Tæknisaga

Skilasíða

        Það var þá

Það mun hafa verið árið 1982 að mér áskotnaðist fyrsta tölvan, Apple 128 K. Þetta var mikið tækniundur og vakti óskipta athygli. Ég tók til óspilltra málanna að læra og kenna börnum mínum. Einu sinni var ég búinn að semja hálfa smásögu og ákvað að hafa sýnikennslu handa 10 ára dóttur minni.
    Sjáðu, sagði ég. Hér er saga sem ég er að semja. Og nú slekk ég á tölvunni og kveiki svo aftur og þá er sagan þarna ennþá.
    Brosandi stoltur slökkti ég og kveikti aftur en sagan birtist ekki vegna þess að ég hafði verið svo áfjáður í að kenna dóttur minni að ég gleymdi að vista skjalið. Sannaðist hið fornkveðna að í námi má bæði fara erfiða og auðvelda leið.
    En framfarir eru örar og fjórum árum síðar var gamla draslið úrelt og ónothæft og varð leikfang barnanna. Í þá daga skiptust tölvumenn í tvo trúarhópa, makkamenn og pésémenn. Það var því vonlaust verk að leita til tölvumanna í þá daga. Ég lagði bæ undir fót og gekk milli tölvusala í bænum, hvort sem þeir seldu makka eða pésé og sagðist vera framhaldsskólakennari, háskólastúdent og rithöfundur og hvað fæ ég mikinn afslátt útá að vera allt þetta? Ég fékk mestan afslátt í pésé búð og því fór sem fór. Hún var með gulum skjá, pínulitlum.
    Heim kominn með tölvuna kvaddi ég til mín Helmut hinn þýska þáverandi samkennara minn og annan mann til. Í sameiningu komum við tölvunni heim og saman þannig að allt varð í stakasta lagi. Þetta var flókið mál og tók heilan dag og mikil útlenska var töluð. Sonur minn sem þá var 11 ára fylgdist grannt með og sagði með aðdáun við pabba sinn að loknu dagsverki: Mikið ertu klár, pabbi! Ég hlýt að láta það fylgja að núna er þessi drengur orðinn tveggja barna faðir og útlærður kerfisfræðingur frá Tölvuháskólanum og hlutverkin hafa snúist við. Og ég segi: Mikið ertu klár, Einar. Og svo þarf ég aldrei að kaupa þjónustu tölvufyrirtækja!
    Þessi árin skrifaði ég vikulegar greinar í DV um íslenska tungu. Ég hafði notað forláta rafmagnsritvél til verksins en átti núna tölvu. Og ég skrökva ekki einum staf þegar ég fullyrði að ég var þrisvar sinnum fljótari að skrifa hverja grein eftir að mér áskotnaðist tölvan.
    Jæja, svo kom netið og tölvupóstur. Jédúdamía! Það var í kringum árið 1990, ég var ritstjóri Kennarablaðsins, að Pétur nokkur Þorsteinsson frá Kópaskeri, af öllum stöðum, auglýsti fyrirlestur um tölvusamskipti á Hótel Esju sem nú heitir eitthvað allt annað eins og gengur. Ekki man ég nákvæmlega hvað hann sagði né heldur hvernig ég skildi hann en eitt er víst: Ég sá að eitthvað var að gerast! Þarna hófst nútíminn. Áður var tölvan mjög þægileg ritvél en núna varð hún eitthvað miklu, miklu meira. Sem tölvan mín réði ekki við. Hún varð þessvegna barnaleikfang, sonur minn reif hana i tætlur og setti saman aftur og hans framtíð var endanlega ráðin. Þannig séð!! Hann varð eins og áður sagði kerfisfræðingur.
    En ég keypti nýja tölvu sem hægt var að tengja við umheiminn. Á þessum árum var ég að þýða bíómyndir fyrir Stöð 2. Breytingin kom strax. Í stað þess að aka með handritin upp á Ártúnshöfða sendi ég þær með tölvupósti.

