Spænskt fyrir sjónir

 

Spænskir dagar

 


Fyrsti kafli

Við leggjum af stað - og komum þangað

Þetta verður ferðasaga. Ég veit ekki hvað ég nenni að skrifa mikið en það verður bara að koma í ljós. Hún er ritskoðuð af Steinunni og Jóni Hauki en auðvitað ræð ég endanlega.

            Forsagan er vitaskuld sú að Steinunn mín fékk orlof skólaári 2004-2005. Við ákváðum strax að fara til útlanda seini helmng vetrarins. Það var fljótlegt að velja land. Við vildum vera þar sem sólin skín glöð og og gul allt árið og rauðvínið kostar skid og ingenting. Sumsé: Spánn.

            Ég upphugsaði verkefni og fékk styrk upp á 650.000 kall, sótti um launalaust leyfi á vorönnn 2005. Um haustið fórum við öll þrjú að læra spænsku til að geta í það minnsta keypt mat á máli innfæddra.

            Ég hafði komið nokkrum sinnum til Spánar en hvorki Steinunn né Jón Haukur. Síðast var ég í Alicante og leist vel á mig þar enda á góðum stað. Vinkona okkar sem kennir spænsku í MH benti okkur á borgina á Elche rétt sunnan við Alicante. Þetta væri lítil borg á spænskan mælikvarða, um 200.000 íbúar, og engir erlendir túristar heimsæktu hana. Þá var það ákveðið.

            Ég hafði samband við fasteignasölu á Spáni til að hafa milligöngu um að útvega okkur íbúð. Fljótlega fannst mér ég kannast við nafn konunnar sem ég hafði samband við. Hún heitir Guðný Hansen og reyndist vera frænka mín. Afi minn Ingólfur Hrólfsson var bróðir Laufeyjar langömmu Guðnýjar.

            Heldur gekk illa að fá íbúð í Elche. Ég var farinn að hafa af þessu nokkrar áhyggjur því að við vorum búin að kaupa okkur farmiða til Alicante. Guðný stakk þá upp á  því að hún fengi Mariu vinkonu sína í Elche til að ganga milli húsa í Elche gegn greiðslu.

            Ekkert mál og nokkrum dögum seinna hringdi María og var strax með tvær íbúðir. Annað var íbúð mjög nærri miðbæ Elche, með húsgögnum, leigðist á 475 evrur; hitt tveggja hæða bungalóv í útherfi á 600 evrur. Við Steinunn ákváðum að íbúðin í miðbænum hentaði miklu betur.

            Við vorum líka búin að leiga okkar íbúð og í hönd fóru miklir flutningar á bókum og öðru sem leigjendur vildu ekki hafa. Brátt voru bæði geymsla og bílskúr full.

            Svo rann upp brottfarardagurinn 8 janúar 2005.

Allt gekk vel út á Umferðarmiðstöð. Við ókum á okkar fjölskyldubíl. Steinunn og Jón báru töskur inn og frúin ætlaði að borga í rútuna meðan ég kæmi bílnum fyrir og læsti. Einar ætlaði svo að sækja hann og koma honum á Bílaspítalann þar sem hann yrði læknaður og seldur.

Örskömmu seinna kom í ljós að Steinunn var ekki með rauða veskið sem peningabuddan hennar er í. Og peningar, kort og sími. Og ég var mátulega búinn að læsa lyklana inní bílnum.

            Ha, sagði ég. Þú sagðir mér að fara með veskið út í bílskúr í morgun.

            Nei, rauða balann, ekki rauða veskið, ansaði Steinunn alveg gáttuð.

            Já, mér fannst undarlegt að geyma veskið úti í skúr, sagði ég hugsandi.

Við náðum í leigubíl.

Rútan fer eftir korter, bílstjóri, geturðu komist fram og til baka á þeim tíma?

Við reynum, sagði hann drjúgur með sig að hætti íslenskra.

Og það tókst. Við náðum rútunni og rauða veskið var með. Rauði balinn var hinsvegar eftir í bílskúrnum. Vélinni seinkaði svo við áttum þetta venjulega ráp um flugstöð Leifs heppna. Tíðindalaust, þannig séð.

Lentum svo á Stanstead eftir tæpra þriggja stunda  flug. Steinunn ætlaði að kveikja á gemsanum sínum, en bömmer númer tvö; enginn gemsi. Að upplýsingadeskinu og tilkynnt um týndan mobiltelefon í flugvél Iceland Express, sæti 9F. Steinunn mátti bíða í 45 mínútur eftir að komið væri með hann úr flugvélinni. Við Jón Haukur sátum áhyggjufullir frammi, drukkum kaffi og misstum af Liverpoolleiknum í desperasjóninni. Loks birtist langþráð Steinunn með fökking gemsann. Beint á hótelið sem var í göngufæri. Það sást á milli stöðvar og hótels.

Um daginn var í sjónvarpinu heima sýnt frá hóteli þar sem á miðjum barnum var hár turn, fylltur með vínflöskum uppúr og niðrúr og loftfimleikafólk þurfti til að sækja flöskur. Við vorum sem sagt á því hóteli. Fljótt á litið sýndust mér flöskurnar vera 3840. Til samanburðar má geta þess að vínrekkinn minn rúmar 48 flöskur. Og dugir ágætlega.

Svo var þetta bara venjuleg hóteldvöl. Hótelmatur um kvöldið. Morguninn eftir töltum við að loknum morgunverði útá flugstöð til að tjekka okkur inn. Þá kom í ljós bömmer númer þrjú: Steinunn hafði gleymt pinnúmerinu á nýja debetkortinu sínu. Jæja, í lagi með það. Nóg er af kortunum. Glás og gomma.

Eftir inntjekkið fundum við okkur ágætan stað, Nelly’s, fyrir snarl og vín eða bjór eftir smekk. Meira að segja fótbolti fyrir suma. Þá kom það fjórði bömmerinn. Við vorum sest og maturinn á borðinu. En Steinunn fann hvorki vegabréfið sitt né brottfararspjaldið.

Hvert í heitasta. Það var oft leitað í rauða veskinu en ekkert fannst.

Við að vopnaleitarhliðinu aftur nákvæmlega þar sem við komum inn. Konan benti okkur á Information og sagði að þangað væri öllu skilað. Við horfðum í þá átt stressuð. Ja, eiginlega skelfd. Sáum þá starfskonu flugvallarins sitja í informatíinu og veifa vegabréfinu og spjaldinu og brosa mjög sposk á svip.

Mikið ógurlega vorum við fegin þegar Steinunn hélt á þessu, heyrðum varla þegar starfsmaðurinn við borðið sagði:

That will be ten pounds.

Ég hugsa að ég hafi sagt: Ha, en hann brosti bara og sagði: I’m just joking.

Maturinn var góður á bragðið eftir þessar hremmingar og Steinunni ekki lengur treyst fyrir vegabréfi eða öðrum verðmætum. Allt er þegar þrennt er hjá Steinunni, en bömmerinn með veskið og balann tek ég á mig.

Svo var flogið í tæpa þrjá tíma og lent á El Altet flugvellinum við Alicante. Allar töskur með og alles gut. Tókum leigara til Ruperto Chapi 17 og þar biðu Maria og eigendur íbúðarinnar, Jose og Fiona. Fengum allar nauðsynlegar upplýsingar. Nenni ekki að fara út í þá sálma. Reyndar þarf að taka það fram að Fiona kenndi Steinunni ekki aðeins á þvottavél og eldavél heldur líka á sigti til að sigta spaghettí. Það var mikið nám. Á meðan reyktum við Jose útum glugga og hann sagði með dálítilli ólund að Fiona bannaði rekingar nema á svölum og útum glugga. Annars eru þau núna appelsínubændur útí sveit enda var gomma af appelsínum í stórri skál á eldhúsborðinu.

Jæja, íbúðin er á 4. hæð sem útleggst planta á máli innfæddra. Þegar þangað er komið er maður búinn að opna einar útidyr niðrá götu og svo aðrar fyrir innan og taka lyftu á 4ðu plöntu. Þá komum við dyrum íbúðar okkar og þar eru tveir lásar í viðbót.

Það er svo mikið af útlendingum í hverfinu, var okkur sagt, að rétt er að hafa marga lása.

Við sögðum bara Si, enda sjálf extranjeros.[1]

Og þá er það íbúðin. Fyrst er komið inní litla forstofu með fallegum útskornum lyklaskáp vinstra megin og þannig. Til hægri er stofan, ca 4 x 5 metrar, borðstofuborð, stólar, sófasett, ægilegt á litinn, grænblátt, sjónvarp, glingurskápur með allskyns glösum, sparistelli, dúkum og meira að segja vínskáp með víni í! Þetta er svona settleg stofa fyrir settleg miðaldra hjón sem passar okkur Steinunni minni alveg ágætlega.

Hverfum úr stofunni inn á langan gang handan forstofunnar. Hann er tæpir 11 metrar á lengd en rúmur metri á breidd. Mjög hornskakkur eins og allt í íbúðinni. Á vinstri hönd á ganginum eru þrennar dyr. Þær fyrstu eru að herbergi Jóns Hauks. Þá kemur baðherbergi og loks hjónaherbergi settlegu miðaldra hjónanna. Allt með fínum, dökkum harðviðarhúsgögnum, skápamergð og á hjónarúmi settlegu miðaldra hjónanna var risastór hvítur bangsi en grænblár fíll á rúmi Jóns.

Við endann á ganginum er eldhúsið með samskonar dökkum innréttingum. Þar er gaseldavél. Ég verð að manna mig uppí að sættast við gas! Innaf eldhúsinu todo de recto[2] er gestaherbergi með tveimur rúmum, voða dúllulegt, mynd af Brad Pitt á vegg, barna- og unglingabækur í hillum, fullt af böngsum og svoleiðis, töffaralegur leðurjakki inní skáp og undarlegt nokk, skírnarkjóll! Jón er náttúrlega óskírður. Hvernig má annars skilja þetta?

Dyr tvö úr eldhúsinu liggja inní vinnuherbergi (ég sit þar núna og pikka á tölvuna) en þær þriðju útá svalir en þar er þvottavél og enn eitt herbergi innaf svölunum; klósett! Á öllum gólfum er steinn, kannski marmari. Segjum það. Til að hafa þetta flott.

Þetta eru aðalatriði íbúðarinnar svo eru miljón yndisleg aukaatriði. Mér fannst ég strax eiga heima hérna, miðaldra, settlegur og so videre. Íbúðin hitti mig alveg í hjartað undir eins. Jón tók þessu með meiri fyrirvara enda er hann hvorki settlegur né miðaldra.

Gleymdi einu. Við höfum engar svalir nema þessar með þvottavélinni en opnanlega glugga út á götu og inná milli húsanna. Og aðgang að þakinu til sólbaða!!

Þegar okkur hafði verið sýnd íbúðin af þessu ágæta fólki sem leigir okkur og Fiona búin að kyssa Steinunni í bak og fyrir og allan hringinn en taka í höndina á mér og sömuleiðis Jose þá kvöddum við þau og Mariu og fórum að skoða borg. Drukkum meðal annars vino tinto y cervesa á Cafetería Víena.

Daginn eftir var domingo sem þýðir að allt var cerrado[3] nema einstaka veitingastaður. Það var því ekki annað til ráða en að leika túrista, ráfa um og éta úti.

Um miðja borgina rennur á sem heitir Rio Vinapólo. Það er að segja þetta var á en er núna bara spræna í litlum stokki, sjálfsagt nota þeir vatnið til daglegs brúks. Þarna er vitaskuld fjöldi af plazas og parks. Við heimsóttum einn stóran, Parc Municipal. Þar er skógur pálmatrjáa enda borgin fræg fyrir þau og komin á heimsminjaskrá eins og Þingvelli. Veðrið var gott. Fór í einhverjar 17 gráður en samt var ekki of heitt. Bara þægilegt. Ég meina það, það er hávetur um þessar mundir! Samt springa út rósir og laufin hanga blýföst á trjánum. Þau falla aldrei. Og starfsmenn borgarinnar eru að slá gras

Domingo leið semsagt í túristaleik.

 

Lunes enero de diez (10)

Næsti dagur var mánudagurinn, lunes. Við sváfum lengi, dröttuðumst út um það bil sem innfæddir bjuggu sig undir síestu. Ég hef heitið því að vakna snemma hér eftir og taka síestu eftir hádegi eins og innfæddir. Áttum að hitta leigusalann um kvöldið til að greiða leigu fyrstu tveggja mánaðanna. Fórum þessvegna í banka en fengum ekki að dispótera peninga. Kannski vegna þess að nosótros hablamos espanol un poco[4] y bankakonan habla inglés poquito![5] Benti okkur á hraðbanka sem skammtaði okkur svo naumt að það dugði ekki fyrir leigunni. Hringdum í Mariu sem hafði samband við eigendurna og það var ekkert mál að fresta uppgjöri um sólarhring. Þetta er þegar öllu er á botninn hvolft land mañana. I love it!

Við versluðum í supermercado. Það vantaði allt til alls í búið okkar. Og allt til alls kostaði heilar 4.500 íslenskar, þar með rauðvínið. Flaskan sú kostaði 0.75 evrur sem útleggst á um 65 kall íslenskan. Fernuvínið í lítratali kostar eina evru, það er 85 krónur. Svínakjötið í kvöldmatinn kostaði um 150 kall. Og svo kaffi, vatn, brauð, smér, morgunmatur o.s.frv.

Á leiðinni heim gerðum við stuttan stans á kínversku kaffihúsi ská á móti okkur. Þar erum við þegar orðnir fastagestir og er mætt með Hola, fallegu brosi y café solo[6] þegar við birtumst.

Næst á dagskrá var símaleiðangur. Hjá Vodafone var okkur tjáð að ADSL væri uppselt á þeim bæ og væri ekki fáanlegt fyrr en eftir marga mánuði. Þá skildi ég slagorð þeirra, La tienda del futura (verslun framtíðarinnar). Vegna þessa datt okkur ekki til hugar að kaupa þar gemsa heldur sögðum  kurteislega gracias og fórum út.

Seinna fundum við Teléfonica. Þar hablaði konan un poco inglés og við það sama og áður í spönsku. Eftir nokkurt þóf sagði ég: Mañana con amiga español.[7] Stúlkan brosti fegin og við skildum sátt að kalla.

¡Buneas tardes! Steinunn tók að sér að elda fyrsta kvöldið. Þessa líka ágætu svínasteik með spaghettíi, sósum og grænmeti. Jú og fetaosti. Þetta var fyrsta kvöldmáltíðin okkar. Við erum ekki lengur túristar. Við eigum heima í Elche. ¡Somos de Islandia pero vivimos en Elche![8]

 

Martes enero de once (11)

Í dag er martes. Við hjónin risum úr rekkju fyrir klukkan níu eða um það bil sem litlar verslanir í götunni voru að opna. Morgunmatur og kaffi úr kaffikönnunni góðu sem við keyptum hjá lyklasmiðnum í gær. Barnið sefur.

            Námið hefst. Sitjum í stofu og lærum spönsku úr bókunum okkar. Sólin gægist yfir húsþökin handan götunnar um klukkan hálf ellefu.

            Um hádegisbil fórum við að ráfa. Litum inní Teléfonica en þar var bið svo við kíktum á markaðinn, Mercado Central. Hann er risastór á tveimur hæðum, fiskar af öllum stærðum og gerðum niðri, grænmeti, ávextir; kjöt af flestum skepnum jarðar á efri hæðinni, plús brauðbúð og bar. Mikið að gera og mikill hamagangur.

            Hraðbankarnir voru okkur miskunnsamir núna og við eigum aura fyrir leigunni.

            Komum heim á síestutíma sem er frá 2-5 ca, hér virðist allt vera ca, átum pæellu og spurning um að haga sér eins og innfæddur og fleygja sér.

            Ég fékk mér síestu í klukkutíma eftir matinn.

¡Vola![9] Þessu gæti ég vanist!

            En nú verður sagt frá frægðarför okkar Steinunnar í Teléfonica. Völdum aðra búð en í gær. Ég samdi smáræðu á spænsku og Steinunn las hana yfir og svo ég yfir henni. Fórum svo í tienda Teléfonica. Þegar inn var komið spurði ég afgreiðslukonuna:
            ¿Hablas inglés?

            No.

            Vale. Hablo español un poco, sagði ég.

            Si.

            Hófst þá samtalið:

            Somos de Islandia pero vivimos en Elche para estudientamos español por seis meses.

            Si, sagði hún.

            Tenemos islandeses moviles pero no telefonomos en islandia.

            Sí, sagði konan og hlustaði.

            Necesitamos movil en españa y internet ADSL por seis meses en casa, más barato posible. Por favor.[10]

            Eftir hálftíma vorum við búin að kaupa kort í gemsa Steinunnar, gemsa og kort fyrir mig og símalínu í Ruperto Chapi 17 og ADSL aðgang. Gallinn er að heimasímann fáum við eftir cinco dias[11] en ADSL eftir quince[12] dias. (Við fundum reyndar netkaffi skammt frá okkur og það verður að duga þessar tvær vikur. En þaðan er ekki hægt að senda þetta bréf svo það kemur ekki fyrr en seinna).

Þetta var fyrsti meiriháttar sigur okkar á spænskri tungu. Málið var að hella sér í þetta og að konan í búðinni vissi allt um sitt fag. Og öll skemmtum við okkur konunglega yfir tungumálavandræðunum.

            Og ég fékk þetta flotta, hlýja og mjúka Telefonica teppi að gjöf fyrir að hafa keypt gemsann. Þetta teppi er núna svokallað stofuteppi. Það er nefnilega stundum kalt í íbúðinni, einkum á morgnana og kvöldin og þá er gott að vefja um sig teppum. Ég keypti mér reyndar slopp á 8 evrur í Hyperber í dag.

            Um kvöldið kom Jose íbúðareigandi með leigusamning og fékk aurana sína fyrir fyrstu tvo mánuðina. María kom með til að túlka. Hún lofaði að frænka hennar 17 ára tæki Jón Hauk út á lífið næstu helgi.

            ¡Buenas noches!

 

Miércoles enero de doce (12)

¡Buenas dias! Örfá orð um borgina. Hún er afar hrein, varla pappírssnifsi á götum eða gangstéttum enda vinna götusóparar verk sín ötullega. Afgreiðslufólk í verslunum sópar og skúrar gangstéttar fyrir framan búðir. Rétt í þessu var verið að skúra gangstéttina fyrir framan Luna de Papel.[13] Heimilissorpi hendum við útá götu á kvöldin og það er hirt að nóttu.

            Jæja, við Steinunn mín töltum af stað til að græja endanlega kaupin á heimasíma og ads elli. Það gekk eins og í sögu og fundum svo nálægara netkaffi. Ákváðum svo að fá okkur una paella á útiveitingastað y el vino tinto og fengum salado y pan[14] með. Svo leið og beið og ekkert bolaði á el vino tinto en aftur á móti var borðið hlaðið af olíum og meðal annars karafla með einhverju rauðu glundri í. Við vorum að ræða um hvenær vínið kæmi, vorum búin með salatið.

            Hvað er þetta rauða annars? sagði ég og samstundis áttuðum við okkur á því hve miklir jólasveinar við vorum.

            Fórum svo á markaðinn sem var að loka en gátum keypt fisk og kartöflur. Ég er á þeirri meiningu að fiskurinn sé sverðfiskur sem er mjög góður. Ég er þó ekki viss því fisksölumaðurinn talaði hratt en mér heyrðist nafn fisksins byrja á b ... eins og sverðfiskur á spænsku. Ég kann bara ekki restina. af orðinu. Þetta kemur allt í ljós í kvöld.

Seinna fór ég að kaupa gleraugu. Afgreiðslukonan hablaði solo español og var ekki tilbúin í tungumálaleik heldur hringdi í mann sem tjáði mér að systir hans hefði búið í Ameríku í mörg ár og kynni þar af leiðandi ensku og væri sjóntækjafræðingur og kæmi innan fimm mínútna. Ég vissi að fimm mínútur yrðu mun fleiri en fimm og sagði manninum að ég þyrfti að fara annað og kæmi eftir hálftíma.

Það stóð heima að þá var enskumælandi konan komin. Þetta fór allt vel, hún mældi og mældi og niðurstaðan er sú að ég er hef moldvörpusjón með gömlu gleraugunum en ég fæ ný eftir viku. Reyndar var umgjörðin sem ég keypti heima alls ekki nothæf þegar allt kom til alls þannig að ég þurfti að kaupa nýja. Þetta fannst enskumælandi konunni svo illt að heyra að ég fékk ríflegan afslátt. Samt var þetta allt saman sök íslenskrar afgreiðsukonu í gleaungabúð í Kringlunni.

¡Muchos gracias!

Á leiðinni heim gekk ég fram hjá bókabúð og sá Las aventuras Tintin. Minntist orða Svönu þegar hún lærði spænsku í Madrid meðal annars af því að lesa Tinna. Keypti eitt stykki. Hún heitir La estrella misteriosa. Þetta er bókin þar sem Tinni kemur við á Íslandi.

Þá er komið að seinni þætti sverðfisksins. Eftir mikið rannsóknarstarf komst ég að því að sverðfiskur er ekki b ... á spænsku heldur espada. Þannig að ég veit ekki hvaða fisk ég keypti á markaðnum en hitt er klárt að hann var ljúffengur og minnti vissulega á sverðfisk. Við vorum því sammála um að þetta væri sverðfiskur og nutum matarins ríkulega. Seinna frétti ég að sverðiskur sem er á lífi og syndir í sjónum heitir espada en þegar hann er dauður í fiskbúð og steiktur á pönnu heitir hann emperador.

Las svo Tintin það sem eftir lifði kvölds.

 

Jueves enero trece (13)

Það gengur bölvanlega að vakna snemma í þessari borg. Það er skiljanlegt með Steinunni mína og Jón Hauk en ég skil ekki sjálfan mig. En heitstrengingin stendur enn óbreytt. ¡Mañana!

            Nú stendur til að fara á rútubílastöð borgarinnar og skoða rútur uppí sveit, niðrá strönd, til Alicante og svo framvegis.

            Æi, þessir dagar! Hvar hafa dagar þínir lit sínum glatað? sagði skáldið, vitnað eftir minni. Svo dettur mér í hug annað ljóð: Í skólanum, í skólanum ... meira í dag en í gær. Aftur eftir minni.

            Nú kunnum við á lestir til Alicante og förum þangað um eða eftir helgi. Við kunnum líka á áætlunarbíla uppí sveit og niðrá strönd. Prófum það síðar.

Steinunn lærði að skipta um gaskút fyrir heita vatnið í baðið og ég er að leggja drög að símtali á morgun við gasfyrirtækið að panta nýjan kút fyrir þann tóma.

Svo var þetta bara dagleg rútína; skruppum á netkaffið. Jú, ég hitti Maríu með móður sinni og syni fyrir utan hjá okkur þegar ég var á leið heim úr búðinni að kaupa nauðsynjar, kaffi, brauð, vatn og viskí. María lofaði að sækja Jón Hauk á morgun og koma honum í kynni við jafnaldra í Elche.

 

Viernes enero catorce (14)

¡Vale! Mér tókst það. Vaknaði kl. 9. Vakti aðra á skikkanlegum tíma!

            Fórum á Mercado Central og keyptum sneiðar af nautaketi og heila kanínu sem konan skar fyrir okkur í parta.

            Gengum svo um þessa unaðslegu pálmatrjáaskóga lengi dags. Myndir segja meira en mörg orð svo ég þegi en segi samt: garðurinn Huerta  del Cura er unaður. Þar eru pálmatré, kaktusar og bambusar frá öllum frá öllum heimshornum. Og döðlurnar sem maður kaupir þar eru ekki sykurleðja heldur döðlur! Og svo gengur maður eftir Ruta del Palmeras og það sem maður heldur að sé hundaskítur á götunni er þegar allt kemur til alls döðlur!

            Í eftirmiddaginn fór Jón með Ursulu og fleiri jafnöldrum en var skemur en búist var við og kom tímanlega heim í kanínuna sem við Steinunn vorum að hesthúsa, örugglega ekki þá síðustu. Flestir krakkarnir voru að fara í leikhús sem þýddi lítið nema fyrir þá sem kynnu spænsku en Jón varð samferða einu stelpunni sem talaði þokkalega ensku en hún var að fara á hnefaleikaæfingu! En hann fékk símanúmerið hjá henni.

            Svo var þetta bara venjulegt kvöld.

 

Sabado enero quince (15)

Ástæðulaust að vakna of snemma um helgar enda var það ekki gert hér. Yfir Steinunni helltist hreinlætisæði og íbúðin ilmar af hreinlæti.

            Voy al cibercafé,[15] sagði ég hins vegar.

            Si, sagði hún.

            Adios.

            En úr varð að við gengum öll saman til Estacion de Autobuses. Þar fengum við upplýsingar um rútur til Santo Pola, bus urbanos[16] og allt það.

            Á leiðinni til baka settumst við á Café Paris á Plaza Santa Isabel sem er bakvið Basilica de Santa Maria. Sólin skein glöð og kát og eftir að hafa pantað tres bocadillos con jamon y queso[17] ákvað Steinunn að skipta um sæti til að hafa sólina ekki í andlitinu. Ég hinsvegar glápti í sólina sem aldrei fyrr og sagði:

            Ég ætla að fá lit í andlitið. Ég ætla að fá mér andlit!

            Una semena[18] er liðin og við rötum um alla borg eða því sem næst án þess að kíkja á la mapa nema a veces.[19] Og það sem meira er, hablamos español[20] til daglegs brúks.

            Í þessu hrópar Steinunn: Eiríkur. Sjáðu hvað ég fann?

            Jú, í gestaherberginu var bókin ¿Dónde ésta Wally ahora?[21] Þegar Andri Haukur kemur skal ég sitja með hann í fanginu og leita með honum að Valla! Á spænsku!

 

Domingo enero dieciseis (16)

Við röltum uppá rútustöðina og tókum rútuna til Santa Pola en það er einn strandbæja íbúa Elche. Eftir hálftíma akstur vorum við komin á hvíta strönd. Settumst fyrir utan enskan bar sem næstur var og horfðum á sjó og sól og hvítan sand. Það var hlýtt í veðri eins og venjulega en smáskýjað, alltof snemma árs fyrir spánverja en enskir pensjónistar voru á hverju strái og húsbílunum þeirra var lagt við aðalgötuna. Spánverjar fara ekki á strönd fyrr en komið er frammí mars eða apríl, eftir árferði. Þetta var á hinn bóginn stuttbuxnaveður fyrir okkur, svona svipað og áliðið júní heima, og næst verð ég þannig klæddur og ekki heldur í strigaskóm.

            Við dýfðum auðvitað höndunum í Miðjarðarhafið, Steinunn og  Jón í fyrsta sinn á ævinni en ég var þrísigldur áður til Miðjarðahafsstrandar Spánar. Samt var sjórinn okkur öllum jafngóður.

Fengum okkur að borða á La Góndola. Þjóninn reyndi að tala ensku en við snerum því uppá spænsku. Þetta er túristastaður og þar tala innfæddir dálitla ensku. Hann spurði hvort okkur þætti kalt en þegar við svöruðum: Somos de Islandia[22] og hann hryllti sig og spurði einskis meir um veðurfar.

Við eigum eftir að fara Santa Pola aftur og aftur.

Komum heim snemma kvölds og ekkert meira um það að segja.

Reyndar ekki alveg. Þótt við hjónin værum mett eftir matinn í Santa Pola var barnið banhungrað. Það eru þvílík ósköp sem hann getur étið. Jæja, hann segist hafa lést svo mikið að hann ætli að bæta á sig holdi á Spáni. Ég er margbúinn að segja hinum að holdið komi af sjálfum sér seinna meir og oftar en ekki á óæskilega staði og þá verði áhyggjurnar aðrar en hann hefur núna. En hann lét sér ekki segjast og fór út og keypti sér Telepizzu sem er til húsa í næstu götu. Hann kom með hana heim heita og ljúffenga, pizza con pepperoni y pollo[23] og hún var svo góð að við Steinunn fengum okkur sneið.

¡Vale! El mundo es uno.[24]

Ég heyrði í fréttunum í kvöld að fótboltalið Elche tapaði fyrir Alvares í dag. Fyrir umferðina var Elche í þriðja sæti en Alvares í secunda. Um næstu helgi er þá heimaleikur og ég er að hugsa um að fara. Þetta er sumsé önnur deild A og þrjú efstu liðin komast í fyrstu deildina spænsku.

 

Lunes enero diecisiete (17)

Nú er allt að falla í skorður. Ég vaknaði klukkan 9 og eftir morgunkaffi settist inní stofu að læra spænsku. Las í tvo tíma.

            Að því loknu fórum við Steinunn út og heimsóttum spænskuskólann. Þeir voru til í að setja upp námskeið með þremur tímum á viku í fjórar vikur        

Keyptum okkur svo heimasíma en línan er enn ekki komin í samband.

            Nú var tekin drastísk ákvörðun. Vivimos en España. Comemos camida in la síesta. Við erum semsagt nýbúin að borða aðalmáltíð dagsins og klukkan er rúmlega þrjú.

            Un momento. Ég ætla að laga kaffi.

            Eftir síestu fórum við Jón að leita að pósthúsi. Maðurinn í Informacion talaði og benti og við fórum eftir því en fundum aðeins dyr sem lágu að flokkunarherberginu og konu sem benti.

            Nenntum þessu ekki lengur og skildu leiðir.  Ég ráfaði um miðbæinn góða stund. Þar var mikið líf. Fólk á gangi með börn, þéttsetnir restuarantar og las terrazas.

            En tarde fengum við skilaboð í símana okkar þess efnis að við gætum aðeins tekið við hringingum en ekki hringt. Gerðum út leiðangur á Tienda Teléfonica en þá var búið að loka. Fengum okkur samloku á netkaffibarnum handan götunnar og svo a la casa.

 

Martes enero dieciocho (18)

Við Steinunn fórum til að gera þrennt: kaupa frímerki, leiðrétta þetta með gemsana og fara á markaðinn. Ég arkaði sömu leið og með Jóni í gær og hafði nú vit á að ganga umhverfis húsið. Hinum megin var nefnilega      frímerkjasalan.

            Þá var það síminn. Eftir góða stund komumst við að því að inneignin var búin. Við nefnilega héldum að við værum með sama og heima en alls ekki. Keyptum inneign og allt var í fínu standi. Þetta með heimasímann og adsellið ... Jú, vissulega fimm dagar en það var más o minor.[25] Svo það er ekki um annað að ræða en að bíða.

            Fórum svo á Mercado Central. Þar fengum við þrjár laxasneiðar á um 300 kall íslenskan og hálft kíló af lambakjöti á sama verði. Auk annars. Sá sem seldi okkur kjötið var með læri og spurði hvort við vildum sneiðar eða allt lærið. Við vildum sneiðar og þá hjó hann og skar sneiðar af lærinu. Það ku heita sirlon. Segir Jón. Hann hefur unnið í kjötborðinu í Nóatúni.

            En það verður semsagt salmón í dag.

            Eftir laxinn fórum við uppá þak að læra spænsku og sleikja sólskinið. Annað er ekki manni bjóðandi þegar hitinn fer í 20 gráður.

            Þar á eftir fórum við Steinunn í gönguferð um miðbæinn. Hann iðar nefnilega af lífi frá klukkan fimm til átta níu. Fórum inná notalegt bókakaffi sem þau mæðgin höfðu fundið. Þar á maður eftir að sitja löngum stundum. Notaleg tónlist, full af bókum ...

            Svo var komið að því: Fyrstu kennslustundinni í spænska í The English School var klukkan átta tardes. Við fáum núna þrjár vikur, svo er vikuhlé meðan við förum til Barcelona og svo aftur vika. Kennarinn heitir Javier og okkur líst vel á hann, þunnhærður kall á fertugsaldri með húmor. Hann setti okkur strax í próf til að vita hvað við kynnum. Það fór allt vel. Næsti tími er á morgun klukkan 14.

            Brugðum okkur svo á bar til skála fyrir áfanganum í náminu – og comemos un poco bocadillo.[26]

 

Martes enero diecinuve (19)

Eftir kennslustundina í gær hljóp í fjölskylduna þvílíkur kraftur til náms að leitun er á öðru eins. Allur morguninn fór í nám og allt til að verða tvö þegar kennslan hófst. Ýmist var lært inní stofu eða uppá þaki en þar var smávægilegue vindur.

            Á leiðinni út sáum við kominn var póstur. Við erum íbúar í Elche og fáum póst. Reyndar mest reikningar en Steinunn fékk líka fréttabréf Heilsuhússins í Kringlunni!

            Önnur kennslustundin tókst vel og við erum vongóð um að þetta verði okkur til mikillar hjálpar. Enda erum við þrjú með einn kennara og fáum góða þjálfun í að tala og hlusta.

            Að svo mæltu er verið að elda lambakjöt enda ekki seinna vænna, klukkan er að verða hálf fjögur! Það er nú það. Barnið er orðið svo mikið fyrir mat og matargerð að þau mæðginin sjá yfirleitt um eldamennskuna. Ég fékk reyndar að þessu sinni að krydda kjötið en undir sívökulu augnaráði Jóns Hauks.

            En spænska lambaketið smakkaðist muy bien og þá tekur við síesta, anaðhvort inní stofu, valla inní rúmi en hugsanlega uppá þaki!

            Jæja, þetta er ekki bara land manaña, líka land stundvísi. Gleraugun voru tilbúin í dag eins og enskumælandi konan hafði sagt. Nú er ég með fín gleraugu, þarf ekki að henda þeim af mér til að lesa eða pikka á tölvu og hef að auki lesgleraugu til að lesa í rúminu.

            Við Jón Haukur fórum á hverfiskrána um kvöldið að horfa á fótbolta en því miður tapaði Elche í vítaspyrnukeppni í bikarnum. Þar fór það. En leikurinn var langur og kostaði þrjá bjóra og þrjú glös af rauðvíni og það sem við drukkum kostaði um 300 krónur íslenskar. Allt er þegar þrennt er. Í kaupbæti fengum við brauð og sardínur.

            Til þess að gera snemma í rúmið því á morgun förum við til Alicante.

            ¡Buenos noches!

 

Juvernes la veinte enero (20)

Það var vaknað snemma í dag enda ætlunin að fara til stórborgarinnar Alicante. Lestarferðin þangað tók um 25 mínútur og kostaði per mann minna en eitt far með SVR eða 1.70 evrur.

            Ég hafði komið áður til Alicante svo ég var sjálfkjörinn leiðsögumaður frá lestarstöðinni og niðrá strönd. Byrjuðum á að fá okkur staðgóðan morgunverð sem þegar allt kom til alls varð matur dagsins. Þá var klukkan um hálf eitt.

            Svo ráfuðum við um strandlengjuna. Ég var víst búinn að lofa að segja ekki frá veðrinu en má til með að svíkja. Hitinn fór í 20 gráður og við sátum á ströndinni lon og don.

            Dagurinn fór í þetta, ganga um og njóta blíðunnar, Jón fór stundum einn útí bæ og við hittumst aftur á ströndinni. Þetta var ‘gorgíos’, svo vitnað sé í Guðrúnu Eiríksdóttur.

            Keyptum okkur svo flugmiða til Barcelona því Steinunn þarf að fara þangað á fund. Förum þangað 5. febrúar. Tökum svo lest til baka þegar þar að kemur. En það er framtíðin. Núna er núna.

            Á leiðinni að lestarstöðinni keyptum við okkur öll nýja skó á útsölum sem hér heita rebajas og eru allstaðar. Fengum okkur samloku á enskum bar í Alicante áður en við fórum.Þar var ókeypis internet sem Steinunn ein gat notað. Tölvan var mjög sló.

            Þegar við komum heim til Elche skildu leiðir. Þau fóru heim en ég á netkaffi. Ætlaði svo að fá mér rauðvínsglas á hverfisbarnum áleið heim en hætti við og keypti í staðinn þrjú Kitkat í staðinn.

            Þegar ég kom inní stofu rétti ég glaður fram Kittköttin og sagði:

            ¡Vola!

            Nú, keyptir þú líka súkkulaði, sagði Steinunn.

            Hvað meinarðu með líka? spurði ég.

            Jón fór að kaupa súkkulaði, ansaði hún.

            Í sama bili heyrðist í lyftunni og inn kom Jón Haukur með súkkulaði. Nema hvað? Kitkat! Þrjú stykki!!

            Svona er samkomulagið. Það er nefnilega það!

            En nú er ekki öllum deginum lokið. Það sem meira er kom síðar. Kristinn glæpaforingi hringdi. Ekki sem glæpaforingi heldur sem deildarstjóri íslenskudeildar FÁ. Og sagði mér, SAGÐI, spurði ekki hvort ég vildi, að ég ÆTTI  að kenna ÍSL 103 og 203 í fjarnámi á vorönninni. Ég hummaði eitthvað en var ansað þurrlega:

            Þú ert með fjarnámsstjórann hjá þér!

            En ... sagði ég. Ég hef bara aðgang að netinu á netköffum! Þeir eru ekki með íslenska stafi!

            Þú bara segir nemendunum það. Þetta verður í fínu lagi.

            Þegar samtalinu lauk var ég ekki lengur í fríi heldur nemandi í spænsku, kennari við FÁ og auk þess að vinna verkefni um íslenskukennslu! Og mig sem langaði að skrifa og ferðast!

            ¡La vida es caga de colores![27]

 

Viernes veinteuno enero (21)

Dagur er að kveldi kominn. Í dag keyptum við til dagsins í  dag og helgarinnar tvær máltíðir kjöts og eina af fiski. Það kostaði 700 íslenskar. Átum góðar kjötbollur í síestunni. Fórum svo uppá svalir og lágum í sólinni og lærðum spænsku.

            Eftir síestu fjárfestum við í prentara, geislaspilara[28] og ‘brauðristunartæki’ með allskonar effektum sem Steinunn fílaði í botn. Nú verður étið mikið af samlokum.

            Svo var spænskan í kvöld klukkan 8 og gekk vel. Kennarinn var með tvær blaðsíður ljósritaðar með verkefnum en þurfti að fara nokkrum sinnum aftur og ljósrita meira. Við nefnilega kunnum meira en hann hélt. En samt er fínt að æfast í að hlusta og tala. Hann setti okkur fyrir að skrifa ritgerð um muninn á Íslandi og Spáni. Tvö hundruð orð, takk fyrir!

            Á leiðinni heim droppuðum við Steinunn inná hverfiskrána og fengum okkur rauðvínsglas; meðlætið: sardínur í olíu (ekki svona sardínur úr dós sem Steinunn fúlsar við, heldur ferskar og ekki mjög bragðvondar.) Þar var okkur tekið fagnandi af eigandanum en stoppfull kráin af foreldrum, öfum og ömmum og börnum og barnabörnum er enn ekki farin að taka okkur tali að ráði. En það kemur vonandi að því. Annars er fólk hérna mjög vinsamlegt og vill allt fyrir mann gera.

            Kom svo við á netkaffinu til að vita hvort ég fengi einhverjar leiðbeiningar frá íslenskukennurum FÁ um kennsluna. Nei, no nada. Þeir voru á námskeiði á Sólheimum í Grímsnesi. Námskeið! Ég segi bara skál fyrir því. Ég veit hvernig ‘námskeið’ kennara eru!! Ég hef meira að segja verið á námskeiði á Sólheimum og þekki veitingastaðinn þar. Og veit hvernig lífræni bjórinn og lífræna rauðvínið eru á bragðið. Og hvað það kostar allt saman!! ¡No, nada! Me gusta España.[29]

            Að svo mæltu: ¡Buenas noches!

 

Sabado veintedos enero (22)

Í dag skal haldið inní land, til bæjar sem heitir Elda. Samkvæmt korti búa þar milli 20 og 50 þúsund manns. Við vissum ekki horario de autobus til Eldu. Steinunn greip því símann og hringdi á stöðina og fékk umbeðnar upplýsingar á spænsku! Þetta var meiriháttar tungumálasigur. Til hamingju, Steinunn!

            Á rútustöðinni kom í ljós að upplýsingar sem Steinunn fiskaði með símtali voru hárréttar. Nema hvað? Fjarlægðin til Eldu er ekki nema um 20 til 30 km en vegna þess að rútan fer um aðra bæi á leiðinni tekur ferðin 55 mínútur. Vegna allra þessara litlu bæja eru eilíf hringtorg þannig að rútan ók yfirleitt hægt.

            Landaslagið er svona: Ljósbrúnn jarðvegur, stundum alveg hvítur og stöku sinnum sást rauðhólarauður jarðvegur. Fjöllin í fjarska eru lág, gróðurlítil og í þessum sama lit. Gróðurinn er bara brúskar af runnum. Frekar litlaust og mjög þurrt að sjá.

            Þegar fjær dró Elche hurfu iðnaðarhverfi og við komum í landbúnaðarsvæði. Mest bar á vínviði, ólívu og appelsínutrjám. Ókum smástund eftir hraðbraut þar sem enga byggð var að sjá.

            Fyrsti bærinn var Aspe. Það sem sást var ekki mjög aðlaðandi en síðar glitti í centro de ciudad og þar hafði allt annan svip.

            Svo tók það sama við, vínviður og appelsínutré, þar til við komum í Novelda. Vinalegur lítill bær, rútun ók eftir aðalgötunni sem var svo sem svipuð og aðalgötur annarra bæja. Verslanir og veitingahús á neðstu hæðum húsanna en íbúðir þar fyrir ofan. Þar var Hiperber og Mercadona eins og heima.[30] Og svo þessi rólegheit. Fólk á götuhornum að spjalla saman, gamlar konur að leiðast yfir götur ...

            Milli bæja eru iðnaðarhverfi og mikið ber á steinsmiðjum og marmaravinnslu. Í bæjunum eru víða opin svæði þar sem hús hafa verið rifin og önnur eru í byggingu og oftar en ekki sóðalegar lóðir. Á bæjarmörkunum eru glæsivillur.

            Elda er eins og hver annar bær sem við höfum séð. Svipaður og Elche, bara minni. Við setttumst á veitingastað við aðalgötuna í gargandi sólskini, svo gargandi að Steinunn og Jón heimtuðu sólhlíf þvert á mitt álit. En enginn má við margnum. Borðið erfðum við eftir gamla konu sem hafði verið að sötra vín. Hún tók okkur tali, sá að við vorum hjón og með þetta líka undurfallega barn, sagði hún, og benti á Jón sem varð eins og karfi í framan. Hún átti heima í blokk gegnt veitingastaðnum. Við sögðumst vera frá Íslandi en byggjum í Elche og hún svaraði með fræðilegum samanburði á Elda og Elche en við erum ekki alveg viss um hvor bærinn bar hærri hlut. Svo kvöddumst við með virktum.

            Þjóninn talaði ekki orð í neinu nema spænsku en samt tókst  að fá hann til að færa okkur dægilegan kjúklingarétt með svo fínu hvítvíni að ég skráði nafn þess. Það heitir Antorio Barbadillo og er framleitt í Cadiz. Bara svona ef þið rekist á það.

            Inná veitingastaðnum rakst Steinunn á lókalblað. Í því var helst til tíðinda að Lára Bush hefði klæðst skóm framleiddum í Elda þegar karlinn Bush var settur í embætti forseta. Á forsíðunni var nærmynd af kálfum frúarinnar og skónum. Húrra fyrir Elda!!! Þess má geta að héraðið hér er mesta skóframleiðslusvæði Spánar og Elche skó-höfuðborg landsins.

            Svo röltum við bæinn út og suður. Þegar við vorum að koma að kastala, sem reyndar var lokaður vegna endurbyggingar, kváðu við skothvellir. Okkur brá pínu en svo kom í ljós að agnarlítil skrúðganga var að hefjast, lúðrar og trommur og fólk í bláum peisum og með bláa hatta sem Steinunn segir að heiti fez og eru eins og blómapottar á hvolfi en með dúsk í bandi einsog blómapottar eru ekki. Þannig sér maður muninn. Ekki vitum við meira um þetta tilstand en eitthvað var á seyði.

            Fengum okkur café solo[31] á vinalegri krá. Jón fékk líka kaffi enda bara vika í að hann verði 18 og breytist úr barni í fullorðinn mann. Á klósettinu þar, karlamegin, ég fer þangað að sjálfsögðu, var þessi áletrun fyrir ofan klóið: Mea contento pero mea dentro. Þetta útleggst á íslensku: Mígðu glaður en mígðu oní.

            Á öðrum stað, Jarden del musica, þar sem við settumst var líka skemmtileg orðsending: Esta local esterá cerrado de lunes por desaraso del personales. Disculpen la molestias. Þetta þýðir: Staðurinn er lokaður á mánudögum vegna þess að starfsfólkið þarf að hvílast. Afsakið óþægindin.

            Svo biðum við bara rútunnar enda bærinn svo sem öðrum svona bæjum líkur. Hér eftir ætlum við einbeita okkur að litlum þorpum í sveitinni og stórborgum.

            Leiðin heim var eins, bara öfug eins og lög gera ráð fyrir. Þegar við komum til Elche fattaði Steinunn að rútan var örskammt frá heimili okkar og stansaði þar. Og við út enda styttra þaðan heim en frá rútu-estacíoninni.

            Á leiðinni til Ruperto Chapi gengum við framhjá krá þar sem karlar voru að horfa á fótbolta. Ég kíkti inn. Jú, það var verið að sýna beint heimaleik Elche gegn Real Real Valladolide. Til skýringar skal þess getið að Elche er í þriðja sæti annarrar deilar spænska boltans en Real Valladolide í því fjórða. Fyrir algjöra asna skal upplýst að þrjú lið komast upp í primero ligua og lið Elche á þar góða möguleika.

            Steinunn og Jón fóru heim en ég brá mér inná krána. Keypti rauðvínsglas og þjónninn sagði mér að staðan væru 1-1 og að 20 mínútur væru eftir af leiknum. Inni voru fimmtán til tuttugu kallar og ég sá strax að ég, 53 ára maðurinn, var lang-lang-yngstur. Meðalaldurinn var um það bil 75 ár, á að giska, en lækkaði snöggt þegar ég birtist.

            Skömmu eftir að ég kom var skipt um leikmann Elche og inná kom Hrólfur Ívarsson[32] og hann skoraði fallegt mark nokkrum mínútum síðar. 2-1 fyrir Elche. Gömlu mennirnir á kránni hrópuðu mjög lágt enda mjög gamlir sem fyrr sagði en klöppuðu þeim mun betur, allir nema einn en það var vegna þess að það vantaði á hann annan handlegginn, þann vinstri til að hafa nú allt satt og rétt.

            Þetta var á 35. mínútu. Stuttu seinna átti Elche góða sókn upp vinstri vænginn og fyrirgjöfin var frábær og varnarmaður Real Valladolide stangaði boltann fallega í eigið mark. 3-1. Lágvær gleðihróp gömlu mannanna, eiginlega muldur, og lófaklapp fylgdu í kjölfarið. Auðvitað klappaði ég líka.

            Svo varð staðan allt í einu 3-2 og fór að fara um menn en þá voru aðeins sjö mínútur eftir. Og allt fór vel og Elche vann 3-2.

            Við vorum sammála um það, ég og sessunautur minn, að þetta væru Muy bien resuldados.[33]

            Að svo mæltu fór ég heim og keypti á leiðinni nauðsynjar til sunnudagsins, það er að segja slatta af rauðvíni og hvítvíni.

            Kvöldið var svo bara rólegt. Reyndar fór barnið út að reyna að leigja spólu sem ekki er döbbuð og er ekki enn kominn heim.

            Svo kom hann. Bölvaði Spánverjum því hann mátti ekki leigja spólu nema vera orðinn 18 svo hann varð að kaupa hana. Það mátti barnið.


Annar kafli

Domingo de veintitres enero (23)

Ég ætla að halda ferðasögunni áfram. Kannski styttast frásagnir daganna um leið og við verðum heimakomin í Elche og fátt kemur manni meira í opna skjöldu. En ...

Ég vaknaði að venju fyrstur, svo Steinunn og ennþá seinna Jón. En látum gott heita: domingo. Ég eyddi morgninum í að semja uppkast að ritgerð fyrir næsta spænskutíma.

            Hingað til hefur rölt okkar um Elche einskorðast við götuna okkar, Ruperto Chapi, miðbæinn og los huertos del palmeras. Við Steinunn mín tókum þá ákvörðun að víkka sjóndeildarhringinn.

