Sagnavefur

 

Með morgunkaffinu
Hann koma þannig fyrir að ég vara í vafa um hvort hann keypti sér kaffi eða áfengan drykk. Þrekinn, frekar feitur í andliti, góðlegur en maður sem gat brugðið til beggja vona. Hann gat verið drykkjumaður eða bara nývaknaður á leið í vinnu eins og ég. Hann var í svörtum leðurjakka og í rauðri skyrtu og tveir efstu hnapparnir óhnepptir. Ég átti von á drynjandi röddu en ekki þægilegri rólegri þegar hann sagði við gengilbeinuna:
    Einn skrjúfdræver, takk.
    Klukkan var fimmtán mínútur yfir tíu á fimmtudagsmorgni. Jæja þá. Annaðhvort var hann að ljúka síðustu helgi eða hefja þá næstu. Það minnir mig á þegar ég var í skóla og einn bekkjarbróðir minn kom í tíma þegar sjö mínútur voru eftir af tímanum. Þetta var frægur skrópagemlingur. Kennarinn leit snöggt á klukkuna og hreytti svo út úr sér í lágværum geðvonskulegum tón:
    Jón, ertu að koma of seint í þennan tíma eða og snemma í næsta?
    Gengilbeinan endurtók ósk mannsins.
    Skrjúfdræver, já. Best að skoða hvað hann kostar.
    Fór að blaða í matseðli. Ég hugsaði með mér að henni þætti ólíklegt að maðurinn hefði efni á drykknum og ætlaði að fæla hann frá með því að upplýsa hann um verðið.
    Það eru 690 krónur, sagði hún.
    690? endurtók, minn maður. Getur það verið?
    Já, sjáðu, hún lagði matseðilinn á borðið. Hérna. Einfaldur skrjúfdræver. 690.
    Hvar kveikir maður, fröken? Falleg kona um sjötugt stóð fyrir framan klósettið.
    Það er til hægri þegar þú kemur inn, sagði gengilbeinan.
    Einfaldur? kváði maðurinn. Ég fæ tvöfaldan. Það tekur ekki öðru.
    Það eru  eittþúsund og fimmtíu, sagði gengilbeinan. Henni var greinilega létt því maður sem yfirbauð hana á þennan hátt hlaut að eiga fyrir því.
    Er Sigga Mæja ekki að vinna hérna? spurði maðurinn.
    Gling gló! Viðvörunarbjöllur í höfði gengilbeinunnar fóru á fullt. Nú á að fá þetta skrifað út á Siggu Mæju.
    Sigga Mæja, endurtók hún og skoðaði einver blöð á borðinu og lét eins og hún væri að rifja upp hverjir ynnu á þessu litla kaffihúsi við Laugaveginn. Þeir eru valla margir, hugsaði ég með mér.
    Nja, sagði gengilbeinan.
    Jæja, ég þekki hana svo sem ekkert, ansaði minn maður.
    Jú, fyrirgefðu. Hún er komin í helgarfrí, sagði þá gengilbeinan. Það var alveg óhætt að viðurkenna þetta fyrst maðurinn þekkti hana ekkert að ráði.
    Get ég fengi að hringja, sagði sú sjötuga.
    Við erum því miður bara með tíkallasíma, sagði gengilbeinan og rétti manninum glasið. Æi, þessar gömlu konur. Yngri hefði hún svipt gemsa uppúr töskunni sinni og hringt.
    Settu aðeins svona útí, sagði maðurinn og benti á flösku.
    Svona? sagði gengilbeinan.
    Já, bara dass. Nú minn bara kunnáttumaður. Dass af bitter útí dræverinn.
    Hann settist útí horn með stórt glasið fyrir framan sig. Ég ætlaði að fylgjast með því hvernig hann drykki, þambaði eða sötraði, græðgislega eða settlega, þegar sú gamla gafst uppá tíkalasímanum og sagði:
    Hvernig á að gera þetta?
    Þú hringir fyrst og setur svo peninginn í.
    Nú? kváði konan. Ekki borga fyrst?
    Nei, nei. Gengilbeinan vatt sér framfyrir borðið og kenndi konunni galdra tíkallasímans. Þessar ótæknivæddu gömlu konur, hugsaði ég með mér. Ég sá hana fyrir mér eins og saklaust barn.
    Gengilbeinan fór aftur á sinn stað, gamla konan valdi númer, minn maður saup fínlega úr glasinu sínu og ég kveikti í öðrum vindli. Allt var í himnalagi. Nema.
    Gamla konan:   Heyrðirðu ekki í mér? Ég heyri alveg í þér. Heyrirðu ekkert? Hann heyrir ekkert í mér.
    Smáinnskot: Meðan á þessu stóð hafði minn maður lokið úr glasinu og horfið hljóðlega út.
    Bíddu, ég skal...
    Gengilbeinan tók símann úr höndum konunnar, spurði hvaða númer hún ætlaði að hringja í, hringdi, setti í peninga sem hún úr svuntuvasanum. Innan stundar rétti hún þeirri gömlu símann og sagði: Gjörðu svo vel.
    Aftur varð mér hugsað til ótæknivæddu gömlu kvennanna. Með erfiða lífið, krókaleiðirnar. Og alla þjónslundina og alla sjálfsafneitunina. Orðið sjálfsafneitun stóð skrifað framan í henni. Þarfir eiginmannsins og barnanna númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og hennar síðust. Með gemsa hefði hún til dæmis losnað við allt þetta símastand.
    Nei, ég er ekki heima. Ég er á kaffihúsi, ég fékk að komast í tíkallasíma. Gamla konan var að tala. Smáhlé milli setninga þegar viðmælandinn svarði.
    Ég var heima, ætlaði að hringja en átti ekki inneign á gemsann. Ég fór að kaupa kort en þá var ekkert rafmagn á símanum. Ég er að fara heim að hlaða hann. Datt í hug hvort þú hefðir hringt. Nei, ekki það. Það er svo vont að vera símasambandslaus.
    Kva, hugsaði ég með mér. Hún á þá gemsa!
    Hvað skulda ég þér? spurði hún og átti við peningana í símann sem gengilbeinan hafði tekið úr svuntuvasanum.
    Ekki neitt. Þetta er allt í lagi.
    Ókei, sagði gamla konan.
    Ókei! hugsaði ég. Hún sagði ókei!
    Svo voru þær fyrr en varði farnar að tala um tölvur.
    Gengilbeinan: Amma mín er alltaf í tölvunni. Finnst það ofsaspennandi.
    Sú gamla: Þegar kallinn kom í land sendi ég hann á tölvunámskeið.
    Gengilbeinan: Já, var það ekki.
    Sú gamla: Jú, ég veit ekki hvar hann væri ef hann hefði ekki tölvuna. Hann er í henni lon og don.
    Gengilbeinan: Þú hefur ekki komist að?
    Sú gamla: Við urðum að kaupa aðra. Þá fékk ég mér laptop.
    Mér var öllum lokið en samt var þessu ekki lokið.
    Sú gamla. Láttu mig fá einn stóran túborg.
    Hún lá makindalega uppvið sófabakið, hendur fyrir aftan hnakka, hálfur bjór á borðinu þegar ég gekk út í góða veðrið.

Efst á síðu

 

Ritstörf

 

Áður birtar sögur

 

 

 

Áður óbirtar sögur

Með morgunkaffinu

 

Útgefnar bækur

Í smásögur færandi. 1985.
Öðru eins hafa menn logið. 1989.

 

 

Mikligarður

Smásaga um glæp

Rögnvaldur Pétur Þórarinsson stóð við afgreiðsluborðið í gestamóttökunni í Miklagarði og horfði á konuna skrá nafn sitt í gestabókina. Jóhanna Pétursdóttir. Þrautreynd rithönd. Kvenleg, jafnir stafir, beinir en hölluðu aðeins til vinstri. Ritað með öruggum en hægum dráttum. Lágvaxin, grönn kona með stutt, ljóst hár. Klædd í brúna peisu, gallabuxur og gallajakka. Græn umgjörð gleraugnanna undirstrikaði ákveðnina og gaf í skyn að konan færi sínar eigin leiðir. Hún brosti ekki.
Ákveðin kona, hugsaði Rögnvaldur með sér. Hann rétti henni lykil og sagði:     Þú færð herbergi 24. Það er innst á efri hæðinni. Þú ferð upp stigann þarna.

