Seiður

heim.gif (185 bytes)

Seiður er öflugasta form galdurs og byggist á algleymi iðkenda og sálnaflakki, en til þess að stunda seið þurftu menn að búa yfir sérstakri færni. Seiður var litinn hornauga þegar á tímum hinnar fornu trúar, og var Óðinn sjálfur þó meistari seiðsins og nam þá list af Freyju ef marka má ýmsar heimildir, en samkvæmt Heimskringlu er því öfugt farið:

... Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt.
Meira

Það voru einkum konur, sem stunduðu seið með norrænum mönnum, enda voru seiðkarlar kenndir við ergi, sem getur þýtt samkynhneigð eða annað ókarlmannlegt eðli. Seiður var ógnvekjandi, en hann var Óðni til gagns því að í krafti hans var hægt að skyggnast inn í framtíðina.

Seiðkona hét vala eða völva, sú sem ber staf, en stafurinn var í senn fararskjóti sálarinnar og veldistákn. Þær báru sérstök klæði til að einangra sig frá umheiminum og frömdu seiðinn á sérstökum seiðhjalli. Völvan féll í trans með aðstoð viðstaddra, sem virðast hafa sungið sérstaka söngva til að styrkja galdurinn, sbr. sögnina að gala. Ítarlegasta lýsing sem til er á þessu hátterni er varðveitt í Eiríks sögu rauða og lýsir atburðum, sem eiga að hafa gerst á Grænlandi um árið 1000. Þorbjörg lítlivölva og vísindakona fremur seið með hjálp Guðríðar. Áður hefur hún beðið að henni væru fengnar þær konur er kynnu þau fræði er þyrfti til að fremja seiðinn og heita Varðlokur. „Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona,“ segir Guðríður, „en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði Varðlokur.“ Sagan var skráð hér á landi um árið 1300:

Í þennan tíma var hallæri mikið á Grænlandi; höfðu menn fengið lítið þeir sem í veiðiferðir höfðu farið, en sumir eigi aftur komnir.

Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona; hún var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.

Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferð. Og með því Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búinn góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsafiðri.
Meira

Seiðurinn sem Þorbjörg framdi gerði henni kleift að sjá til framtíðar, en forspá var því einungis möguleg, að menn trúðu á örlagabundna framvindu lífsins. Þetta kemur glögglega fram í Ólafs sögu Tryggvasonar í Flateyjarbók:

Í þann tíma, er Gunnhildarsynir gengu til ríkis í Noregi, réð fyrir Hólmgarði, það köllum vér Garðaríki, einn ágætur konungur. Sá hét Valdimar. Hann átti dýra drottning, er Arlogia hét. Hún var vitur og vinsæl og vel skapi farin, mjög góðgjörn og góðrar náttúru, þó að hún væri þá heiðin. Svo er sagt, að þá væri enn heiðið allt Garðaríki. Konungurinn sjálfur blótaði skurðgoð, en drottningu mislíkaði það mjög, er hún fékk honum eigi frá því komið. Valdimar konungur átti móður, mjög gamla og af elli örvasa, og mátti eigi úr rekkju rísa. Þessi kerling var mjög mikillar náttúru og framsýn af fítonsanda sem heiðnir menn margir, þeir er sýndust segja fyrir óorðna hluti og óvísa.
Meira

Kerling spáir fyrir um ríki Ólafs Tryggvasonar, en sagan er augsýnilega mótuð af helgiblæ.

Í Vatnsdæla sögu er sagt frá Ingimundi gamla. Hann var hjá Ingjaldi bónda í Hefni í Noregi að veislu:

Þeir Ingjaldur efna þar seið eftir fornum sið, til þess að menn leituðu eftir forlögum sínum. Þar var komin Finna ein fjölkunnug. Ingimundur og Grímur komu til veislunnar með miklu fjölmenni. Finnan var sett hátt og búið um hana veglega; þangað gengu menn til frétta, hver úr sínu rúmi, og spurðu að örlögum sínum. Hún spáði hverjum eftir því sem gekk, en það var nokkuð misjafnt, hversu hverjum líkaði. Þeir fóstbræður [Ingimundur og Sæmundur] sátu í rúmum sínum og gengi eigi til frétta; þeir lögðu og engan hug á spár hennar. Völvan mælti: „Hví spyrja þeir inir ungu menn eigi að forlögum sínum, því að mér þykir þeir merkilegastir menn af þeim, sem hér eru saman komnir?“ Ingimundur svarar: „Mér er eigi annara að vita mín forlög fyrr en fram koma, og ætla eg mitt ráð eigi komið undir þínum tungurótum.“ Hún svarar: „Eg mun þó segja þér ófregið; þú munt byggja land, er Ísland heitir; það er enn víða óbyggt; þar muntu gerast virðingamaður og verða gamall; þínir ættmenn munu og margir verða ágætir í því landi.“ Ingimundur svarar: „Þetta er af því vel sagt, að það hefi eg einhugsað, að koma aldrei í þann stað, og eigi verð eg þá góður kaupmaður, ef eg sel áttjarðir mínar margar og góðar en fara í eyðibyggðir þær.“ Finnan svarar: „Þetta mun koma fram, sem eg segi, og það til marks, að hlutur er horfinn úr pússi þínum, sá er Haraldur konungur gaf þér í Hafursfirði, og er hann nú kominn í holt það, er þú munt byggja, og er á hlutnum markaður Freyr af silfri; og þá er þú reisir bæ þinn, mun saga mín sannast.“

Þetta gekk allt eins og völvan sagði, en áður en Ingimundur lét af verða Íslandsferðinni keypti hann af Finnum þremur og gaf þeim smjör fyrir,

„... en þér farið sendiferð mína til Íslands að leita eftir hlut mínum og segja mér frá landslegi.“ Þeir svara: „Semsveinum er það forsending að fara, en fyrir þína áskorun viljum vér prófa. Nú skal oss byrgja eina saman í húsi, og nefni oss engi maður,“ og var svo gjört. Og er liðnnar voru þrjár nætur, kom Ingimundur til þeirra. Þeir risu þá upp og vörpuðu fast öndinni og mæltu: „Semsveinum er erfitt, og mikið starf höfum vér haft, en þó mun vér með þeim jarteinum fara, að þú munt kenna land, ef þú kemur, af vorri frásögn, en torvelt varð oss eftir að leita hlutnum, og mega mikið atkvæði Finnunnar, því að vér höfum lagt oss í mikla ánauð.“

Síðan lýstu þeir landi og kenndi Ingimundur Vatnsdal eftir lýsingu þeirra þegar hann leit hann augum á Íslandi. Þar í holti fann hann líkneski sitt af Frey.

Seiður er sérstakur fyrir ásatrú, hann er ekki til í öðrum indóevrópskum trúarbrögðum. Hann er hins vegar lykilatriði í hinni fornu trú Sama og annarra þjóða á norðurhjara veraldar, bæði í Norður-Ameríku og Síberíu. Þess vegna er nærtækt að álykta, að þessi galdur sé kominn í trúarbrögðin frá Sömum, sem voru nábýlingar norrænna manna.

Guðirnir okkar gömlu eftir Sölva Sveinsson

aundan.gif (852 bytes)

heim.gif (185 bytes)

naesta.gif (183 bytes)