            Fyrst komum við að Plaza de Español sem er steinsnar frá heima. Þá gengum við vestur götu sem heitir Josep Maria Buch, sem hlýtur að þýða Jósef Maria Bók en hann hefur væntanlega verið af þýskum ættum. Við enda Jósefsgötu Maríu Bókar er Plaza Obispo Slurí. Yfir því eru járnstrengir, svona eins og víravirki úr öfugri regnhlíf og gosbrunnur í miðjunni. Á bekkjum sat gamalt fólk og naut blíðunnar. Sumir að viðra hunda sína sem eru af öllum stærðum og gerðum. En þó flestir litlir og minna á stórvaxnar kafloðnar rottur.

            Leið okkar lá síðan að Carrer de Diagonal en þá götu ókum við á leiðinni til Elda á laugardaginn og sáum þar markað, bæði inni og úti. Gengum eftir Járnbrautargötunni og fundum Diagonal. Upp hana og þar var Mercado Plaza Barcelona við samnefnt torg. Enn eitt torgið. Þrjár gamlar, lotnar og bognar konur gengu með hönd í hönd um torgið. Mér varð hugsað til mömmu gömlu sem kemst hvorki lönd né strönd vegna þessa hvíta ullabjakks sem kemur úr himninum heima og gerir gangstéttar kaldar og hálar. Hér gæti hún arkað glöð og kát um stræti og torg og leikið við hvern sinn fingur.

            Þetta var semsagt domingo og allt lokað nema restaurantes. Hver þarf svosem fleira á heitum sunnudegi?

Á leiðinni heim villtumst við en lentum loks á enn einu plazanu, núna Plaza Crevillent. Áttuðum okkur loks þegar við komum á Reina Victoria en sú gata sker Ruperto Chapi.

Komum heim til að vekja barnið til að borða la comida. Þá var klukkan um þrjú. (Barnið var vaknað. Ég nýt þess að segja barnið því hann verður 18 á laugardaginn kemur og þá má ég ekki segja þetta lengur. Þá verður minn orðinn hombre!).

Eftir þetta var ástandið svona: Steinunn glápti a sjónvarpið, Jón plokkaði gítarinn og fór fyrstur að sofa en ég gekk um gólf í desprecíon vegna yfirvofandi fjarkennslunnar sem beið mín. Netkaffið lokað. Þeir sem áttu að aðstoða mig við kennsluna lágu að sögn í flensu[34] og ég fékk fá skilaboð nema sms frá Helmut og símtal við fárveikan glæpaforingja. Ég var búinn að semja nýja námsáætlun fyrir ÍSL 103 en foringinn sagði: Nei! Þar fór það í vaskinn!

Æi, og svo samdi ég til bréf til vinkvenna minna í úthlutunarnefnd barnabókaverðlauna Fræðsluráðs. Ég las cuarento y cinco[35] barnabækur um jólin og hafði þær bestu með mér út til að lesa aftur.

 

Lunes de veinticuatro enero (24)

Í dag náði ég áttum. Vaknaði snemma, lauk ritgerðinni og beið eftir að pósturinn kæmi og að netkaffið í næsta húsi opnaði. Enginn póstur (við bíðum enn eftir símanum hjá Teléfonica) og ekkert í-meil. Æi, hvað er maður að stressa sig. Mældi blóðþrýstinginn. Hann hafði lækkað frá því ég kom. Var 131/79 núna. Mikið fer Spánn vel með mig. Ég fíla land manaña enda fæddur í landi ’þetta reddast’ sem er það sama þegar allt kemur til alls.

Þetta með blóðþrýstinginn þarfnast reyndar skýringar. Það eru svona veikleikar með hjarta og æðar í föðurættinni minni og ég mældist í stressi heima á Íslandi milli jóla og nýárs með þrýstinginn háan og á tvær dætur í læknisfræði. Sú eldri, Matthildur, sagði mér að kaupa blóðþrýstingsmæli og mæla reglulega og éta hjartamagnýl sem hét barnamagnýl áður en þeir breyttu um nafn og hækkuðu verðið um 100%. Þetta geri ég samviskusamlega. Og hætta að reykja, sagði Matta. No komment!!! En takk fyrir, Matthildur mín.

Ekkert í-meil vegna kennslunnar en fullt af öðrum meilum. Jæja, Eiríkur minn, taktu þessu bara með ró. Bjó til bréf til nemendanna með útskýringum og til að senda síðdegis.

Svo brotnaði rúmið hans Jóns. Hann liggur svo mikið í því - rúminu altso. Dýnan hvílir á gormavirki sem er haldið uppi með fjórum höldum. Eitt haldið brotnaði af. Hafði verið neglt en handlaginn heimilisfaðir sá strax að ekki dygðu annað en skrúfur. Greip orðabókina, glósaði og hljóp út til lyklasmiðsins með haldið sem þurfti að festa.

¿Tienes tornillos para este?[36] spurði ég og sýndi honum haldið.

Si, sagði hann og spurði hvort ég vildi skrúfur úr kopar eða ekki. Ég sagðist ekki þurfa koparskrúfur. Þetta væri í rúm. Og svo keypti ég destormillador[37] og kom glaður heim og lagaði rúmið. Núna dugir það Jóni þótt hann fái stelpu með sér uppí!

Svo fór fjölskyldan í spænskutíma. Fengum nýjan kennara. Unga konu (miklu sætari en Javier, sagði Jón eftir tímann) en við Steinunn bentum gáfulega á að hún væri líka mun skipulagðari og betri kennari. Hún kann meira að segja að hljóðrita. Hún heitir Cruz, dökkhærð eins og flestir hér. Og mjög góður kennari. Jú, jú, líka sætari en Javier.

Eftir la comida, sem var fiskur, röltum við oná pósthús til að senda nokkur bréf og ég keypti inneign í gemsann minn. Þá lá leiðin til Plaza de Barcelona en þar í kring eru göngugötur og líf og fjör utan síestunnar. Duttum inní bókabúð. Keyptum nokkrar bækur: Guía total España de punta a punta, Cocina por primera vez, Guía de Barcelona og gullfallega myndskreytta barnabók byggða á Don Quijote.

Þegar heim kom kláraði ég bréfið til nemendanna og svo töltum við Steinunn mín niðrá netkaffið og græjuðum hlutina. Hún kenndi mér það sem ég þurfti að kunna í WebCT og allt fór vel. Að launum bauð ég henni uppá uno vaso vino tinto hjá Kínverjunum handan götunnar. Þar var okkur að venju tekið með brosi og kurteisi (reyndar er fólk hér mjög alminlegt, simpático). Fengum þetta dýrindis rauðvín, enda kostaði hvort glas heilar 160 krónur íslenskar! Og að auki pan de gambas (rækjuflögur) sem var on the house og lentum á snakki við konuna. Þegar ég fékk rækjuflögurnar minntist ég þess tíma þegar ég var á Hótel Peking vorið 1978. Þar var ég í sendinefnd Kommúnistaflokks Íslands og át svona flögur og drakk Mautai sem er hrísgrjónabrennivín. Ég gat sagt henni að ég hefði heimsótt Kína árið 1978 og farið til Peking, Sjanghæ og komið alla leið til Quiling sem er muy bonito. Hún sagði. Si, og horfði dreymin. Og að við værum frá Bingdao.[38] Ég þorði ekki að flagga meiri kínversku vegna reynslunnar frá kínverskum veitingastað í Boston. Þar talaði enginn neitt nema kínversku og við vorum að éta gómsæta pekingönd og ég asnaðist til að segja við einn þjóninn: Vo shi laosi Bingdao.[39] Og hann skildi mig og hélt að ég væri almæltur á kínverska tungu, kallaði í alla hina þjónana og þeir drekktu mér í kínversku en ég skildi ekki rassgat. Stundum á maður bara hreinlega að þegja!

Svo var kvöldið bara notalegt.

¡Hasta manaña!

 

Martes de veinticinco enero (25)

Það er frekar kalt í dag. Hace frío (það/mér er kalt) eða tengo frío (mér er kalt) heitir það á máli innfæddra. Í staðarblaðinu Le Verdad (Sannleikurinn) er á forsíðu talað um ola de polar (heimskautabylgju). Mér finnst það nú ofmælt. Inní blaðinu er svo spurning dagsins um hvort fólk sé undirbúið undir þessa nýju ola de polar. Svörin eru yfir á þá lund að svo sé ekki. Húsin ekki kynt og svo framvegis. Þeir ættu að kynnast íslenskri stóhríð og helvítis norðangarra. Að vísu snjóar talsvert hér inní landi og fyrir norðan en ekki hér.

            Nóg um það.

            Í morgun vann ég námsáætlun og verkefnalista fyrir 103 og sendi KK ásamt bréfi. Á meðan lærði Steinunn spænsku og fór svo að skúra meðan ég fór á netkaffið. Henni var kalt, sagði hún sér til afsökunar og skúraði sér til hita.

            Nú svo fórum við á markaðinn við Plaza de Barcelona til að kaupa í matinn. Þið sjáið að þetta er að verða mjög hversdagslegt og verður erfitt að finna eitthvað til segja frá.

            Nú er það svo að ég hef þann séríslenska sveitasið að vera með hendur langt niðurgrafnar í buxnavasanna þegar ég geng um götur. Ég held að þessi vani íslenskra karlmanna stafi af aldalangri vinnukúgun þeirra (kallað iðjusemi á tyllidögum). Vegna þess að við vinnum frá okkur allt vit þá vitum við hreinlega ekki hvað við eigum að gera við hendurnar á okkur þegar við erum ekki að vinna og troðum þeim þessvegna í vasana til að iðjulausar hendurnar sjáist ekki!

            Ég tók strax eftir því að ég var eini karlmaðurinn í bænum sem gekk um götur á þennan íslenska máta. Það var svosem ekki nema eðlilegt. En bæði í gær og í dag sérstaklega hef ég séð allnokkra innfædda karlmenn ganga með hendur í vösum. Ég tel þess vegna að ég sé farinn að hafa áhrif á bæjarbraginn með því að innleiða þennan nýja sið meðal karla í Elche.

            Ég man ekki hvort þetta sem ég ætla að segja núna er í fyrsta hlutanum en læt gossa. Í götunni okkar leggja menn bílunum meðfram húsunum okkar megin en á ská innað húsum hinumegin. Það er ekki mikið pláss fyrir umferð á milli. Iðulega á morgnana má heyra mikinn bílflautukonsert. Þá hefur einhver lagt fyrir aftan skásettu bílana og þeir sem ætla að aka útúr stæðunum komast ekki eða hinir sem ætla eftir götunni komast ekki framhjá. Þá er bara flautað góða stund. Svo kemur sá rangstæði og ekur burt og hinir komast sína leið eða hann bakkar, hleypir þeim sem var í stæðinu út og leggur svo sjálfur í stæðið. Einn morguninn fór ég útí glugga til að skoða því flautið var óvenjuhátt. Svo hátt að Jón Haukur vaknaði og kom öskuvondur fram. Þá var það steypubíll sem komst ekki leiðar sinnar.

            Það skrítnasta – og skemmtilegasta – er að menn reiðast aldrei. Þeir flauta kannski einsog vitleysingjar en lenda svo á kjaftasnakki um daginn og veginn þegar rangstæði bílstjórinn kemur. Þeim liggur sko ekki par á.

            En la tarde[40] náði ég í Maríu til að biðja hana að aðstoða okkur við Teléfonica sem er meiriháttar skrímsli. Ég var búinn að búa mig undir smáræðu á spænsku og merkilegt nokk: Hún skildi mig! Kemur a morgun og fer með í tienda.

            Á fréttum á öllum stöðvum er í kvöld fjallað um ola de frío (kuldabylgjuna). Sýndar myndir frá norðri þar sem þeim finnst allt á kafi í snjó. Meira að segja sáust snjókorn á lofti í Palma á Mæjorku en þau dóu áður en þau náðu til jarðar enda sex stiga hiti. Þá mátti sjá bílstjóra setja keðjur undir bíla í þumalþykkum snjó. Þá rifjuðust upp fyrir mér orð Sigurðar Eggert Davíðssonar sem er spámaður mikill og snillingur og á núna heima í því auma plássi Akureyri. Hann kenndi með mér í Ármúlaskóla á áttunda áratug síðustu aldar sem þá hýsti grunnskóla. Þegar reykvíkingar kvörtuðu undan snjókomu sagði þessi hetja:

Iss, miklir bölvaðir helvítis aumingjar eruði hérna í Reykjavík. Við köllum það snjóföl á Akureyri þar til snjórinn nær uppí mið læri.

            Kuldabylgjan nær til okkar í Elche en bara smá. Hitamælar gatnanna sýna lægri hita en um daginn þegar hitinn fór yfir 20 gráður. Sá í næstu götu sýndi í seinnipartinn dag sex gráður en hann er líka alltaf nískur á háar tölur. Um daginn sýndi hann 11 gráður þegar kollegi hans í næstu götu tilkynnti stoltur 17 gráður. Ég hef það fyrir reglu að taka mark á þeim mæli sem sýnir hæstan hitann hverju sinni.

            En því er ekki að neita að Steinunn mín er búin að kveikja á rafmagnsofninum í stofunni og vefja um sig teppi þannig að hún minnir á fiðrildapúpu. En ég sit inní vinnuherbergi í sloppnum mínum góða y trabají.[41]

 

Miercoles de veinteseis enero (26)

Í dag hljóp aldeilis á snærið hjá okkur hér í Elche. Eftir tíðindalítinn morgunn við venjubundið nám fjölskyldunnar og eitt skrepp mitt niðrá netkaffið til að kenna íslensku þá var hringt á dyrabjöllunni okkar. Fyrir utan stóð maður og sagði margt en fátt sem viðskildum utan: movil, telefon, televison y internet.

            Þegar svo maðurinn róaðist og fór að tala hægar og við gripum orðabækurnar kom í ljós að hann var frá fyrirtæki sem heitir Ono. Og það selur aðgang að interneti, heimasíma og miljón sjónvarpsstöðvum. Við högðum engan áhuga á miljón sjónvarpsstöðvum enda bauð hann ekki Stöð 2, Sýn eða RÚV. Og ekki enska boltann. Hinu sýndum við áhuga.

            Úr varð að við settumst inná kontor og upphófust samningaviðræður. Hann talaði bara spænsku utan að hann sagði eitt sinn Saturday. Við vitum  þó að hann heitir Raul.

            Niðurstaðan var að gerðum samning um heimasíma og nettengingu. Það kostar aðeins 47 evrur á mánuði. Ekkert stofngjald, ókeypis rauter og uppsetning. Ef við höfum skilið Raul rétt kemur einhver til okkar næsta laugardag klukkan 9 með rauter og setur allt klabbið í samband og við förum að vafra um netið. Og fáum heimasíma. Ef við höfum misskilið hann þá kemur það bara í ljós.

            Okkur hafði verið sagt að Teléfonica ætti allar leiðslur og tengingar á Spáni en Raul opnaði gluggann inní stofu og benti stoltur á víra sem liggja utaná húsinu og sagði að Teléfonica ætti þessa svörtu en ONO þessa brúnu. Úr litunum bjó hann til skrítlu sem við skildum ekki en hlógum honum til samlætis.

            Undir kvöld hringdi Raul til að segja mér nýja símanúmerið okkar, að ég tel, og það að þeir hefðu ekki fundið bankann minn og númerið þannig að ég yrði að hafa reiðufé á laugardaginn. Held ég. Það er spennandi að tala við fólk og vita ekki hvort það skilur mann. Og öfugt. Og svo kemur allt í ljós. Númerið er 66160106, sagði Raul. Hann var líka alltaf að segja nueve (níu) og ég hélt að hann ætti við laugardaginn klukkan 9. Svo ég sagði: Si, sabado neuve. No, sabado doce (laugardagurinn 12.), sagði hann þá. Og enn sagði ég bara Si. Ég fattaði seinna að það á að vera 9 fyrir framan símanúmerið okkar. Ekki prófa það samt strax! Það er enn miðvikudagur þegar ég skrifa þetta. Bíðum til laugardags.

            Við hittum Maríu við tienda Telefonica og hún sagði upp tilraun okkar til samnings sem var ekki neitt neitt. Niðurstaðan: Ef þeir frá Telefonica hringja þá segjum við bara: NO, NADA. Hún ætlar svo að hringja í Raul til að vita hvort við höfum skilið hann rétt.

            Fórum svo á veitingastað rétt hjá leikhúsi borgarinnar, Grand Teatro. Við Jón ætluðum í leiðangur að finna pöbb sem sýnd enska boltann svo Steinunn fór í el teatro þar sem var verið að sýna eitthvað sem hún vissi ekki par um. Hún er töffari, hún Steinunn mín.

            Við Jón fundum engan pöbb með enskum bolta en komum við á hverfiskránni og fengum ljúffenga jamon y pan[42] í kaupbæti með drykkjunum og horfðum á hluta af leik Sevilla og Osasuna. Engu að síður fengum við okkur pulsu þegar við komu heim klukkan 10. Það sem maður étur hérna!! Og þyngist ekki um gramm. Svona fer Spánn vel með mig.

            Steinunn er ekki komin og ég er jafnspenntur og þið að vita hvernig sýningin var í el teatro. Mér sýndist á bæklingnum það vera ljóðalestur fyrir konur um fimmtugt!! Kommer i lys!

            Jú, hún kom glöð. Salurinn var mjög fallegur en hið talaða mál fór út og suður. Þó var seinni mælandinn kona sem var að segja frá lífreynslu miðaldra kvenna, að því er Steinunn hélt.

 

Viajes veintisiete de enero

Mikið nám í dag. Bæði í morgun og seinni partinn. Er að skrifa ritgerð um Una día normal en la vida de Eiríkur en Elche. Henni á að skila á morgun. Þau vitaskuld líka.

            Við Steinunn brugðum okkur þá á markaðinn til að kaupa í matinn. Keyptum meðal annars einhverskonar lúðu. Fisksalinn flakaði hana fyrir okkur. Af því að hún var svo dýr greip hann nokkrar handfyllir af allskyns smáfiskum og gaf okkur. Þetta er meðal annars langur og bleikur fiskur, um15 sm á lengd en ekki nema ca einn á breidd, þarna var pínulítill fiskur, um fimm sm í þvermál og minnti á skötuselsbarn og margir aðrir undarlegir. Svo spurðum við hvernig ætti að matreiða þessi herlegheit og fengum langa ræðu sem við skildum lítið í. En líklega á að sulla þessu öllu saman í pott eða á pönnu, steikja eða sjóða og prófa svo að éta þetta. Meðal annars átti að hafa tómata með. Ég náði því.

            Ég verð að gera játningu sem ég vona að fari ekki lengra. Það er búinn að vera skítakuldi hér undanfarna tvo þrjá daga. Það var til dæmis skýjað og skítakuldi í morgun. Ég er tilbúinn að játa þetta hér og nú vegna þess að skyndilega í dag, nánar tiltekið eftir hádegi, um tvöleytið, eins og hendi væri veifað, fór sólin að skína og skall á urrandi logn.

            Þetta varð okkur öllum til mikillar hamingju, bæði vegna þess að við viljum hita og ekki síður vegna þess að draumur Jóns er að geta difið tánum í Miðjarðarhafið á afmælisdaginn sinn á laugardaginn kemur en það er ekki alltaf sem barn fætt í jánuar getur farið í sjóinn á afmælisdaginn! Þá ætlum við til stórborgarinnar Alicante og ég ætla að reyna að finna veitingastaðinn La Lugar þar sem ég snæddi um árið og býður uppá dýrindis mat. Þar verður afmæliskvöldverður.

            Svo var þetta bara una día normal en la vida de Eiríkur. Fór á netkaffið og svaraði tveimur nemendum.

            Og þó. Um klukkan sex fórum við oní bæ í svona kvöldgöngu, kaffihúsasetu, plazamarseringu og að kíkja í búðir. Keyptum webcameru í raftækjaverslun.

            Ég spurði manninn hvort hann ætti webkameru. Si, sagði hann og skildi hvert orð en gekk svo að þvottavél og opnaði hana.

            Nú hefur minn misskilið mig hrapallega, hugsaði ég með mér en í sama bili svipti hann þvottavélinni út á gólf og þá opnaðist gangvegur milli þvottavéla að hillum þar sem voru webcamerur.

            Rétt þarna hjá er sjoppa og á henni skilti Informacíon Elche. Við Jón höfðum áður litið þar inn í leit að correo. Nú vildum við fá upplýsingar um krá sem sýndi enska boltann.

            ¿Sabes un bar o cervezeria con fútbal inglés en la televison? por favor,[43] spurði ég manninn.

            Hann sagði si og eitthvað fleira.

Þá sagði ég: Escribe de nombre de la calle, por favor.[44]

            Þá upphófst ræðan. Hann talaði bæði ógurlega hátt og ægilega hratt. Hann greip kort onúr hillu, benti á stað í útjaðri bæjarins, rétt hjá bomberos[45], þar væri staður con fútbal inglés. En hann væri nýr og kortið gamalt svo hann gæti ekki sagt mér frekar um þetta.

            Undarlegast fannst mér að maðurinn heyrði greinilega að ég var extranjero og kunni ekki margt í spænsku en samt talaði hann einsog hann væri að reyna að komast í heimsmetabók Guinnes fyrir talhraða.

            Svo sagði ég Muchos grazias og hneigði mig y salgo.

            Seinna komst ég að því að skiltið sem á stóð Informacíon var auglýsing um samnefnt dagblað en alls ekki um að þetta væri upplýsingaskrifstofa ferðamála. Jón þóttist alltaf hafa vita þetta. Þessi börn!

            Seinna sama dag: Jón langaði í föt. Við fundum búð en hún var læst. Nei, skyndilega heyrðist urghljóð og dyrnar opnuðust. Afgreiðslukonan hafði ýtt á hnapp. Við lituðumst um. Engin verðmerki. ¡Raro![46] Svo sá ég að á gallabuxnadruslu á borðinu sem á stóð: Jeans Armani. Um leið sá Steinunn jakkaræfil á 70 þúsund íslenskar. Salir.

            Í annarri búð fann Jón slopp. Hann kostaði 30 evrur. Ég fann annan á 15 sem mér leist vel. Þetta voru svona kvöldsloppar, virðulegir og herralegir. Ekki einsog baðsloppurinn minn hvíti.

            En ég tímdi nú ekki að kaupa annan slopp. En þegar Steinunn ætlaði að borga sloppinn fyrir Jón kom í ljós að búðin tók ekki kort. Hún fór því í netbanka að sækja aura. Á meðan ráfuðum við Jón um búðina. Svo sagði Jón og benti á skilti í búðinni: Hvað þýðir þetta?

Á skiltinu stóð: Todo mitad de precio. Ég skildi allt nema mitad. Líklega að allt sé á uppsettu verði, sagði ég en tók samt upp orðabókina sem ég hef alltaf meðferðis. Maður er alltaf að læra!  En vitiði hvað? Todo mitad de precio þýðir Allt á hálfvirði.

            Svo ég keypti líka slopp, virðulegan og svo framvegis. Á mitad de precio.

            Nú erum við flott sloppaðir feðgar! Minn er með rauðum röndum upp og niður en á milli eru rendur með bláum og gulum ferningum til skiptis. Jóns er best lýst með tilvísan til litar á afainniskóm. Virkilega klæðilegar flíkur, báðar tvær.

            Jú, á leiðinni fundum við líka vínbúð á Carrer Poeta Victor Hernandez númer 39. Ég keypti nokkrar hálfflöskur af mismunandi gerðum af Riajo rauðvíni sem gamall afgreiðslumaðurinn sagði að væru allar muy bien. Nema hvað?

            Þegar heim kom tók ég lyftuna með manninum á efstu hæðinni og en þau mæðgin stigann. Mig langaði að taka grannann tali. Spurði hvort hann ætti hér heima og hvernig hann hefði það en eina sem ég hafði uppúr krafsinu var Si. Sá hefði ekki getað starfað á Informacíon Elche!

            Gláptum svo á sjónvarpið um kvöldið.

 

Viernes veintiocho de enero

Enn er kalt. Því miður. Steinunn heimtar að fá að vera í eldhúsinu og elda og vaska upp sér til hita. Hún er að undirbúa fiskisúpu.

            Ég var sendur að kaupa lauk, gulrætur, chillípipar og timian. Lauk og gulrætur fékk í Mercadona en hvorki timian né piparinn. Það var því ekki um annað að ræða en að rölta á Central Mercado. Ég vissi að timian heitir tomilla og ákvað að hitt héti bara chilí á spænsku í stað þess að nota lengra og flóknara orð sem Steinunn hafði fundið

í kokkabók.

            Ég gekk um grænmetis- og ávaxtadeildina á markaðnum (fruta y verdura[47]) og spurði um tomillo y chili en var einsog Bjartur í Sumarhúsum sendur úr einum vondum stað í annan verri. En að lokum lenti ég á vænni konu sem kenndi mér réttan framburð á orðunum og vísaði mér beint áfram (todo recto), svo til hægri (la derecha). Þar væri krydd til sölu.

Þar hitti ég fyrir aldinn höfðingja sem tók mér vel. Sýndi mér timíanið sitt og lét mig lykta af því, bæði pokanum sem ég keypti og líka krukkunni sem hinir pokarnir voru í. Svo fékk ég poka af chillíi og lyktaði líka af því en engin lykt fannst og við hlógum báðir. Skildum svo vel sáttir.

            Ég fór beint á kaffihús á næsta horni og fékk mér café solo

            Eftir kennslustundina hjá henni Cruz fórum við heim að borða undarlegu fiskana. Lúðan eða hvað sem það var bragðaðist muy bien og litlu fiskarnir skrítnu voru ætir. Að vísu lítið kjöt á hverjum en ...

            Þegar máltið var að ljúka fékk sms frá Ono. Ég las það og þurfti bara un poco ayiuda[48] frá orðabókinni. Þeir boðuðu sem sagt komu sína á morgun kl. 12 og ef ég óskaði eftir öðrum tíma þá hefði ég samband. Ég svaraði með muy bien y gracias.

            Að svo gerðu fór ég niðrá netkaffi að vinna. Mikið verður gaman að geta unnið heima eftir morgundaginn! Til dæmis um hremmingarnar á netkaffinu er þetta: Steinunn settist við eina tölvu, setti pening í og tróð disklingi í a-drifið. (Við verðum alltaf að fara á milli með gögnin á disklingi. Tölvurnar taka ekki minniskubba). En hvað gerðist? Það var ekkert a-drif í tölvunni og diskurinn datt með smelli inní tölvuna.

            Umsjónarmaðurinn kom og í stað þess að taka frontinn af tölvunni og fiska diskinn þá nánast rústaði hann tækinu! Ég var ekkert að hjálpa honum.

            Það komu upp fleiri vandamál og ég sagði alltaf. Una problema, señor. Þar til hann sagði: Chico, no señor.

            Ég var dáltið spældur að hann sagði ekki. ¡Tú señor!

            Hoy[49] er síðasti dagurinn sem ég get kallað Jón el niño (barnið) enda er ég búinn að gera það í þriðja hverju orði í allan dag. Á miðnætti verður hann el hombre! Það er búið að kaupa freyðivín til að skála í fyrir áfanganum.

            Við fundum í blaði auglýsingu frá djassbúllu sem heitir Blue Monk. Þangað var áætlað að halda í kvöld. Að vísu var ég að lesa auglýsinguna aftur og mér sýnist að þeir byrji að leika djass á miðnætti. Það er auðvitað alltof seint, einkum fyrir el niño, en kemur í ljós. ¡Perdón! Kommer i lys! Undskyld, Steinunn, min skat.

            Við fórum á Bláa munkinn. Þeir voru að stilla græjurnar. Það var rétt lesið hjá mér að þeir hófu að leika á miðætti. Við sátum þar smástund, fórum svo heim með viðkomu á bókakaffinu. Á miðnætti að spönskum tíma var dreginn tappi úr freyðivínsflösku sem við höfðum keypt á Mercadonu fyrir 1,20 evrur og nú var skálað fyrir el nuevo hombre!

            Að því loknu fóru mæðginin aftur á Munkinn en el hombre mayor var eftir heima.

 

Sabado veintinueve de enero

Ég vaknaði á mínum tíma en Steinunn var ófáanleg úr rúminu. Þó frétti ég að djassinn sem reyndar var blús á Munknum hefði verið skemmtilegur. Mín biðu verk. Að fara útí búð og kaupa fjöltengi og fleira og búa allt undir hingaðkomu mannsins frá Ono.

            Leitaði langt yfir skammt því að lokum fann ég fjöltengi hjá lyklasmiðnum góða handan götunnar. Síðan prentaði ég nöfnin okkar til að hengja á póstkassann og dyrasímann. Þegar ég var svo að líma þetta fast stansaði bíll merktur Ono fyrir utan. Ég tók á móti manninum og svo byrjaði þetta allt saman.

            Hann þurfti að bora gegnum vegginn til að koma línunum inn. Þetta var heilmikil aðgerð og innan skamms kom annar maður til að hjálpa. Eftir tæpa tvo tíma var allt komið í lag. Ég var nettengdur, reyndar ekki Steinunn en það stendur til bóta. Heimasíminn kominn í lag (9661 160 106). Við fengum módem en getum pantað ráter eftir helgi og þá tengt báðar tölvurnar inní vinnuherbergi en ekki bara eina í stofunni einsog núna.

            Þetta tók sinn tíma og við misstum af lestinni til Alicante svo við tókum strætó í staðinn. Hann var ekki nema hálftíma á  leiðinni.

            Í borginni var ýmislegt gert. Ég fór á fornar slóðir. Fengum okkur hressingu á La Biblioteca fyrir framan Hotel Spa þar sem við Agnar gistum um árið. Svo klifum við klett borgarinnar en efst þar uppi er Kastali heilagrar Barböru sem Steinunn segir að sé verndardýrlingur jarðfræðinga!!

            Áður komum við á La Lugar, þennan flotta matsölustað sem ég heimsótti þegar ég kom til borgarinnar með Agnari. (Þá gerðust að vísu hlutir sem ekki verða færðir til bókar hér að neinu marki. Nema að það hófst allt á því að við komum frá London, millilentum í Barcelona og misstum af fluginu þaðan til Alicante. Það sagði okkur enginn frá tímamismuninum! Þar vorum við sektaðir um 50 evrur hvor fyrir að missa af fluginu af mjög dónalegri afgreiðslukonu Iberia. Ég rétti henni eina evru og bað hana að þiggja fyrir lipurðina. Hún elti mig um alla flughöfnina í Barcelona og heimtaði að ég tæki við evrunni sem ég tók ekki í mál. Í Alicante var okkur ... Jæja, einsog sagði: Það var allt önnur ferð!)

Aftur til nútímans. Afmælisveisla Jóns á La lugar var stórkostleg. Þrír forréttir, og svo aðalréttur, dýrindis rauðvín og einhverjir aðrir drykkir sem húsið bauð og þessi flotta þjónusta. Ég mundi eftir andliti eigandans frá því síðast. Sonur hans vann þarna líka núna og vildi endilega tala ensku en við reyndum spænskuna, þrjósk. Sonurinn sagði að pabbi hans þekkti mig frá því síðast! Mikið er ég auðþekkjanlegur! Reyndar sagði hann að það væri vegna eyrnalokksins. Ég trúi því nú ekki að ég sé eini ´lokkaði´ karlmaðurinn sem hefur stigið fæti sínum inná La Lugar í tvö þrjú ár!

            Afmælisbarnið ljómaði og við líka.

            Jæja, við erum búin að panta borð þarna 15. mars og 19. maí. Það verða semsagt ammlisveislur allrar fjölskyldunnar þetta árið á La Lugar.

            Tókum svo leigara heim til Elche því lestar- og rúturstjórar voru gengnir til náða.

 

Domingo treinta de enero

Þetta var svona letidagur. Við Steinunn fengum okkur göngutúr um Parc Municipal.

Meginefni dagsins eftir þetta var: Ég fór að sinna því sem Helmut fól mér: að kaupa miða á leik Barcelona og Atledico de Madrid á Camp Nou á sunnudaginn kemur en þá verðum við fjölskyldan í Barcelonu og hittum meðal annars þann þýska. Hann hafði sent mér slóð inná heimasíðu Barcelona og heimtaði að ég gerði þetta því ég væri nær Barcelonu og kynni meira í spænsku. (Hver þarf að vera nálægt Barcelonu til að kaupa miða á netinu?) En la tarde fór ég í það að reyna að kaupa miða. Ég sigraðist á öllum spænsku upplýsingunum á síðunni með hjálp orðabókar og fékk miða á góðum stað. En þegar kom að því að borga voru kreditkortin mín afgreidd með orðunum: La terjeta no es valido.[50] Ég reyndi meira að segja kortið hennar Steinunnar. Gafst upp í bili og frestaði aðgerðum til morguns.

Semsagt bara venjulegur dagur.

 

Lunes treinta y uno de enero

Spænskunám fyrir hádegi. Svo keypt í matinn og svo framvegis. Og svo tími í skólanum hjá Cruz.

            Ég ákvað að freista þess að fá skólastjórann til að hjálpa mér við miðakaupin. Steinunn og Jón töldu að það tækist ekki vegna þess að fyrsta kvöldið hefði hann komið að máli við okkur og eina sem hann vissi um Ísland var að tíska heimsins væri reynd þar. Það vissi ég reyndar ekki.

            Það kom á daginn að þegar ég sagði tengo una grande problema sobre entradas por Camp Nou[51] þá varð þessi góðlegi og gáfulegi maður eins og fáviti í framan og samtalinu lauk með því að geðþekkur maðurinn sagði: Siento, no sé.[52]

            Þegar þetta gerðist var ég búinn að skrifa landleidíinu okkar í Barcelonu og biðja hana ásjár í þessum efnum. Þegar við komum heim úr tíma var hún búin að svara. Hún hefði ekki tíma til að kaupa miða en sendi slóðir inná miðasöluvefi. Þeir voru tveir, báðir á ensku. Á öðrum kostaði miðinn í góð sæti 190 PUND ensk en á hinum sömu sæti 105 evrur. Auðvitað valdi ég þann ódýrari og á fjórum til fimm mínútum var ég búinn að panta og borga þrjá miða (handa mér, Helmut og Jóni Hauki) á dúndurstað á vellinum. Þeir sem vilja sjá vjúið geta farið inná http://www.barcelona-football-tickets.com/ og ýtt á Description & location og síðan á Cap 1. Hinir halda bara áfram að lesa.

        Steinunn heyrði og sá á göngulaginu að mér hafði tekist að kaupa miða og samgladdist.

        Ég sendi stoltur strax í-meil til Helmuts. Sagði honum að mér hefði verið bent á aðra miðasöluslóð og þar hefði allt gengið eins og í sögu.

        Svo fékk ég svarið frá honum. Ég varð gjörsamlega gáttaður, orðlaus þegar ég las bréfið frá Helmut. Það var orðrétt svona:

 

Vissi um þessa slóð en fannst mun meira krefjandi að kaupa miða beint hjá
félaginu.

Þú kemur með miðana - ekki týna þeim eða gleyma eins og veskinu, passanum,
boarding card o.s.frv.

Kveðja,
Helmut

 

            Því að hafa hlutina einfalda ef hægt að hafa þá flókna?

Á eftir fórum við Steinunn í hefðbundna kvöldgöngu enda er bæjarlífið hér vað skemmtilegast milli 5 og 9 á kvöldin. Keyptum okkur meðal annars grapadora y taladredora.[53] Hittum svo Jón og fengum okkur smábita hjá Kínverjunum á móti.

Svo var þetta bara venjulegt kvöld. Þetta er að verða ferlega venjulegt!

Buneas noches.


 

Þriðji kafli:

Mánudagur 1. febrúar til laugardags 5. febrúar og lengra - ef vill

Nú er lífið hér orðið svo hverdagslegt að þýðingarlaust er að skrifa eitthvað um hvern dag. Að auki hef ég frétt að sumir lesendur, einkum konur, fyllist öfund og um leið desperación yfir því að það eina sem við gerum hér sé að kaupa í matinn, eldann og borðann og skolonum niður með rauðvíni. Og þessar konur leggist undir teppi og gráti. Ég ætla því ekki að fjalla meira um markaði og matarkaup og át og drykk nema brýna nauðsyn beri til.

Þetta með matarkaup, át og það er þó ekki nema að sumu leyti rétt. Ég er náttlega að kenna í fjarnáminu og öll stundum við stíft spænskunám, förum í tíma hjá Cruz þrisvar í viku og lærum heima. Mest lærir maður reyndar á því að reyna að bjarga sér við ýms tækifæri.

            Um daginn týndi ég til að mynda gemsanum mínum í Alicante. Þar er forsaga. Steinunn og Jón fóru á undan til Alicante en ég beið eftir Ono manninum með ráterinn. Hann kom og kunni hrafl í ensku, svona svipað og ég í spænsku. En á daginn kom að það eru svo margir veggir milli stofunnar og vinnuherbergisins að geislinn kemst aldrei alla leið. Þeir eru siete. Og símatengin í vinnuherberginu er eign Telefonica.

            Þetta gekk því miður ekki og við verðum að hafa tölvurnar í stofunni og nettengja aðra í einu. En það hlýtur að ganga í lítilli fjölskyldu.

            Jæja, ég tók þá lestina til Alicante og hitti mæðginin á ströndinni. Fórum svo að borða.

¡Perdón! Ég veit að matur átti ekki að vera til umræðu en þetta er nauðsynlegur hluti af frásögninni!

En við keyptum okkur rauðvínsflösku (líka mikilvægur hluti af frásögninni) og Jón Haukur fór að herma eftir þjóninum góða á La Lugar en hann lét flöskuna hvíla í lófa hægri handar en þrýsti þumli í botni hennar og hellti þannig og hafði hina höndina fyrir aftan bak. Glæsilegt.

Ég spurði Jón hvort hann væri að ganga í augun á eiganda staðarins til að fá kannski vinnu sem hellari.

Hann tók því ekki ólíklega en vildi ekki bekenna starfsheitið hellari en stakk uppá að vera kallaður hjálparhella. Þetta fannst mér gott hjá honum.

Jæja, svo ráfuðum við um borgina. Jón fór einn. Seinnipartinn settumst við Steinunn inná Club Havana á Römblunni og ég hringdi í Jón. Hann var þá kominn í lestina heim til Elche. Hann er orðinn svo veraldarvanur.

Til að gera svo langa sögu stutta þá ákvaðum við Steinunn að hittast á lestarstöðinni klukkan átta. En hvað gerðist? Ég svona snarvilltist og kom hlaupandi inná stöðina tímanlega til að sjá á eftir lestinni. Og þar í, frétti ég seinna, var Steinunn með tvo lestarmiða.

Það var því ekki um annað að ræða fyrir mig en að bíða eftir næstu lest. Steinunn var ekki með gemsann sinn og ég ákvað að vera ekkert að hringja í Jón heim heldur bíða með það þar til Steinunn mundi vera komin heim.[54]

Nú í þann mund sem lestin mín var að fara greip ég til gemsans míns nema hvað að ég greip í tómt. Ég hafði keypt mér litla axlartösku niðrá strönd með hólfi fyrir gemsann. Vanalega geymi ég gemsann í jakkavasanum en þegar maður breytir til og kaupir til dæmis tösku undir gemsa og fleira þá eiga þeir það til að hverfa.

Þegar ég kom heim var Steinunn mín eðlilega í öngum sínum yfir örlögum mínum en tók gleði sína fljótt við að sjá su espuso heilan á húfi.

Jæja, daginn eftir fór ég að leita símans. Fann ekki númerið á Club Havana þannig að ég skrapp þangað og spurðist fyrir um hvort þar hefði fundist sími.

Það er svona: ¡Hola! Oldivá mi movilo ayer, posible aquí. ¿Encontrá le?

Nei, því miður. Hann hafði ekki fundist. Ég fékk mér kaffi og svo næstu lest heim. Fót svo í Telefonica að fá nýtt símakort og nýjan síma. Mér datt í hug að það gæti orðið flókið svo ég hafði þennan formála við konuna í búðinni:

Tengo dos problemas. Primera hablo español un poco y secundo ayer perdiá mi movil.[55]

Si, sagði hún.

Nescito nueve tarjeta y movil.[56]

Si, sagði hún og rétti mér nýtt kort. Svo keypti ég nýjan síma. Jón og Steinunn höfðu reynt án árangurs að koma mér í skilning um að ég gæti haldið símanúmerinu þótt ég fengi nýtt kort. Sko, einhver deli í Alicante er með gamla símann minn og kortið. Hvernig stendur á því að annar gæi í Elche, það er að segja ég, get líka fengið kort á sama númerið? Ég trúði þeim alveg en mer finnst betra að skilja. Ég horfði fast á konuna og spurði:

¿Tengo mismo numero?[57]

Si, claro,[58] sagði hún og mér leið eins og aula og ákvað bara að trúa því sem skildi ekki.

Á bæjarrölti seinna sama dag sáum við Steinunn búð sem hét Tienda del abuelo, það er að segja búðin hans afa. Mér lék forvitni á að sjá hvað öfum á Spáni væri boðið uppá. En þvílík ósvífni. Búðin var full af hjólastólum og heyrnartækjum, göngugrindum og hækjum. Ég sneri mér undan í fússi. Það kann vel að vera að spænskir afar þurfi svona tæki en ekki íslenskir á besta aldri. Eiginlega ætti búðin að heita Tienda del bisabuelo, búðin hans langafa. Að minnsta kosti!

            Svo kom laugardagurinn. Barcelona framundan. Vélin átti að fara klukkan tvö þannig að við tókum leigara. Ég fann ekki símanúmerið í skránni svo við töltum til Kínverjanna handan götunnar. Þeir vissu það heldur ekki en sú kínverska fór þá á netkaffið og eftir smástund færði hún okkur númerið. Hún setti það líka í gemsann sinn til að klikka ekki aftur á þessu.

Flugið til Barcelona tók klukkustund og var þægilegt og ekkert í ferðasögu færandi um það.

Tókum leigubíl niður á Plaza Real þar sem við áttum að hitta Sergio og fá lykil að íbúðinni og Miða á Camo Nou.

Plaza Real er við Römbluna mjög neðarlega, bara gengið um smásund. Stórt, fallegt og bjart torg, umgirt háum húsum á alla vegu. Neðst eru veitingastaðir en íbúðir ofar. Sergio fann okkur enda Steinunn í rauðu kápunni. Rétt við torgið, við mjóa hliðargötu, um tveir og hálfur metri á breidd þar sem karlmenn míga utaní veggi, svona einsog stakketpissarar fyrir norðan, er íbúðin okkar á 7. hæð í húsi frá 1865, engin lyfta, 111 þrep! Tvö svefnherbergi, eldhús og borðkrókur. Aðgangur að þaki.

Við fengum okkur svo kvöldverð á Ambos Mundos, stað sem við áttum eftir að koma oft við á.

            Seint um kvöldið kom svo ármúlaliðið, það er Helmut, Jónu og Þórunni, (við Steinunn erum reyndar líka ármúlalið!). Steinunn og þau ætla semsagt að sitja WebCT ráðstefnu í borginni. Fyrsta kvöldið þvældumst við um Römbluna. Þar kennir margra grasa. Undarlegastur fannst mér gæludýrahlutinn. Þar voru til sölu gæludýr af öllum gerðum og sortum. Allt frá eðlum og hvítum músum uppí talandi páfagauka og hænsni.

            Daginn eftir: Dómkirkjan og La Segrada Familia, kirkjan hans Gaudis. Fyrst var komið við í lítilli búðarholu og lagerinn af el paraguas[59] hreinsaður enda hellirigning.

            Það var messa í dómkirkjunni þannig að góður hluti hennar var lokaður. Svo sem bara eins hver önnur gömul kirkja. Búið að skemma hana að utan með forljótri viðbyggingu sýndist mér. Ég splæsti þó í eitt kerti handa mömmu gömlu. Þetta er siður sem hún bað mig að taka upp fyrir sig; að kveikja henni kerti í þeim kirkjum sem bjóða upp á slíkt. Einu sinni var ég ásamt hollenskri konu í kirkju í Flórens og kveikti á kerti. Hún horfði á mig hissa:

            Þú segist vera trúlaus en kveikir samt á kerti í kirkju?

            Hún tók skýringuna með mömmu góða og gilda.

Nú, svo var haldið á La Segrada Familia, kirkjuna hans Gaudis. Henni verður ekki með orðum lýst. Hún er geggjuð, stórfengleg, heillandi, hún er líka kits. Stútfull af óreglu. Turnarnir einsog þeir hafi vaxið villt uppúr jörðinni. Sumir turnar enda í laufkrónu, á öðrum trónir ávaxtakarfa. Ofarlega í einum jólatré með hvítum dúfum. Mér leið eins og ég væri kominn í ævintýraland. Einhverra hluta vegna kom mér í hug eitthvert grimmsævintýranna sem gerast í skógi. Svona hans-og-gréta fílingur. Ég las í bók sem ég keypti um kirkjuna haft eftir Gaudí:

Este árbol próximo a mi studio, éste es mi maestro.[60]

Við gengum upp óteljandi tröppur og mjóum turni, yfir steinbúr í næsta turn og þar niður jafnóteljandi tröppur. En þarna var vitaskuld einstakt útsýni, bæði yfir borgina og ekki síður kirkjuna. Mig minnir að þetta hafi verið einhver 60 metra hæð yfir jörðu og það finnst mér afrek fyrir mig sem þori valla útá svalir heima í Hvassaleitinu!

Dómkirkjan er langfrægasta verk Gaudis. Hann teiknaði reyndar tvær ‘blokkir’, Casa Milá og Casa Batlló. Ég sá fyrrnefnda húsið og stíllinn leynir sér ekki. Kirkjan er langt frá því fullgerð. Maður á bágt með að ímynda sér að hún verði að nokkurn tíma.

Antonio Gaudi byrjaði á henni árið 1903 og hóf þá byggingu átta turna en þeir eiga að vera tólf, einn fyrir hvern lærisvein. Hann var styrktur til verksins af aristókratanum Eusebi Güell; sá ku hafa verið meginstyrktarmaður Gaudis alla tíð og leit á þetta sem framlag sitt til Barcelona. En þegar féð rann ekki jafnört úr pyngju yfirstéttarkallsins þá hægðist á kirkjubyggingunni og frægðarsól Gaudis lækkaði á himni. Þegar hann varð fyrir sporvagni í Barcelona árið 1926 þekkti hann enginn í fyrstu. Hann hafði búið í tíu ár í kofa í kirkjubyggingunni og lét sjaldan sjá sig meðal manna. Hann dó tveimur dögum seinna á sjúkrahúsi og ég las að fjölmenni hefði verið jarðarförina. Þeir voru loks búnir að bera kennsl á hann. En kirkjan er umdeild. Er þetta ekki bara sérviskuleg della manns sem vill reisa sér eilíft minnismerki? Jú, vissulega er það svo. En heimurinn væri fátækari ef honum hefði ekki dottið þessi della í hug. Og hann er ekki fyrsti svona kallinn í mannkynssögunni og örugglega ekki sá síðast.

            Um kvöldið fórum við Jón og Helmut á Camp Nou. Á meðan fór kvenpeningurinn á veitingastað sem Jónu hefur árum saman dreymt um að snæða á. Sá heitir Crema Canela og er við Plaza Real. Ég veit ekkert hvernig þeim reiddi af nema að þeim fannst maturinn góður og voru glaðar.

En við komum snemma á völlinn. Það var ekki búið að opna. Fundum litla krá af því það var ekki búið að opna völlinn. Þar var verið að sýna í sjónvarpi Spán vinna handboltann. Þeir voru ánægðir með það.

            Völlurinn enn eitt ævintýralandið. Nánast fullur völlur, milli 70 og 80 þúsund manns og stemmningin rosaleg. Þar er verslun á tveimur hæðum þar sem hægt er að kaupa allskyns gripi merkta Barcelona. Við vorum með sæti á besta stað

Að vísu tapaði Barce 0-2, fyrsti tapleikurinn heima á þessum vetri. Ronaldinho brenndi af víti en samt ógleymanlegt og allir kátir. Á vellinum voru allir glaðir og kátir hvers liðs sem þeir voru og lítil börn sváfu ljúft í faðmi foreldra. Eini pirringurinn var út í dómaranna og það þegar leikmenn Atletico voru að tefja. Þegar þeim var skipt útaf gengu þeir í hægðum sínum.

Þeir skoruðu snemma og lögðust svo í vörn og töfðu með hjálp dómarans. Þá hrópuðu áhangendur Barcelona: ¡Puta![61]

            Komum við á krá rétt hjá vellinum. Þar voru heilu fjölskyldurnar og ræða fótbolta.

Fengum okkur nokkra tapasa á Römblunni á eftir á leiðinni heim. Það var komið yfir miðnætti, glaðir og kátir.

