Óðinn kunni og framdi seið

heim.gif (185 bytes)

Seiður er öflugasta form galdurs og byggist á algleymi iðkenda og sálnaflakki, en til þess að stunda seið þurftu menn að búa yfir sérstakri færni. Seiður var litinn hornauga þegar á tímum hinnar fornu trúar, og var Óðinn sjálfur þó meistari seiðsins og nam þá list af Freyju ef marka má ýmsar heimildir, en samkvæmt Heimskringlu er því öfugt farið:

Óðinn hafði með sér höfuð Mímis, og sagði það honum mörg tíðindi úr öðrum heimum, en stundum vakti hann upp dauða menn úr jörðu eða settist undir hanga. Fyrir því var hann kallaður draugadrottinn eða hangadrottinn. Hann átti hrafna tvo, er hann hafði tamið við mál. Flugu þeir víða um lönd og sögðu honum mörg tíðindi. Af þessum hlutum varð hann stórlega fróður. Allar þessar íþróttir kenndi hann með rúnum og ljóðum þeim, er galdrar heita. Fyrir því eru Æsir kallaðir galdrasmiðir. Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt.

Það voru einkum konur, sem stunduðu seið með norrænum mönnum, enda voru seiðkarlar kenndir við ergi, sem getur þýtt samkynhneigð eða annað ókarlmannlegt eðli. Seiður var ógnvekjandi, en hann var Óðni til gagns því að í krafti hans var hægt að skyggnast inn í framtíðina.

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)