Íslenska

Ísl 102 • Ísl 103 Ísl 202 Ísl 203



 

Bókmenntafræðihugtök
Sjónarhorn
Tími
Umhverfi
Persónur
Þema
Boðskapur og hneigð

© Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Sjónarhorn

Sjónarhorn varðar þá stöðu sem höfundur markar sér í skáldverki. Hvaðan horfir sögumaður á atburði og persónur og með hvaða hætti er lesanda veittur aðgangur að hugarheimi verksins?

Um tvo meginflokka er að ræða varðandi sjónarhorn: Saga er sögð í 1. eða 3. persónu.

Þegar um 1. persónu frásögn er að ræða þarf að athuga a) hvort sá sem segir frá er aðal- eða aukapersóna og b) hvort atburðirnir gerast um leið og sagt er frá þeim eða hvort verið er að rifja upp það sem gerðist áður. Í síðara tilvikinu sér sögumaður atburðina oft í nýju ljósi því að hann hefur þroskast.

Þegar um 3. persónu frásögn er að ræða þarf að athuga a) hversu mikið sögumaður lætur lesanda vita af því sem hefur gerst og er að gerast og b) hversu mikið hann greinir frá hugsunum persóna.