dó,
spurðu þeir þjónustufólk hans: Hver deyr með honum? Ambátt svaraði:
Það geri ég. Tveir verðir voru settir til að gæta hennar og þeir
fylgdu henni hvert sem hún fór. Þeir þvoðu henni jafnvel stundum um fæturna með
sínum eigin höndum.
Þeir gengu frá málum hans, útbjuggu líkklæðin og
gerðu annað sem þurfti. Ambáttin drakk dag hvern og söng, glöð og ánægð.
Þegar sá dagur rann upp þegar brenna átti ambáttina, var
ég staddur við fljótið þar sem skipið stóð tilbúið, en það hafði verið
dregið á land upp dregið og því komið fyrir á fjórum blökkum sem voru m.a. út khadhantré.
Þar hjá höfðu einnig verið reistir fjórir stórir búkkar úr tré. Skipið var
síðan dregið áfram þar til það stóð á búkkunum fjórunum. Menn fóru að ganga
um og hafa yfir eitthvað sem ég skildi ekki. Hinn látni var áfram í gröfinni, þeir
höfðu enn ekki tekið hann þaðan. Þeir komu þar með börur, settu þær í skipið,
tjölduðu yfir þær með glitofnum býsönskan silkidúk og komu þar fyrir koddum
úr sama efni.
Þá kom gömul kerling sem nefnd var Engill Dauðans og
breiddi þessi tjöld út. Það er hún sem sér um saumaskapinn á líkklæðunum og
undirbúningin, og það er hún sem drepur ambáttina. Ég sá að hún var gömul, digur
og óhugnanleg í útliti. Þegar þeir komu að gröf mannsins, fjarlægðu þeir
jarðveginn ofan af röftunum, þar næst raftana sjálfa og loks tóku þeir hinn látna
fram. Hann var í þeim klæðnaði sem hann hafði dáið í. Ég sá að hann var
orðinn svartur vegna kuldans í jörðinni. Þeir höfðu látið nabidh,
ávexti og tanbur í gröfina. Allt þetta tóku þeir úr. Það var enginlykt
af honum, aðeins liturinn hafði breyst. Þeir færðu hann í buxur, stígvél, qurtaq,
khaftan úr glitofnum silkidúk með gullhnöppum og húfu úr silkidúk og
safalaskinn, og báru hann inn í tjaldið á skipinu. Þar settu þeir hann á teppið,
létu kodda í kringum hann til stuðnings, komu með nabidh, ávexti og
ilmjurtir, sömuleiðis brauð, kjöt og lauk, sem var látið fyrir framan hann. Síðan
komu þeir með hund, skáru hann í tvennt og lögðu í skipið. Þá komu þeir með
öll vopn hans og settu þau við hlið hans. Því næst tóku þeir tvo hesta, ráku
þá áfram þar til þeir svitnuðu og hjuggu þá síðan með sverði og lögðu
kjötið í skipið. Þar á eftir komu þeir með tvær kýr, hjuggu þær einnig og
lögðu í skipið. Þá komur þeir með hana og hænu, drápu þau og fleygðu þeim
niður í skipið. Þjónustustúlkan sem vildi deyja gekk á milli tjaldanna.
Sérhver tjaldeigandi hafði samfarir við hana og sagði við hana: Segðu
húsbóndaa þínum að þetta hafi ég gert af kærleik til hans.
Síðdegis á föstudegi tóku þeir ambáttina með sér að
fyrirbæri sem þeir höfðu útbúið og líktist dyraumbúnaði. Hún steig upp á
hendur mannanna sem hófu hana upp á þennan dyraumbúnað og hún sagði nokkur orð.
