Að lesa ljóð og njóta

Þetta er vefur um ljóð, lestur ljóða og þess hvernig menn njóta ljóða.  Gjörið svo vel!

Höfundur er Eiríkur Brynjólfsson
©  Eiríkur Brynjólfsson 2007

Efnisyfirlit:
 Áður en farið er af stað
 Að lesa vandlega
 Skipting ljóða í bundin og óbundin
 Hrynjandi
 Um rím og ljóðstafi

 Dálítið um myndmál í ljóðum og önnur stílbrigði

 Forn kveðskapur
 Dansar
 Rímnahættir

 Að hætti Jónasar

 Nútímaljóð
 Ljóðasafn
 Æfingar
 Lausnir og skilgreiningar
 Heimildir

Áður en farið er af stað

langar mig að segja örfá orð um ljóðalestur: Það er gaman að lesa ljóð. Það er ekki gaman að lesa ljóð. Ljóð eru skemmtileg. Ljóð eru ekki skemmtileg. Tveir lesendur verða seint sammála um hvað sé gott ljóð og hvað ekki. Og það er mergurinn málsins.

Lesendur meta ljóð á misjafnan hátt og les ólíka hluti út úr þeim.

Þér hefur oft í skóla verið sagt að læra ljóð utan að. Um leið hefur kennarinn sagt að þetta tiltekna ljóð sé svo skemmtilegt og gott að þú eigir að kunna það utan að. En kannski fannst þér ekkert varið í það.

Ljóð hafa fylgt okkur frá upphafi byggðar í landinu. En ljóðagerðin breytist eins og allt annað og nýjar stefnur bætast við þær sem eldri eru. Afleiðingin er mikil fjölbreytni í ljóðagerð. Í þessari bók verður fjölbreytni ljóða meginviðfangsefnið. Markmiðið með henni er að kenna lesandanum að ljóð er ekki sama og ljóð og að allir geta fundið eitthvað við hæfi í hinum mikla menningararfi sem íslensk ljóð eru.

Efst á síðu

 

Að lesa vandlega

Eins og allir hafa tekið eftir er lesefni misjafnlega erfitt. Litla gula hænan er tiltölulega auðveld aflestrar. Grettissaga er mun flóknari og gerir meiri kröfur til lesarans.

Ljóð eru yfirleitt flóknir textar. Höfundar þeirra eru oft bundnir við strangar reglur um atkvæðafjölda, rím og ljóðstafi. Þeir nota oft myndmál til að skreyta og fela hugsun sína. Þeir raða orðum saman á óhefðbundinn hátt. Svona mætti lengi telja.

Til að draga þetta saman getum við sagt: Ljóðskáld eru að færa hugsun sína í sérstakan búning sem er öðruvísi en talað mál eða annað ritað mál.

Þetta gerir það að verkum að ljóð verður oftast að lesa með miklu meiri athygli en annað lesefni. Lesandinn þarf að gaumgæfa og gera sér skýra grein fyrir formi og innihaldi ljóðsins.

Titill ljóða
Liður í skilningi ljóðs liggur oft í heiti þess. Ljóðskáldið gefur oft vísbendingar um efnið í titlinum.

Lestu eftirfarandi ljóð eftir Jóhann Sigurjónsson vandlega. Skrifaðu síðan um hvað ljóðið er í ekki meira en fimm línum. Flettu síðan upp í ljóðaskránni og finndu heiti kvæðisins. Hefðir þú túlkað efni kvæðisins á annan hátt ef þú hefðir vitað nafn þess?

Reikult er rótlaust þangið,
rekst það um víðan sjá,
straumar og votir vindar
velkja því til og frá.

Fuglar flugu yfir hafið
með fögnuði og vængjagný,
- hurfu út í himinblámann
hratt eins og vindlétt ský.

Þangið, sem horfði á hópinn,
var hnipið allan þann dag.
Bylgjan, sem bar það uppi
var blóðrauð um sólarlag.

                 Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)

Ýttu hér til að sjá heiti ljóðsins.

Efst á síðu

 

Skipting ljóða í bundin og óbundin

Ljóð skiptist í bundinn kveðskap og óbundinn. Bundinn kveðskapur er bundinn í fastmótaðar reglur um línulengd, línufjölda, vísufjölda, notkun ríms og ljóðstafa o.s.frv.

Óbundinn kveðskapur er óbundinn af öllum slíkum reglum þótt í honum megi iðulega finna rím, ljóðstafi og fleira þessháttar. Munurinn er þó ævinlega sá að í bundnum kveðskap er allt sett eftir föstum fyrirfram gerðum reglum en í óbundnum kveðskap eru engar slíkar reglur.

Allur kveðskapur einkennist meira og minna af myndmáli og ýmsum öðrum stílbrögðum sem skáld nota til að skreyta mál sitt.

Ljóð eru yfirleitt stutt en geta þó fjallað um mikið efni. Oft má því segja að miklu efni sé þjappað í stuttan texta.