            Daginn eftir fóru Steinunn og þau á ráðstefnuna, ég fann netkaffi, afgreiddi nokkra fjarnemendur, fékk mér kaffi við Plaza Real og svo upp að vekja Jón. Sendi hann niður Ambos Mundos í morgunmat meðan ég hlóð myndavélina.

            Við eigum nágranna sem búa á torginu. Þeir sofa þar undir þykkum teppum og pissa utaní veggina. Þegar ég kom niður í dag sá ég grunsamlega stóran lort á klósetti útigangsmannanna. Ásýndar virtist hann ekki úr hundi sem reyndar er mikið um á þessum slóðum. Það lá því beint við að álykta sem að granni okkar ætti afurðina. Èg er að hugsa um að henda niður klósettrúllu à eftir.

            Þegar Jón hafði lokið morgunverðinum sem var ommiletta með sveppum og bjór lögðum við í hann. Þá var klukkan 12.

            Ég man ekki hvort ég hef minnst á það áður að hér er fremur í styttra lagi nema vegalengdir. Rúmin eru í styttra lagi, Jose leigusali næri mér í höku, ég þarf að beygja mig í keng til að vaska upp en svo koma að því: pisseríið á Ambos Mundos var í hærra lagi. Meira að segja ég þurfti að beina buninni uppávið. Hvað þá litlu Spánverjarnir! Nú fór ég að skilja af hverju grannar okkar torginu míga utaní veggina en nota ekki klósettið á Ambos Mundos. Bunur þeirra næðu aldrei alla leið uppí skálarnar!

            Við Jón Haukur ákváðum að leggja í fjallið Monjuic. Skoðuðum fyrst hafnarsvæðið. Þar er verið að byggja það sem þeir kalla rólegasta stað borgarinnar. Ósköp var það ljótt!

            Svo fannst mér rétt að sækja smámenningu áður en við legðum á fjallið og við héldum á Picasso safnið. Það var virkilega flott. Mest kemur manni reyndar á óvart hversu afkastamikill hann var og fjölbreytni verkanna.

            En uppá fjallið átti að liggja togbraut og síðan kláfur. Við fundum loks togbrautina á metróstöðinni við Avenguada Paral lel. En þegar togbrautinni lauk blasti við auglýsing um að kláfurinn væri í endurbyggingu og yrði ekki tilbúinn fyrren vorið 2006. Við nenntum ekki að bíða, ráfuðum um parkana þarna sem gefa lystigarðinum á Akureyri ekkert eftir. Hunskuðumst svo heim til að hitta ráðstefnuliðið. Gengum svo eftir Nýju römblunni, fengum okkur boccadillo con jamon y ceso og fundum svo þessa líka fínu vínbúð. Fórum inn. Jón langaði að finna vín sem heitir Fisherman en það var ekki til. En svo rak ég augun í eitt sem mér leist á. Viskí! Nema hvað? Þetta er vínbúð. Nema að þetta viskí var 12 ára single malt eyjaviskí en bitti nú; það var glært, glært eins og brenns eða volki. Eða bara blávatn ef menn vilja leggjast svo lágt í þessu sambandi. Eigandinn reyndi að telja mér trú um að svona væri viskíið áður en lit væri bætt við. Skildist mér en tungumálin þvældumst fyrir okkur. Ég sagði honum að ég væri el president de club viski de Austurbæjarskóli og hefði aldrei heyrt á þetta minnst. Hann hristi bara hausinn og hafði enda ekki heyrt minnst á Austurbæjarskóla fyrr. En bragið var í lagi og er enn! Ég vil að þetta verði rætt á næsta viskífundi! Ég skal koma með flöskuna með mér heim og gefa smakk í haust.

            Ekki varð undrun okkar Jóns minni þegar við sáum ekki bara grænt absint heldur líka rautt og svart! Ég fór út klyfjaður!

Borðuðum um kvöldið á þessum líka dásemdar stað. Heitir El Grand Café 1920 ef þið eigið leið um. Ég snæddi dýrindis önd, fékk uppskriftina gegn því að kenna garderóbstelpunni að segja De nada á íslensku og þegar ég kem heim til Íslands í haust fer ég niðrá Tjörn og næ mér í önd og elda að barþelónskum hætti. Þodnið er til að sýna spænska framburðinn. Katalónski framburðurinn er hinsvegar með essi. Ég er sem sagt búinn að kaupa mér Gramática Catalana og orðabók milli katalónsku og spænsku.

            Þegar við höfðum borðað lengi vel á El Grand Café gat Jóna ekki lengur orða bundist og dró  uppúr pússi sínu hnausþykka glósubók frá ráðstefnunni þeirra um daginn og hófst nú lesturinn. En þá gerðust undur. Þjónarnir brugðust hratt við og báðu okkur að borga hið snarasta. Ekki veit ég af hverju þeir vildu losna við okkur ákkúrat á þessum tímapunkti, kannski bara til að losa borðið. Nema einhver hafi kunnað íslensku.

Eftir nokkrar krár var haldin tískusýning heima hjá Jónu. Hún klæddist forkunnarfögrum kjól sem kostaði morð fjár og hún keypti fyrir áeggjan Steinunnar og Þórunnar. Hann er knallstuttur, nær meðalmanni í rétt niður fyrir mitti en konu ég segi ekki hvert því ég er vel uppalinn. Kjóllinn vakti almenna lukku enda dýrlingsmynd framan á brjóstinu sem þótti hæfa Jónu afar vel. Dýrlingurinn ku vera verndardýrlingur stærðfræðikennara. Ég lofaði að segja hvorki frá útliti kjólsins né verði. En svo stuttan kjól við svo háu verði hef ég ekki séð fyrr.

Daginn eftir fór ég á sýningu með verkum Dalis sem ég hef alltaf verið hrifinn af. Einsog á Picasso sýningunni undraði það mig hvað þessir hann hafa pródúserað mikið og hve fjölbreytni verkanna er óskapleg. Ég hef nú svo lítið vit á að lýsa listaverkum að ég sleppi því. En þarna voru málverk, grafikmyndir, skúlptúrar, málaðir matardiskar ...

Eftir ráðstefnu fóru Steinunn og Jóna að versla en við Helmut að drekka bjór og rauðvín. Hann drekkur alltaf bjór en ég el vino tinto. Þar sem við sátum á stað á Römblunni plataði hann mig til að senda Steinunni minni sms um að eyða ekki of miklum peningum. Ég gerði það. Fékk svar að bragði: Þér ferst! Það er vegna þess að ég hafði keypt vídeókameru daginn áður. Smámunasemin í sumu fólki!

Svo stakk Helmut uppá því að við skyldum slá þeim við og kaupa meiri föt og dýrari föt en þær. Ég lét gabbast. Hér þarf að geta þess að eitt sinn fyrir löngu í henni Reykjavík bað Helmut mig að hjálpa sér að kaupa föt. Ég sagði það sjálfsagt. Við ætluðum um kvöldið að halda partí heima hjá mér á Ægisíðunni og ég búinn að bjóða Steinunni sem ég var nýbúinn að kynnast. Þetta var semsagt í gamla daga. En Helmut vildi ekki venjuleg föt heldur ætlaði hann að kaupa notaðan smóking hjá Fríðu frænku. Ég ætla ekki að lýsa þessum fatakaupum í smáatriðum en rúmum fjórum tímum seinna var maðurinn loksins fullklæddur!

Hann plataði mig til að kaupa rauða peisu með rauðum trefli og brúnan leðurjakka á 120 evrur. Ég hefndi mín og fékk hann í staðinn til að kaupa sér bláa peisu með trefli. Það tók ekki langan tíma, undarlegt nokk. En það verður að færa til bókar að við vorum rosaflottir.

Þegar við hittum svo Steinunni og Jónu kom í ljós á þær höfðu aðallega keypt boli á 3 til 5 evrur. Æ, æ. Stundum ofgerir maður! En svo kom í ljós að Þórunn hafði slegið okkur öllum við en það er önnur ella.

            Um kvöldið var veisla WebCT ráðstefnunnar. Okkur Jóni var boðið. Mikið fjör, mikill matur, mikill dans (ég dansaði!). Við Helmut, Jónu, Þórunni og Steinunni. Á leiðinni heim komum við á krá og ég hitti þar gamlan mann sem var til í að ræða við mig á bjagaðri spænskunni minni. Það var svo gaman að ég gleymdi að drekka rauðvínið sem var pantað fyrir mig. Hann vildi meina, sá gamli, að katalónska væri hin eina sanna spænska. Hitt væri bara mállýska. Gott hjá honum.

Jón hafði farið heim á undan og þegar Steinunn komum okkur heim og var Jón á leið útí búð að kaupa vatn og aðrar nauðsynjar.

            Rúmum klukkutíma seinna leist okkur ekki á blikuna. Hann svaraði ekki símanum, var utan þjónustusvæðis, og það hellirigndi úti. Fórum út að leita en fundum vitaskuld ekki neinn Jón enda borgin stór. Fórum á löggustöð á Römblunni.

            Nei, þeir vildu ekkert gera fyrr en hann væri búinn að vera týndur í fjóra tíma.

            Öðrum klukkutíma seinna, klukkan var þá rúmlega þrjú, fórum við aftur á stöðina. Þá var okkur sagt að þeir leituðu ekki manna yfir 18 ára fyrr en eftir sólarhring! En geðug lögga huggaði okkur: Þetta væri alls ekki hættuleg borg fyrir 18 ára stráka. Bara fjörug.

Í sama bili hringdi gemsinn minn. El hombre kominn heim.

            Hann hafði slökkt á símanum fyrir slysni og mundi ekki pinnúmerið en fann það þegar hann kom heim.

            Við urðum glöð, löggan varð glöð; spurði meðal annars hvenær væri best að heimsækja Ísland. Ég sagði honum að koma í júlí.

            Svo kom í ljós að Jón hafði verið á krá og hitt Nojara og Svía!! Sveiattan!

            Daginn eftir fékk hann örlitla kennslustund um eðli þess að vera el hombre. Ábyrgð og allt það, gagnvart öðrum og så videre. Þetta verður ekki fært til bókar frekar!

            Daginn eftir fór ég mína leið en Jón lá enn í rúminu. Það sem sumir geta sofið!  Ég tók metróinn uppá Plaza de Español. Það er risastórt og einsog svo margt annað ólýsanlegt með orðum. Ég gekk frá torginu áleiðis að fjallinu og hugði leita að Miro safninu. Þetta var allt á brattann en merkilegt nokk, þarna voru rúllustigar utanhúss sem gerðu gönguna bara þægilega. Svo ráfaði ég um og naut útsýnisins yfir risastórt torgið og reyndi að finna safnið en tókst ekki. Það er nefnilega eitt með svona vegpresta í borgum Spánar. Þeir kannski benda til vinstri og maður gengur þangað í góðri trú en finnu ekki neitt nema kannski vegprest sem bendir í gagnstæða átt.

            Þegar ég gekk til baka niðrá Plaza de Español hirngdi Steinunn og í ljós kom að ráðstefnan var rétt við torgið. Ég settist því á bekk og beið.

            Þess hefur ekki verið getið hér áður að fleiri íslendingar voru á ráðstefnunni. Þrír starfsmenn Skýrr. Þeir höfðu pantað borð á stað niðri við höfn og hafði allur hópurinn sammælst um að hittast þar. Okkur dvaldist en þeir biðu. Loks komum við á staðinn sem var glæsilegur og okkur tekið með kostum og kynjum. Og maturinn eins og sköpun jarðar. Og ekki var vínið síðra. En ég var víst búinn að lofa að tala ekki um mat.

En svo kom í ljós að kvöldverðurinn var í boði Skýrr. ¡Muchas grazias!

            Daginn eftir tókum við lestina til Alicante og svo þaðan til heim til Elche. Æi, hvað er gott að koma heim. Stórborgin eru flottar, fjölbreyttar, líflegar, stórkostlegar en líka þreytandi.

            Ég gleymdi einu, Plaza Real. Þar er mannlífið fjölbeytt. Fínir veitingastaðir, túristar af öllum þjóðernum og sortum, sofandi, mígandi og syngjandi útigangsmenn, sumir að rífast, einstaka bilaður maður sem sníkir sígarettur; sumir leika og hljóðfæri og syngja og þiggja fyrir aura. En allt í fínu standi. Ekkert vesen. Allt undir vökulu auga löggunnar. Einn söngvarinn var flottastur. Með sítt svart hár blandað gráu, áberandi gulltönn í munni; lék á gítar og söng. Í lokin sagði hans takk fyrir á fjölmörgum tungum, meðal annars 'mange tak' á heimstungunni og rétti svo fram gítarinn öfugan, þar áttu menn að leggja aurana. Flottur! Hann var ekki með leðurpung, húfu eða glas einsog hinir. Við hittum hann aftur á Römblunni og ég sagði honum að grazias væri ‘takk fyrir’ á íslensku. Hann fór burtu frá okkur tautandi fyrir munni sér: takk fyrir, takk fyrir ... Ef  þið hittið þennan mann í Barcelona gefið honum þá endilega aura. Hann á það skilið.

            Jæja, nú er kvöld í Elche, bænum okkar. Dagurinn búinn að fara í spænskunám, matarinnkaup, Steinunn keypti líka kápu. Ég var víst búinn að lofa að skrifa ekki um matarkaup. En vitiði bara hvað? Í búðinni okkar var útsala á bjór. Kassinn kostaði 3.50 evrur. Auðvitað keyptum við einn. Allur er varinn góður. Kannski fáum við gesti!!

            ¡Buenas noches!

 

Í dag er mánudagur 14. febrúar

enn ein venjuleg vika framundan með spænskunámi, vinnu og kólnandi veðri skilst mér. En það er kannski allt í fínu því helgin var mjög góð. Við lágum í sólbaði á ströndinni í Alicante í gær og hitinn fór yfir 20 gráður.

            Jú, eitt gerðist. Steinunn brá sér af ströndinni. Litlu seinna kom til mín ung kona sem hafði legið rétt hjá með barni sínu og spurði hvort ég talaði spænsku sem ég sagðist gera un poco. Erindi hennar var að benda mér á að ungur maður svartklæddur sem lá rétt hjá okkur ætlaði að ræna okkur. Hann væri þjófur. Jú, hann lá þarna og greinilegt var að hann miðaði á veskið hennar Steinunnar sem lá í sandinum. En það  komst sem sagt uppum hann og hann hypjaði sig og hundskammaði stelpuna sem hafði varað okkur við. Þeir voru þrír saman.

            Seinna sáum við þá aftur og þá var verið að reka þá af ströndinni. Þeir voru greinilega þekktir en ekki miklir atvinnumenn. En maður á semsagt að gæta sín á ströndinni. Sofna ekki í sólinni útfrá veskjum og hafa varann á þegar kappklæddir menn sjást.

            Jæja, nú verður þetta ekki lengra í bili.


Fjórði kafli:

Dagarnir eftir hina dagana sem á undan komu

Einsog margoft hefur komið fram þá eru dagarnir hér einsog hverjir aðrir dagar hvar sem er í heiminum, kannski ekki eins kaldir og sumsstaðar eða ekki eins dýrir og annarsstaðar en það sumsé kemur málinu ekkert við. Héðan í frá verður ferðasagan þemabundin einsog var í tísku í íslenskukennslu heima á Íslandi á öldinni sem leið. Sem betur fer er sú lenska löngu komin á öskuhauga sögunnar. Vonandi.

 

Þema eitt: gas

Hér er eldað með gasi og vatn í uppvask og bað hitað með gasi. Gasið er í 14 lítra kútum sem tæmast fyrren varir. Í íbúðinni okkar eru þrír kútar, einn fyrir eldavélina, annar fyrir vatn í uppvask og bað og sá þriðji til vara ef hinir tæmast uppúr þurru.

            Leigusalar okkar höfðu ekki grænustu um hve mikið væri í kútunum og okkur var sagt að við þyrftum að panta gas en fórst fyrir að segja okkur hvernig.

            Fyrstu dagana í janúar var baðvatnið kalt þangað til við föttuðum (ókei, Steinunn fattaði; þessi ritskoðun er alveg að fara með mig!!) að kúturinn var tómur. Ókei, hún[62] skipti um kút og við fengum heitt bað.

            Svo var allt í sælu. Eftir að við komum frá Barcelonu fór á hinn bóginn baðvatnið að kólna og einkum Jón að góla enda þarf hann snarpheitt vatn og mjög langa sturtu. Baðhitagashitakúturinn var sumsé tómur. Fyrir mín orð var kútunum víxlað enda nóg í eldavélakútnum enda eyðir eldavélin mun minna.

            Svo fann ég númerið hjá gaskompaníi bæjarins og hringdi nokkrum sinnum. Símsvari sagði eitthvað. Mér fannst hann biðja um heimilisfang (meikar sens), nafn og símanúmer (sömuleiðis með sens). Ég sagði allt þetta og svo gracias sem ég vona að þið vitið núna að þýðir takk.

            En gasbíllinn ók fram hjá Ruperto Chapi 17 sem áður.

            Nú var komið að Steinunni að hringja í gaspöntunina. Og viti menn. Þar svaraði kona en ekki símsvari. Hún var spurði sömu spurninga og ég hafi verið spurður á símsvaranum en nú fengust svör. Steinunn sagði Ruperto Chapi 17, dos bombonas de butano, por favor. ¿Manaña? ¿A qué hora? No sé.[63]

            Og svo er að bíða og sjá hvort gasmanden komi próximo manaña.[64]

 

Um nauðsyn þess að kunna rétt húsnúmer heima hjá sér

Einsog margoft hefur komið fram í fyrstu þremur köflum ferðasögunnar þá eiga sum okkar það til að gleyma og týna. Ég nefni engin nöfn og kemst þannig hjá ritskoðuninni en minni í hógværð minni á brottfararspjald og vegabréf á Stanstead flugvelli fyrir rúmum mánuði.

            En sumsé: debetkortið hennar Steinunnar virkaði ekki, hvorki í bönkum né búðum. Hún kvartaði við KB-banka sem ansaði að líklega væri nýja kortið hennar gelt og hún þyrfti enn nýtt. Sem bankakonan lofaði að senda undireins.

            Nú líður og bíður og ekkert bólar á kortinu. KB-banki fær slæma einkunn en dag einn kemur loks tölvupóstur.

            Kortið hafði komið til Elche en verið endursent til Íslands. Með því hafði fylgt melding um að la casa væri destrutido. Getur verið að þú hafir sent rangt heimilisfang? spurði bankakonan í bréfinu.

            Ég, sagði Steinunn hneyksluð upphátt en ég kíkti á bréfið sem hún hafði sent bankanum. Þar stóð Ruperto Chapi 15.

            Ruperto Chapi 15 er að sjálfsögðu við hliðina á okkar 17 en það er því miður búið að rífa það hús og eftir er gatið eitt milli 17 og 13. Að vísu er póstkassi á veggnum en ekkert nafn.

            Það er semsé betra að hafa húsnúmerið rétt.

 

Meira um gas

Daginn sem gasmaðurinn átti að koma var spænskutími. Hann er milli þrjú og fjögur en gasið kemur á bilinu þrjú til fimm. Þegar ekki bólaði á honum klukkan þrjú ákvað ég að vera heima og bíða hans.

            Hann kom rúmlega þrjú með einn kút. Ég sagði honum að við hefðum orderað dos en hann sýndi mér miða sem á stóð að við ættum bara að fá einn kút.

¿Otra bombana manaña?

Si, sagði el chico og meinti ekkert með því.

Jæja, ég borgaði honum upp sett verð, 8.60 evrur og þakkaði fyrir. Hringdi svo strax í Gas pedidos og sagðist vilja panta gaskút. Nú svaraði kall og bað ólundarlega um nafnið.

Ég svaraði: Mi nombre es Eiríkur.[65]

Aaaahhhh, sagði hann.

Soy islandés,[66] bætti ég við og stafaði nafnið fyrir hann.

Numero telefono, sagði hann næst.

Ég sagði honum það en hann sagði no. Eftir þriðja skiptið á sömu lund sagði ég hálffúll: Esta mi telefono numero! Vivo en Ruperto Chapi 17.

Þá heyrðist hinumegin: El nombre esta Esteinunn og svo eitthvað sem ég skildi ekki.

Ella mi mujer, svaraði ég að bragði. Ayer dos bombonas pero hoy solo uno. Necesito dos.

Það sagði hann mörg orð á spænsku og lagði svo á.

Svo bíðum við bara og sjáum hvort gasmanden kemur aftur á morgun. En við erum svosem hólpin með gas næstu vikur.

Síðustu fréttir: Gasmaðurinn kom.

 

Þegar fjarnemandi og fjarkennari búa á sama heimili

Nú er það svo að ég kenni ÍSL 203 í fjarnámi í FÁ og meðal nemenda er Jón nokkur Haukur. Það kann að vera álitamál hvort ég er vanhæfur eða hann en þetta vissu þeir í FÁ þegar ég var sjanghæjaður í djobbið.

            Það er líka álitamál hvort þetta fyrirkomulag er nemandanum til framdráttar. Venjulegur fjarnemandi þarf til dæmis ekki að þola nálægð kennarans. Og í þessu tilfelli er mamma hans líka á heimilinu sem kunnugt er og hún er fjarnámsstjóri í fríi. Honum er því kurteislega haldið til bókar. En ...

            Og svo núna áðan kom hann til mín og sagðist vera búinn að skila byrjunarverkefninu.

            Er það? sagði ég. Ég hef ekki séð það. Þú veist að fjarkennari tekur bara við upplýsingum gegnum WebCT. Þú ert ekki nærnemandi og ég ekki nærkennari!

            Haha!

            En verkefnið hans var prýðilega vel af hendi leyst, svo öllu sé rétt haldið til bókar.

 

Að læra spænsku

Við höfum haft tvo kennara, Javier og Cruz. Það fer ekki á milli mála að Cruz er miklu flinkari kennari. Undirbýr sig betur, talar spænsku í tímum og lætur okkur tala spænsku og enskan notuð þegar allt um þrýtur. Javier er einsog hefðbundinn íslenskukennari með allan huga við beygingar og einkum undantekningar í sagnbeygingum. Við vorum að læra þátíðirnar tvær um daginn og áttum fullt í fangi með endingarnar en þá lagði hann megináherslu á sagnir sem tvöfalda stofnsérhljóða í 1.,2. og 3. prs. et. og 3. prs. flt. Einsog það skipti máli á þessu stigi!

            Við ákváðum í dag að framlengja spænskunámið í fjórar vikur, tvo tíma á viku. En báðum um taltíma þar sem umræðuefnið væri ákveðið fyrirfram og við gætum séð um málfræðistaglið enda með dobíu af kennslubókum. Það sem við þurfum nú er að nota þann orðaforða og þá málfræði sem við kunnum.

            Antonio samþykkti. Nú fer þetta að vera gaman. Að vísu kennir Javier annan tímann en Cruz hinn. ¡Vale!

            Nei, það kom á daginn að Cruz kennir þá báða. Og í dag var bara töluð spænska í tímanum. Við fórum heim glöð, sprenglærð. Eða þannig.

 

Að prútta án þess að ætla það

Þegar við fórum á ströndina í Alicante um daginn bar ég dótið mitt í UT 2002 tösku frá menntamálaráðuneytinu. Bæði er að taskan var óþægileg og líka hitt að ég hef engan áhuga á að auglýsa þetta ráðuneyti hér á Spáni. Nógu erfitt eiga þeir samt, Spánverjarnir. Til dæmis hefur skóframleiðslan í Elche dregist saman um heil 18% sl. ár!

            Þessvegna hef ég haft augun hjá mér eftir góðri strandtösku. Í dag vorum við Steinunn mín venjulegri la tarde göngu og rákumst inní arabísku búðina rétt hjá Plaza Barcelona. Þar sá ég svarta og stóra tösku, aðra marglita og minni og að síðustu brúna og þá minnstu. Steinunn glápti á verðmiðann en á honum stóð að töskurnar kostuðu 17 evrur stykkið. Lítill drengur, sonur fátæka arabíska búðareigandans, kom til okkar og sagði kost og löst á vörunni og hvað hún kostaði og var hinn vænsti sölumaður. Taskan kostaði 17 evrur. Bæði stóð það á verðmiðanum og drengurinn sagði okkur það. En Steinunn trúði ekki þessu lága verði og sagði:

¿15? (Það er qince en hún meinti 50, fannst 17 of lágt).

            17, sagði drengurinn en kallaði samt í pabba sinn.

            Hann sagði 17 en Steinunn endurtók: ¿15?

            Og blásnauði arabíski kaupmaðurinn sagði: ¡15. Vale, vale! í algerri uppgjöf hins sigraða manns.

            Ég valdi minnstu töskuna og fékk hana á 15 evrur; datt ekki í hug að greiða 17 þegar Steinunn var búin að prútta hana niðrí 15. Það hefði verið hreinn dónaskapur.

            Hinsvegar kvaddi ég litla drenginn sem hafði staðið sig vel sem sölumaður, tók í hönd hans og sagði: ¡Gracias, mi amigo! Og pabbi hans brosti stoltur. Minna gat ég nú ekki gert!

            Þegar heim kom sá Jón töskuna og sagði hann að þetta væri flott taska og gaf í skyn að ég gæti haft dótið hans á öxlinni næst þegar við færum á ströndina. Ég sagði: ¡No, no, hombre!

            Jón ætlar á morgun í la tienda arabíska öreigans og kaupa tösku og heimta hana á 15 evrur einsog mamma hans hafði prúttað í dag.

            O tempora, o mores!

 

Börnin á börunum

Núna ætla ég að skrifa um börn og bari, kaffihús, restuarantes, cerviterias eða hvað svosem þið kjósið að kalla það.

            Mér sýnist samfélagið hér vera mjög barnvænt. Aldrei sjást börn sem eru ‘fyrir’. Þau hanga á kaffihúsum með foreldrum sínum, oftast mæðrum reyndar. Þau skoppa þá útum allt.

            Í gærkvöldi litum við Steinunn inná kaffihús nálægt Plaza de Barcelona. Þar sátu tveir þrír kallar við barinn, hjón við eitt borð og sjónvarpið á fullu gasi. (Það er alltaf á öllum kaffihúsum þótt enginn hluti eða horfi). En það var sérstakt á þessu að ungur drengur, á að giska 12 ára, greinilega með downs heilkenni, sat einn við tvo borð og var að vinna heimavinnuna sína. Borðið var hlaðið blýöntum, litum, vatnslitum, blöðum og bókum. Og hann var með fjarstýringuna að sjónvarpinu. Hækkaði og lækkaði eftir þörfum. Svo bar veitingakonan í hann pan con tomato.

            Þetta var eðlilegast hlutur í heimi.

 

Ayer me corté el pelo.[67]

Í gær fór ég til rakara. Það er svo sem valla í ferðasögu færandi nema af því að þetta var á Spáni.

            Þegar ég fór fyrst til rakara var ég svo ungur að ég man ekkert eftir því. En það var rakarastofa ofarlega á Baldursgötunni; núna er þar íbúð. Mamma hefur sagt mér að ég hafi grátið óskaplega hátt, rétt eins og rakarinn ætlaði að skera af mér eyrun og sjóða úr þeim gúllassúpu.

            Næst var ég svo sendur til feðga sem voru með rakarastofu neðst á Laugaveginum, þar sem nú er úrabúð. Það var vegna þess að Trausti rak stofuna en hann var KR-ingur einsog pabbi. Þangað fór ég lengi vel. Gallinn var að pabbi hans Trausta, Eyjólfur, rak stofuna með honum.

            Trausti tók blíðlega um hárið og spurði hvernig ég vildi láta klippa mig og hlýddi svo fyrirmælum. En gamli maðurinn reif fast í hárið í hárið og klippti einsog honum sýndist. Einsog var í gamla daga. Það þýddi ekki að vera með neitt múður. Hann réði.

            Oft sat ég og þóttist lesa blöðin en fylgdist með hvor feðganna losnaði fyrr. Ef ég sá framá að lenda á Eyjólfi leit ég snöggt á klukkuna og þóttist vera upptekinn og lét mig hverfa.

            Þegar ég átti heima í Skaftahlíð fór ég til rakara á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar. Sá rakari hét Villi minnir mig. Þetta var nokkrum árum á undan bítlunum og maður var með bursta einsog amrískur soldáti. Lét klippa sig oftar en góður hófi gegndi. Eitt sinn sat ég þar með vini mínum og beið klippingar. Þá hnippti vinurinn í mig og benti á mann sem beið við hlið okkar.

            Ha, sagði ég.

            Þetta er vondur maður, sagði vinur minn.

            Ha, sagði ég aftur. Hvernig veistu það?

            Hann er að lesa Þjóðviljann, ansaði vinur minn.

            Hann er núna læknir og borgarfulltrúi fyrir frjálslynda í Reykjavík eftir að hann gekk úr skafti hjá íhaldinu

            Á tímabili lét ég klippa mig hjá Palla í eimskipfélagshúsinu. En þá var keppikefli ungra manna að geta bitið í hárið á sér og það fór eðlilega í taugarnar á Palla. Eitt sinn varð ég að bíða í klukkutíma eftir klippingu.

            Af hverju er svona löng bið? spurði ég.

            Hann Halldór á pantaðan tíma, sagði Palli hátíðlega og ekki orð um það meir.

            Þessi Halldór var Laxness og kom um síðir og gat valið sér stól og klippara og þá loksins kom röðin að mér. Ég fékk afganginn þegar meistarinn hafði valið.

            Eftir þetta hætti ég meira og minna að láta klippa mig og nagaði hárendana í staðinn. En nú er hárið orðið svo grátt og því fylgir að það er mjúkt einsog fiður og dettur niður þegar það vex nema ég geli það ógurlega. Þessvegna naga ég það ekki lengur.

            Og ég á Spáni og Rakarinn í Sevilla víðs fjarri og hefur enda  aldrei verið til, þannig séð. Ég fór því niðrí bæ og hitti þenna fína rakara sem gerði allt sem honum var sagt. Klippti mig af fagmennsku, blés, skar, gelaði, klippti augabrúnirnar svo ég liti ekki út einsog Jón Baldvin til augnanna en ég baðst undan hárþvotti.

            Með þessu öll fékk ég að horfa á spænska boltann.

            Svona var það nú.

 

Bestu börnin bera flest nöfn

Á Spáni hangir fólk lon og don utan heimilis á kaffihúsum og hablar. Amk. í Elche milli fimm og níu á kvöldin og frameftir um helgar og kemur þá öll fjölskyldan, oft með barnavagna inn á staðina, sumir eru bara kallastaðir. Þessir góðu staðir heita ýmsum nöfnum: el bar, el café, la cantina, la cafetería, la terazza, la bodega, la taberna og í kvöld settumst við Steinunn mín inná la chocolatería.

            Staðurinn heitir Valor, er rétt við göngubrúna yfrá markaðinn og hefur 24 útibú víðsvegar um allan Spán. Þar er bara selt súkkulaði. Og ekkert annað. Það er ekki einu sinni selt vín því það truflar ilmandi súkkulaðið. Og það er ekki súkklaði blandað mjólk einsog amma mín bar fram á Baldursgötunni með vöfflunum í den heldur hnausþykkt ekta súkklaði, svo þykkt að það má borða það með teskeið eða drekka, borið fram frá 40° heitt og allt uppí 70°. Í litlum bollum oní skálum. Ég fékk mér með appelsínu sem ég kreisti oní en Steinunn með piparkúlum sem hún sem hún stráði yfir. Og svo eru seldir þarna þessir líka unaðslegu súkklaðibitar.

            Við vorum of södd til að smakka það albesta en gerum seinna: Allskyns ferskir ávextir til að dýfa í heitt súkklaðifondú!!

            ¡Vale!

 

Að kaupa motos

Frá fyrstu dögum okkar hér hefur okkur dreymt um að aka um borg og bý á vespum. Sáum eina notaða í búðarglugga á viðráðanlegu verði. Lengi vel létum við okkur nægja að ganga framhjá glugganum.

            Dag einn fundu Steinunn og Jón aðra búð og voru þá að spá í reiðhjól sem þar fengust ódýr. Seinna sama dag fórum við í Carrefour sem er risastór Bónus-verslun þar sem allt fæst. Meðal annars hræódýr reiðhjól.

            Jæja, áleiðinni heim droppuðum við inní mótorhjólabúðinni og spurðum um usados motos.[68] Konan sagði þau ekki vera til þarna en fór með okkur yfir götuna. Þar var mótorhjólaverkstæði og maðurinn seldi notuð hjól á viðráðanlegu verði.

            Þegar hér er komið sögu verður að viðurkennast að Steinunn og Jón hafa aldrei ekið vespum og ég bara þegar ég var strákur og einu sinni á Grikklandi fyrir nokkrum árum. En er það nokkurt mál? Nei.

            Til að gera langa sögu stutta erum við búin að panta þrjár vespur þegar þetta er skrifað. Rauða handa Steinunni, svarta fyrir Jón og ég fæ gráa. Eins og hárið!! Við höfum ekki gengið frá kaupunum því okkur vantar stað til að geyma þau á nóttunni. En það er í athugun hvort við megum nota aparcamientos (bílastæðahús) í götunni okkar.

            Meira um það síðar.

 

Iðrun og yfirbót

Ýmsir, ég nefni engin nöfn, virðast hafa skilið mig á þann veg að ármúlaliðið sem ég hitti í Barcelonu hafi bara verið að skemmta sér. Það er af og frá. Ég dáist að iðni þeirra. Þaulsátu ráðstefnuna og töluðu varla um annað.

            Sem dæmi um afraksturinn get ég nefnt að ég er núna að læra á forrit sem Steinunn fann og heitir CourseGenie. Það gerir mér kleift að búa til allskyns próf inní Word og senda fullsköpuð inní WebCT eða á einhverja heimasíðu. Hrein snilld.

            Nóg um það.[69]

 

Um Elche

Ekki kannski fallegasta borg sem ég hef heimsótt en vinaleg, róleg en samt lífleg. Sérstaklega vinaleg. Manni er allsstaðar tekið með kostum og kynjum, brosi og buenas, eða hola og á stöku stað með usted.[70] Hún er það lítil að manni er mætt með ¡hola! og brosi bæði á börum og í búðum þar sem við komum oft. Til dæmis á Central Mercado og Hiberber, að ekki sé talað um hverfiskrána og kínverjana handan götunnar. Líka á kaffihúsinu niðrá horni þar sem ég fæ mér iðulega kaffi og les blöðin. Samt búa þarna 200.000 manns!

            En eitt það merkilegasta við Elche eru pálmatrén. Og að ganga meðfram Rio Vinalopo. Svo er náttlega iglesia[71]og ég  kveiki reglulega á kertum handa mömmu. Hún hefur fengið kerti í Elche, Alicante og Barcelona.

Katólska kirkjan er orðin svo nútímaleg þegar kemur að peningasöfnun að í stað þess að selja manni kerti þá er komin elektrónísk kerti. Ég set 50 sent í rauf og þá kviknar á kannski tíu rafkertum.

Svo er í borginni gomma af plazas sem ég hef áður minnst á.

            Loks er þarna:

 

El Baño Árabes

Það eru 800 ára gamalt baðhús frá þeim tíma sem arabar réðu hér ríkjum. Að vísu voru böðin nýtt sem kirkja eftir að arabarnir voru reknir burt og enn seinna sem geymsla en þetta er það eina sem eftir er. Inni fær maður að heyra kliðinn af arabísku og meira að segja pínulítinn reyk að heitu vatni.

            Ég lýsi þessu ekki nánar. Þið verðið bara að koma og sjá. Sjón er sögu ríkari (og búinn að fá bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs!!!)

 

Fótbolti er skrítin skepna. Eða kannski bara fólk!

Í fyrradag fórum við Jón á hverfiskrána og sáum leik Real Madrid og Juventus. Kráin var smekkfull og allir héldu með Real. Um ítalina var sagt puta og ýmislegt annað verra.

            Daginn eftir var leikur Barcelona gegn Chelsea sýndur. Við Jón komum snemma til að fá sæti en þá brá svo við að fáir voru mættir. Bara fastagestir og þeir gerðu grín að Börsungum, hlógu þegar þeir ensku komust yfir. Menn halda semsagt með liði konungsins og aðalsins. Liðinu sem Franco hampaði, Real Madrid. Ja hérna hér!

            Hverjum þykir sinn fugl fagur. Daginn eftir leik Real og Juventus leit ég í deportivo blað.[72] Þar voru tíu blaðsíður af umsögn um þann leik en aðrir leikir í meistaradeildinni fengu mest hálfa síðu og allt niðrí einn fjórða úr síðu.

 

Enn um íbúðina

Íbúðin okkar er fín. Hún hefur marga kosti. Gólfefnin eru öll marmari, ljósbrúnn með hvít og brúnu. Ef maður missir koparpening á gólfið getur verið þrautin þyngri að finna hann. Það er líka jafnerfitt að sjá rykið. Það er ekki fyrren hvíti baðsloppurinn minn er orðinn grár eða brúnn af því að dragast eftir gólfinu að Steinunn tekur fram skrúbbinn.

            Sama er að segja um borðið í eldhúsinu. Á því er brúnn marmari og maður strýkur yfir það og sér engan mun á borðinu, bara á tuskunni.

            Ein marmarahellan í stofunni er laus og heyrist brak þegar maður stígur á hana.

 

Aparcamientos[73]

Þau eru útum allt neðanjarðar. Hér er fólk ofanjarðar en bílar neðan. Í götunni okkar er eitt. Ég spurði hvort við gætum geymt þar vespur. El hombre sagði no en það væri kannski hægt í húsinu fyrir framan la iglesia. Ég fór þangað. No, esta dificil, sagði maðurinn þar.

            Seinna fórum við Steinunn á bílastæðið við Altamira[74] sem er spöl frá okkur. Þar var ekkert mál að fá stæði fyrir los motos en bara á morgun, þá kæmi sá sem veitti leyfi og vissi allt.

            ¿A que hora?[75] spurðum við.

            Hann vissi það ekki. Kannski fimm eða sex.

            Vale.

            Á leiðinni ákváðum við að gera aðra tilraun við bílageymsluna á Ruperto Chapi en þar var enginn. Hinsvegar var miði uppá vegg og þar stóð og að þeir tækju mótorhjól í geymslu og að verðið væri samkomulag!

            Við erum því enn ekki komin með geymslu fyrir hjólin og höfum því ekki gengið frá kaupunum. Það er ekki þorandi að geyma þau útá götu á nóttunni.

            Me gusta[76] þessi hraði á lífinu! Hraði er kannski ekki rétta orðið ...

            Núna er ég að hlusta  á disk sem Jón keypti með klassískri tónlist leikinni á gítar, verk eftir Mozart, Beethoven, Ravel, Bach og alla þessa kalla. Alla þessa kalla ...

 

Dásamlega tæknin

Tæknin er flott. Það er hægt að panta allan andskotann beint að heiman í gegnum tölvu. Og líka að kenna nemendum íslensku um allan heim frá Spáni. Núna var ég að panta flug fyrir okkur til Aþenu  í byrjun apríl en ég þarf að fara þangað á fund. Ég var ofsalega montinn því vefur Iberia flugfélagsins er bara á spænsku. Svona montinn sneri ég mér að því að panta hótel í Barcelona en við verðum að gista þar tvisvar. Þegar Steinunn svo las hótelpöntunina rak hún augun í að ég hafði pantað á tveimur hótelum, einu á Römblunni á leiðinni héðan og öðru á leiðinni heim aftur. En er ekki í lagi að prófa hótelin í Barcelonu? Það er lyfta í þeim báðum. Engar 111 tröppur!

            Svo er það þetta með símann. Það er að vísu hundódýrt að hringja héðan úr heimasímanum okkar en svo er hægt að tala ókeypis á netinu.

            Tæknin er grúví!

 

Fréttir frá Englandi: Brúðkaup í vændum

Ég er með frétt frá Englandi um brúðkaup! Nei, ekki þessi eyrnastóru ljótu konungbornu ensku. Heldur er Matta mín að fara að giftast honum Auðuni í sumar eftir að hún útskrifast.

            Til hamingju með það, við öll!

 

Þessi tungmál

Gaman er að tungumálum. Í spænsku ráða endingar sagna því um hvaða kyn er að ræða. Dæmi: hablo þýðir ég tala, hablas þú talar, habla hann/hún/það talar. Yo er ég en það þarf ekki að nota að því ending sagnarinnar dugir. Þess vegna eru Spánverjar ekki klárir á he og she þegar þeir tala ensku. Ég man eftir honum Rafael frá Estepona sem kallaði mig she og Steinunni he á ensku.

            Annað dæmi um skemmtilegan mismun tungmála var um daginn í apóteki hér í bæ. Steinunn var að kaupa áburð á fæturna á Jóni útaf sveppum og konan í apótekinu vildi tala ensku og spurði hvort þetta væri fingers on the hands or fingers on the feet.

            Skýringin er að á spænsku er fingur dedo en tá er dedo del pie (fingurinn á fætinum).

            Svona eru tungumál dásamleg.

 

Enn um kaup á las motos

Jæja, í morgun fundum við Steinunn loks bílastæðahús sem tekur motos. Það er sumsé áðurnefnt Altamira. Að vísu sagði yfirmaðurinn fyrst að það væri ekkert pláss laust fyrren í mars. Eftir smástund voru tvö laus en það þriðja í apríl. Við ræddum málin frekar og hann talaði í síma og skyndilega voru þrjú laus strax í dag. Við gerðum samning þar um og allt er í fínum gír. Fengum aðgangskort og kennslu í notkun þeirra. Þetta er gangur mála í landi mañana.

            Um kvöldið fórum við á vespusölurnar að ganga frá kaupunum en þá kom í ljós að til þess að mega kaupa svona tæki þurfti a. vottorð frá borginni um að við byggjum í Elche og b. leyfi frá löggunni um að mega kaupa tækin. (Þeir gátu nú sagt okkur þetta fyrr). Núna er föstudagur þannig að kaupin frestast framí næstu viku.

Annars er undarlegt að báðir vespusalarnir heita Paco, bæði sá sem Steinunn verslar við og sá sem við Jón kaupum hjá. Skyldu vera lög í þessu landi að vespusalar verði að heita Paco?

Þetta er því að verða sagan endalausa en vonandi lýkur henni samt. En það verður rosalega gaman að þeysa um á mótorfákunum loks þegar þeir komast í okkar hendur!

Nýjar fréttir frá Hiperber. Bjórinn sem var á útsölu um daginn er núna kominn oní 0,09 evrur dósin. Það eru um sjö krónur íslenskar!!

Hér er ódýrt að vera alki!!!

 

¡El día las noticias grande y buenas![77]

Vöknuðum snemma. Í dag átti  sumsé að leggja til atlögu við spænsku skriffinnskuna. Okkar beið að fara í ráðhúsið til að fá staðfestingu á að við búum í Elche og síðan á löggustöðina til að fá leyfi til að kaupa vespur og fá svokallað NIE-númer. Jón var syfjaður og neitaði að fara með. Ég hafði grun um að lítið þýddi að þessi skjöl fyrir hann án hans. Þeir myndu vilja sjá framan í hann og fá undirskriftir allra.

            Jæja, hann lét sig og drattaðist á lappir og svo kom á daginn að hann þurfti að skrifa undir allskyns skjöl og pappíra.

            Við fórum í ráðhúsið. Maria hafði sagt okkur að skrifstofan héti OMAC. Við spurðum um oficina de OMAC og var sagt að hún væri útá götu, dyr númer tvö.

            Þar var lítil biðstofa gersamlega troðfull af fólki. Mikið um indíánalegt fólk og svo greinilega fólk frá Afríku, fyrir utan spánverja og að sjálfsögðu íslendinga. Það er okkur.

            Númerastandurinn var með allskonar númerum. Merktir A, B og allt til F. Við sáum extranjeros[78] og tókum þannig númer. Fengum svo bakþanka og tókum annað og loks spurði Steinunn afgreiðslukonuna hvaða númer við ættum að taka og hún benti henni og OD númer. Við fengum OD080. Á veggnum sást að verið var að afgreiða OD060.

            Við biðum. Og biðum. Það var ekki um annað að ræða. Loks kom OD080 á borði fjögur. Við þangað. Ungur maður með tagl beið okkar. Við bárum upp erindið. Ekki málið.

            Hann talaði heilmikið – á spænsku. Spurði hvar í Elche við byggjum, við hvaða götu, á hvaða hæð og svo framvegis. Svo gerði hann athugasemd við 4. hæð. Við skildum hann ekki strax. Hann teiknaði mynd af húsi með fjórum hæðum.

            Ætlar hann að senda okkur uppá fjórðu hæð í helvítis ráðhúsinu! hugsaði ég og sá framá vandræði.

            Nei, þetta var ekkert mál. Hann hélt smáfyrirlestur um að í húsum í þessum bæ væri misjafnt hvernig menn teldu hæðir. Hvort neðsta hæðin væri talin með sem hæð eða ekki. Hann vildi þessvegna meina að við byggjum á fimmtu hæð.

            Við hættum við að reyna að sannfæra hann um að við byggjum víst á 4ðu hæð og sögðum bara ¡Vale! í fullvissu þess að þetta skipti engu máli. Svo pikkaði okkar maður á tölvuna og komst þá að því sem við vorum að reyna að segja honum að á neðstu hæðinni í Ruperto Chapi byggi ekki sála. Þar væru bara póstkassar.

            Þið búið sem sagt á fjórðu hæð, sagði þessi væni maður glaður.

            Si, sögðum við himinlifandi.

            Næsta spurning kom okkur Steinunni gersamlega í opna skjöldu: Hvað heita foreldrar ykkar?

            Ég spurði af hverju hann vildi vita það. Ég meina, pabbi er dáinn! Sagði honum það reyndar ekki.

            Es muy importante informacíon,[79] sagði hann en við fengum engar aðrar skýringar.

            Svo kom babb í bátinn. Fyrri leigjendur voru enn skráðir til heimilis í

íbúðinni okkar.

            Pero ahora vivimos en esa piso en Ruperto Chapi,[80] mótmæltum við.

            Já, já, þetta er heldur ekkert vandamál, ansaði hann þá. Hann hafði bara verið að upplýsa okkur um fyrri leigjendur en það skipti ekki einu einasta máli.

            Loks prentaði þessi væni maður út marga pappíra. Einn um að við öll byggjum á Ruperto og svo tvö blöð á mann til að nota til dæmis ef við þyrftum að fara til læknis eða vatever.

¡Muchos gracias! Við kvöddum manninn væna hjá OMAC eftir allt hans ómak fyrir okkur.

            Þetta tók tæpan klukkutíma og við tókum stefnuna á löggustöðina til að fá leyfi til að kaupa hjól. Þegar þangað kom spurðumst við til vegar og lentum á vænni konu sem þéraði okkur alveg út í eitt. Þá nota menn 3. persónu og segja Usted eða Ustedes. Hún sagði okkur að við þurftum að fylla út umsókn um NIE sem er umrætt leyfi sem við fengjum eftir viku. Svo skipti hún um skoðun og við megum sækja þetta á morgun. Líklega þegar hún sá að við vorum frá EES landi. Þá gengur þetta hraðar fyrir sig.

            Það gekk ágætlega að fylla út eyðublöðin þótt allt væri á spænsku. Og við urðum ekkert undrandi á línunni þar sem spurt var um nöfn foreldra okkar. Það eru einfaldlega mjög mikilvægar upplýsingar sem skipta máli þótt enginn viti af hverju. Þarna átti líka að skýra af hverju við vildum þessa pappíra. Það var Comprar un moto.[81]

            Innan stundar héldum við á pappírum sem duga til bráðabirgða til að kaupa vespur.

            Fengum okkur smátapas og svo í hjólabúðina okkar Jóns. Þetta var ekkert mál. Við fengum hjól og hjálma og lása en því miður er ekki hægt að tryggja hjólin fyrren við fáum númer á NIE leyfið en það kemur á morgun sem fyrr sagði. Sá sem seldi okkur sagði að okkur væri óhætt að aka í bílastæðahúsið en ekki mikið lengra. Og við fáum ekki skilríki um eigendaskipti fyrr en eftir mánuð því það þarf að gerast frá Alicante. En búðin sér um það og lætur okkur vita þegar þar að kemur.

            Og mikið djöfulli vorum við Jón flottir þegar við ókum burt á vélfákunum okkar. Auðvitað kolóloglegir enda ótryggðir. En Steinunn gekk.

Niðurstaðan er að spænsk skriffinnska er sem sagt dálítið flókin en á hinn bóginn afskaplega vinaleg. Og stundum gerast hlutir fyrren sagt er. En oft seinna.