Og síðan
Í mínum huga fæddist nútímatölvutækni á þessum árum. Og allt hitt. Um það síðar.
    Ég var í Tallinn í Eistlandi ásamt Steinunni minni (konunni minni H.Hafstað, fjarnámsstjóra í ) að heimsækja bróður minn og konuna hans. Þetta var líklega árið 1995 eða 6. Gemsar voru grimmt auglýstir í Tallinn. Kostuðu skid og ingen ting. Ég hef ævinlega verið veikur fyrir nýjum tækjum og færði það í tal við Steinunni mína að viturlegt væri að eignast gemsa. Hún er ekki eins óð í tæki, eða viðurkennir það að minnsta kosti ekki eins og konum er gjarnt, og heimtaði rök.
    Ég ansaði að bragði að gott væri að eiga svona tæki ef annaðhvort okkar væri uppí landi (sem nú heitir Stóra Aðalból og er sex fermera hús á hálfum hektara lands við Hafravatn) að setja niður kartöflur eða að taka þær upp (þetta var snjallt hjá mér því ég þoli hvorki kartöfluniðursetningu né kartöfluupptöku) og þyrfti að ná nauðsynlegu sambandi við hitt. Þessi rök dugðu, með semingi þó. Annars er það þannig hjá okkur að ef öðru dettur eitthvað í hug þá bara er það þannig. Seinasta morgunn okkar í borginni fór ég snemma á fætur til að koma tímanlega í búðina Spider sem seldi notaða gemsa.
    Ég keypti semsagt gemsa þennan morgun. En að öðru. Stundum þegar ég er í borg sem ég hef ekki heimsótt áður legg ég það á mig að vakna eldsnemma til að gá hvernig borgin vaknar. Aþena vaknar til að mynda með einum háværum hvelli upp úr klukkan sex. Á augnabliki. Tallinn vaknar með hviss, hviss. Ég horfði í kringum mig. Hvaða hviss er þetta? Þegar ég gáði var þetta hljóðið sem kom þegar gamalt fólk fór útá götur með strákústa að sópa. Ég hugsa að fáar borgir vakni jafnblíðlega.
    Gemsinn? Jú, hann var á 3ja kíló á þyngd, svipaður og meðalstór lögreglukylfa að stærð og er löngu kominn úr umferð. Hann var ævinlega kallaður kartöflusíminn!

Og núna
Ég skrifa þess tækniskýrslu á fartölvu sem ég keypt mér nýlega. Heimilistölvan tók of mikið pláss í vinnuherberginu auk þess sem konan mín gerðist fjarnámsstjóri í FÁ sem fyrr sagði og fékk fartölvu til að geta tengst neti skólans. Gamla tölvan fór til elstu dótturinnar. Þessi fartölva er með þráðlausa ADSL tengingu. Síðan er ég með allt sem við þarf að éta: Prentara, skanna, stafræna myndavél o.s.frv.
    Í vinnunni hef ég aðgang að sæmilegri tölvu auk þess hef ég umsjón með sex nemendatölvum sem eru í tölvuhorni í Námsverinu.

Og framtíðin...
Framtíðin er blanda þess sem við þekkjum og hins sem við þekkjum ekki. Spár um framtíðina eru þessvegna til lítils því við byggjum þær á því sem við þekkjum. Margar frægar framtíðarspár hafa orðið í besta falli broslegar og skemmtilegar aflestrar. Ég nefni skáldsöguna 1984.
    Tækninýjungar hafa líka bæði kosti og galla. Í bókinni The Ultimate Hitchhiker's Guide eftir Douglas Adams eru kynntar nokkrar nýjungar. Ein er sjónvarpstæki sem unnt er að fjarstýra með höndunum. Mjög snjallt en gallinn er að sjónvarpsáhorfandinn verður að sitja með krosslagðar hendur því ef hann hreyfir fingurna þá skiptir hann um rás. Í bókinni er líka lyfta með mannlega greind. Farþeginn fer inní lyftuna og segir henni á hvaða hæð hann vilji fara. Mjög hentugt nema að lyftan er ekki alltaf sammála farþeganum. Farþeginn vill kannski fara á 8. hæð en lyftan maldar í móinn og segir að það sé miklu skemmtilegra að fara niðrí kjallara!
    Þegar tölvubyltingin hófst var mikið rætt um umhverfishlið hennar, það er sparnað á pappír. En raunin varð önnur. Tölvunotkun hefur leitt gríðarlegri pappírssóunar en nokkurn óraði fyrir. Þetta segir mér að taka framtíðarspám með fyrirvara og trúa ekki öllum loforðunum um glæsta framtíð í þægindafaðmi tækniframfara.