Skoðaðu ljóðin sem eru hér að framan og færðu rök fyrir því hvort þau séu bundinn eða óbundinn kveðskapur
 

Tvö ólík ljóð
Lestu eftirfarandi ljóð vandlega. Berðu þau saman hvað varðar útlit, til að mynda línufjölda og línulengd, rím og hvaðeina sem vekur athygli þína. Gerðu nákvæma grein fyrir efni ljóðanna..

Úr Flateyjar-Frey 

Freyr
ég hef sagt í þínu nafni við hjón:
Notið aldrei maka yðar í þolfalli
umgangist aldrei konuna í þágufalli
lítið aldrei á börn yðar í eignarfalli
eða líkt og afbrigðilega sögn.
Vegna þess að heimurinn og allt sem í honum er og anda dregur er eðlisrétt í nefnifalli falli lotningarinnar
falli ástarinnar.
En Freyr
frá þessu falli ganga önnur fyrir áorkan krafts kúgunar
og beyginganna.
Freyr, heldur þú að algert réttlæti mundi ríkja á jörðinni ef þú máðir þolfallið þágufallið og eignarfallið úr hugum mannkynsins?

                       Guðbergur Bergsson (f. 1932)

 

Ég bið að heilsa

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum. 

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum. 

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín, 

heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

                       Jónas Hallgrímsson (1807-1845)

Efst á síðu

 

Hrynjandi

Í öllu töluðu máli skiptast á áhersluatkvæði og áherslulaus atkvæði. Þegar við segjum til að mynda orðið 'hestur' í venjulegu mæltu máli leggjum við áherslu á atkvæðið 'hest-'

Þetta er kallað hrynjandi. Athugaðu að hrynjandi er kvenkynsorð, hún hrynjandin.

Í mæltu máli er áherslurnar óreglulegar en þó er til meginregla í íslensku en hún er að áhersla er á fyrsta atkvæði hvers orðs.

Í kveðskap er hrynjandi oft reglulegri.

Í sumum tegundum kveðskapar eru skiptast áhersluatkvæði og áherslulaus á með mjög reglubundnum hætti. Það myndast ákveðinn taktur. Hrynjandin er sem sagt regluleg.

Í öðrum kveðskap eru áherslur líkari því sem gengur og gerist í daglegu tali. Oft fara áherslur í slíkum kveðskap eftir efni kvæðisins. Hrynjandin er sem sagt óregluleg. Mismunur þessa sást berlega í ljóðunum á bls. 8 og 9.

Lestu eftirfarandi kvæði vandlega. Skoðaðu einkum hljóm og áherslur, þ.e. hvort unnt sé að lesa ljóðin sem venjulegan sögutexta, mælt mál eða hvort betur færi á að lesa þau á annan hátt, það er með reglubundnum, taktföstum áherslum.

 Hatturinn

Ég fylgdi stúlkunni heim, og hún bjó bakdyra-
megin. Annað meira eða merkilegra var það nú
ekki.
            Verið þér sælar, og þakka yður kærlega fyrir
fylgdina, sagði hún.
            Sælar, sagði ég.
            Hatturinn yðar!
Hann hefur gott af því, sagði ég, og hélt áfram
að kveðja stúlkuna.

                       Jón Thoroddson (1898-1924)

 Staka 

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
Að sækja bæði sykur og brauð

sitt af hvoru tæi.

                          Óþekktur höfundur.

Væntanlega er niðurstaða þín sú að fyrra kvæðið lesist eins og mælt mál en stakan alþekkta um af og Rauð einkennist af reglulegum áherslum. Með öðrum orðum. Hatturinn einkennist af óreglulegri hrynjandi en Staka af reglulegri hrynjandi.

Um áherslur og takt
Lestu Haustvísuna og merktu atkvæði með því að setja strik yfir áhersluatkvæðin en settu boga yfir áherslulaus atkvæði. Hafðu strikin og bogana yfir sérhljóðanum í viðkomandi atkvæði.

Hafðu þrennt í huga þegar þú gerir þetta. Í fyrsta lagi að almenn áhersluregla í íslensku er að fyrsta atkvæði fær áherslu. Í öðru lagi að ef um er að ræða eins atkvæðis rímorð aftast í línu verður það áhersluatkvæði. Í þriðja lagi skaltu lesa vísuna á þann hátt að þú 'heyrir' taktinn sem verður til þegar áhersluatkvæði og áherslulaus atkvæði skiptast reglubundið á.

 Haustvísa

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.

                       (Kristján Jónsson 1842-1869)

Þegar þessu er lokið á vísan að líta svona út:

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.

 Þarna er búið að merkja áhersluatkvæðin og þau áherslulausu. Lestu vísuna aftur og finndu taktinn sem verður til. Það getur verið gagnlegt að slá fingri í borðið við hvert áhersluatkvæði.

Um bragliði
Bragliður
er eining með mismörgum áhersluatkvæðum og áherslulausum atkvæðum. Í íslenskum kveðskap eru fjórir bragliðir.