Um kvöldið ætlaði Steinunn að sækja sitt hjól á sama hátt en það var ekki við það komandi. Það vantaði NIE númer. Og þessi sölumaður verður ekki skekinn af skoðun sinni hvað sem á dynur. Hann er bara þannig gerður.

Daginn eftir fór Steinunn að sækja NIE skírteinin okkar. Þau voru ekki tilbúin en á hinn bóginn voru númerin til og það átti að duga.

Við í búðirnar. Steinunn fékk sitt löglegt undireins. Hennar maður var glaður yfir pappírum hennar. Við Jón fengum á hinn bóginn heimilisfang hjá tryggingafélagi. Hjóluðum þangað. Þar var bara töluð spænska. Kolólögir sem fyrr, án trygginga. Fyrst var sagt að ekkert gerðist næstu daga. Eftir korter var ég á hinn bóginn kominn með löglega tryggingu í 15 daga án þess að borga en Jón fengi sína eftir viku. Ekki aka þangað til!!

Við í Álftamýri með hjólin.

 

Svo gerðist þetta

Daginn eftir fór ég til Alicante til að hitta spænska kennara sem ég þekki þar, Pilar og Adelida. Jón fór með. Bara gaman. Drukkum með þeim kaffi og svo aftur heim. Kurteisisheimsókn. Ég verð að geta þess að þeim fannst við tala fína spænsku! ¡Grazias! Þeir eru kurteisir, þessir spánverjar.

            Þegar heim kom var póstur til Jóns í kassanum. Frá tryggingafélaginu. Þegar þú ert búinn að borga þetta ertu löglegur. Þetta var stutt vika en – bankinn var lokaður!!

            Í eftirmiðdaginn fóru Steinunn og Jón í leigara (þeir kosta skít hér) til tryggingafélagsins og þar gekk allt vel. Konan væna, hún María, fékk peninga frá Steinunni og lofaði að borga reikninginn og klukkan 14 daginn eftir yrði Jón löglegur á hjólið.

            Daginn eftir fóru þau Steinunn og Jón í tryggingarnar og eftir mikið mál sem ég get ekki sagt frá því ég var ekki með komu þau heim með öll tilskilin leyfi handa Jóni.

            Öll lögleg. Þessi dagur fór í akstur um sveitina kringum Elche. Dásamlegt!

            Um kvldið fórum við á mexíkanskan veitingastað í L’Aljub (mollið í Elche, meira um það á eftir) og ég borðaði kjúklingabringu í súkkulaðisósu! Unaðslegt!

            Um kvöldið var skálað í freyðivíni fyrir seguro[82] okkar allra.

 

Moll í Elche og helgar

Um helgar gera íbúar Elche það sama og Reykvíkingar: Þeir hópast í Kringluna sína. Allavega núna þegar ekki er orðið strandveður. Ég lýsi þessu ekkert nánar því þetta er einsog Kringlan heima, nema stærra, miklu stærri.

            Að vísu keypti ég mér veski því mitt er svo langt og mjótt að erfitt er að hafa það í vasa á skúternum. Fyrir utan  þau ósköp að ég er alltaf  með myndir af börnunum fjórum, Möttu, Einar, Guðrúnu og Jóni, í veskinu. Svo undarlega vill til að í veskinu langa treður Guðrún sér alltaf yfir myndir af hinum börnunum, hvernig svosem ég raða þeim! En í þessu nýja eru börnin öll til friðs. Sitja þar sem ég set þau. Hlýðin og góð.

 

Tvær ferðir á las motos

Fyrst ætluðum við á ákveðinn stað en fundum hann aldrei en ókum útum allt. Það var fínt að prófa hjólin og læra vel á þau.

Næst ætluðum við til La Marina en það er strandbær og spáð var sól og hita allan daginn. Við snarvilltumst. Ég spurði til vegar en gekk hálfilla að koma því útúr mér þar til sá spænski spurði:

¿Que buscas?[83]

Ég sagði honum það og hann benti okkur á að aka beint áfram að hringtorgi sem beindi okkur til La Marina. Við þangað. Fengum okkur mjög vondan mat og slæmt kaffi í bænum en ókum svo niðrá strönd og átum góða pæju með kjúklingi. Þá fór að draga ský fyrir sólu og heim ókum við í smákulda. Þessir veðurfræðingar!

En ég er hissa á einu. Í Manual del usuario með hjólinu mínu stendur að hámarkshraðinn þess sé 45 km en ég fer leikandi á 70 km hraða! Ég skoðaði betur bæklinginn og mér skilst að fyrstu 1000 km megi ekki aka hraðar en 45 km á klst. Seinna komst ég að því að svona hjól eru bremsuð niður og eiga ekki að geta farið hraðar en á 45 km á klst. Fyrri eigandi hefur á hinn bóginn átt við hjólið mitt og þessvegna fer það svona hratt.

Jæja, hvað um það. Vindþurrkuð og glöð komum við heim á Ruperto Chapi 17 og áttum svo bara gott kvöld!!

 

Síðustu fréttir fyrir heimsendingu

Jón fór svo til Alicante í dag en við Steinunn sátum heima að læra spænsku. Sagnabeygingar eru nauðsynlegar!!!

            Svo fór ég í bæinn til að fá ljósrituð skjöl, á hjólinu, nema hvað. Að vísu er ég miklu lengur á hjólinu en gangandi ... en það er bara svo gaman að hjóla!!!

            Einn morgun sá ég krakka setja miða undir þurrkur á bílum í götunni. Ég forvitinn greip blað af einum bíl. Þetta var þá auglýsing um nýjan tyrkneskan veitingastað í næstu götu. Fórum þangað áðan við Steinunn. Kom í ljós að staðinn ráku Kúrdar. Mjög stoltir af uppruna sínum. Þeir sögðu okkur að ef þeir auglýstu staðinn sem kúrdískan þá kæmi enginn. Þessvegna heitir hann Comida Turke, Estambul. Fínn matur og rosalega vel útilátinn.

            Og ráterinn sem ég pantaði og átti að koma á morgun kom í dag. Svo bíðum við eftir ONO til að tengja hann. Og meira að segja hjólatryggingin mín er komin endanlega frá löggunni og ég má sækja hana á morgun. Það er svo undarlegt að þetta er ekki bara el pais de manaña[84] heldur líka el pais de ayer.[85] Sumt sem á að koma eftir viku kemur á morgun. Það er semsagt lítið að marka tímasetningar hér.

            Jæja, læt þetta duga að sinni. Kveðjur úr suðrinu sæla.


Fimmti kafli

Bankinn og SHH

Steinunn þurfti að borga tryggingu fyrir hjólið sitt í gegnum banka. Gallinn er bara að hérlendir taka ekki mark á bankareikningum á Íslandi. Þegar við leigðum stæði í Altamira áttum við að borga gegnum banka og gáfum upp allskonar númer á íslenskum bönkum en svo dag einn kom stjórinn á Altamira að máli við mig og sagði að það gengi ekki. Ég yrði að borga kass. Sem ég gerði daginn eftir.

En Steinunn gat semsagt ekki borgað trygginguna kass og varð að eiga spænskan bankareikning. Og fór út einn góðan veðurdag, gekk í BBVA bankann og kom heim með bankabók með inneign uppá 150 evrur.

Hún var voða montin yfir þessu og sagði stolt:

Það er gott að eiga þessa peninga þegar við förum heim.

¡Vale!

 

Hjólin

Hér hef ég – sem fyrr er getið - látið eldgamlan draum um vespukaup rætast og við flengjumst öll um alla borg á þvílíkum faratækjum. Það er SVO gaman. Svo dregur það úr drykkju - eða að minnsta færir hana lengra frameftir degi. Ekki dropi fyrren maður stígur af vélfáknum og leggur því á Altamira.

En þá líka fer ég oft á krána Bar Nobel rétt hjá bílastæðahúsinu á leiðinni heim og fær mér tinto. Þetta er slíkur staður að þegar ég stíg þar inn lækkar meðaldur gestanna um marga áratugi.

Barþjónninn er farinn að þekkja mig og færir mér orðalaust un tinto. Réttir kannski upp fingur til að vita hvað ég vilji mörg glös því stundum eru Steinunn og Jón með mér.

            Svo er þetta svo þægilegur ferðamáti. Þegar ég fór á heimaleik Elche CF (sjá næsta kafla) var þvílík umferðarteppa eftir leikinn og er þó völlurinn í útjaðri borgarinnar. En maður bara hoppaði á vespuna og krúsaði á milli bílanna og var kominn heim langt á undan þeim sem óku bílunum. Með viðkomu á kaffihúsi!

Svo förum við saman í lengri ferðir til að skoða þorp og bæi í nágrenninu. Eða bara sveitina. Höfum hingað til mest haldið til strandar en ætlum að skoða bæi inní landi næst.

Svo heitir það að aka vélhjóli á spænsku montar. Við erum sumsé að monta okkur á hjólunum!!

 

Fótboltinn

Sem fyrr sagði fór ég á leik á Camp Nou – í fyrsta og kannski eina sinnið á ævinni - og hélt að sjálfsögðu með Barcelona sem tapaði! Ég held líka með Liverpool og þeir eru sífellt að tapa. Að ekki sé talað um KR! Sei nó mor!

Svo fórum við Jón að sjá heimaleik Elche CF sem er í baráttu um að komast í fyrstu deildina spænsku.

            Og hvað gerðist?

            Elche CF tapaði gegn skítlélegu botnliði.

            Þetta eru einhver álög á mér, að halda með liðum sem eru sífellt að tapa. Þá fór ég að spá í að halda með liðum sem leika gegn liðum sem ég held með.

            Prófaði þetta eitt kvöld. Þá var Chelsea að leika gegn Barcelona í meistaradeildinni. Við Jón fórum til Pepes og héldum með þeim ensku útaf Eiði. Þetta var seinni leikurinn og reyndar einhver besti knattspyrnuleikur sem ég hef séð lengi. Liðin skiptust á að vera áfram í keppninni. Allir á barnum héldu með Barce nema við og einn spánverji. Það var eitt núll fyrir Chelsea þegar við komum og þessi spánverji sagði okkur að Eiður hefði skorað markið. Hann hélt reyndar að Eiður væri Dani en ég leiðrétti það hið snarasta. Við þrír gættum okkur hinsvegar á að fagna enskum mörkum laumulega til að styggja ekki meirihlutann á barnum hans Pepes.

            Þegar illa stóð fyrir Chelsea og ekki margar mínútur voru eftir af leiknum og góð ráð dýr stakk ég upp á því við Jón að halda með Barcelona síðustu mínúturnar. Og viti menn. Chelsea skoraði sigurmark á síðustu mínútu og eru komnir áfram í keppninni .

            Trixið okkar gekk upp.

En svo gerðist undrið dag einn!

Sunnudag nokkurn fór ég einn að sjá heimaleik Elche CF gegn miðjuliði Lleida. Fór bara kaldur og ákvað að halda með Elche allan tímann. Það verður nefnilega svo gaman ef liðið kemst upp að þá verðum við Jón líklega þeir einu á Íslandi sem höldum með Elche CF. Og þekkjum nöfn leikmannanna!

Jæja. Fyrri hálfleikur var bragðdaufur. Lítið um tækifæri en Elche mun betri. En á 67. mínútu (það er í seinni hálfleik, þetta er fyrir fáfróða lesendur) komust gestirnir yfir eftir herfileg varnarmistök Elche. Ég var að hugsa um að yfirgefa völlinn. Gat ekki hugsað mér að halda með hinu liðinu sem lék illa og fannst mér ég ekki geta gert Elche CF það að vera þarna og láta álög mín verða þeim að falli. Var daufur og sífellt daufari eftir því sem leið á leikinn.

En kraftaverkið gerðist. Á 87. mínútu jafnaði Elche leikinn með góðu marki og þá var kátt á Estadio Martínez Valero en svo heitir heimavöllurinn í höfuðið á einum helsta leiðtoga félagsins, Martinez Valero. Ef KR sýndi sínum mönnum sama sóma héti KR-völlurinn Völlur Erlendar Ó. Péturssonar sem var formaður KR í marga áratugi og gerði félagið að því sem það er. Eða EÓP-völlur. Sorri, þetta var útúrdúr.

Ég var semsagt á 87 mínútu fyrir útúrdúrinn. Jafnt 1-1. Litlum þremur mínútum síðar fengu mínir menn víti. Það varð allt vitlaust. Gersamlega trítilótt!! Gestirnir rifust við dómarann en ekki til neins. Og Nino skoraði. 2-1 fyrir Elche og álögin hrundu af mér einsog vatn af gæs. Ég get horft á leik og haldið með liðinu sem ég held með án þess að það tapi!

Fer glaður á næsta heimaleik Elche og held með ... þeim!

 

Teléfonica

Ég vísa til fyrri samskipta okkar við Teléfonica sem er einokunarfyrirtæki á sviði símamála hér og einnig til þess hvernig ONO barg okkur úr klóm þeirra.

Greinilegt er að þeir hjá Teléfonica eru farnir að sjá eftir að missa af viðskiptum við okkur. Þeir gera allt til að lokka mig til meiri viðskipta við sig. Um daginn fékk ég frá þeim sms skilaboð í gemsann minn. Ég var smástund að lesa þau enda á spænsku en viti menn! Þeir voru að tilkynna mér að ég hefði sem góður viðskiptavinur verið dreginn úr happdrættispotti og hefði fengið gefins inneign á símann minn uppá litlar 65 evrur. Sem sinnum 80 eru rúmar 5000 íslenskar!

Ég þáði þetta með þökkum.

 

Hitamælar borgarinnar

Hitamælar eru út um alla borg. Stórir og litfagrir utaná húsum. Sumir með bláu ljósi eða grænu en flestir rauðu. Þeir eru á hinn bóginn aldrei sammála um hitastigið. Ég á mér tvo sem ég held mest uppá því þeir sýna ævinlega hæstu hitatölurnar. Eðlilega. Ég vil hafa sem heitast. Annar er uppá Jósep Maríu Bókargötu en hinn sést frá göngubrúnni yfrá markaðinn. Það er hinsvegar einn mælir á Cristobal Sanz sem ævinlega er nokkrum gráðum neðar. Ég reyni yfirleitt að láta sem ég sjái hann ekki

En dag einn gengu uppáhaldsmælarnir mínir of langt. Þeir sýndu hvor um sig 20 gráðu hita þegar neikvæði starfsbróðir hans sýndi 14. Þetta fannst mér of mikill munur og valdi þversummuna og úrskurðaði glaður að hitinn væri 17 gráður.

Í dag er 24. mars og við erum búin að liggja uppá þaki í sólbaði. Fórum síðan að snæða la comida í Park de deportivo en þar er ævinlega góður matur garanteraður. Hitamælarnir voru afar ósammála þennan dag. Uppáhaldið mitt sýndi mest 39 gráður þegar heitast var sem var nú aðeins of ... En um kvöldið var sá sem ég held næstmest uppá í 20 gráðum en fýlupúkinn sýndi aðeins 15!

Sá er fúll.

Svipaða sögu er að segja af veðurfræðingum hér. Það er ekkert að marka þá. Einn föstudag las ég í El país að á sunnudaginn ætti að vera sól. La Verdad tilkynnti að heiðskýrt yrði á mánudaginn og Información spáði skýjuðu alla helgina!

Og prentuð útgáfurnar og netútgáfur sömu blaða eru ekki einu sinni sammála um veðurspá!

Þetta minnir mig á veðurlýsingar í Skagafirði. Þá spyr maður fyrrum bónda þar hvernig veðrið sé.

Það er sól, segir hann.

Þá spyr ég: Er hún gul eða grá?

Hún er grá, er svarað. Það þýðir að sólin sést ekki fyrir skýjum en hún er þarna.

Enn spyr ég: Er sólin þurr eða blaut?

Hún er blaut, segir bóndinn.

Sem þýðir að það er rigning í Skagafirði.

Ekki er hún hvít og köld? spyr ég.

Jú, því er ekki að neita, hljómar að norðan.

Þá vitum við að það snjóar í Skagafirði. En samt er sól. Í sinni. Það er líka best.

 

Einn góðan veðurdag ...

ONO maðurinn sem átti að koma klukkan 4-5 að setja upp ráterinn hringdi rétt fyrir 10 að morgni og sagðist vera á leiðinni. Ég vakti Steinunni mína og skellti mér í sturtu. ONO maðurinn kom og var hinn skemmtilegasti, þáði kaffi, og þegar hann fór voru báðar tölvurnar tengdar. Eftir þetta fékk ég mér pínulitið meira kaffi.

Þá fórum við Steinunn mín út að ganga niðrí miðbæ að fá meira kaffi. Ég stakk uppá blómatorginu. Þá var ég orðinn svangur þannig að við  fengum við okkur tapas og bjór og café solo á eftir. Þegar þessu öllu var lokið töltum við heim og fórum uppá þak í sólbað. Ég er að verða assgoti flottur, svona brúnn. Nú, lágum þar í tvo tíma en þá byrjaði spænskutíminn.

Eftir hann nenntum ekki að elda svo Jón hljóp eftir pitsu sem við átum uppá þaki. Eftir þetta gerði hver sitt. Ég lagði mig uppí rúm með glæpasögu og aðrir gerðu eitthvað annað.

Klukkan hálfsjö fór ég að sækja vespuna mína úr viðgerð. Hún hafði ekki viljað starta en var komin í lag en þeir vildu ekki fá neina borgun og höfðu engan tíma til að segja hvað hefði verið að startaranum. Ég hjólaði um bæinn í klukkutíma, glaður yfir að hafa gripinn í lagi. Lagði því svo í Aparcamiento Altamira.

Nú, svo fékk ég mér rauðvín á leiðinni heim. Á Bar Nobel. Nema hvað?

Á þessu sést á að hversdagslífið er hér á fullu. Lesa spænsku, fara í sólbað, hjóla, borða, drekka ... Erum að hugsa um að fara til Murcia á morgun, bara til að gera eitthvað og brjóta upp vanann.

Nei, kemur Steinunn mín í þessum skrifuðum orðum. Var að horfa á veðrið í imbanum. Það er spáð skjannabjörtu á morgun en skýjuðu á sunnudaginn. Stakk uppá á breytingu. Ströndin í Alicante á morgun, Murcia hinn daginn.

Svona líða þessir fínu dagar.

 

Murcia

er höfuðborg samnefnds héraðs sunnan við okkur. Í borginni búa um 290 þúsund manns. Þetta er falleg borg með fullt af sólríkum plösum. Hún er í klukkutíma lestarfjarlægð frá Elche. Af því að þarna búa jafnmargir og á Íslandi var ég að hugsa um að fara í ayeumiento[86] og reyna að semja um búsetuskipti. Íslendingar flyttu til Murciu og gætum skilið eftir slatta af leiðinlegu fólki - ég er með nokkrar tilnefningar - og murciubúar færu til Íslands.

            Þar fékk ég besta saltfisk sem ég hef á ævinni smakkað. Hann var steiktur og borinn fram í tómatsósu með fullt af lauk og papriku. Meira að segja roðið var ætt og etið! Ekki einsog saltfiskurinn sem Siggi bróðir vann á tombólu í Listamannaskálnum í den og neitaði að bera heim í strætó og lagði uppvið vegg dómkirkjunnar í Reykjavík en Dída frænka sem var með okkur taldi ekki eftir sér að halda á honum heim. Svo var hann étinn með floti og öllum þessum andskotans beinum!

            Við gengum fram hjá Plaza de toros og þar var auglýst nautaat næsta laugardag og sunnudag. Við keyptum miða. Reyndar las ég seinna að þetta er at með ungnautum en daginn eftir eru fullorðin naut. Kannski förum við tvisvar.

            En það er semsagt á laugardaginn kemur.

            Það var mjög heitt þennan dag. Á Plaza Circular lagði Jón sig á bekk og rétti út höndina einsog betlari en enginn gaf honum aur. Kannski var hann ekki nógu fátæklegur til fara og ekki af honum teljandi vínlykt.

Steinunn var nokkru seinna komin í hrókasamræður við þrjá menn. Á daginn kom að þeir voru rúmenskir tónlistarmenn að vinna á Spáni. Þar er nefnilega hærra kaup en í Rúmeníu. Þeir þekktu ekkert til Íslands en vita eitthvað um það núna. Spurðu mikið um laun á Íslandi og hvað kostaði að fljúga þangað. Við sögðum þeim það allt og þeim fannst kaupið mjög vænlegt en þegar Steinunn sagði hvað fransbrauð kostaði á Íslandi hristi sá rúmenski höfuðið í djúpri samúð með íslensku þjóðinni. Samt vildi hann fá okkur til að hjálpa sér um vinnu á Íslandi en við sögðum honum að það væri erfitt. Hann var því hálfdapur þegar við kvöddumst.

            En Murcia er sumsé hin fallegasta borg.

 

Mín fyrsta bók!

Jæja, á afmælisdegi Steinunnar minnar lauk ég við að lesa mína fyrstu bók í heilu lagi á spænsku.

            Nei, hún er ekki eftir Cervantes og heitir ekki Don Quijote. En þetta er vitaskuld glæpasaga og heitir Lola Lago með undirtitil Vacaciones al sol.[87] Höfundar eru Lourdes Miguel og Neus Sans. Þetta er úr bókaflokknum Lola Lago detective. Flokkur þessi er gefinn út handa unglingum og er í sex þyngdarstigum sem heita hér nivel zero til nivel seis. Bókin sem ég lauk er nivel zero.

            Þrátt fyrir það er ég mjög stoltur!

            Búinn að kaupa mér tvær aðrar bækur. Önnur heitir Los tesores del bosque[88] og er um Roberto litla sem fær í fyrsta sinn sjö ára gamall að fara út í skóg með afa sínum að tína sveppi. Hún er fyrir sjö ára börn þannig að ég hef færst einu ári ofar í spænskunni. Svo var ég mjög djarfur og keypti mjög einfaldaða útgáfu af  Don Quijote, ætlaða unglingum. Það verður afrek sem verður fært til ferðabókar þegar þar að kemur.

 

Semana santa

Það er páskavikan. Í mínu ungdæmi var hún kvöl og pína. Ekki bara Jesúsar heldur okkar manna líka. Það var allt dautt og tómt. Sérstaklega á föstudaginn laaaaannnnga. Hann var laaaannnnggguuuurrrr. Það var allt lokað. Ekki einusinni hægt að kaupa tóbak nema útá Granda og í sjoppunni Flórída á Hverfisgötunni. Það var söluop því það var bannað að kaupa nammi innandyra í þá daga. Gæinn í Flórída var með opið en löggan kom reglulega og lokaði. Ef maður var heppinn var engin lögga nálæg og maður fékk kók og prins. Og sígó!

            En ég er í Elche.

Hér hófst semana santa laugardaginn fyrir pálmasunnudag með því að bærinn var gjörsamlega cerrado.[89] Ég fór út til að kaupa mér íbúfen og magnyl en það var allt lokað nema einstöku barir. Ekki einusinni vídeóleigan var opin sem þó er auglýst opin allan sólarhringinn allt árið. Fann að vísu apótek sem er opið allan sólarhringinn með bjöllu einsog var í den í Reykjavík. En valla sála á ferli á götum úti.

            Fékk sömu innilokunarkenndina í Reykjavík í gamla daga. Fór beint heim og tilkynnti fjölskyldu minni að í dag yrði haldið til Alicante. Þar hlyti að vera meira líf. Þetta var samþykkt. Lágum þar á ströndinni í góðu yfirlæti. Nú kunnum við líka að þekkja strandþjófa frá heiðarlegu fólki. Þeir eru ekki klæddir til að fara á strönd heldur dökkklæddir. Og þá tekur maður um muni sína.

            Og svo var þarna íðilfögur brjóstaber ung kona. Ekki orð um það meir!! Þegar ég hafði orð á þessari brjóstfögru konu um kvöldið kom í ljós að Jón hafði veitt henni athygli en Steinunn allsekki og spurði af hverju ég hefði ekki sagt henni frá þessu. Haldiði að það sé nú?

            Um kvöldið fórum við Steinunn á blústónleika á Bláa munknum og heyrðum í Tonky Blues Band. Hörkutónleikar. Tonky de la Peña leikur á gítar og syngur og með  honum var Luca Frasca á hljómborði, Paul Larnaudie á bassa en nafn trommarans man ég ekki en hann var flottur. Þetta er svona rokkarablús enda segir Tonky á að hann sé undir áhrifum frá Muddy Waters og Jerry Lee Lewis. Þessvegna er Got my Mojo Working dáltið rokkað hjá Tonky! Keypti af honum tvo diska.

            Jæja. Tónleikar hefjast eftir miðnætti og þeim lýkur um þrjú um nótt. Morguninn eftir var því ekki vaknað mjög snemma. En við Steinunn komumst út hálftólf til að skoða Semana santa. Og það sem þessir kaþólsku gera! Það er ekkert venjulegt.

            Það fór prósessía um alla borg. Byrjaði einhversstaðar en lauk eftir 2-3 klukkutíma á torginu fyrir framan aðalkirkju borgarinnar, kirkju heilagrar Maríu. Gangan var svo löng að aldrei sá milli enda. Hún var margskipt og í hverjum hluta var hljómsveit með miklum trommutakti og lúðrablæstri og líkneski á risastórum börum (los pasos) sem fjöldi manna bar á herðum sér og var að sligast undan þunganum. Þeir eru kallaðir los penitentes, iðrandi syndarar). Og pálmaskrautið. Menn báru með sér útskorin pálmalauf, gerð af þvílíkri list að annað eins hef ég ekki séð. Við keyptum okkur reyndar svona skraut, vitatrúlaust fólkið, en maður verður að vera með. Steinunn fékk sér meira að segja oggulítið pálmaskraut til að setja í barminn og fékk meira að segja gefins baldursbrá til að bæta við.

            Jæja, svo var þetta búið og okkur langaði að hjóla. Við þessvegna öll saman í hjólageymsluna í Altamira, sóttum hjólin og heimsóttum nokkra smábæi og þorp. Fengum okkur mixto y café solo[90] í þorpinu Dolores eftir að hafa ekið um sveitirnar og gegnum bæinn Sant Felip Neri en þar var ekkert kaffihús í  sjónmáli. Það var svoooo gaman að aka hjóli! Nú gekk miklu betur að rata en áður enda við sjóuð í akstri og ratvísi okkar verður betri með hverjum deginum sem líður.

            Eftir að hafa étið heima hjá okkur kiðlingalæri sáum við í imbanum beina útsendingu frá Elche. Það voru meiri páskar. Við oní bæ. Og þvílíkt. Það sem var í morgun var barnaleikur á móti þessu. Það er erfitt að lýsa þessu en ég reyni. Ég tók líka vídeó sem á eftir að sjá hvernig heppnaðist. Það kemur þá á vefinn minn.

            Enn var gangan margskipt. Hljómsveitir og búningaklætt fólk og þessi á milli líkneski borin á skreyttum pöllum. Það eru jesúar og maríur og allskyns þannig fólk. Allt fór greinilega eftir settum reglum og mjög hægt og settlega. Fremst í hverjum hluta var stjórnandi sem stýrði sínu liði með því að slá í bjöllu. Hersingin stansaði af og til, gekk hægt og rólega í hlykkjum. Öllu lauk í kirkju heilagrar Maríu einsog um morguninn. Þar var öllu dótinu komið fyrir. Mikið var burðarfólkið hvíldinni fegið og mátt sjá menn reykja á miklu innsogi, éta samlokur og síðast en ekki síst hvolfa í sig bjór. Lausir við byrðar daglegs amsturs og búnir að þjóna guði sínum.

            Og allt er þetta í beinni útsendingu á Local Elche sjónvarpsstöðinni. Það er nebblega svo sniðugt með kaþólskuna að maður má gera allan anskotann með góðri samvisku ef maður bara skriftar með reglulegu millibili.

            Við Steinunn enduðum inní kirkjunni og fylgdumst með fólkinu þreyttu setja byrðar sínar á sinn stað. Þar sáum við líka pallinn með líkneskjum af síðustu kvöldmáltíðinni sem væntanlega verður borin um götur borgarinnar á skírdag.

            Því þetta í dag er bara byrjunin á Semana Santa! Mest sorgin verður væntanlega á föstudaginn langa (nógu sorglegt var í dag, ég reikna með að borgin gráti öll á þeim langa og götur verði hálar af tárum) en á páskadag mun ríkja gleði og mikil kátína því þá verður Jesús upprisinn heim til pabba síns á himnum og allt í lukkunnar velstandi.[91]

            Svona er lífið!

            Á miðvikudeginum var sama uppá teningum. Og þessar skrautgöngur hlykkjast um alla miðborg á hverju kvöldi alla vikuna nema á laugardeginum fyrir páska. Þá er ekkert. Allar fara þær frá kirkju sem er steinsnar frá heimili okkar og enda við kirkju heilagrar Maríu. Og standa yfir í þrjá til fjóra klukkutíma!!

            Þetta hefur lítið með trú að gera, sýnist mér. Ég sá vefkönnun að rúmlega 30% svarenda létu sig trúna einhverju skipta. Að vísu ganga trúaðir aftastir með kerti. Þetta er fyrst og fremst sjó. Allskyns bræðrafélög borgarinnar og trúfélög eru með sín atriði í göngunni. Það er klappað eins og á kappleikjum þegar vel tekst til og áhorfendur standa við göturnar eða sitja á klappstólum sem borgin útvegar eða einfaldlega hafa með sér stóla að heiman. Þetta er keppni milli bræðrafélaga. Þetta er keppni milli borga. Blöðin eru undirlögð af umfjöllun.

Ég las í blöðunum í gær að í bæ í Alicante héraði, Crevillante, er til nokkur hundruð ára gamalt gifslíkneski af honum Jesúsi heitnum. Bæjarbúar höfðu áhyggjur af því að styttan væri skemmd og þyldi ekki gönguferð. Því var skutlast með hana á sjúkrahús í Alicante þar sem henni var rennt gegnum sneiðmyndatæki til að ganga úr skugga um að hún þyldi að vera borin um götur bæjarins!

            Þessi kaþólska kirkja er best heppnaða PR-trikk sögunnar!

 

Við erum að byrja að koma fólki spænskt fyrir sjónir

Um daginn komum við inní búð þar sem maður fæddur í Bangla Desh afgreiddi en hafði verið búsettur í Svíaríki í mörg ár en býr semsagt núna í Elche og er búðaloka. Hann sá strax á okkur Steinunni minni að við værum frá Norður-Evrópu. Notaði tækifærið og prataði svensku og var harla glaður. Honum hafði ekki líkað lífið í sænska velferðarríkinu og flutti hingað.

            Í kvöld vorum við Steinunn mín hinsvegar á leið heim frá því að skoða páskagöngu tvö í borginni og kom að okkur maður og bað um eitthvað. Ég skildi hann ekki og sagði honum að ég talaði litla spænsku og bað hann að tala hægar. Hann endurtók mál sitt og var að biðja um eina evru fyrir kaffi. Ég skildi hann þá og Steinunn líka og sögðum Si en þá rétt vinurinn fram tvo putta og sagði tvær evrur. Verðbólgan á Spáni, maður! Hann fékk eitthvað á þriðju evru og hvarf á braut, ekki segjandi takk. Hann var greinilega þroskaheftur.

            Svo á leiðinni yfir brúna kom ungur drengur að máli við okkur og spurði que hora es sem þýðir hvað er klukkan. Hún var hálftólf og við sögðum honum það: Son las once y media. Hann sagði Gracias og við De nada.

            Niðurstaðan er þessi: Við erum orðin það spænsk í útliti að þroskaheftir og börn sjá ekki muninn á okkur og ‘öðrum’ spánverjum.

            Sjáiði. Þetta er allt að koma!!

 

Um hringa

Þessi hluti fjallar ekki um auðhringa. Ekki um hringamyndun á Íslandi sem væri þó þarft. Hann fjallar um hringa á fingur. Ég keypti mér nefnilega tvo í dag. En það kemur síðar. Fyrst þetta.

            Ég á fallegan gullhring með grænum steini með rauðum doppum. Ber hann á baugfingri vinstri handar. Steinninn heitir blóðsteinn. Steinunn gaf mér hann í Kaupmannahöfn fyrir löngu síðan.

            Pabbi minn heitinn átti gullhring með svörtum steini og svo náttlega giftingarhring.

            Einhvern tíma eftir útförina kom ég til mömmu eitt sinn og hafi augastað á hringnum hans pabba. Við stóðum fyrir framan þar sem mamma geymdi hringinn  innanum um nokkra tugi hringa sem hún átti sjálf.

            Ég segi sisvona: Mig hálflangar í hringinn hans pabba.

            Langar þig, segir þá mamma. En þú átt hring!

            Þú átt hring, endurtók ég í huganum og horfði á hringasafnið hennar mömmu. Karlmenn eiga hring en konur hringa.

            Svo kom í ljós að hún hafði hugsað sér að Freyr bróðursonur minn fengi hringinn og ég er ánægður með það.

            ¡Vale! Hverfum aftur til Kaupmannahafnar. Við Steinunn mín vorum þar saman á aldarafmæli dönsku kennarasamtakanna í boði þeirra og HÍK. Ég sá þennan fallega hring í búðarglugga Guldringens ofarlega á Strikinu. Fór inn og mátaði hann. Hann var reyndar of stór. Og svo dýr að ég fékk bakþanka.

            Steinunn rak mig svo útúr búðinni. Skömmu seinna settumst við á háskólakrána á Grábræðratogi, hún heimtaði rauðvín og afhenti mér hringinn. Ég fór hjá mér. Einstæð móðir að eyða stórfé í hring handa mér en mjög glaður. En ég var náttlega einstæður faðir svo það var jafnt á komið með okkur.

            En semsagt, hringurinn var of stór sem fyrr sagði en við vorum að fara heim daginn eftir svo enginn tími var til að fá hann minnkaðan. Hann skrölti á mér einsog handjárn.[92] En ég reiknaði með að það væri hægt að fá hann minnkaðan á Íslandi.

            En þegar til kom vildi enginn gullsmiður í Reykjavík minnka hringinn því þeir voru hræddir um að brjóta steininn sem er mjög stór.

            Jæja. Þuríður, spúsa Þórólfs, var á leið til Köben stuttu seinna og tók hringinn með sér og lét minnka hann. Ein minnkun var innifalin í verðinu. Þegar hún kom heim aftur kom í ljós að hringurinn var enn of stór.

            Jóhannes frændi minn Ágústsson var næstur til að fara til Köben með hringinn minn. Hann fór í Guldringen og kom svo heim aftur og tilkynnti mér að einungis ein minnkun hefði verið innifalin í kaupverði hringsins einsog ég vissi og að önnur kostaði 2000 krónur íslenskar. Hann hafði þá spurt hvað hringurinn hefði kostað upphaflega. Þegar honum var sagt að það hefðu verið 18 þúsund íslenskar fannst honum gjaldið fyrir minnkunina of hátt miðað við upphaflegt verð hringsins og kom því með hann óbreyttan heim.

            Ég man þetta orðrétt því ég varð gjörsamlega orðlaus þegar hann hélt þessa ræðu fyrir mér. Ég meina, hann vissi að ég gat ekki notað hringinn! Og tvö þúsund kall!! Váá.

            Næst var frændi hennar Steinunnar minnar, hann Árni bóndi í Útvík, að fara til náms í Köben að læra einhvern anskotann. Hann var beðinn um að bjarga málunum. Þá loks gekk þetta upp og síðan hef ég haft hringinn góða á baugfingri vinstri handar.

            Hverfum þá ennáný til Elche. Vorum niðrí miðbæ, gengum framhjá búð með glingri. Steinunn vildi fara inn og við Jón fórum með. Að vísu sagði Jón:

            Ég þoli ekki kellingabúðir!

            Ég benti honum á að þarna voru líka seldir ermahnappar og bindisnælur. En svo fattaði ég að konur nota líka svoleiðis gripi. Svo sá ég hring og annan. Sá fyrri var í KR litum en hinn voða nettur með leðurreimum.

            Ég keypti þá báða. Þennan svarthvíta ætla ég að nota þegar ég fer á völlinn en hinn dagsdaglega.

            Skilaboð til mömmu: Karlmenn mega eiga hringa til skiptanna einsog konur!

 

Bolsas, gasolina y vino blanco[93]

Hvað á þetta þrennt sameiginlegt? Jú, Steinunn sameinar þetta þrennt.

            Um daginn fóru þau mæðginin í Aljub mollið en ég sat heima og fór yfir ritgerðir. Þegar þau voru rétt komin útúr Altamira drap hjólið hans Jóns á sér og vildi ekki í gang aftur. Þau álitu að það væri bensínlaust. Steinunn fór því á bensínstöðina á Járnbrautargötunni þar sem henni var selt bensín í plastpoka með stút á. En í sama bili og hún fékk pokann í hendur kom Jón á hjólinu. Hafði komið því í gang þrátt fyrir allt. Vale, besta mál.

            Jæja. Daginn eftir sátum við á veitingahúsi í Parc Deportivo þegar Steinunn var að segja frá þessu með bensínið sem var selt í plastpokum.

            Nú, næst gerist það að Steinunni langar í annað glas af hvítvíni. Við urðum öll undarleg í framan, ég, Jón og gengilbeinan, þegar Steinunn bað um:

            Una bolsa de vino blanco, por favor.[94]

            Þetta leiðréttist nú allt fyrir rest og frúin fékk vínið, í una copa[95].

            Við Jón stríddum henni reyndar aðeins. Ef hún ætlaði að halda til streitu að fá vín í poka ætti hún annaðhvort að kaupa sér poka á bensínstöðinni og hafa með sér á veitingastaði eða að minnsta kosti biðja um una bolsa de plástico.[96]

 

Lentum í löggunni

Á föstudaginn langa fórum við Steinunn mín að rúnta um bæinn til að leita að hraðbanka þar sem hægt væri að borga símareikning. ONO gefur manni bara færi á tveimur bönkum en þeir hafa mörg útibú.

            Við semsagt ókum milli þeirra en urðum að játa okkur sigruð. Það var hvergi hægt að borga reikninga. Samt var lesari fyrir strikamerki í þeim öllum.

Fyrir utan einn bankanna var maður sem sagði okkur að sá banki yrði opinn morguninn eftir frá 8.30 til 10 og þá væri hægt að borga reikninga.

            Komum við á bensínstöðinni uppá Járnbrautargötu rétt hjá rútubílastöðinni. Ég var að verða bensínlaus.

Þannig háttar til þarna að til að komast inná bensínstöðina þarf að beygja til vinstri frá Járnbrautargötunni, um hringtorg og niður aðra götu og þar inná bensínstöðina. Ég nennti því ekki og ók aðeins á móti umferð í aðrein að rútubílastöðinni og þaðan inná bensínstöðina.

            Og þegar ég var að fara að setja bensín á kom lögregluþjónn og benti á hvað ég hefði gert rangt og hótaði að sekta mig, líklega ef ég gerði þetta aftur. Steinunn fékk svo sama boðskap en kom af fjöllum því hún hafði bara elt mig og haldið að svona ætti að fara að.

            En við sluppum semsagt með skrekkinn. En mér sýndist að löggunum þætti þetta bara gaman. Þær voru nú orðnir sex þarna.

            Jæja, en ekki tók betra við. Til að komast aftur oní bæ þarf að snúa við og aka vestur Járnbrautargötuna til að komst niðrá Libertadstræti. Þá ekur maður fyrst smá í austur, snýr svo við til að komast á akreinar sem liggja í vestur. Þar lentum við á rauðu ljósi. Frá því rauða ljósi eru ekki nema sex-sjö metrar að öðru rauðu ljósi. Ég stoppa þar einsog lög gera ráð fyrir á seinna ljósin en sé mér til skelfingar að frúin á rauðu vespunni ekur áfram sallaróleg einsog ekkert sé og skeytir engu um rautt ljós! Og við í sjónmáli frá bensínstöðinni þar sem krökkt var af löggum. Þeim hefði ekki verið skemmt hefðu þeir tekið eftir þessu en sem betur fer sáu þeir ekkert. Og enn sem betur var lítil umferð og frúin ekki í neinni hættu.

            Þegar ég loks náði Steinunni og sagði henni frá þessu var hún enn sem fyrr að koma af fjöllum, hafði ekki tekið eftir seinni ljósunum og var helst á henni að skilja að þetta væri skipulagsyfirvöldunum Elche að kenna að hafa ljósin svona bjánalega þétt!

            Svo ókum við niðrá Götu Viktoríu Drottningar til að skoða enn einn bankann. Á Viktoríu er einstefna í austur og haldiði ekki að rauða frúin hafi ekið hikstalaust í vestur á móti umferðinni!!

            Ég fór nú bara fimm metra, sagði hún hneyksluð þegar ég hafði orð á þessu við hana einsog þetta væri hrein smámunasemi í mér. Þá sá ég samstundis að bakvið þetta var einbeittur brotavilji og stakk uppá að við fengjum okkur kaffibolla einhversstaðar til að róa taugarnar. Mínar alltso!

 

Nautaat í Murciu

Laugardaginn fyrir páskasunnudag var nautaatið í Murciu. Þetta var reyndar ungnautaat. Ég vaknaði að vísu eldsnemma til að finna bankann þar sem hægt væri að greiða símareikning. Villtist og kom að bankanm þegar búið var að loka. Nema aldrei hafi verið opið. Sem er eins víst.

            Fór á fatamarkaðinn við Plaza Barcelona en hann var ekki merkilegur. Fór heim að éta aðeins meira en ákvað svo að skila hjólin í geymsluna og fara uppá þak í sólbað þar til komið væri að ferðinni til Murciu.

            Oft höfum við hlaupið í lestina og verið á síðustu mínútu en sammæltumst um að vera það ekki núna. Gengum tímanlega útá götu í þessari blíðu. Ég á stuttbuxum og við með nægan tíma framundan. Segir þá Steinunn:

            Ertu með miðana?

            Ég hélt hún ætti við lestarmiðana og sagði nei. Við kaupum þá á Carrús stöðinni.

            Miðana á nautaatið, sagði þá Steinunn.

            Nei, ég var ekki með þá. Þeir voru heima. Og hvað ég hljóp!!

            En við náðum lestinni og komumst til Murcia. Og á Plaza Toros. Á la corrida.[97]

            Fyrst þurfti að borða. En veitingastaðir í Murciu er lokaðir frá fjögur til átta. Einn geðgóður gæi á ítölskum stað tjakkaði á pitsuofninum sínum en hann of kaldur. Annars hefði hann smellt inn pitsu handa okkur. Benti okkur á hótel rétt hjá þarsem væri kannski hægt að fá eitthvað í gogginn. Það gekk eftir og við fengum nóg að borða hjá næs manni sem hablaði[98] español mjög hægt og okkur gekk mjög vel að skilja hann. Það var bara sumt á matseðlinum til reiðu en ekki annað. Við fengum samt nóg enda var þetta hinn vænsti maður og greiðagóður.

            Svo var nefinu stefnt á Plaza Toro. Þrír matadorar og sex naut. Það er venjulegur skammtur á svona ati. Hver matadori fær tvö naut að glíma við. Ég hef nebblega séð svona áður suðrí Estepona en fyrir mæðginin var þetta nýtt.

            Svona gengur þetta  fyrir sig í örstuttu máli: Atið hefst á því að matadorinn og aðstoðarmenn hans ganga inn á völlinn. Síðan er nautinu hleypt inn og aðstoðarmennirnir atast aðeins í því til skiptist og síðan matadorinn sjálfur og einn. Þá eru þeir með bleik klæði (verónica). Næst er komið að því að í nautið er stungið litskrúðugum pílum (banderillas). Svo er haldið áfram að æsa nautið með klæðunum. Loks koma menn á hestum og stinga dýrið með lensu. Loksins þá er komið að því að matadorinn tekur fram sverð og eldrautt klæði (muleta) og leikur listir sínar og loks drepur hann nautið. Þá koma menn með hesta og draga nautið burt og áhorfendur klappa hafi nautið sýnt baráttuvilja. Hafi matadorinn sýnt leikni veifa áhorfendur hvítum klútum og líta upp til forsetastúkunnar. Þar sitja þrír menn, forsetinn og tveir aðrir sem vanalega eru fyrrum nautabani og dýralæknir. Ef forsetinn leggur fram hvítan klút er annað eyra nautsins skorið af og afhent matadornum. Tveir klútar þýða að matadorinn fær bæði eyrun og þrír halann að auki. Það er afar sjalfgæft. Matadorinn gengur þá hring um völlinn og veifar verðlaunum sínum. Það er þá sem áhorfendur kasta inn höttum, blómum, vindlum og þvílíku. Höttunum henda aðstoðarmennirnir aftur uppí stúkuna.

            Einn matadorinn þriggja bar af. Hann var með flottar hreyfingar og sýndi mikið hugrekki. Það felst meðal annars í því að snúa baki við bolanum eftir að hafa egnt hann, reigja sig og teygja með miklum arrogans. Fara á hnén og láta bolann strjúkast við sig. Og síðast en ekki að vera fljótur að drepa nautið þegar að því kemur. Þessi eini var svo góður að í fyrra sinnið fékk hann annað eyra nautsins en í seinna skiptið bæði. Hann gekk svo rogginn heilan hring með eyrun og einstaka höttum og blómum var hent inn. Einn áhorfandi henti inn skjóðu af sangríu sem matadorinn og aðstoðarmenn hans drukku af við mikinn fögnuð áhorfenda. (Myndir sem Jón tók og lýsa atburðarrásinni eru komnar á vefinn minn. http://nemendur.khi.is/eiribryn/nautaat.htm).

            Eftir atið sáum við svo aðstoðarmenn hans bera matadorinn á herðum sér útaf leikvanginum gegnum mannþröngina sem hyllti hann.

 

Domingo de Resurección (upprisdagurinn, þ.e. páskasunnudagur)

Nú stendur eitthvað til. Þegar ég kom inní stofu klukkan rúmlega níu var búið að fjarlægja alla bíla á þeim hluta Ruperto Chapi þar sem við búum. Löggur á verði við götuna. Greinilegt er að gangan á að fara hér um enda hafði María minnst á það.

            Svo heyri ég hávaða einsog í flugeldum en sé ekki hvað er á seyði. Seinna komst ég að því að þetta voru fallbyssur. Hvernig á íslendingur að þekkja mun á fallbyssu og flugeldi? Sem betur fer kann hann ekki skil á fallbyssum.

            Á vefriti um nýjasta nýtt í Elche sýnist með að tvær aðalprósessíur séu í dag. Önnur með Maríu og hin upprisinn Jesú. Þær fara mismunandi stöðum og leggja af stað klukkan ellefu, hittast niðrí bæ klukkan eitt og fara svo prúðbúin hvort í sína kirkju í geymslu þar til á næstu páskum.

            Sífellt fjölgar fólki á gangi um götuna okkar, prúðbúð flest. Svo birtist gangan með styttu af henni Maríu heitinni, mömmu hans Jesúsar. Gangan færist um tíu tólf skref og stansar svo. Fólk birtist á svölum og gluggum og kastar út jesú- og maríumyndum í öllum regnbogans litum. Sumir hafa líka klippt sundur álpappír og láta þessu snjóa yfir mannfjöldann á götunni.

            Ég elti niðrí miðbæ. Gangan fór löturhægt og allstaðar rigndi pappír. Ég sá fólk uppí gluggum með kassa og meira að segja konu með lítinn þvottabala ausa pappír úr glugga á fimmtu hæð rétt við Plaza Glorieta. Svalir eru skreyttar með spænska fánanum og sumir láta jesúmynd yfir hann. Fyrir mér voru þetta ekki páskar heldur bara hátíð. Það var ekki fyrren ég kom heim að verða tvö og Jón sagði gleðilega páska að ég áttaði mig á því að þetta voru páskar en ekki 17. júní.

            Svo klukkan tvö var allt búið. Styttur komnar heim til sín í kirkjur, fólk a la casa að borða comida, göturnar teppalagðar með pappír, börn tíndu jesúmyndir í plastpoka en innan skamms var heinsunardeild borgarinnar komin á fulla skrið. Þeir ryksuguðu og sópuðu pappírnum saman og innan skamms var allt orðið hreint og fínt á nýjan leik.

            Og fólk hópaðist á veintingahúsið en la tarde.

            Svona er páskarnir hér í Elche!

            Annars eru páskar líka vika ferðalaga einsog á Íslandi. Núna var herferð glæfralegum akstri og ölvunar. Óeinkennisklæddar löggur í ómerktum löggubílum voru á ferðinni alla vikuna. Á annan í páskum mátti sjá fólk á leið heim úr ferðalögum.