Þá létu þeir hana niður, lyftu henni síðan upp í annað skipti og hún gerði
það sama. Þeir settu hana aftur niður, lyftu henni upp í þriðja skipti og enn
gerði hún eins. Þar á eftir réttu þeir henni hænu sem hún hjó höfuðið af henni
og kastaði því burt. Þeir tóku hænuna og fleygðu henni niður í skipið. Ég
spurði túlkinn hvað ambáttin hefði sagt og hann útskýrði: Í fyrsta skipti sem
þeir lyftu henni upp sagði hún: Ég sé húsbónda minn sitja í sæluríkinu,
sem er fagurt og grænt. Með honum eru aðrir menn og unglingar og hann kallar á mig,
leiðið mig því til hans. Þeir leiddu hana síðan að skipinu og hún tók af
sér armbönd sín tvö og afhenti þau gömlu kerlingunni sem kölluð var Engill
Dauðans og var sú sem átti að drepa hana. Hún tók af sér ökklahringi sína tvo og
afhenti þá tveimur ungum stúlkum, sem þjónuðu henni og voru dætur þeirrar sem gekk
undir nafninu Engill Dauðans. Síðan lyftu þær henni upp í skipið en létu hana ekki
fara inn í tjaldið. Þá komu mennirnir og höfðu með sér skildi og tréstafi og
þeir réttu henni bikar af nabidh. Hún söng og drakk það. Túlkurinn
útskýrði fyrir mér: Þannig kveður hún vinkonur sínar. Þá var henni
færður annar bikar. Hún tók hann og söng lengi, á meðan gamla kerlingin hvatti hana
til að drekka úr bikarnum og ganga inn í tjaldið, þar sem húsbóndi hennar var. Ég
tók eftir því að hún varð ráðvillt, hún vildi fara inn í tjaldið, en gekk milli
þess og borðstokksins. Gamla kerlingin tók um höfuð hennar og teymdi hana inn í
tjaldið. Gamla kerlingin fór með henni. Mennirnir fór að berja á skildina með
tréstöfum til þess að yfirgnæfa öskur hennar, svo að hinar ungu stúlkurnar yrðu
ekki svo hærddar að þær vildu ekki deyja með sínum húsbændum. Þá gengu sex menn
inn í tjaldið og höfðu allir samfarir við ambáttina. Síðan lögðu þeir hana
niður við hlið hin látna húsbónda hennar. Tveir menn tóku um fætur hennar, tveir
um hendur hennar og gamla kerlingin, sem kölluð var Engill Dauðans, lagði reipi um
háls hennar og rétti þeim tveimur mönnum sem eftir voru svo að þeir gætu togað í
það. Síðan gekk hún sjálf að ámbáttinni með breiðblaða hníf og rak hann hvað
eftir annað inn á milli rifbeina hennar, meðan mennirnir tveir hertu reipið um háls
hennar þar til hún dó.
Þessu næst tók nánasti ættingi hins látna
eldiviðarbút og kveikti í honum. Síðan gekk hann nakinn aftur á bak að skipinu og
sneri andlitinu að fólkinu, hélt á brennandi eldiviðnum í annarri hendi og hafði
hina fyrir aftan bak, þar til hann hafði kveikt í þeim eldiviði sem hafði verið
komið fyrir undir skipinu
allt eftir að hin vegna ambátt
hafði verið lögð við hlið húsbónda síns. Síðan nálgaðist fólkið með
eldiviðarbúta sem hafði verið kveikt í og fleygði þeim á bálið. Eldurinn náði
taki á eldiviðarbútunum, síðan skipinu og loks tjaldinu og manninum, ambáttinni og
öllu öðru sem þar var. Hvass vindur blés og glæddi logana.
Við hliðina á mér stóð
Rúsi og ég heyrði hann tala við túlkinn sem var með. Ég spurði hann hvað hann
hefði sagt og hann svaraði: Þið arabar eruð heimskir. Hvers vegna
þá? spurði ég. Vegna þess að þið takið þá sem ykkur þykir vænst
um og sem þið berið mesta virðingu fyrir og leggið þá ofan í jörðina, og
jörðin og ormarnir éta þá upp. Við brennum þá á augnabliki. Þá komast þeir
strax inn í sæluríkið. Síðan skellihló hann. Ég spurði hann af hverju.
Af kærleik til hans hefur herra hans sent honum vindinn, svo að eldurinn taki hann
á einni stundu. Reyndar leið aðeins tæplega ein stund áður en skipið,
eldiviðurinn, ambáttin og hinn látni voru orðin að ösku. Á þeim stað sem skipið
sem hafði verið dregið upp úr fljótinu hafði verið, byggðu þeir
eitthvað sem líktist ávölum haug, reistu í miðju hans stólpa úr khadhanktré
og rituðu þar á nafn mannsins og Rúsakonungsins. Síðan fóru þeir burt. |