Sá fyrsti er eitt áhersluatkvæði og eitt áherslulaust. Samtals tvö atkvæði. Hann heitir tvíliður. Hann er táknaður svona:

Næsti er eitt áhersluatkvæði og tvö áherslulaus. Samtals þrjú atkvæði. Hann heitir þríliður. Hann lítur svona út:

Þriðji er aðeins eitt áherslulaust atkvæði,. Hann heitir forliður og kemur aðeins fyrir fremst í ljóðlínu. Forliður er táknaður svona:

Fjórði er eitt áhersluatkvæði. Hann heitir stúfur og kemur aðeins fyrir aftast í ljóðlínu. Þetta er stúfur:

Skoðaðu Haustvísuna þar sem búið er að merkja áhersluatkvæðin og þau áherslulausu. Næst áttu að setja lóðrétt strik á milli bragliðanna. Þá lítur vísan svona út: 

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.

Svona er þetta lesið: Í fyrstu línu eru þrír tvíliðir og stúfur. Í annarri línu eru þrír tvíliðir. Lestu þriðju og fjórðu línu.

Hér eru aðeins tvíliðir og stúfar. Hvað með þríliði og forliði? Bragliðirnir eru ekki allir í öllum vísum. Hér er önnur vísa. Finndu bragliðina í henni.

Úr Mysuð 

Hver kúadella er kostaland.
Þá kenning er skylt að boða
að jörðin sé skítur, hafið hland
og himinninn keytufroða.

                  Örn Arnarson (1884-1942)

Í vísu Arnar eru tvíliðir, þríliðir og forliðir. Veitið athygli muninum á hrynjandinni eftir því hvort um er að ræða tvíliði eða þríliði. Geturðu lýst þessum mun?

Það kemur betur í ljós í næsta dæmi. Lestu vísuna vandlega:

Úr Skarphéðinn í brennunni

Skall yfir eldhafið, ólgandi, logandi,
eldvargar runnu fram, hvæsandi, sogandi.
Reykurinn glóðþrunginn gaus upp úr kafinu.
Gaflhlaðið eitt stóð sem klettur úr hafinu.

                     Hannes Hafstein (1861-1922)

Í þessari vísu er mikið um þríliði. Í fyrstu línu eru þeir þrír, í annarri fjórir, í þriðju eru þeir fjórir og í þeirri fjórðu einnig fjórir. Nú skaltu líta á sömu vísu umorðaða þannig að þríliðum er breytt í tvíliði (það má að vísu ekki breyta skáldskap annarra manna en gerum ofurlitla undantekningu hér í réttlætanlegum tilgangi):

Skall yfir eldhaf, ólgar, logar,
eldvargur rennur, hvæsir, sogar.
Reykur glóðþrunginn gaus upp úr kafi.
Gaflhlað eitt stóð sem klettur úr hafi.

Lestu nú breyttu vísuna og berðu saman hrynjandina í henni við upprunalegu vísu Hannesar Hafsteins. Þá heyrist vel munurinn á hrynjandi sem einkennist af þríliðum og hrynjandi sem einkennist af tvíliðum.

Bragliðir heita líka kveður
Annað nafn á bragliði er kveða.

Bragliðirnir sjálfir hafa mismikla áherslu alveg á sama hátt og atkvæðin. Sumir hafa meiri áherslu og heita hákveður en aðrir minni og heita lágkveður.

Og síðan kemur það einfalda: Fyrsti bragliður í hverri ljóðlínu er hákveða, sá næsti lágkveða og svo koll af kolli.

Frjáls hrynjandi
Það sem sagt var um bragliði hér að framan gildir einkum um svokallaðan bundinn kveðskap. Með því er átt við að hann er bundinn reglum um rím, ljóðstafi og bragreglur.

Einnig er til óbundinn kveðskapur. Í honum er hrynjandin óregluleg og myndar ekki takt eins í bundnum kveðskap. Áherslur fara gjarnan eftir efninu og mikilvæg orð geta fengið meiri áherslu en önnur.

Næsta ljóð sem þú átt að lesa er óbundið. Skoðaðu vandlega hvaða orð eru það mikilvæg að þau fái meiri áherslu en önnur.  Athugað einnig hvernig ljóð hljómar ef það er lesið sem bundið mál.

Kona

Þegar allt hefur verið sagt
Þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstnar
í alvöru augnabliksins
- kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út. 

Það bregst ekki.

                        Ingibjörg Haraldsdóttir (f. 1942)

Efst á síðu

 

Um rím og ljóðstafi

 Rím er það þegar tvö eða fleiri atkvæði hafa líkan hljóm, ríma saman. Dæmi: bær : sær; dagur : fagur; landinu : bandinu. Í þessum rímorðum eru eins sérhljóð og samhljóð. Það heitir alrím. Ef einungis er sama samhljóð en ólíkt sérhljóð í rímorðum heitir það hálfrím. Finndu dæmi um það.