            Hér virðist ekki mikið um páskaegg. Þó tókst Steinunni að finna þau í Eljub um daginn. Aðalhefðin hér er að kaupa la mona de pescua, páskabrauð. Líkist fransara á bragðið, örlítið bragðmeira, bollulaga, sykurhúðað og með harðsoðnu eggi í miðjunni, gröfnu oní brauðið. Ef brauðið er stórt þá er notað alvöruhænuegg en á litlum brauðum eru akurhænuegg. Spurning dagsins í La Verdad í dag var hvort menn iðkuðu þennan sið að kaupa la mona de pescua. Þrír af fjórum aðspurðum héldu fast í þennan sið.


 

Sjötti kafli:

Um klukkur

Steinunn mín fékk snert af tannpínu um daginn eftir að fylling datt úr jaxli. Hún tölti af stað oní bæ en hér er næstum jafnmikið um tannlæknastofur og gleraugnaverslanir einsog bensínstöðvar í Reykjavík. Þetta var fyrir páska. Allt gekk vel og næsti tími var þriðjudaginn eftir páska klukkan 11.30. Gracias.

            Svo leið páskavikan með öllum þeim látum og á tilsettum tíma fór frúin til tannlæknis en kom skellihlæjandi heim korteri seinna.

            Þetta var snöggt, sagði ég.

            Nei, ég kom klukkutíma of seint, gargaði hún, enn hlæjandi.

            Ég skildi ekkert en eftir nokkar samræður á tannlæknastofunni kom í ljós að Spánverjar höfðu tekið upp sumartíma á laugardeginum án þess að láta okkur vita. Alla helgina höfðum við verið á vitlausum tíma!

            Þetta minnir mig á klukkuvandræði okkar Agnars vinar míns Kristinssonar í Barcelona um árið. Við vorum á leið til Alicante á Comeniusar fund.

            Fórum frá Keflavík til Lundúna og sáum fram á nokkurra klukkustunda bið þar. Settumst á krá með Merði Árnasyni. Hann var þá nýkjörinn á þing og var að fara í frí hjá einhverjum hjarðsveinum suðrí Arabíu til að jafna sig eftir kjörið. Ég lofaði honum að skrifa skæting um spurningarmerkin nýju orðabókinni sem hann annaðist og hann lofaði að taka því með vinsemd og svara mér með öðrum eins skætingi[99]. Enda var ég búinn að hæla honum þótt það sé vitaskuld Arni Böðvarsson sem eigi mesta hólið skilið. Og þar urðum við sammála. Með þessu drukkum við tvo bjóra. Eða þrjá! En alla stóra.

            Næst gerist það að við Agnar gleymdum að flýta úrunum við lendingu í Barcelónu með þeim afleiðingum að við misstum af fluginu til Alicante. Sko, maður er vanur því frá Flugleiðum að flugstjórinn segi hvað klukkan er á áfangastað. En það var ekki gert hjá Iberiu. Héldum að við hefðum nægan tíma og dóluðum okkur, reyktum en litum loks á skjáinn. Þá kom í ljós að vélin okkar var farin.

Jæja, en önnur vél var tilkynnt til Alicante tveimur tímum seinna og við fórum að afgreiðsluborði Iberia. Fengum miða í þá vél en vorum sektaðir um 50 evrur hvor fyrir að missa af flugi!

Oft hef ég misst af flugi en aldrei verið sektaður fyrir það fyrr en í þetta skipti. Einu sinni misstum við Guðmundur skólastjóri Austurbæjarskóla af flugi í Róm á leið til Sikileyjar eitt sinn af því við þurftum að reykja á milli flugvéla. Rómverjunum fannst þetta bara sniðugt og sögð okkur að reykja meira og taka næstu vél klukkutíma seinna.

En hvað um það. Fyrir utan að rukka okkur Agnar í Barcelónu voru starfsmenn Iberiu mjög dónalegir. Þegar samskipunum lauk að ég skellti einni evru á afgreiðsluborðið sem þjórfé fyrir góða þjónustu. Svo gengum við hnarreistir að brottfararhliðinu en öskuill afgreiðslukonan elti mig um alla  flughöfnina með evruna og heimtaði að ég tæki hana aftur. Ég hélt nú ekki. Hún er enn á flugvellinum í Barcelónu. Ég hef að vísu ekki gáð að henni.

            Og þegar við lentum í Alicante tók löggan á móti okkur. Kippti Agnari inn fyrir og harðbönnuðu mér að koma. Otuðu mér burt með byssum þegar ég vildi gá að Agnari. Töskurnar höfðu komið með réttri vél og þeir töldu okkur líklega vera smyglara. Hugsa ég. Annars vissum við ekkert. Á þessu stóð í tvö tíma!

            Þess vegna komum við um miðja nótt á hótelið okkar, glorsoltnir, og eyddum tveimur tímum í að finna eina opna matsölustaðinn í borginni þar sem vinalegir svertingjar seldu okkur afrískar samlokur og bjór og horfðu hissa á okkur rífa í okkur matinn græðgislega.

            Þetta kennir manni að hafa klukku rétt stillta.

 

Stíflað klósett

Einn góðan veðurdag sem gat hafa verið hvaða dagur sem er því hér er alltaf gott veður gólaði Steinunn mín sem heldur er ekkert tiltökumál. En nú komu tvö gól, hvort á eftir öðru. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

            Anskotinn, hugsaði ég með mér, það er ekki vinnufriður fyrir þessu. Var að fara yfir ritgerðir. Verð víst að sinna húsbóndaskyldunum og settla málin.

            Í ljós að það bara klósettið sem var stíflað. Það var allt og sumt. Ég greip til þess ráðs að hæla kvenkyninu fyrir úrræðasemi þegar kemur að svona tæknilegum vandamálum með þeim afleiðingum að Steinunn mín tók að sér að bjarga þessu. Ekki mátti sannast að bara kallar gætu anast svona hluti!

            Steinunn fór til lyklasmiðsins væna handan götunnar. Hann nefnilega smíðar lykla, selur kaffikönnur, ljósaperur og allt á klósett. Líka spjöld sem stendur á Íbúð til sölu og Íbúð til leigu. Og hurðir, ýmislegt rafmagnsdót og så videre. Hann er töframaður í mínum augum. Þar eru líka oft kallar að tala saman því Spánverjar hafa svo gaman af því að tala.

            Steinunn kom skömmu síðar með eitur sem hún hellti í klósettskálina. Lyktin af eitrinu var mjög vond. Minnti mig á þegar ég vann hjá Vitamálastjórn ungur maður og fékk það verkefni að grafa upp skólpleiðslu sem hafði verið stífluð í marga mánuði í gamalli skemmu í Kópavogi, alveg frá klósetti og oní sjó. Það var erfitt að grafa með skóflu og halda fyrir nefið um leið. Þá nýtti ég mér tækni frá barnæsku.

            Í Skaftahlíðinni í kringum 1960 höfðum við strákarnir fundið pakka sem í var efni með afar vondri lykt. Sennilega baneitraður anskoti. Fórum í keppni um það hver gæti haft pakkann lengst við nefið og sogið að sér. Ég vann. Ég var í þá daga ævinlega með svo mikinn hor í nefinu að það dugði mér að kreista nasirnar til að þær lokuðust gjörsamlega og ég gat þóst vera að þefa en fann samt enga lykt!

            En eitrið frá lyklasmiðnum dugði sumsé ekki og eftir síestu fór frúin aftur yfir götuna. Kom hlæjandi til baka. Hún er svo hláturmild! Inni hjá lyklasmiðnum hafði verið nágranni okkar, feitur gæðakall sem oft er á kránni hjá Pepe. Hann tilkynnti Steinunni að það væru oft vandræði með klósett í húsinu. Ekki skildi Steinunn ástæðuna en granninn okkar góði þekkti mann sem gæti bjargað okkur enda byggi sá í húsinu. Hann væri að vísu sofandi núna enda síesta en þeir kæmu klukkan átta.

            Þeir komu klukkan sjö. Ég var þá að erinda niðrí bæ en kom heim stuttu seinna. Þá var granninn inná klósetti en vinur hans kraup fyrir framan klósettskálina með hendina á kafi í vatninu – hafnaði því að fá uppþvottahanska – og blautur uppað olnboga var hann að kraka með skrúfjárni kalkúrfellingu sem hafði safnast saman oní klósettinu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð mann losa stíflu með berum höndum. Og skrúfjárni reyndar.

            Korteri seinna var allt komið í lag.

            Mucias gracias. ¿Cuánta costa?

            Manaña, sagði hinn og var ekkert að hugsa um peninga en þegar við sögðum honum að við værum að fara til Aþenu daginn eftir sagði hann feimnislega:

            Cuarento y cinco euros.[100]

            Svona bjargast allt með góðra manna hjálp í Elche.

 

Um að strauja

Þegar við Steinunn mín vorum að byrja að snerta hvort annað um 1987 þá veitti hún því enga athygli að mér finnst gaman að horfa á fótbolta, bæði á velli og í sjónvarpi.

            Eftir að við fórum að búa saman kom þessi löstur minn berlega í ljós og fannst henni ég vera svikin vara, einkum á laugardögum þegar enski boltinn er sýndur. Hún sættir sig betur við KR-leikina því þá fer ég að heiman. Hún hafði orð á þessu en ég hafði ráð undir rifi hverju og svaraði með því að taka fram strauborðið og strauja flíkur og allt annað sem þurfti að strjúka meðan ég horfði á enska boltann. Þetta hefur síðan verið kallað straubolti og róaðist Steinunn og síðan hef ég horft á fótbolta í góðu næði.

            Strauingar á Ruperto Chapi eru allt annar handleggur. Það er ekki eins mikið straujað enda enginn fótbolti til örvunar. Að auki þarf að breiða sérsaumaða klúta yfir eldhúsborðið sem er mjög lágt þannig að ég þarf að beygja mig við verkið. Ég er viss um að vinnueftirlit Spánar tæki af mér járnið ef þeir ættu leið hjá.

 

Lóan er komin

Einn nemandi minn í fjarnáminu sagði mér í dag að lóan væri komin til Íslands. Þó að vorið sé löngu komið hingað þá gladdi þessi frétt mig. Ég meina, þó ég hafi étið lóur í Kína þá vaknar eitthvað innra með manni þegar lóan kemur. Þótt hún sé að koma norður í rassgat meðan ég er í suðrænni sól og sælu.

            Þetta er bara svona.

 

Brúnkan mín

Ég er orðinn svo brúnn að fari ég nakinn á strönd vekti ég aðeins athygli fyrir mjög frumlega og afskaplega hvíta sundskýlu.

            Nei, hafið engar áhyggjur. Ég geri þetta ekki!

 

Ferðasaga í ferðasögu

Nú hefst ferðasaga innaní ferðasögunni. Við erum sumsé að fara til Aþenu. Ég á Comenius fund en þau Steinunn og Jón að leika túrista.

Vöknuðum snemma. Tókum lest til Alicante og svo þaðan til Barcelonu. Þar gistum við á hóteli ofarlega á La Rambla. Það gerðist svosem ekkert þar enda vorum við á leiðinni annað. Barcelona var óbreytt

Daginn eftir flugum við til Aþenu. Pilar og Adelide frá Alicante voru í sömu vél og við settumst saman og ræddum á spænsku. Flugið gekk vel. Ég hafði komið tvisvar áður til Aþenu og í bæði skiptin undrast að flugvöllurinn þar er bara á stærð við frímerki. En eftir ólýmpíuleikana er allt breytt. Stór flugvöllur, lest oní bæ og fullt af flottum hraðbrautum. Og við fréttum seinna að þeir eru enn að borga reikningana og búast við að barnabörnin geri það líka.

Okkur hafði verið sagt að hringja í Dinu þegar við lentum í Aþenu og hún sækti okkur á Syntagma torgið sem er fallegt torg fyrir framan þinghúsið í Aþenu og færi með okkur á hotelið. En Dina svaraði ekki svo við tókum lestina niðrí bæ. Fundum ekki Dinu og tókum því leigbíl á hótelið.

Daginn eftir komu Grikkirnir á hótelið okkar á bílunum sínum til að aka okkur til Delfí að skoða véfréttina. Það æxlaðist þannig að við fengum far með Charis Konstanellias sem átti eftir að verða góður vinur okkar. Einstakur maður. Meir um það seinna.

Ég ætla ekki að lýsa Delfí. Það er líka mjög erfitt. Delfí er á afar fallegum stað, í fjallshlíð en undir er grösugur dalur og há og flott sítrustrén standa einsog varðmenn um allt. Sagan segir að Seifur hafi valið þennan stað því hann var miðja heimsins. Nafli alheimsins. Á safni þarna er einmitt steinn sem heitir Nafni alheimsins.

Þetta var löngu áður en nokkrum lifandi manni datt í hug að Ísland væri til. En undarlegt nokk – núna halda Íslendingar að Ísland sé nafli alheimsins! Hvílíkt og annað eins. Hvílíkir asnar!

Fólk kom til Delfí til að fá fréttir um framtíðina. Ef spáin rættist ekki þá var það vegna þess aðh hún var vitlaust túlkuð. Og fyrir þetta borguðu menn og með tímanum varð Delfi rík. En svo komu Rómverjar og stálu styttum til að skreyta Róm og loks bannaði kirkjan allt saman og staðurinn meira og minna gleymdist.

Æi, þessi kristna kirkja!! Hana get ég aldrei skilið. Það sem hún hefur ekki skemmt.

Um aldamótin 1900 byrjuðu franskir fornleifafræðingar að grafa í Delfí og laga til. Og enn er mikið starf óunnið. Þetta er eilífðarverk einsog Segrada familia í Barcelonu og miðbærinn í Reykjavík svo fátt eitt sé efnt.

Ég sá mikinn mun á staðnum frá því síðast. Safnið var fokhelt þá en fullbyggt núna. Og búið að endurbyggja margt sem áur var rústir einar.

Jæja, eftir þetta var ekið til strandbæjarins Galaxida. Þangað hef ég komið áður og við fengum mikla fiskiveislu sem ég þekkti frá fyrri tíð. Það var þessi líka fína máltíð. Charis á hús í bænum og við komum þar við. Þar á hann lítinn garð þar sem hann ræktar eitt og annað. Reyndar keypti konan hans húsið handa syni sínum en hann kemur aldrei þangað. Seinna kom í ljós að konan hans Charis á líka íbúðina í Aþenu. Og sonurinn er stjúpsonur Charis. Þetta eru eitthvað flókin fjölskyldubönd. Við þekkjum það svosem. Charis bjó í Þýskalandi lengi vel og kynntist þar konu sinni.

Á leiðinni stoppuðum við í fjallabæ nokkrum, fallegum og fengum okkur kaffi og uzo. Sá bær er skíðabær á vetrum.

Þegar komið var til Aþenu, borg með 4 milljónir íbúa, spurði ég Charis hvort ekki væri erfitt að rata um borgina. Hann svaraði að bragði:

Actually, I am completely lost.

En hann fann leiðina heim á hótelið fyrir rest eftir mög símtöl.

Daginn eftir var fundur í skólanum. Hann gekk mjög vel enda Pilar þreytt og gat ekki dregið hann á langinn og hin þýska Karla var heldur ekki komin til að flækja málin. Ég fékk miklar upplýsingar um gríska skólakerfið en þær verða ekki færðar í ferðasögu. Þær eru skráðar á öðrum stað.

Og svo koma ég heim á hótelið eftir fundinn og hvað sá ég. Nema Agnar á hótelbarnum. Það var mikið um faðmlög. Seinna um kvöldið var smáthöfn á hótelherberginu. Hún á sér forsögu.

Eitt sinn vorum vi Agna staddir á Hvítum í Kaupmannahöfn. Við vorum á leið heim frá fundi í Berlín. Sátum undir myndinni eftir Örlyg þegar Agnar þyrfti á kamarinn en villtist inní herbergið á hinni hlið kjallarans.

 

Vinnan

Best að klára það strax og svo ekki orð um það meir. Á hverjum morgni voru fundir eða skólaheimóknir klukkan 10. Við heimsóttum fimm skóla og fengum miklar upplýsingar, bæði frá Grikklandi og hinu fólkinu sem var með okkur. Það var frá Póllandi, Möltu auk Spáns og Þýskalands. Næsti fundur verður á Möltu í haust en lokafundurinn í Berlín vorið 2006.

            Við Agnar sýndum myndir um skóla án aðgreiningar á Íslandi og ég gerði grein fyrir íslenskuverkefninu sem ég er að vinna á Spáni. Í ljós kom það sem við vissum reyndar að Ísland er komið miklu lengra í inklusjón en önnur lönd. Til dæmis eru innan við 1% barna á Íslandi í sérskólum en á Grikklandi eru 11% talin með námserfiðleika en einungis helmingur þeirra eru í skóla. Hin eru bara heima! Þau fá ekki aðstoð í skólanu og einfaldlega hætta!

            Ég hitti grískan sérkennara sem kenndi bara grísku og sögu í sérkennslu. Nemendur þessa skóla sem þyrftu sérkennslu í til dæmis stærðfræði fengju enga. Ég spurði hana af hverju. Hún kynni alveg örugglega meira en þeir í stærðfræði.

            Vissulega, sagði hún. En ég er með háskólapróf í grísku og sögu en ekki stærðfræði. Þessvegna má ég ekki kenna stærðfræði þótt ég fegin vildi og gæti.

            Munurinn á Íslandi og Grikklandi er þessi: Í Grikklandi eru þeir skammt á veg komnir en gera áætlanir. Einuungis þrír nemendur með sérþarfir mega vera í hverjum bekk og þá er nemendum í bekknum fækkað verulega, allt niðrí 18. Slíkir bekkir eru kallaðir inclusion bekkir. Þetta er vandlega skipulagt.

            Á Íslandi er gefin út tilskipun: Heimaskóli fyrir alla. Kennarar geri svo og reddi þessu!

            Æi, og svo ekki meira kennaravæl. Lofa því. Það kemur í annarri sögu.

            Ég verð að nefna eitt. Yfirleitt borðuðum við í skólunum og ævinlega var vín borið fram með matnum. Það var ekkert tiltökumál.

            Nú vitna ég efnisins vegna í Steinar Sigurjónsson í stysta kafla sem til er í íslenskum skáldskap. Það er annar hluti fimmta kafla bókarinnar Blandað í svartan dauðann. Hann er svona: Íslendingar eru hænsn!

 

Gamall vinur minn á Monastiraki

Ég hef komið tvisvar áður til Aþenu sem fyrr sagði. Í fyrsta skiptið lenti ég á matsölustað niðrí Monastiraki hjá miklum manni, það er að segja feitum, krítverskum. Hann seldi mér góðan mat og á eftir krítverskan snafs sem heitir Cretan Tsikoudia. Þetta var árið 1996. Ég var þarna með tveimur hollenskum vinum mínum og langaði að sýna þeim hvernig stungið er úr staupi á Íslandi. Og gerði það svona vel að að sá feiti bar í mig ómælt Tsikoudia lengi vel. Ég komst samt heim á hótel Homero, tiltölulega óstuddur.

            Næst var ég þarna árið 1999 með Steinunni minni og Pétri tónmenntakennara. Heimtaði auðvitað að borða hjá þeim krítverska. Fékk þá staup gefins og litla karöflu í safnið mitt.[101]

            Núna kom ég að sjálfsögðu við á þessum sama stað. Torgið hafði stækkað og sólin skein sem aldrei fyrr og við sátum úti. En ekki sá ég vin minn feita, ekki fyrren ég fór inn að pissa. Þá var hann þar. Það urðu einfaldlega fagnaðarfundir. Við féllumst í faðma og hann mundi eftir kennaranum frá Íslandi. Og ég fékk mitt Cretan Tsikoudia og bráðum koma myndir af okkur vinunum á vefnum mínum. Og svo stal ég frá honuum staupi.

            Það er svo gott að þekkja sig á framandi stöðum.

            Í vínbúð einni daginn eftir keypti ég flösku af þess fína víni. Framaná henni er svarthvít mynd af fallega yfirskeggjuðum Grikkja.

            Jæja.

 

Einn dagpartur í Aþenu

Einn daginn eftir að hlýnaði fóru mæðginin oní bæ en við Agnar vorum eftir á hótelinu að vinna verkefni fyrir fundinn daginn eftir. Sátum á svölunum okkar Steinunnar því hefur Agnar ekki svalir og er reyndar hundfúll fyri því.

            Það var heitt og eftir að vinna í klukkutíma fórum við að velta fyrir okkur undankomuleiðum og afsökunum. Loks fannst ein. Agnar hafði lofað að kaupa eitthvað handa börnunum sínum einsog hann ætlar alltaf að gera en það endar oftast á því að hann kaupir bara tannbursta handa sjálfum sér. Ákváðum að fresta frekari vinnu þar til sól settist.

            Tókum metróinn niðrá Syntagma og gengum niður eina verslunargötuna sem liggur frá torginu. Fljótlega fór Agnar að verða svartsýnn á að honum tækist að kaupa nokkuð. Ég reyndi að hressa hann við og stakk uppá að við fengjum okkur mat á skyndibitastað. Fundum einn. Settumst. Pöntuðum. Stelpan sem tók pöntunina sagði að maturinn yrði eldaður strax. Nema hvað? hugsuðum við. Þetta er skyndibitastaður.

            Ég fékk rauðvínið strax og Agnar bjórinn sinn. Svo leið og beið langur tími. Við sötruðum og reyktum. Af og til kom stúlkan og maturinn var á leiðinni, sagðún.

            Loks datt okkur í hug að við yrðum að klára úr glösunum áður en maturinn kæmi. Ég kláraði vínið og maturinn kom. Agnar lauk við bjórinn og fékk sinn mat. Og urðum að fá meira að drekka. Þetta er dáltið flott aðferð!

            Eftir nokkrar umræður komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki skyndibitastaður heldur fyrsti hægbitastaðurinn í heiminum.

            Agnar keypti ekki fleira þennan daginn.

            Um kvöldið rauk hann hinsvegar inní túristasjoppu  í Plaka og dró mig með. Tilefnið var að gefa mér Liverpool-bol. Hann heimtaði það, blessaður Man united maðurinn. Reyndar var bara til bolur með Owen en einsog allir leikur hann núna með Real Madrid. En ekkert annað var til merkt Liverpool svo ég þáði þetta með þökkum. Takk, Agnar!

 

Hof, þríhyrningar, sólsetur, Skagafjörður og dauður köttur

Það er mörg hof í Grikklandi. Og þeir byggðu þau ekki bara þar heldur víðar. Til dæmis eru grísk hof á Sikiley. Og hofin í Grikklandi mynda þríhyrninga.

Þannig mynda Delfí, Maraþon og Ólympía í þríhyrning.

Dag einn fórum við ásamt öllum hópnum til Agínu en það er eyja rétt utan Pyrreus sem er hafnarborg Aþenu. Þar hef ég komið áður en núna sá ég nýtt. Við fórum í strætó inná miðja eyjuna og heimsóttum þar enn eitt hofið.

Það er margt gamalt í Grikklandi og strætóinn var eitt af þessum fornu minjum. Leiðin að hofinu lá í gegnum lítil þorp og bílstjórinn ók á ógnarhraða en flautaði fyrir horn einsog var gert í  Reykjavík þegar hún var þorp. Ég sat aftast í vagninum og þegar hann fór beygði krappar beygjur í fjallshlíð fannst mér stundum einsog þessi aftasti hluti ætlaði að verða eftir og skiljast frá fremri hlutanum.

Þetta hof myndar þríhyrning við Akrópólis og Póseidonhof í Sounion sem er syðst á Attikaskaganum. Þetta minnir mig á kenningar Einars heitins í Mími um þríhyrninga í Njálu. Þar áttu Hlíðarendi, Bergþórshvoll og minnir mig Ossabær að mynda þríhyrning. Ég man þetta ekki alveg en þríhyrningar hafa oft komið við sögu trúarbragða.

Við fórum sumsé næst til Sounion. Það var tveggja tíma akstur og við sátum í bíl vinar okkar Charis. Komum við á einum stað. Það er stöðuvatn skammt frá ströndinni. Við Steinunn komum þangað ásamt Pétri tónmenntakennara í Austurbæjarskóla árið 1999 vegna comeniusarfundar. Það sérstaka við vatnið er að það hefur stöðugan 23 gráðu hita, vetur, sumar,vor og haust, og í því eru miklir hellar og enginn veit hvaðan vatnið kemur.

            Þegar við komum til Sounion var farið að halla degi og meðan við sátum þar settist sólin í sæ með fallegum roða um himininn. Jóni varð á orði að þetta væri einsog í Skagafirði á fallegu sumarkveldi.

            Og þetta minnir á Þórðarhöfða, sagði hann og benti á eyju útá sjónum.

            Hvar er þá Drangey? spurði ég.

            Þarna, sagði Jón og benti.

            Jú, ég samþykkti það. Þarna var eyja með svipað vaxtarlag og Drangey

            Við horfðum áfram á sólarlagið, sem er eins á Attikaskaga og í Skagafirði, nema hvað Drangey sigldi burt enda var þetta skip en ekki eyja. En var á meðan var!

Filitsa sagði mér að Lord Byron hefði oft komið til Sounion til að yrkja og spurði mig hvort ég ætlaði líka að yrkja þarna.

Nei, sagði ég. Ég hugsa ekki.

En þessi staður hefur mikil áhrif á mann. Hann er á háum kletti syðst á Skaganum. Gnæfir yfir sjóinn og útsýni er á eyjar allt um kring. Eina eyjuna notuðu böðlar herforingjastjórnarinnar til að geyma og pynta pólitíska fanga, meðal annarra Mikis Teódórakis.

Jú, mér datt reyndar í hug ljóð. Ég er ekki búinn að semja það en það á að fjalla um furðu mína yfir þessari undarlegu áráttu manna til að eyða fé og fyrirhöfn í að reisa stórfenglegar byggingar til dýrðar guðum sem aldrei hafa verið til. Og menn eru enn að þessu. Hvað væri ekki jarðlíf mannanna betra og fallegra ef menn eyddu allri þessari orku í annað. Til dæmis að fæða og klæða og mennta þær miljónir sem skortir allt þetta.

Ég sagði Filitsu frá þessu á leiðinni til baka. Hún brosti og kinkaði kolli. Svo fengum við okkur bjór.

Á bakaleiðinni saúm við fólk sem var að reyna að komast inn en inngangurinn er kippkorn frá hofinu. En nei, hér er allt lokað eftir sólarlag. Menn koma sumsé hingað til að horfa á sólarlagið og þeir sem koma ekki tímanlega eiga ekkert erindi á staðinn.

Eftir þetta ókum við til baka til að borða á því sem Grikkirnir sögðu vera þjóðlegan stað. Ekki ókum við lengi þegar  bíll Charis tók skyndilega hlykki um veginn og var næstum búinn að velta. Síðan stöðvaði hann bílinn og sat hljóður og sagði ekki orð. Jón hafði veitt því athygli að eitthvert dýr, líklega köttur, hafði hlaupið í veg fyrir bílinn. Og Charis grét. Steinunn klappaði honum á öxlina en hann huggaðist ekki.

Loks komu Filitsa og Takis sem voru í næsta bíl á undan og þá fórum við líka út til að athuga hvað hafði gerst. Í ljós kom að Charis hafði ekið yfir kött sem lá dauður á veginum.

Við gerðum það eina sem hægt var að gera við dauðan kött. Færðum hann útfyrir veg. Síðan kom Charis og labbaði með Filitsiu að kettinum og þau dvöldu þar góða stund.

Hann ók hljóður af stað. Ég fann strax að einhver minning hafði komið þessum viðbrögðum hans af stað. Þau voru ekki skýrð með öðru. Seinna sagði hann mér að hann hafði misst hund í bílslysi. Hann var sífellt að biðjast afsökunar á þessu alla leiðina á veitingastaðinn þar sem okkur var boðið til kvöldverðar. Það endaði þannig að ég tók utanum þennan væna mann og sagði honum að þetta sýndi einfaldlega að hann væri góður maður. Þá fann ég að ég hafði eignast góðan vin. Það er ekkert víst að ég hitti hann oft á lífsleiðinni en það skiptir ekki máli ef tengslin eru góð og minningin dýrmæt.

Á leiðinni heim frá veitingastaðnum var ákveðið að stansa á jógúrtstað. Grikkir hafa það fyrir sið að koma við á á leið heim eftir kvöldverð og lepja jógúrt sem er til sölu alla nóttina á svona stöðum. Reyndar urðu Steinunn og Jón Haukur húkkt á grískri hreinni jógúrt og éta hana í morgunmat í Elche lon og don og hella hunangi yfir.

 

Miklir sölumenn og litlir í Aþenu

Það er dálitið þreytandi á túristastöðunum í Aþenu, einkum í Plaka, að það er sífellt verið að lokka mann inní verslanir og veitingahús. Þessir ‘lokkarar’ ganga um fyrir framan staðina og spyrja hvort maður sé  svangur eða vanti þetta eða hitt. Þarna sé besti maturinn eða flottasti varningurinn. Ef maður segist vera búinn að borða þá er svarið: Komdu á morgun.

            En mestu sölumennirnir voru þeir minnstu. Þeir voru lágir í loftinu en að öðru leyti ekki litlir heldur hinir mestu. Nú verður sagt frá tveimur þeirra.

            Sá fyrri var um það bil tíu ára einsog hinn. Hann kom að borðinu okkar Agnars þar sem við biðum eftir að fá afgreidan mat og sötra hvítvín. Hann sýndi okkur litla íkona. Ég man ekki til að hann segði eitt aukatekið orð nema:

            Two euros.

            Við Agnar keyptum hvor sinn og drengurinn fékk átta evrur. Og sagði:

            Thank you very much.

            Hinn var líka snjall. Við vorum að borða á útiveitingastað í Plaka þegar hann kom og lagði lítinn pakka á boðið hjá Steinunni. Þetta var tissjú einsog konur hafa alltaf í töskum sínum til að geta snýtt sér kurteislega á almannafæri.

            Og svo hvarf hann. Eftir smástund kom hann aftur einsog hann hefði verið að gefa okkur umþóttunartíma til að íhuga gæði vörunnar. Sagði:

            Two euros.

            Hann fékk miklu meira en two euros og Steinunn er enn þann dag í dag að dásama þetta fína tissjú. Sumsstaðar er nebblega ekki pappír á klósettunum í Elche.

 

Twist and shout

Steinunn og Jón fundu eitt sinn búð nálægt Plaka þar sem voru meðal annars til sölu gamlar litlar plötur með Bítlunum. Þá fékk ég hugmynd og Steinunn fór með mig í búðina.

            Jú, og hvað sá ég. Einmitt. Ég fann að sem ég hafði leitað. Ákveðna fjögurra laga plötu plötu. Plötuna með Twist and Shout. Og hvað er svona merkilegt við hana?

Hverfum til ársins 1963. Það er vor. Við Siggi bróðir fórum í bæinn og keyptum fyrstu bítlaplötuna. Nefnilega fjögurra laga plötu þar sem titillagið var Twist and Shout.

            Áttum þá heima í Skaftahlíð 22 og pabbi heitinn kom heim í hádegismat enda var Reykjavík þá þorp en ekki orðin borg einsog núna. Hann opnar dyrnar að stofunni þar sem plötuspilari heimilisins var, einmitt þegar millikaflinn með öskrinu í Twist and Shout stendur sem hæst. Ég man að hann horfði undarlegur í framan á okkur smástund og sagði svo:

Guð hjálpi mér!

            Lokaði svo dyrunum. Hann hafði ekki einu sinni rænu á að segja okkur að slökkva á plötuspilaranum. Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég heyrði föður minn ákalla guð með þessum hætti.

Seinna tók hann reyndar sumt frá bítlunum í sátt og þegar hann var jarðaður létum við leika við útförina meðal annarra laga Yesterday sem gamli maðurinn hélt mikið upp á.

Þannig að þegar upp er staðið breyttu bítlarnir ekki bara minni kynslóð heldur líka hinum sem eldri voru.

 

Opinberun í Aþenu

Kvöld eitt gengum við Agnar, Steinunn og Jón niðrí bæ og vorum á einhverju stefnulausu rápi einsog oft vill verða þegar maður er túristi. Sáum tvo gæja sitja á steinvegg. Þeir spurðu hvaðan við værum. Og þá fóru hlutir að gerast.

            From Iceland? We have a special offer for you.

            Þeir áttu sumsé skartgripabúð rétt hjá.

            Og Arnar Grétarsson lék fótbolta með AEK í Aþenu, sögðu þeir, var vinur okkar og allir íslendingar fá special offer í búðinni okkar.

            Við inn í skartgripabúðina. Þeire bentu okkur á mynd af Arnari í góðra vina hópi uppá vegg í búðinni. Þar var flaska af Uzo á borði og okkur veitt óspart og otað að okkur skartgripum af ýmsum gerðum og stærðum. Fljótlega varð ljóst að við kæmumst ekki burt nema kaupa eitthvað. Agnar var allur af vilja gerður en verðið á fallegustu hálsfesti búðarinnar var of hátt. Þrátt fyrir Special offer.

            En þá kom að okkur hinum. Steinunn fann fallegan gullhring með bláum steini, mjög fallegan. Svo sýndu þeir mér samskonar hring. Ef við bærum bæði samskonar hring þá væri það merki um eilífa vináttu okkar. Og allt á Special Offer vegna Arnars.

            Úr varð að við Steinunn keyptum bæði gullhringa með bláum steinum og opinberuðum loks trúlofun okkar sem alltaf hafði farist fyrir.

            Þeir gáfu mér líka lítil men til að hafa um háls, gyllt með bláu auga og svörtum augasteini í miðjunni. Eitt fyrir hvert barna minna. Sumsé fjögur stykki.

            Þetta var að sjálfsögðu eigandanum til heilla.

            Ég sagði þeim aðég ætti líka tvo afadrengi og spurði hvort þeir ætluðu að skilja þá útundan og gera þannig uppá milli barna í hinu fjarlæga kalda Íslandi?

            Ekki veit ég hvort það var fyrir lýsingu mín á kuldanum eða tárin í augum en út fór ég með sex men.

            Núna þegar ég er að lesa þessi skrif yfir þá hefur mér áskotnast einn afastrákur í viðbót. Ekki má ég gera uppá milli ferkar en þeir í Aþenu. Ég sé fram á að þurfa annað hvort að senda þeim bréf og biðja þá að senda mér nokkur stykki í viðbót - allur er  varinn góður - eða bara fara til Aþenu. Þangað er aldrei of oft farið.

 

Súkklaðisafn í Barcelona

Svo yfirgáfum við Aþenu, kvöddum gestgjafa okkar og þökkuðum frábærar móttökur og flugum til Barcelona. Kvöddum þar Pilar og Adelide sem flugu til Alicante en við gistum eina nótt í borginni. Vorum bara svona túristar og fórum ekki víða. En þó ... Fórum á súkklaðisafnið.

Hafi einhver haldið að súkklaði væri súkklaði þá er það misskilningur. Á þessu safni er hægt að fræðast um súkklaði frá a til ö. Uppruna þess í Suður-Ameríku, hvernig það er búið til og så videre.

En svo eru það listaverkin sem búin eru til úr þessu góðgæti. Einn bjó til La segrada familia, annar Ástrík og Steinrík. Þessu verður ekki lýst með orðum en myndir koma síðar á vefinn.

Svo var þarna kennslustofa þar sem börnum var kennt að búa til súkklaði, búa til myndir úr því og síðst en ekki síst, éta það!

Síðan lentum við á mjög sérstökum markaði sem var falinn inní húsagarði. Þar var verið að selja handverk og margt mjö flott.

 

Heim aftur

Auðvitað var gaman og gott að koma aftur heim til Elche. Stórborgir verið einsog  Aþena mjög þreytandi og þar svo gott er að koma heim til Elche, borgarinnar þar sem við þekkjum svo vel.

Stuttu eftir að við komum heim  hringdi stelpa um tvítugt í dyrasímann hjá okkur. Hún var að læra ensku í Universidad Migel Hernandez hér í borg, til að verða túlkur og þýðandi og var svo að fara síðar til Englands að læra meira. Var að þýða hálfa írska skáldsögu og var í vandræðum með nokkur atriði. Hafði verið sagt að við værum ensk eða að minnsta kosti enskumælandi. Í ljós kom svo að hún var dóttir hjónanna á El Bocadi sem er kráin í götunni okkar.

Við hjálpuðum henni eftir bestu getu og allt gekk vel.

Nokkru seinna áttum við leið á El Bocadi. Hjónin voru mjög stolt af dóttur sinni og þakklát okkur fyrir hjálpina. Svo þakklát að við fengum ekki að borga veitingarnar.

 

Svíi í banka á Plaza Glorieta

Við vorum sumsé í hraðabanka á Plaza Glorieta, ég og Steinunn mín. Koma þá inn kona og karl. Konan talaði spænsku og virtist vera að kenna manninum á hraðbanka. Hann var ekki spænskulegur í útliti, frekar norrænn, fannst. Heyri ég þá að karlinn tauta af hverju upplýsingar í bankanum séu ekki á sænsku. Þessir Svíar! Hvar í heiminum eru hraðbankar á sænsku nema í Svíþjóð.

            Jæja, við tókum tal saman. Spænska konan var ósköp fegin að þurfa ekki að liðsinna manninum sem talaði aðallega sænsku. Í ljós kom að hann var að vinna við að innrétta veitingastað við torgið og ætlaði að opna 1. maí. Og hann bauð okkur að koma þá og þiggja veitingar. Það kemur í næsta hluta ferðasögu.

 

Crevillante

Dag einn ókum við Steinunn á hjólunum okkar til Crevillente en það er bær um 17 km frá Elche. Ekki vissum við hvað byði okkar þar enda bæjarins að engu getið í bókinni minni góðu Guía Total, España de punta a punta[102]. Það þýðir líklega að bærinn er agnarsmár, hér, þótt hann teldist til kaupstaða á Klakanum. Jón var skilinn eftir heima að skrifa ritgerð. Hann hefur ekki roð í tvo kennara þegar þeir standa saman!

            Okkur hjónum gekk bærilega að rata. Ókum um sveitir þar sem bændur voru að yrkja jörðina og pálmatré ræktuð í stórum stíl.

            Loks komum við í bæinn Crevillente. Hann kom okkur algerlega á óvart. Þegar við ókum eftir aðalgötunni fannst mér ég vera kominn til Marokkó. Þarna voru Bazars í lange baner. Þar er allur andskotinn seldur: föt, allskyns matur, úr og klukkur, kaffikönnur og bikarar til að drekka úr, teppi og te og svo framvegis.

            Fengum okkur kaffi og köku á cafeteríu við fallegt langt og skógi vaxið torg.[103] Að því loknu ókum við um bæinn og útfyrir hann. Undarleg voru sum húsanna, grafin inní kletta, eiginlega yfirbyggðir hellar. Í úthverfi skrautlegar risavillur.

Eitt sinn sáum við straum bíla og hjóla stefna á ákveðinn stað. Sáum ekki hvert en ákváðum að elta. Nema hvað? Það var fótbolti í gangi. Á leiðinni burt voru við götuna tveir ungir drengir sem horfðu með aðdáun á Steinunni á vespunni sinni. Kannski aldrei fyrr sé miðaldra konu á vespu.

Jú, kannski, bara ekki svona flotta!

Á leiðinni niðrí bæ sáum við aftur undarlega manninn sem hafði verið á gangi í úthverfinu. Hann sagði eitthvað sem við skildum ekki þegar við ókum framhjá en benti greinilega á Steinunni. Líklega útaf því að hann hefur aldrei séð svona flotta fimmtuga konu á vespu!

Loks fórum niðrí miðbæ til að skoða las Bazars og fá okkur kaffi. Gengum inní undarlegt kaffihús. Það var ekki stórt, þar voru engin borð eða stólar en lítill skenkur og expresso kaffivél í einu horninu. Nokkrir kallar stóð við skenkinn og sötruðu kaffi og ræddu um landsins gagn og nauðsynjar. Vale! Við inn og pöntuðum café solo. Það var ekkert vandamál og svo ræddum við aðeins við kallana en þegar við ætluðum að borga sagði eigandinn þvert nei. Þið borgið ekki.

Af hverju ekki?

Nú, ég er ekki búinn að opna staðinn. Þið sjáið að hér eru hvorki borð né stólar. Ef þið komið í næstu viku þá verð ég búinn að opna og þá megið þið borga.

Við þökkuðum kærlega fyrir okkur og ókum heim til Elche.

Á leið úr bílastæðahúsinu settumst við inn á Bar Wellington og fengum okkur vino tinto. Eigandinn þar er mjög kjaftaglaður og hann sagði að í Crevillante væri mikið um innflytjendur frá Marokkó. Ekki vissi hann af hverju þeir söfnuðust saman einmitt þar.

 

Noticias buneas[104]

Ég var semsagt að kaupa nýtt batterí í heimasímann hjá Enrico og afgreiðslumaðurinn að segja mér að ég þyrfti fara í raftækjaverslunina Electronica Iliciana á Calle Olegario Domarco Seller numero 104 þegar gemsinn minn hringdi og það var Matthildur. Ég sagði perdóne við afgreiðslumanninn og fór útá götu með símann, settist á bekk hjá gömlum hjónum sem flúðu afþví ég hrópaði svo hátt þegar Matta  sagði mér að hún væri ófrísk. Afi í þriðja sinn! Ég er ríkur.

Nokkru seinna kom Steinunn mín gangandi upp götunni og ég leyfði Möttu að segja henni fréttina og um leið og Steinunn fékk símann æpti hún svo öll gatan sneri sér við:

Ertu ólétt?

Eftir símtalið gengum við í átt að Plaza Barcelona og finna raftækjaverslunina og Steinunn grét enn. Ég var svo klökkur að ég bað hana vinsamlegast:

Steinunn mín, hættu að gráta, annars fer ég líka að væla hérna útá miðri götu.

Maðurinn í raftækjaversluninni átti ekki batterí og benti okkur Bazar Canarias í þriðju götu þaðan en þá ákvað ég fara þangað á morgun enda var kominn tími til að finna krá og skála fyrir barninu tilvonandi og foreldunum. Það var gert í hvítvíni.

Á leiðinni heim var á vegi okkar blómabúð. Steinunn fór inn.

Ætlarðu að kaupa blóm? spurði ég.

Auðvitað, sagði hún. Í tilefni dagsins. (Það er reyndar fyrsta pottablómið sem keypt er hér þrátt fyrir mikla blómadýrð alsstaðar. Það hefur bara ekki verið  nægilegt tilefni til slíkra kaupa fyrr).

Blómið heitir Gurmania Denise. Það stendur núna á stofuborðinu. Í miðju blóminu er stöngull með rauðum blöðum en utan um eru græn blöð, allt dálítið pálmalegt útlits.

Jæja, ég þurfti að skreppa  í apótek en Steinunn fór beint heim. Þegar ég kom brosti Jón útað eyrum. Hann hafði séð það á mömmu sinni að einhver stórtíðindi hefð borist okkur.

Að svo mæltu tókum við upp freyðivín sem við áttum í ísskápnum og þar var skálað fyrir verðandi foreldrunum, okkur og þessum gleðilegu tíðindum.

            Með þessum gleðifréttum lýkur sjötta kafla ferðasögu. Enda vel við hæfi. Til hamingju, elsku Matthildur og Auðun! Og nieto numeros tres!

 

 

Númer sjö

Grískir gestir í Elche

Þennan dag komu grískir gestir til okkar. Þeir voru fjórir, það er Charis, Filitsa, Dana og Elena. Ég ákvað að best væri að hitta þau á Lestarstöðinni, best fyrir þau að rata þangað, og lóðsa þau þaðan oní bæ. Við Steinunn hjóluðum uppá lestarstöð og biðum. Innan skamms komu Grikkirnir, höfðu reyndar farið fyrst á hina stöðina, Elche Carrús, en rötuðu loks á Elche Parc.

            Ástæða þessarar ferðar grikkjanna var einskonar píagrímsför. Þannig er að Elche, Alicante, Valecia og Barcelona voru eitt grískar nýlenur. Og þau ætluðu að þræa þessar fyrrum nýlendur.

            Þennan dag ofsalega heitt en við sýndum gestum okkar það sem helst var að sjá í bænum.

            Þessi hluti sögu verður ekki langur enda bar helst til tíðínda að við hittum góða vini og gátum endurgoldið góðar móttökur í Aþenu. Þið hafið lesið áður um túristaattrakksjónir í Elche og óþarfi að endurtaka það en þau fengu semsagt allan pakkann.

            Daginn eftir heimsóttum við skólann í Alicante þar sem Pilar og Adelide kenna og tóku á móti öllum. Að því loknu var okkur boðið í mat í Kokkaskóla borgarinnar sem ég hef reyndar heimsótt fyrr. Fengum mikinn og góðan mat.

            Eftir la comida[105] fórum við þessi íslensku á ströndina meðan hin fóru í kastala heilagrar Barböru sem við vorum búin að heimsækja. Þar kvöddumst við í faðmlögum nema Charis sem vildi endilega hitta okkur seinna niðrí bæ. Það bar reyndar eitt til tíðinda á leiðinni á matstaðinn í Kokkaskólanum að við Steinunn mín horfðum á eftir Jón Hauki ganga á undan okkur hinum í hrókasamræðum við Adelide; eitthvað sem drengur þessi hefði ekki gert með fullorðinni erlendri konu fyrir nokkrum mánuðum. Svona geta ferðir þroskað og forframað unga drengi!

            Við lágum á ströndinni góða stund en þegar Charis lét ekkert í sér heyra hringdi ég í hann. Þá var hann búinn að reyna að hringja í íslenska gemsann minn  sem ég nota ekki hér. Mæltum okkur mót á Cafe Havana á Römblunni þar sem ég týndi gemsanum á sínum tíma. Þá kom í ljós að þetta áríðandi erindi Charisar var að gefa mér flösku af dýrindis Uzo.

            Þannig lauk þeim degi.

 

23. apríl 2005

Næsta heimsókn var 23. apríl 2005. Gunnlaugur nokkur Ástgeirsson frændi minn kom frá La Marina en þar hefur hann að láni hús brytans í MH. Hann hafði ekið Spán þveran og endilangan ásamt Kára syni sínum sem býr í Madrid.

Ég sagði honum að best væri fyrir hann að finna fyrrnefnda járnbrautastöð og ég tæki þar á móti honum og fylgdi heim til okkar.

            Eitthvað fór þetta forgörðum en endaði eftir þónokkur gemsasímtöl okkar á milli með því að hann fann bílastæði fyrir fatlaða, lagði þar, las götuheitið, Diagonal, ég þekkti götuna og hljóp frá brautarstöðinni og fann frænda áður en hann yrði annaðhvort settur á hæli fyrir fatlaða eða sektaður fyrir að níðast á lítilmagnanum.

            Það var fagnaðarfundur með faðmlögum og tilheyrandi.

            Eftir kaffi heima á Ruperto Chapi gengum við öll um bæinn og sýndum Gunnlaugi borgina. Ég nenni ekkert að segja frá borginni enn og aftur. Hún er bara flott og vinaleg. Ég á svo mikið heima hér. Mig langar að eiga hér hús. Og eiga hér heima alla ævi minnar daga. En það er önnur ella og mitt vandamál.

            Þessi dagur var merkilegur fyrir margt. Þetta var dagur bókarinnar og afmælisdagur nokkurra frægra manna. Svo ég nefni bara tvö nöfn: Halldór Laxness og Gunnlaugur Ástgeirsson. Því var efnt til afmælisboðs á gelíska veitingastaðnum sem ég man aldrei hvað heitir. Get svosem tjakkað á því ef einhver vill vita enda gefa þeir okkur einatt merktar smágjafir einsog penna eða kveikjara . Þar borðuðum ósköpin öll, bæði það sem við pöntuðum og það sem sem þjónninn lét okkur í té óumbeðið og gratís. Og það var glás. Við höfum komið þarna áður og þar eru ævinlega góðar móttökur.

Um kvöldið og morguninn eftir endurskipulögðum við Gunnlaugur íslenska skólakerfið frá grunni. Rifum niður þetta gamla ónýta drasl og byggðum sannkallað Gimlé skólakerfanna. En vegna viskídrykkju um kvöldið og timburmanna daginn eftir get ég ekki komið þess óbrengluðu til skila að sinni. Verður því nokkur bið á að góð skikkan komist á íslenskt skólakerfi.

 

Heimsókn til Gunnlaugs á La Marina

Það var komið að okkur að endurgjalda heimsóknina. Við höfðum áður hjólað til La Marina, borðað vondan mat í þorpinu, skárri mat á ströndinni og komið heim til Elche í rigningu. En nú var öldin önnur. Steikjandi bræla.