            Kærar þakkir, sagði konan og hvarf inn ganginn með flugfreyjutösku í eftirdragi og fartölvutösku á öxlinni.

            Rögnvaldur horfði á eftir henni og velti fyrir sér hvaða erindi hún ætti í bæinn. Flestir sem gistu hjá honum voru karlmenn einir á ferð, ýmist í tímabundinni vinnu í bænum eða sölumenn. Farandverkamenn, farandsölumenn. Þeir sem höfðu ekki efni á að gista á hótelinu. Yfirleitt mjög skrafhreifnir og kepptust við að segja honum erindi sitt, einkum sölumennirnir. En Jóhanna sagði ekki orð utan það sem nauðsynlegt var. Það er að segja: Góðan dag. Ég á pantað herbergi í þrjár nætur. Jóhanna Pétursdóttir. Já, einmitt. Fyrirgefðu, en er nettenging í herberginu? Kærar þakkir.

            Meira hafði hún ekki sagt. Það er svo sem réttur hvers og eins að upplýsa það sem hann vill um einkahagi sína. Ekki hljóp Rögnvaldur upp um hvern mann til að segja honum hvernig á því stóð að hann sneri baki við góðu lífi í höfuðborginni til að reka lítið gistiheimili á Sauðárkróki. Það kom svo sem engum við þótt það væri á hinn bóginn ekkert leyndarmál.

            Í gistiheimilinu Miklagarði voru átta herbergi á tveimur hæðum og í risinu var

íbúð Rögnvaldar. Á neðri hæðinni var bar. Þar var sjaldan mannmargt því flestir gestirnir drukku annaðhvort ekki eða fóru í ríkið í næstu götu. Það voru helst sölumennirnir sem settust á barinn. Einn og einn bæjarbúi datt inn til að fá sér í glas. Sérstaða barsins lá í því að hann var alltaf opinn. Það var opinbert leyndarmál að völdum mönnum var treyst til að fá sér glas og kvitta í bók og borga seinna. Þetta var arfur frá fyrri eiganda. Rögnvaldur hafði aldrei orðið var við að þessi fríðindi væru misnotuð.

            Rekstur gistiheimilisins var hæfileg vinna fyrir einn mann. Rögnvaldur var með opna afgreiðslu í hádeginu og á kvöldin. Þess á milli afgreiddi hann mál í gegnum farsíma sem var auglýstur á útidyrunum. Ef á þurfti að halda gat hann leitað til konu sem bjó í næsta húsi eftir aðstoð.

            Eiginkona Rögnvaldar, María, hafði ekki viljað fara með honum. Það hafði ekki komið honum á óvart.

            Hvernig datt þér þetta í hug? hafði hún sagt þegar hann sagði henni að hann væri búinn að kaupa Miklagarð.

            Ja, mér finnst fallegt þarna og mig langar að breyta til, hafði hann svarað. Mér datt þetta fyrst í hug þegar við heimsóttum Steinunni frænku þína fyrir tveimur árum.

            Steinunni Baldursdóttur? hafði María sagt.

            Já, Steinunni á Efra-Hamri. Hún var mér innanhandar um undirbúninginn.

            Jæja, hún hefur alltaf haldið upp á þig, hafði María sagt. En láttu þér ekki detta í hug að ég fari að flytja með þér upp í sveit til að þjóna í gistihúsi.

            Sauðárkrókur er kaupstaður, ekki sveit, hafði hann svarað en vissi að það hafði ekkert að segja. Í augum Maríu var allt utan Snorrabrautar sveit. Reyndar hafði hún fært mörk borgar og sveitar austur að Háaleitisbraut þegar Kringlan var byggð. Hann hafði því flutt einsamall norður en hún bjó í alltof stóra einbýlishúsinu þeirra í vesturbænum. Að nafninu til voru þau enn hjón.

            Klukkan var orðin eitt. Það var föstudagur. Sólin skein glatt og úti var logn. Rögnvaldur skrapp yfir í Veitingastofuna Svaninn til að fá sér að borða. Svanurinn var í næsta húsi og þangað var gestum Miklagarðs vísað í ódýran mat. Svanur bjó á efri hæðinni ásamt Helgu, 25 ára dóttur sinni. Hann var ekkjumaður.

            Daginn, snillingur, sagði Svanur. Þetta var dökkhærður maður, hár og digur og ævinlega með tannstöngul í öðru munnvikinu. Sífellt sveittur í feitu andlitinu. Kannski vegna eldamennskunnar. Kannski ekki. Það er blíðan, bætti hann við og stakk upp í sig nýjum tannstöngli til að japla á.

            Já, ansaði Rögnvaldur. Er ekki ævinlega gott veður í Skagafirði?

            Jú, að sjálfsögðu, sagði Svanur. Það er betra þannig. Vont veður er vont. Mikið að gera?

            Svona reytingur. Það er fólk í þremur herbergjum eins og er en ég á von á fleiri gestum í næstu viku. Hvað er í matinn í dag?

            Hvað viltu, snillingur? spurði Svanur sem var óþarfi því hann bauð aðeins upp á það sem hann var í skapi til að elda í það og það skiptið. Yfirleitt bara tvo, þrjá rétti. Stundum bauð hann aðeins upp á samlokur.

            Mig langar í piparsteik, sagði Rögnvaldur.

            Ansans, hún er því miður búin, sagði Svanur og brosti. Enda engum hollt að éta piparsteik í hádeginu. En ég er með frábæra kjúklingabita.

            Segjum það, þrjá bita, franskar og bjór. Heyrðu, og salat.

            Það fylgir alltaf, sagði Svanur og hvarf inn í eldhúsið.

            Rögnvaldur settist við gluggann og greip í dagblöðin.

            Er Helga viðlátin? spurði hann þegar Svanur var að taka af borðinu. Ég var að spá í að fá hana í vinnu í kvöld.

            Jú, hún er ekkert að gera, sagði Svanur. Ekki svo ég viti. Ertu að fara eitthvað?

            Bara njóta Jónsmessublíðunnar, sagði Rögnvaldur. Ég þarf að útrétta ýmislegt fram eftir degi og ætla svo að skreppa út á Reykjaströnd, fara í laugina, horfa á kvöldsólina og ...

            Einn eða með ...

            Þegiðu, sagði Rögnvaldur blíðlega. Segðu Helgu að hún þurfi bara að vera í móttökunni milli 5 og 7. Það gerist ekkert eftir það.

            Ekkert mál. Við reddum þessu, snillingur, sagði Svanur. Ég bið að heilsa ...

            Ég sagði þér að þegja, greip Rögnvaldur fram í fyrir honum. Ég er kvæntur maður.

 

 

* * *

 

 

Klukkan var orðin tólf á miðnætti þegar Rögnvaldur kom heim aftur. Hann raulaði fyrir munni sér lagstúf. Kom við í gestamóttökunni. Þar var miði frá Helgu um að ekkert hefði dregið til tíðinda: Enginn kom, enginn hringdi, enginn fór. Kveðjur. Helga. Hann setti jakkann á stólbakið og skoðaði póstinn í tölvunni. Ruslpóstur. Tilboð um typpastækkanir, ódýrt Víagra og hagstæð húsnæðislán frá bandarískum bönkum.

            Djöfuls rusl er þetta, tautaði hann við sjálfan sig. En bíddu hægur. Hann opnaði síðasta póstinn. Herbergispöntun fyrir tvo í tvær vikur. Hann svaraði pöntuninni og sönglaði á meðan fyrir munni sér: Víða til þess vott ég fann, þótt venjist oftar hinu, að guð á margan gimstein þann sem glóir í mannsorpinu.

            Sá á símsvaranum að konan hans hafði hringt um kvöldið. Þakkaði fyrir að hún hafði ekki hringt farsímann. Það hefði ekki verið gaman. Ekki í kvöld.

            Nenni ekki að rífast eftir svona góðan dag, hugsaði hann með sér og þurrkaði út skilaboðin án þess að hlusta  á þau. Verð víst að fara suður að ganga frá skilnaðinum. Það er ekki um annað að ræða.