Ef orð sem ríma eru eitt atkvæði hvort heitir það karlrím, ef orðin eru tvö atkvæði heitir það kvenrím en veggjað rím séu þau þrjú atkvæði.

Orðin sem ríma saman geta verið hvar sem er, í enda ljóðlína eða inni í ljóðlínum.

Talað er um hálfrím (skothending) og alrím (aðalhending). Alrím er þegar sami sérhljóði og samhljóði eru í rímorðunum; baka - kaka, sær - bær. Hálfrím er þegar sami samhljóði er í rímorðunum en ólíkur sérhljóði, baka - leka, sær - sjór.

Ljóðstafir eru sömu stafir endurteknir með vissu millibili. Í bundnum kveðskap eru ljóðstafir þrír í hverjum tveimur línum. Í línu eitt, þrjú og svo framvegis eru tveir ljóðstafir (kallaðir stuðlar), í línu tvö, fjögur o.s.frv. einn, kallaður höfuðstafur. Ef ljóðstafir eru samhljóðar er það sami stafur þrisvar (3 eff, eða 3 ess); ef um sérhljóða er að ræða mega það vera hvaða sérhljóðar sem vera skal (til dæmis a, e og i). Þá geta sp-, st-, og sk- aðeins stuðlað á móti sjálfu sér. Þannig getur sól ekki stuðlað við skína. Sól getur hins vegar stuðlað við suður og sæt en skína stuðlar við ský eða skúr. Nákvæmar reglur eru til um staðsetningu ljóðstafa í bundnum kveðskap. Það kemur síðar.

Í óbundnum kveðskap eru engar reglur um staðsetningu eða fjölda ljóðstafa og upp og ofan hvort höfundar noti þá yfirleitt.

Efst á síðu

 

Dálítið um myndmál í ljóðum og önnur stílbrigði                                                                  

Ljóðskáld grípa til ýmissa stílbragða til að skreyta með hugsun sína. Þau nota stílbrögðin mismikið og eins geta sum stílbrögð verið í 'tísku' á ákveðnum tímum.                                                                          

Bein mynd

Lestu ljóðið Vor og taktu eftir því hvernig hægt er að sjá fyrir sér ljóðið. Það væri hægt að teikna mynd eftir því, jafnvel hreyfimynd vegna þess að í ljóðinu er hreyfing.

Vor

Tveir gulbrúnir fuglar
flugu yfir bláhvíta auðnina.

Tvö örlítil blóm
teygðu rauðgul höfuð sín
upp úr svartri moldinni.

Tvö fölleit, fátækleg börn
leiddust út hrjóstruga ströndina
og hvísluðu í feiminni undrun
út í flöktandi ljósið:

Vor, vor!

                          (Steinn Steinarr, 1908-1958)

Það er kallað bein mynd þegar lýsing er svo myndræn að lesandinn getur séð hana fyrir sér og jafnvel teiknað hana. Hún getur verið í litum og það getur verið hreyfing í henni o.s.frv.

Líking
Líking er annað stílbragð sem ljóðskáld grípa gjarnan til. Líking felst einfaldlega í því að líkja einhverju við eitthvað annað.

Lestu eftirfarandi kvæði vandlega. Í því eru tvær líkingar. Finndu þær og greindu hverju er líkt við hvað og líka hvað er líkt með því tvennu. 

Úr Tímanum og vatninu

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona
í gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust blómið
á gulum skóm.

                 (Steinn Steinarr, 1908-1958)

Þú hefur vonandi fundið út að sólinni í fyrsta erindi er líkt við grannvaxna konu á gulum skóm og að trú minni og ást í öðru erindi er líkt við tvílitt blóm. Þetta eru líkingar.

Líking er þegar einhverju fyrirbrigði er líkt við eitthvað annað til að varpa ljósi á einkenni hið fyrra. Einkenni líkinga eru tengiorðin líkt og, eins og eða sem.

Líkingar eru ekki aðeins notaðar í skáldskap heldur einnig í daglegu mæltu máli. Hver kannast ekki við að hafa sagt - eða heyrt - sagt: Láttu ekki eins og asni.

Myndhvörf

Skoðaðu aftur kvæðið Úr Tímanum og vatninu hér að framan. Lestu það aftur en taktu burt orðin eins og.

Ásthildur

hárið stormsveipur öræfanna
augun stjörnuhrap vetrarins
nefið fjall sjóndeildarhringsins
varirnar mánasigð sólarlagsins
brosið sólskin jökulheimsins
hendurnar jafndægri haustsins
mjaðmirnar hvel heimsskautsins
fæturnir veðrátta árstíðanna

                  Jónas Svafár (Fæddur 1925)

Myndhvörf er sama og líking nema að tengiorðin vantar (það er orðin eins og, líkt og eða sem). Þá er ekki sagt: Þú lætur eins og asni. Heldur er sagt: Þú ert asni!