            Við fórum á vélfákana okkar í Altamira og eftir hálftíma vorum við í La Marina. Rötuðum núna einsog við værum hérna fædd og uppalin.

            Gunnlaugur hafði sagt okkur frá keramikverksmiðju við endann á aðalgötu bæjarins þar sem í glugga væri íslenski fáninn úr tré. Fundum það. Eftir nokkurt þóf héldum við beint áfram eftir götunni þar til mér fannst nóg komið. Stansaði og hringdi í frænda.

            Þá kom í ljós að við áttum að beygja til hægri við íslenska fánann og koma á næstu bensínstöð, gerðum það og þangað sótti Gunnlaugur okkur á bílnum og við fylgdum honum heim til hans

            Bærin La Marina er eins og margir aðrir bæir á þessum slóðum: Löng Aðalgata með strönd á aðra hönd. En hann á líka urbanizacion[106] einsog þúsundir annarra bæja á Spáni. Þetta eru úthverfi með þvílíkum húsum að ég á vont með að lýsa þeim. Þetta er blanda af spænskum arkítektúr og suður amrískum, helst mexíkönskum. Við áttum eftir að sjá meira af þessu í Andalucíu. Þetta eru afskaplega ljót hverfi. Húsin öll meira og minna eins. Gunnlaugi datt í hug að arkítektinn hefði dottið oná ljósritunarvél og hún gubbað úr sér öllum þessum ‘næstum því eins’ teikningum. Ég á eftir að lýsa þessum fyrirbærum betur í Andalucíuferðinni seinna í þessum hluta.

Í næsta húsi við Gunnlaug voru roskin íslensk hjón í heimsókn hjá dóttur sinn sem þar bjó. Og þá kom í ljós að heimurinn er þorp þar sem allir þekkja alla.[107] Þetta voru semsagt Garðbæingar en ættaðir úr Skagfirði og allir þekktu alla og allra ættir þannig að þessi fundur líktist meir fermingarveislu í íslenskri sveit heldur en tilviljanakenndri hittingu á Spáni.

Eftir þetta héldum við niðrá strönd og sleiktum sólskinið framað kvöldmat. Það var gustur á ströndinni og ekki eins hlýtt og ég hafði búist við en samt voða fínt. Þarna er bæði veitingahús og utar á ströndinni bar. Þar var skilti sem stóð á hinu ástkæra ylhýra að þetta væri besti bar á La Marina.

Daginn eftir var hitinn mjög mikill. Þegar hér var komið sögu átum við dögurð í garðinum fyrir framan hús Gunnlaugs. Drekkandi morgunkaffið í steikjandi hitanum upplifðum við óbærilegan léttleika tilverunnar. Þessvegna ákváðum við að halda niðrá strönd til að geta bleytt okkur og fengið lítilsháttar sjávargolu og breytt titli dagsins í bærilegan léttleika tilverunnar.

            Á leiðinni fengum við okkur dýrindis málsverð í þorpinu.

            Á ströndinni hófst mikið kapp um hver væri mesta hetjan í sjóböðum. Ég var eiginlega dæmdur úr leik fyrir aumingjaskap áður en keppnin hófst! Það var vegna fyrri ‘afreka’ minna í Alicante. Þar stóð Jón sig allra manna best. En þrátt fyrir ást mína á minni nánustu fjölskyldu verð ég að velja Gunnlaug sigurvegara dagsins í La Marina. Hann synti nefnilega einsog selur og gekk svo á land tigulegur einsog Neptúnus sjálfur væri kominn.

            Svo koma hér alvarlegir hlutir. Þetta kvöld var seinni leikur Liverpool og Chelsea í meistarakeppni Evrópu. Við Jón hjóluðum um allt hverfið og fundum loks bar sem sýndi leikinn. Þegar til átti að koma var Steinunn mín af ýmsum ástæðum ófær um að fylgja okkur á boltann enda hefur hún takmarkaðan áhuga á þessari íþrótt. Við fórum því þrír karlmenn að horfa á fótboltann. Fljótt kom í ljós að Gunnlaugur hafði ekki mikið vit á þessari eðlu íþrótt sem Jónas Árnason kenndi við póesíu.[108] Gunnlaugur vissi þó meira en Sigurður grái Guðmundsson sem var skólameistari í MA um miðja síðustu öld og er langafi Matthildar minnar. Hann lét hafa eftir sér að hann færi aldrei á íþróttakappleiki því hann þekkti ekki muninn á hástökki og langstökki. Gunnlaugur varð margs vísari eftir það kvöld enda ég var vakinn og sofinn að segja honum til. Hér eru örfá dæmi um kennsluna og viðbrögð nemandans:

Þetta er markmaður Liverpool, kæri frændi. Hann er pólskur og heitir Dudek.

Ég hef komið til Póllands, sagði hann að því er virtist að öðru leyti ósnortinn af póesíunni sem fram fór á fótboltavellinum.

Þessi glæsilegi dökkhærði og hávaxni maður er sóknarmaður, hélt ég ótrauður áfram. Baros heitir hann og er frá Tékklandi.

Þangað hef ég komið, ansaði frændi. Og Prag yndislega fögur borg.

            Sjáðu nú frændi þennan varnarmann, sagði ég. Hann er mjög flinkur, finnskur og heitir Hyypia. Frábær varnarmaður.

            Ég bjó í Finnlandi veturlangt, svaraði frændi rétt einsog ég væri að kenna honum landafræði.

            Og svo framvegis. Og svo framvegis. Samt lærði hann mjög mikið og getur hér eftir horft á fótbolta hjálparlaust.

Liverpool gerði jafntefli á leikvelli Chelsea Stanford Bridge og á góða möguleika í seinni leiknum á Anfield sem verður eftir viku.

Við áttum eftir að heimsækja Gunnlaug oftar, ekki síst eftir að Kári sonur hans sagði mér að skammt frá væri nektarströnd. Ég hef ekki látið verða af því enn að heimsækja hana enda sagði Kári að fyrir hverja fallega konu sæi hann tíu gömul og vel hangin slátur.

 

1. maí í Elche

Kvöldið áður höfðum við hitt Maríu. Hún gerði lítið úr því sem væri boðið uppá þann 1. maí. Eitthvað átti að vera á Baix torginu. Ég hafði lesið um að eitthvað yrði á seyði á Barcelona torginu. Það var kallað manifestación.

            En að morgni verkalýðsdagsins, uppúr klukkan 10, fóru að heyrast kunnugleg hljóð. Nallinn og fólk að hrópa. Ég útí glugga og sé þá göngu niðrá Viktoriu Reinu. Manifestación þýðir semsagt kröfuganga. Þeir höfðu þá byrjað eldsnemma til að ljúka þessu fyrir síestuna. Þeim líkt. Henti mér í sturtu í einum grænum og hér er það sem ég sá:

            Gangan gekk fram hjá Baix torginu og stefndi á Parc Municipal. Reyndar mætti allt eins kalla þetta göngurnar því hún var í misstórum hópum og gjarnan langt bil á milli hópanna. Fremst fór sá stærsti sem ég fann út seinna að samband tveggja kratískra verkalýðssambanda. Þau heita UGT og OOCC. Síðan voru þarna hópar námsmanna, hópar frá Suður-Ameríku, Che-hópur og svo framvegis.

            Krafa dagsins hjá krötunum um meiri atvinnu og bætt velferðarkerfi meðan aðrir lýstu því yfir kapítalisminn væri spilling og af honum leiddi óhjákvæmilega atvinnuleysi, misrétti og fátækt. Þetta er nú það sem ég strandaði á þegar ég var á leið heim úr Kennó vordag einn árið 1973. Ég var í Alþýðubandalaginu en Kommúnistahreyfingin var þá nýstofnuð og ég vissi af henni. Ef atvinnuleysi, misrétti og fátækt er óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans hvort á þá að væla um að lappa uppá hann og sníða af honum allra mestu vankantana eða hreinlega að bylta honum. Ég tók ákvörðun meðan ég beið uppá Þóroddsstöðum eftir Landleiðavagninum suðrí Garðabæ. Nokkrum dögum seinna var ég ekki lengur í Alþýðubandalaginu heldur orðinn félagi í Kommúnistahreyfingunni.

            Jæja, víkur þá sögu aftur til Elche.

            Gangan endaði í Parc Municipal einsog mig hafði grunað. Þegar ég kom þangað sá ég fyrst léttsveit bæjarins stilla strengi sína á sviði sem er í miðjum garðinum og fullt af gömlu fólki sitja á klappstólum.

            Bíddu hægur. Hvað er að gerast? hugsaði ég en gekk lengra inní garðinn.

            Skammt frá kom ég að krötunum. Þeir voru í afgarði. Þar var búið að koma upp sölubúðum þar sem boðið var uppá gos, bjór og dularfullar flatbökur.

            Uppá sviðinu stóð miðaldra kona, rauðklædd, og las ræðu af blöðum og virkaði á mig einsog hundleiðinleg kennslukona að kenna á mjög hefðbundin máta. Ég sá ekki að nokkur einasti maður væri að hlusta. Menn töluðu saman í hópum, sötruðu bjór og kliðurinn varð einsog í hléi í leikhúsi.

            Ég ákvað að gera einsog hinir og fá mér bjór. Mér datt í hug að kratarnir hefðu gert kostunarsamnng við hollenska bjórfyrirtækið Amstel því sá bjór var einn á boðstólum. Kannski voru þeir bara að sýna alþjóðahyggjuna í verki.

            Konan var svo leiðinleg að ég ákvað að leita uppi hina hópana. Þeir voru þá búnir að koma sér upp söluborðum skammt frá þar sem boðið var uppá marxísk rit á spænsku. Þarna voru bæklingar eftir þá félaga Lenín og Stalín mest áberandi og hlýnaði mér þá um hjartarætur.

            Annað söluborð var tileinkað Che Cuevara. Þar voru bolir með mynd hans í tugatali og meira að segja barmmerki. Diskar með byltingasöngvum frá Suður-Ameríku voru einnig útum allt.

            Ég gekk til baka að kratagarðinum og heyrði á leiðinni léttsveitina leika einhverskonar mars.

            Rauðklædda kennslukonan var að ljúka máli sínu og nokkrir klöppuðu kurteislega. Hún hvarf af sviðinu og kliðurinn jókst. Þá gekk yfirskeggjaður karl í pontuna og hóf að flytja ræðu með tilþrifum. Mér fannst fleiri hlusta og ég ákvað að gera það líka. Ég skildi þráðinn í ræðunni, nóg til að átta mig á að hér var á ferðinni mjög hefðbundin krataræða. Hann byrjaði á því að ræða um samstöðu verkalýðs allra landa og sagði kæru félagar mjög oft. Svo var hann kominn í atvinnuástandið í Elche og spurði hvar skóverksmiðjurnar væru og krafðist meiri atvinnu. Þá kom hann inná það að bæta heilbrigðisskerfið og skólakerfið. Loks minnti hann á mikilvægi stéttarfélaganna, eðlilega enda maðurinn starfsmaður stéttarfélags. Best gæti ég trúað að hann væri formaður. Hann bar sig þannig. Þið þekkið þetta. Hver hefur ekki heyrt svona ræður á hverjum einasta 1. maí í Reykjavík?[109]

            Í miðri ræðunni sá ég að fugl hafði skitið á bak gamals manns sem stóð fyrir framan mig. Þetta voru tveir brúnir og blautir og sæmilega stórir blettir. Starfsmaður sem var að selja húfu merktar stéttarfélaginu benti manninum á þetta. Sá skitni tók úr buxnavasa sínum vasaklút og bað hinn þurrka skítinn. Hann gerði það en hafði orð á því að vasaklúturinn væri varla nothæfur eftir þetta. Hinum nýhreinsaða fannst það greinlega vitleysa, braut klútinn snyrtilega saman og stakk honum aftur í vasann.

            Ég kom líka auga á annað undir ræðunni. Reyndar horfði ég talsvert á það. Uppá sviðinu, hægra megin við ræðumanninn, voru tvær hárfagrar, fagurleggjaðar og mjög þröngklæddar gellur að fetta sig. Bara nokkuð getnaðarlegar. En ég gat með engu móti skilið hvaða erindi þær ættu uppá pall.

            Fyrren ræðunni lauk. Þá kom önnur skutlan og talaði eithvað um börn og strax komu nokkrar konur inná sviðið og köstuðu sælgæti til barnanna úr pappakössum. Drifu reyndar mjög stutt þannig börn sem voru næst sviðinu fengu sykursjokk en hin ekki neitt. Og svo fóru gellurnar að spila á hljómborð og syngja. Þetta var hægfara dúkkulísurokk með ballöðustíl. Þá tölti ég burt.

            Með þessu lauk 1. maí hátíðahöldunum í Elche enda farið að líða að síestu og væntanlega allir á leið heim að borða og leggja sig.

            Eitt í blálokin. Af því að 1. maí ber uppá sunnudag að þessu sinni þá er allt lokað á morgun. Þá er aukafrídagur. Hér vilja menn fá sín frí og engar refjar.

 

Fróðleikur um vatn

Þessi kaflafyrirsögn kann að koma sumum á óvart í ljósi þess að við Steinunn mín ákváðum að fara til Spánar vegna þess að hér skín sólin glöð og hlý og rauðvínið kostar skid og ingenting.

            En lífið er ekki bara rauðvín þótt það sé drjúgur hluti þess. Lífið er líka vatn. Á Íslandi eigum við það ómælt úr krönum og veitum því enga athygli hvað við drekkum mikið af því. Hér burðast maður heim með kippu af tveggja lítra vatnsplastflöskum.

            Sumt vatn er betra en annað. Steinunn mín segir að vatnið í Hávík í Skagafirði sé best í heimi. Vissulega er vatnið þar afbragð en ég nenni ekki að deila við frúna um þetta ‘besta í heimi’. Til að fullyrða slíkt þyrfti maður þá að smakka öll vötn í heiminum. Og það er jafnerfitt og fyrir guð að búa til svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum því vötn streyma fram endalaust.

            Núna er ég að drekka vatn frá Sierra Nevada sem er fjallgarður suðvestan við okkur og heita á íslensku Snjófjöll. Vatn þetta heitir Leyenda sem þýðir þjóðsaga. Vatnið er frá þorpinu Lanjarón í Nevada fjöllum. Á miðanum á flöskunni er vitnað til þjóðsögu sem segir þorpið vera frægt fyrir þetta gæðavatn og fyrir að búa yfir leyndarmálinu um eilífa æsku.

            Ætti maður að skreppa til Lanjarón í leit að leyndarmáli eilífrar æsku? Eða bara láta lífið hafa sinn gang. Æi, éldabara!

 

Sjöundi kafli

Ferðalagið langa

Gunnlaugur frændi er mikill ökuþór. Nú orðið. Ég man þá tíð þegar hann átti gulan og ryðgaðan austurþýskan Wartburg. Þá ók hann bæði stutt og hægt.

            Áður en hann kom hingað á austurströnd Spánar var hann búinn að aka gervalla norðurströnd Spánar, niður til miðs Portúgals og þaðan þvert yfir hásléttu Spánar. Og enn fékk hann fiðring í bensínfótinn og bauð okkur með í bílferð um Andalucíu. Kári sonur Gunnlaugs var þá kominn til La Marina.

            Það var gerð gróf ferðaáætlun. Stefnt var á Granada og svo alla leið til Gíbraltar. Ég hef reyndar komið á þessa staði áður en mótmælti í engu. Það var því ákveðið að gista tvær nætur í Granada og aðrar tvær í Estepona sem er syðsti bærinn á Costa del Sol. Það lagði ég til málanna enda var ég þar hér á árum áður og lofaði að bærinn væri góður.

            Þeir feðgar komu og sóttu okkur til Elche og svo var lagt af stað.

 

Mini Hollywood

Fyrsta alvörustoppið var á undarlegum stað skammt frá borginni Almeriu í samnefndu héraði. Kári stundar nám í kvikmyndastjórn í Madrid og hann leit á það sem pílagrímsför að heimsækja þessa Mekku sína. Hann heitir semsé Mini Hollywood. Þetta er kvikmyndastúdíó þar sem teknar voru upp margar kvikmyndir á sjöunda áratug síðustu aldar.

Þær frægustu sem þar voru kvikmyndaðar eru spaghettívestrarnir svokölluðu. Þeir voru nefnilega ekki kvikmyndaðir á Ítalíu einsog margir halda heldur í Mini Hollywood. Og þar stendur enn þorpið þar sem Clint bæjarstjóri Eastwood drap vonda menn og tuggði langa og mjóa vindla. Reyndar hafði blessaður kallinn týnst á fylleríi og kvennafari daginn sem átti að ljúka tökum á einum vestranum. Leikstjórinn Sergio Leone var hinsvegar ekki þannig gerður að hann vildi hafa leikara og tökulið á aðgerðarlaust á fullum launum og greip því til þess bragðs að lengja endann og taka upp senur meðan beðið var eftir Clint. Þetta sagði Kári.

Og á hverjum degi klukkan fimm er leiksýning undir berum himni með skotbardaga, hengingu og mikilli reiðmennsku. Og margir vondir menn lágu í valnum en risu upp eftir leikinn einsog einherjar í Valhöll forðum daga og fengu sér drukk á The Saloon.

Sem við gerðum líka.

Svo varð nokkur bið á brottför okkar meðan Kári hringdi í ýmis hótel í Granada en það var næsti viðkomustaður. Það tókst loks og nefum okkar og framljósum bílsins var snúið þangað.

Ókum fram hjá vatnsbænum Lanjarón en slepptum því að freista þar gæfunnar um eilífa æsku enda öll á besta aldri.

 

Granada a las noche

Við komum inní Granada um kvöld og orðið almyrkt. Það er ekki heiglum hent að aka inní svona stóra borg að kvöldlagi og við lentum í talsverðum vanda. Reyndar mjög miklum. En fengum gott yfirlit yfir Granada að kvöldi til.

            Eftir mikinn rúnt um borgina fundum við loks rétta götu. Það var reyndar orðið erfitt að lesa á kort sökum myrkurs en þetta var gatan. Um það varð ekki deilt. Það var ekið götuna þar til komið var að undarlegum ljósum á miðri götunni.

            Æi, andskotinn hafi það. Áfram í vagninum ek ég, hugsaði Gunnlaugur en þá gerðust ósköpin. Tveir stórir stálstólpar spruttu uppúr götunni, mikill hávaði og þegar betur var að gáð var plastdraslið framaná bílnum, sem heitir stuðari á íslensku en la defensa á spænsku, farið í tætlur og hékk einsog drusla framaná bílnum. Fólk á nálægum veitingahúsum ýmist þusti útá götu eða glápti gegnum glugga og skemmti sér hið besta. Alltaf gaman að gleðja fólk!

            En andskotinn við þetta var að við vorum á réttri götu en af einhverri undarlegri ástæðu er götunni lokað þarna fyrir öðrum en leigubílum. Einhverjir metrar í hótelið en samt varð að bakka un poco, beygja a la derecha upp hliðargötu þar sem við villtumst fljótlega aftur og vöktum mikla lukku Granadabúa fyrir það að ýta stuðaradraslinu á undan okkur. Við vorum sannkallaðir ‘stuð’aramenn!

            Loks gerðum við það gáfulegasta framað þessu. Fundum bílastæðahús, Gulli lagði druslunni þar og við fórum oní bæ og tókum leigara uppá hótel.

            Það var enginn stór leigari á staðnum þannig að við urðum að taka tvo. Annar leigubílstjórinn var fýlupoki en hinn druslaði honum af stað fyrir rest. Gatan sem hótelið okkar var við heitir Carrera del Darro og liggur við samnefnt Rio Darro. Þetta var merkt sem meiriháttar gata á korti og alvörufljót en þegar til að átti að taka varð gatan á endanum örmjótt strik þar sem fólk varð að þrýsta sér húsveggjum og gera sig kinnfiskasogið í framan þegar bílar óku um og fljótið var íslenskur lækur með nokkrum lítrum af vatni.

            En við komumst loks á hótelið. Á leiðinni sá ég opna búð sem seldi vín og hugsaði með mér að frændi ætti skilið að fá viskí eftir daginn. Hljóp í búðina en þá var klukkan orðin 12 og la tienda fue cerrado.[110]

            Þessvegna fundum við okkur veitingastað og átum þar heil býsn og drukkum vel þegið viskí að lokum. Nema náttlega Steinunn og Jón. Jón afþví hann er of ungur til að meta eðaldrykki og Steinunn afþví hún drakk yfir sig af þessum fína drykk kvöld eitt fyrir mörgum árum. Það vona ég að hendi mig aldrei!

 

Granada próximo día

Morguninn eftir fór í þetta: Þeir feðgar fóru að skila brotnu druslunni og fá annan bíl í staðinn en við Steinunn að tjekka okkur inná annað hótel því á hinu var bara eitt herbergi í boði í næstu nótt. Þetta gekk allt bærilega og við fluttum á nýja hótelið við fallega þrönga götu þar sem var meðal annars vínbúð. Ég keypti strax eina viskí til að eiga í almennilegt glas handa bílstjóranum.

            Litla fjölskyldan frá Elche settist síðan á hvíta torgið í Granada og sötraði drykki og át tapas í glaðasólskini þar til feðgarnir komu. Þá var meira sötrað og etið en loks ákveðið að taka strætó til Alhambra.

            Enn skortir mig orð til að lýsa. Alhambra er heil dýrð. Að vísu komumst við ekki inní alflottustu höllina en ég hef komið þangað áður og trúið mér að mósaíkið og skrautið þar á sér varla hliðstæðu í heiminum. Þetta er márahöll sem byggð á 14. öld og heitir uppá arabísku al-Qalá al-hamra sem útleggst rauði kastalinn. Þegar síðasti márahöfðinginn gafst upp og lét kristnum Granada eftir þá grét hann, blessaður. Lái honum hver sem vill. En mamma hans byrsti sig og sagði:

            Þú grætur einsog kona yfir því sem þú gast ekki varið sem maður.

            Þarna eru garðar og hallir, göngustígar og trjágöng af allra fínustu sort. Þegar ég kom þarna árið 1997 glápti ég bara á þetta en gleymdi borginni en hún er ekki síður falleg. Að horfa á hana onaf Alhambra er næstum einsog sköpun heimsins.

            Læt ég þessu lokið að sinni um Granada.

            En sem svona es. í þessum kafla langar mig að vekja athygli á einu. Það er að eftir að kaþólskir menn undir forystu Ferdinands og Ísabellu brutu síðustu vígi máranna á bak aftur seint á 15. öld hafa aldrei orðið minnst yfingar milli kristinna og múslima á Spáni. Þeir lifa í sátt og samlyndi. Þetta er hægt.

 

Estepona

Daginn eftir var ekið sem leið lá til Estepona en það er lítill bær með um 40 þúsund íbúa syðst á Costa del Sol. Þangað hafði ég komið áður sem fyrr sagði. Og viti menn. Á Strandgötunni rak ég augun strax í Hotel Buneavista, heimtaði að Gulli stansaði, hljóp inná hótelið og þar voru laus herbergi handa okkur. Á þessum flotta stað, bara gatan milli þess og strandarinnar.

            Þetta varð fagnaðarfundur fyrir mig. Þarna var sumsé hótelið mitt og enski boltabarinn nokkur skref í burtu og þarna þekkti ég hvern krók og kima og ljósastaurar kinkuðu kolli til mín af fögnuði og stéttin á göngugötunni bergmálaði kveðjur til mín.

            Við fengum okkur að borða á fiskiveitingastað sem ég þekkti frá því áður. Þar bera þeir fram dýrindis sverðfiska. Sem ég át.

 

Alveg bit!

Það voru fleiri en ljósastaurar og göngugötuhellur sem buðu mig velkominn til Estepona. Moskítóflugur voru að vísu ekki alminlega vaknaðar til lífsins eftir veturinn. Þetta voru bara örfá moskítóflugubörn sem fuku til og frá í laufléttri golunni. En svona flugur, fullorðnar eða börn, hafa einatt hrifist af mér og þegar dagur var að kveldi liðinn hafði ég fengið tvö bit á vinstri handlegg og daginn eftir voru þar komnar býsna myndarlegar kúlur sem vöktu mikla hrifningu samferðarmanna minna, einkum Steinunnar minnar sem fannst kúlurnar alveg ofsalega fyndnar. Og ekki nóg með að það væri henni skemmtun að horfa á þær heldur gerði hún sér það að leik að reka sig ‘óvart’ í veika handlegginn þegar við sátum í bílnum. Þegar ég kvartaði undan þessu ansaði hún að mér væri nær að sitja hægra megin við hana og vera með kúlur á þeim vinstri.

            Svona er lífið.

 

Gíbraltar

Daginn fórum við til útlanda, nefnilega til Gíbraltar. Þessi tignarlegi klettur rís uppúr flatlendinu einsog risi. Við fórum gegnum landamærastöðina og tókum leigubíl þaðan. Þetta eru bílstjórar sem aka uppá klettinn og sýna farþegum allt sem vert er að sjá, stansa meðan maður horfir og dáist, og aka manni niðrí bæ að því loknu. Þeir eru akandi gædar.

            En milli landamærastöðvarinnar og klettsins er flugbraut og þegar flugvélar taka sig upp eða lenda þurfa bílar og gangendur að bíða. Við biðum meðan tvær flugvélar athöfnuðu sig.

            Bílstjórinn okkar ók æfður á miklu skriði örmjóan veginn alla leið uppá topp með mörgum stoppum. Kletturinn er mjög brattur og ég viðurkenni að í sumum beygjum svitnaði ég þegar ég horfði niður snarbrattan klettinn meðan bílstjórinn bakkaði til að ná beygjunum. Mér létti ögn þegar ég sá að Gunnlaugur svitnaði líka. Það er verra að vera eini aulinn í hópnum. Við bárum saman bækur okkar seinna um þessa meintu lífshættu og höfðum báðir hughreyst okkur með því að þetta væri örugglega ekki fyrsta ferð bílstjórans á þessum slóðum.

Hann sýndi okkur það markverðasta á leiðinni. Þarna eru hellar, bæði náttúrulegir, þar sem finnast ævafornar mannvistarleifar, og nýrri manngerðir í hernaðartilgangi, aparnir frægu og eitt sem sem ég hafði ekki séð í fyrri heimsókn minni. Það var steinn sem á var letrað að þar hafi þau staðið Elísabet Englandsdrottning og spúsi hennar prinsinn þegar þau heimsóttu Gibraltar á 6. áratugnum. Bílstjóranum fannst þetta mjög fyndið og bætti við að Karl prins og Díana heitin hefðu líka staðið þar í sinni heimsókn. Og til að við vissum örugglega við hvaða Karl hann ætti þá togaði hann í eyrun á sér og hló við fót.

Eftir lítinn snæðing í Gíbraltar var ekið á ný til Estepona. Þaðan fóru þeir feðgar að heimsækja frændfólk í Marbella en við vorum eftir í bænum og nutum strandlífs.

            Um kvöldið snæddum við á þessum líka flotta veitingastað á litlu torgi í bænum. Ég mæli með honum einsog þeim fyrri ef þið eigið leið um. Þið finnið þá örugglega, þetta er svo lítill og flottur bær. Ætti ég tvö líf byggi ég í öðru í Estepona en hinu í Elche. En maðurinn á bara sjö líf. Hann skiptir um vinnu þrisvar, maka tvisvar en á svo tvö fyrir sjálfan sig.

            Nú að öðru. Þegar ég kom fyrst til Prag fann ég á mér að ég hafði lifað tvisvar sinnum áður. Í fyrra sinnið var ég vellauðugur iðjuleysingi í Prag en í því næsta smörrebrauðsjomfru í Kaupmannahöfn á öndverðri 19. öld. Vegna þessara tveggja fyrri góðu lífa minna hlaut ég þá refsingu að vera kennari á Íslandi.        

 

Í Gunnlaugsvík

Það var langur akstur frá Estepona til Elche og tók um 10 tíma með hléum að sjálfsögðu. Ókum í gegnum þorp við ströndina og virtum þau fyrir okkur. Sumt var framandlegt en annað kunnuglegt. Í einu þorpinu sáum Mueblas Danés og Danemarca Mueblas.

Eitt hléið gerði Gunnlaugur í fallegri vík með hvítri sandströnd við tæran sjó. Settumst á veitingastað og sulluðum svo aðeins í Miðjarðarhafinu.

            Víkin var umsvifalaust skírð Gunnlaugsvík enda hafði hann af innsæi fundið staðinn. Í vestri sáust svo Kárahnjúar og þar ofar glitti í Eiríksjökul og enn lengra  Haukadalsheiði. (Innskot ritskoðara: Þess má geta að ströndin skartaði fallegum steinum sem aldan lék við en það er svo sem ekkert verið að flíka hinni undurfögru Steinunnarströnd.) Ég samþykki þetta innskot ritskoðarans og bið forláts.

 

Í kringum Almeriu

Þetta ku vera ófrjósamasta hérað Spánar. Það rignir lítið og jarðvegurinn er leir og sandsteinn. En þeir þurfa að rækta til að hafa í sig og á og kunna ráð við þessu. Þar hafa þeir byggt gróðurhús sem eru svo ljót að gróðurhúsin í Hveragerði verða Arnarneshæfar villur í þessum samanburði. Ég mundi ekki einusinni setja svona óskapnað við Stóra Aðalból. Eiginlega er valla hægt að kalla þetta gróðurhús heldur er dúkur strengdur á trégrindur. Og þessi óskapnaður hylur heilu fjöllin og dalina svo langt sem augað sér.

            Steinunn kallaði þetta yfirbreiðslubúskap.

            En þarna rækta þeir heil ósköp af tómötum, gúrkum og öðrum nauðsynjum.

 

Söguleg samanburðarmálfræði

Eitt kemst ekki til skila í þessari ferðasögu í ferðasögunni en það er allur þessi hellingur af skemmtilegheitum sem ultu uppúr okkur á leiðinni. Við vorum vægt til orða tekið ofboðslega skemmtileg; hnyttin tilsvör, líkingar, útúrsnúningar og orðaleikir runnu frá okkur einsog lækur í leysingum á íslensku vori. Mér er til efs að fyndnari fimm ferðafélagar hafi nokkru sinni ekið saman. En því miður þyrfti ég fílsminni til að muna þetta allt. En hér koma smásýnishorn.

            Margir bæir á þessum slóðum heita Torre eitthvað. Torre þýðir turn en mun líklega upphaflega hafa verið viti enda eru þessir bæir víða við ströndina. Þannig þýðir nafnið Torrevieja Gamli turn. Á vegi okkar varð bærinn Litli turn. Úr því bjó Kári til orðið Tyrðill en faðir hans bætti um betur og stakk uppá Turnlingur því –lingur er smækkunarending, samanber kettlingur sem er lítill köttur og tittlingur er lítill tittur!

Þá sátum við eitt sinn sem oftar á veitingahúsi og mér varð mál að fara á kamarinn og um leið kallaði Jón á þjóninn en þeir heita camarero á spænska tungu. Þá datt mér strax í hug að kamar á íslensku og orðhlutinn camar á spænsku væri að stofni til sama orðið og að camarero hefði upphaflega verið maður sem vísaði gestum á klósett og sá um að þar væri ró. Sumsé camarero!

Þá datt okkur í hug að endurvekja hið gamla orð sjálfrennireið. Þá mundi bifvélavirki heita sjálfrennireiður eða –reiðari og kona úr þeirri stétt sjálfrenniríður.

Á mörgum veitingahúsum og verslunum er skilti sem á stendur No perro og oft er yfirkrossuð mynd af hundi með. Kári þýddi þetta að sjálfsögðu þannig að perrum væri bannaður aðgangur.

Þá spurði ég hann af hverju Spánverjar væru að blanda aumingjans hundunum saman við perra. Hann ansaði að bragði:

Þetta eru klámhundar. Þeir eru bannaðir.

Þessi orð urðu svosem að áhrínisorðum seinna þegar Víkurhjón voru í heimsókn svo ég fari aðeins frammí tímann. Við fórum öll til Santa Pola og lágum þar marflöt á ströndinni. Þar gengur enginn um og selur bjór einsog á alvarlegri ströndum á borð við þá sem er í Alicante. Við Siggi vorum því sendir á stúfana.

Fundum loks Mercadona og fórum þar inn að kaupa bjór. En þegar við gengum framhjá afgreiðsluborðinu var mér kurteislega bent á að inní þessa verslun færi ég ekki í sundskýlu. Það væru bara reglur sem yrði að fara eftir, útskýrði konan brosandi. Ég varð því að senda Sigga vitamállausan á spænsku inní búðina til að sækja bjórinn en sem betur fer veit hann hvernig bjórdósir líta út og gat bjargað málum.

Þá vitum við að yfirstrikaður hundur og No perro þýðir maður á sundskýlu er bannaður.

Það var komið myrkur þegar þeir feðgar skiluðu okkur heim á Ruperto Chapi 17 en sneru síðan sjálfir til La Marina.

 

Leigubílstjórar

Leigubílstjórar hér eru skrafhreifnir með meira móti. Oftast er rætt um umferðina. Um daginn vorum  við að fara í A´ljub og fengum nettan fyrirlestur muninn á spænskum framburði og valencíönskum með smáívafi um murcískan framburð en bílstjórinn var þaðan.

            Svo var einn sem talaði ágæta ensku og notaði tækifærið til hins ítrasta að æfa enskuna og talaði látlaust. Hann var fæddur í smábæ nálægt Madrid en bjó núna í Crevillant og rataði ekki rassgat í Elche þannig að ég varð að lóðsa hann. Hann var ágætlega stoltur af enskunni sinni og mér skildist að hann lært hana þegar hann bjó nálægt amrískri herstöð rétt fyrir utan Madrid.

            Gaf mér nafnspjald sitt að skilnaði ef ég skyldi þurfa leigubíl í Crevillant.

            Og heimurinn er lítill. Nokkrum dögum seinna  voru Steinunn og Jón Haukur í A´ljub, þurftu leigara heim og hver var þar mættur nema vinur okkar, þeim öllum til jafnmikillar undrunar.

            Þetta minnir mig á þegar við Steinunn komum frá Grænlandi úr brúðkaupi Krissu og Jónatans. Tókum leigubíl frá flugvellinum ásamt Þuríði og Þórólfi. Bílstjórinn rataði illa um Reykjavík og vissi ekki einu sinni hvar Hagamelur var en þá bjuggum við Steinunn þar.

            Varð þá Þuríði að orði, snögg uppá lagið einsog henni er líkt:

            Veistu ekki hvar Hagamelur er? Ratarðu ekkert? Maður gæti haldið að þú værir frá Haganesvík.

            Vesalings bílstjórinn ansaði:
            Ég er reyndar frá Haganesvík.

            Það er sumsé eitt og annað líkt með bílstjórum frá Haganesvík og Crevillant.

            Seinna í næsta kafla þegar Guðrún Eiríksdóttir kom lentum við á leið heim frá flugvellinum á finum bílstjóra. Sá heyrði strax að ég var byrjandi í spænsku og talaði hægt og skýrt þannig að ég skildi hann. Ég flutti honum fyrirlestur um Ísland sem hann spurði mikið um og hann miðlaði mér fróðleik um Elche. Eftir þessar samræður var ég doltið montinn yfir kunnáttu minni í spænsku.

 

Barcelona spánarmeistar í sparki

Og Elche fór á annan endann. Ég sá leikinn í sjónvarpinu heima en stuttu seinna fór ég að heyra hljóð neðan úr bæ. Ég þangað. Niðrá Plaza Glorieta var hátíð. Fólk að syngja, dansa, veifa fánum og fagna einsog Spánverjar kunna svo vel. Jón nennti ekki en þegar ég hringdi heim og leyfði honum að heyra hljóðin gegnum símann þá kom hann hlaupandi með Barcelona trefilinn minn og við nutum kvöldsins saman.

Seinna um nóttina hafði gangan komist að miklum gosbrunni skammt frá Járnbrautargötunni. Þar príluðu menn upp, hentu sér oní og skvettu vatni á hina sem ekki voguðu sér.

Við fótboltaáhugamennirnir héldum glaðir heim um tvöleytið eftir að hafa vætt kverkarnar ögn á Café París. Þegar bílar óku framhjá flautuðu bilstjórar og ég veifaði treflinum.

 

17. maí

Og hvað með það? Fyrsti leikur KR í Landabankadeildinni er að hefjast og við Jón hlustuðum á KR-útvarpið á netinu. Nema hvað? Þessi dásamlega tækni! En hvað nútíminn er unaðslegur. Og ekki spillti fyrir að KR vann.

            Læt ég þá lokið hluta sjö en á morgun koma Ingibjörg og Siggi Víkurhjón til okkar og ætla að gista hjá okkur í viku. Og svo kemur Guðrún Eiríks. Við förum að hitta Möttu og Auðun á Mæjorku. Allt um það síðar. En ég er að fatta það núna að næstum öll fjölskyldan verður þarna. Vantar bara Einar og hans fólk. Mikið væri gaman ef þau yrðu þar líka. Fjölskyldufundur á Mæjorku! Gerum það seinna.

 

En samt lokaorð um Ruperto Chapi

sem er gatan okkar en hún heitir eftir spænsku tónskáldi. Sá Ruperto Chapi var rakarasonur fæddur 27. mars árið 1851 á degi heilags Rupertos, nákvæmlega öld á undan mér. Fæðingarstaður hans er bærinn Villena sem er í Alicantesýslu, skammt norður af Elche. Faðir hans er á öllum vefum sem ég finn kallaður modesto barbero sem þýðir líklega auðmjúkur rakari.

Barnungur sýndi Ruperto mikla tónlistarhæfileika og fimmtán ára gamall stjórnaði hann hljómsveit heimabæjar síns. Sautján ára flutti hann til Madrid til að læra tónsmíðar. Flæktist síðar til Rómar og Parísar en flutti aftur til Madridar, þá giftur og eignaðist eina dóttur og aflaði sér strax vinsælda fyrir tónsmíðar. Dó Í Madrid eftir stutta sjúkdómslegu 25. mars árið 1909. Hafði átt við þunglyndi að stríða, kallinn.

Eftir hann liggja margar óperur og 150 zarzuelas[111] og önnur verk af ýmsu tæi. Honum er sérstaklega talið til tekna að hafa kynnt heiminum zarzuelas sem mótvægi við ítalska óperettuhefð.  Hann er talinn til höfuðtónskálda Spánar á 19. öld að því er segir á vef Teatro Chapi í Villena en þaðan hef ég þessa visku og af öðrum spænskum vefum. Bæjarbúar í Villena reistu fallegt leikhús með nafni hans árið 1885. Myndir af því er hér: http://www.teatrochapi.com/teatro-img/index.htm. Og hér er vefur með sýnishorni af verkum hans, tveir forleikir: http://www.epdlp.com/compclasico.php?id=978. Gjörið svo vel. Njótið vel.

            Loks mynd af honum. ¡Adios!

 

 

rchapi2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ruperto Chapi 1851-1909

 


Áttundi kafli

Leiðrétting

Hér eru tvær leiðréttingar á kafla sjö. Í þeim hluta þarsem ég var að kenna Gunnlaugi frænda mínum að horfa á fótbolta svaraði hann að hann hefði ekki komið til Prag. Hið rétt er að hann sagði: Ég hef komið til Prag. Þar eru falleg hús og góður matur.

            Hinu ætlaði ég að sleppa sem höfundur en er ofurliði borinn af ritskoðurum. Mér var skipað að bæta þessu við. Þegar ég hafði verið bitinn sundur og saman af flugunum í Estepona og bólgnaði allur upp, samferðafólkinu til mikillar skemmtunar þá lét ég þess ógetið að milli hlátraskallanna þá var öskrað oftar en einusinni:

            Þú ert einsog Fílamaðurinn!

            Það er nú gott að geta glatt fólk!

 

Víkurhjón í heimsókn

Þau Víkurhjón komu í heimsókn þann 18. maí og dvöldu vikutíma.

            Daginn eftir að þau komu átti ég ammli. Við höfðum sælla minninga haldið uppá ammli Jóns á El Lugar í Alicante en komið að luktum dyrum þegar Steinunn átti afmæli. Ég hringdi þessvegna á staðinn. Eftir nokkra umræðu kom í ljós að staðurinn var lokaður þetta kvöld en þeir mundu að ég hafði pantað en eitthvað hafði farið vitlaust oní fólkið þarna. Hann mundi meira að segja að ég ætti afmæli en lo siento[112]! Ég hélt því uppá me cumpleaños[113] í Elche. Reyndar á einum besta veitingastað borgarinnar.

            Fórum til Santa Pola um daginn og ráfuðum um ströndina og lágum grimmt og snæddum tapas. Skyndilega vantaði bjór en hér var enginn sem gekk um ströndina og seldi bjór einsog í Alicante.

            Við Siggi vorum því sendir í supermercado til að kaupa bjór. Ég fann Mercadona og það var í þessari búðarferð þarsem mér var bannaður aðgangur, svona líka á spengilegur á rauðu sundskýlunni og þurfti að senda Sigga einan inn, vitamállausan, til að sækja bjór. Á fjandans hurðinni stóð No perros! Þetta jaðrar við einelti.

            Og húsfreyjan í Vík færði mér heklaðan borðdúk í afmælisgjöf! ¡Muchas gracias!

            Ætluðum að sjá magadans eitt kvöldið og fórum því á kúrdastaðinn Estambul hér í næstu götu en magadansmærin tyrkneska lét ekki sjá sig. Síðar kom í ljós að hún hafði fótbrotnað á leið í vinnuna.

            Annars var þessi heimsókn róleg enda hjónin frægir vinnuþjarkar sem ekki veitti af að hvíla sig. Við sýndum þeim borgina, gengum mikið, stunduðum þrásetur á veitingastöðum og þær systur brugðu sér stundum í mollið. Auk þess skruppum við til Alicante og sýndum þeim Santa Barbara. Í þetta skiptið tókum við lyftuna inní klettinum í stað þess að arka alla leið upp.

            Svo var verslað un poco í El Corte Inglés sem einsog fyrr segir þýðir annaðhvort nýklippti englendingurinn eða englendingurinn sem búið er að hálshöggva. Jafnvel stutti englendingurinn.

            Annars fræddu þau okkur líka um Elche. Ingibjörg vissi til að mynda hvað hin ýmsu tré heita og Siggi sagði mér eitt og annað um byggingarlag húsanna og úr hvaða efnum hinar ýmsu leiðslur eru en hér hangir allt slíkt utaná húsunum. Svona eiga bændur að vera!

            En við leigðum bíl og fórum eina ökuferð.

 

Til Cartagena

Steinunn pantaði bílaleigubílinn og snemma morguns fórum við að sækja hann. Í ljós kom að Jón Haukur mátti ekki keyra bílinn. Til þess var hann of ungur. Það var mikil sorg. En við Steinunn máttum keyra en þegar á reyndi ók Steinunn alla leiðina og stóð sig vel. Hún var einsog lítið barn með nýtt leikfang, brosti útað eyrum alla leiðina, hældi bílnum, heimtar við kaupum svona flottan Ford og var bara einsog bíladellukall af bestu sort. Ég bauð henni að leysa hana af en hún harðneitaði. Þegar allt kom til alls var bara betra að hafa það svona. Ég lá í kortunum og sagði henni hvaða vegi skyldi aka. Einu sinni hlýddi hún mér ekki. Við vorum á vegi MU301 og stefndum á veg N340 sem liggur til Elche þegar veganúmerið breyttist skyndilega í MU300 eftir eina beygju. Mér fannst ekki sniðugt að veganúmer breytast uppúr þurru en Steinunn blés á áhyggjur mínar og ók syngjandi glöð þangað til ég fann út að við vorum á beinni leið til Murciu en ekki Elche og skipaði henni að snúa við og fara á N340.

            Satt að segja minnti hún mig á Þórólf bróður hennar. Þannig var að við vorum í sumarhúsi á Egilsstöðum og Þórólfur og Þuríður komu í heimsókn. Þá var ákveðið að leigja jeppa og aka uppað Kárahnjúkum og skoða Dimmugljúfur áður en þeir færu undir vatn. Þórólfur ók enda þekkti hann þarna hverja þúfu og í 200 metra hæð yfir sjó gjörbreyttist Þórólfur. Hann varð fræðimaður og kennari og það vogaði sér enginn að grípa framí fyrir honum, ekki einusinni Þuríður, heldur hlustuðu allir af athygli. Eina hættan var þegar hann var að benda á serverdigheder þá sleppti hann ekki stýrinu heldur sneri því og beygði í áttina sem hann benti. Þannig vorum við nokkrum sinnum næstum komin útí móa.

            Og viti menn. Steinunn gerir þetta líka! Bendir og snýr stýrinu um leið.  Og það á spænskum hraðbrautum!

            Nóg um það. Fyrsti áfangastaðurinn var Torrevieja. Ég átti ekki von á miklu þarna. Fyrst villtumst við inní urbanización. Það var einsog dauðs manns gröf. Við ókum því lengra náðum loks niðrí miðbæ. Það var bara þokkalegasti miðbær með ánægjulegri strönd og alls ekki eins verksmiðjulegur og ég hafði búist við.

            Síðan héldum við til Cartagena, lögðum bílnum á stæði á breiðgötu í bænum og gengum í átt að sjónum. Ég keypti kort af borginni á blaðastandi manns sem greinilega sérhæfði sig í tímaritum með myndum af berum konum. Ég held að ég hafi bara aldrei fyrr séð jafnmörg þannig tímarit á jafnlitlum stað. Samt keypti ég bara kort.

            En Cartagena er mjög falleg borg. Að vísu er hún illa farin eftir Francótímann því hann svelti þau héruð sem honum hugnaðist ekki og meðal þeirra voru héruðin við Miðjarðarhafið. En uppbyggingin er allstaðar og glæsilegar byggingar ber við augu. Og höfnin er einstaklega falleg. Borgin var mikilvæg öldum saman, ekki síst fyrir góða náttúrulega höfn. Og enn er þar herskipalægi spænska flotans.

            Þetta er fornfræg borg. Karþagómenn stofnuðu Cartagena á þriðju öld fyrir Krist. Cartagena þýðir einmitt Nýja-Karþagó. Rómverjum hugnaðist ekki útþensla Karþagómanna á Íberískaganum og það leiddi til púnversku stríðanna. Hannibal lagði einmitt frá Cartagena með fílana sína til að herja á Róm á sínum tíma. Rómverjar lögðu síðan Íberíuskagann undir sig en eftir þá komu Vestgotar og loks Márar sem réðu Spáni framundir árið 1500. Á tímum Máranna hét borgin Qartayanna al Halfa.

Þetta sýnir í hnotskurn sögu Íberíuskagans. Þar hafa margar þjóðir og þjóðflokkar ráðið ríkjum. Síðan bætast við áhrif frá fyrrum nýlendum Spánar í Suður-Ameríku. Þetta er skýringin á hinni fjölbreyttu menningu Spánar.

            Morguninn eftir þessa ferð var komið að kveðjustund og Steinunn ákvað að aka þeim hjónum útá flugvöll og skila síðan bílnum. Mér var ekki farið að lítast á blikuna þegar frúin skilaði sér ekki heim á skikkanlegum tíma. En loks birtist hún. Hana hafði vantað kortamann. Í stað þess að aka N340 til Elche ók hún uppá hraðbrautina til Alicante og komst ekki útaf henni aftur fyrren hún var að koma inní miðborgina.

 

25. maí 2005

Næsti gestur kom tveimur dögum seinna. En daginn á milli gerðist þetta:

            Úrslitaleikurinn í mestaradeildinni. AC Milan og Liverpool. Við Jón Haukur ákváðum að líta til Pepes en þar var leikurinn ekki sýndur. Fórum þá á stað rétt við Libertad þar sem er stór skjar en þar var enginn leikur. Hlupum loks niðrá Bar Nobel. Þar var leikurinn byrjaður. Fimm mínútur liðnar. Ég heilsaði barþjóninum brosandi:

            ¡Hola, noches! Un vino tinto y un caña, por favor.

            Um leið og hann rétti mér glösin spurði hann hvort við héldum með Liverpool. Ég sagði svo vera.

            Þá sagði hann brosandi, hann er alltaf brosandi: AC Milan uno, Liverpool zero.

            Þessir ítölsku anskotar höfðu skorað á fyrstu mínútu leiksins meðan við Jón vorum á hlaupum. Ekki tók betra við einsog allir vel upplýstir lesendur þessa bréfs vita. AC Milan var yfir 3 mörk gegn engu í hálfleik. Jón stakk uppá að fara heim og horfa á leikinn þar en ég var einhverra hluta vegna ógnarbjartsýnn og sagði:

            Fyrst þeir geta skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik þá getum við það líka í seinni hálfleik. En hugsaði líka: Maður fer ekki að flýja!