            Hann slökkti ljósin í móttökunni og ætlaði upp á loft þegar hann sá að það var ljós á barnum. Hann hafði slökkt áður en hann fór.

            Hann gekk þangað. Það var dregið fyrir glugga. Dauft borðljós í einu horninu var kveikt. Í skímunni sýndist honum einhver liggja á gólfinu. Þegar hann kveikti loftljósið sá hann að maður lá á grúfu fyrir framan barinn.

            Halló! Hver er þar?

            Ekkert svar.

            Ertu dauður? sagði Rögnvaldur og hugsaði með sér að líklega þyrfti hann að fara að læsa barnum þegar hann væri ekki við. Það er of langt gengið þegar fólk er farið að deyja hérna, sagði hann við sjálfan sig.

            Þegar ekkert svar barst gekk hann að manninum, beygði sig niður og ætlaði að ýta við honum þegar hann sá blóðið í teppinu umhverfis brjóst mannsins. Hann sá andlitið ógreinilega en var engu að síður viss um hver þetta var. Hann setti fingur á feitan háls mannsins.

            Hvert þó í þreifandi! Hljóp fram og greip símann.

            Lögreglan, gott kvöld, Sigurjón síkáti talar, sagði glaðleg rödd í símanum. Þetta var káta, vinsæla löggan á staðnum. Hann gat settlað villtustu veislur þar sem allt var að fara úr böndunum. Kom einfaldlega geislandi af gleði og kátínu og fékk fólk til að syngja Undir bláhimni í stað þess að slást.

            Sæll, þetta er Rögnvaldur í Miklagarði. Ég er að tilkynna um látinn mann.

            Látinn mann? svaraði Sigurjón. Gleðin hvarf úr röddinni. Ertu að gera grín að mér, Rögnvaldur?

            Nei, ég er því miður að segja satt, sagði Rögnvaldur.

            Hver er dáinn? Hvar?

            Inni á barnum í Miklagarði. Mér sýnist þetta vera Jakob Bjarnason.

            Jakob Bjarnason útgerðarmaður? Rödd Sigurjóns síkáta var orðin grafalvarleg.

            Já, sá er maðurinn, sagði Rögnvaldur. Var, bætti hann við.

            Ég kem strax, ansaði Sigurjón.

            Nánast jafnskjótt stansaði lögreglubíll fyrir utan Miklagarð með blikkandi ljós og vælandi sírenur. Það er um einnar mínútu akstur frá lögreglustöðinni að Miklagarði og á þessum stutta tíma tókst Sigurjóni síkáta að vekja hálfan bæinn. Hann kom með látum inn í gestamóttökuna þar sem Rögnvaldur sat, enn með höndina á símanum. Sigurjón var langur og slánalegur með ljóst óstýrilátt hár sem ævinlega stóð í allar áttir. Hann var því sífellt að strjúka hárið niður.

            Hvar er líkið? Hann strauk hárið.

            Rögnvaldur benti inn á barinn.

            Sigurjón hvarf en kom fljótt til baka aftur, fölur í andliti.

            Þetta er Jakob Bjarnason, stamaði hann. Það fer ekki á milli mála.

            Já, mér sýndist það.

            Hann er dáinn. Hvað gerðist?

            Ég veit það ekki, sagði Rögnvaldur. Þess vegna hringdi ég í ykkur.

            Í sama bili opnuðust dyrnar og Hörður yfirlögregluþjónn birtist í dyrunum. Hörður var meðalmaður á hæð, um fertugt, farinn að grána töluvert. Hann var í gallabuxum, hvítum bol og gráum jakka. Mjög ákveðinn í fasi og talaði hratt en samt skýrt.

            Hvað er á seyði? spurði hann Sigurjón. Þú ert búinn að vekja hálfan bæinn og draga mig frá bjór og glæpamynd. Þú hefur vonandi góða ástæðu fyrir þessu.

            Hann Rögnvaldur hringdi og tilkynnti um látinn mann, sagði Sigurjón. Jakob er inni á barnum, dáinn. Jakob útgerðarmaður. Hægri hönd Sigurjóns tók enn eina rispuna um hárið. Ummerkin benda til að hann hafi verið myrtur, bætti hann við.

            Myrtur? hugsaði Rögnvaldur. Honum hafði ekki dottið sá möguleiki í hug.

            Hörður fór inn á barinn og kom fram eftir stutta stund. Ertu búinn að hringja í sjúkrabíl og lækni? spurði hann Sigurjón.

            Nei.

            Gerðu það strax. Og segðu þeim að spara ljós og hljóð. Maðurinn er örugglega dáinn. Það er óþarfi að vekja fleiri en orðið er. Kallaðu svo út allan tiltækan mannskap á stöðina. Það verður næturvinna.

            Á meðan þessu fór fram sat Rögnvaldur þegjandi við skrifborðið. Hann var að leggja kapal í tölvunni. En ekki hvað? Var það ekki eins gott og hvað annað þegar maður lá myrtur í næsta herbergi? Morð á gistiheimilinu hans. Hann sem hafði sest að í þessum friðsæla bæ eftir róstusöm ár í Reykjavík til að njóta friðar í fámenninu og nálægðar við náttúruna. En hvað gerist? Morð á fyrsta starfsárinu!

            Hann hrökk við þegar bankað var í afgreiðsluborðið. Það var konan í herbergi 24, Jóhanna Pétursdóttir.

            Ég var sofandi og vaknaði við hljóðin, sagði hún. Hvað er eiginlega á seyði?

            Rögnvaldur leit upp og sagði ekkert. Hörður spurði hinsvegar hvasst:

            Gistir þú hérna?

            Já, sagði Jóhanna. Ég var sofandi en vaknaði þegar ég heyrði í lögreglunni. Hvað er á seyði?

            Ertu búin að vera hér í allt kvöld? spurði Hörður.

            Já, ég var að vinna í dag. Kom hingað klukkan átta og fór snemma að sofa. Hvað er á ...

            Varðstu vör við einhvern umgang eftir að þú komst? Einhver hljóð? Eitthvað?

            Nei, sagði hún. Hvað er eiginlega að gerast?

            Sestu þarna og bíddu, skipaði Hörður. Hann benti síðan Rögnvaldi að koma með sér inn á barinn.

            Hvað veistu um þessa konu? spurði hann í lágum hljóðum.

            Var hann myrtur? spurði Rögnvaldur án þess að hirða um að svara Herði.

            Mér sýnist það, ansaði Hörður. En hvað með konuna?

            Ég veit ekkert um hana. Hún kom hingað í hádeginu, sagði Rögnvaldur. Átti pantað herbergi. Var með flugfreyjutösku og fartölvu. Ekkert annað.

Varst þú hér í kvöld?

Nei.

Getur þá enginn staðfest að konan hafi komið klukkan átta.

Helga var í afgreiðslunni milli klukkan fimm og sjö og varð ekki vör við neitt, sagði Rögnvaldur. Hún skrifaði mér bréf.

            Gott og vel. Þá bendir allt til að morðið sé framið eftir að Helga fór og áður en þú komst, sagði Hörður. Og hún hefur þá verið á staðnum á sama tíma.

            Það hlýtur að vera en hún segist hafa verið sofandi, benti Rögnvaldur á.

            Já, hún er búin að segja það tvisvar, sagði Hörður. Það á greinilega ekki að fara fram hjá neinum að hún svaf. Ég ræði við hana á eftir. Hefur þú verið að reykja hérna inni í kvöld? bætti hann við.

Nei, ég reyki mjög sjaldan. Af hverju spyrðu?

Það hefur einhver reykt pípu hérna. Finnurðu ekki lyktina?

Nei, ég finn enga lykt.

Það er samt pípulykt hérna, sagði Hörður þrjóskur. Og ekki reykti Jakob. Ég veit það fyrir víst. Snertirðu við einhverju eftir að þú komst?

Nei, sagði Rögnvaldur. Ja, jú, ég þreifaði á hálsinum á honum til að gá hvort hann væri lifandi.

Ekkert annað?

Nei.

Ertu með fleiri gesti en þessa konu?

            Já, ég er með tvo aðra, sagði Rögnvaldur. Annar er í herbergi 12 hérna niðri og hinn í 22. Það er uppi.