Persónugervingar
Lestu vísu og skrifaðu hjá þér öll tilvik þar sem hlutir eru látnir fá einkenni lifandi vera. Skráðu hverjir hlutirnir eru og hver hin lifandi einkenni eru.

Úr Garðljóði 

Gosbrunnarnir syngja
og glitra í þúsund ljósum
og garðarnir baða sumarlangt
í mjallahvítum rósum
Og geislar koma hlaupandi
eins hratt og fætur toga
ef heimskir, litlir skuggar
út á gangstéttina voga.
Þá langar út í sólskinið
og læðast hægt á tánum
og leggjast svo til hvíldar
undir kastaníutrjánum.

                       (Tómas Guðmundsson, 1901-1983)

Gosbrunnar eru hlutir sem í kvæðinu eru látnir syngja. Garðarnir baða. Geislarnir hlaupa. Skuggarnir eru heimskir og voga sér, hafa löngum og læðast á tánum og leggjast til hvíldar.

Auðvitað geta gosbrunnar ekki sungið frekar en geislar geta hlaupið eða skuggar verið heimskir (eða gáfaðir).

Þetta er hluti myndamáls sem notað er í kveðskap og heitir persónugerving. Það er þegar hlutir eða hugmyndir fá eitthvert einkenni lífveru.

Einnig þetta er oft notað í daglegu mæltu máli. Þegar við segjum að sólin 'brosi' notum við persónugervingu.

Tákn 

Tákn er eitthvað sem merkir annað en það er. Til dæmis má nefna kross. Kross er tvær spýtur negldar saman í miðjunni. En þetta er einnig tákn. Tákn um hvað? Lestu kvæðið Rauði steinninn og finndu tákn í því kvæði. Litir eru oft notaðir sem tákn. Svart táknar sorg og svo framvegis.

Endurtekningar

Lestu kvæðið.

Dægurlag 

Draumurinn er eins og tunglskin
tunglskinið er eins og draumur
eins og tunglskin
draumurinn sem mig dreymdi í nótt

eins og hafið eins og tunglið eins og kjölfarið
eins og augu djúpt í hafinu
eins og þú gleymir mér
eins og þú minnist mín í kvöldeins og sigling yfir hafið eitt og grátt eins og þú kemur til mín
eins og þú kemur loksins í nótt
eins og kjölfarið í tunglskininu
eins og tunglið í kjölfarinu og hafið stórt og eitt.

                     Sigfús Daðason (1928-1995).

Finndu dæmi um endurtekningar í kvæðinu Dægurlag.

Vísun

nú andar suðrið 

DC-10 þotur
berið öllum uppi breiðholti
kveðju mína.

                     Einar Már Guðmundsson (Fæddur 1954)

Vísun heitir það þegar höfundur vitnar í verk annars manns. Tilvitnunin getur verið í þekkt skáldverk, ljóð, sögu eða atburð. Í ljóðinu hér að ofan er vitnað í ljóð sem þið hafið lesið. Hvaða ljóð er það? Finndu kvæðið Passíusálmur nr. 51. Í hvaða atburði er vitnað í því kvæði?

Efst á síðu

 

Forn kveðskapur

Til forna voru nokkrir kveðakaparhættir mest notaðir. Þeir helstu eru dróttkvæður háttur, fornyrðislag og ljóðaháttur.

Lestu vísurnar vandlega. Lýstu hverjum bragarhætti fyrir sig skriflega. Atriði sem þú átt að skoða eru til að mynda línufjöldi, atkvæðafjöldi í línu, rím og ljóðstafir

Dróttkvæður háttur 

Upp skulum órum sverðum,
úlfs tannlituðr, glitra.
Eigum dá að drýgja
á dalmiskunn fiska.
Leiti upp til Lundar
lýða hver sem bráðast.
Gerum þar fyr setr sólar
seið ófagran vigra.

                     Egill Skallagrímsson (10. öld)

Ljóðaháttur 

Haltur ríður hrossi
hjörð rekur handar vanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé,
nýtur manngi nás.

                    Úr Hávamálum (Óviss aldur)

Fornyrðislag 

Áður burs synir
bjöðum um ypptu,
þeir er Miðgarð
mæran skópu.
Sól skein sunnan
á salar steina,
þá var grund gróin
grænum lauki.

                    Úr Völuspá (Óviss aldur) 

Heiti og kenningar
Heiti
og kenningar settu mjög svip á fornan kveðskap. Rímnakveðskapur hlaut þetta í arf og heiti og kenningar urðu fyrirferðamikil í rímum er fram liðu aldir.

Heiti eru orð sem notuð voru í kveðskap en ekki mæltu máli. Dæmi um heiti er rekkur, seggur og gumi sem þýða karlmaður, mar og ver þýða sjór, svanni og víf þýða kona, fákur og jór þýða hestur. Mörg heiti voru til um kónga. Til dæmis vísir, ræsir, fylkir.