            Einsog allir vita nema þeir sem eru algerir imbar og analfabetar í fótboltafræðum þá skoraði Liverpool þrjú mörk í seinni hálfleik og vann svo eftir vítaspyrnukeppni þar sem pólski markvörðurinn Dudek varði meistaralega.

            Þeir sem þarna voru héldu allir með Liverpool enda leika þar nokkrir spánverjar og þjálfarinn er spænskur og gerði lið Valenciu að spánarmeisturum. En einsog hefur komið fram eru þetta mest gamlir menn sem stunda Bar Nobel svo að þeir einu sem höfðu hátt vorum við Jón. Ég neita því heldur ekki að ég gekk um gólf þegar vítaspyrnukeppnin fór fram, gömlu mönnunum til mikillar ánægju og voru þeir óþreytandi að færa til stóla og bjóða mér sæti þegar ég arkaði um!

            En Liverpool er meistari meistaranna!

 

Guðrún kemur

Við tókum öll saman taxa útá flugvöll að taka á móti Guðrúnu. Það voru margar vélar að koma þannig að biðin var nokkur. Við lékum okkur að því að að reyna að þekkja íslendingana úr honum hópunum. Fyrst komu englendingar, svo danir en ekkert bólaði á drukknum íslendingum enda voru víst aðallega saumaklúbbar í vélinni, að því er Guðrún sagði okkur seinna.

            Loks birtist Guðrún. Faðmlög og kossar og að minnsta kosti pabbi táraðist. Það var ekki síst þegar Guðrún horfði undrandi, næstum skelkuð á pabba sinn og spurði:

            Pabbi, í hverju ertu?

            Ég var bara í grænum bol og hvítum stuttbuxum og sandölum. Hún hafði ekki fyrr séð mig í þessum litum heldur bara í gallabuxum og sauðalituðum bolum, skyrtum og peisum. En hefur litaval mitt breyst á Spáni.

            Síðan var sest til borðs á flugstöðinni og skálað í freyðivíni sem Steinunn hafði keypt. Svo var ekið í leigara heim á Ruperto Chapi 17.

            Eitt af því fyrsta var að kynna Guðrúnu fyrir þakinu en þar lá hún þar löngum stundum og ljóstillífaði og sagðist ætla að verða kolbrún áður en hún fer heim. Það passar ágætlega og er saga að segja frá því. Þannig var að þegar Matthildur var 12 eða 13 ára kaus hún að láta ferma sig. En hún var óskírð en skírn er forsenda fermingar. Það var því ákveðið að láta skíra hana. Þá sagði Einar:

            Pabbi, ég fer sko ekki einn í kirkju til að láta skíra mig þegar ég á að fermast.

Hann var því tekinn með og þá tók ekki að skilja Guðrúnu eftir, fimm ára gamla, þannig að þau voru skírð öll í einu í Neskirkju hjá séra Felix. Athöfnin var mjög fyndin, sérstaklega söngurinn. Sérann söng hárri skrækri röddu, Matthildur þáverandi tengdamamma mín afskaplega falskt, pabbi einsog hann gat en restin af söfnuðinum hreyfði varirnar í hátíðlegri þögn. Skírnarbörnin sungu ekki en héldu á sálmabókunum og Guðrún sinni á haus.

            Svo lauk þessu en á kirkjutröppunum spurði Guðrún:

            Pabbi, heiti ég núna Kolbrún?

            Loks rætist þessi draumur hennar. Hún er að verða kolbrún ...

            Eitt kvöldið fórum við til kínverjanna handan götunnar og sú kínverska sagði um Guðrúnu: Es muy guapa.[114]

            Si, sagði ég. Y rubia como su padre.[115]

 

Eitt kvöld

fórum við í bæinn eftir að hafa etið sverðfisk og humar heima á Ruperto Chapi. Röltum um bæinn og settumst á útikrá rétt hjá arababöðunum. Mjög gelgjulegar stelpur í afskaplega stuttum pilsum gengu oft framhjá borðinu okkar. Þetta voru eiginlega reimar frekar en pils. Stúlkurnar voru fremursölulegar að sjá. Í eitt skiptið fannst annarri þeirra greinlega að eitthvert okkar horfði um of á þær þannig að hún svipti minipilsinu sínu upp og sýndi þrýstinn rassinn með tvinnaþykkan þveng skóreim og hreytti útúr sér:

            ¿Tu gusta me falda?[116]

            Við erum enn að velta fyrir okkur hvert okkar hún var að ávarpa.

             Hún sagði nenfilega greinilega þú en ekki þið. Hhvert okar glápti mest?

            Loks kom að því að við Steinunn vildum snúa nefum heim en börnin vildu enn stunda krár enn um sinn.

            Það varð úr.

            Morguninn eftir var Jón Haukur mjög rámur, rétt einsog hann væri kominn í mútur á nýjan leik. Þau höfðu fundið diskótek sem þeim fannst ekkert sérstakt en bæði vegna þess að þau voru íslensk og líka vegna þess að spanjólarnir töldu þau vera kærustupar fengu þau ókeypis aðgang. Svo fengu þau frítt á barnum þegar í ljós kom að þau voru ekki kærsustupar heldur systkin.

            Svona eru þessi spánverjar skemmtilegir.

 

Enn eitt ævintýrið í ævintýrinu

Loks kom að því að lagt var uppí enn eitt ævintýrið. Nú var ferð heitið til Mæjorku að hitta Matthildi og Auðun. Gunnlaugur kom á strætisvagninum sínum til Elche og ók okkur útá flugvöll. Þetta með strætisvagninn þarfnast skýringar. Í hvert sinn sem frændi minn pantar lítinn bílaleigubíl þá fær hann enn stærri bíl en hann kýs en á verði lítils. Þeir segjast aldrei eiga litla bíla þegar hann birtist. Ég held því fram að þetta hafi eitthvað með vaxtarlag hans að gera. Í þetta sinnið hafði hann fengið strætó með plássi fyrir fjölda manns þannig að vel fór um okkur.

            Svo ók hann okkur útá flugvöll og flogið var þægilega til Mæjorku, leigari frá flugvellinum niðrá höfn, fyrst á vitlausan kaja en svo þann rétta og þar voru Mattildur og Auðun.
            Það var mikið faðmast, það var knúsað og kysst og það læddust niður tár á kinnar, að minnsta kosti mínar. Maður verður meyr með aldrinum og það er bara alltílagi. Ég var nú að hitta Möttu eftir fimm mánuði og hafði svosem ekki séð Auðun nema í mýflugumynd. Rétt að ég þekkti andlitið en alls ekki meira. En nú þekki ég hann betur og ég verð stoltur tengdafaðir. Meira um það síðar. (Og hér innan sviga:

Þegar Matta sagði mér frá Auðuni í fyrsta sinn gerðist það svona. Þetta var símtal:

            Sæll, pabbi, ég þarf að segja þér svolítið.

 matta%20og%20auudun          

Skipperinn og frúin.

            Ókei, talaðu, sagði ég.

            Ég á kærasta, sagði Matta.

            En gaman, sagði ég og ætlaði að segja meira en þá kom þetta:

            Hann er hægrimaður, svona frjálshyggjugaur en margir bestu vinir hans eru vinstrimenn eins og Stefán Jón Hafstein og Einar Kárason og ...

            Jæja, sagði ég ætlaði að svara því til að aðalatriðið væri að hún væri hamingjusöm en hún hélt áfram og gaf mér engan séns:

            Hann er jafngamall Steinunni, heyrðist mjög hljóðlega en mjög snöggt strax á eftir, mun hærra: En hann heldur með Liverpool.

             Ég varð vitaskuld himinlifandi því þegar maður heyrir á rödd barns síns fulla af hamingju þá gef maður skít í aldur, pólitík og meiraðsegja fótbolta. Hann hefði mínvegna mátt halda með United. En vissulega var það betra að hann er púlari.)

            Svo vorum við hin nýkomnu kynnt fyrir skútunni. Hún heitir Ninga Loo og er af tegundinni Legend 44, 22 fet minnir mig.

            Um kvöldið fórum við í land að borða. Það er helst um um þann málsverð að segja að við Jón Haukur átum strútakjöt sem var alger snilld. Og svo reyktu fullorðnu karlmennirnir mjög stóra vindla.

 þrir%20vindlar

Ég uppgötva sköpun heimsins

eb%20skopun%20heimsinsDaginn eftir var lagt úr höfn uppúr klukkan tíu. Veðrið var unaður. Það er að segja ríflega 20 gráðu hiti, logn í Palma en vindur á sjó til að knýja segl. Auðun skipper sigldi hægt fyrir vélarafli útúr höfninni og kenndi um leið verðandi krjúinu það sem það þurfti að kunna. Það var fljótlært enda létt verk og við við fljót að læra. Þegar útúr höfninni var komið voru undin upp segl, vélarhljóðið kæft og vindurinn sá um rest. Þá lagðist ég framá og sofnaði smástund undir steikjandi hita sólargeislanna og í heitum vindi og upplifði sköpun heimsins.[117] Þarna útafliggjandi

hugsaði ég einsog einn góður amrískur djassari:

        Shoot me while I’m happy!

 

Þennan dag

var semsagt blíðuveður og siglingin unaður. Orðið unaður eða jafnvel flámælta útgáfan önaður kom oft við sögu. Skýringin er að fyrsta morguninn sátum við Gunnlaugur uppá dekki og Guðrún sagðist hafa vaknað við síendurtekið orðið unaður.

            En þennan dag var siglt var sem leið lá frá Palma meðfram fallegri klettóttri ströndinni allt til smábæjarins Palmanova. Þar var farið í land.

            Gúmmítuðrunni hent í sjóinn en vegnaþess að utanborðsmotorinn fór ekki í ganga þurfti að róa. Fyrst fórum við Jón og Guðrún. Við Jón rérum saman. Þegar komið var í fjöruna ætlaði ég að hoppa í landa og draga tuðruna að en vildi svo illa til að ég fór á bólakaf. Jóni og Guðrúnu til mikillar skemmtunar. Og nokkrum spánverjum á bakkanum.

            Það er nú alltaf gott að geta orðið fólki til skemmtunar.

            Svo var þetta einsog í sögnni um bóndann, heypokann, kindina og allt það. Jón sótti Gunnlaug, Matthildi og Steinunni og var með harðsperrur í handleggjunum daginn eftir. Auðun skipstjóri varð eftir um borð til að hvíla sig eftir að hafa stjórnað ferðinni og reynt að ala upp nýtt krjú. Eini vani maðurinn, auk hans, var Gunnlaugur. Við hin vitagagnslaus nema við kunnum að hlýða skipstjóra einsog vera ber um borð.

            Nú, Palmanova er bara lítill strandbær. Áðum þar góða stund en svo var aftur haldið um borð. Eftir sundsprett í hlýjum sjónum og svo siglt þöndum seglum til Palma.

            Mikið var gott að leggjast í koju og láta skútuna rugga sér í svefn.

 

Daginn eftir

var hlýtt en skýjað með köflum og eftir staðgóðan enskan morgunverð á Strandgötuni í Palma var lagt úr höfn og ákveðið að fara lengra eða alla leið til Santa Ponca þarsem við Einar Eiríksson vorum fyrir mörgum árum með feðgunum Eiði og Einari Erni.

            En þegar komið var í hafnarmynnið leist Auðuni ekki á blikuna enda höfnin lítil og erfitt að snúa við í henni, sagði hann. Stefni var því snúið til Palma en þá var orðið allhvasst. Fljótlega kom í ljós að seglin færðu okkur lítið áleiðis. Því var vélin ræst og við komum til Palma um klukkan sjö eftir nokkuð langa siglingu þar sem lítið miðaði vegna vindgangs. Reyndar fyrirskipaði Auðun að allir um borð yrðu beislaðir fastir enda líklega banabiti að detta útbyrðis í þessum sjógangi. Sumir urðu hvítir í framan og jafvel með græna slikju. Nefni engin nöfn.

 

Flottasta mómentið í ferðinni

Það voru mörg glæsileg móment í þessari ferð en ég vona að á engan sé hallað þótt ég velji þetta: Vindurinn fór í kviðum uppí 30 hnúta, báturinn skoppaði á öldutoppunum einsog korktappi, vélin sló feilskot og dallurinn datt oní öldur og við í bráðri lífshættu. Þannig séð! Gunnlaugur stóð sterkur við stýrið og horfði í vindinn og fékk yfir sig marga skvettuna. Auðun skipper fylgdist grannt með öllu og setti svo disk í tækið og skyndilega hóf Ási í Bæ upp raust sína og söng ballöðuna um Gölla Valdason. Ég segi þetta bara einu sinni: Gunnlaugur stýrði bátnum undir söng pabba síns og það var ekki að sjá neitt í andliti hans, engin svipbrigði en þá horfði ég í augun hans og þau lugu ekki.

 g%20styrim

Ég held ég ætti að þegja ...

 

 

 

 

 

Fleiri fengu að stýra. Sjáiði bara!

 

ge%20styrið  eb%20styrir%202 jon%20ad%20styra

 

Guðrún hélt áfram að ljóstillífa, bæði á sjó og í landi

ge%20læjosstillifarjpg CIMG2439

 

Og þessa mynd tók Gunnlaugur og heimtaði hana í söguna

Hann kallar hana: Hugsuðurinn á pungbindinu.

 

hugs%20pungb

 

Fleiri myndir

eb%20ms%20og%20ge mæðgin systur%20lesa

 

ge%20og%20jon shh%20og%20ga auðun%20siglir

 

hjonin%20eb%20og%20shh gulli%20styrir%20hjon%20hugsa jon%20styrir

PHOT0037systkinin PHOT0066  

 

 PHOT0026

 

 

CIMG2463

PHOT0032

Bless, Matthildur og Auðun,

og kærar þakkir fyrir ógleymanlega daga. 

batur%20kvaddur

 Lent í Alicante

Við biðum í tæpan hálftíma á flugvellinum í Palma. Loks druslaðist vélin á loft. Við fundum að flugvélin lét undarlega nánast allan tíma og ekki síst rétt fyrir lendingu og þessvegna brá mér ekki þegar vélin fleytti kellingar á flugvellinum, að minnsta kosti tvær. Og ég, þessi flughræddi maður, blés hvorki úr nös né fékk hjartsláttartruflanir heldur hugsaði með mér:

            Isspiss, þetta er pís of keik. Ég var á sjó í gær! Í óveðri.

Gunnlaugur hafði pantað bíl áður en við flugum til Mæjorka, lítinn sem hæfði manni sem mest ekur einn. Ég fylgdist vel með þegar hann sótti bílinn. Stúlkan í afgreiðslunni mældi hann með augunum sínum brúnu og ég heyrði hugsanir hennar:

            Þessum manni hæfir ekki bíltík. Hann þarf alvöruverkfæri.

            Enda fékk hann stóran bíl á verði lítils. Sem fyrr!

 

Til La Marina

Tveimur dögum seinna héldum við til La Marina að heimsækja Gunnlaug og hanga á strönd. Því miður má Guðrún ekki aka vélfáki þannig að við gripum til þess ráðs að kaupa handa henni hjálm og setja hana fyrir aftan Jón Hauk. Þannig brunuðum við til La Marina og áttum þar góðan dag að venju.

            Jón var himinlifandi yfir þessu með hjálminn. Þá gat hann bæði reitt systur sína – og ók varlega – og fengið stelpur á hjólið hjá sér heima í Reykjavík.

 

Enn ferðalag

Ungviðið á heimilinu langaði að fara til Benidorm sem er túristaverksmiðja skammt norður af Alicante. Benidorm trúi ég að þýði Góður svefn enda held að fólk sofi þar vært eftir næturlanga drykkju. Við þessi fullorðnu létum til leiðast til að lofa að fara þangað. En þegar til átti að taka björguðumst á undursamlegan hátt frá þessu þegar Gunnlaugur frændi hringdi. Erindi hans var að skila til okkar boði frá Kára um gistingu hjá honum í Madrid. Þannig var að stelpurnar sem hann leigir með voru allar að heiman þessa tilteknu helgi svo hann hafði pláss fyrir okkur öll.

            Auðvitað er ekki spurning um að Madrid er tekin framyfir Benidorm. Um það voru allir sammála.

            Gunnlaugur var búinn að kaupa sér lestarmiða klukkan tvö á föstudeginum svo við drifum okkur til Alicante og fengum miða með sömu lest og til baka seint á sunnudeginum til að fá sem lengsta dvöl í Madrid.

            Eyddum svo þeim degi á ströndinni í Alicante.

            Loks rann upp föstudagur og klukkan tvö lagði lestin af stað. Við vorum að sjálfsögðu á fyrsta farrými og lestarþjónar bera í mann mat og drykk þá þrjá og hálfan tíma sem ferðin tók. Lestin stansaði í Villena og við sáum Teatro Chapi. Þá þurfum við ekki að fara þangað. Bin ðer, dönn ðat!

            Lestin klifraði uppá hásléttu Spánar og þaut svo um gróna sléttuna. Þarna voru vínekrur, appelsínutré og ólífulundar svo langt sem augað eygði og ævinlega í þessum snyrtilegu röðum. Fjöll í fjarska. Ekki mjög fjölbreytt landslag.

            Þegar við komum til Madridar fórum við beint á risastóran bókamarkað í garði nokkrum. Í einum básnum var nefnlega Íslandsdeild og þar var Kári að breiða út íslenska menningu á spænsku. Þar hittum við líka föðurbróður Gunnlaugs, nefnilega Kristin R. Ólafsson sem talar frá Madrid. Hann var að kynna og árita bækur sínar, reyndar kvartaði Kári undan því að frændi hans væri lélegur sölumaður bóka sinna. En þarna kom líka í ljós að Kristin er að þýða íslenskar smáglæpasögur á spænsku og meðal annars eina eftir undirritaðan. Safnið kemur bráðlega útá Spáni.

            Jú, jú, auðvitað er ég montinn! Nema hvað? Ekki spyrja einsog ...

Þarna keypti ég nokkrar spænskar þýðingar íslenskra bóka til að gefa bókakaffinu í Elche.

            Við geymdum svo töskurnar í básnum hjá Kára og ráfuðum um garðinn og prófuðum veitingahúsin þar til Kári var búinn að vinna klukkan rúmlega tíu. Þá fórum við heim til hans og skoðuðum vínbirgðir hússins og gerðum þeim nokkur skil.

            Næsti dagur var tekinn snemma. Ég ætla ekkert að segja frá því hvað og hvar við borðuðum og drukkum. Við skoðuðum bæinn undir stjórn Kára sem sýndi okkur það markverðasta. Madrid er risaborg. Ég ákvað að gerast lesblindur á borgina og láta leiða mig einsog barn. Þóað Steinunn gæfi mér heimilsfang Kára párað á blað hefði ég ekki ratað þangað fyrir mitt litla líf. Það er stundum gott að vera án ábyrgðar.

            Í eftirmiðdaginn fórum við á Reina Sofia. Gáfum okkur klukkutíma og Kári átti að sjá um að finna það markverðasta handa okkur enda sagðist hann oftlega ganga þar um sér til andlegrar heilsubótar. Innan stundar vorum við í sal með verkum eftir Picasso og þar var Guernica. Það er þvílíkt verk að ég man valla eftir öðrum sem við sáum á eftir. Þetta er magnþrungið verk þar sem þjáning og angist eru í aðalhlutverki en líka vonin. Litli fuglinn sem flýgur upp milli nautsins (tákn Spánar) og hestsins. Og svo nokkur blóm. Ég hef margoft séð ljósmyndir af þessu verki en frummyndin er gríðrlega áhrifamikil

            Kári fór svo að vinna, við ráfuðum um og hittum hann svo í kvöldmat eftir vinnu.

            Á sunnudeginum fórum við á markað. Þessi markaður er Kolaport sinnum 20, einsog Kári orðaði það. Nokkrar götur eru þaktar sölubásum. Ég sá ekki hve margar. Við skiptum liði. Fullorðna fólkið sér og ungviðinu var sleppt lausu. Allar göturnar enda á svipuðum stað og  ákveðið var að hittast á ákveðnum tíma við enda einhverar götu. Fullorðna fólkið settist á terraza. Jón og Guðrún hringdu en vissu ekkert á hvaða götu þau voru. Kári lóðsaði þau og innan skamms sáum við glitta í þau í svona 200 metra fjarlægð. Ég ætlaði að fara að hlaupa því mér datt ekki í hug að rödd næði alla leið. En þá kallaði Gunnlaugur hátt og snjallt:

            Guðrún!

            Ég hugsa að allar Guðrúnar á Stór-Madridarsvæðinu hafi hrokkið í kút.

 

Grísk skipulagning

Í þessar ferð lékum við gjarnan grískan endurskipulagningaleik. Hann felst í því að gera grófa áætlun og endurskipuleggja með reglulegu millibili, halda fundi á um kortersfresti og endurskipuleggja.

            Ég var eitt sinn í Aþenu ásamt fleiri þjóða kvikindum, meðal annars svíum. Grísku gestgjafar okkar voru ekki fyrr búnir að skipuleggja dagskrána en þeir stönsuðum, héldu skyndifund og endurskipulögðu. Þetta var meira en svenskarnir þoldu og þeir voru sífellt á barmi taugaáfalls.

            Eftir markaðinn kom tvennt til greina: Prado safnið eða skemmtigarður. Börnin höfðu verið höll undir garðinn en vissu ekki við hin höfðum haldið endurskiplagningarfund um nóttina og ákveðið að fara í Prado. Enda má ekki heimsækja Madrid og sleppa Prado. Þau samþykktu.

            Þetta er risastórt þjóðarlistasafn og státar af verkum eftir Goya, El Greco og Velazguez svo fáir séu nefndir. Safnið er í byggingu sem upphaflega átti að vera Náttúrugripasafn og þessvegna er bótanískur garður við annan enda hússins. En svo flaug einhverjum kónginum í hug að geyma þarna listaverk sín.

            Kári var farinn að vinna svo það kom í hlut Gunnlaugs að vera gæd. Hann hafði þrætt þessa ganga áður. Það er vitaskuld meira en klukkutíma verk að skoða risastóra safn þanig að Gunnlaugur valdi úr það markverðasta. Ég nefni til að mynda Aftökuna eftir Goya og Las Meninas (mynd af konungsfjölskyldunni) eftir Velázguez.

En allt gott tekur enda. Innan stundar kvöddum við Gunnlaug og ókum á brautarstöðina og lestin flutti okkur til Alicante og þaðan tókum við leigara heim. Við vorum ögn þreytt en ægilega glöð þegar við komum til Elche um miðnætti.

 

Biluð tölva. Ónýt?

Morguninn sem við fórum til Madridar startaði tölvan mín ekki en lét þess í stað afar undarlega. Mér datt strax í hug að harði diskurinn væri ónýtur. En hugsaði einsog pabbi heitinn kenndi mér: Den tid, den sorg. Það er ekkert hægt að gera þessa helgi.

            Auðvitað læknaðist hún ekki af sjálfum sér og var jafnbiluð þegar ég kom frá Madrid. Einar Eiríksson gat engin ráð gefið gegnum síma og stakk uppá að Guðrún kæmi með hana til Íslands.

            Isspiss, sagði ég. Hér eru tölvuviðgerðarmenn.

            Labbaði upp Ruperto og fann litla holu þar sem var viðgerðaverkstæði fyrir tölvur.

            Ég sagði manninum að tengo una problema seria. Me temo que el disco duro es falta. Tengo muy importante datos. ¿Puedes reparar mi ordenador? ¿Es posible rescatar los datos?[118]

            Maðurinn brosti, tók tölvuna, ræsti hana, ýtti á F2 takkann, svo nokkra aðra takka. Beið un poco. Og viti menn. Þremur mínútum seinna gekk ég út með tölvuna í lagi.

            Ég veit ekki hvor okkar brosti meira. Hann tók ekki i mál að fá laun fyrir erfiði sitt.

            Það hefur komið mér á óvart hvað menntað fólk talar gjarnan lélega ensku. Þetta átti við um sjóntækjafræðingana, tannlækninn og núna tölvumanninn. Það er óhugsandi að læra þetta nema kunna ensku. Hélt ég. En þarna skildi ég þetta loksins. Spænskumælandi menn eru meira en 300 miljónir og allt sem til er á ensku er til á spænsku. Enskan skiptir þá litlu máli.

 

Síðustu dagar Guðrúnar í Elche

Síðustu dagar Guðrúnar í Elche voru þrautskipulagðir.

            Mánudagur fyrir hádegi: Sólbað á þaki.

            Eftir hádegi: Verslunarleiðangur í mollið. Jón Haukur fór með henni. Við Steinunn hittum þau óvænt niðrí bæ um klukkan sex, Guðrún með marga poka en Jón gersamlega uppgefinn. Á milli: Meira sólbað á þakinu. Spurningar á borð við þessa flugu um: Er hægt að flagna tvisvar á dag?  Og svona fullyrðingar: Sólarvörn er fyrir kellingar!

            Um kvöldið: Pöbbarölt. Jón svaf heima, verslunarútkeyrður!

            Þriðjudagur. Á slaginu 10 hvarf Guðrún oní bæ að versla. Svo buðum við henni í Huerta del Cura einsog öðrum gestum. Eftir það fékk hún sér síðasta hvítvínsglasið í sólkini á veitingastað á Poeta Miguel Hernandez. Þar skáluðum við öll. Svo gekk hún í mollið til að versla enn meira. Um kvöldið eldaði Steinunn mín dýrindis kvöldverð: akurhænur og kanínu með fylltum sveppum og allskyns öðru dóti. Eftir matinn héldum við á bókakaffið til að afhenda bækurnar. Þetta voru bækur á spænsku eftir Guðberg Bergsson og Kristin R. Ólafsson. Þá létum við flakka með nýju bókina hans Arnalds og Smáglæpi og morð. Þær eru báðar á íslensku þannig að við létum fylgja með íslensk-spænska orðabók.

            Miðvikudagur: Vaknað snemma því vélin fór í loftið klukkan tíu. Mættum útá völl hálfníu. Það var klukkutíma röð í innritunina. En gekk fyrir rest.

            Þegar við Steinunn komum heim aftur var hálftómlegt. Mér var undarlega innanbrjósts. Loks fann ég hvað þetta var. Sagði við Steinunni:

            Veistu, þetta er í fyrsta sinn síðan ég kom hingað sem ég finn fyrir vott af heimþrá.

            Ég líka, sagði Steinunn.

            Fjölskyldan er það flottasta sem maður á og börnin það besta. Svo einfalt er það.

            Takk fyrir komuna, Guðrún. Hlakka til að sjá þig í sumar.

 

Pínupoms um hitamælana í Elche

Einsog margoft hefur komið fram fylgist ég grannt með hitamælum borgarinnar og sérstaklega vini mínum niðrí bæ sem sýnir ævinlega hærri tölu en hinir.

            Fyrir nokkrum dögum var óvenjuheitt í nokkra daga, sjálfsagt um og yfir 30 gráður. Og þá gerðist það undarlega. Mælirinn minn góði hefur líklega fengið sólsting því uppfrá þeim degi hefur hann sýnt -60 gráður!

            Svo bregðast krosstré sem önnur.

 

Ég móðgaður

Dag einn kom leigusalinn til okkar. Erindið var að fá að sýna nýjum leigjendum íbúðina. Ég fékk nett kast. Á að fara að leiga einhverju fólki útí bæ íbúðina okkar?

            Jæja, hann kom klukkan fjegur aftur með ung hjón á aldur við okkur Steinunni. Ókei, aðeins yngri. Við vorum búin að laga til og sjæna allt.  Leigusalinn var varla búinn að vera nema fimmtán sekúndur þegar hjónin ruddust út og sögðust aldrei vilja búa í svona hallærislegri íbúð og voru með ljótan svip. Þau gáfu skít í íbúðina okkar!

            Ég fékk aftur nett kast, núna var ég móðgaður innað beini.

 

Krem

Ja, hvað skyldi ég ætla að skrifa hér? Ekki um rakkrem eða bodílósjón. Ekki um sólarolíu og eftirsólar- krem. Nei, nei. Allt annað.

            Niðrí Cartgena þurfti Ingibjörg í Vík að kaupa eitthvað apóteki. Þá sá ég auglýsingu. Á myndinni var afar ljótur fótur, ilin var svört og sprungin einsog hraunbreiðan á Skjaldbreiði. En svo var önnur mynd af fætinum - eftir krem; hann var hvítur og fallegur einsog jökulhettan á Eiríksjökli eftir dúnmjúka snjókomu og virtist linur viðkomu sem barnsrass.

            Þetta vakti athygli mína vegna þess að siggið á fótunum á mér rífur sængurfatnað, Steinunni minni til mikillar armæðu. Þegar ég var unglingur sendi mamma mig á fótaðgerðastofuna sem hún heimsótti vikulega. Eftir þær trakteringar gekk ég haltur í viku svo slíkt hefur aldrei komið til greina aftur. Ég spurði afgreiðslukonuna út í þetta krem.

            Þetta eru tvær tegundir, önnur miklu sterkari, sagði afgreiðslukonan.

            Hvor heldurðu að henti mér? spurði ég einsog asni enda svaraði hún að bragði að hún hefði ekki grænustu hugmynd um það.

            Ég gerði því það eina rétta í stöðunni, svipti af mér sandalanum og setti fótinn uppá borð og bað hana skoða.

            Brosandi útað eyrum benti hún mér á veikari útgáfuna.

            Og núna sarga ég daglega á mér fótinn með þjöl sem Steinunn keypti handa mér og maka mig svo með kreminu góða. Við þessa iðju sat ég á svölunum og sötraði kannski rauðvín og reykti vindil.

            Jú, ég reyki ennþá. Meiningin var að hætta þegar ég kæmi til Spánar. Í barnaskap mínum hélt ég að það væri hægt. En í þvísa landi er beinlinis ætlast til þess að maður reyki. Það var því ekki viðlit að reyna að hætta. Enda átti ég að vita að það gengi aldrei. Þannig var að þegar ég fór til Estepona fyrir um áratug þá hafði ég verið hættur að reykja í nokkur ár. Rafael spænski gestgjafi minn ræktaði hass og bauð mér. Ég neitaði, bæði vegna þess að ég reykti ekki og líka af því að hass hefði ég ekki smakkað frá því ég var ungur maður og það ekki fundist neitt í það varið þá. En Rafael hafði komið til Íslands og smakkað rauðvínið mitt og nú notaði hann það gegn mér.

            Ég smakkaði rauðvínið þitt og þú vilt ekki prófa mína framleiðslu, sagði hann. Og bætti við: Það er alls ekki sama að reykja hass og tóbak. Þú byrjar ekkert að reykja.

            Og ég, auðtrúa maðurinn, þáði góðgæti Rafaels, smakkaðist bærilega, skrapp svo útí sjoppu, keypti tóbak og hef reykt síðan.

            En hvernig gengur annars með fótinn með kremip góða frá Cartagena? Jú, takk, bærilega. Fæturnir verða brátt hvítir og fallegir einsog jökulhettan á Eiríksjökli eftir dúnmjúka snjókomu og linir viðkomu sem barnsrassar. Eða þannig.

 

Einn góðan veðurdag

var skýjað en hlýtt. Við höfðum ætlað á strönd en skiptum um skoðun. Ég vann framyfir hádegi við að ljúka endurskoðun á ÍSL 203 í WebCT fyrir sumarönnina sem hefst á mánudaginn. Í dag laugardagur og var ákveðið að restin af deginum yrði letidagur.

            Við Steinunn fórum á kebab stað niðrí bæ (þú þekkir hann, Guðrún) og Jón kom stuttu seinna enda orðinn svangur. Það er annars svo skrítið að það er einsog hann finni á sér hvenær við Steinunn setjumst inná veitingastað og hringir. Þetta er vænn staður. Eigandinn er feitur og mikill en sonur hans feitur og lítill, 11 eða 12 ára. En sá stutti hafði allt fas þjónsins, augnaráðið, handahreyfingarnar og fótaburðinn.

            Ég tók sérstaklega í hönd hans þegar við fórum og sagði:

            Muchas gracias, señor. Tu eres un muy bueno camarero.[119]

            Og hann brosti allan hringinn.

            Svo fórum við að rölta um ný hverfi borgarinnar. Sáum nýtt torg og þar var krá sem heitir Café Ambigu 24H. Við settumst útá götu en inni sátu átta kallar að tala saman. Þeir töluðu hátt. Einn í hvítri skyrtu þagði oft og mikið en svo hóf hann upp raust sína einsog tenorsöngvari með handahreyfingum.

            Svo tókum við eftir því að dyr staðarins voru sífellt að opnast og lokast. Loks sáum við að mennirnir töluðu svo mikið með höndunum að þeir skáru geislana sem stýrði dyrunum.

            Þetta var einsog að horfa á kvikmynd. Dyrnar opnuðust, raddir mannanna bárust háværar útá götu en þess á milli voru raddirnar faldar bakvið luktar dyr. Ég heyrði ekki orðaskil frekar en mennirnir sjálfir því þeir töluðu hver oní annan en þaðsem ég heyrði sagði mér að þeir voru að ræða fótbolta.

            Þarna fór ég svo að hugsa meðan Steinunn fór að pissa. Þegar hún kom aftur sá hún að ég var að hugsa og varð strax áhyggjufull en ég sagði henni að taka þessu með ró. Ég var bara að hugsa um að ég kviði kannski mest fyrir því að koma til Íslands. Í þetta þröngsýna, smásmugulega, íhaldssama, sjálfumglaða, smáborgaralega samfélag.

            Nú vitna ég í stysta kafla í gervallri bókmenntasögunni. Hann er fimmti kafli í viðauka við bókina Blandað í svartan dauðann eftir Steinar Sigurjónsson. Hann er svona:

            Íslendingar eru hænsn!

            Og svo klíkur kapítalismans sem halda þessari þjóð í fangelsi.

            En svo er þetta land þannig gert og þjóðin að ekki er hægt annað en að elska það og hata samtímis.

            Núna langar mig að vitna í ljóðið Landsýn eftir Stein Steinarr en hef það hvorki handbært né orðrétt í höfðinu. Farið bara sjálf í bókaskápinn.

            ¡Adios!

            Á leiðinni heim sáum lokaða antíkbúð og þar inni fallegan skáp. Við förum þangað á mánudaginn. Enn á leiðinni heim sáum við aðra, opna, fórum inn og stuttu seinna út með fallegan trékistil. Líklega er hann úr rósaviði. Þegar hann er opnaður ilmar hann. Annað en íslenska lýðveldið!

            Það er nefnilega það.


Níundi kafli

Revolution nine

Vinsamlegast takið eftir að þessi hluti ferðasögu heitir eftir hinu fræga lagi á Hvíta albúmi Bítlanna. Það er eftir John og Yoko. Íhaldskallinn Paul var á móti því að hafa það á plötunni. En sem betur  fer ... Það minnir mig á að þegar ég frétti að Lennon hefði verið myrtur varð ég orðlaus um stund en sagði svo:

Af hverju skutu þeir ekki Paul í staðinn?

Spilið þetta lag meðan þið lesið níunda kaflann, ¡por favor! Textinn er einfaldur. Number nine, number nine ... Í staðinn fyrir það getið þið raulað Iceland stinks, Iceland stinks, í merkingunni: Lýðveldið Ísland er gegnumspillt og rotið ...

            Um daginn hjóluðum við á Rio Safari de Elche í unaðslegu veðri. Það er stórt útivistarsvæði borgarinnar, dýragarður með ljónum, tígrum, fílum, allskyns fuglum, fiskum, skriðdýrum og hvaðeina.

            Það er bara einsog það er. Þar hittum við hjón með mökk af börnum. Hann var fæddur á Þórshöfn en hún í Venesúela. Aldur og litur barnanna bar vott um mjög flókin fjölskyldubönd. Þau höfðu búið í Alicante í átta mánuði en voru nú að leita að íbúð í kyrrlátum bæ ekki fjarri Elche. Sonur þeirra kom á eftir okkur og sagði að þau fullorðnu vildu ræða við okkur.

            Eftir á vissum við ekki nákvæmlega um hvað en það varðaði skólgöngu sautján ára sonarins sem var greinilega sonur konunnar. Annars er allt í þoku um þetta fólk og ég hef það á tilfinningunni að því líði hvergi vel.

            Sumt fólk er þannig.

 

Daginn eftir

fóru Steinunn og Jón uppá þak en ég sat niðri að bíða eftir fyrirmælum frá Íslandi um hvernig ég ætti að ganga endanlega frá ÍSL 203 sem ég ætla að kenna í fjarnámi í sumar. Meðan ég beið eftir í-meilinu fór ég útá svalir að reykja og lesa af skyldurækni einn kafla í Bítlaávarpinu efir Einar Má. Settist í stólinn en varð samstundis votur í færurna. Vatn hafði lekið úr þvottavélinni. Vélin var búin að þvo svo ég opnaði hana en þá fossaði restin af vatninu yfir mig. Ég óð ökkladjúpt vatnið og góð ráð voru dýr. Steinunn mín á þakinu og þaðan var enga hjálp að fá en þangað leita ég vanalega fyrst.

            Ég lokaði vélinni og fór því að þurrka upp vatn og ákvað svo að láta vélina eiga sig að öðru leyti. Loks var allt orðið þurrt og hreint og fínt og ég fekk í-meilið og gekk frá kennslunni og ákvað að fara uppá þak. Leitaði lengi árangurslaust að ákveðinni kennslubók í spænsku sem ég ætlaði að lesa uppá þaki en hugsaði með mér að Steinunn hefði haft hana með sér upp. Fór því útá svalir að sækja Bítlaávarpið en þá vildi svo illa til að ég missti hana ofaní fulla skolpfötuna sem ég hafði gleymt að tæma. Ég horfði á bókina vera að drukkna í skítugu vatninu en af hreinni skyldurækni veiddi ég hana upp og hengdi á snúru til þerris. Og fór svo rakleiðis uppá þak.

            Af þvottavélinni er þetta að segja: Það var um þrennt að ræða. Hringja í Jose leigusala. Hringja í Reparamos todos[120] en númerið fékk ég hjá manni á Bar Nobel um daginn eða lána Steinunni minni skrúfjárn og segja: Þú getur allt.

            Ég valdi kost þrjú og núna er vélin í fínu lagi. Þetta sýnir að ég er af verkstjóraættum eins og Habbý, vinkona mín hjá KÍ. Móðurafi minn var verkstjóri hjá Vegagerðinni um áratugaskeið og svoleiðis menn eiga að fá aðra til að vinna. Þetta kann ég sumsé.

Seinna lauk ég við Bítlaávarpið af hreinni skyldrækni afþví Einar Már er góður gæi og norden er i orden. En mikið djöfull má hann skammast sín fyrir að senda frá sér svona lélega bók. Hefði betur látið hana drukkna í sápuvatninu.

Þannig leið sá dagur.

 

Að versla einn, tveir og þrír

Við komum til Alicante um klukkan tvö. Jón vildi fara í El Corte Inglés en við hjónin beint á ströndina. Þar með skildu leiðir í bili.

            Á leið á strönd sáum leðurklædda trékistla í búð. Fórum inn. Skoðuðum. Sögðum konunni aðvið ætluðum að þennan. Svo sáum við annan, ekki síðri.

            Esta tambien, por favor.

            Og svo sáum við einn kistil með krókódílaskinni yfir tréverkinu.

            Esta tambien, por favor. Todos tres.

            Þetta minnir mig á auglýsinguna á Íslandi frá 10-11: Ég versla í 10-11 og er snöggur að því!

            Sögðum fólkinu að við værum að fara í sólbað á ströndinni og kæmum seinna að sækja gripina.

            Svo lágum við í sól í nokkra tíma. Að vísu utan þjónustusvæðis  bjórsölumannanna þannig að ég varð að fara uppá götu að kaupa í kverkarnar.

            Eftir sólina hvarf Jón einn síns liðs en við Steinunn fórum að leita að Ono til að segja upp símanum og ads-ellinu. Það var reyndar ekki hægt fyrren 20. júní en ekki eftir það því þá er fiesta í borginni. Nebblega jónsmessa. Í heila viku!!

            Svona eiga menn að skemmta sér.

            En afrakstur verslunardagins var þrír leðurklæddir trékistlar og gjafir handa sumu fólki sem ekki verður nefnt hér því þá kemst allt upp og sumir vita sumt áður en sumir eiga að fá að vita sumt!!

            Tókum leigara heim til Elche.

            ¡Buenas noches!

 

Að eiga

Undanfarna daga hef ég heyrt óm að umræðu í fréttum frá Íslandi um meint óhæfi Halldórs Ásgrímssonar þegar bankarnir voru gefnir útvöldum í fyrra. Mér finnst reyndar engu máli skipta hvort Halldór er hæfur eða vanhæfur í bankagjafarmálinu. Allir vita að hann er óhæfur.

            En ein setning höfð eftir honum vakti mikla athygli mína. Hann sagðist eiga engan kvóta vegna þess að fyrirtæki í eigu hans fjölskyldu og fjölskyldi hans ætti kvóta. Ergó: Halldór á ekki kvóta. Bara fyrirtæki sem hann á.

            Allir eiga alla og enginn á neinn. Enginn á ekkert og því síður allt. Allir eiga allt en enginn á ekki neitt. Allir eiga allt og enginn á allt. Enginn á ekkert því allir eiga allt. Enginn á heldur allt því allir eiga ekkert. Og enginn á ekkert því allir eiga allt.

            Þetta var lítill fyrirlestur um viðskiptasiðferði hins íslenska lýðveldis og um vatnsgreiddu drengina sem eru sífellt í tölvuleik.

 

Eitt sem gleymdist frá Madrid

Það var 36 stiga hiti, mollulegt einsog verður í stórborgum. Við vorum að fara á milli staða í metrónum. Gunnlaugur gekk fyrstur niður tröppurnar, svo Steinunn en síðan við Jón og Kári. Alltíeinu heyri ég Steinunni hrópa á tærri skagfirsku:

            Hvern djöfulan ertu að gera þarna, kona!

            Ég hugsaði með með mér:

            Hvaða óhemjugangur er nú á ferðinni?

            Þetta með óhemjuganginn á þessa skýringu: Eitt sinn meðan pabbi var á lífi vorum við í gönguferð, ég, Steinunn, foreldrar okkar og slatti af þessum börnum sem við höfum á okkar snærum. Mamma og tengdamamma voru að ræða saman og mamma að hæla Steinunni fyrir rólyndi og göfugmennsku þegar tengdamamma svarar á þessa lund:

Hún Steinunn! Hún er nú þekkt fyrir óhemjugang.

            Mömmu brá svo að hún næstum missti fótanna því þessari hlið tengdadóttur sinnar hafði hún aldrei kynnst.

            En sumsé á tröppum metrósins í Madrid hrópaði Steinunn mín sem fyrr sagði með skagfirskum framburði:

            Hvern djöfulan ertu að gera þarna, kona!

            Það skipti engum togum að kona sem hafði gengið í kjölfar Gunnlaugs reif í sundur kort af Madrid, henti því öskuvond í tröppurnar, bölvaði Steinunni og okkur öllum hinum alveg hræðilega og örugglega í sand og ösku og hljóp uppúr metrónum ásamt fylgdarliði sínu.

            Svo koma hið sanna í ljós. Konan var komin með aðra höndina oní buuxnavasa Gunnlaugs til að veiða upp veskið hans þegar Steinunn kom auga á það með fyrrgreindum viðbrögðum.

            Segiði svo að óhemjugangur Steinunnar minnar geti ekki verið til góðs!

            Konan var sígauni. Sumir þeirra hafa þann starfa að betla og stela. Ekki ætla ég að álasa þeim fyrir það. Aðrir selja varning sinn á torgum. Og kannski stela þeir líka og betla í frítímum.

            Æi, við sem búum í þjófafélaginu Íslandi, stundum kallað þjóðfélag sem er stafsetningarvilla, eigum ekki að vera að ybba gogg og dæma annað fólk.

 

Hræðilegt

en við erum byrjuð að pakka niður. Búin að kaupa okkur nokkrar kistur, sumar lagðar skinni, ein af krókodíl. Svo fundum við kassa útí bæ og björgðum heim áður en ruslakallarnir tækju þær.

            Svo fengum við un poco innkaupaæði og keyptum skáp og hillur, gamalt dót, líkega frá Suður-Ameríku.

            Erum líka að skipuleggja heimferðina. Í fullvissu þess að við fengjum taugaáfall við að fara beint á Klakann höfum við ákveðið að vera 25 daga á leiðinni þangað. Þetta er dáltið pússluspil, það þarf að panta hótel og ferðir enda erum við búin að gera heimferðina flókna. Einsog stendur er hún svona: Valencia 2 nætur, Barcelona 3 nætur, París 6 nætur, Dover 2 nætur, Birmingham 3 nætur, Kaupmannahöfn, fimm nætur. Og svo helvítis rokkrassinn í Keflavík. Allt með lestum og ferjum nema flug frá Birmingham til, Köben og á Klakann. Þessi úturdúr í Dover er vegna þess að Matthildur og Auðun verða í Grikklandi og koma ekki strax heim. Mér fannst því tilvalið að skoða þessa hvítu kletta.

 

Frænka mín

sem ég hef aldrei séð en átt í-meilsamskipti við og reddaði okkur óbeint íbúðinni í Elche eins og fyrr hefur komið fram hringdi um daginn og kemur til Elche á morgun.

            Þannig var að ég komst í samband við íslenska fasteignasölu á Spáni. Það gekk ekkert að útvega íbúð þar til þessi frænka mín spurði hvort hún ætti ekki að fá vinkonu sína í Elche til að ganga á milli húsa

            Jæja, þetta reyndist hin besta frænka. Hittum hana með Maríu og fjölskyldu og settumst við borð niðrá Plaza Glorieta góðan eftirmiðdag. Það var strax einsog við hefðum þekkst lengi. Hún er að flytja til Íslands í bili að minnsta kosti og ætlar að setjast að í Mosfellsbæ. Ég er búinn að bjóða henni í eftirmiðdagskaffi að Stóra Aðalbóli seinna í sumar.

            Kærastinn hennar heitir Sigtryggur og leið heldur illa í hitanum enda er hann sjómaður og vanari hitanum á frystitogara við strendur Klakans heldur en rúmlega 30 gráðum í Elche. Hann samsinnti mér glaður þegar ég benti honum á það óréttlæti heimsins að konur gætu klæðst þægilegum kjólum sem við mættum ekki.

            Síðan lauk því og þau heldu til Alicante.

 

Alicante

hefur gjörsamlega breytt um svip. Það er nefnilega að koma Jónsmessa og þá halda spánverjar að sjálfsögðu fiestu. Í Alicante er búið að búa til veitingahús úr helstu götum borgarinnar, það er að segja búið að þekja heilu göturnar borðum og stólum. Þær eru orðnar veitingahús!

            Útum allt eru svo risastórar styttur, mjög ljótar, mikið kits. Flestar eru þær með gamansömu ívafi. Verið að gera grín að hinu og þessu. Oft stjórnmálamönnum. Sumar götur og heilu hverfin eru afmörkuð með svona styttum sem mynda oftar en ekki hlið inní göturnar.

Þetta er rétt að byrja þann 21. og annan en á að ná hámarki á Jónsmessunni með brennum bókstaflega útum alla borg. Mér sýnist á korti sem við fengum að þær séu nokkrir tugir.

Meir um það síðar.

 

Að gera upp við Ono

Svo gerðum við Steinunn stutta ferð til Alicante til að hitta fulltrúa Ono símafélagsins til að segja símanum og ADS-ellinu.

            Brosmildi maðurinn sem við höfum áður hitt og hablar un poco inglés afgreiddi okkur að venju. Hann eyddi löngum tíma í að segja okkur á hvern hátt tækni Onos væri öðruvísi en ADSL og ISDN. Ég held að hann meini að þeir séu með ljósleiðara þannig að við getum hugsanlega notað módemið og ráterinn á Íslandi.

            Svo kom að því að segja upp og biðja hann að senda okkur síðasta reikninginn til Íslands. Við förum nefnilega um mánaðamótin en reikningar Onos koma vanalega um miðjan mánuð, útskýrðum við fyrir honum.

            Þegar hér var komið sögu hnyklaði minn brýrnar og varð alvarlegur í framan. Þetta fannst honum hið versta mál.

            Fyrst skildi hann ekkert í okkur að vera að fara til Íslands þegar Spánn stæði til boða. Við útskýrðum fyrir honum að sælan væri búin og bölið hæfist að nýju.

