Fjölbrautaskólinn við Ármúla

LOL203

 

                                                Svör við verkefni úr 21. kafla: þvagkerfið

 

  1. Líffæri þvagkerfis eru:
    1. 2 nýru (renes) mynda þvag
    2. 2 þvagpípur / þvagleiðarar (ureter) flytja þvag frá nýrum til þvagblöðru
    3. þvagblaðra (vesica urinaria) geymir þvag
    4. þvagrás (urethra) losar þvag frá þvagblöðru
  2. Nýrun eru staðsett ofarlega í kviðarholi upp við afturvegg holsins.  11. og 12. rif (lausarifin) vernda þau að hluta.  Hægra nýra liggur aðeins neðar en það vinstra vegna fyrirferðar lifrarinnar.
  3. Nýrun eru nýrnalaga!  Medial hlið (það sem snýr að miðju) er concave (íhvolf), en lateral hlið er convex (ávöl).  Á medial hlið er nýrnahlið (hilus), þar sem slagæð, bláæð og þvagpípa tengist nýra.  Nýrun eru klædd trefjahylki. Þau liggja aftan við lífhimnu og eru því aðeins klædd henni að framan.
  4. Þessu væri best að lýsa með mynd.  Í breiðskurði (afturhluti skilinn frá framhluta) kemur lagskipting í ljós.  Innan við trefjahylkið er nýrnabörkur og þar fyrir innan er nýrnamergur.  Í mergnum eru dökkar nýrnastrýtur sem enda í strýtutotum, en þar kemur þvagið úr safnrás og tæmist í nýrnabikara (minni bikar tæmist í nýrnabikar meiri).  Stærri nýrnabikararnir tæmast síðan í þvagskjóðuna (pelvis renalis) sem er í miðju nýra.  Úr þvagskjóðu fer þvagið í þvagpípu.
  5. a) Nýrun stjórna ýmsum þáttum blóðs. Þau stjórna vatns- og saltmagni þess og þar með líka blóðmagni.  Nýrun hafa einnig mikil áhrif á blóðþrýsting með því að mynda renín.  Renínmyndun eykst ef blóðmagn minnkar eða blóðþrýstingur lækkar.  Renín hefur þau áhrif að angíótensín II myndast, en það bæði dregur saman æðar og veldur losun á aldósteróni frá nýrnahettuberki.  Þetta veldur auknu blóðmagni og hækkuðum blóðþrýstingi.  Nýrun sjá einnig um að halda sýrustigi blóðsins innan þröngra marka með því að seyta H+ og halda í HCO3- ef blóðið er of súrt.

b) Nýrun mynda hormónin calcitriol sem er virkt form D-vítamíns og erythropoietin sem eykur myndun rauðra blóðkorna.

c) Nýrun skilja út úrgangsefni (svo sem þvagefni og creatínin) auk framandi efna.

  1. Best væri að lýsa þessu með mynd, en nýrungur samanstendur af nýrnahylki (renal corpuscle) annars vegar og nýrnapíplum hins vegar.  Í nýrnahylkinu er æðahnoðri (glomerulus) og hnoðrahýði.  Blóð kemur til æðahnoðrans eftir aðfærsluslagæðlingi og frá honum eftir fráfærsluslagæðlingi.  Hnoðrahýðið (glomerular capsule) sem er utanum æðahnoðrann tekur við frumþvagi sem síast úr æðahnoðranum. Frá hnoðrahýði fer þvagið til nýrnapíplna.  Fyrst fer það eftir bugapíplu nær (proximal convoluted tubule), en þar fer mest allt endursogið fram.  Síðan tekur við Henles lykkja, ekki ósvipuð hárnál með fallhluta og rishluta.  Starfsemi hennar gerir nýrunum kleift að skilja út þvag sem er hefur hærri seltustyrk en blóð.  Þá tekur við bugapípla fjær (distal concoluted tubule) og að lokum safnpípla (collecting duct)
  2. 1. þrep þvagmyndunar er síun.  Hún fer fram í nýrnahylkinu.  Í æðahnoðranum veldur þrýstingur því að efni úr blóði (vatn og smáar agnir) síast yfir í hnoðrahýðið.  Nettó þrýstingurinn er u.þ.b. 10mmHg.  Um 180 lítrar af frumþvagi síast á sólarhring.

2. þrep þvagmyndunar er endursog.  Þá fara efni úr frumþvagi aftur út í blóðið.  Endursogið á sér aðallega stað í bugapíplu nær.   Tafla 21.1 sýnir hversu hátt hlutfall hinna ýmsu efna endursogast.  Takið eftir að hjá heilbrigðum manni endursogast allur glúkósinn og því er hann ekki að finna í þvagi.

3. þrep þvagmyndunar er pípluseyti.  Þá eru efni flutt á virkan hátt úr blóði yfir í nýrnapíplur.

8.      Ath. að 13. kafli kennslubókarinnar fjallar um hormón og getur verið ágætt að kíkja á myndir sem þar eru.  ADH (antidiuretic hormone / þvagstillivaki) kallast öðru nafni vasópressín.  Þetta er hormón sem myndast í undirstúku og er losað frá afturhluta heiladinguls.  Magn ADH í blóði er háð saltstyrk blóðs og blóðmagni.  Hormónið virkar þannig að það eykur gegndræpi bugapíplu fjær og safnpíplu fyrir vatni.  Eftir því sem styrkur ADH í blóði er hærri, þess meira vatn endursogast og þess minna og sterkara verður þvagið.   Ef vatn vantar í líkamann, þá eykst selta blóðs og blóðmagnið minnkar.  Við það eykst ADH losun, sem veldur því að meira vatn er endursogað og minna vatn er útskilið með þvagi .  Ef blóðið hins vegar verður of þunnt (mikil drykkja), þá minnkar ADH losun frá heiladingli og miklu magni af þunnu þvagi er skilað út.  Aldósterón er hormón sem flokkast til saltstera og myndast í nýrnahettuberki.  Hormónið stjórnar styrk natríum og kalíum í blóði með því að auka endursog á natríum í  nýrum og útskilnað á kalíum.  Aldósterón hjálpar líka til við að viðhalda réttum blóðþrýstingi og blóðmagni og það örvar útskilnað á vetnisjónum sem hindrar blóðsúrnun.  Aðstæður sem auka losun á aldósteróni eru: vatnsskortur, natríumskortur, minnkað blóðmagn eða fall í blóðþrýstingi.  Blóðþrýstingsfallið hvetur nýrun til að mynda renín, en renín hvetur myndun á angíótensíni I.  Ensím frá lungum umbreytir síðan angíótensíni I í virka hórmónið angíótensín II, sem hvetur nýrnahettubörkinn til að losa aldósterón.  Aldósterón eykur endurupptöku á natríum í nýrun.  Vatn fylgir í kjölfarið með osmósu, vökvamagn blóðsins eykst, blóðmagn eykst og blóðþrýstingur endurheimtist.

9.      Þvaglosun krefst starfsemi bæði viljastýrða og ósjálfráða taugakerfisins.  Þegar 200-400 ml þvags eru komnir í blöðruna berast  boð til mænu frá tognemum í blöðruvegg og mænan svarar með parasympatísku taugaviðbraði sem kallast þvaglosunarviðbragð: vöðvar í þvagblöðruvegg dragast saman og hringvöðvar slaka á (bæði innri og ytri þvagrásarþrengir).

10.    

 

 

 

  1.