Njála – Svör við sumum spurningum
Verkefni 1. – 24. kafla

  • Hjónaband Hrúts og Unnar
  • Fyrstu tvö hjónabönd Hallgerðar langbrókar
  • Gunnar heimtir fé Unnar

Svörin eru fyrst og fremst hugsuð til leiðbeiningar. Ekki er svar við öllu því mikilvægt er að nemendur álykti sjálfir. Ef eitthvað er óljóst í þessum hluta eða öðrum hlutum síðar er um að gera að senda inn á Njála - til umræðu. Þar getið þið líka mótmælt svörunum.

1. Þegar persónur eru kynntar til sögunnar þarf að athuga hvað einkennir þær: útlit, skapgerð, hæfileikar, gallar, kostir, ætterni, þjóðfélagsstaða. Munið að taka sérstaklega vel eftir ætterni og mannkostum og - göllum. – Hvaða umsögn fá þessar persónur: Hallgerður (1. og 9. kafla), Gunnar, Njáll og Bergþóra?

Svar: Mannlýsingin er eins og lykill að persónunni. Hallgerði er lýst tvisvar, í 1. og 9. kafla. Í bæði skiptin er lögð áhersla á fegurð og hárið. Í seinni lýsingu hefur ummælum um skaplyndi hennar verið bætt við og í lýsingu Þjóstólfs er hamrað á skapi hennar. Þetta undirbýr lesendur fyrir framhald sögunnar.

Í lýsingu Gunnars og Njáls eru miklar andstæður. Íþróttamaðurinn og sá ráðagóði og forspái. Og í lok lýsinga beggja kemur fram hvað þetta eru góðir gæjar, hógværir og vinagóðir. Athyglisvert er að taka eftir því að bæði Gunnar og Njáll eru í raun og veru valdalausir menn þó þeir séu vel ættaðir, eru ekki goðar með völd heldur vel stæðir bændur, en þeir hafa skapað sér virðingu og áhrif í samfélaginu með hæfileikum sínum.

Bergþóra er kvenskörungur sem er afar jákvætt, einnig drengur góður sem er líka afar jákvætt. En skaphörð. Það undirbýr okkur undir deilur hennar og Hallgerðar síðar í sögunni, t.d. í húskarlavígunum.

2. Hvað ræður þegar maki er valinn og gengið er frá samningi um hjónaband (kaupmála), t.d. hjá Hrúti og Unni? Hvernig líður Unni í brúðkaupsveislunni?

Svar: Miðað við rómantískar hugmyndir um ást og hjónaband þá er þetta andstæðan, viðskipti. Athugið síðar í sögunni hvað sagt er um hjónaband Hallgerðar og Gunnars en það er kallað girndarráð af Hrúti og finnst honum það ekki gott. – Brúðurin var heldur döpur.

3. Hrútur er sagður „manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála“. Finnið þrjú dæmi þar sem hann segir fyrir um hvernig mál munu þróast. (1., 2. og 10. kafla).

Svar: Fyrst það sem hann segir um fegurð og augu Hallgerðar. Síðan þegar Höskuldur sýnir honum Unni og hann efast um hvort þau eigi heill saman. Loks segir hann Höskuldi að bíða með gjafir til Þorvalds og Ósvífurs, hann skuli geyma féð því hann fái tækifæri til að borga fyrir skaða sem hún muni valda.

Forspár og draumar eru algengir í Íslendingasögum. En Njála slær öll met í slíku, hvergi er jafn mikið af þessu og hvergi jafn mikil fjölbreytni.

Reyndar má stundum velta fyrir sér hvort um forlagatrú eða skynsemi sé að ræða. Hrútur er ekki viss um að þau Unnur eigi ekki saman og Þórarinn, bróðir Glúms, segir er Glúmur vill giftast Hallgerði þrátt fyrir viðvaranir: „Ekki mun mega við gera. Það mun verða fram að koma sem ætlað er. “ En samkvæmt frásagnarhefð Íslendingasagna eru þetta forspár.

4. Hvers konar manneskja er Gunnhildur? Hvað einkennir hana og hvernig reiðir þeim af sem umgangast hana? – Þau ykkar sem hafa lesið Eglu: Hvernig var Gunnhildur í Eglu, er eitthvað líkt með henni í báðum sögum?

Svar: Skapstór og ákveðin. Hún fær yfirleitt neikvæða mynd í Íslendingasögum og konungasögum. Í Eglu er mynd hennar mun neikvæðari, þar er hún einn aðalóvinur Egils og ættar hans. En þar er hún líka jafn mikið fyrir karla og kynlíf. Hér er hún komin á efri ár.

5. Hvernig fór hjónaskilnaður Hrúts og Unnar fram? Hver var skilnaðarorsökin og hvar er orsaka hennar að leita?

Svar: Unnur verður að beita blekkingum til að losna við Hrút þegar hún þykist veik. En áður en hún ríður að heiman fer hún að lögum og segir skilið við Hrút samkvæmt lögum. Konur á þessum tíma eins og karlar gátu skilið við maka sinn ef eitthvað var að í hjónabandinuu. Hrútur fer síðan ekki að lögum þegar hann neitar að greiða heimanmundinn til baka og býður Merði gígju einvígi.

