Goðsagnir um
sköpunina skýra uppruna jarðar og alheims.
Sem dæmi verða hér teknar indverskar goðsagnir. Þær eru ferns konar:
Í fyrsta lagi er
gert ráð fyrir, að vatn hafi verið til í upphafi, hið fyrsta haf, og úr því reis
jörðin.
Í öðru lagi, að
heimurinn sé skapaður af líkama hinnar fyrstu veru, Purusha, sem var drepin; síðar
talin fyrsta fórnin.
Í þriðja lagi,
að heimurinn sé óræð heild með tvær hliðar, upphaf og endi, þannig sé það og
hafi alltaf verið.
Í fjórða lagi að
himinn og jörð hafi verið eining, uns guðdómurinn skildi þau að.
Sköpunin er síðan skýrð í
goðsögnum.
Samkvæmt heimildum
virðast tvær goðsagnir hafa lifað á víkingaöld um sköpun jarðarinnar. Í
Völuspá lyfta goðin jörð úr hafi:
3.
Ár var alda
þar er Ýmir byggði,
vara sandur né sær
né svalar unnir,
jörð fannst æva
né upphiminn,
gap var ginnunga,
en gras hvergi. |
4.
Áður Burs synir,
bjöðum um ypptu,
þeir er Miðgarð
mæran skópu;
sól skein sunnan
á salar steina,
þá var grund gróin
grænum lauki. |
Snorri segir í
Eddu, að jörðin hafi verið sköpuð úr hinni fyrstu veru, Ými. Óðinn og bræður
hans tveir tóku Ými
og fluttu í mitt
Ginnungagap og gerðu af honum jörðina, af blóði hans sæinn og vötnin. Jörðin var
gjör af holdinu, en björgin af beinunum. Grjót og urðir gerðu þeir af tönnum og jöxlum og af
þeim beinum er brotin voru. ... Af því blóði er úr sárum rann og laust fór, þar
af gerðu þeir sjá þann er þeir gyrtu, og festu saman jörðina og lögðu þann sjá
í hring utan um hana, og mun það flestum manni ófæra þykja að komast þar yfir. ...
Tóku þeir og haus hans og gerðu þar af himin og settu hann upp yfir jörðina með
fjórum skautum og undir hvert horn settu þeir dverg. Þeir heita svo: Austri, Vestri,
Norðri, Suðri.
Þá tóku þeir síur og
gneista þá er lausir fóru og kastað hafði úr Múspellsheimi og settu á miðjan
Ginnungahimin, bæði ofan og neðan til að lýsa himin og jörð. Þeir gáfu staðar
öllum eldingum, sumum á himni, sumar fóru lausar undir himni, og settu þó þeim stað
og sköpuðu göngu þeim. Svo er sagt í fornum vísindum að þaðan af voru dægur
greind og áratal. ...
Um skipan jarðar segir
Snorri svo:
Hún er kringlótt utan og
þar utan um liggur hinn djúpi sjár, og með þeirri sjávarströndu gáfu þeir lönd
til byggðar jötna ættum. En fyrir innan á jörðunni gerðu þeir borg umhverfis heim
fyrir ófriði jötna, en til þeirrar borgar höfðu þeir brár Ýmis jötuns og
kölluðu þá borg Miðgarð. Þeir tóku og heila hans og köstuðu í loft og gerðu af
skýin. ...
Nafnið Ýmir
er samstofna orðum í fornindversku og fornpersnesku og merkir tvíburi
eða tvíkynja vera, enda kemur það heim og saman við Ými Snorra, sem
getur af sér afkvæmi. Ýmir er ættfaðir jötna og guða, af einni frumveru eru vaxnir
höfuðandstæðingar: þeir sem skapa heiminn úr hinni fyrstu veru og þeir sem leitast
við að tortíma sköpuninni:
Ginnungagap merkir hið
mikla tóm, hið gínandi tóm. Ekkert var til - og þó. Í
norðri var Niflheimur og þar ríkti kuldi, í suðri var Múspellsheimur, og þar var
hlýtt:
Og þá er mættist
hrímin og blær hitans, svo að bráðnaði og draup, og af þeim kvikudropum kviknaði
með krafti þess er til sendi hitann og varð manns líkandi og var sá nefndur Ýmir, en
hrímþursar kalla hann Aurgelmi, og eru þaðan komnar ættir hrímþursa. ...
Hann er illur og allir
hans ættmenn, þá köllum vér hrímþursa. Og svo er sagt að þá er hann svaf fékk
hann sveita. Þá óx undir vinstri hönd honum maður og kona, og annar fótur hans gat
son við öðrum. En þaðan af komu ættir, það eru hrímþursar. ...
Næst var það þá er
hrímið draup að þar varð af kýr sú er Auðhumla hét, en fjórar mjólkár runnu
úr spenum hennar, og fæddi hún Ými. ...
Hún sleikti hrímsteinana
er saltir voru. Og hinn fyrsta dag er hún sleikti steina kom úr steininum að kveldi
mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var þar allur maður. Sá er nefndur
Búri. Hann var fagur álitum, mikill og máttugur. Hann gat son þann er Bor hét, hann
fékk þeirrar konu er Bestla hét, dóttir Bölþorns jötuns, og fengu þau þrjá sonu.
Hét einn Óðinn, annar Vili, þriðji Vé.
Kýrin Auðhumla á sér
hliðstæðu í íranskri goðafræði. Hún er tákn fyrir frjósemina, og nafn hennar
merkir hin mjólkurríka kollótta kýr. Fjórar mjólkurár renna úr
spenum hennar. Slíkar hugmyndir eru algengar og tengjast fjórum höfuðáttum. Kýr eru
nátengdar frjósemisgyðjum í mörgum trúarbrögðum.
Auðhumla sleikir
hrímsteina, og úr þeim vex á þremur dögum ættfaðir guða, Búri, en nafnið getur
þýtt sá sem eignast afkvæmi eða son. Það hæfir
ágætlega, því að sonur Búra er Bor, en það kann að vera tvímynd af bur,
sonur. Bor á Bestlu fyrir konu, en uppruni þess nafns er óvís. Hún er
jötnaættar. Synir þeirra eru Óðinn, Vili og Vé skv. Eddu, en í Völuspá heita
þeir Óðinn, Lóður og Hænir. Þeir drepa Ými, sundra honum og skapa himinn og
jörð, vötn og úthaf, kletta, klungur og gróður. Þeir gefa líf hinum fyrstu mönnum
og koma reglu á tímatal með því að marka sól og tungli ákveðna leið um
himinhvolfið.
|
Guðir og menn lifðu í
alsælu þangað til þrjár öflugar þursameyjar komu til sögunnar, en það eru
líklega örlaganornirnar. Veröld, guðum og mönnum voru lögð örlög, og undan þeim
verður ekki vikist. Ei að síður reyndu guðir hvað þeir gátu til þess að breyta
framvindu örlaganna; þeir létu m.a. dverga smíða kjörgripi og móta menn úr
jörðu. En örlögum verður ekki breytt, þess vegna arkar veröld sína mörkuðu
braut. |