            Eru þeir inni?

            Ég veit það ekki.

            Gott og vel, sagði Hörður. Hann skipaði síðan Rögnvaldi að láta Sigurjón hafa lykla að herbergjum hinna gestanna og sagði honum að athuga hvort þeir væru inni.

            Bankaðu fyrst og notaðu svo lyklana ef enginn svarar. Þú ferð fram og sinnir konunni, sagði Hörður við Rögnvald. Ég þarf að skoða mig um hérna inni.

            Rögnvaldur settist við skrifborð sitt inni í móttökunni. Jóhanna sat þar líka. Hún var búin að kveikja sér í sígarettu, einni af þessum mjóu og löngu, hvítu sem eru sérstaklega framleiddar fyrir konur. Rögnvaldur ákvað að grafa upp öskubakka í stað þess að benda henni á að það væri bannað að reykja í móttökunni.

            Hvað er að gerast? spurði hún enn einu sinni.

            Ég má víst ekki segja þér neitt, sagði hann. En má bjóða þér kaffi? Ég hlýt að mega það.

            Já, takk, sagði Jóhanna.

            Rögnvaldur kallaði til Harðar: Má ég koma og laga kaffi?

            Nei, þú kemur ekki hingað inn til að gera eitt eða neitt, var svarið.

            Má ég þá fara upp og laga kaffi?

            Nei, sittu kjurr þar sem þú ert.

            Rögnvaldur leit á konuna sem hafði heyrt orðaskiptin. Hann hristi höfuðið. Ég get víst ekki gefið þér kaffi. Má kannski bjóða þér í glas? Hann opnaði skrifborðsskúffuna og dró upp viskípela.

            Kannski að ég þiggi örlítið, sagði Jóhanna. Annars drekk ég lítið. Það hefur eitthvað hræðilegt gerst. Er það ekki?

            Rögnvaldur hellti í tvö glös.

            Í sama bili kom læknirinn inn og á hæla hans tveir sjúkraflutningamenn með börur.

            Hvar er líkið? spurði læknirinn drynjandi röddu.

            Rögnvaldur benti á barinn.

            Inn, drengir, sagði læknirinn. Kíkjum á gripinn.

            Sagði hann lík? Er dáinn maður þarna inni? spurði Jóhanna.

            Rögnvaldur kinkaði kolli. Það var til lítils að leyna því lengur.

            Hvernig dó hann? Það var ótti í röddinni.

            Það lítur út fyrir að hann hafi verið myrtur, sagði Rögnvaldur.

            Myrtur? endurtók Jóhanna.

            Já, hann liggur á grúfu og það er blóð á teppinu ...

            Guð minn góður, sagði Jóhanna og huldi andlitið. Hún grét.

            Það kom Rögnvaldi á óvart að hún skyldi fara að gráta. Hafði búist við að hún brygðist öðruvísi við. Hann rifjaði upp hvað honum fannst hún sjálfsörugg þegar hún ritaði í gestabókina. Hann sat þegjandi, hellti í annað glas handa sér og horfði á grátandi konuna. Hvað á maður að gera þegar kona fer að gráta? spurði hann sjálfan sig. Og fann ekkert svar. Frekar en endranær. Hann valdi því þann kostinn að þegja. Eins og alltaf.

            Samræður Harðar og læknisins heyrðust fram enda báðir raddmiklir menn. Ég er að verða búinn hérna, sagði Hörður. Þið klárið ykkur af og farið svo með hann upp á sjúkrahús. Ég vil vita hvernig hann var drepinn.

            Hann var stunginn með hnífi, sagði læknirinn glaðhlakkalega. Það er augljóst. Og þetta er klárlega morð. Hann liggur á grúfu, stunginn í brjóstið og hendurnar útréttar. Slys eða sjálfsmorð útilokað. Smuga á að fjöllistamaður gæti drepið sig svona en ekki hann. Ekki Jakob.

            Það er nokkuð ljóst, sagði Hörður. Og líka hitt að þú ert að vinna í nótt. Ég vil fá að vita eitthvað sem allra fyrst.

            Í því kom Sigurjón og tilkynnti að hvorugur hinna gestanna væru á gistihúsinu.

            Hörður bað Rögnvald að koma inn á barinn. Það var búið að snúa líkinu við. Nú lá Jakob Bjarnason á bakinu og við blöstu stungusár á feitu brjóstinu. Hvít skyrtan var alblóðug. Augun voru lokuð, munnurinn opinn til hálfs. Hendurnar útréttar.

            Djöfulsins hryllingur er þetta, sagði Rögnvaldur. Hann hefur verið margstunginn.

            Tvisvar, sýnist mér. En taktu eftir að það er engan ótta að sjá í andlitinu. Svipur hans lýsir frekar undrun. Jakob var sem sagt ekki hræddur þegar hann var stunginn heldur hissa. Sem bendir til þess, sagði Hörður, að honum hafi ekki verið ógnað heldur hafi þetta gerst snöggt, eins og upp úr þurru.

            Áttu við að þetta hafi ekki verið fyrirfram skipulagt morð?

            Einmitt. Mér dettur það svona í hug, sagði Hörður. Hann var stunginn með hvössum litlum hnífi. Líttu á hnífinn sem er við vaskinn á barnum. Sérðu hvort eitthvað hefur verið hreyft við honum? Ekki snerta hann!

            Auðvitað snerti ég hann ekki, sagði Rögnvaldur og gekk að vaskinum. Nei, bætti hann við. Mér er ómögulegt að sjá hvort hann hefur verið hreyfður. Ég man ekki nákvæmlega hvar ég lagði hann frá mér síðast en oftast legg ég hann þarna.

            Hörður kallaði á lækninn og spurði hvort honum fyndist koma til greina að hnífurinn væri morðvopnið.

            Læknirinn skoðaði hnífinn vandlega. Gekk svo að líkinu, kraup við hliðina á því. Rögnvaldur sá ekki hvað hann var að gera þótt hann reyndi að gægjast. Skyldi hann vera að pota einhverju í sárin til að mæla dýptina? hugsaði hann með sér. Með puttunum? Djöfullinn. Hvílíkt starf!

            Læknirinn stóð upp: Það getur alveg komið til greina. Að minnsta kosti virðist þetta vera eftir mjög beittan hníf með stuttu en litlu blaði, líkan þessum, en ég get vitaskuld ekki fullyrt neitt á þessu stigi málsins, sagði hann.

            Gott og vel, sagði Hörður og setti hnífinn í plastpoka. Þá erum við kannski komnir með morðvopn. Það væri ekki verra. Þú færð hnífinn þegar við erum búnir að skoða fingraförin. Það er að vísu hæpið að við finnum nokkur fingraför. Hafi morðinginn notað hnífinn hefur hann þvegið hann vandlega á eftir. Sérðu eitthvað sem ekki er eins og það á að vera? sagði hann við Rögnvald.

            Rögnvaldur gekk um og leit í kringum sig. Nei, hér er allt eins og það á að vera. Sýnist mér. Ég sé ekki að hreyft hafi verið við neinu. Jú, ég tek eftir einu. Það er ekkert vatn í vaskinum. Hann er skraufþurr.

            Hvað áttu við?

            Ég kom hérna í kvöld áður en ég fór og notaði meðal annars vaskinn.

            Já, mér finnst grunsamlega vel um gengið hérna, sagði Hörður. Ég er ekki að segja að það sé sóðalegt hérna yfirleitt heldur hitt að morðinginn hefur lagt á sig að má út öll verksummerki. Þvegið hnífinn, kannski glös og öskubakka og þurrkað vaskinn. Það er ekkert sem bendir til mannaferða. Ja, nema auðvitað hann, bætti hann við og benti á Jakob.

            Ja, það er nokkuð klárt að hann hefur komið hingað, sagði Rögnvaldur og undraðist kaldhæðnina í röddinni.

            Þið komið með mér á stöðina, sagði Hörður við Rögnvald og Jóhönnu þegar þeir voru komnir fram.

            Ég líka? spurði Jóhanna. Af hverju? Ég var sofandi.

            Vegna þess, frú mín, að þú varst líklega í húsinu þegar maðurinn var myrtur. Kannski ein. Fyrir utan morðingjann.

            Jóhanna var hætt að gráta.

