Töfrar

heim.gif (185 bytes)

Trú og töfrar eru greinar á sama meiði, því að hvort tveggja byggist á trú á yfirnáttúruleg öfl. Hins vegar er mikill munur á viðhorfum. Trúaðir menn eru auðmjúkir gagnvart máttarvöldunum, en töframenn reyna að ná valdi á hinu yfirskilvitlega og stjórna því sér til hagsbóta og andstæðingum sínum til ófarsældar.

Menn iðkuðu töfrabrögð með ýmsum hætti. Menn gátu jafnvel valdið öðrum tjóni með hugarafli einu saman, hugsað svo stíft til óvina sinna, að þeir biðu skaða af. Heift og öfund voru notuð um slíka iðju.

Einnig var hægt að valda tjóni með orðum. Formælingar gátu orðið að áhrínsorðum, það sem menn óskuðu andstæðingum sínum bitnaði á þeim í krafti orðanna. Áhrifaríkasta form orðagaldurs var níð. Sá sem varð fyrir níði varð að reka af sér slyðruorðið. Hann gat skorað á hólm þann, sem mælt hafði, og var sá skyldur að staðfesta orð sín með vopnaburði, en heita níðingur ella. Orðið hefur mátt í fleiri trúarbrögðum. Í fyrstu Mósebók segir guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós í krafti orðanna. „Í upphafi var orðið“ stendur líka í þeirri ágætu bók.

Menn gátu læknað sjúkdóma með töfrum, en einnig valdið öðrum veikindum með galdri, jafnvel orðum. Sjúkdómsheitið gigt er t.d. dregið af rót, sem hefur merkinguna ummæli eða galdraformúla. Menn hafa því talið kvillann runninn undan rifjum galdramanna, sbr. þursabit og skessuskot. Galdramenn eða töframenn eiga enn rík ítök í huga fólks víða um heim. Fólk leggst í rúmið fyrir þeirra orð, enda trúir það á mátt þeirra, sumir veslast upp og deyja.

Útiseta var ein tegund töfra. Menn sátu einir úti á sérstökum stöðum, t.d. við krossgötur, hjá gröfum, við lindir og víðar, til þess að komast í samband við annan heim og öðlast þannig visku, sem gat nýst þeim í lífsbaráttunni, einkum þó til ills.

Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)