            Og svo þetta með reikninginn.

            Það er alltof flókið að senda reikning til Íslands. Svo er ekki hægt að greiða þá í íslenskum bönkum, sagði hann.

            En hvað er þá til ráða?

            Ekkert mál. Þið borgið bara síðasta reikninginn næst þegar þið komið til Spánar. Þetta eru hvort eð er ekki nema um 40 evrur!

            ¡Vola Muchos gracias!

 

Jónsmessa í Alicante

Þá var komið að Jónsmessunni í Alicante. Við fórum þangað son las tarde og þar var lítið um að vera. Ráfuðum milli kráa, skáluðum fyrir Jóni enda er þetta nafnadagurinn hans samkvæmt spænskri venju. Ég á hinsvegar nafnadag í Tékklandi, þann 26. október, fékk litla sæta gjöf þegar ég þar á ferð þann dag fyrir nokkrum árum. Ég á hinsvegar engan nafnadag á Spáni. Ég tók einn labbitúr um ströndina, líklega í kveðjuskyni. Svona leið dagurinn.

            Á miðnætti hófust svo herlegheitin. Það var kveikt í öllum styttunum. Við horfðum fyrst á styttubruna fyrir framan ráðhúsið. Þar voru margar styttur brenndar og krakkar röðuðu sér umhverfis og öskruðu:

            ¡Agua![121]

            Og við hvern bruna var slökkviliðsbíll og við þetta ákall barnanna var sprautað vatni á eldinn og yfir fólkið. Þarna stóð fólk í vatnsúða og neistaflugi

            Við gengum víðar. Allstaðar voru brennur. Í litlum þröngum götum, á torgum. Og allstaðar slökkviliðið. Og allstaðar vatnúði og neistaflug. Þessu verða gerð betri skil með myndum síðar meir.

 

En bölvaðir vasaþjófarnir

voru á kreiki. Ég var í sjóræningjabuxunum mínum með smelltum vasa niðrá miðju læri og þar í var veskið mitt. Það er í lagi í Elche en ekki í Alicante í mannþröng á fiestu. Ég fattaði það of seint. Og veskið hvarf úr vasanum. Ég fann þegar mér var hrint og um leið var hrifsað í buxurnar en áttaði mig of seint. Veski, debetkort, ökuskírteini, einhverjar hundrað evrur og myndirnar af börnunum mínum voru nú að gleðja einhverja pörupilta í Alicante.

            Reyndar sá ég seinna um nóttina þjófana niðrá strönd. Annar var hávaxinn í hvítum bol, hinn lægri í Vodafon bol. Þeir voru ekki að horfa á brennandi styttur á pramma sem lónaði í höfninni heldur rannsökuðu þeir fólk. Ég gekk í átt til þeirra, þeir horfðu á mig, hörfuðu sem mér þótti grunsamlegt. Mér fannst einn þeirra vera með eitthvað innan undir peisu sini. Kannski veskjahrúgu. Gekk hratt í átt að þeim en sneru sér strax við og hurfu hratt í mannhafið. Ég gat ekkert gert. Engin lögga á staðnum. Svona vakandi hefði ég þurft að vera fyrr um nóttina.

            Á löggustöðinni var okkur sagt að biðin væri tvær mínútur. Eftir tíu mínútur ákváðum við sleppa þess. Þá voru nokkrir svíar að væla, búnir að bíða lengi. Spurði lögguna hvort ég gæti ekki reddað þessu í Elche á morgun. Ekkert mál, sagði hann og örugglega guðslifandsi feginn að losna við okkur. Við gerðum ekkert í þessu enda sjálfsagt ekki til mikils að standa í kæru af þessu tæi. Enda gat ég sjálfum mér um kennt fyrri aulaháttinn.

            Tókum lestina heim og komum þangað um þrjú um nóttina. Ég hringdi í Visa og lét loka kortinu og allt var í himnalagi.

 

Þessi síðustu dagar

fara mest í bið, pökkun og reddingar. Ekki er komið endanlegt svar frá Eimskip í Hollandi um bílinn sem flytur dótið okkar til Bilbao en það fer það svo til Rotterdam og loks Reykjavíkur.

            Biðdagar eru ekki voða skemmtilegir því maður gerir svo sem ekkert. Nema að bíða!

 

Útskrift og síðasta kvölmáltíð okkar þriggja í Elche

Loks kom að því. Þennan dag, 25. júní, gerðist þetta:

            Matthildur mín varð læknir með einkunnna 8.61. Ég gat ekki verið viðstaddur en sendi í staðinn þessa ræðu sem Einar flutti fyrir mig:

 

Elsku Matthildur mín,

ég man að þegar þú varst svona þriggja ára og við áttum heima í Hjálmholti gekk ég einn fallegan sunnudag með þig upp að Kennaraskólanum. Þú varst í rauðum og hvítum ullarfötum með samlita húfu. Þar æfðir þú þig í að ganga upp og niður skólatröppur. Líklega voru þetta fyrstu skólatröppurnar sem þú gekkst á ævinni en lítið vissi ég þá og þú líklega enn minna hversu margar og merkilegri þær áttu eftir að verða skólatröppurnar sem þú gengir.

            Þú hefur ævinlega tekið nám þitt alvarlega enda er mér það morgunljóst að enginn árangur næst án vinnu.

            Ég man til dæmis þegar þú vaknaðir einn góðan veðurdag, fékkst þér einhvern morgunmat, raðaðir í töskuna og gekkst niðrí MR. Undraðist reyndar hve dimmt var og fáir á ferli þangað til þú fattaðir að klukkan var víst að ganga sex um morguninn.

            Ég man fleira. Við bjuggum þá á Bergstaðastræti og Einar var veikur og ég var að passa hann og þig og Mjöll kom í heimsókn. Svo hurfuð þið Mjöll. Seinna kom ýmislegt í ljós. Það fundust tveir litlir barnakúkar í portinu við Bergstaðastræti 45. Og næstu daga gengu fréttir um Háskóla Íslands að tvær ljóshærðar stelpur hefðu farið upp og niður lyftuna í Árnagarði, stoppað milli hæða en verið ægilega glaðar. Þetta var líklega fyrsta ferð þín í Háskóla Íslands en fjarri því sú síðasta.

            Ég man líka þegar þú varst að lesa undir stúdentspróf að þú baðst mig að spyrja mömmu hvort þú mættir lesa í skrifstofunni hans pabba sem var óhreyfð eftir að hann dó. Mamma tók því strax vel en var samt dáltið órótt. Einhverra hluta vegna hafði hún fengið þá flugu í höfuðið að þú ættir til að vera utan við þig, gleymin, jafnvel fljótfær og með svona rú og stú í kringum þig. Eiginlega dálitla óreiðu. Ég skil ekki hvernig mömmu minni datt þessi vitleysa í hug!

            Enda kom á daginn að þegar ég hringdi í mömmu einhverjum dögum seinna að hún brosti gegnum símann og sagðist aldrei á ævinni hafa séð barn sem hafði aðra eins röð og reglu á sínum hlutum.

            Hún raðar bókunum svo skipulega, sagði mamma.

            Ég brosti bara á móti; vissi þetta alltaf.

            Það er svo margt sem ég man. Og nú ertu semsagt orðin læknir.

            Nýjasta minningin er frá Mæjorku þar sem þú og Auðun tókuð svo konunglega á móti okkur og við áttum þar unaðslega daga.

            Næst ætla ég að banka upp á hjá ykkur í Birmingham. Mikið hlakka ég til þess.

            Svo ég segi bara eins og er: Þú hefur oft gert mig montinn enda á maður að vera montinn þegar börnum manns gengur vel. Og í dag er ég hreinlega að springa úr monti. Ég tárast því ég verð meir og meir meyr með aldrinum en það er í góðu lagi. Þegar Einar les þetta bréf þá erum við Steinunn mín og Jón Haukur að taka upp kampavín í Elche. Og skál fyrir þér og því sem þú hefur afrekað.

            Matta mín, það eru fáir atburðir sem ég sakna þess að vera ekki viðstaddur heima á Íslandi, hugsandi um héðan úr sólinni og sælunni. Útskriftin þín er einn þessara viðburða. Þetta er eiginlega eini skugginn á tilveru minni hér, að geta ekki fagnað með þér nema úr fjarlægð. En einsog skáldið sagði um blað sem skilur bakka og egg og allt það.

Til hamingju með daginn, elsku Matthildur mín.

            ¡Hasta luego! Tu padre.

 

Ég fékk að heyra ræðuna gegnum síma frá Íslandi og það var mikið gaman. Við vorum með í veislunni þrátt fyrir allt. Ræddi svo eilítið við Möttu. Fjölskyldan í Elche skálaði svo í cava.

            Síðan fórum við út að borða. Kveðjumáltið Jóns. Hann valdi mexíkanskan stað niðrí bæ. Góður matur og allt það.

            Seinna um kvöldið hringdi mamma og hafði verið í útskriftarveislunni og var sjöunda himni. Sérstaklega yfir því að allir þekktu hana þótt hún þekkti nánast engan. Sagðún! Æi, þið skiljið.

            Morguninn eftir vöknuðum við snemma. Jón var að fara til Köben eða öllu heldur Hróarskeldu á tónleika og færi þaðan heim að vinna. Ókum honum á flugvellinum og horfðum svo á hann hverfa gegnum inntjekkið. Í græna jakkanum, með vasadiskó og hedfón á fullu og miljón diska í leðurveski. Sumir þurfa ekki mikið.

            Æi, nú var tómlegt á Ruperto Chapi 17 en samt engin heimþrá enda var verkefni okkar Steinunnar að pakka niður til að yfirgefa Spán.

            Vitiði hvað, þessir dagar eru pínustress. Núna til dæmis mánudagur. Ég vil losna við dótið í dag eða á morgun. Þá höfum við tíma til að þrífa íbúðina. Við erum við að klára að pakka, loksins búin að fá að vita að flutningabíllinn kemur á morgun Við eigum að borga 900 evrur fyrir flutning frá Elche til Bilbao og þá var eftir ferð þaðan til Rotterdamms. Þetta fannst þeim hjá Eimskip í Rotterdammi of dýrt og auk þess vont að fá ekki beinan flutning til Rotterdamms. Þeir ákváðu því að leita eftir ódýrari flutningi á netinu.

            Ha, sagði ég. Núna! Við missum íbúðina eftir þrjá daga. Og þið ætlið að fara á netið og leita að tilboði í flutningana!

            Þetta reddast, var svarið frá Hollandi.

            Og það gerðist. Loks komu góðar fréttir; bíll fannst vildi flytja allt dótið fyrir 300 evrur alla leið til Rotterdamms. Kemur á morgun, þann 28. júní. Við hjónin fengum okkur kaldan brenns sem var eftir frá heimsókn Vikurhjóna

            Kvöldið fór svo í pökkun og merkingar. Við komum hingað með tvær  ferðatöskur og fartölvur en sendum heim 27 hluti! Þar af þrjár vespur! Um daginn fórum við út eitt kvöld til að hirða pappakassa undir dótið okkar áður en hreinsunardeildin hirti þá. Fundum tvo eða þrjá. Svo datt okkur annað í hug. Sáum í búð í Elche trékistu og keyptum. Og keyptum þrjár aðrar í Alicante. Þær voru skinnklæddar. Ein með krókódílaskinni. Svo keyptum við skápa í mubblubúð í Elche. Þetta gerðist bara síðustu dagana.

            Matta er svo gift Auðuni. Ég náði loks í gær sambandi við prestinn sem lofaði að skila kveðjum okkar. Svo skáluðum við í cava fyrir brúðkaupinu. Og héldum áfram að pakka.

            Heimferðin er klár og skipulögð. Síðasti hlekkurinn var að fá hótel í Dover sem tókst núna áðan. Það er sumsé Valencia, Barcelona, París, Dover, London, Birmingham, Kaupmannahöfn, Klakinn. Við ákváðum nefnilega að vera 25 daga á leiðinni heim. Ferð á morgun alla leið hefði endað með taugaáfalli! Frá Spáni og á Klakann á einum degi! Ekki ræða það.

            Bless. Meiri ferðasaga seinna. ¡Hasta luego!


Tíundi kafli

Loks tíundi og síðasti hluti ferðasögnnar

Eins og áður hefur komið fram vorum við Steinunn 25 daga á leiðinni heim. Við óttuðumst eðlilega að fá taugaáfall ef við færum beint á Klakann. Jón Haukur var þegar farinn heim á leið, ætlaði að koma við á Hróarskeldu. Þessi síðasti hluti ferðasögunnar er skrifaður eftir að við komum til Íslands upp úr minnispunktum sem ég hripaði niður í vasabók á leiðinni enda fór tölvan með búslóðinni.

            Biðdagurinn 28. júní rann upp. Mánuði áður hafði ég haft samband við íslensk skipafélög og skrifstofa Eimskip í Rotterdammi svaraði best. Reyndar skrifaði ég fyrst bréf á íslensku og fékk svar á ensku þess efnis að mjög fáir þarna skildu íslensku en bréfið væri komið á réttan stað. Til konu sem kunni íslensku. Þá sendi ég þessari enskumælandi konu þakkir á spænsku en fékk svar jafnharðan - á spænsku - þess efnis að hún væri eini spænskumælandi starfsmaðurinn á skrifstofunni!

            Notaðu ensku, sagðún.

            En mér var sumsé ráðlagt að hafa samband viku til tíu dögum fyrir brottför. Það gerði ég. Í dag vildum við losna við dótið til að hafa tíma til að þrífa og allt það áður en við legðum í hann. Sem fyrr sagði hafði Eimskip í gær fengið tilboð um að flytja dótið til Bilbao fyrir 900 evrur en í morgun kom tilboð um að flyta það alla leið til Rotterdamms fyrir 300 evrur.

            Vandamál: Hvernig eiga þeir að geta stöðvað bílinn í götunni ykkar? spurði konan í Rotterdammi. Er hún ekki þröng?

            Jú, sagði ég. Hún er þröng en ég ber fyllsta traust til spænskra bílstjóra. Þeir eru kurteisir snillingar og eiga kort af borgum og spjara sig alveg örugglega.

            Holland samþykkti þessa yfirlýsingu mína. Þetta var fyrir hádegi. Enginn vissi hvenær bíllinn kæmi en þeir voru með símanúmerin okkar. Við Steinunn lukum pökkun og sóttum hjólin í Altamira og allt var til reiðu.

            Og svo var beðið. Í eftirmiðdaginn vorum við að spá í að tína dótið okkar útá götu. Loks klukkan að verða fimm hringdi Jose flutningastjóri frá Alicante. Merkilegt annars hvað margir í þessu landi heita Jose! Mér er sagt að hinir heiti Pepe.

            Jose spurði hvort hann ætti að sækja dótið hoy eða mañana.[122]

            Í dag, sagði ég stundarhátt. Það er margbúið að segja þér það.

            Vale. Hvenær viltu að ég komi?

            Strax. Við erum búin að bera allt dótið niður á götu, laug ég.

            Un momento.

            Svo sagðist hann koma uppúr sex, ekki seinna en sjö. ¡Hasta luego!

            Við héldum áfram að ferja dótið niður á gangstétt. Allt var rækilega merkt í bak og fyrir. Galdurinn við þennan árangur var samvinnu okkar hjónanna sem einkennist af heillavænlegri blöndu af skipulagshæfileikum mínum og eljunni hennar Steinunnar minnar.

             Það fóru fjórar límrúllur frá lyklasmiðnum handan götunnar í að loka öllum kössum, töskum og kistum. Þakstólunum var pakkað inn í svarta teppið sem ég hafði fengið frá Telefonica. Allt var svo merkt með númerum og þessu fylgdi innihaldslýsing hvers pakka á spænsku, ensku og íslensku.

            Þarna með voru rauðvínskassarnir sem við keyptum hjá vínkaupmanninum niðrá Carrer Poeta Miguel Hernadez. Þar var gaman að versla. Hann valdi bestu vín sem hann þekkti og sagði á öllu kost og löst. Svo keypti ég fimm lítra trékút undir bruggið mitt og og við Steinunn fullt af kæfum og dóti. Þetta er þvílík verslun. Fengum nammi í litlum trékössum í kaupbæti. Og af því Elche er þannig borg þá kom seinna í ljós að vínkaupmaðurinn var gamall vinur pabba hennar Maríu.

            En þegar ég frétti að flutningsmennirnir kæmu ekki alveg strax rölti ég yfir götuna til Kínverjanna og keypti tvo bjóra. Rétti Steinunni annan, settist á hjólið mitt með hinn og reykti vindil. Jafnvel tvo. Fólk úr húsinu okkar kom og tók okkur tali og kvaddi.

            Klukkan sjö hringdi Jose aftur og sagðist koma eftir örfáar mínútur.

            Vale, sagði ég vitandi hvað nokkrar mínútur geta orðið margar á Spáni, skrapp til kínverjanna og fékk mér meiri bjór, settist á hjólið og beið. Í þessu líka flotta veðri.

            Til að stytta okkur stundir fórum við Steinunn mín að veðja um hvort flutningabílar sem óku eftir Ruperto Chapi væru á leið til okkar eða eitthvað annað. Steinunn tapaði fyrsta veðmálinu. Sá bíll var ekki á leið til okkar heldur hvarf hann niður á Reina Victoria eða á Plaza España. Sumir beygðu yfrá Plaza Español.

            Loks sá ég mjög vænlega bíla aka niður götuna í átt til okkar. Sá fyrri var hvítur og venjulegur sendibíll en sá seinni grár og var eiginlega vörubíll með tjaldi. Í þeim hvíta voru tveir ungir menn en í hinum einn ægilega feitur maður. Í ljós kom að þessir ungu voru burðarmenn enda átti sá þykki fullt í fangi með að bera sjálfan sig en hann skipulagði. Þegar þetta gerðist var klukkan 8.

            Þeir stukku allir út og kynntu sig. Við sýndum þeim búslóðina okkar og hjólin. Mér fannst eins og þeir hefðu ekki vitað af hjólunum. En svo var gengið í verkin. Öllu draslinu var hlaðið í tjaldvörubílinn og þeir í hvíta bílnum sáu um burð. Ég svona var með.

            Ung og falleg stúlka gekk fram hjá okkur. Sá dökkhærði af þeim tveimur yngri flautaði, glápti og sagði:

            !Chica guapa![123]

            Hann bosti til mín og stúlkan heyrði þetta greinilega og dillaði bossanum og lét sér vel líka.

            Si, ansaði ég, pero mi mujer espera en casa.[124]

            Hinn brosti skilningsríkur útað eyrum.

            Svo gekk þetta allt saman feiknavel. Dótinu var komið fyrir í bíl þess feita, hjólin kirfilega bundin og síðan tókust menn almennt í hendur og þeir óku burt. Til öryggis skráðum við niður bílnúmerin. Ég meina það. Þessi bíll var þess eðlis í útliti að ég efaðist um að hann kæmist niðrá Viktoríu Reina. Hvað þá til Rotterdamms! En annaðhvort treystir maður mönnum - eða ekki!

            Fórum svo í sturtu og síðan út að borða. Sturtan var nauðsynleg því núna var skollin á hitabylgja. Hitinn um 36 gráður.

 

Kveðjur og þrif

Daginn eftir og þar á eftir var komið að þrifum og því að kveðja fólk. Hittum Mariu og fjölskyldu á Plaza Glorieta. Það var færra fólk en vanalega í bænum. Skólarnir voru hættir og fólk farið að hypja sig úr bænum í frí enda óvenjuheitt miðað við árstíma. Margir eiga sumarhús við ströndina og fara þangað þegar skólar loka.

            Við þurftum líka að kveðja kínverjana, liðið á El Bogado og svo framvegis. Svo þurfti að skúra íbúðina, þvo og strauja. Yfirleitt skúraði Steinunn mín en ég þvoði og straujaði. Ég man ekki hvort ég hef sagt frá því að vinnuaðstaðan við strauingar er slík að vinnueftirlitið tæki af mér járnið ef þeir ættu leið hjá og sæju til. Ég breiddi þykkan dúk á eldhúsborðið eða borðið í vinnuherberginu og straujaði á því, boginn í baki því borðin eru gerð fyrir spánverja og því of lág fyrir hávaxna norðurlandabúa.

            Það var verra að vinna við þetta í 36 stiga hita utanhúss og enn meira að innan en nú var engin miskunn: Það varð að vinna verkin. Ekkert labb útá götu eða ferð á strönd. Það bogaði af mér svitinn. Þá datt mér snjallræði í hug. Það var vitaskuld opinn gluggi í stofunni og útá svalir i hinum enda hússins og þessvegna var smávægilegur gegnumtrekkur á ganginum. Þegar svitinn var farinn að bleyta rúmfötin jafnóðum og ég straujaði þau hljóp ég í snögga sturtu. Fór svo blautur og allsber framá gang og lét gegnumtrekkinn þurrka mig. Það tók innan við fjórar mínútur.

            Við Steinunn mín gátum ekki faðmast nema rétt á eftir sturtum. Ella hefðum við fest saman í svita hvors annars og þá hefði slökkvilið þurft að sprauta yfir okkur köldu vatni til að losa okkur í sundur.

            En allt gekk vel. Íbúðin var hreinni en þegar við komum. Fiona var afar glöð yfir því. Jose var í Valenciu eitthvað að erinda þannig að hún kom ásamt dóttur sinni. Við gáfum Fionu rest af brennivíni og hún fór með afganginn af rusli frá okkur í ruslagám. Hún skrúfaði tappann af flöskunni og lyktaði. Jú, hún hlakkaði til að drekka þetta hún væri nú meira fyrir viskí. Þessi kona kemur mér sko ævinlega á óvart!

            Dóttir hennar hefur áhuga á að koma á Klakann. Ég varaði hana við en lofaði líka að taka vel á móti henni. Á Fionu var að skilja að við gætum fengið íbúðina leigða hvenær sem væri.

            Svo voru faðmlög útum allt - og -:
            Hasta proximo año.[125]

            ¿Tu gusta Elche?[126]

            Si, claro. Me gusta Elche.[127]

            Þegar við gengum frá Ruperto Chapi 17 með sitthvora töskuna í eftirdragi fannst mér ég vera munaðarlaus.

            Svo vorum við alltíeinu í lestinni frá Elche Carrús til Alicante á leið í 25 daga ferð á Klakann. Ég fann strax fyrir fiðringi í maganum. Kannski var það vegna heimferðarinnar og kannski var það heimþrá. Jú, eftir á að hyggja var það heimþrá - heimþrá til Elche.

 

Ferðin heim. Dagur eitt

Fyrsti áfanginn var Valencia en þar áttum við pantað hótel í tvær nætur. Við þurftum að bíða í nokkra tíma í Alicante eftir lestinni og komum því til Valencia seinni part dags.

            Gerðum okkur einkum til dundurs að ráfa um borgina. Hún er mjög falleg. Mörg húsanna máluð og skreytt. Til að mynda járnbrautarstöðin og Plaza del Toros sem er næsta hús við. Til að mynda ..., til að mynda þarf myndavél. Steinunn á þessa fínu digitalvél sem ég gaf henni þegar hún varð fimmtug. En hún hafði hreint óvart sent hleðslutækið með búslóðinni okkar og var þessa stundina á leið til Rotterdamms.

            Jæja, það má bjarga því. Ég keypti mjög fína Kodak vél á ekki nema ellefu þúsund íslenskar. Þegar ég kom til Íslands sá ég samskonar vél auglýsta á 25 þúsund íslenskar. Ef einhver talnaglöggur maður getur útskýrt þetta væri ég mjög glaður. En ég held að skýringin felist í þeirri staðreynd vað við búum í dýrasta fangelsi í Evrópu.

            Annan daginn fórum við í skemmtigarð þar sem meðal annars var höfrungasýning og páfagaukasjó. Lítil spænsk stelpa sat við milli föður síns og Steinunnar og var sífellt að strjúka handlegg hennar. Pabbinn reyndi að sussa á stelpuna svo lítið var á og var mjög vandræðalegur.

            Um kvöldið gengum við um miðborgina og nutum þess sem þar var að sjá.

            Þetta var frekar stuttur stans í Valenciu en ánægjulegur og gott að hafa fengið nasasjón af þessari fallegu borg.

            Næsti viðkomustaður var Barcelona.

 

Þetta mun vera

fimmta heimsókn okkar til Barcelona. Hótelið okkar var við Neo Rambla en það er gata sem liggur niðrá hina einu og sönnu Römblu. Þetta er skammt frá vínbúðinni þar sem við Jón Haukur keyptum glæra maltviskíið og græna, svarta og rauða absintið í fyrstu ferðinni til Barcelona. Uppfrá Neo Rambla liggur Carrer de Saint Ramon og í þeirri götu og á torgi nokkru eiga sér stað fjörug viðskipti milli kvenna sem standa á gangstéttinni og karla sem eiga leið hjá. Á horninu er hótel og stundum arkar feit kona yfir götuna nesti á bakka handa konunum sem bíða viðskiptanna. Þetta leggur hún á gluggakistu neðstu hæðarinnar.

            Maður kemur gangandi eftir götunni. Sú ljóshærða gekk á móti honum og stöðvaði hann með því að ganga á hann og nugga sér gróflega utaní hann framanverðan. Hreinlega veiddi hann með klofinu. Eftir nokkra umræðu var greinilegt að samist hafði um viðskiptin og þau tvö hurfu.

            Ekki gekk þó alltaf svona vel. Eitt sinn reyndi ein konan að veiða gamlan mann og greip í punginn á honum og gantaðist við hann. Sá gamli hló líka og þetta virtist bera var leikur þeirra.

           

Kastalinn og vopnasafn

Einn daginn fórum við uppá Monjuic fjallið til að skoða Miro stofnunin og kastalann. Á Miro safninu var einhver sérsýning í gangi og lokaði tíu mínútum áður að við komum. Við létum okkur því nægja að skoða verk Miros á veggjum og skoða verslun safnsins.

            Svo var það kastalinn. Hann er heljarstór. Þaðan er gott útsýni yfir borgina og reyndar frá fjallinu öllu. Bæði yfir höfnina og útá Miðjarðarhafið og til fjalla sem umkringja borgina. Meira að segja sást til Segrada Familia, kirkjunnar ævintýralegu.

            Kastalinn kemur við sögu í bók nokkurri sem hefur farið á milli manna sem eldur í sinu. Helmut sagði okkur Steinunni frá henni þegar við hittumst í Barcelona í vetur og sendi okkur hana síðar. Bókin heitir The Shadow of the Wind. Síðar kom í ljós að Matta var að lesa hana. Við keyptum hana líka á spænsku, El sombre del viento. Faðir einnar söguhetjunnar var hafður í haldi í kastalanum á tímum Frankós og var einn þeirra fjölmörgu sem ekki áttu þaðan afturkvæmt frá böðlum harðstjórans. Þarna var sumsé dyflissa á dögum Frankós. Bókin er komin út á íslensku í þýðingu Tómasar Einarssonar. Þetta er held ég fyrsta bók sem fangar mig á fyrstu tveimur línunum.

            Á ensku byrjar hún svona:

            I still rememeber the day my father took me to the Cemetery of Forgotten bokks for the first time.

            En espanol:

            Todavía recuerdo aquel amanecer en que mi padre me llevó por primera vez a visitar el Cementerio de los Libros Olvidados.

            Lestu bókina. Hún er góð. En lestu þessa fyrst.

            Í kastalanum er líka vopnasafn. Það eru endalaus herbergi með vopnum af öllum stærðum og gerðum, skotvopn, eggvopn, gínur klæddar einkennisbúningum og allskyns minningar um stríð. Þessir arrógant aumingjar sem hafa verið að skipa fólki að drepa fólk. Fariði til fjandans.

            Æ, ef mannkynið hefði eytt hugviti sínu og auðlegð í eitthvað þarfara heldur vopn og dráp! Eða hús yfir guði einsog áður hefur komið fram í þessari ferðasögu. Kannski hefði bara átt að eyða þessu í nægan mat handa mannkyninu! Ég geri ekki meiri kröfur.

            Það var mjög hlýtt. Við fengum sem sagt nóg af vopnum, skrópuðum í síðustu herbergjunum og fengum okkur hvítvínsglas í staðinn.

 

Síðdegi á ströndinni

Þetta var brúðkaupsdagurinn okkar, 4. júlí. Nei, það kemur þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna ekkert við. Það stóð bara svona á dögum þegar við giftum okkur.

            En þennan dag í Barcelona reyndum við að reikna út hve mörg ár voru liðin frá brúðkaupinu en gáfumst upp. Þetta eru kannski einhver átta ár.[128] En þetta fína veður og við ákváðum að láta reyna á ströndina fyrir neðan miðbæinn í Barcelona. Þesi strönd var búin til ítilefni af ólympíuleikunum í borginni hérna um árið. Gengum niðreftir. Það var frekar hvasst og vart veður til mikilla sólbaða. Gátum þó legið um hríð en en gáfumst upp eftir drjúga stund og fórum á veitingastað og settumst úti.

            Við þarnæsta borð sat fullorðin feit kona og glöð að borða mjög stóra pæju valenciana og skolaði niður með rauðtvíni um stórri karöfflu og talaði án afláts við sjálfa sig. Hún var í rauðrósóttum kjól með mikið gull á fingrunum og um háls. Hún var með bleikt handklæði og gula strandtösku sem í var blátt seðlaveski.

            Við létum það ekki fá á okkur þótt það blési rösklega þar en gríðarstórt sóltjaldið lyftist af festingunni og féll yfir okkur og lenti harkalega á öxlinni á mér. Ég ásamt öðrum gesti og tveimur þjónum gengum í málið og okkur tókst fyrir rest að binda tjaldið saman og koma því á sinn stað. Eftir þetta fórum við inn með matinn okkar og lukum máltíðinni þar.

            En það gerði ekki feita konan. Hún sat sem fastast í vindinum enda hefði vindurinn aldrei haggað henni þótt hann lyfti tjaldinu. Hún át og drakk og talaði, drakk og át og talaði í rokinu og henni kom það ekki par við að enginn var til að hlusta á hana. Hún fékk sér forrétti og aðalrétti og skolaði niður með könnu af rauðvíni. Þegar kom að eftirréttinum sem voru nokkrar stórar kökur fékk hún könnu af hvítvíni með.

            Steinunn hélt því fram að hún ætti staðinn því tveir þjónar báru í hana veitingar og hlustuðu meiraðsegja á hana tala og brostu góðlátlega. Ég sagði pass. Seinna kom í ljós að hún fékk reikning sem útilokaði að hún ætti pleisið. Ég sá hana telja fram - skrifa og segi - 60 evrur!

            Svo sigldi skútan á brott í hrókasamræðum við sjálfa sig, sæl og glöð að sjá, en samt dáltið grimm á svip en örugglega mett! Pottþétt fyrir 60 spírur! Jafnvel svona stór kona!

            En þetta var brúðkaupsafmælið okkar og Steinunn bauð mér út að borða á La Crema Cañela sem er á Plaza Real. Þar áttum við besta afmæliskvöldverð frá því við átum einn slíkan í Hrísey um árið. Komum svo við á Vildsvinet í kaffi og snafs á leið heim á hótel.

 

Figueres

Einn daginn tókum við lest til Figueres en þar er leikhús-safn Dalís. Hann hafði sumsé innréttað og búið í leikhúsi í þessum bæ. Leikhúsið er byggt um 1850 en Dali innréttaði það upp á nýtt og opnaði það 1974 og bjó þar síðustu ár sín og er grafinn í húsinu. Þetta er vitaskuld ólýsanlegur staður einsog allt sem viðkemur Dalí. Allt húsið var skreytt með verkum hans, myndum af honum og svo framvegis. Tvær styttur eru þarna af fígúrum með brauð á höfðinu enda var Dali mikið fyrir brauð. Þegar hann kom fyrst til Bandaríkjanna segir sagan að hann hafi stigið út úr flgvélinn með brauðhleif á höfðinu. Raunverulega er húsið allt og innihald þess eitt stórt listaverk

            Það var mjög löng biðröð til að komast inní húsið og við Steinunn skiptumst á að standa í röð og líta í túristabúðir sem allar gera útá Dalí og voru yfirfullar af minjagripum tengdum honum. Það var bókstaflega allt sem þarna var til sölu merkt einhverju sem viðkom honum. Þetta litli 30 manna bær bær virðist hreinlega lifa á Dalí. Figueres er um 100 km norður af Barcelona.

            Einsog ég sagði er þetta næstum ólýsanlegt og því koma hér nokkrar myndir.

 

Rauðvín og tappatogari

Maður þarf ævinlega að hafa rauðvín og fleira við höndina, hvort sem um er að ræða heimili eða hótel. Og þá þarf maður líka að eiga tappatogara. Hvorugt var í boði á hótelinu okkar í Barcelona. Hvortveggja keypti ég seint um kvöld á leið heim á hótel í verslun marokkómanns skammt frá hótelinu.

            Komum svo á hótelið og ég bauð uppá rautt.

            Gracias, sagði Steinunn og ég ansaði:

            De nada.[129]

            Fór svo að taka upp flösku. Þið kannist við svona tappatogara. Þeir eru oftast silfurlitaðir. Maður stingur oddinum oní korkinn, skrúfað hann niður, tekur svo í eyrun á tappatogaranum sem standa þá uppí loft, þrýstir þeim niður og þá dregst tappinn upp. Alltaf. Nema stundum. Núna var þetta stundum.

            Spíraloddurinn brotnaði í linum korkinum án þess að svo mikið sem hreyfa við honum. Nú voru góð ráð dýr. Ég á hótelherbergi, þyrstur í rauðvín og bar ábyrgð á eiginkonu sem líka langaði í rauðvín en tappinn fastur sem aldrei fyrr og togarinn strandaður.

            Ja hérna hér. Hvað er til ráða?

            Ég hafði endaskipti á tappatogaranum og tróð öðru eyra hans oní flöskuna milli tappa og stúts eins langt og ég gat og reyndi að kraka tappann upp. Nei, eyrað brotnaði. Ég hugsaði marokkómanninum þegjandi þörfina smástund og náði loks áttum og sagði við sjálfan mig: Þér var nær að kaupa tappatogara í svona búð!

            Eftir fimmtán mínútur hafði mér tekist að mola tappann niður með brotnu eyra togarans og koma megninu af korkinum uppúr stútnum. Tók svo glaður tvö vatnsglös af vaskinum og innan skamms skáluðum við Steinunn mín í bærilegu rauðvíni.

            ¡Buenas noches!

 

Park Güell

Í Barcelona er garður sem Gaudi vann fyrir Eusebi Güell samkvæmt pöntun þess síðarnefnda. Byggingin hófst árið 1900. Güell hafði þá keypt 15 hektara lands í hæð fyrir utan miðborgina. Garðurinn var svo byggður í þremur áföngum frá 1900-1914. Garðurinn var svo í einkaeigu fram á 7. áratug síðust aldar að Barcelonaborg eignaðist hann. Árið 1984 var hann settur á heimsminjaskrá UNESCO.

            Þið sjáið að ég er að draga þetta á langinn með þurrum staðreyndum því mér hrís hugur við því að fara að lýsa garðinum. Svo ólýsanlegur er hann.

           

 

Barcelona - París

Við höfðum pantað okkur far með næturlest frá Barcelona til Parísar

 

Hjá Völu og þeim

Lýsa móttökum og húsi.

 

Dagarnir í París

Söfnin. Louvre og Safnið í gömlu járnbrautarstöðinni. Hjólferðin um sveitina.

 

Kona nokkur í París. Frönsk

Ég hugsa að hún hafi verið um fertugt en leit samt út fyrir að vera eldri ef litið var grannt í andlit hennar. Það virtist eldra en líkaminn. Hárið var grátt en sýndi samt restar af svarta litnum sem einu sinni var. Með tagl og blátt band í því. Í síðum svörtum jakka, alltof víðum og síðum, hendur stóðu sjaldan framúr ermum og buxur líka síðar og víðar, svartar. Á fótum strigaskór, bláir. Peisan var blá. Ósýnileg í manngrúanum.

            Við Steinunn mín sátum á gangstéttarkaffihúsi og sötruðum rauðvín meðan við fylgdumst með mannlífinu.

            Mér sýndist konan fyrst vera að safna tómum bjórdósum úr ruslatunnunni við götuna en þagar betur var að gáð var hún að skila tómri dós í tunnuna. Tók úr vasa sínum samanbrotinn lottómiða, gekk útá götu, beygði sig og greip blaut óhreinindi með fingrunum en lottómiðinn varði puttana. Skilaði ruslinu í tunnuna.

            Svo fór hún að tína upp sígarettustubba sem nóg var af enda ekki til síðs að nota öskubaka á borðum heldur þennan stóra.

            Ekkert á henni hafði verið þvegið lengi. Hárið glansaði en ekki af hreinlæti. Hún var hökulöng og húðin krumpuð eins og gamalt velkt pergament. Fötin ekki síður. Var með tvo bláa plastpoka í höndum sér. Lagði þá frá sér einsog dýrmæt djásn meðan hún hreinsaði götur og gangstéttir Parísar. Hún var fótafúin, gangur hennar var óöruggur einsog barns sem er að læra að ganga. Svo virtust pokarnir þungir.

            Ég las þjáningu í andliti konunnar en líka mikla einbeitingu og samviskusemi þegar hún tíndi  rusl af götu og gangstétt. Talaði stundum við sjálfa sig en mjög lágt einsog  til að raska ekki ró viðstaddra. Hún þurfti ekki að hafa áhyggjur af því. Hún var ósýnileg.

            Það sást ekki snifsi af pappír á gangstéttinni, ekki einn sígarettustubbur truflaði útsýni mitt. Konan hafði unnið verk sitt af trúmennsku. Hún gekk þangað á veitingastaðinn þar sem selt var tóbak, gos, bjór og vín útá götu. Innan skamms sá ég hana opna límonaðiflösku og teyga stórum, svo rosalega að hún varð kinnfiskasogin og innfallin augun brostu og þegar varir slepptu stút brosti hún fallega.

            Ég veit ekki hvort hún keypti gosið eða fékk það að gjöf. Ég vona að hún hafi fengið gosið að gjöf frá veitingastaðnum fyrir að halda gangstéttinni hreinni. Það hefði líka sýnt mér að enn væri til gott fólk í heiminum. Þessvegna ætla ég að breyta endanum á þessum hluta frásagnarinnar. Hann verður svona:
            Ánægð yfir dagsverki sínu gekk konan að þeim parti veitingastaðarins þarsem tóbak, gos og vín var selt útá götu. Hún stóð þolinmóð fyrir utan meðan ferðamaður keypti sér bjór og hvarf á braut. Þá var röðin komin að henni. Hún tók glöð við límonaðiflöskunni að launum fyrir vel unnin störf, og teygaði stórum, svo rosalega að hún varð kinnfiskasogin og innfallin augun brostu og þegar varir slepptu stút brosti hún fallega og kom þannig öllum viðstöddum gjörsamlega á óvart. Hún hafði fengið laun sín greidd og til var gott fólk í heiminum.

            Hún gekk burt með flöskuna í vasanum og plastpokana tvo að strætisvagnastöð skammt frá og hvarf loks hamingjusöm í vagni númer 96.

 

Áleiðis að hvítu klettunum

Lestarferðin til Calais var tíðindalítil. Einu sinni skipt um lest, minnir mig. Svo var siglt yfir til Dover á ferju. Barþjónninn hélt að ég væri Spánverji. Þá fattaði ég að ég segi á spænsku þessi orð sem maður segir í hugsunarleysi, svo sem góðan dag, takk, gjörðu svo vel o.s.frv.

            Þarna var flott regla á barnum. Ef ég keypti eitt glas af rauðvíni borgaði ég bara það glas. Ekkert óvenjulegt við það. En ef ég keypti tvö glös þá mátti ég eiga restina af flöskunni. Það var mjög óvenjulegt. Jú, auðvitað keypti ég tvö glös. Hvað haldiði að ég sé?

            Mjög fallegt að sigla að hvítu klettunum.

            Steinunn var í sparnaðarhugleiðingum og neitaði því að við tækjum leigara á hótelið en taldi sig rata þangað. Tæpum klukkutíma sem drógust við kúguppgefin inn í lobbíið en vorum búin að spara tvö pund.

            Lýsa Dover. Lítil en vinaleg borg.

            Horfðum á fótboltaleik. Liverpool var að leika við Total Network Solution í nndankeppni Meistaradeildarinnar. Liverpool vann 3 - 0. Steinunn var búin að lofa að horfa með mér svo ég þyrfti ekki að vera einn við þessa iðju.

 

Rútuferð og Kastalinn

Við fórum með tveggja hæða strætó um borgina að Kastalanum. Stríðsminjasafn þar.

 

Very nice and easy, thank you!

Ég hef orðað það svo að við höfum ferðast úr landi hjálpseminnar, gegnum land fýlupokanna og vorum nú komin í land kurteisinnar.

            Plús konan sem vildi ekki sigla okkur því það var þoka á klettunum.

 

Og svo til Walshall

Lest til london, metro milli stöðva þar og loks lest til Birmingham. Þar biðu Matthildur og Auðun. Eftir stutta en ákafa fagnaðarfundi var haldið til Walsall.

            Walshall er útborg Birmingham með um 300.000 íbúa.

 

Til Kaupmannahafnar

Andri morguninn eftir að við komum. Stóð smástund í stofudyrunum eins og hann tryði ekki augunum, hljóp svo og hoppaði upp í til okkar.

 

Afi og amma fara með sonarsynina á Dyrehavsbakken

Við komumst að því eftir þessa dagsferð af hverju hjón á sextugsaldri eiga ekki að fara með börnin sín á Bakkann heldur bara barnabörn. Við vorum kúguppgefin! En líka voða glöð!

            Tækin og amma hræðir Andra Hauk.

            Vagabonderne í garðinum.

 

 

 



[1] Útlendingar

[2] beint áfram.

[3] Lokað

[4] Við töluðum litla spænsku.

[5] Mjög litla ensku.

[6] Expresso kaffi.

[7] Á morgun með spænskri vinkonu.

[8] Við erum frá Íslandi en búum í Elche.

[9] Gott og vel..

[10] Þetta samtal er óþýtt til að sýna hve miklu klárari ég er en þið sem lesið þetta.

[11] Fimm dagar.

[12] Fimmtán dagar.

[13] Pappírstunglið.

[14] Brauð.

[15] Ég ætla útá netkaffi.

[16] Innanbæjarstrætó.

[17] Þrjár samlokur með skinku og osti.

[18] Vika.

[19] Af og til

[20] Tölum spænsku.

[21] Hvar er Valli núna?

[22] Við erum frá Íslandi.

[23] Pitsa með pepperóní og kjúklingi.

[24] Ég veit ekki hvað þetta þýðir! Datt þetta bara í hug.

[25] Meira og minna.

[26] Og borða litla samloku.

[27] Lífið er litríkur skítur!

[28] CD heitir hér DC, disco compacto.

[29] Mér líkar vel við Spán.

[30] Alltso í Elche.

[31] Expresso.

[32] Innfæddir kölluðu hann Raul Ivars.

[33] Mjög góð úrslit.

[34] Ég minni á að þeir voru á Sólheimum um helgina! Ekki orð um það meir!!

[35] 45.

[36] Áttu skrúfur fyrir þetta?

[37] Skrúfjárn.

[38] Ísland á kínversku.

[39] Ég er (við erum) kennari/arar frá Íslandi.

[40] Um eftirmiðdaginn.

[41] ... og vinn.

[42] Þetta hefur komið fyrir áður svo ég þýði það ekki.

[43] Veistu um bjórstofu eða bar sem sýnir enska boltann?

[44] Geturðu skrifað nafnið á götunni, por favor? Hér segir maður alltaf por favor! Það er kurteisi.

[45] Slökkviliðið.

[46] Undarlegt.

[47] Ávextir og grænmeti.

[48] Litla hjálp.

[49] Í dag.

[50] Kortið er ekki í gildi.

[51] Að ég væri í miklum vanda varðandi miðakaup á Camp Neu.

[52] Ég veit það því miður ekki.

[53] Heftara og gatara.

[54] Þetta hét í den skildagatíð.

[55] Ég er með tvö vandamál. Ég tala litla spænsku og týndi símanum mínum í gær.

[56] Ég þarf nýtt kort og nýjan síma.

[57] Fæ ég sama númerið?

[58] Já, að sjálfsögðu.

[59] Regnhlífar.

[60] Tréð fyrir utan vinnustofuna mín er minn meistari.

[61] Mella.

[62] Ég er enn smá-gas-hræddur.

[63] Tvo gaskúta, takk fyrir. Ámorgun? Klukkan hvað? Ég veit það ekki.

[64] Á morgun.

[65] Ég heiti Eiríkur.

[66] Ég er íslenskur.

[67] Í gær lét ég klippa mig.

[68] Notuð mótorhjól.

[69] Es. Láttu mig vita ef þetta nægir ekki, Helmut.

[70] Usted er þérun.

[71] Kirkja.

[72] Íþróttablað.

[73] Bílastæðahús.

[74] Við köllum það Álftamýri.

[75] Klukkan hvað?

[76] Mér líkar

[77] Dagur hinna miklu og góðu frétta.

[78] Útlendingar.

[79] Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar

[80] En við búum núna í þessari íbúð á Ruperto Chapi.

[81] Að kaupa vespu.

[82] Tryggingu.

[83] Að hverju eru að leita?

[84] Land morgundagsins.

[85] Land gærdagsins.

[86] Ráðhúsið.

[87] Frí í sól.

[88] Fjársjóðirnir í skóginum.

[89] Lokaður.

[90] Samloku með osti og skinku og expresso kaffi.

[91] Ég sé í netútgáfu La Verdad í dag, mánudag, að þeir ætla að efna til meiri göngu sem fer af stað klukkan sjö fimmtán í kvöld.

[92] Þessi finnst mér góður en fórum við Steinunn að búa saman ári seinna!

[93] Pokar, bensín og hvítvín.

[94] Einn poka af hvítvíni.

[95] Glasi.

[96] Plastpoki.

[97] Nautaat.

[98] Hablar þýðir að tala.

[99] Ég hef reyndar svikist um þetta.

[100] 45 evrur.

[101] Ég safna staupum. Steinunn safnar litlum kaffibollum. Það fer mjög vel saman. Það fer saman, snafs og kaffi.

[102] Alger leiðsögn: Spánn enda á milli.

[103] Athugið að hér er orðið skógur notað í íslenskri merkingu orðsins, það er nokkur tré.

[104] Góðar fréttir.

[105] Ég er ekkert að þýða þetta.

[106] Úthverfi.

[107] Þetta hugtak er reyndar blöff sem Vesturveldin fundu upp til að rökstyðja yfirráð sín yfir heiminum.

[108] Þetta heitir úrdráttur í bókmenntum. Gunnlaugur hafði nefnilega ekki hundsvit í fótbolta!

[109] Las reyndar í blöðunum daginn eftir að karlinn og konan væru formenn sambandanna tveggja í Elche, UGT og OOCC.

[110] Þið kunnið orðið það mikið í spænsku að mér finnst dónó að þýða þetta.

[111] Þjóðlegar spænskar óperettur.

[112] Því miður.

[113] Afmælið mitt.

[114] Hún er mjög falleg.

[115] Já, og ljóshærð eins og pabbi hennar.

[116] Finnst þér pilsið mitt fallegt?

[117] Í Heilagri ritningu segir að þegar kallinn hann guð hafði lokið sköpunarverki sínu leit hann yfir það og fannst ‘harla gott’. Þaðan er þetta komið en þessi sérstaka orðanotkun, ‘sköpun heimsins’ um það sem er ‘harla gott’. Ég hef bæði heyrt pabba heitinn nota þetta og Hauk tengdapabba.

[118]Ég á í miklum vanda. Ég óttast að harði diskurinn sé bilaður. Ég á mjög mikilvæg skjöl. Geturðu gert við hana? Er mögulegt að bjarga gögnunum?

[119] Kærar þakkir, herra minn,  þú ert mjög góður þjónn.

[120] Gerum við hvað sem er.

[121] Vatn.

[122]  Í dag eða á morgun.

[123] Falleg stelpa.

[124] Já, en konan mín bíður heima.

[125] Sjáumst á næsta ári.

[126] Líkar þér við Elche?

[127] Já, að sjálfsögðu. Mér líkar við Elche.

[128] Reyndar fundum við seinna út að Alexander Áki var ársgamall þegar við giftum okkur. Þannig að eigum við formúlu: Alexander Áki mínus eitt ár.

[129] Þið hljótið að vera farin að skilja þetta!