 

 

* * *

 

 

Rögnvaldi og Jóhönnu var vísað á bekk í móttökunni á lögreglustöðinni og sagt að bíða. Stöðin var upplýst og fjöldi fólks kominn til vinnu.

            Hörður hvarf inn í annað herbergi, talaði, benti og gaf skipanir. Lögreglukona kom fram og leiddi Jóhönnu burt.

            Þú kemur með mér, sagði Hörður við Rögnvald.

            Inni í herberginu var borð og þrír stólar. Sestu hérna, sagði Hörður stuttaralega og settist sjálfur gegnt honum. Þú þarft að svara nokkrum spurningum

            Er ég grunaður? spurði Rögnvaldur undrandi. Ég meina, það er fáránlegt að ég hafi drepið mann. Og allra síst á mínu eigin gistiheimili.

            Auðvitað liggur þú ekki undir grun, sagði Hörður pirraður. En ég verð engu að síður að vita hvar þú varst í kvöld. Þú hlýtur að skilja það. Þú átt fjárans gistiheimilið og maðurinn var drepinn þar og þið höfðuð eldað grátt silfur saman.

            Það er satt, viðurkenndi Rögnvaldur. Við vorum engir vinir. Hann reyndi allt sem hann gat til að koma í veg fyrir að ég keypti Miklagarð.

            Æi, hættu þessu rugli, sagði Hörður óþolinmóður. Segðu mér bara hvað þú varst að gera í kvöld og þá er það útrætt mál og ég get snúið mér að öðru.

            Ég var að útrétta eitt og annað eftir hádegi, sagði Rögnvaldur eftir stutta umhugsun. Um kvöldið ók ég út á Reykjaströnd í blíðunni. Lagðist í laugina, gekk um. Var þar um kvöldið og naut blíðunnar.

            Hvenær komstu heim?

            Rétt eftir miðnætti.

            Manstu hvað klukkan var nákvæmlega?

            Ekki nákvæmlega, sagði Rögnvaldur. Jú, bíddu, ég svaraði tölvupósti þegar ég kom. Það er hægt að sjá á honum hvað klukkan var.

            Gott og vel. Skoðum það á morgun ef það skiptir máli, sagði Rögnvaldur. Þá er bara eitt eftir. Með hverjum varstu út á Reykjaströnd?

            Ég var einn.

            Láttu ekki eins og helvítis asni.

            Ég get ekki sagt með hverjum ég var, sagði Rögnvaldur.

            Þá hefurðu ekki fjarvistarsönnun.

            Láttu ekki svona. Þú þekkir mig nógu vel til að vita að ég er ekki morðingi, sagði Rögnvaldur.

            Ég veit það en svo get ég líka spurt: Hve vel þekki ég mann úr Reykjavík sem kemur hingað norður í rassgat til að reka gistiheimili, sagði Hörður þurrlega. Þú gætir verið með allskyns drasl í farangrinum.

            Fer þetta lengra?

            Ef þú hefur drepið Jakob fer það í blöðin, sagði Hörður snúðugt. Annars inn um annað og út um hitt.

            Ég var með henni Guðlaugu.

            Guðlaugu? Guðlaugu hvaða?

            Fyrrverandi hans Valda Gauja.

            Ertu að ríða henni?

            Það kemur málinu varla við hvað við vorum að gera, sagði Rögnvaldur. Hringdu í hana. Vonandi treystirðu henni betur en mér.

            Ég treysti þér en ég verð bara að fá svör við spurningum mínum til að útiloka vissa hluti, sagði Hörður. Þú hlýtur að skilja það. En þú mátt þó eiga eitt. Það hlýtur að vera eitthvað í þig varið fyrst Gulla lítur við þér. Gulla er nefnilega fín kona, virkilega fín. Vonandi áttu skilið að krækja í hana. Annars áttu mig á fæti. Hún er frænka mín. Sittu hérna meðan ég hringi.

            Hörður kom innan stundar. Gulla staðfesti það sem þú sagðir. Það þýðir að þú ert saklaus. Það gleður mig, sagði hann og brosti. Ég trúði auðvitað aldrei öðru en þú hefðir getað sparað tíma með því að aula þessu með hana Gullu út úr þér strax. Hvað veistu um hina gestina?

            Annar er sölumaður, selur hreinlætisvörur. Ég kaupi oft af honum. Hann kemur reglulega og gistir hjá mér. Jóhann Sigurðsson heitir hann. Hinn heitir Ágúst Jónsson og er búinn að vera í nokkrar vikur. Hann hefur aldrei komið áður. Vinnur á vöktum í rækjuvinnslunni. Vinnur mikið og kemur á ýmsum tímum, aðallega til að sofa.

Og svo er það Jóhanna. Ég ræði við hana á eftir, sagði Hörður. Það er verra með hina sem ekki eru hér. Það þarf að finna þá og vita hvar þeir voru í kvöld.

            Hörður fór fram og skipaði Sigurjóni að láta grafast fyrir um hina gestina: Athugaðu hvort þessi í rækjuvinnslunni er að vinna, hvenær hann hafi mætt og hvort hann hafi verið að vinna í kvöld. Finndu svo hinn manninn. Einhvers staðar. Mér er sama hvar. Andskotans sama. Finndu hann bara. Við reiknum með að morðið hafi verið framið frá því Helga fór og þar til Rögnvaldur kom, það er að segja milli klukkan sjö og tólf á miðnætti. Ég veit hvar Rögnvaldur og Jóhanna voru. Ég vil vita hvar hinir voru á þessum tíma.

            Skal gert, sagði Sigurjón og virtist vera farinn að taka gleði sína aftur enda var málið komið í eðlilegan farveg.

            Og er það satt, sagði Hörður við Rögnvald, að sumir megi drekka út á krít á barnum þínum?

            Já, sagði Rögnvaldur. Þetta hefur víst alltaf verið svona.

            Er það já? sagði Hörður. Ég vil fá lista yfir þá sem njóta þessara sérstöku fríðinda.

            Hörður vísaði Rögnvaldi inn á skrifstofu sína og sagði honum að bíða þar. Hann ætlaði að yfirheyra Jóhönnu.

            Má reykja hérna? spurði Rögnvaldur.

            Stundum.

            Má ég reykja hér núna?

            Gjörðu svo vel.

            Ég skrepp þá heim eftir vindlum, sagði Rögnvaldur.

            Slepptu því, sagði Hörður. Það er pakki af London Docks í neðstu skúffunni. Öskubakkinn er í efstu skúffunni. Það þýðir ekkert að leita að viskíi. Þetta er opinber stofnun. Skrifaðu listann.

 

 

* * *

 

           

Hörður kom inn á skrifstofuna sína eftir að hafa rætt við Jóhönnu. Rögnvaldur hafði hallað sér aftur í stólnum með lappir uppi á borði og var með lokuð augun.

            Vaknaðu, sagði Hörður og skellti hurðinni harkalega.

            Hva, sagði Rögnvaldur og hrökk upp.

            Það eru komnar fréttir. Þessi í rækjuvinnslunni var að vinna í allt kvöld og er þar enn. Sölumaðurinn gistir frammí sveit á bæ sem ég segi þér ekki nafnið á. Það kemur málinu ekkert við. Þeir eru sem sagt í lagi.

            En Jóhanna? spurði Rögnvaldur. Hvað sagði hún?

            Hún  segist vera að skrifa grein um kirkjur í Skagafirði. Frílans verkefni fyrir tímarit í Reykjavík, sagði Hörður. Var í Víðimýrarkirkju í allan dag. Segist hafa komið á Miklagarð klukkan átta. Ég fékk það staðfest að hún var í kirkjunni fram að kvöldmat, svo þetta getur vel staðist.

            Ertu búinn að vekja allan fjörðinn? spurði Rögnvaldur.

            Þá sem þurfti að vekja, sagði Hörður. Það þarf að vinna hratt í svona málum. Auk þess vil ég vera búinn að vinna mitt verk í fyrramálið þegar þeir hringja að sunnan og heimta að fá að hjálpa til.

            Gera þeir það? spurði Rögnvaldur.

