Íslenska

Ísl 102 • Ísl 103 Ísl 202 Ísl 203



 

Bókmenntafræðihugtök
Sjónarhorn
Tími
Umhverfi
Persónur
Þema
Boðskapur og hneigð

© Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Tími

Það skiptir máli hvenær sögur gerast og hversu langur tími líður innan þeirra. Sumar sögur gerast í samtímanum, aðrar í fortíðinni. Sumar sögur gerast á stuttum tíma, kannski broti úr degi, en aðrar ná yfir langan tíma, jafnvel tugi ára. Sumar sögur gerast einkum á sumrin, aðrar að vetri til, vori eða hausti.

Í sambandi við tíma er hægt að athuga a) útgáfutíma, b) innri tíma (sögutíma) og c) ytri tíma.

a) Útgáfutími segir okkur hvenær sagan kemur fyrst út. Þær upplýsingar er hægt að fá fremst í bókum. Í Spegli, spegli … og Ég vildi ég væri eru einnig upplýsingar aftan við hverja sögu. Þær hafa allar birst áður annars staðar. Af viðtölum við höfunda fáum við stundum upplýsingar um hvenær saga var samin.

b) Innri tími (sögutími) segir okkur hversu langur tími líður innan sögu. Sumar sögur gerast á stuttum tíma, kannski broti úr degi, en aðrar ná yfir langan tíma, jafnvel tugi ára. Í Hálfu andliti (Spegill, spegill …) gerast atburðir á yfirborðinu á stuttum tíma, frá því að Erla er í flugvélinni stuttu fyrir lendingu uns hún kemur heim í herbergið, – en hún hugsar jafnt aftur í tímann sem fram í tímann. Hvernig verður framtíðin, hugsar hún.

c) Ytri tími tengist því hvenær saga gerist, hvort hún á sér stað í samtímanum eða fortíðinni. Misjafnt eru hversu greinargóðar upplýsingar sögumenn gefa um hvenær saga gerist. Ef erfitt er að finna ár eða árstíma þarf að draga skynsamlegar ályktanir af því litla sem við fáum að vita. Er einhver hlutur, fyrirtæki eða atburður í sögunni sem við getum notað til að setja fyrri tímamörk? Í Slagbolta (Ég vildi ég væri) kemur breski herinn til Seyðisfjarðar. Hvenær hernámu Bretar Ísland? Í Bresti (Ég vildi ég væri) er talað um Bítla og sítt hár. Hvenær urðu The Beatles frægir og hvenær hófu íslenskir drengir að safna síðu hári?

Hvernig getum við sett síðari tímamörk?

Við fáum nokkuð greinagóðar upplýsingar um ytri tíma í sögunni af Korku (Við Urðabrunn), hvenær hún á að gerast. Við fáum að vita að Þórólfur er landnámsmaður, aldur Korku segir okkur hversu langt er síðan hann kom. Loks eru upplýsingar frá höfundi aftast í bókinni þar sem greint er frá nokkrum sögulegum persónum.