Íslenska

Ísl 102 • Ísl 103 Ísl 202 Ísl 203



 

Bókmenntafræðihugtök
Sjónarhorn
Tími
Umhverfi
Persónur
Þema
Boðskapur og hneigð

© Kristinn Kristjánsson
2. útg. maí 2002
1. útg. sept. 2000

Persónulýsingar

Þegar persónur í sögum eru skoðaðar þarf að athuga

a) beinar upplýsingar sögumanns um útlit, aldur og uppruna persónu, – og
b) óbeinar lýsingar þar sem við ráðum í persónuna út frá því

  • hvað hún segir,
  • hvað hún gerir,
  • hvernig hún kemur fram við aðra,
  • hvað öðrum finnst um hana og
  • hvernig aðrir umgangast hana.
  • Einnig er gott að skoða hvers konar samræmi er milli orða og gjörða persóna.

Eitt af því fyrsta sem við skoðum varðandi persónur er hvort um er að ræða aðal- eða aukapersónu.

Aðalpersónan er mikilvægasta persónan í sögunni. Yfirleitt er aðalpersónan ein, þó er möguleiki á að þær séu fleiri, t.d. tvær eða þrjár. Enn fremur eru til sögur þar sem engin ein persóna er aðalpersóna. Þá eru margar persónur jafnmikilvægar. Þannig sögur kallast hópsögur.

Aukapersónur geta verið mismikilvægar. Gott er að athuga hvernig hægt er að flokka aukapersónur eftir mikilvægi. Sumar persónur skýra eiginleika aðalpersónunnar eða eiga sinn þátt í að hún þroskast og skipta þá oftast miklu máli. Aðrar eru hluti af heildarmynd og þarf ekki alltaf að segja frá þeim.

Einnig er gott að athuga hvort og hvernig hægt er að flokka persónur eftir t.d. aldri, kyni, stéttarstöðu eða áhugamálum svo eitthvað sé nefnt.

Í sögunni Við Urðarbrunn er Korka ótvírætt aðalpersóna. En hvaða persónur eru þá mikilvægar aukapersónur? Úlfbrún, amma Korku, og Gunnhildur, hálfsystir hennar, skipta miklu máli á Íslandi, í Danmörku er Atli, eigandi hennar og síðar elskhugi, afar mikilvægur. Mýrún og Þórólfur, foreldrar Korku, skipta máli hvað varðar bakgrunn hennar en ekki þroska. Ambáttir og þrælar á Reykjavöllum útskýra þjóðfélagið en fá fæstar mikil persónueinkenni.

Persónur í Við Urðarbrunn er síðan hægt að flokka í frjálsar persónur og ófrjálsar, norrænar og írskar og konur og karla.

Í bókmenntaritgerðum er persónulýsingin oft viðamesti og mikilvægasti þátturinn. Hlutverk þess sem skrifar er að draga saman í skipulögðu máli það sem einkennir persónuna svo hún verði lifandi fyrir þeim sem ekki þekkir hana. Ekki er nóg að greina einungis frá útliti eða endursegja atburðarás sögunnar. En ef sagt er frá hvernig hún bregst við vandamálum og hvernig henni gengur að ná sambandi við aðra eru meiri líkur á því að raunverulegir eiginleikar hennar birtist.