Kenningar eru í raun og veru líkingar. Kenning er í tveimur hlutum, höfuðorð og kenniliður. Höfuðorðið er nafn þess sem lýst er en kenniorð er það sem því er líkt við. Dæmi: Höfuðorð er viður en kenniorðið er sverð. Sverðs viður er þá maður.

Það er að segja maðurinn er kallaður viður en kenndur við sverð. Kona gat líka verið kölluð eftir tré en kenndi við skart. Dæmi: Selja gulls.

Stundum er tvíkennt og verður fyrri kenningin höfuðorð. Dæmi: Fiska jörð er sjór en fiska jarðar fákur er skip.

Enn má þríkenna og segja stýrir fiska jarðar fáks. Hvað er þá stýrir fiska jarðar fáks?

Efst á síðu

 

Dansar

Í Sturlungasögu segir frá því þegar Þórður nokkur Andrésson fór ríðandi með Gissuri Þorvaldssyni jarli og bjóst við dauða síum eftir bardaga. Þetta gerðist 26. desember 1264. Orðrétt segir Sturlungu: „Og þá hrökkti Þórður hestinn undir sér og kvað við dans þenna við raust:

Mínar eru sorgir
þungar sem blý.

Annar dans er til frá árinu 1221 og er ortur um Loft sem var biskupssonur: 

Loftur er í Eyjum
bítur lundabein.
Sæmundur er á heiðum
og etur berin ein.

Það sem er merkilegt við þennan dans er víxlrímið sem var lítið notað í fornum kveðskap.

Upp úr þessum dönsum og samhliða rímum urðu til sagnadansar. Í þeim eru sögur sagðar í ljóði og væntanlega hefur verið stiginn dans við hljómfallið. Sagnadansar eru þó frábrugðnir rímum á þann hátt að atkvæðafjöldi línu var óviss og engin stuðlasetning var í sagnadönsum. Þá var rím mjög oft óvandað.

Þetta sést í vísu úr dansi um Ólaf Liljurós:

Ólafur reið með björgum fram,
hitti hann fyrir sér álfarann.

Þetta minnir á afhendingu en hér eru engin stuðlar og rímið, fram-rann, er vafasamt.

Viðlög voru í flestum sagnadönsum. Höldum okkur við Ólaf Liljurós og hér er viðlag frá þeim dansi:

Ólafur reið með björgum fram
- rauður loginn brann -
hitti hann fyrir sér álfarann.

- Þar lá búinn byrðing undir björgunum fram.

Efst á síðu

 

Rímnahættir

Íslendinga hafa ort kvæði undir rímnaháttum frá 13. öld. Elsta ríman er talin vera Ólafs ríma Haraldssonar eftir Einar Gilsson (14. öld).

Efni rímnanna var fjölbreytt. Þetta eru sagnaljóð. Rímur byrja á mansöng. Hann er ástarsöngur. Stundum til konu sem ríman er tileinkuð eða um ástarraunir.

Rímur voru gríðarlega vinsælar öldum saman og öll helstu skáld ortu rímur. Jónas Hallgrímsson skrifaði hins vegar ritdóm um rímur og fann þeim allt til foráttu. Eftir það fór vegur rímnanna minnkandi en þær hafa aldrei horfið úr íslenskum kveðskap.

Eitt einkenni rímnaháttanna eru línufjöldi, oftast fjórar línur, til dæmis ferskeytla, gátu verið þrjár, braghenda, og tvær, afhending. Önnur einkenni eru ljóðstafir og rím.

Þessir rímnahættir urðu mjög margir og fjölbreyttir, alls 450. En Íslendingar notuðu rímnahætti til annars en að yrkja rímur. Stökur undir rímnaháttum hafa löngum verið vinsælar.

Lestu eftirfarandi vísur vandlega og gerðu þér grein fyrir einkennum hvers bragarháttar. Til einkenna bragarahátta teljast meðal annars fjöldi lína (vísuorða), atkvæðafjöldi, gerð ríms (karlrím, kvenrím, veggjað) og staða ríms.

Til dæmis er hér lýsing á einfaldri ferskeytlu: Hún er fjórar línur, hefðbundnir ljóðstafir, rímið er aBaB, þ.e. endarím, víxlrím, karlrím í línum 1 og 3 en annars kvenrím.

Einföld ferskeytla 

Hárin mér á höfði rísa
er hugsa ég um kærleik þinn.
Þetta er annars ágæt vísa
einkum seinni parturinn.

                 Tómas Guðmundsson (1901-1983)

Hringhend staka 

Ekkert kalla ég á þér ljótt,
yndis snjalla mærin.
Mér hafa alla ævi þótt
á þér falleg lærin.

                   Káinn (1860-1936)

Sléttubönd 

Hrundin hafnar ástum ei;
ítum blíðu veitir.
Lundin jafnast, minna mey
máli stríðu beitir.

                   Sigurður Kr. Pálsson (1886-1950)

Stafhenda 

Flest rökin finnast þó
fyrir þessu en laun ónóg.
Meðal annars meinar stolt
mér að eyða dýru á Walt.