            Í svona málum, já, sagði Hörður. Þeir treysta okkur ekki, sveitadrengjunum. Ég náði líka í ritstjórann í Reykjavík. Þurfti ekki að vekja hann. Hann var á krá og staðfesti þvoglumæltur að Jóhanna væri að vinna verkefni á hans vegum.

            Hvað sagði Jóhanna fleira?

            Hún fór í Miklagarð eftir vinnu, pikkaði á tölvuna punkta um kirkjuna og fór svo að sofa. Fór ekki út úr herberginu, heyrði ekkert og varð einskis vör þar til hún vaknaði við hávaðann í Sigurjóni.

            Þetta er það sama og hún sagði okkur áðan, benti Rögnvaldur á.

            Já, það er verkurinn, sagði Hörður. Það er eins og hún hafi lært þetta utan að. Þetta er svo sem ekki flókinn texti en samt. Og hún var sannanlega á gistiheimilinu þegar morðið var framið. Auk Jakobs að sjálfsögðu.

            Og morðingjans, bætti Rögnvaldur við. Nema ...

            Já, nema og það er gallinn. Það er alltaf eitthvað nema, sagði Hörður. Jóhanna gæti vel hafa myrt Jakob. Hún var á réttum stað og réttum tíma til þess. Á hinn bóginn er herbergið hennar á efri hæðinni í hinum enda hússins. Hún þarf ekki að hafa heyrt neitt. Hún er vissulega grunsamleg en ég hef enga ástæðu til að halda henni. Fyrir hvað? Fyrir að sofa á gistiheimili þar sem maður er drepinn? Það er ekki saknæmt. Hver eru tengsl hennar við Jakob? Það vantar alla ástæðu. Og svo er það þetta með pípuna.

            Já, þú fannst píputóbakslykt á barnum, sagði Rögnvaldur.

            Ég þekki lyktina en kem henni ekki fyrir mig í svipinn. Það var einhver þarna sem reykir pípu. Það eru ekki margir sem reykja pípu nú á dögum. Það er ekki í tísku lengur. Ég á að þekkja þetta. Það kemur, bætti hann við og bankaði hægri hnefa laust í ennið á sér.

            Þannig að það voru að minnsta kosti þrjár manneskjur í Miklagarði í kvöld. Jakob, Jóhanna og maður sem reykir pípu, sagði Rögnvaldur. Annað þeirra sem eftir lifir gæti verið morðinginn.

            Annað þeirra er morðinginn, áréttaði Hörður. Við vitum þó eitthvað.

            Vel á minnst, listinn, sagði Rögnvaldur. Hann er hér.

            Takk, sagði Hörður og tók við miðanum annars hugar og lagði hann á borðið.

 

 

* * *

 

 

Jóhanna var enn í uppnámi og sagðist ekki treysta sér til að gista í Miklagarði eftir það sem þar hafði gerst.

            Það er skiljanlegt, sagði Hörður og röddin var full samúðar. En ég er alveg viss um að hann Rögnvaldur getur útvegað þér gott herbergi á Hótel Tindastóli. Hann á góða vini þar sem gera allt fyrir hann, bætti hann við og glotti.

            Geturðu það? spurði Jóhanna.

            Ekkert mál, laug Rögnvaldur og hugsaði Herði þegjandi þörfina.

            Auk þess verður Mikligarður lokaður um óákveðinn tíma, sagði Hörður.

            Lokaður? Hvað áttu við? hváði Rögnvaldur.

            Húsið er glæpavettvangur. Við eigum eftir að skoða betur bæði húsið og lóðina, ansaði Hörður.

            Hvað meinarðu? Ég á heima þarna. Hvert á ég að fara?

            Tjaldaðu bara úti á Reykjaströnd.

            Þetta er ekkert fyndið, sagði Rögnvaldur. Á ég kannski líka að gista á hótelinu? Það yrði saga til næsta bæjar og jafnvel lengra.

            Gott og vel. Þú mátt fara í íbúðina þína en ekki ganga um niðri, sagði Hörður. Ég læt innsigla barinn þegar búið er að rannsaka hann. Við skoðum líka lóðina í nótt. Þú verður kannski fyrir ónæði.

            Ég hlýt að þola það, sagði Rögnvaldur.

            Síðan gekk hann út af lögreglustöðinni með dvalargest sinn til að útvega honum húsaskjól.

 

 

* * *

 

 

Eftir hálftíma lá Rögnvaldur í sófanum í stofunni sinni. Þeir á hótelinu höfðu frétt um morðið og tóku honum af ljúfmennsku og gesturinn hans var orðinn gesturinn þeirra. Eins dauði er annars brauð.

Nú vil ég bara þögn. Þögn og viskí, sagði hann við sjálfan sig. Hristi glasið, lyktaði af víninu.

            Hann fékk þögn nema hvað maður skreið um lóðina umhverfis Miklagarð. Og annar gekk um niðri. Samt sofnaði hann fljótt.

 

 

* * *

 

 

Rögnvaldur vaknaði um hádegi á laugardeginum. Setti vatn og kaffi í kaffivélina, rakaði sig og fór í sturtu. Hann var sestur við stofuborðið með kaffibolla þegar fréttir útvarpsins hófust.

            Eins og hann bjóst við sagði þulurinn að það væri helst í fréttum að Jakob Bjarnason útgerðarmaður á Sauðárkróki hefði verið myrtur í nótt á gistihúsinu Miklagarði á þar í bæ. „Enginn hefur verið handtekinn en samkvæmt heimildum útvarpsins var Rögnvaldur Pétur Þórarinsson, eigandi Miklagarðs og fyrrverandi ...”

            Djöfullinn sjálfur, hrópaði Rögnvaldur.

            „ ... yfirheyrður vegna málsins. Heimildir útvarpsins herma að hann hafi þó ekki stöðu sakbornings í málinu.”

            Samstundis hringdi síminn. Og gemsinn. Rögnvaldur horfði til skiptis á símana. Ákvað að svara hvorugum. Honum varð litið út um gluggann. Óvenjumikil bílaumferð var um Skagfirðingabraut þar sem hún lá fram hjá Miklagarði. Og líka fullorðið fólk á gangi. Yfirleitt ganga engir nema börn um götur bæjarins, sagði Rögnvaldur við sjálfan sig. Það eru allir að gera vettvangsrannsókn.

            Gekk um gólf og sagði við sjálfan sig: Hvað á ég að gera? Ég get ekki setið hér eins og dýr í búri. Steinunn Baldursdóttir kom fyrst upp í huga hans. Hún bjó frammí sveit. Hann kæmist að minnsta kosti út úr bænum.

            Honum fannst öll augu bæjarins horfa á sig þegar hann ók jeppanum sínum á löglegum hraða út úr bænum. Meira að segja fólk á bílastæðinu fyrir framan Skagfirðingabúð horfði á eftir jeppanum. Honum leið betur þegar hann kom út á þjóðveginn.

            Steinunn var ekkja og bjó í nýlegu, einlyftu timburhúsi ofan við þjóðveginn. Fyrir neðan veg var bærinn Hamar þar sem Steinunn og maður hennar höfðu búið þar til yngsti sonur þeirra tók við búinu eftir lát föðurins.

            Sæll, sagði Steinunn sem var komin út í dyr. Ég átti von á þér.

            Áttirðu von á mér? sagði hann hissa.

            Æ, ég segi bara svona. Mér varð hugsað til þín þegar ég heyrði fréttirnar, ansaði Steinunn og brosti. Komdu inn. Ég ætla að hella upp á. Og svo á ég pönnukökur. Þú veist að ég baka alltaf pönnukökur á laugardögum ef einhver skyldi reka inn nefið. Steinunn var stórvaxin kona á áttræðisaldri, brosmild, dálítið hokin í herðum. Hún var í inniskóm, síðu pilsi og blússu og hafði brugðið yfir sig sjali.

            Farsími Rögnvaldar hringdi. Hann var á báðum áttum en svaraði þegar hann sá númer Harðar á skjánum.

Sæll, Rögnvaldur hér.

            Mikið er að ég næ í þig, sagði Hörður. Hvar ertu eiginlega?

            Ég fór frammí sveit, sagði Rögnvaldur. Ég er hjá Steinunni á Efra-Hamri. Mér leið eins og gínu í búðarglugga. Bærinn var allur á hjólum kringum Miklagarð. Ég kom ekki hingað til að vera í einhverju sviðsljósi.