Skilnaðarorsakarinnar er að leita í álögum Gunnhildar. Og ef einhver hefur ekki skilið hvað er að í hjónabandinu þá er limur Hrúts of stór fyrir Unni.

6. Hvernig fellur lýsingin á Hrúti í upphafi sögunnar að framkomu hans við Gunnhildi, Unni og Mörð gígju? Hvað getum við ályktað um Hrút af uppákomunni vegna strákanna í lok 8. kafla.

7. Hvernig reynist Unnur vera þegar hún ræður sjálf sínum málum? Athugið 18., 21. og 25. kafla.

Svar: Hér er lykilorðið: Hún hefur enga stjórn á sínum málum, er strax orðin blönk í 18. kafla og þegar hún giftist Valgarði gráa í 25. kafla spyr hún engan ættingja og þykir þeim öllum ráðahagurinn slæmur.

8. Hvernig nær Unnur fé sínu frá Hrúti? Hvernig fellur hlutur Njáls og Gunnars í því máli að lýsingunni á þeim? Hvers vegna á Gunnar bæði að hafa horaðan og feitan hest í ferð sinni til Hrúts? Hvað felst í orðum Hrúts og Höskuldar þegar Gunnar fær féð greitt?

Svar: Er ekki hægt að segja að hún nái fé sínu með brögðum? Gunnar þarf að ná að segja stefnuna á réttum stað og síðan endar málið á sama hátt og fyrr, einvígi er í boði.

Njáll er sá sem gefur ráðið, Gunnar framkvæmir það sem vinur hans segir honum að gera. Horaði og feiti hesturinn eru Hrúti til háðungar. Gunnar skilur horuðu hestana eftir en tekur þá feitu.

Það hefur verið sagt um Íslendingasögur að spennan felist ekki í því sem á eftir að gerast heldur hvernig það muni gerast. Þess vegna allar þessar forspár og draumar. Og hér er verið að undirbúa það að Gunnari á eftir að hefnast þessi framkomu, um það fjallar Gunnars saga meðal annars.

9. Hvað getum við ályktað um skapgerð Hallgerðar af tveimur fyrstu hjónaböndum hennar? Hvernig er samband hennar við föðurinn? Hvernig maður er Höskuldur?

10. Hvað er gert til að annað hjónaband Hallgerðar gangi betur en það fyrsta? Hvað gerir Hallgerður sjálf? Hvað verður til þess að það gengur ekki upp? Hvað merkir hlátur hennar í 11. og 17. kafla? – Leggið kinnhestana á minnið.

Svar: Við þessum tveimur spurningum er ekkert svar gefið því mikilvægt er að nemendur velti þessu fyrir sér. En undir glærur er glærusýning með nokkrum mikilvægum atriðum varðandi hjónaböndin.

11. Hvers konar maður er Þjóstólfur? Hver er uppruni hans og hvernig er sambandi hans við Hallgerði háttað?

Svar: Fjórðungi bregður til fóstur, segir gamall, íslenskur málsháttur og kemur fyrst fyrir í 42. kafla í Njálu en þar er þetta sagt um Skarphéðinn Njálsson og fóstra hans. Einn fjórðungur er faðir, annar móðir og sá þriðji eigið eðli.

Mannlýsing Þjóstólfs er afar neikvæð. Hann er suðureyskur. Suðureyjar eru norðvestan Skotlands og ef menn eru þaðan eða frá Svíþjóð eiga þeir eftir að skapa vandræði. Og þá fylgir gjarnan það sem segir hér um Þjóstólf: Hann hafði margan mann drepið og bætti engan. Hann fer ekki eftir reglum samfélgssins. Takið eftir í Íslendingasögum ef sagt er um einhvern að hann sé ójafnaðarmaður, vegi marga og bæti engan. Þeir menn lifa ekki lengi en tekst að koma mörgu illu í verk og skapa vandræði.

12. Hvers konar maður er Svanur? Hvernig er hann tengdur Hallgerði? Hvernig ná þeir Þjóstólfur saman?

13. Hvers vegna tekur Hallgerður fyrstu tveimur eiginmönnum sínum á svo ólíkan hátt? Hvað skilur þá að? Hvað er til merkis um að hún vilji Þorvald feigan en ekki Glúm?

Svar: Sjá glærusýningu.

14. Getur ættanna kynlega blanda skýrt hegðun Hallgerðar?

Svar: Hér er þetta spurningin um föður- og móðurætt. Hallgerður er vel ættuð í föðurætt, komin frá landnámskonu Dalanna, Unni djúpúðgu sem í ýmsum ritum er nefnd Auður. Móðurættin óljósari og skuggalegri, móðirin ekki nefnd, einungis Svanur móðurbróðir, galdramaður og illmenni, er fulltrúi hennar.

Munið að á þessum tíma skiptir ætterni miklu máli.

© Íslenskudeild FÁ / Kristinn Kristjánsson