                   Þórarinn Eldjárn (f. 1949)

Samhenda 

Víst er, sagði vísir skær,
vegur einn sem stendur fjær
eldi líkur allfrábær
allt til himins víst sá nær.

                  Guðmundur Bergþórsson (1657-1705) 

Braghenda samrímuð 

Margt nú leggst í vondan vana í voru landi,
verða má að grimmu grandi
ef gott fólk er ei viðspornandi.

                 Jón Magnússon (1601-1675) 

Braghenda baksneidd 

Man ég tvennt sem mér var kennt á Fróni,
og minnkun ekki þótti þá:
það var að drekka og fljúgast á.

               Káinn (1860-1936) 

Afhending
Ennþá hefur okkar bragur aukið gaman,
er við bæði sátum saman.

                 Sveinbjörn Beinteinsson (1924-1993)

Efst á síðu

 

Að hætti Jónasar

Jónas Hallgrímsson (1807-1845) skrifaði sem fyrr sagði ritdóm gegn rímum. Þetta var ritdómur um rímu um Tristan og Ísold eftir Sigurð Breiðfjörð og taldi Jónas rímnakveðskap vera þjóðinni til minnkunar.

Jónas sótti fyrirmyndir í fornan kveðskap en hann leitaði líka til útlanda. Hann innleiddi tvo hætti í íslenskan kveðskap. Þeir eru sonnetta og þrílína.

Sonnettan Ég bið að heilsa er á bls. 9 hér að framan. Hér er önnur sonnetta eftir annan höfund. Lýstu sonnettunum og berðu þær saman.

Sölvi Helgason 

Sölvi Helgason, heimspekingurinn smáði
var hnepptur í dýflissu fyrir sín prakkarastrik.
Hann hafði þó ekki aðhafst nein föðurlandssvik
og ekki kynnt sig að stráksskap að neinu ráði. 

Um próf sín og afrek í útlöndum mikið hann tjáði,
en ætti' hann að leggja fram skírteinin koma á hann hik
Menn skildu það glöggt að hann gerði sér hægt um vik
og gaf sér þær nafnbætur sjálfur er hugurinn þráði. 

Aumingja Sölvi minn! Ógæfa þín var sú
að aðeins þú lifðir vors þjóðfrelsis byrjandi vor,
en ekki þess sumar með vaxandi virðing og trú
á vísindamönnum sem frömuðu þig eins og þú.
Nú stígum vér orðið svo merkileg menningarspor
Nú mundi landsstjórnin gera þig prófessor.

                      Jón Helgason (1899-1986)

Veitið því athygli með báðar þessar sonnettur að efni þeirra er tvískipt. Í línum 1-8 er efnið sett fram en niðurstaða höfundarins um það er skýrð í seinni parti kvæðisins. 

Þrílína
Eins og nafnið bendir til er þrílína byggð upp af þriggja lína erindum. Jónas Hallgrímsson orti kvæðið Gunnarshólmi undir þrílínu. Reyndar eru tvö síðustu erindin ekki þrílína. Hér er upphaf Gunnarshólma:

Skein yfir landi sól á sumarvegi,
            og silfurbláan Eyjafjallatins
            gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
            hátt yfir sveit, og höfðu björtu salar
            í himinblámans fagurtæru lind.

Steinn Steinarr orti  hundrað árum síðar ljóðaflokkinn Tímann og vatnið. Í viðtali segir Steinn að hann hafi ort flokkinn undir því sem kalla má breytilega þrílínu. Þetta er úr 2. hluta Tímans og vatnsins: 

Sólin,
sólin var hjá mér
eins og grannvaxin kona
á gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust grasið
á gulum skóm.

Gerðu nú rækilegan samanburð á þrílínu Jónasar og Steins.

Efst á síðu

 

Nútímaljóð

Þennan kafla a eftir að semja.

Efst á síðu

 

Æfingar

Notfærðu kunnáttu þína til að greina kvæðin hér að neðan með tilliti til þess sem á undan er komið. Að öðru leyti notarðu ljóð úr Ljóðspeglum til að lesa og njóta. 

ávaxtamarkaður í tókyó/draumsendur japanpappír
                                               
tileinkað brautigan
            um
               ba
               na
               na
               na
               tvo & tvo
            saman er vafið rauðu límbandi að
            vega       p á móti gula litnum
                     p
                  u

                    Gyrðir Elíasson. (Fæddur 1961) 

Rím í mæltu máli 

Það er hægt að hafa yfir heilar bögur
án þess rímið þekkist, þegar
þær eru nógu alþýðlegar.

                  Andrés Björnsson (1883-1916) 

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans

hvöss sem byssustingur.

                  Andrés Björnsson (1883-1916) 

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.

Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.

                 Kristján Jónsson Fjallaskáld (1842-1869) 

Helvíti er Herðubreið
hrikalega ferleg
einhverntíman alla leið
uppá hana ferég.