            Jæja, þú ert samt búinn að vera vinsælt umræðuefni í bænum í morgun, sagði Hörður. Ég hélt reyndar að þú hefðir farið út á Reykjaströnd, bætti hann við.

            Þetta er ekki fyndið lengur, sagði Rögnvaldur. Þú verður að fara að finna nýjan brandara.

            Ég reyni að láta mér detta eitthvað í hug, sagði Hörður. Mig langaði bara að láta þig vita að morðinginn er fundinn.

            Morðinginn? Hver er hann?

            Það var Gunni Mundu Palla.

            Gunni Mundu Palla? endurtók Rögnvaldur steinhissa. Það getur ekki verið. Hann er ekki svoleiðis.

            Það er enginn svoleiðis, sagði Hörður. Ég mundi allt í einu eftir lyktinni. Tóbakslyktinni. Píputóbakinu.

            Hvað með það?

            Hann reykir Three Nuns. Það var lyktin sem ég fann. Hún er verra en allt vont en bragðið af tóbakinu er gott, sagði Hörður. Ég hef prófað það. Einstaklega gott á bragðið fyrir þann sem reykir en versta loftmengun fyrir aðra.

            Bíddu, ertu að handtaka mann vegna tóbakslyktar?

            Nei, nei, ekki bara vegna þess. Það sást líka til hans þvælast kringum Miklagarð um kvöldið, sagði Hörður. Kona í næsta húsi, hún Birgitta, sá hann. Auk þess er hann á listanum sem þú skrifaðir þannig að hann átti greiðan aðgang að barnum. Það eru samt nokkrir lausir endar.

            Er hann búinn að játa?

            Já, en hann getur litla grein gert fyrir því sem gerðist að öðru leyti. Ég hristi það upp úr honum seinna í dag þegar þegar rennur af honum. Mundu að hann er bæjarfyllibyttan þótt ungur sé. Mér finnst með ólíkindum að hann hafi átt aðgang að barnum.

            Hann fylgdi með þegar ég keypti Miklagarð, sagði Rögnvaldur. Hann er einn þeirra sem má treysta.

            Jæja, hann á kannski sínar góðu hliðar, sagði Hörður. En hann er ekki að flíka þeim.

            Ég hreinlega trúi þessu ekki upp á hann Gunnar, sagði Rögnvaldur. Hann gerir engum mein.

            Gerði aldrei neinum mein fyrr en nú, leiðrétti Hörður. Þeim var heldur ekki vel til vina, honum og Jakobi. Það voru illindi milli þeirra vegna gamals máls.

            Hvaða illindi eru það? spurði Rögnvaldur.

            Það er ljót saga, sagði Hörður. Ég get ekki sagt þér hana í síma. Ég hringdi bara til að láta þig vita um þetta fyrst þú varst nefndur svo freklega í fréttunum áðan.

            Þakka þér fyrir, sagði Rögnvaldur. En hvað var Jakob annars að gera í Miklagarði? bætti hann við.

            Það veit enginn ennþá. Það er einn af lausu endunum. Konan hans segir að hann hafi farið á skrifstofuna eftir kvöldmat. Við vitum ekki enn hvort hann kom þangað. Ég veit ekki meira núna en það á eftir að koma í ljós þegar ég ræði betur við Gunnar, sagði Hörður.

            Jakob var ekki einn þeirra sem máttu skrifa drykki, sagði Rögnvaldur.

            Hann er heldur ekki á listanum, sagði Hörður. Ég hefði líka vitað það án þess að skoða listann. Bið að heilsa Steinunni gömlu.

            Skila því.

            Eitt enn, sagði Hörður. Þú verður að fara að læsa Miklagarði þegar þú ferð burt. Það gengur ekki að fólk geti vaðið inn og út. Sest á barinn og drukkið út á reikning og drepið menn.

            En gestirnir verða að hafa aðgang að húsinu, andmælti Rögnvaldur. Ég er þar ekki öllum stundum.

            Láttu þá hafa lykil að útidyrunum. Þannig er gert á öllum alvörustöðum.

            Ég geri það, lofaði Rögnvaldur. Bless.

 

 

* * *

 

 

Rögnvaldur stakk upp í sig enn einni upprúllaðri dísætri pönnuköku hjá Steinunni. Þau sátu við sófaborð inni í stofu. Þykkt teppi með blómamunstri var á gólfinu. Einn veggurinn var þakinn bókahillum. Annar fjölskylduljósmyndum. Ein var af honum og Maríu, nýgiftum á tröppum Dómkirkjunnar í Reykjavík. Í horni var stór borgundarhólmsklukka.

            Ég er alveg á sama máli og þú, sagði Steinunn. Þetta kemur á óvart. Gunni Mundu Palla er manna ólíklegastur til svona óhæfuverka. En hann er drykkjumaður og gæti hafa gert þetta í ölæði. Og ef hann hefur játað þá nær það ekki lengra.

            Það er alveg rétt. Hvaða illindi voru annars á milli þeirra? spurði Rögnvaldur. Hörður sagði að það væri of ljót saga til að segja í síma.

            Hún er það, sagði Steinunn. Ég ætla ekki að segja þér hana. Það er óþarfi að rifja hana upp fyrst svona fór. Jakob er dáinn. Það er óþarfi að hafa af honum æruna í ofanálag.

            Var ekki orðið lítið eftir af henni hvort eð er? spurði Rögnvaldur.

Það má kannski segja það, sagði Steinunn hugsi. Ég get svosem sagt þér undan og ofan af þessu. Það sem gerðist var hræðilegt. Hreint og beint hræðilegt. Jakob hefur alltaf verið til vandræða eins og þú kannski veist. Þú veist hvernig hann er skapi farinn. Fullur af ofstopa og mikilmennsku. Hann misnotaði kornunga stúlku í bænum kynferðislega. Enginn veit hve lengi en það komst upp þegar stúlkan varð barnshafandi. Jakob var þá fullorðinn maður og kvæntur inn í útgerðarveldið sem má ekki vamm sitt vita eins og alkunna er. Málið var þessvegna þaggað niður. Jónas læknir var látinn eyða fóstrinu og stúlkan send í burtu. Hún var bara tólf ára þegar þetta gerðist.

Bíddu aðeins, ég skil þetta ekki alveg, sagði Rögnvaldur. Hvað kemur það Gunnari við að Jakob misnotaði stúlku?

            Stúlkan er systir hans, svaraði Steinunn. Ekki nema það. Gunnar var miklu yngri, kannski fimm sex ára.

            Systir Gunna Mundu Palla? sagði Rögnvaldur hissa. Ég hélt að Munda og Palli hefðu bara átt Gunnar. Áttu þau líka dóttur?

            Seisei, nei, sagði Steinunn. Munda og Palli eru ekki foreldrar Gunnars. Þau tóku hann að sér þegar hann var barn. Skömmu eftir þetta hræðilega atvik með systur hans. Ég hélt þú hefðir vitað það.

            Nei, það vissi ég ekki. Hverjir eru þá raunverulegir foreldrar hans?

            Móðir Gunnars hét Margrét. Hún dó skömmu eftir atvikið með systurina og Jakob en faðir hans lifði eitthvað lengur. Ólánsmaður. Hann hét Pétur. Kallaður Pétur putti af því hann missti fingur í vinnuslysi. Hugsaðu þér hugmyndaflugið í fólki.

            Hét hann Pétur? sagði Rögnvaldur. Gunni Mundu Palla er þá Gunnar Pétursson. Auðvitað. Nú fer að rofa til. Og þá er ég er viss um að systir Gunnars heitir Jóhanna.

            Já, það er víst alveg rétt. Hvernig veistu það?

            Jóhanna Pétursdóttir gisti í Miklagarði í nótt.

            Gisti hún? Ja, hérna hér. Þá gætu þau hafa hist loksins, systkinin.

            Þau hittust alveg örugglega, sagði Rögnvaldur. Þau voru sannarlega bæði í Miklagarði í gærkvöldi. Fyrirgefðu, en ég verð að hringja. Ég verð að ná í Hörð.

            Hörður svaraði.

            Sæll, þetta er Rögnvaldur. Hvar er Jóhanna?

