Trú
og töfrar eru greinar á sama meiði, því að hvort tveggja byggist á trú á
yfirnáttúruleg öfl. Hins vegar er mikill munur á viðhorfum. Trúaðir menn eru
auðmjúkir gagnvart máttarvöldunum, en töframenn reyna að ná valdi á hinu
yfirskilvitlega og stjórna því sér til hagsbóta og andstæðingum sínum til
ófarsældar.
Seiðurinn sem
Þorbjörg framdi gerði henni
kleift að sjá til framtíðar, en forspá var því einungis möguleg,
að menn trúðu á örlagabundna framvindu lífsins. Þetta kemur glögglega fram í
Ólafs sögu Tryggvasonar í Flateyjarbók:
Í þann tíma, er
Gunnhildarsynir gengu til ríkis í Noregi, réð fyrir Hólmgarði, það köllum vér
Garðaríki, einn ágætur konungur. Sá hét Valdimar. Hann átti dýra drottning, er
Arlogia hét. Hún var vitur og vinsæl og vel skapi farin, mjög góðgjörn og góðrar
náttúru, þó að hún væri þá heiðin. Svo er sagt, að þá væri enn heiðið allt
Garðaríki. Konungurinn sjálfur blótaði skurðgoð, en drottningu mislíkaði það
mjög, er hún fékk honum eigi frá því komið. Valdimar konungur átti móður, mjög
gamla og af elli örvasa, og mátti eigi úr rekkju rísa. Þessi
kerling var mjög mikillar náttúru og framsýn af fítonsanda sem heiðnir menn margir,
þeir er sýndust segja fyrir óorðna hluti og óvísa. En fyrir því að konungsmóður
var mjög á loft haldið og haft fyrir speki og spádóm flest það, er hún fram sagði
af fornum rökum, var sá siður með Valdimar konungi, að jafnan jólakveldið hið
fyrsta, þá er aðrir menn voru í sess komnir, var kerling konungsmóðir fyrir hans
hásæti borin, og skyldi hún þá segja, ef hún sæi eður vissi, að nokkur nálægur
háski nálgaðist hans ríki eður að komanda ófriðar væri von. Sagði hún þá
slíkt og annað, það er hún var spurð. Svo bar enn til á einum vetri, jólakveld,
þá er kerling var komin inn í höllina fyrir konunginn, son sinn, fagnaði hann móður
sinni mjög blíðliga og bað hana segja sér, ef hún sæi eður vissi af sínum
spakligum spádómi nokkura útlenda hermenn eður höfðingja á ganga eður girnast hans
ríki. Kerling svarar: Eigi veit eg, son minn, nokkurn skaðsamligan hernað né
hamingjuleysi þig nálgast eður þitt ríki, en þó sé eg merkiliga sýn og mikils
verða, að nú er fæddur norður í Noregi fyrir skömmu einn kynstór konungsson, sá
er hér mun ágætliga upp fæðast og fóstraður vera í Garðaríki, þar til sem hann
verður ágætur höfðingi. Eigi mun hann vera ágangssamur né ófriðarmaður eður
nokkurn skaða gera þínu ríki, heldur mun hann það styðja og styrkja, friða og
frelsa, og margfaldliga mun hann efla og auka þína sæmd. Hann mun koma aftur um
síðir, þá er hann er í blóma aldurs síns, og eignast það ríki, sem hann er
borinn til, þó að hann sé nú þaðan útlægur. Hann mun og sköruliga skína með
mikilli tign og margföldum sigri og verða mörgum þjóðum háleitur hjálpari í
norðurhálfu heimsins. Þó mun þessi ágæti konungur eigi lengi ríki ráða í
Noregi. Beri þér mig í burt, sagði hún, þó hefi eg nú helsti margt
talað um þennan mann. Var hún þá í brott borin.
Sá ágæti maður,
sem kerling sá, var vitaskuld Ólafur Tryggvason, en sagan er augsýnilega mótuð af
helgiblæ. |