                Haukur Hafstað. (Fæddur 1920) 

Þél höggr stórt fyr stafni
stafnkvígs á veg jafnan
út með éla meitli
andær jötunn vandar
en svalbúinn selju
sverfr eirar vanur þeiri

Gestils álft með gustum
gandr of stál fyr brandi

                Egill Skallagrímsson (10. öld) 

Úr Stund einskis, stund alls 

Hvers mega sín orð ljóðsins?
Stálið hefur vængjast
og flýgur
langt út fyrir heimkynni arnarins.
Hvers mega sín orð þess? 

Brostið net ljóðsins?
Gert af kattarins dyn
bjargs rótum. 

Ó, dagar
þegar heimurinn var fiskur
í vörpu ljóðsins. 

                     Hannes Pétursson. (Fæddur 1931)

 

Farðu nú að sofa, blessað barnið smáa,
brúkaðu ekki minnsta fjandans þráa.
Haltu kjafti hlýddu og vertu góður:
Heiðra skaltu fö
ður þinn og móður.

                    Káinn (1860-1936)

 

Ganga skal
skal-a gestur vera
ey í einum stað.
ljúfur verður leiður
ef lengi situr
annars fletjum á.

                     Úr Hávamálum 

Uns þrír komu
úr því liði
öflgir og ástkir
æsir að húsi,
fundu á landi
Ask og Emblu
örlöglausa.

                     Úr Völuspá. 

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
Að sækja bæði sykur og brauð
sitt af hvoru tæi.

                   Þjóðvísa 

Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu,
lærði ég hana alla í einu,
þó aldrei komi að gagni neinu.

                  Óþekktur höfundur. 

„Nú em ek svo fegin
fundi okkrum
sem átfrekir
Óðins haukar
er val vitu,
varmar bráðir
eða dögglitir
dagsbrún sjá.”

                Úr Helgakviðu Hundingsbana II.

Efst á síðu

 

Lausnir og skilgreiningar

Rímnahættir

Einföld ferskeytla er fjórar línur, endarímið er aBaB, ljóðstafir hefðbundnir, það er 2,1-2,1.

Hringhenda er eins og ferskeytlan en hefur auk þess innrím þar sem annar bragliður hverrar línu rímar saman, yfirleitt karlrím.

Slettubönd er fjórar línur, rím abab og innrím. Að auki ríma saman fyrsta orð í línu eitt og þrjú. Sléttubandavísu má lesa jafnt aftur og bak og áfram.

Stafhenda er fjórar línur og rímið er aabb.

Samhenda er fjórar línur og rímið er aaaa.

Braghenda er þrjár línur. Fyrsta lín er sex bragliðir og hefur þrjá ljóðstafi. Hinar línurnar eru fjórir bragliðir og stuðla saman. Til eru afbrigði. Samrímuð braghenda rímar aaa en baksneidd abb.

Afhending er tvær línur bundnar í stuðla og rímar aa.

Fornir hættir

Fornyrðislag er átta línur, fjögur atkvæði í hverri línu þar af tvö áhesluatkvæði. Tvær og tvær línur stuðla saman með tveimur eða þremur ljóðstöfum.

Ljóðaháttur er sex línur. Línur þrjú og sex eru lengri en hinar og eru sér með stuðla.

Dróttkvæður háttur er átta línur, yfirleitt sex atkvæði hver lína. Hefðbundin stuðlasetning. Í dróttkvæðum eru innrím. Í oddatölu línunum eru skothendingar (hálfrím) en í hinum aðalhendingar (alrím).

Efst á síðu

 

Heimildir 

http://www.heimskringla.net/bragur/

Eddukvæði. Íslensku bókaklúbbarnir 2001. 

Egilssaga. Svart á hvítu 1985. 

Jóhann Sigurjónsson. Ritsafn. Mál og menning 1980. 

Káinn. Vísnabók Káins. Bókfellsútgáfan 1965. 

Ljóðspeglar. Námsgagnastofnun 1999. 

Rímnasafnið. Sveinbjörn Beinteinsson tók saman. Helgafell 1966. 

Sigurður Kr. Pálsson. Afabók. Eiríkur Brynjólfsson 1991. 

Símon Dalaskáld. Ljóðmæli. Rímnafélagið 1950. 

Snorri Sturluson. Snorra Edda. Íslendingasagnaútgáfan 1976. 

Steinn Steinarr. Ljóðasafn. Vaka Helgafell 1991. 

Stefán Einarsson. Íslensk bókmenntasaga 874-1960. Snæbjörn Jónsson 1966. 

Sveinbjörn Beinteinsson. Bragfræði og háttatal. Leiftur 1953. 

Þorsteinn Valdimarsson. Limrur. Erlusjóður 1981. 

Þórarinn Eldjárn. Disneyrímur. Iðunn 1980. 

Æri Tobbi. Vísur Æra Tobba. Iðunn 1974.

Efst á síðu