            Hún hringdi í mig fyrir stuttu og spurði hvort hún mætti ekki fara suður fyrst málinu væri lokið. Sagðist ekki geta hugsað sér að skrifa meira um kirkjur í Skagafirði eftir það sem á undan væri gengið. Því spyrðu?

            Þú verður að sækja hana undireins, sagði Rögnvaldur. Hún er lykillinn að þessu öllu. Hún er líklega ástæðan fyrir morðinu. Hún er stelpan sem Jakob misnotaði.

            Áttu við að hún sé systir Gunna Mundu Palla, sagði Hörður. Jóhanna Pétursdóttir. Af hverju datt mér þetta ekki í hug? Hvernig veist þú þetta?

            Steinunni á Efra-Hamri var að rifja upp söguna. Þú hefðir getað sparað tíma með því að aula út úr þér sögunni í símanum áðan ...

            Gott og vel, greip Hörður frammí. Ég set allt í gang.

            Rögnvaldur slökkti á gemsanum. Steinunn hellti meira kaffi í bollana. Þau þögðu bæði.

           

 

* * *

 

 

Rögnvaldur kom við á lögreglustöðinni undir kvöld á leið heim frá Steinunni. Þar var sem fyrr fjöldi manns að störfum. Hann spurði eftir Herði en var sagt að enginn næði í hann á næstunni. Enginn gat sagt honum neitt um gang rannsóknarinnar.

            Síðustu endar eru að hnýtast saman, sagði Sigurjón síkáti og nuddaði hárið tiltölulega glaðlegur.

            Er eitthvað að frétta? spurði Rögnvaldur.

            Má ekkert segja, sagði Sigurjón og setti fingurinn fyrir munninn.

            Rögnvaldur yfirgaf stöðina. Jæja, maður færir þeim upplýsingar og svo er ekki talað við mann! Laun heimsins ... Jæja, fjandinn hafi það. Þeir verða að fá að vinna pappírsvinnuna sína.

            Það fyrsta sem hann gerði þegar hann kom heim var að opna rauðvínsflösku; hellti í glas, tæmdi það, setti Tsjækovskí á fóninn, hellti í annað glas, tæmdi það og lagðist í sófann með þriðja glasið í höndunum. Tónar píanókonserts númer 1 helltust yfir stofuna af fullum þunga. Hann sofnaði. Dreymdi hamarshögg, rumskaði. Í svefnrofunum heyrði hann högg og hrökk upp. Það var barið að dyrum niðri. Augnablik, sagði hann sem var til lítils því sá sem bankaði heyrði ekki í honum.

            Hörður stóð fyrir utan.

            Bara farinn að læsa.

            Já, á ekki að hlýða yfirvaldinu? Ég er löghlýðnin uppmáluð.

            Þú þarft að fá þér bjöllu. Ég er búinn að lemja dyrnar góða stund.

            Steini rafvirki kemur á morgun og setur upp bjöllu fyrir mig. Þetta verður eins og á alvöruhóteli. Komdu inn.

            Þeir gengu upp.

            Má ekki bjóða þér eitthvað? Rauðvín, viskí?

            Rauðvín, sagði Hörður. Ég er loksins búinn í vinnunni og þá má maður fá sér

í annan fótinn að minnsta kosti. Þú býrð þá svona vel, bætti hann við og litaðist um. Leðursófi, stórt sjónvarp, heimabíó, diskasafn, lítið borðstofuborð. Og bækur um alla veggi. Ekki hefði mig grunað að þú byggir svona.

            Heldur hvernig?

            Svona eins og dæmigerður einbúi. Skítugt. Húsgagnalaust. Glös um allt. Flöskur. Aldrei vaskað upp. Aldrei þrifið.

            Ég er snyrtipinni, sagði Rögnvaldur.

            Þeir skáluðu.

            Ég kom við á stöðinni á leiðinni heim áðan, sagði Rögnvaldur, en náði ekki sambandi við nokkurn mann. Mér var sagt að það væri engin leið að ná í þig.

            Það var líka alveg rétt, sagði Hörður. En málið er leyst. Þökk sé þér og Steinunni. Það var ekki Gunnar þegar allt kom til alls. Það var Jóhanna. Gunnar var á staðnum og ætlaði að taka á sig sökina.

            Hörður þagnaði

            Jóhanna hélt að hún væri búin að gleyma þessu, hélt hann svo áfram. Tíminn læknar öll sár og allt það. Hún var gift kona í Kópavogi en komst að því að hún getur ekki eignast barn. Ástæðan var rakin til fóstureyðingarinnar.

            Og þá rifjaðist allt upp, sagði Rögnvaldur.

            Já, þá rifjaðist allt upp, endurtók Hörður. Hún var síðan fyrir hreina tilviljun beðin að skrifa þessa grein. Slær til. Hefur uppi á Gunnari áður en hún kemur. Þau höfðu ekki hist öll þessi ár. Þau lögðu á ráðin um að hitta Jakob. Þau voru ekki viss um hvað þau ætluðu að gera. Kannski fá skaðabætur. Kannski fá hann til að játa og iðrast.

            Hörður þagnaði og lauk úr glasinu. Rögnvaldur skenkti honum meira.

            Hún var búin að fá skriflega yfirlýsingu frá Jónasi lækni því hann er einn fárra sem enn lifa og vita allt um málið. Jakob brást vitaskuld hinn versti við og af sínum alkunna hroka. Kallaði hana litlu melluna og Gunnar bæjarfyllibyttuna. Orðrétt eftir minni: Þú varst bara ein af litlu mellunum sem vilja liggja undir eldri mönnum. Og að hún væri alls ekki sú eina. Þær væru ennþá til.

            Eru þá sögusagnirnar um Jakob sannar? spurði Rögnvaldur.

            Kannski, sagði Hörður. Gunnar heldur því fram en það verður aldrei vitað með vissu úr því sem komið er. Þegar Jakob ansaði þeim bara með skætingi hótuðu þau að koma upp um hann. Hann hló að þeim og sagði að þau skyldu ekki halda það eina mínútu að þau hefðu roð við honum. Hann skyldi ganga endanlega frá þeim ef þau voguðu sér að hafa hátt um þetta. Þetta óx orð af orði. Þar til hún fór inn fyrir barinn, greip hnífinn, gekk að Jakobi og stakk hann í brjóstið. Þetta var ekki fyrirfram ákveðið morð. Það bara gerðist.

            Þögn.

            Ég er hættur að skilja hnífa eftir á glámbekk, sagði Rögnvaldur loks. Af hverju ákvað Gunnar að taka þetta á sig?

            Já, honum fannst að Jóhanna hefði þurft að þola nóg og hann væri hvort eð er búinn að vera, sagði Hörður. Eitthvað í þá áttina. Hann þurrkaði út öll verksummerki, þvoði hnífinn. Hann lagði á ráðin um hvernig Jóhanna brygðist við eftir á. Hann gleymdi bara þessu með tóbakið.

            Hvað með Jónas lækni?

            Ekkert, sagði Hörður. Hann er gamall maður. Látum hann í friði. Þetta er orðið gott. Það eiga nógu margir um sárt að binda.

            Þeir þögðu.

            Hugsaðu þér hvað glæpur í fortíðinni getur haft hræðilegar afleiðingar svona löngu seinna, sagði Rögnvaldur.

            Hún er svona þessi fortíð, sagði Hörður hugsandi og velti glasinu í hendi sér. Maður losnar ekki frá henni. Talandi um fortíð. Af hverju í andskotanum komstu hingað til að reka gistihús? Varstu ekki einhver stórlax fyrir sunnan?

            Stórlax? Allavega lax. Segi þér það seinna. En núna ætla ég að gefa þér alvöruvín, viskí. Laphroaig. Eðalvín. Það albesta. Frá eyjunni Islay við Skotland. Það veit guð að ég vildi frekar búa þar en á þessari eyju.

            Hann hellti í glösin. Þeir lyktuðu lengi af víninu og dreyptu svo á.

            Skál, vinur, sagði Hörður. Unaðslegt viskí. Veistu hvað, þetta með skosku eyjuna. Ég gæti orðið sammála þér en veistu hvort það rignir mikið þar? Ég hef heyrt það um þessar skosku eyjar.