Dísir

heim.gif (185 bytes)

Menn kvöddu sumar og heilsuðu vetri með blóti, bæði til goða og vætta og ekki síst dísa, en dís kann að vera skylt fornindversku orði, sem þýðir kvenkyns goðvera, en þær voru tengdar frjósemisöflunum. Í Uppsölum var dísadýrkunin hluti af hinum opinberu blótum, en engar myndir eða líkneski voru gerð af dísum. Svíar héldu dísablót á vorin þegar tungl var fullt í nánd jafndægra. Dísablót í Noregi voru einkum haldin um veturnætur til að tryggja velferð ættarinnar. Dísir vernda ættina, einkum ættföðurinn, og ráða miklu um gengi ættmenna í ófriði.

Fylgjur voru ættardísir, og þær eiga sér líklega eldfornan uppruna. Orðið er ef til vill skylt sögninni að fela, og merkir þá að skýla, hlífa, verja árásum (aftanfrá), vernda. Menn trúðu því, að sumir einstaklingar ættu sér eins konar tvífara, sem gat brugðið sér í margvísleg gervi til að vernda viðkomandi. Fylgjur voru nátengdar ættföðurnum, og þær gengu í arf til næstu kynslóðar. Fylgjur með einstökum ættum eru oft í mannslíki, einkum kvenna, en dýr eru gjarnan fylgjur einstaklinga.

Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)